Allsherjarhús réttvísinnar
18. janúar 2019
Til bahá’ía um allan heim
Heittelskuðu vinir
Hálfri öld eftir að Bahá’u’lláh bauð konungum og leiðtogum að jafna ágreining sín á milli og gaf þeim fyrirmæli um að stofna til friðar á jörð, höfðu stórveldi þess tíma steypt sér út í styrjöld. Þetta voru fyrstu átökin sem kölluð hafa verið „heimsstyrjöld“ og þeirra er minnst sem hroðalegs hildarleiks – fordæmalaust umfang þeirra og grimmd blóðsúthellinganna hafa brennt sig inn í vitund allra síðari kynslóða. Og þó spruttu úr rústum þeirra og þjáningum möguleikar á nýju skipulagi sem fært gæti heiminum stöðugleika – sérstaklega með Parísarráðstefnunni sem hófst á þessum degi fyrir réttum hundrað árum. Á þeim árum sem síðan fóru í hönd, og þrátt fyrir ítrekaðar kreppur í alþjóðamálum, gat Shoghi Effendi greint „framvindu, að vísu slitrótta og sundurlausa, þeirra afla sem störfuðu í samræmi við aldarandann“. Þessi öfl hafa haldið áfram að þoka mannkyninu í átt til friðar – og þá ekki aðeins friðar sem útilokar vopnuð átök heldur sameiginlegrar tilvistar sem leiðir í ljós einingu. Þrátt fyrir þetta er löng leið fram undan og sú leið er óstöðug og farin með skrykkjum. Við teljum það rétt og hagkvæmt á þessari stundu að íhuga framfarirnar sem orðið hafa á þessari leið, þær tvísýnu horfur sem friði á okkar tímum er stefnt í og það framlag til friðar sem bahá’íar eru hvattir til að inna af höndum.
Að minnsta kosti þrjú söguleg tækifæri hafa gefist á síðustu eitt hundrað árum þegar svo virtist sem mannkynið væri að seilast eftir raunverulegum og varanlegum friði þótt því hafi jafnan mistekist að ná settu marki vegna veikleika og annmarka sem ekki tókst að vinna bug á. Fyrsta tækifærið, úrslit af Parísarráðstefnunni, var stofnun Þjóðabandalagsins, sem höfundar þess vildu að tryggði frið á alþjóðavettvangi. Þetta var leið sem farin var í fyrsta sinn í sögunni til „að gera sér í fullri alvöru grein fyrir, ræða og reyna í verki“ það kerfi sameiginlegs öryggis sem Bahá’u’lláh hafði gefið leiðtogum heimsins fyrirmæli um að setja á stofn. En að endingu reyndist friðarsamkomulagið sem batt endi á styrjöldina meingallað og Bandalagið gat ekki komið í veg fyrir aðra heimsstyrjöld, sem að mati sagnfræðinga var mannskæðustu átök mannkynssögunnar. Fyrstu þýðingarmiklu skrefunum í átt að heimsfriði fylgdi tími ógnþrunginna átaka og einmitt það sama gerðist þegar næsta skref var stigið. Þá tókst ekki aðeins að reisa Sameinuðu þjóðirnar á rústum Bandalagsins heldur varð til kerfi alþjóðlegra efnahagsstofnana og söguleg skref voru stigin í átt að samþættingu mannréttinda og alþjóðalaga. Fljótt fengu mörg lönd og landsvæði sem lotið höfðu nýlendustjórn sjálfstæði hvert á fætur öðru og ráðstafanir sem gerðar voru til samvinnu á svæðisvísu urðu greinilega markvissari og víðtækari. Andrúmsloft áratuganna eftir stríðið einkenndist hins vegar af bölmóði og iðulega opnum fjandskap milli tveggja helstu valdablokka heims. Kalda stríðið, sem svo var nefnt, náði til ýmissa heimshluta, leiddi þar til vopnaðra átaka og mannkynið komst háskalega nálægt átökum þar sem hætta var á beitingu kjarnorkuvopna. Friðsamlegar lyktir kalda stríðsins í lok tuttugustu aldar urðu tilefni hugarléttis og ótvíræðs ákalls um stofnun nýs heimsskipulags. Þetta var í þriðja sinn sem alþjóðlegur friður virtist vera innan seilingar. Mikill skriður komst á tilraunir til að koma á fót nýjum kerfum í alþjóðasamvinnu og styrkja þau sem fyrir voru með röð heimsráðstefna um mikilvæg málefni