18. janúar 2019 – Til bahá’ía um allan heim

leggja sinn skerf af mörkum til ýmiss konar innihaldsríkra umræðna sem eiga sér stað í samfélaginu. Í vissum löndum hafa leiðtogar og hugsuðir sem leitast við að fjalla um þær áskoranir sem blasa við samfélögum sínum sýnt vaxandi viðurkenningu á þeim sjónarmiðum sem bahá’íar halda á lofti. Þetta innlegg bahá’ía í umræðuna tjáir með skýrum hætti þann skilning sem opinberun Bahá’u’lláh hefur miðlað, sækir í þann reynslusjóð sem átrúendur um allan heim eru að skapa og hefur þann tilgang að hefja umræðuna yfir beiskjuna og þræturnar sem svo oft koma í veg fyrir að þjóðfélagsumræðan batni og þroskist. Auk þess sækja hugmyndir og röksemdafærsla bahá’ía styrk í samráðsvenjur þeirra. Næm tilfinning fylgjenda Bahá’u’lláh fyrir mikilvægi samlyndis og tilgangsleysi deilna fær þá til að skapa þær aðstæður sem best geta stuðlað að eflingu einingar undir öllum kringumstæðum. Okkur hlýnar um hjartarætur er við sjáum átrúendurna auka viðleitni sína til að taka þátt í þjóðfélagsumræðunni – sérstaklega þá vini sem með fagmenntun sinni geta lagt af mörkum til umræðu sem beinlínis tengist friði.

*

Fyrir bahá’ía er friður ekki aðeins metnaðarmál sem þeir eru meðmæltir og hafa skilning á eða styður við önnur markmið þeirra – friður hefur alltaf átt hug þeirra allan. Í annarri af tveimur töflum sem ‘Abdu’l‑Bahá beindi til Aðalsamtakanna fyrir varanlegan frið í Haag sagði hann: „Þrá okkar eftir friði er ekki aðeins vitræns eðlis. Hún er trúarlegs eðlis og ein af eilífum undirstöðum trúar Guðs.“ Hann benti á að til þess að friður kæmist á í heiminum væri ekki nóg að upplýsa fólk um hrylling styrjalda:

Í dag viðurkenna allir menn gagnsemi allsherjarfriðar og á sama hátt eru skaðleg áhrif styrjalda öllum augljós. En í þessu máli fer því fjarri að þekkingin ein saman nægi: Þörf er á framkvæmdaafli til þess að koma á friði um allan heim.

„Það er bjargföst trú okkar,“ hélt hann áfram, „að framkvæmdaaflið í þessu mikla verkefni sé gagntakandi áhrif orðs Guðs og staðfestingar heilags anda.“

Þess vegna getur vissulega enginn sem meðvitaður er um ástand heimsins látið neitt aftra sér frá að gera allt sem í hans eða hennar valdi stendur til að styðja þetta verkefni og leita þessara staðfestinga – staðfestinga sem við biðjum þess einnig af einlægni við hina heilögu fótskör að ykkur hlotnist. Elskuðu vinir: Það helgaða starf sem þið og samverkamenn ykkar vinnið að uppbyggingu samfélaga sem byggð eru á andlegum meginreglum ásamt því að beita þessum meginreglum til umbóta í samfélögum ykkar og koma á framfæri þeirri innsýn sem þær fela í sér – þetta eru óbrigðulustu leiðirnar sem þið getið farið til að flýta uppfyllingu fyrirheitsins um heimsfrið.

[undirritað: Allsherjarhús réttvísinnar]