Naw-rúz 177 – Til bahá’ía um allan heim
Efnisgrein 1
Efnisgrein 2
Efnisgrein 3
Efnisgrein 4
Efnisgrein 5
Efnisgrein 6
Afritaðu eða deildu hlekk
Afritaðu eða deildu texta með tilvísun
/t/
/t/
Vegna atburðanna sem nú eru að gerast sjáum við okkur til þess knúna að skrifa ykkur á þessari stundu í stað þess að bíða fram að Riḍván. Eins og ykkur er vel kunnugt hefur kvíðin og áhyggjufull veröld verið að takast á við heilbrigðiskreppu á undanförnum vikum og mánuðum. Þessi kreppa þróast hratt, hún hefur áhrif á fólk í mörgum löndum og ekki er enn hægt að meta þjóðfélagsáhrif hennar með neinni vissu. Við erum þess vissir að þið, eins og við, hafið miklar áhyggjur af velferð mannkyns, sérstaklega þeirra sem eru veikastir fyrir. Sjaldan hefur það komið jafn vel í ljós og nú að styrkur allra þjóðfélaga á allt sitt undir einingu sem þau geta birt í verki, allt frá vettvangi alþjóðamála að grasrótinni og við vitum að þið styðjið nauðsynlegar aðgerðir til að vernda heilsu og velferð allra.
Núverandi ástand mun óhjákvæmilega hafa áhrif á stjórnun málstaðar Guðs á mörgum stöðum og í sérhverju tilviki mun viðkomandi andlegt þjóðarráð ráðleggja hvernig rétt er að bregðast við. Í sumum löndum hefur þetta í för með sér að landsþingum verður aflýst og ráðstafanir gerðar til að kjósa þjóðarráðið með öðrum hætti. Svipaðar ráðstafanir þyrfti hugsanlega einnig að gera á ákveðnum stöðum vegna kosninga til andlegu svæðisráðanna. Við aðstæður þar sem jafnvel það reynist ógerlegt væri heimilt að núverandi meðlimir svæðis- eða þjóðarráða haldi áfram störfum sínum fram á næsta starfsár. Auðvitað mun sérhvert þjóðarráð sem íhugar að samþykkja slíkt skref leita ráða álfuráðgjafanna strax á frumstigi.
Á tímum annarrar kreppu gaf ‘Abdu’l‑Bahá okkur eftirfarandi ráð: „Á degi eins og þessum þegar stormar prófrauna og þrenginga hafa umlukið heiminn og ótti og bifan gripið alla á jörðu, verðið þið að rísa yfir sjónarhring festu og stöðugleika með upplýstum ásjónum og geislandi augliti svo að með leyfi Guðs megi myrkur ótta og felmturs hverfa með öllu og ljós fullvissu renna upp yfir hinn auðsæja sjónarhring og skína geislandi.“ Heimurinn þarfnast í stöðugt ríkari mæli þeirrar vonar og styrks sem trúin veitir. Ástkæru vinir, þið hafið auðvitað lengi verið önnum kafnir við að þroska hjá hópum fólks einmitt þær eigindir sem þörf er á á þessum tíma: einingu og samkennd, þekkingu og skilning, anda sameiginlegrar tilbeiðslu og sameiginlegs átaks. Við höfum vissulega fyllst undrun yfir því hvernig viðleitnin til að styrkja þessar eigindir hefur fyllt samfélögin sérstakri þrautseigju, jafnvel þegar við blasa aðstæður sem hafa af nauðyn takmarkað starfsemi þeirra. Þótt átrúendurnir hafi þurft að laga sig að nýjum kringumstæðum hafa þeir beitt skapandi aðferðum til að styrkja vináttubönd og þroska með sjálfum sér, og þeim sem þeir þekkja, andlega vitund og eiginleika rósemi, fullvissu og trausts á Guði. Þær innihaldsríku umræður sem orðið hafa í kjölfarið, hvort heldur úr fjarlægð eða persónulega, hafa reynst mörgum uppspretta hughreystingar og innblásturs. Slík viðleitni af ykkar hálfu er dýrmæt þjónusta á þessari stund þegar margar sálir eru ráðvilltar og hrelldar, og á báðum áttum um hvað muni gerast. Hversu erfið sem málin eru á þessari stundu og hversu mjög sem reynir á ystu þolmörk sumra þátta þjóðfélagsins mun mannkynið að lokum komast í gegnum þessa eldraun með meiri innsýn og dýpri skilningi á eðlislægri einingu sinni og gagnkvæmum tengslum.
Nú er ekki réttur tími til að lýsa í smáatriðum afrekum bahá’í heimsins á liðnu ári eða þeim framúrskarandi framförum sem orðið hafa í fjölmörgum verkefnum að samfélagsuppbyggingu um allan heim og í styrkingu vaxtaráætlana. Þetta eru verkefni sem haldið er áfram í mikilli alvöru alls staðar þar sem kringumstæður leyfa. Það nægir að skýra frá því að nú fjórum árum eftir að núverandi áætlun hófst hafa óþreytandi fylgjendur málstaðarins komið trú Bahá’u’lláh í sterkustu stöðu sem hún hefur nokkru sinni haft í sögu sinni. Allt sem þið hafið gert og eruð nú að gera er að búa bahá’í heimssamfélagið undir næsta áfangann í þróun hinnar guðlegu áætlunar.
Núna beinast hugsanir okkar og bænir að heilsu og velferð allra vina Guðs og allra þeirra sem í kringum ykkur eru. Við biðjum Hinn alvalda þess líka af einlægni að veita ykkur fullvissu, þolgæði og andlegan styrk. Megi hugsanir ykkar stöðugt beinast að þörfum samfélaganna sem þið tilheyrið, ástandi þjóðfélaga ykkar og velferð gervallrar fjölskyldu mannsins. Allir meðlimir hennar eru bræður ykkar og systur. Og á kyrrlátum stundum þegar ekki virðist vera hægt að taka sér neitt fyrir hendur nema að biðja, bjóðum við ykkur að taka þátt í okkar eigin bænum og biðja af heilum hug fyrir að þjáningunum létti. Við beinum athyglinni að þessum orðum ‘Abdu’l‑Bahá sem í öllu lífi sínu var fordæmi sjálfslausrar hollustu við velferð annarra:
Ó Þú veitandi! Aðstoða þessa göfugu vini við að ávinna sér velþóknun Þína og ger þá að velunnurum vina jafnt sem ókunnugra. Fær þá inn í heim sem varir að eilífu, gef þeim skerf af himneski miskunn Þinni, lát þá verða sanna bahá’ía, einlæga í Guði, bjarga þeim frá ytri líkingu og staðfest þá tryggilega í sannleikanum. Ger þá að táknum ríkisins á hæðum, tindrandi stjörnur yfir sjónarhring þessa lægra lífs. Lát þá verða mannkyni líkn og huggun, þjóna friðar í heiminum.