sem snertu framtíð mannkyns og kvaddar voru saman af Sameinuðu þjóðunum. Ný tækifæri sköpuðust til samkomulags og andi samvinnu, sem er hvati framfara, birtist einnig í umboðinu sem vissar alþjóðastofnanir sem starfa að réttindamálum fengu. Þetta stefnufasta ferli umræðu og yfirvegunar náði hámarki í byrjun aldarinnar í árþúsundaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, fundi fulltrúa meira en eitt þúsund borgarasamtaka frá rúmlega hundrað löndum en í kjölfar hennar kom þúsaldarfundur Sameinuðu þjóðanna, einstæður fundur heimsleiðtoga sem leiddi til samkomulags um röð málaflokka sem lutu að sameiginlegum metnaðar- og hagsmunamálum mannkyns. Samkomulagið, nefnt þúsaldarmarkmið í þróunarmálum, varð hugsjónagrundvöllur sameiginlegra aðgerða á komandi árum. Þrátt fyrir margs konar annmarka og ófullkomleika og þau geigvænu átök sem héldu áfram að vaxa á þessum tíma eru þessi ýmsu framfaraspor engu að síður tákn um víðtæka, hægfara en óvíkjanlega vitundarvakningu í heiminum hvað snertir þjóðir jarðar og þrá þeirra eftir allsherjarréttlæti, samstöðu, samvinnu, samúð og jafnrétti.
Upphafi þessarar aldar fylgdu nýjar ögranir. Með tímanum jukust þær og leiddu til afturhvarfs frá þeim heillaríku skrefum í framfaraátt sem stigin voru í lok síðustu aldar. Margvíslegir ríkjandi straumar í þjóðfélögum hvarvetna, stía í dag fólki í sundur í stað þess að sameina það. Jafnvel þótt dregið hafi úr fátækt í sinni verstu mynd á heimsvísu, hafa pólitísk og efnahagsleg kerfi gert litlum hagsmunahópum kleift að raka að sér gegndarlausum auði og skapa þannig ástand sem kyndir undir grundvallaróstöðugleika í heimsmálum. Samskipti einstaklinga, stjórnstofnana og samfélagsins í heild einkennast oft af þykkju og þverúð þegar deilt er um forgang eins eða annars og stöðugt meiri óbilgirni sýnd í hugsun og viðhorfum. Bókstafshyggja í trúarefnum brenglar einkenni samfélaga og jafnvel þjóða. Mistök og annmarkar svo margra samtaka og stofnana þjóðfélagsins hafa af eðlilegum ástæðum leitt til þverrandi trausts almennings og það hafa hagsmunaöfl, sem reyna að grafa undan trúverðugleika allra þekkingarlinda, fært sér í nyt með kerfisbundnum hætti. Vissar sameiginlegar siðareglur sem virtust njóta meðbyrs í upphafi þessarar aldar hafa látið undan síga með þeim afleiðingum að ógn stafar að ríkjandi almennu samkomulagi um hvað rétt sé og rangt – samkomulagi sem á vissum sviðum hafði tekist að hafa hemil á lægstu hneigðum mannkyns. Og viljinn til að taka þátt í sameiginlegu starfi á alþjóðavettvangi sem fyrir tuttugu árum var sterkur þáttur í hugum heimsleiðtoga hefur látið undan stöðugum ásrásum endurvakinna afla kynþáttastefnu, þjóðernishyggju og flokkadrátta.
Þannig hafa upplausnaröflin hópað sig saman á ný og sækja á. Verði svo að vera. Ekkert mannlegt afl getur stöðvað einingu mannkyns – fyrirheit spámanna fyrri tíma og sjálfs höfundar málstaðar Guðs bera þeim sannleika vitni. Samt getur leiðin sem mannkynið fer til að ná þessum áfanga reynst snúin og torsótt. Háreysti frá stríðandi þjóðum heims hótar að kæfa raddir þeirra göfugu sálna í öllum þjóðfélögum sem hvetja til þess að endir verði bundinn á deilur og átök. Meðan ekki er brugðist við þeirri hvatningu er engin ástæða til að efast um að glundroðinn og ringulreiðin sem ríkir í heiminum í dag muni versna – og mögulega leiða til hörmunga og eyðileggingar – þangað til agað mannkyn sér ástæðu til að stíga annað þýðingarmikið skref, og þá hugsanlega afgerandi, í átt til varanlegs friðar.
