Allsherjarhús réttvísinnar
1. mars 2017
Til bahá’ía um allan heim
Hjartkæru vinir
Í sífellt samtengdari heimi er meira ljósi varpað á félagslegar aðstæður hverrar þjóðar, sem gefur aukinn sýnileika á kringumstæður þeirra. Þótt ákveðnar framfarir veki vonir, er margt sem ætti að vega þungt á samvisku mannkynsins. Ójöfnuður, mismunun og rányrkja eru meinsemdir í lífi mannkynsins, sem virðast ónæmar fyrir þeim úrræðum sem stjórnmálakerfi af öllu tagi hafa beitt. Efnahagsleg áhrif af þessu böli hafa leitt af sér langvarandi þjáningu svo margra, sem og djúpstæða galla í formgerð samfélagsins. Enginn sem í hjarta sínu hefur dregist að kenningum Hinnar blessuðu fegurðar, getur haldist ósnortinn af þessum afleiðingum. „Mikið umrót hefur gripið um sig í veröldinni,“ ritar Bahá’u’lláh í Lawḥ-i-Dunyá (Töflu heimsins) ,,og hugir mannanna eru fullkomlega ráðvilltir. Vér biðjum Hinn almáttuga þess að Hann megi náðarsamlega upplýsa þá með dýrð réttlætis síns og gera þeim kleift að uppgötva það sem ætíð og undir öllum kringumstæðum er þeim til hagsbóta.“ Eftir því sem bahá’í samfélagið leggur sig fram um að leggja af mörkum í orði og verki til að betrumbæta heiminn, munu óhagstæðar kringumstæður, sem svo mikill fjöldi manna býr við, krefjast æ meiri athygli þess.
Velferð sérhvers hluta mannkynsins er óaðskiljanlega tengd velferð heildarinnar. Sameiginlegt líf mannkynsins líður fyrir það þegar einhver hópur hugsar um eigin hagsæld án tillits til velferðar nágrannans, eða sækist eftir fjárhagslegum hagnaði óháð því hvaða áhrif það hefur á náttúruna sem sér okkur öllum fyrir viðurværi. Þrálát hindrun stendur þá í vegi fyrir þýðingarmiklum félagslegum framförum. Aftur og aftur ná græðgi og eigingirni yfirhöndinni á kostnað velferðar almennings. Gegndarlausum auðæfum er rakað saman og óstöðugleikinn sem það veldur verður enn verri, vegna þess hversu ójafnt tekjum og tækifærum er skipt, bæði milli þjóða og innan þeirra. En þetta þarf ekki að vera svo. Hversu mjög sem slíkar aðstæður eru afleiðingar sögulegrar þróunar, þurfa þær ekki að ákvarða framtíðina og jafnvel þótt núverandi nálgun efnahagslífsins fullnægði unglingstímabili mannkynsins er það sannarlega ófullnægjandi í upphafi fullþroska þess. Ekkert réttlætir að haldið sé áfram að viðhalda fyrirkomulagi, reglum og kerfum sem bersýnilega mistekst að þjóna hagsmunum allra. Kenningar trúarinnar leyfa engan vafa – framleiðsla, dreifing og nýting auðæfa og auðlinda hafa í eðli sínu siðferðilega vídd.
