31. október 2017 – Til bahá’ía um allan heim

location" id="052894832">Allsherjarhús réttvísinnar

31. október 2017

Til bahá’ía um allan heim

Heittelskuðu vinir

Skýrslur streyma inn stöðugt frá öllum heimsálfum en við getum ekki beðið lengur með að skýra ykkur frá takmarkalausri gleði okkar. Sú úthelling ástar og virðingar fyrir Bahá’u’lláh sem við höfum orðið vitni að um allan heim á fæðingarhátíð Hans hefur snortið okkur mjög. Við hvers kyns aðstæður, allt frá einkaheimilum til íþróttaleikvanga, var lífi Hans fagnað af mikilli helgun og eftirtektarverðri sköpunargleði. Á mörgum samkomum voru gestirnir miklu fleiri en bahá’íarnir, í sumum eyjasamfélögum var hægt að mæla þátttökuna sem hlutfall af öllum íbúum þeirra. Við verðum sannarlega að játa undrun okkar á því flóði náðar sem Bahá’u’lláh hefur úthellt. Og í allri þeirri dýrmætu viðleitni sem sýnd var til að heiðra Hann sjáum við heilshugar löngun sérhvers átrúanda til að fá sinn fulla skerf. Í ljósi alls þess sem gerðist vitum við að sérhvert ykkar vill íhuga hvað þetta felur í sér fyrir framfarir málstaðarins á ykkar eigin svæði. Við hvetjum ykkur til að sjá í sérhverjum einstaklingi sem svaraði boði ykkar mögulega höfuðpersónu í ferli samfélagsuppbyggingar. Íhugið hvernig skapa má aðstæður sem gætu gert mörgum kleift að ganga saman þessa braut. Tengd umbreytandi afli opinberunarinnar getur sérhver sál nálgast Bahá’u’lláh, vaxið að hæfni, fundið gleði í þjónustu og lært að aðstoða aðra. Árangur þeirrar stórkostlegu viðleitni sem þið hafið sýnt gefur mjög mikil fyrirheit – en það krefst hugprýði að uppfylla þau fyrirheit. Látum öflin sem leyst voru úr læðingi á þessum tíma koma skriði á persónulega og sameiginlega viðleitni ykkar það sem eftir er þessarar tvenndarhátíðar og reyndar á öllum þeim átta vaxtarbylgjum sem eftir eru fram að 200 ára fæðingarhátíð Bábsins. Með auknum væntingum og hjörtum sem sárbæna um guðlega hylli ykkur til handa vegsömum við Hina öldnu fegurð sem að nýju hefur þóknast að afhjúpa sálarheillandi dýrð sína á þessum dögum.

[undirritað: Allsherjarhús réttvísinnar]