*
Allsherjarfriður er sá áfangi sem mannkynið hefur stefnt að gegnum aldirnar undir áhrifum orða Guðs sem Hann hefur miðlað sköpun sinni með stighækkandi hætti. Shoghi Effendi lýsir þróun mannkynsins áleiðis að hnattvíðu stigi í sameiginlegu lífi sínu og þjóðfélagsþróun sem ferli „sem átti upphaf sitt í tilurð fjölskyldulífs, síðan í samstöðu ættflokka sem því næst leiddi til stofnunar borgríkis og víkkaði síðar í stofnun sjálfstæðra og fullvalda þjóða“. Með komu Bahá’u’lláh stendur mannkynið nú á þröskuldi fullþroskaskeiðs. Heimseining er loks möguleg. Heimsskipan sem sameinar þjóðirnar með samþykki mannkyns er eina fullnægjandi svarið við þeim sundrungaröflum sem ógna heiminum.
En þótt eining heimsins sé möguleg – nei óhjákvæmileg – mun hún að endingu ekki takast án skilyrðislausrar viðurkenningar á einingu mannkyns sem Verndarinn lýsir sem „burðarásnum sem allar kenningar Bahá’u’lláh snúast um“. Af hvílíku innsæi og mælsku útskýrði hann ekki víðtæka þýðingu þessarar grundvallareglu! Í öllu umróti heimsmálanna sá hann gjörla hvernig sá veruleiki að mannkynið er ein þjóð hlýtur að verða upphafsreitur nýs skipulags. Endurmeta þarf öll hin miklu og margslungnu tengsl þjóða á milli – og innan þeirra – í þessu ljósi.
Framkvæmd slíkrar sýnar í verki mun fyrr eða síðar gera kröfu til sögulegra afreka í stjórnvisku af hálfu leiðtoga heimsins. Því miður skortir enn á viljann til að reyna við slík afrek. Mannkynið er í greipum sjálfsmyndarkreppu þar sem ýmsar þjóðir og hópar reyna að skilgreina sjálfa sig, stöðu sína í heiminum og hvað taka skuli til bragðs. Án sýnar á sameiginleg einkenni og markmið verða þær stríðandi hugmyndafræði og valdabaráttu að bráð. Svo virðist sem endalausar umraðanir á „okkur“ og „þeim“ skilgreini sjálfsmynd þjóðfélagshópa með æ þrengri og ósamrýmanlegri hætti. Með tímanum hefur þessi klofningur í sundurleita hagsmunahópa veikt innri samstöðu þjóðfélagsins. Andstæðum hugmyndum um yfirburði ákveðinna þjóða er haldið á lofti á kostnað þess sannleika að mannkynið er á sameiginlegri vegferð þar sem allir eru í hlutverki höfuðpersónu. Íhugið hversu róttækur munur er á svo sundurleitum hugmyndum um mannlega samsemd og þeim sem eiga sér rætur í viðurkenningu á einingu mannkyns. Frá því sjónarhorni fer því víðs fjarri að fjölbreytileikinn sem einkennir fjölskyldu mannsins sé í andstöðu við einingu þess heldur auðgar þessi fjölbreytni hana og styrkir. Frá bahá’í sjónarmiði felur eining í sér grundvallarhugmynd fjölbreytileika sem aðgreinir hana frá einsleitni. Það er með ást á öllum mönnum og með því að setja minni háttar hollustu skör lægra bestu hagsmunum mannkyns sem eining heimsins getur orðið að veruleika og takmarkalausar birtingarmyndir mannlegrar fjölbreytni fá að njóta sín til fulls.
Það er verkefni trúarbragða að stuðla að einingu með því að samræma ólíka þætti og rækta í sérhverju hjarta sjálfslausa ást á öllu mannkyni. Trúarleiðtogum standa opnir miklir möguleikar til að efla vináttu og samhljóm en þessir sömu leiðtogar geta einnig hvatt til ofbeldis með því að beita áhrifum sínum til að kynda elda ofstækis og fordóma. Orð Bahá’u’lláh um trúabrögðin eru kröftug og áhrifarík og aðvörun Hans er þessi: „Gerið þau ekki að átyllu sundurþykkis og misklíðar.“ Friður fyrir „alla sem á jörðu dvelja“ er ein af „meginreglum og tilskipunum Guðs“.