Álagið sem langtíma umbreytingarferli frá klofnum heimi yfir í sameinaðan heim hefur í för með sér, kemur fram í alþjóðlegum samskiptum sem og í aukinni sundrung sem hefur áhrif á samfélög stór og smá. Með ríkjandi hugsunarhætti, sem er sorglega áfátt, er heimurinn í knýjandi þörf fyrir sameiginlegt siðakerfi, traustan ramma til að bregðast við kreppum sem hrannast upp eins og óveðursský. Sýn Bahá’u’lláh ögrar mörgum viðteknum hugmyndum sem er leyft að móta orðræðu samtímans – til dæmis að eigingirni þurfi ekki að hemja, heldur sé hún drifkraftur hagsældar og að framfarir byggist á tjáningu hennar í vægðarlausri samkeppni. Að meta gildi einstaklings einkum út frá hversu miklu hann getur safnað að sér og hversu mikil neysla hans er í samanburði við aðra, er algjörlega framandi bahá’í hugsun. En kenningarnar styðja ekki heldur hástemmdar yfirlýsingar um að auður sé ógeðfelldur eða siðlaus, og meinlætalifnaður er bannaður. Auður verður að þjóna mannkyninu. Nýting hans verður að vera í samræmi við andlegar grundvallarreglur, kerfi verður að mynda í ljósi þeirra. Og með minnisstæðum orðum Bahá’u’lláh: ,,Ekkert ljós kemst í samjöfnuð við ljós réttlætis. Grundvöllun reglu í heiminum og rósemi þjóðanna byggjast á því.“
Þótt Bahá’u’lláh setji ekki fram efnahagskerfi í smáatriðum í opinberun sinni, er endurskipulagning mannlegs samfélags gegnumgangandi viðfangsefni í öllum kenningum Hans. Íhugun um þetta málefni vekur óhjákvæmilega spurningar um efnahagsmál. Sú framtíðarsýn sem Bahá’u’lláh setti fram tekur auðvitað öllu fram sem kynslóð nútímans getur gert sér í hugarlund. En endanleg birting hennar verður þó háð ötulli viðleitni fylgjenda Hans við að koma kenningum Hans í verk á okkar tímum. Við vonum með þetta í huga að eftirfarandi orð hvetji til stöðugra og ígrundaðra hugleiðinga meðal vinanna. Markmiðið er að læra að taka þátt í efnislegum málefnum á þann hátt að það sé í samræmi við hinar guðlegu lífsreglur og hvernig hægt er í verki að efla sameiginlega hagsæld með réttlæti og örlæti, samvinnu og gagnkvæmri hjálpsemi.
Ákalli okkar um að skoða þýðingu opinberunar Bahá’u’lláh fyrir efnahagslegt líf er ætlað að ná til bahá’í stofnana og samfélaga en því er miklu fremur beint til hins einstaka átrúanda. Ef nýtt samfélagslíkan sem byggir á kenningunum á að koma fram, verður þá ekki samfélag hinna trúuðu að sýna með eigin lífi þá ráðvendni sem er helsta kennimerki þess? Sérhver ákvörðun sem bahá’íi tekur – sem starfsmaður eða vinnuveitandi, framleiðandi eða neytandi, lántakandi eða lánveitandi, gefandi eða þiggjandi – hefur afleiðingar og hin siðferðilega skylda, að vera samkvæmur sjálfum sér í lífinu, krefst þess að efnahagslegar ákvarðanir séu í samræmi við háleitar hugmyndir, að flekkleysi markmiða manns fylgi flekkleysi gerða við að uppfylla þessi markmið. Vinirnir eru náttúrlega vanir að leita til kenninganna til að setja sér viðmið að stefna að. En aukin þátttaka okkar í samfélaginu þýðir að efnahagslegri vídd samfélagslegrar tilveru verður að veita enn meiri og einbeittari athygli. Í umdæmum þar sem framþróun samfélagsuppbyggingarinnar er farin að ná til mikils fjölda, er sérlega mikilvægt að hvatningin sem felst í bahá’í ritunum komist til skila í efnahagslegum samskiptum innan fjölskyldna, nærsamfélaga og þjóða. Hvar sem vinirnir eru, ættu þeir ekki að láta sér nægja þau gildi sem við líði eru í núverandi skipulagi sem umlykur þá, heldur ættu þeir að hugleiða að beita kenningunum í lífi sínu og nýta þá möguleika sem aðstæður þeirra veita til að leggja sitt af mörkum sem einstaklingar og samfélag til efnalegs réttlætis og samfélagslegrar framþróunar hvar sem þeir búa. Slík viðleitni mun auka við vaxandi þekkingarforða í þessu efni.
