1. desember 2019 – Til allra þjóðarráða
Efnisgrein 1
Efnisgrein 2
Efnisgrein 3
Efnisgrein 4
Efnisgrein 5
Efnisgrein 6
Efnisgrein 7
Efnisgrein 8
Afritaðu eða deildu hlekk
Afritaðu eða deildu texta með tilvísun
/t/
/t/
Þau áhyggjuefni sem þjóðir heimsins standa frammi fyrir og viðvarandi vandamál sem stafa af óeiningu innan og milli þjóða hafa, eins og ykkur er ljóst, verið áberandi þema í skilaboðum Allsherjarhúss réttvísinnar. Bahá’íar eru að sjálfsögðu ávallt með hugann við ástand heimsins. Velferð mannkynsins, friður þess og rósemi eru alltaf efst í huga allra þeirra sem taka alvarlega hvatningu Bahá’u’lláh um „að sinna til fulls þörfum þeirra tíma sem þér lifið á.“ Það er enn fremur mjög skýrt að löngun átrúendanna til að stuðla að betri heimi og vera virkir í lífi samfélagsins á uppbyggilegan hátt er á engan hátt í andstöðu við að taka ekki þátt í stjórnmálum. Þó að vitundin um erfiðleikana sem steðja að svo mörgum styrki helgun við grundvallar samfélagsbreytingar, myndi þátttaka bahá’ía í stjórnmálastarfsemi aðeins dreifa kröftum samfélagsins og ekki ná fram þessum breytingum. Þær þurfa að verða vegna andlegra umbreytinga í samfélaginu. Þessar hugmyndir voru grandskoðaðar af Allsherjarhúsinu í skilaboðum til bahá’íanna í Íran 2. mars 2013 – skilaboðum sem mörgum samfélögum hefur fundist gagnlegt að skoða á ný af og til. Við höfum verið beðin að koma á framfæri nokkrum viðbótar atriðum um nátengt efni, og að þessu bréfi má deila með vinunum með þeim hætti sem þið teljið best eiga við.
Eitt áberandi einkenni um versnandi ástand þjóðfélagsins er hvernig umræður á almennum vettvangi leiða stöðugt til óvildar og fjandskapar og endurspegla gamalgróin flokkssjónarmið. Ríkjandi einkenni slíkrar umræðu á okkar dögum er hversu fljótt stjórnmálaágreiningur fer yfir í skammaryrði og háðsyrði. Það sem aðgreinir nútímann sérstaklega frá fyrri tímum er í hve miklum mæli þessi orðræða fer fram í augsýn alls heimsins. Samfélagsmiðlar og tengd samskiptatækni hafa tilhneigingu til leggja mesta áherslu á allt sem veldur ágreiningi og einmitt þessi sama tækni leyfir einstaklingum að dreifa enn víðar á augabragði öllu sem grípur athygli þeirra, og láta í ljósi stuðning þeirra eða andstöðu við hinar ýmsu skoðanir, hvort sem það fer ljóst eða leynt. Það hefur aldrei verið auðveldara fyrir einstakling að taka þátt í slíkri opinberri umræðu og eðli tækninnar eykur líkurnar á andartaks dómgreindarleysi og óvarfærni, og afleiðingarnar geta orðið varanlegri.
Þetta hefur sérstaka þýðingu fyrir bahá’ía sem vita vel að meginreglur trúar þeirra gera þá kröfu að þeir taki ekki þátt í deilum um stjórnmál eða í átökum af neinu tagi. „Tjáðu þig ekki um stjórnmál,“ ráðlagði ‘Abdu’l‑Bahá einum átrúanda, „nema til að tala vel um þau, nefndu ekki konunga jarðar og veraldlegar ríkisstjórnir.“ Shoghi Effendi varaði okkur við að leyfa sýn okkar á málstaðinn að flekkast „af vansæmd og ryki veraldlegra atburða, sem eru aðeins hverfulir skuggar ófullkominnar veraldar, hversu hrífandi og víðtækir sem þeir virðast í fyrstu.“ Þó vinunum sé þýðing þess að halda sig frá pólitískum deiluefnum vel kunnug, getur þátttaka þeirra í knýjandi þjóðfélagsmálum sem sprettur af einlægri og virðingarverðri ósk um að verða öðrum að liði, sett þá í erfiðar aðstæður. Óvænt þróun getur snúið óumdeildri framvindu í málefni sem skiptir fólki eftir flokkslínum og sami óheilbrigði tjáningarmátinn sem er algengur á pólitíska sviðinu getur flutt sig yfir á önnur svið umræðunnar. Það er sérstaklega á óþvinguðu sviði samfélagsmiðlanna sem rangindi – bæði raunveruleg og ímynduð – magnast fljótt upp og ýmiss konar tilfinningar fá auðvelda útrás, ef til vill réttmæt gremja