25. nóvember 2020 – Til bahá’ía um allan heim
Efnisgrein 1
Efnisgrein 2
Efnisgrein 3
Efnisgrein 4
Efnisgrein 5
Efnisgrein 6
Efnisgrein 7
Efnisgrein 8
Afritaðu eða deildu hlekk
Afritaðu eða deildu texta með tilvísun
/t/
/t/
Við heilsum ykkur af mikilli ástúð á þessum sérstaka degi, sem gefur tilefni til að minnast afls sáttmálans, aflsins sem slær í líkama hinnar ófyrirséðu veraldar og herðir í eldi varanleg bönd ástar meðal átrúenda. Á mánuðunum sem liðnir eru frá Riḍván höfum við séð sannindamerki um þetta kraftmikla afl í samstilltu starfi fylgjenda Bahá’u’lláh, sem stofnanir málstaðarins hafa leitt fram af mikilli hæfni í sérhverri heimsálfu og landi, þar sem vinirnir hafa hvarvetna leitast við að sinna þörfum veikrar veraldar af dæmigerðum sköpunarkrafti og ákveðni. Sveigjanleiki ykkar og óbilandi skuldbinding við farsæld náunga ykkar, og þrautseigja í öllum erfiðleikum hefur fyllt okkur mikilli von. En ekki er að undra að á öðrum sviðum hafi vonir dofnað. Vaxandi vitund er meðal íbúa heimsins um að áratugirnir fram undan muni færa með sér áskoranir sem eru með þeim ógnvænlegri sem fjölskylda mannkyns hefur nokkru sinni staðið frammi fyrir. Núverandi alheims heilsuvá er aðeins ein þessara áskorana, en hversu alvarleg áhrif hennar verða til lengri tíma litið, bæði hvað varðar líf og framfærslumöguleika, er enn óljóst. Viðleitni ykkar við að hjálpa og styðja hvert annað, sem og systur ykkar og bræður í þjóðfélaginu, mun sannarlega þurfa að viðhalda og sums staðar þarf að bæta í.
Það er í skugga þessara illviðra sem herja á mannkynið að örk málstaðarins er um það bil að leggja upp í röð áætlana sem munu bera hana inn á þriðju öld bahá’í tímatalsins og styrkja verulega hæfni bahá’í samfélagsins til að gera sér grein fyrir samfélagslegum uppbyggingarmætti trúarinnar. Eins og þið vitið mun fyrsta áætlun þessarar nýju raðar aðeins vara í eitt ár. Á stöðum þar sem kringumstæður varna því að þjóðarsamfélög geti komið á eins mörgum öflugum vaxtaráætlunum fyrir Riḍván 2021 og þau hafa ætlað sér, munu þessir tólf mánuðir gefa þann aukatíma sem þau þurfa á að halda. Þar sem vaxtarferlið hefur hins vegar þegar verið eflt, mun árið gefa möguleika til að styrkja þann árangur sem vannst í núverandi áætlun, og rækta þær aðstæður sem nauðsynlegar eru til að bjóða velkominn aukinn fjölda sálna í faðm samfélags sem viðurkennt er fyrir hugprýði og víðsýni. Við hvetjum samfélög sem hafa sannað styrk sinn, hvort heldur á landsvísu, í landshluta eða umdæmi, til að hjálpa þeim sem hafa öðlast minni reynslu. Í þessu árslanga átaki verður hvert samfélag að láta reyna á hverja þá ónýttu möguleika sem það býr yfir og reyna að vinna bug á hverri hindrun sem kemur í veg fyrir vöxt þess, og búa það þannig undir komandi kröfur. Því það á við um blómleg samfélög, sérstaklega þar sem er miðstöð öflugrar starfsemi í byggð eða borgarhverfi og þar sem hverjum þætti áætlunarinnar er gefinn sá gaumur sem þarf, að þessir þættir vinna saman og tengjast og margfalda afl samfélagsins til verka.
Væntanleg áætlun mun verða ár djúprar íhugunar um líf ‘Abdu’l‑Bahá og styrk þess sáttmála sem hafði hann að miðju, auk þess að efla hvarvetna framþróun innan umdæma, meðan samfélög búa sig undir að halda aldarminningu uppstigningar hans á lofti. Hátíðahöld vegna þessarar aldarminningar munu án efa hvetja einstaklinga sem og samfélög til að íhuga mikilvægi þeirrar óendanlega sáru stundar þegar Hann sem var leyndardómur Guðs hvarf úr þessari veröld. Brotthvarf hans svipti bahá’ía þeirra tíma mannveru sem naut skilyrðislausrar ástar þeirra og trúnaðar. Fyrir hina trúuðu okkar tíma er hann enn hinn óviðjafnanlegi, fullkomin birtingarmynd í orði og verki alls þess sem Faðir hans kenndi, sá sem kunngerði, barðist fyrir og varði sáttmála Bahá’u’lláh. Við erum meðvitaðir um að komandi ár mun einnig marka að öld er liðin síðan erfðaskrá hans, þetta stórfenglega, sögulega, ódauðlega skjal varð til, lagði útlínur fyrir og kom hreyfingu á ferli sem leiddi til stofnunar stjórnskipulagsins, en það er mótið sem hin guðlega siðmenning sem hið almáttuga lögmál Bahá’u’lláh er skapað til að koma til leiðar á jörðinni. Þetta einstæða og guðlega skapaða skipulag, þetta mikla stjórnskipulagslega fyrirkomulag hafði verið sett saman af skapara sínum til að varðveita sáttmálann og veita brautargengi andlegum öflum málstaðarins. Það má því augljóst vera að dagur sáttmálans á næsta ári, nákvæmlega tólf mánuði héðan í frá, mun verða sérlega þýðingarmikill. Við biðjum andleg þjóðarráð að ákveða og taka mið af ríkjandi ástandi í landi sínu, hvernig megi halda upp á þessa tvo daga, sem falla svo nærri hver öðrum.