Grundvallarhugtak sem þarf að kanna í þessu samhengi er andlegur veruleiki mannsins. Í opinberun Bahá’u’lláh er eðlislægt göfuglyndi sérhverrar mannveru fortakslaust staðfest. Það er grundvallarkennisetning bahá’í trúarinnar, sem von um framtíð mannkyns byggist á. Hæfileiki sálarinnar til að birta allar eigindir og nöfn Guðs, Hins samúðarfulla, Veitandans, Hins örláta, er margoft staðfest í ritunum. Efnahagslífið er vettvangur til að sýna í verki heiðarleika, ráðvendni, trúverðugleika, örlæti og aðra eiginleika andans. Einstaklingurinn er ekki bara sjálfhverf hagræn eind sem rembist við að leggja undir sig sífellt stærri hluta af efnislegum gæðum heimsins. „Verðleikar mannsins felast í þjónustu og dyggð,“ fullyrðir Bahá’u’lláh, „en ekki í innantómu prjáli auðs og ríkidæmis.“ Og einnig: „Sólundið ekki auði dýrmæts lífs yðar í eftirsókn illra og spilltra ástríðna, og sóið ekki kröftum yðar í að efla eigin hagsmuni.“ Við finnum merkingu og tilgang í lífinu og leggjum framþróun sjálfs samfélagsins lið með því að helga okkur þjónustu við aðra. Í upphafi hins nafntogaða rits síns Leyndardómur guðlegrar siðmenningar segir ‘Abdu’l‑Bahá:
Og heiður og sæmd einstaklingsins felast í því, að meðal alls þorra manna hafi hann orðið uppspretta félagslegra gæða. Er hægt að hugsa sér veglegri gjöf en að einstaklingur sem lítur inn á við, finni að vegna náðar og staðfestingar Guðs hafi hann komið á friði og velsæld, hamingju og hagsæld til handa samborgurum sínum? Nei, við hinn eina sanna Guð, það er ekki til meiri hamingja, né fullkomnari fögnuður.
Margs konar efnahagsstarfsemi sem virðist hversdagsleg, öðlast nýja merkingu þegar hún er skoðuð í þessu ljósi, vegna þeirra áhrifa sem hún getur haft til að bæta velferð fólks og hagsæld. „Hverjum og einum ber að stunda vinnu, starfsgrein eða verkiðn,“ útskýrir Meistarinn, „svo að hann geti borið byrðar annarra en verði ekki sjálfur byrði á öðrum.“ Bahá’u’lláh hvetur fátæka til að „beita sér og leggja sig fram um að afla sér lífsviðurværis“ en þeir sem búa yfir auðæfum „verða að bera fyllstu virðingu fyrir fátækum“. ‘Abdu’l‑Bahá sagði afdráttarlaust: „Auður er í hæsta máta lofsverður, sé hans aflað af eigin rammleik og sakir náðar Guðs, með viðskiptum, jarðyrkju, listum og iðnum – og honum varið af mannúð og í þágu mannkyns.“ En jafnframt er í Huldum orðum ríkulega varað við háskalegu ginningarafli hans, að auður sé „öflug hindrun“ milli átrúandans og verðugs tilbeiðsluefnis hans. Það er því ekki að undra að Bahá’u’lláh vegsami stöðu auðmanna sem láta auð ekki hindra sig frá að ná til ríkisins eilífa. Ljómi slíkrar sálar „mun lýsa upp þá sem dvelja á himnum rétt eins og sólin stafar geislum sínum á fólk jarðarinnar!“ ‘Abdu’l‑Bahá lýsir því yfir að „ef skarpskyggn og snjallráður einstaklingur ætti frumkvæði að ráðstöfunum sem myndu hvarvetna auðga allan almenning, gæti engin gerð talist göfugri, og fyrir augliti Guðs yrði hún talin hið æðsta afrek.“ Því ríkidæmi er lofsverðast „séu allir íbúarnir ríkir“. Að skoða líf sitt til að meta hvað sé nauðsynlegt og láta síðan af hendi rakna með ánægju það sem lög Ḥuqúqu’lláh gera skylt, er óhjákvæmileg regla til að koma jafnvægi á forgangsröð, hreinsa þau verðmæti sem hver og einn á, og tryggja að sá skerfur sem tilheyrir Rétti Guðs þjóni almannaheill. Ævinlega eru nægjusemi og hófstilling, góðgirni og samkennd, fórn og traust á Almættið, eiginleikar sem sæma guðhræddri sál.
