26. mars 2016 – Til bahá’ía um allan heim
Efnisgrein 1
Efnisgrein 2
Efnisgrein 3
Efnisgrein 4
Afritaðu eða deildu hlekk
Afritaðu eða deildu texta með tilvísun
/t/
/t/
Til valinna viðtakenda Taflna hinnar guðlegu áætlunar
sem ‘Abdu’l‑Bahá sendi bahá’íum í Bandaríkjunum og bahá’íum í Kanada
Við getum ekki látið þessa sögulegu stund líða hjá án þess að bæta við boð okkar til átrúendanna um allan heim, orðsendingu til þeirra sem höfundur hinnar guðlegu áætlunar valdi sérstaklega til heilagrar ábyrgðar, en sigrar þeirra og erfiði mótuðu að miklu leyti liðna öld í samræmi við háleitar væntingar hans.
Skömmu eftir uppstigningu Bahá’u’lláh ákvað ‘Abdu’l‑Bahá að eitt af höfuðmarkmiðum embættistíðar hans yrði að koma á fót samfélagi í Norður Ameríku undir merkjum málstaðar Föður síns. Hann sendi kennara, upplýsta pílagríma, lagði upp í einstæða heimsókn hniginn að aldri, lagði hornsteininn að tilbeiðsluhúsi ykkar, letraði á fjórtán töflur, stílaðar til ykkar, guðlegt ætlunarverk og „kaus að veita útvöldum lærisveinum sínum af gnótt hjarta síns óbrigðula umhyggju allt til síðustu stundar“. Síðar þegar átrúendurnir í vöggu trúarinnar stóðu magnþrota sakir ofsókna, þegar ljós trúarinnar í Evrópu myrkvaðist af vaxandi ógn annarrar styrjaldar, þegar öflugasta miðstöðin í Mið-Asíu var jöfnuð við jörðu og jafnvel þegar heimsmiðstöð sjálfrar trúarinnar var stefnt í uppnám vegna stórátaka í Landinu helga, var með orðum Shoghi Effendi „eitt helsta virkið sem eftir stóð“, „sá máttugi armleggur“ sem enn hélt á lofti „gunnfána ósigrandi trúar“, „ekkert annað en blessað samfélag fylgjenda Hins mesta nafns á meginlandi Norður Ameríku“. Hann setti ykkur – helstu framkvæmdaaðila áætlunarinnar og þá sem stóðu að henni með ykkur – í framvarðarsveit óstöðvandi fylkinga Bahá’u’lláh.
Ógjörningur er að telja hér upp alla þá glæstu sigra sem þið unnuð á liðinni öld. Ykkur hefur þegar tekist það sem verðskuldar þakklæti og aðdáun alls bahá’í heimsins, en því fer fjarri að ætlunarverki ykkar sé lokið. Eftir frækilegt starf í heila öld eigið þið að geta greint betur en nokkru sinni fyrr þann beina veg sem himneskur innblástur hefur varðað á þeim fjölmörgu áföngum sem hin guðlega áætlun hefur lagt að baki síðan kerfisbundin framkvæmd hennar hófst 1937, og þannig skilið til fulls þýðingu þess síðasta áfanga sem nú er að hefjast. Verkefnin sem við ykkur blasa eru ekki þau sömu og áður. Alþjóðlegri útbreiðslu trúarinnar er að miklu leyti lokið og kröfurnar sem gerðar eru til ykkar eru að þessu sinni brýnastar heima fyrir. Nú er verið að víkka hópinngönguferlið, sem örlaði fyrir í Tíu ára herferðinni og þróaðist á næstu áratugum, í traustu ferli samfélagsuppbyggingar í hverri miðstöðinni á fætur annarri í öllum þeim löndum og landssvæðum sem ‘Abdu’l‑Bahá tilgreindi fyrir svo mörgum árum. Systursamfélög ykkar sem mörg hver voru stofnuð með ykkar hjálp hafa nú komist til þroska, og þið standið með þeim reiðubúin til að takast á við kröfuharðari áskoranir sem fram undan eru. Þróun umdæma ykkar í átt að ystu mörkum lærdóms mun innleiða þann tíma sem Shoghi Effendi sá fyrir í byrjun sameiginlegra starfa ykkar, þegar samfélögin sem þið byggið upp munu berjast með beinum hætti gegn og að lokum útrýma þeim öflum spillingar, siðferðilegs slappleika og rótgróinna fordóma sem tæra innviði þjóðfélagsins.
Þetta er tími fagnaðar. Verið stolt af fórnum og sigrum allra þeirra helguðu sálna sem risu upp til að svara kalli ‘Abdu’l‑Bahá. Varpið frá ykkur í sama anda sjálfsfórnar og fyrirrennarar ykkar fánýtum hégóma og afþreyingarefnum heims sem hefur villst af vegi til þess að þið getið helgað ykkur næstu fimm árin ómetanlegum tækifærum og óumflýjanlegum skyldum þessa síðasta áfanga í andlegu framtaki sem að endingu mun ráða úrslitum um örlög mannkyns.