eða ósk um að koma persónulegri skoðun á framfæri, eða ákafi um að virðast vera uppspretta nýrra upplýsinga. Margt sem er talið vera skaðlaust eða jafnvel vel meint veldur þegar betur er að gáð meiri félagslegum klofningi, kyndir undir mismun og aðgreiningu andstæðra hópa, viðheldur ágreiningi og hindrar möguleika á samstöðu og leit að lausnum. Að bregðast við framlagi einstaklings sem virðist ögrandi eða fráhrindandi getur haft þau áhrif að upprunalegt framlag hans fái meiri útbreiðslu og geri málin verri án þess að það sé ætlunin. Fylgjendur Hinnar blessuðu fegurðar verða að vera meðvitaðir og samviskusamir notendur allrar þeirra tækni sem þeir ákveða að nýta sér og verða að beita innsæi og andlegum aga. Þeir ættu ætíð að hafa háleita mælikvarða málstaðarins til hliðsjónar þegar þeir tjá sig. Bahá’u’lláh segir:
Sérhvert orð er gætt anda. Þess vegna ætti útskýrandinn eða sá sem talar að flytja orð sín með aðgát og umhyggju á viðeigandi stað og tíma, því að áhrifin sem sérhvert orð hefur eru skýr og augljós. Hin mikla verund segir: Einu orði má líkja við eld og öðru við ljós. Áhrifin sem þau bæði hafa eru augljós í heiminum.
Ljóst er að siðareglurnar sem vinirnir hafa í heiðri í samskiptum sínum við annað fólk hljóta einnig að gilda um samskipti þeirra á samfélagsmiðlunum, og það jafnvel af enn meiri þunga. Meðal þessara siðareglna eru bann við baktali, leiðsögn um að sjá heiminn með eigin augum en ekki augum annarra, þörfin fyrir að styðja og styrkja einingu mannkyns, nauðsyn þess að forðast aðgreiningu á „þeim“ og „okkur“ sem og fastheldni við meginreglu samráðs og þá háttvísi sem henni þarf að vera samfara.
Vinirnir munu stöku sinnum sjá dæmi þess að trúsystkini þeirra gera athugasemdir eða dreifa athugasemdum annarra með hætti sem virðist óviturlegur eða vanhugsaður samkvæmt mælikvarða bahá’í ritanna. Þegar slík ummæli ber fyrir augu væri rangt að álykta að slík hegðun sé óaðfinnanleg, hún látin átölulaus eða jafnvel hvatt til hennar. Ósjaldan hafa bahá’í stofnanir þurft að ráðleggja einstaklingum um athafnir þeirra á netinu þótt þær geri það, þegar því verður við komið, með háttvísi og virðingu fyrir hlutaðeigandi.
Eitt dæmi af mörgum um þessi atriði er umræður á samfélagsmiðlum um mál sem varða Íran. Öllum er fullljóst að hér er um sérstaklega viðkvæmt mál að ræða þar sem vinirnir þurfa að sýna sérstaka gætni. Fljótfærnisleg ummæli á netinu geta skapað hættu fyrir átrúendur þar í landi og fengið óvinum málstaðarins vopn í hendur, án þess að það sé ætlunin, sem gera þeim mögulegt að dreifa ranghugmyndum um bahá’íana. Nauðsynlegt er að vera vel á verði og sýna fyllstu varkárni í þessu sambandi, til að vernda sárþjáð samfélag írönsku bahá’íanna.
Í þessu sambandi hefur Hús réttvísinnar beðið okkur um að benda persneskum átrúendum sem búa í löndum utan vöggu trúarinnar á eitt atriði í viðbót. Skiljanlegt er að þessir vinir hafi miklar persónulegar áhyggjur af velferð trúsystkina sinna í Íran og framtíð þess heilaga lands. Engu að síður eru þeir hvattir til að hafa í huga að þótt þeir séu íranskir að uppruna hafa þeir fyrst og fremst skyldum að gegna við framþróun trúarinnar í landinu þar sem þeir dvelja núna. Reyndar er framlag persnesku átrúendanna til kennslustarfsins í öllum heimsálfum í sögu trúarinnar of mikið og margháttað til að því verði gerð skil, og Hús réttvísinnar fagnar því þegar þessir vinir beina kröftum sínum að framþróun fimm ára áætlunarinnar á þeim stöðum þar sem þeir búa. Þetta verður að vera helsta viðfangsefni þeirra og að keppa að þessu markmiði er það sem færir andlegum bræðrum þeirra og systrum í Íran gleði, og heiðrar á viðeigandi hátt fórnirnar sem þessir staðföstu vinir færa.