Allsherjarhús réttvísinnar
Október 2019
Til allra sem komnir eru til að heiðra boðbera nýs dags
Ástkæru vinir,
Hugleiðum þetta saman. Hvers myndum við vænta af jafn áhrifamiklum og umbyltandi atburði og þeim sem verður þegar guðlegur fræðari kemur í heiminn og flytur honum kenningar sem öldum saman eiga eftir að móta hugsanir og verk manna.
Birting sérhvers slíks fræðara er, eins og skráð er í helgirit hinna miklu trúarbragða heimsins, byltingarkenndur atburður sem knýr þróun siðmenningar. Sú andlega örvun og hvatning sem sérhver þeirra hefur komið til leiðar í gegnum söguna hefur víkkað svið mannlegrar samvinnu frá fjölskyldunni til ættbálksins, þaðan til borgríkisins og loks til þjóðarinnar. Og sérhver þessara miklu fræðara gaf það fyrirheit að þegar fram liðu stundir myndi annar slíkur guðlegur fræðari koma fram á sjónarsviðið. Búast ætti við komu Hans og áhrif Hans myndu færa heiminum nýtt líf. Það er því engin furða að koma Bábsins, sem við nú heiðrum á tveggja aldar fæðingarhátíð Hans, hafi valdið fordæmalausu umróti í landinu þar sem Hann fæddist. Þegar Hann kom fram á sjónarsviðið gerðist það sama og með komu allra slíkra fræðara: mikil andleg öfl voru leyst úr læðingi – en því fylgdi engin undur og stórmerki. Þess í stað áttu sér stað samræður seint um kvöld á látlausu persnesku heimili milli guðfræðistúdents og ungs gestgjafa hans. Mitt í þessum samræðum lýsti gestgjafinn því yfir að Hann væri hinn fyrirheitni, sá guðlegi fræðari sem gestur hans leitaði. „Hugsa þig vel um,“ sagði Hann, „Gæti ekki sá sem leitað er að, verið Ég sjálfur?“ Þetta ungmenni, Bábinn, hyllum við sem þann fræðara sem – eftir þúsund ára hlé – lét lýsa af degi guðlegrar leiðsagnar í veröld mannsins.
Á þessari stund hófst framvinda alls sem síðar gerðist. Rit Bábsins streymdu án afláts frá penna Hans, afhjúpuðu djúp sannindi, vísuðu á bug hjátrú og fordómum sem voru við lýði á Hans dögum, hvöttu fólk til að viðurkenna þýðingu þessara tíma, deildu á hræsni leiðtoganna og kölluðu heiminn til háleitrar breytni og hegðunar. „Ó þjóðir jarðar!“ segir Hann í einu helsta verki sínu. „Vissulega hefur geislandi ljós Guðs birst mitt á meðal yðar... til þess að þér megið hljóta rétta leiðsögn á vegi friðarins og ganga með Guðs leyfi út úr myrkrinu inn í ljósið og feta þessa óralöngu braut sannleikans.“ Áhrif Bábsins breiddust út með ótrúlegum hraða og náðu til landa utan Persíu. Þeir sem fylgdust með furðuðu sig á því hve hratt fylgjendum Hans fjölgaði og á fordæmalausu hugrekki þeirra og hetjuskap. Frásögur af lífi Bábsins – hröðum framgangi málstaðar Hans og sorgarleiknum sem batt enda á hann – fékk áhugasamar sálir til að ferðast til Persíu og rannsaka málin betur. Þær urðu einnig tilefni listrænna verka sem hylla Bábinn.
Geislandi ljós Bábsins sýnist enn bjartara þegar myrkrið sem grúfði yfir þjóðfélagi Hans er haft í huga. Persía nítjándu aldar var víðsfjarri þeim söguríka tíma þegar persnesk menning var öfundarefni alls heimsins. Fáfræði ríkti í landinu, engin andstaða var við kreddur og bábiljur; útbreidd spilling kynti undir félagslegan ójöfnuð. Trúin sem áður var undirstaða velferðar í Persíu var rúin lífi og anda. Hvert árið á fætur öðru færði undirokuðum landslýð vonbrigði og vonleysi. Kúgun og harðstjórn voru í hámarki. Þá kom Bábinn eins og voldugur vorstormur til að hreinsa og skíra, uppræta visnaðar og úr sér gengnar siðvenjur vegvilltrar aldar, og til að hreinsa rykið úr augum þeirra sem blekkingin hafði blindað. Fyrir Bábinum vakti ákveðið markmið. Hann leitaðist við að búa þjóðina undir komu Bahá’u’lláh sem var í nánd – annar þeirra tveggja ljósgjafa sem ætlað var að leiða mannkynið inn í nýjan og bjartan dag. Á þetta lagði Hann mesta áherslu. „Þegar sól Bahá skín geislandi yfir sjónarhring eilífðar,“ sagði Hann við fylgjendur sína, „ber ykkur skylda til að stíga fram fyrir hásæti Hans.“
Þannig lýsti ljós Bábsins og síðar jafnvel enn dýrlegra ljós Bahá’u’lláh upp myrkrið sem grúfði yfir þjóðfélaginu og aldarhættinum. Þeir mörkuðu nýja tíma í samfélagslegri þróun: tíma sameiningar alls mannkynsins. Þeir færðu heiminum andlega orku og blésu nýju lífi í alla þætti mannlegrar siðmenningar. Árangurinn af þessu kemur skírt fram í þeim breytingum sem síðan hafa orðið. Efnisleg siðmenning hefur tekið gífurlegum framförum; stórkostleg framþróun hefur orðið í vísindum og tækni, hliðin að uppsafnaðri þekkingu mannkynsins hafa verið opnuð á gátt. Meginreglurnar sem Bahá’u’lláh setti til að hefja þjóðfélagið á nýtt stig, stuðla að framförum þess og binda endi á kerfi drottnunar, yfirráða og útilokunar – allar þessar kenningar njóta víðtæks stuðnings. Hugleiðum kenningu Hans um að mannkynið sé ein þjóð og jörðin eitt föðurland, um jafnrétti karla og kvenna, um að menntun verði að ná til allra manna, um að skynsamleg rannsókn á sannleikanum verði að sigrast á staðlausum fræðikenningum og fordómum. Mikill hluti mannkyns hefur núna viðurkennt þessi grundvallargildi.
