9. nóvember 2018 – Til bahá’ía um allan heim
Efnisgrein 1
Efnisgrein 2
Efnisgrein 3
Efnisgrein 4
Efnisgrein 5
Efnisgrein 6
Efnisgrein 7
Afritaðu eða deildu hlekk
Afritaðu eða deildu texta með tilvísun
/t/
/t/
Þegar ferli niðurbrots á hörmulega gölluðu heimsskipulagi eykur skrið sitt í öllum hlutum plánetunnar, sem leiðir af sér vonleysi, glundroða, hernaðarátök og óöryggi, verða hjörtu vinanna hvar sem þeir eru að vera fullviss, sýn þeirra skýr, fætur þeirra stöðugir á meðan þeir vinna af þolinmæði og fórnfýsi við að byggja nýtt skipulag í stað þess. Leiðsögn Bahá’u’lláh er grunnurinn sem þið byggið á. Leiðsögn Hans er skýr: „Það er innileg beiðni þessa þjóns til sérhverrar ötullar og áræðinnar sálar að hún geri sitt ýtrasta til að hefjast handa og bæta aðstæður í öllum löndum og endurlífga hina dauðu með lifandi vatni visku og tjáningar í krafti ástarinnar sem hann ber í brjósti til Guðs, hins eina og óviðjafnanlega, hins almáttuga og góðviljaða.“ Guðlegt læknisráð Hans hefur verið fyrirskipað: „Guð, hinn sanni, er Mér vitni og sérhver öreind tilverunnar er til þess knúin að votta að þær aðferðir sem leiða til upphafningar, framfara, menntunar, verndunar og endurlífgunar þjóða jarðar, höfum Vér sett fram með skýrum hætti og eru opinberaðar í helgum bókum og töflum Penna dýrðarinnar.“ Og loforð Hans er greypt í sérhvert dyggðugt hjarta: „Hægt er að bæta heiminn með hreinum og góðum gjörðum, með lofsverðu og sæmandi framferði.“
Á tíma ‘Abdu’l‑Bahá og Shoghi Effendi var fyrsta samfélagið, sem var nægilega stórt til að byrja kerfisbundið að beita kenningum Bahá’u’lláh til að sameina efnislegar og andlegar framfarir, átrúendurnir í vöggu trúarinnar. Stöðugt flæði leiðsagnar frá Landinu helga gerði bahá’íunum í Íran fært að taka gríðarstór skref með aðeins tveimur kynslóðum og leggja greinilega af mörkum til framfara þjóðar sinnar. Skólar sem veittu siðferðilega og fræðilega menntun, einnig fyrir stúlkur, blómstruðu. Ólæsi var nánast útrýmt í bahá’í samfélaginu. Sett voru á laggirnar mannúðarverkefni. Fordómar meðal kynþátta og trúarhópa sem loguðu í hinu ytra samfélagi voru slökktir í hjartanlegri umföðmun samfélagsins. Þorp urðu þekkt fyrir hreinlæti sitt, skipulag og framfarir. Og átrúendur þessa lands áttu þátt í að reisa fyrsta Mashriqu’l-Adhkár í öðru landi en stofnunum þess er ætlað að létta þjáningar þeirra sem líða, veita hinum fátæku mat, vera ferðalöngum skjól, huggun hinum sorgmæddu og veita hinum fáfróðu menntun. Með tímanum var slík viðleitni aukin með strjálu frumkvæði annarra bahá’í samfélaga í ýmsum hlutum heimsins. Shoghi Effendi hafði samt sem áður orð á því við eitt samfélag að fjöldi átrúendanna væri enn of lítill til að hafa veruleg áhrif í hinu ytra samfélagi og á fyrri helmingi mótunaraldarinnar voru átrúendurnir hvattir til að beita orku sinni í útbreiðslu trúarinnar þar sem það væri starf sem aðeins bahá’íar gætu unnið – í raun andleg frumskylda – og það myndi undirbúa þá fyrir tíma þegar þeir gætu fengist við vandamál mannkynsins með beinni hætti.
Fyrir þrjátíu og fimm árum sköpuðu kringumstæður innan og utan samfélagsins sameiginlega nýja möguleika fyrir meiri þátttöku í lífi þjóðfélagsins. Trúin hafði þróast á það stig þar sem þurfti að fella samfélagslega og efnahagslega þróun inn í reglubundna ástundun og í október 1983 sendum við ákall til bahá’ía um allan heim um að fara inn á þetta nýja átakssvið. Skrifstofa samfélags- og hagþróunar var stofnuð við Bahá’í heimsmiðstöðina til að aðstoða okkur í að stuðla að og samhæfa starfsemi vinanna á heimsvísu. Bahá’í verkefni fyrir samfélags- og efnahagslega þróun, á hvaða stigi margbreytni sem þau töldust, voru á þeim tíma talin í hundruðum. Í dag er fjöldi þeirra talinn í tugum þúsunda, þar með talin eru hundruð langtímaverkefna, eins og skólar og fjöldi þróunarsamtaka. Víðfeðmt svið núverandi starfsemi nær yfir verkefni í byggðum og borgarhverfum til landsvæða og þjóða, sem takast á við skara fjölbreyttra áskorana, þar með talin eru menntun frá forskóla til háskóla, verkefni sem snúa að læsi, heilsu, umhverfismálum, stuðningi við flóttafólk, framförum kvenna, eflingu unglinga, útrýmingu kynþáttafordóma, jarðyrkju, svæðisbundnum efnahagsmálum og landsbyggðaþróun. Samfélagsuppbyggingarkraftur málstaðar Bahá’u’lláh er farinn að birtast með kerfisbundnari hætti í samfélagslegu lífi vinanna sem afleiðing af hröðun í útbreiðslu- og treystingarferlinu, sérstaklega í lengra komnum umdæmum. Þessu til viðbótar eru auðvitað ótal átrúendur sem með sérmenntun sinni og sjálfboðavinnu leggja fram orku og innsýn í verkefni og samtök sem sett eru á laggirnar fyrir almanna heill.
