26. mars 2016 – Til bahá’ía í Bandaríkjunum og Kanada

sem ná um gervalla jörðina. Sérhver bahá’íi ætti að gera sér ljóst betur en nokkru sinni fyrr að þær ráðstafanir sem gerðar eru fyrir næsta áfanga hinnar guðlegu áætlunar, og settar eru fram í nýlegum boðum okkar til ráðstefnu álfuráðgjafanna, fela í sér ögrandi kröfur líðandi stundar – kröfur sem bæði eru brýnar og heilagar. Þegar við þeim er brugðist af fórnfýsi og þrautseigju kunna þær að flýta „komu þeirrar gullaldar sem verða mun vitni að yfirlýsingu Hins mesta friðar og þróun þeirrar heimssiðmenningar sem er afsprengi og frumtilgangur þess friðar“.

Hvernig er okkur mögulegt að lýsa nógsamlega tilfinningum innilegrar ástar og takmarkalausrar aðdáunar þegar við hugleiðum hetjudáðir átrúendanna í samfélögum ykkar fyrr og síðar, þegar þið unnuð að heilögu ætlunarverki ykkar? Sýnin sem opnast augum okkar er á grasrótarhreyfingu, lifandi blómstrun, ómótstæðilega hreyfingu sem stundum hefur vaxið án þess að greint yrði en kemur í miklum bylgjum á öðrum tímum og nær að lokum um allan heim: elskhugar ölvaðir af ást Guðs sem fara fram úr sinni eigin persónulegu hæfni, stofnanir á fósturstigi sem læra að beita kröftum sínum í þágu velferðar mannkyns, samfélög sem verða skjól og athvarf og skólar sem næra mannlega getu. Við vottum virðingu okkar hinni auðmjúkustu þjónustu og þrotlausri viðleitni helgaðra óbreyttra liðsmanna, sem og þeim einstæðu afrekum sem hetjur hennar, riddarar og píslarvottar hafa unnið. Á miklum meginlöndum og hinum dreifðu eyjum, frá heimskautasvæðum til eyðimarka, á hásléttum og láglendi, í mannmörgum borgarhverfum og fámennum byggðum fram með fljótum og frumskógarstígum – alls staðar hafið þið og andlegir fyrirrennarar ykkar fært þjóðum og ættbálkum boðskap Hinnar blessuðu fegurðar. Þið lögðuð hvíld og þægindi í sölurnar og fóruð frá heimilum ykkar til framandi landa eða útvarðarstöðva í heimalandinu. Þið létuð eigin hagsmuni víkja fyrir heildarhag. Hver sem efnahagur ykkar var, lögðuð þið fórnfús fram ykkar skerf. Þið kennduð fjöldanum trúna, kennduð hópum við ýmsar aðstæður og einstaklingum á heimilum ykkar. Þið lífguðuð sálir og veittuð þeim aðstoð á sinni eigin þjónustubraut, dreifðuð bahá’í ritum vítt og breitt og tókuð þátt í ítarlegu námi á kenningunum, reynduð að gera framúrskarandi vel á öllum sviðum, efnduð til samræðna við fólk af öllum stigum og stéttum sem snerust um lausnir við meinsemdum mannkyns og áttuð frumkvæði að starfi að efnahags- og samfélagslegri þróun. Þótt stundum hafi misskilningur og vandamál gert vart við sig fyrirgáfuð þið hvert öðru og sóttuð fram í þéttum fylkingum. Þið reistuð burðarstoðir stjórnskipunarinnar og hélduð fast við sáttmálann, vörðuð trúna fyrir hverju höggi sem reynt var að koma á hana. Í eldmóði ykkar fyrir Ástvininn þolduð þið fordóma og vinslit, skort og einsemd, ofsóknir og fangelsun. Þið buðuð velkomnar og nærðuð kynslóðir barna og ungmenna sem lífsþróttur trúarinnar og framtíð mannkyns eru háð. Sem gamalreyndir liðsmenn gáfuð þið gaum ákalli Meistarans um að þjóna til síðasta andardráttar. Þið hafið skrifað söguna um afhjúpun hinnar guðlegu áætlunar á bókfell fyrstu aldar hennar. Við ykkur, ástkæru vinir, blasir óskrifað bókfell framtíðar þar sem þið og andlegir afkomendur ykkar mun færa í letur ferskar og varanlegar dáðir sjálfsafneitunar og hetjudáða til þess að bæta heiminn.

[undirritað: Allsherjarhús réttvísinnar]