Öfl efnishyggjunnar stuðla að gerólíkum hugsunarhætti. Samkvæmt þeim felst lífshamingjan í stöðugri eignasöfnun, því meira sem maðurinn eignast þeim mun betra og áhyggjur af umhverfismálum geta beðið betri tíma. Þessi tælandi boðskapur elur á tilfinningu um persónulega verðskuldun sem festir sig æ meira í sessi og notar tungutak réttlætis og lýðréttinda til að breiða yfir eiginhagsmuni. Skeytingarleysi um erfiðleika annarra verður algengara um leið og skemmtanir og afþreying sem dreifa huganum eru stundaðar af áfergju. Lamandi áhrif efnishyggjunnar gera hægt og sígandi vart við sig á öllum menningarsvæðum og bahá’íar skilja allir sem einn að ef þeir reyna ekki að vera sér meðvitandi um þessi áhrif hennar geta þeir óafvitandi á einn eða annan hátt samsamað sig viðhorfum hennar til lífsins. Foreldrar verða að gera sér skýra grein fyrir því að jafnvel kornung börn semja sig að siðum umhverfisins. Verkefnið fyrir andlega eflingu unglinga hvetur til innsæis og yfirvegunar á unglingsárunum þegar kröfur efnishyggjunnar gerast ágengari. Þegar manndómsárin nálgast fylgir þeim sú sameiginlega ábyrgð ungmenna að leyfa ekki veraldlegri eftirsókn að blinda sig fyrir óréttlæti og skorti. Þeir eiginleikar og viðhorf sem námskeið þjálfunarstofnunarinnar innræta með beinni snertingu við orð Guðs hjálpa einstaklingunum með tímanum að sjá í gegnum þær blekkingar sem heimurinn beitir á öllum ævistigum til að beina athyglinni frá þjónustu og að sjálfinu. Og að endingu eykur kerfisbundið nám á orði Guðs, og rannsókn á hvað það felur í sér, vitundina um nauðsyn þess að haga eigin efnislegu málefnum í samræmi við hinar guðlegu kenningar.
Elskuðu vinir: Stöðugt erfiðara reynist að réttlæta öfga auðs og fátæktar í heiminum. Meðan ójöfnuður varir er hið gamalgróna skipulag óöruggt með sjálft sig og gildi þess eru dregin í efa. Hverjar sem þrengingarnar eru sem ófriðsamur heimur þarf að kljást við í framtíðinni biðjum við þess að Hinn alvaldi muni hjálpa ástvinum sínum að sigrast á öllum hindrunum sem á vegi þeirra verða og hjálpa þeim að þjóna mannkyninu. Því öflugri sem nærvera bahá’í samfélags er á íbúasvæði þess, þeim mun meiri ábyrgð hvílir á því að finna leiðir til að takast á við grunnorsakir fátæktar í umhverfi sínu. Þótt lærdómur vinanna um slíkt starf og þátttaka í umræðum sem tengjast því séu á frumstigi, er ferli samfélagsuppbyggingar í fimm ára áætluninni hvarvetna að skapa framúrskarandi umhverfi þar sem hægt og örugglega er unnt að safna þekkingu og reynslu um æðri tilgang efnahagslegrar starfsemi. Megi þessi rannsókn, sem hefur bakgrunn í aldalöngu starfi að uppbyggingu guðlegrar siðmenningar, verða áberandi þáttur í lífi samfélagsins, stofnanahugsun og starfi einstaklingsins á komandi árum.
[undirritað: Allsherjarhús réttvísinnar]