Enn á ný höfum við fundið að öfl innan og utan trúarinnar hafa gert mögulega nýja þróun í starfi samfélagslegrar og efnahagslegrar þróunar í bahá’í heiminum. Því er okkur ánægja að tilkynna á þessum hátíðum tvenndarafmælisins að Skrifstofa samfélags- og hagþróunar blómgast nú í nýrri heimsumlykjandi stofnun, Alþjóðaþróunarstofnun bahá'í samfélagsins, sem komið er á fót við Heimsmiðstöðina. Að auki verður komið á fót bahá’í þróunarsjóði, sem hin nýja stofnun mun fá stuðning úr bæði til langvarandi þróunarverkefna og sprotaverkefna um allan heim. Sjóðurinn mun njóta stuðnings Húss réttvísinnar, og einstaklingum og stofnunum er heimilt að styðja hann með framlögum.
Skipuð verður fimm manna stjórn og mun hún þjóna sem ráðgefandi við að stuðla að og samhæfa aðgerðir heimssamfélagsins í samfélagslegri og efnahagslegri þróun. Stjórnin verður skipuð til fimm ára og hefur störf á degi sáttmálans. Stjórnin sem starfar í andlegri og stjórnarfarslegri miðstöð trúarinnar mun eiga samráð við Allsherjarhús réttvísinnar og Alþjóðlegu kennslumiðstöðina til að tryggja að þróunarvinnan sé í samræmi við hin fjölmörgu verkefni bahá’í heimsins. Hin nýja stofnun mun byrja á að taka við verkefnum og fyrirmælum sem áður voru á hendi Skrifstofu samfélags- og hagþróunar og síðan vaxa að afli til að rækja sífellt víðfeðmari og flóknari verkefni. Hún mun efla viðleitni einstakra bahá’ía, samfélaga og stofnana um allan heim til að víkka út og tryggja verkefnasvið þeirra. Hún mun aðstoða við að styrkja möguleika þjóðarstofnana til samfélags- og hagþróunar í samfélögum þeirra, meðal annars með því að stofna til nýrra samtaka og koma fram með framsækin þróunarfélög. Hún mun á alþjóðavettvangi tala fyrir þeirri nálgun við þróun og aðferðafræði sem hefur sannanlega reynst árangursrík. Hún mun fylgjast grannt með uppgötvunum á sviði þróunarstarfs og kanna nýtingu þeirra í samhljómi við andleg gildi með aðstoð bahá’ía með viðeigandi þjálfun. Hún mun mynda tengslanet þess fólks og stofnana þvert á heimsálfur sem nauðsynlegt er til að koma í framkvæmd hinum ýmsu verkefnum sínum. Ofar öllu er frumhlutverk hennar, líkt og áður var hlutverk Skrifstofu samfélags- og hagþróunar, að efla lærdóm um þróun með því að hlúa að og styðja verkefni, ígrunda aðgerðir, með gaumgæfilegri skoðun og samráði, með því að safna reynslu kerfisbundið, með hugmyndavinnu og þjálfun, sem allt er gert í ljósi kenninga trúarinnar.
Á boganum á Karmelfjalli sem umlykur grafstaði meðlima hinnar helgu fjölskyldu sá Shoghi Effendi fyrir sér að risu voldugar byggingar og að stofnaðar yrðu alþjóðastofnanir – sem lytu að stjórnun, vísindum og samfélagi – sem myndu blómstra undir vernd trúar Bahá’u’lláh. Þessi nýja stofnun samfélags- og hagþróunar mun vaxa og dafna á næstu áratugum og öldum allt eftir þörfum mannkyns og undir stjórn Allsherjarhúss réttvísinnar þar til sú efnislega og andlega menning sem Bahá’u’lláh segir fyrir um verður að raunveruleika í þessari ófyrirséðu veröld.
Endanlega hvílir þó bahá’í samfélagsleg og efnahagsleg þróun á vinnu vinanna hvarvetna. Til þess að nýta til fulls þau tækifæri sem gefast, þarf ekki að leita lengra en til hinnar fullkomnu fyrirmyndar bahá’í kenninganna til að finna uppörvun og innsæi. Íhugið orð Hans: „Við ættum ávallt að vera upptekin af því að leggja nýjan grunn að heill og gæfu mannsins, efla nýjar aðferðir í því skyni og skapa nýjar leiðir. Hversu ágætur og heiðvirður er ekki sá sem hefst handa um að uppfylla þá ábyrgð sem honum er lögð á herðar og hve vesæll og fyrirlitlegur er ekki sá sem lokar augunum fyrir samfélagslegri velferð og eyðir dýrmætu lífi sínu í eftirsókn eiginhagsmuna og persónulegs ávinnings. Hin æðsta hamingja fellur honum í skaut og hann lítur tákn Guðs í heiminum og í sál mannsins þegar hann hvetur fák lofsverðrar viðleitni á leikvangi siðmenningar og réttlætis.“