1. mars 2017 – Til bahá’ía um allan heim

ockquote class="b-margin-2">

Og heiður og sæmd einstaklingsins felast í því, að meðal alls þorra manna hafi hann orðið uppspretta félagslegra gæða. Er hægt að hugsa sér veglegri gjöf en að einstaklingur sem lítur inn á við, finni að vegna náðar og staðfestingar Guðs hafi hann komið á friði og velsæld, hamingju og hagsæld til handa samborgurum sínum? Nei, við hinn eina sanna Guð, það er ekki til meiri hamingja, né fullkomnari fögnuður.

Margs konar efnahagsstarfsemi sem virðist hversdagsleg, öðlast nýja merkingu þegar hún er skoðuð í þessu ljósi, vegna þeirra áhrifa sem hún getur haft til að bæta velferð fólks og hagsæld. „Hverjum og einum ber að stunda vinnu, starfsgrein eða verkiðn,“ útskýrir Meistarinn, „svo að hann geti borið byrðar annarra en verði ekki sjálfur byrði á öðrum.“ Bahá’u’lláh hvetur fátæka til að „beita sér og leggja sig fram um að afla sér lífsviðurværis“ en þeir sem búa yfir auðæfum „verða að bera fyllstu virðingu fyrir fátækum“. ‘Abdu’l‑Bahá sagði afdráttarlaust: „Auður er í hæsta máta lofsverður, sé hans aflað af eigin rammleik og sakir náðar Guðs, með viðskiptum, jarðyrkju, listum og iðnum – og honum varið af mannúð og í þágu mannkyns.“ En jafnframt er í Huldum orðum ríkulega varað við háskalegu ginningarafli hans, að auður sé „öflug hindrun“ milli átrúandans og verðugs tilbeiðsluefnis hans. Það er því ekki að undra að Bahá’u’lláh vegsami stöðu auðmanna sem láta auð ekki hindra sig frá að ná til ríkisins eilífa. Ljómi slíkrar sálar „mun lýsa upp þá sem dvelja á himnum rétt eins og sólin stafar geislum sínum á fólk jarðarinnar!“ ‘Abdu’l‑Bahá lýsir því yfir að „ef skarpskyggn og snjallráður einstaklingur ætti frumkvæði að ráðstöfunum sem myndu hvarvetna auðga allan almenning, gæti engin gerð talist göfugri, og fyrir augliti Guðs yrði hún talin hið æðsta afrek.“ Því ríkidæmi er lofsverðast „séu allir íbúarnir ríkir“. Að skoða líf sitt til að meta hvað sé nauðsynlegt og láta síðan af hendi rakna með ánægju það sem lög Ḥuqúqu’lláh gera skylt, er óhjákvæmileg regla til að koma jafnvægi á forgangsröð, hreinsa þau verðmæti sem hver og einn á, og tryggja að sá skerfur sem tilheyrir Rétti Guðs þjóni almannaheill. Ævinlega eru nægjusemi og hófstilling, góðgirni og samkennd, fórn og traust á Almættið, eiginleikar sem sæma guðhræddri sál.

Öfl efnishyggjunnar stuðla að gerólíkum hugsunarhætti. Samkvæmt þeim felst lífshamingjan í stöðugri eignasöfnun, því meira sem maðurinn eignast þeim mun betra og áhyggjur af umhverfismálum geta beðið betri tíma. Þessi tælandi boðskapur elur á tilfinningu um persónulega verðskuldun sem festir sig æ meira í sessi og notar tungutak réttlætis og lýðréttinda til að breiða yfir eiginhagsmuni. Skeytingarleysi um erfiðleika annarra verður algengara um leið og skemmtanir og afþreying sem dreifa huganum eru stundaðar af áfergju. Lamandi áhrif efnishyggjunnar gera hægt og sígandi vart við sig á öllum menningarsvæðum og bahá’íar skilja allir sem einn að ef þeir reyna ekki að vera sér meðvitandi um þessi áhrif hennar geta þeir óafvitandi á einn eða annan hátt samsamað sig viðhorfum hennar til lífsins. Foreldrar verða að gera sér skýra grein fyrir því að jafnvel kornung börn semja sig að siðum umhverfisins. Verkefnið fyrir andlega eflingu unglinga hvetur til innsæis og yfirvegunar á unglingsárunum þegar kröfur efnishyggjunnar gerast ágengari. Þegar manndómsárin nálgast fylgir þeim sú sameiginlega ábyrgð ungmenna að leyfa ekki veraldlegri eftirsókn að blinda sig fyrir óréttlæti og skorti. Þeir eiginleikar og viðhorf sem námskeið þjálfunarstofnunarinnar innræta með beinni snertingu við orð Guðs hjálpa einstaklingunum með tímanum að sjá í gegnum þær blekkingar sem heimurinn beitir á öllum ævistigum til að beina athyglinni frá þjónustu og að sjálfinu. Og að endingu eykur kerfisbundið nám á orði Guðs, og rannsókn á hvað það felur í sér, vitundina um nauðsyn þess að haga eigin efnislegu málefnum í samræmi við hinar guðlegu kenningar.

Elskuðu vinir: Stöðugt erfiðara reynist að réttlæta öfga auðs og fátæktar í heiminum. Meðan ójöfnuður varir er hið gamalgróna skipulag óöruggt með sjálft sig og gildi þess eru dregin í efa. Hverjar sem þrengingarnar eru sem ófriðsamur heimur þarf að kljást við í framtíðinni biðjum við þess að Hinn alvaldi muni hjálpa ástvinum sínum að sigrast á öllum hindrunum sem á vegi þeirra verða og hjálpa þeim að þjóna mannkyninu. Því öflugri sem nærvera bahá’í samfélags er á íbúasvæði þess, þeim mun meiri ábyrgð hvílir á því að finna leiðir til að takast á við grunnorsakir fátæktar í umhverfi sínu. Þótt lærdómur vinanna um slíkt starf og þátttaka í umræðum sem tengjast því séu á frumstigi, er ferli samfélagsuppbyggingar í fimm ára áætluninni hvarvetna að skapa framúrskarandi umhverfi þar sem hægt og örugglega er unnt að safna þekkingu og reynslu um æðri tilgang efnahagslegrar starfsemi. Megi þessi rannsókn, sem hefur bakgrunn í aldalöngu starfi að uppbyggingu guðlegrar siðmenningar, verða áberandi þáttur í lífi samfélagsins, stofnanahugsun og starfi einstaklingsins á komandi árum.

[undirritað: Allsherjarhús réttvísinnar]