Október 2017 – Til allra sem fagna Dýrð Guðs
Efnisgrein 1
Efnisgrein 2
Efnisgrein 3
Efnisgrein 4
Efnisgrein 5
Afritaðu eða deildu hlekk
Afritaðu eða deildu texta með tilvísun
/t/
/t/
Við hvikum ekki frá þessum heillavænlegu sannindum: Að þjóðir jarðar hafa ætíð verið í huga Guðs. Á sérhverju söguskeiði hefur Hinn órannsakanlegi veruleiki opnað hlið náðar til handa heiminum með því að senda boðbera með það hlutverk að flytja þá siðrænu og andlegu örvun sem menn hafa þörf fyrir til að vinna saman og þroskast. Mörg nafna þessara miklu ljósbera mannkyns hafa glatast. En nokkur þeirra lýsa í annálum fortíðarinnar með því að hafa bylt hugmyndum, leyst úr læðingi þekkingu, innblásið og eflt siðmenningu, og nöfn þeirra eru enn virt og lofuð. Sérhver þessara andlegu og félagslegu vitringa, flekklausir speglar dyggða settu fram kenningar og sannleika sem svöruðu lífsnauðsynlegum þörfum tímabilsins. Nú þegar heimurinn stendur frammi fyrir mestu áskorunum sínum til þessa þá hyllum við Bahá’u’lláh, en Hann fæddist fyrir 200 árum sem slíkur boðberi – sannlega sem sá sem boðar komu þeirra löngu lofuðu tíma þegar allt mannkynið mun lifa saman í friði og einingu.
Frá því að Bahá’u’lláh var mjög ungur töldu þeir sem Hann þekktu að Hann væri örlagavaldur. Hann virtist snortinn ljúfu ljósi himinsins, blessaður með göfugri skaphöfn og óvenjulegri visku. Samt þurfti Hann að þola fjörutíu ára þjáningar, sem fólu í sér ítrekaða útlegð og fangelsun að skipun tveggja einvaldsherra; áróðursherferðir til að sverta nafn Hans og fordæma fylgjendur Hans, ofbeldi gegn Honum sjálfum og skammarlegar atlögur að lífi Hans. Allt þetta þoldi Hann geislandi og þolgóður af fúsum vilja vegna takmarkalausrar ástar sinnar á mannkyninu og samkennd með kvölurum sínum. Jafnvel upptaka allra veraldlegra eigna lét Hann jafnvel ósnortinn. Utanaðkomandi gæti furðað sig á því hvers vegna sá sem elskaði aðra svo mjög væri beittur slíkri óvild, þar sem Hann hafði hvarvetna að öðru leyti verið lofaður og dáður, þekktur fyrir góðvild sína og göfuglyndi og hafði hafnað öllum kröfum um pólitísk völd. Sérhver sá sem kunnur er gangi sögunnar sér að sjálfsögðu hver ástæðan fyrir þrengingum Hans er. Þegar fram hefur komið spámaður í heiminum hafa ráðandi öfl ævinlega brugðist við af miklu offorsi. En ljós sannleikans verður ekki slökkt. Og því mun líf þessara yfirskilvitlegu vera einkennast af fórnum, hetjulund, æðruleysi og dáðum sem bera orðum þeirra vitni. Slíkt hið sama einkennir hvert æviskeið Bahá’u’lláh. Þrátt fyrir allt mótlætið varð rödd Hans aldrei kæfð, og orð Hans báru með sér sinn knýjandi kraft. Orð sem mælt voru af innsæi, sem greindu sjúkdóma heimsins og mæltu fyrir um lækningu. Orð sem báru í sér þunga réttlætisins, vöruðu konunga og ráðamenn við aflinu sem óhjákvæmilega myndi ryðja þeim af veldisstóli. Orð sem lyftu sál okkar í hæðir, gerðu hana agndofa og umbreytta, ákveðna í að leysa sjálfa sig frá þyrnum og þistlum sjálfsins og orð sem eru skír, fangandi og full samhygðar: „Þetta er ekki frá mér komið heldur frá Guði.“ Mætti því ekki spyrja þegar slíkt líf er hugleitt, ef þetta er ekki frá Guði komið, á hvað má þá benda sem er?