Jafnframt öllu þessu er haldið áfram mikilvægum undirbúningi í Landinu Helga fyrir hátíð til að minnast þess að öld er liðin frá uppstigningu ‘Abdu’l‑Bahá og samkomu sem þrátt fyrir allt er vonast til að fulltrúar andlegra þjóðarráða og landshlutaráða, verði viðstaddir. Einnig er verið að undirbúa ráðstefnu álfuráðgjafanna og aðstoðarráðgjafa sem verður í janúar 2022 þegar einnig verða liðin eitt hundrað ár síðan erfðaskrá meistarans var fyrst lesin opinberlega. Ástandið í veröldinni getur auðvitað orðið til þess að áætlanir um þessar samkomur við heimsmiðstöðina breytist. En hvað sem verður þá efumst við ekki um að viðleitnin í svæðissamfélögum um allan heim til að minnast með viðeigandi hætti uppstigningar ‘Abdu’l‑Bahá og virða dag sáttmálans á þessu aldarafmælisári mun veita þann drifkraft sem þarf til að hleypa af stokkunum næsta stigi í hinni minni áætlun Guðs, jafnframt því sem forsjónin færir fram og leggur út hina meiri áætlun Hans í samræmi við óvéfengjanlegan úrskurð Hans.
Sá drifkraftur sem sannarlega eykst með hverri vaxtarbylgju á fætur annarri í eins árs áætluninni mun eflast enn frekar þegar tvær kvikmyndir verða frumsýndar. Hin fyrri, sem verður tímanlega tilbúin fyrir aldarminninguna, verður mynd af persónu ‘Abdu’l‑Bahá. Hún mun verða helguð lífi hans og starfi en auk þess skýra hvernig hann bauð stöðnuðum skoðunum og fordómum tímans byrginn með því að hvetja til einingar mannkyns með orðum sínum og gerðum og dreif áfram einingarferlið sem haldið hefur fram allt til dagsins í dag. Önnur kvikmynd, sem fylgir fljótt á eftir þeirri fyrri, mun varpa ljósi á lok fyrstu hundrað ára mótunaraldarinnar af sjónarhóli þeirra hæða sem bahá’í samfélagið hefur klifið og horfir nú af til nýrra sjónarmiða.
Mikilvægi þeirra atburða sem markaðir verða á eins árs áætluninni mun veita henni sérstök eigindi, ýta undir þá vinnu sem fer fram í umdæmunum og gera þetta staka ár að fyrirmyndarundirbúningi fyrir þau hnattrænu afrek sem munu fylgja. Með gleðilegri eftirvæntingu lýsum við því yfir að á Riḍván 2022 mun bahá’í heimurinn hefja níu ára áætlun. Skilyrði hennar og ákvæði verða sett fram síðar, en lengd hennar gefur óneitanlega vísbendingu um hversu umfangsmikla möguleika hún býður upp á. Ef Guð lofar mun hún verða boðuð með því að kallað verður til raða af ráðstefnum, sem haldnar verða á nokkurra mánaða tímabili um allan heim.
Þetta er stefnan sem bahá’í heimurinn mun leitast við að taka, að því marki sem séð verður. Á þessari stundu hvetjum við ykkur til að endurhelga orku ykkar og stefna eindregið að þeim ætlunarverkum sem fram undan eru hjá ykkur. Við erum einstaklega þakklátir að sjá þá öruggu stillingu sem samfélag Hins mesta nafns hefur sýnt, þegar það leitast við að veita hið guðlega læknislyf undir öllum kringumstæðum, sérstaklega á tímum sem þessum þegar hin hefðbundnu form þjóðfélagsins hafa riðlast og annars konar áhætta blasir við svo mörgum. Framar öllu verða vinirnir að forðast að láta dragast inn í vitavonlausar deilur og erjur sem einkenna svo mjög samræður um málefni þjóðfélagsins, eða – Guð forði því – leyfi að samskipti af þessu tagi gegnsýri, þó ekki sé nema sem snöggvast, samræður innan samfélagsins. Undir engum kringumstæðum má þó túlka slíka árvekni af ykkar hálfu, við að forðast ósætti og láta ekki flækja sig í missætti þjóðfélagsins, sem fálæti um hin mörgu áleitnu áhyggjuefni nútímans. Langt í frá. Þið eruð meðal virkustu og einlægustu hollvina mannkyns. En hvort sem það er með gerðum eða orðum, liggja verðleikar framlags ykkar til félagslegs velfarnaðar fyrst og fremst í staðföstum ásetningi ykkar í að uppgötva hinn dýrmæta stað einingar þar sem andstæð viðhorf skarast og þjóðir sem takast á geta sameinast um.
Nú eru minna en tvær bylgjur eftir af núverandi fimm ára áætlun, og í raun núverandi röð áætlana sem hleypt var af stokkunum árið 1996. Á þessum lokamánuðum munum við vissulega biðja einlæglega af ykkar hálfu er við föllum fram við hina helgu fótskör. Megi ykkur lánast að veita von þeim sem ekki vita hvar hana er að finna í heimi sem rekur um stefnulaus og áttavilltur, sem skortir þá einingu sem þið augljóslega berið vitni um vegna hjartans einlægrar tryggðar við sáttmálann.