Hjarta sem fyllst hefur ást á öllu mannkyni mun vissulega hryggjast þegar það verður vitni að þeim þjáningum sem svo fjölmargir þurfa að þola af völdum óeiningar. En vinir Guðs geta ekki lokað sig af frá þjóðfélagsöngþveitinu sem eykst í kringum þá. Þeir verða einnig að verjast því að flækjast í deilur þjóðfélagsins eða taka upp fjandsamlegar aðferðir þess. Hversu ömurlegt sem ástandið kann að sýnast á hverjum tíma, hversu skuggalegar sem horfurnar á sköpun einingar virðast, er engin ástæða til að örvænta. Átakanlegt ástand heimsmála getur aðeins hvatt okkur til að stórefla skuldbindingu okkar og stuðning við uppbyggilegar aðgerðir. „Þetta eru ekki dagar ríkidæmis og sigurs,“ eru viðvörunarorð Bahá’u’lláh. „Allt mannkynið þjáist af margvíslegum meinsemdum. Reynið því að bjarga lífi þess með því græðilyfi sem almáttug hendi Hins óskeikula læknis hefur tilreitt.“
*
Stofnun friðar er skylda sem lögð er á herðar öllu mannkyni. Ábyrgðin sem bahá’íar bera á stuðningi við þetta ferli mun þróast með tímanum en þeir hafa aldrei verið í áhorfendasætinu – þeir leggja sinn skerf af mörkum til styrktar þeim öflum sem leiða mannkynið í einingarátt. Þeir eru kallaðir til að vera súrdeigið sem sýrir heiminn. Íhugið orð Bahá’u’lláh:
Hefjist handa um að efla velferð og rósemi mannanna barna. Beinið huga yðar og vilja að uppfræðslu þjóða og ættkvísla jarðarinnar svo að deilurnar sem aðskilja þær megi fyrir vald Hins mesta nafns hverfa af ásýnd hennar og allt mannkynið veita fulltingi einu skipulagi og verða sem íbúar einnar borgar.
‘Abdu’l‑Bahá lagði einnig áherslu á mikilvægi þess framlags sem bahá’íar eru kvaddir til að innan af höndum í þágu stofnunar heimsfriðar:
... friði verður fyrst að koma á meðal einstaklinga uns hann að lokum leiðir til friðar meðal þjóðanna. Reynið því, ó þér bahá’íar, af öllum mætti að skapa með afli orðs Guðs ósvikna ást, andlegt samneyti og varanleg bönd meðal manna. Þetta er verkefni yðar.
Í boðskapnum „Fyrirheit um heimsfrið“ sem við beindum til þjóða heims árið 1985 settum við fram bahá’í sjónarmið á ástandi heimsins og forsendur allsherjarfriðar. Þar var einnig bent á reynslu bahá’í heimssamfélagsins sem rannsóknarlíkans sem gæti styrkt vonir um möguleikana á því að sameina alla mannsins ætt. Á þeim árum sem liðin eru hafa fylgjendur Bahá’u’lláh af þolinmæði verið að endurbæta það líkan og vinna með öðrum að því að byggja upp og útfæra kerfi þjóðfélagsskipunar sem byggist á kenningum Hans. Þeir eru að læra hvernig rækta á og byggja upp samfélög sem eru holdgerving þeirra forsendna fyrir friði sem við kynntum 1985. Þeir leggja rækt við umhverfi þar sem hægt er að ala upp börn sem eru óflekkuð af hvers kyns kynþátta-, þjóða- og trúarfordómum. Þeir berjast fyrir fullu jafnrétti kvenna og karla í málefnum samfélagsins. Menntastefna þeirra, sem hefur umbreytandi áhrif og nær bæði til efnislegra og andlegra hliða lífsins, tekur opnum örmum öllum sem vilja leggja af mörkum til velferðar samfélagsins. Í frumhreyfingu félagslegra aðgerða má greina löngun þeirra til að ráða bót á fjölmörgum meinsemdum sem þjaka mannkyn og efla hvern og einn til að gerast höfuðpersóna í uppbyggingu nýrrar veraldar. Innblásnir hugsuninni sem býr að baki Mashriqu’l-Adhkár bjóða þeir fylgjendum allra trúarbragða, og engra, á tilbeiðslufundi sína. Ungmenni sem skera sig úr vegna skuldbindinga sem þau hafa af eigin hvötum axlað gagnvart þjóðfélagi sem byggist á friði og réttlæti vinna að því að fá jafnaldra sama sinnis til liðs við uppbyggingu samfélaga á þessum grunni. Stofnun andlega svæðisráðsins fylgir andlegur myndugleiki og hæfni til að stjórna í anda þjónustu, leysa úr ágreiningsmálum og stuðla að einingu. Kosningaferlið að baki myndun þessara ráða er að sínu leyti birtingarmynd friðar andstætt biturleikanum og ofbeldinu sem iðulega er samfara kosningum í hinu víðara samfélagi. Að baki öllum þessum víddum opins og vaxandi samfélags býr sú bjargfasta sannfæring að allir menn séu börn eins Skapara.