Engu að síður hafa röksemdir gegn þessum gildum, röksemdir sem áður voru á útjaðri skynsamlegrar hugsunar, vaknað á ný í þjóðfélaginu. Það minnir okkur á að það krefst mikillar andlegrar trúmennsku að styrkja hugsjónir í verki og gera þær að veruleika. Því eitt er að viðurkenna eitthvað í grundvallaratriðum og allt annað er að samþykkja það heilshugar, og enn þá erfiðara að endurmóta þjóðfélagið þannig að það eflist og dafni með sameiginlegu átaki. Þetta er samt markmið samfélaga sem eru að spretta upp um allan heim og mótuð eru samkvæmt kenningum Bahá’u’lláh. Þessi samfélög reyna að beina ljósi kenninga Hans að þeim þrálátu vandamálum sem steðja að þjóðum þeirra. Þau vinna að áætlunum um praktískar aðgerðir sem snúast um andlegar lífsreglur. Þetta eru samfélög sem berjast fyrir menntun stúlkna og drengja án nokkurrar aðgreiningar. Þau samþykkja þá víðtæku hugmynd að starf sem unnið er í anda þjónustu sé tilbeiðsla í sjálfu sér. Þau líta svo á að andleg markmið og væntingar séu þrotlaus uppspretta hvatningar miklu fremur en eiginhagsmunir, og þau rækta það hugarfar að ásetningur og staðfesta komi til vegar umbreytingu einstaklinga og þjóðfélaga. Þau reyna samtímis að stuðla að andlegum, félagslegum og efnislegum framförum. Umfram allt skilgreina þessi samfélög sig með heilshugar hollustu við einingu alls mannkyns. Þau meta að verðleikum þá miklu fjölbreytni sem einkennir alla mannsins ætt og halda því um leið fram að vitund mannsins um sjálfan sig sem meðlim einnar fjölskyldu mannkyns hafi forgang yfir alla aðra samstöðu og samheldni. Þau staðfesta þörfina á hnattrænni meðvitund sem sprettur af sameiginlegum áhuga á velferð allra manna, og þau líta á allar þjóðir jarðar sem andlega bræður og systur. Þau gera sig ekki aðeins ánægða með að tilheyra slíku samfélagi heldur sýna fylgjendur Bahá’u’lláh stöðuga viðleitni til að bjóða sálum sem eru sama sinnis til að taka með sér þátt í lærdómsferli sem miðar að því að gera kenningar Hans að veruleika.
Við komum þá að kjarna málsins. Verkefnið sem við blasir er áskorun og krefst þess að talað sé af hreinskilni. Mörgum göfugum og aðdáunarverðum málefnum er haldið á lofti í heiminum og þau hafa öll sín sérstöku sjónarhorn og sína eigin verðleika. Er málstaður Bahá’u’lláh aðeins eitt þessara málefna? Eða hefur hann allsherjar skírskotun og felur í sér hæstu hugjónir alls mannkyns? Þegar allt kemur til alls hlýtur málstaður sem á að vera uppspretta varanlegs réttlætis og friðar – ekki aðeins fyrir eitt svæði eða eina þjóð heldur fyrir öll svæði og allar þjóðir – að vera ótakmarkaður. Hann hlýtur að vera gæddur guðlegri lífsorku sem gerir honum kleift að sigrast á öllum takmörkunum og ná til allra sviða í lífi mannkyns. Hann hlýtur að endingu að vera gæddur krafti til þess að breyta mannshjartanu. Hugleiðum þetta af jafnmikilli athygli og fyrrnefndur gestur Bábsins. Hefur málstaður Bahá’u’lláh ekki einmitt þessa eiginleika til að bera?
Ef kenningarnar sem Bahá’u’lláh færði okkur gera mannkyninu kleift að ná hæsta stigi einingar, verður hver og einn að leita réttra svara í sinni eigin sál. Allir þeir sem viðkenndu Bábinn voru kallaðir til hetjudáða og stórbrotin viðbrögð þeirra eru skráð skýrum stöfum á spjöld sögunnar. Látum alla sem eru vakandi fyrir ástandi heimsins og þeim þrálátu meinsemdum sem hrjá líf íbúa hans, hugleiða hvatningu Bahá’u’lláh til óeigingjarnar og staðfastar þjónustu – til hetjudáða á þessari öld. Hvað getur bjargað heiminum annað en viðleitni mikils fjölda sálna sem hver um sig gerir velferð mannkynsins að helsta og fremsta hugðarefni sínu?
[undirritað: Allsherjarhús réttvísinnar]