Hinir fullkomnu fræðarar sem færðu heiminum birtu hafa í gegnum söguna skilið eftir sig arfleifð helgra orða. Orðin sem streymdu eins og fljót úr penna Bahá’u’lláh báru í sér víðfeðmar gjafir og göfugt eðli. Ekki ósjaldan bregst sá sem kynnist opinberun Hans fyrst við óviðjafnanlegri fegurð bænanna sem svala þrá sálarinnar um að tilbiðja Skapara sinn á viðeigandi hátt. Þegar dýpra er skyggnst í haf orða Hans uppgötvast lög og siðferðileg boð sem frelsa mannsandann frá ofríki veraldlegra hvata sem ekki eru verðar sannrar köllunar Hans. Þar finnast einnig eftirbreytniverðar fyrirmyndir sem foreldrar geta haft að leiðarljósi við uppeldi barna, ekki aðeins til að líkjast þeim heldur með háleitari metnaði. Þar eru einnig skýringar sem sýna hönd Guðs að verki í sögu mannkyns á krókóttri leið þess um þróunarstig ættbálka og þjóða í átt til hærra stigs einingar. Hin ýmsu trúarbrögð heimsins eru vísbending um ein grundvallarsannindi, tengd hvert öðru með sameiginlegum uppruna og einnig með sameiginlegu markmiði: að umbreyta innra lífi og ytri aðstæðum mannkyns. Kenningar Bahá’u’lláh bera göfuglyndi mannsandans vitni. Samfélagið sem Hann sér fyrir sér er verðugt þess göfuglyndis og byggt á kennisetningum sem vernda og efla það. Hann setur einingu fjölskyldu mannkyns í kjarna samfélaglegs lífs, Hann krefst fortakslaust jafnréttis karla og kvenna. Hann kemur á sáttum þátta sem á okkar tímum virðast vinna hver gegn öðrum – vísinda og trúarbragða, einingar og fjölbreytileika, frelsis og reglu, réttar einstaklingsins og félagslegrar ábyrgðar. Og meðal mestu gjafa Hans er réttlætið, sem birtist í stofnunum sem bera fyrir brjósti hag allra þjóða um framfarir og þróun. Með orðum Hans sjálfs, hefur Hann „afmáð af blöðum heilagrar bókar Guðs allt sem valdið hefur deilum, illgirni og fláttskap meðal mannanna barna“ og á sama tíma „sett fram meginforsendur samstillingar skilnings fullkominnar og varanlegrar einingar“. Mætti því ekki spyrja, hvaða viðbrögð hæfa slíkum gjöfum?
„Það er skylda sérhvers leitanda, að hefjast handa og komast til stranda þessa hafs,“ segir Bahá’u’lláh. Andlegu kenningarnar, sem röð boðbera í gegnum aldir hafa birt í trúarkerfum, hafa með tímanum blandast menningarlegum viðhorfum og verið íþyngt með manngerðum kreddum. En þegar litið er fram hjá því verður ljóst að hinar upprunalegu kenningar eru uppspretta altækra gilda sem sameina margbreytilegt fólk í sameiginlegum málstað og sem hafa mótað siðferðisvitund mannkynsins. Orðstír trúarbragða í nútímasamfélagi hefur skaðast mikið og það er skiljanlegt. Ef stuðlað er að hatri og og átökum í nafni trúarbragða, er betra að vera án þeirra. Eigi að síður er hægt að þekkja sönn trúarbrögð á ávöxtum þeirra – á getu þeirra til að hvetja til dáða, til að umbreyta, sameina, uppfóstra frið og hagsæld. Þau eru í samræmi við rökhugsun og eru ómissandi undirstaða samfélagslegra framfara. Trú Bahá’u’lláh ræktar í einstaklingnum og samfélaginu agann til að framkvæma í ljósi íhugunar og með þessu eykst smám saman innsýn á áhrifaríkar leiðir til að vinna að samfélagslegum umbótum. Tilraunir til félagslegra breytinga með pólitísku ráðabruggi, uppreisnaráróðri, rógi um einstaka hópa eða með opinskáum átökum eru fordæmdar af Bahá’u’lláh, því þær viðhalda einungis síendurtekinni baráttu á meðan varanlegar lausnir halda áfram að ganga fólki úr greipum. Hann er talsmaður verklags af allt öðrum toga. Hann kallar eftir góðum verkum, vingjarnlegum orðum og heiðarlegu framferði. Hann leggur ríkt á um þjónustu og samstarf við aðra. Og Hann kallar sérhvern meðlim mannkynsins til verkefnisins að byggja upp heimsmenningu sem grundvallast á hinum guðlegu kenningum. Mætti því ekki spyrja þegar íhuguð er víðfeðm sýn Hans, á hvaða grunni á mannkynið að byggja raunverulega von um framtíð ef ekki þessum?
Í öllum löndum eru þeir sem hafa heillast af boðskap Bahá’u’lláh og eru helgaðir sýn Hans að læra kerfisbundið hvernig eigi að ná árangri með kenningum Hans. Hópar ungmenna eru að verða betur meðvitaðir en nokkru sinni fyrr um andlegleika sinn og beina orkunni að framförum í samfélögum sínum. Fólk með mismunandi sjónarhorn er að uppgötva hvernig megi skipta út ágreiningi og ágengni yfirvalds fyrir samráð og sameiginlega leit að lausnum. Sálir af öllum kynþáttum, trúarbrögðum, þjóðerni og stéttum eru að sameinast um sýn á mannkynið sem eina þjóð og jörðina sem eitt land. Margir sem hafa þjáðst lengi eru að finna rödd sína og verða aðalhvatamenn í eigin þróun, úræðagóðir og óbugandi. Í þorpum, hverfum, byggðum og borgum eru að rísa upp stofnanir, samfélög og einstaklingar sem eru helgaðir því að starfa saman til að birta sameinaðan og blómstrandi heim sem gæti sannarlega verðskuldað að kallast ríki Guðs á jörðu. Á þessu tvö hundruð ára afmæli birtingar Bahá’u’lláh er fjöldinn sem er hluti af þessu framtaki að ná út til þeirra sem eru í kringum þá með einföldu boði: grípið tækifærið til að finna út hver Hann var og hvað Hann stendur fyrir. Látið reyna á læknislyfin sem Hann mælti fyrir um. Koma Hans býður vissulega upp á sönnun um að mannkyninu, sem er ógnað af margvíslegum lífsháska, hefur ekki verið gleymt. Þegar svo margt góðviljað fólk um allan heim hefur í svo langan tíma sárbeðið til Guðs um lausn við vandamálum sem sækja að því á sameiginlegri ættjörð þess, er það þá svo undarlegt að Hann skuli hafa svarað bænum þess?