1. september 2017 – Til vinanna sem eru samankomnir við vígslu tilbeiðsluhússins í Battambang í Kambódíu
Efnisgrein 1
Efnisgrein 2
Efnisgrein 3
Efnisgrein 4
Afritaðu eða deildu hlekk
Afritaðu eða deildu texta með tilvísun
/t/
/t/
Til vinanna sem eru samankomnir
við vígslu tilbeiðsluhússins í Battambang í Kambódíu.
Ekki er ár liðið síðan bahá’í heimurinn varð vitni að lúkningu síðasta álfumusterisins og nú þegar má greina nýja dögun í þróun stofnana Mashriqu’l-Adhkár. Þið hafið komið saman á sjálfum dögunarstaðnum – fyrsta svæðismusterinu sem rís yfir sjóndeildarhringinn á sviði sem nú hefur verið opnað. Vígsla þessarar einstöku og mikilfenglegu byggingar er sögulegur viðburður, fyrirboði birtingar margra annarra svæðis- sem og þjóðar- Mashriqu’l-Adhkár, og er samkvæmt fyrirmælum Bahá’u’lláh sem voru opinberuð í Hans helgustu bók: „Reisið tilbeiðsluhús í öllum löndum í nafni Hans sem er Drottinn allra trúarbragða.“
Það er við hæfi að þessi sérstaka stund er haldin hátíðleg á landsvæði sem á löng og glæst tengsl við trúna, því jafnvel í lífi Bahá’u’lláh hafði boðskapur Hans náð alla leið að suðaustur skaga Asíu. Það var boðskapur sem hvatti allar þjóðir til að vinna að einingu og friði og nauðsyn þess hefur aðeins orðið brýnni með árunum sem hafa liðið síðan. Kyndir ekki óeining undir hættuástand og átök sem hrjá heiminn? Eykur hún ekki sársaukann og þrengingarnar sem svo margir ganga í gegnum? Lofaður sé Guð að hið hreinhjartaða fólk Kambódíu, sem sjálft hefur þjáðst mikið, er að bregðast með slíkum eldmóði við kalli Hinnar öldnu fegurðar. Með krafti einingarinnar eru þau með kappsfullt átak til að lyfta sálum með andlegri og efnislegri menntun og eru að gera íbúum mögulegt að þróa getu sína til að þjóna. Sannarlega eru átrúendurnir í Kambódíu meðal þeirra sem eru í framlínu lærdóms í viðleitni bahá’í heimsins til að byggja samfélög á varanlegum grunni.
Birting musterisins í Battambang í Kambódíu er því vitnisburður um hversu skært ljós trúar skín í hjörtum vinanna þar. Hönnun þess, unnin af hæfum arkitekt, endurspeglar þokka og fegurð menningar þessarar þjóðar, það nýtir nýjustu tækni en blandar henni við form sem eru hefðbundin á landsvæðinu, það tilheyrir óumdeilanlega landinu sem það rís á. Jafnvel fyrir vígslu þess hefur musterið náð að lyfta vitund þeirra, sem búa undir skugga þess, um þemað sem er óaðskiljanlegur hluti af Mashriqu’l-Adhkár – tilbeiðslu og þjónustu samofinni lífi samfélagsins. Það hefur uppfóstrað aukinn skilning á þýðingu einingar, nú styrkt með sameiginlegri tilbeiðslu sem mun fara fram innan veggja þess. Birting þess er hvati fyrir átakið sem hefur verið gert til að uppfóstra samfélög með andlega hæfni og hæfileika. Þetta er einstök bygging með göfugan tilgang, reist af fólki gætt göfugum anda.
Nú þegar þetta musteri er að opna dyr sínar fyrir íbúum Battambang og fyrir þeim sem búa langt utan þess, megi þetta landsvæði draga að sér himneskar blessanir í jafnvel enn meira mæli en áður – við sárbiðjum Bahá’u’lláh um að svo verði. Megi þeir sem fara inn um skrauthlið þess finna anda sinn svífa, megi tilbeiðsla þeirra til hins eina sanna Guðs styrkja bönd ástúðar milli þeirra og megi ást þeirra til Guðs vera tjáð í þjónustu við þá sem eru í umhverfi þeirra. Við minnumst á þessari stundu blessunarorða Bahá’u’lláh: „Sælir eru þeir sem verja tíma sínum í Húsi tilbeiðslunnar til að minnast Hans sem er Drottinn hinna réttlátu! Sælir eru þeir sem hefjast handa um að þjóna þessu húsi! Sælir eru þeir sem hafa reist þetta hús!“