Vinirnir eru einnig að þroska með sér hæfni til að virkja aðra í umhverfi sínu án tillits til trúar, menningar, stéttar eða þjóðernis til þátttöku í samræðum um hvernig stuðla megi að andlegri og efnislegri velferð með kerfisbundinni beitingu guðlegra kenninga. Meðal ánægjulegra afleiðinga af þessari auknu hæfni er vaxandi geta samfélagsins til að leggja sinn skerf af mörkum til ýmiss konar innihaldsríkra umræðna sem eiga sér stað í samfélaginu. Í vissum löndum hafa leiðtogar og hugsuðir sem leitast við að fjalla um þær áskoranir sem blasa við samfélögum sínum sýnt vaxandi viðurkenningu á þeim sjónarmiðum sem bahá’íar halda á lofti. Þetta innlegg bahá’ía í umræðuna tjáir með skýrum hætti þann skilning sem opinberun Bahá’u’lláh hefur miðlað, sækir í þann reynslusjóð sem átrúendur um allan heim eru að skapa og hefur þann tilgang að hefja umræðuna yfir beiskjuna og þræturnar sem svo oft koma í veg fyrir að þjóðfélagsumræðan batni og þroskist. Auk þess sækja hugmyndir og röksemdafærsla bahá’ía styrk í samráðsvenjur þeirra. Næm tilfinning fylgjenda Bahá’u’lláh fyrir mikilvægi samlyndis og tilgangsleysi deilna fær þá til að skapa þær aðstæður sem best geta stuðlað að eflingu einingar undir öllum kringumstæðum. Okkur hlýnar um hjartarætur er við sjáum átrúendurna auka viðleitni sína til að taka þátt í þjóðfélagsumræðunni – sérstaklega þá vini sem með fagmenntun sinni geta lagt af mörkum til umræðu sem beinlínis tengist friði.
*
Fyrir bahá’ía er friður ekki aðeins metnaðarmál sem þeir eru meðmæltir og hafa skilning á eða styður við önnur markmið þeirra – friður hefur alltaf átt hug þeirra allan. Í annarri af tveimur töflum sem ‘Abdu’l‑Bahá beindi til Aðalsamtakanna fyrir varanlegan frið í Haag sagði hann: „Þrá okkar eftir friði er ekki aðeins vitræns eðlis. Hún er trúarlegs eðlis og ein af eilífum undirstöðum trúar Guðs.“ Hann benti á að til þess að friður kæmist á í heiminum væri ekki nóg að upplýsa fólk um hrylling styrjalda:
Í dag viðurkenna allir menn gagnsemi allsherjarfriðar og á sama hátt eru skaðleg áhrif styrjalda öllum augljós. En í þessu máli fer því fjarri að þekkingin ein saman nægi: Þörf er á framkvæmdaafli til þess að koma á friði um allan heim.
„Það er bjargföst trú okkar,“ hélt hann áfram, „að framkvæmdaaflið í þessu mikla verkefni sé gagntakandi áhrif orðs Guðs og staðfestingar heilags anda.“
Þess vegna getur vissulega enginn sem meðvitaður er um ástand heimsins látið neitt aftra sér frá að gera allt sem í hans eða hennar valdi stendur til að styðja þetta verkefni og leita þessara staðfestinga – staðfestinga sem við biðjum þess einnig af einlægni við hina heilögu fótskör að ykkur hlotnist. Elskuðu vinir: Það helgaða starf sem þið og samverkamenn ykkar vinnið að uppbyggingu samfélaga sem byggð eru á andlegum meginreglum ásamt því að beita þessum meginreglum til umbóta í samfélögum ykkar og koma á framfæri þeirri innsýn sem þær fela í sér – þetta eru óbrigðulustu leiðirnar sem þið getið farið til að flýta uppfyllingu fyrirheitsins um heimsfrið.
[undirritað: Allsherjarhús réttvísinnar]