26. mars 2016 – Til bahá’ía í Bandaríkjunum og Kanada
Efnisgrein 1
Efnisgrein 2
Efnisgrein 3
Efnisgrein 4
Efnisgrein 5
Afritaðu eða deildu hlekk
Afritaðu eða deildu texta með tilvísun
/t/
/t/
Til bahá’ía um allan heim
sem starfa samkvæmt umboði ‘Abdu’l‑Bahá
Í dögun í morgun komu meðlimir Allsherjarhúss réttvísinnar saman fyrir ykkar hönd ásamt meðlimum Alþjóða kennslumiðstöðvarinnar í herbergi Meistarans í húsinu í Bahjí til að minnast þeirrar mikilvægu og örlagaríku stundar þegar ‘Abdu’l‑Bahá opinberaði hina fyrstu af Töflum hinnar guðlegu áætlunar. Bænir úr þessum undursamlegu töflum voru beðnar í þakklætisskyni fyrir dýrleg afrek fortíðar. Guðlegrar aðstoðar var leitað til stuðnings því starfi sem vinna þarf á næsta stigi í framvindu áætlunarinnar. Og beðið var sárlega um himneska hylli til að tryggja enn þá stærri sigra til að mæta áskorunum framtíðaráfanga, hvers á fætur öðrum, allt þar til birta tekur af gullöldinni.
Hin guðlega áætlun, sú mikilfenglega röð bréfa sem ‘Abdu’l‑Bahá sendi til bahá’ía í Norður Ameríku á tímabilinu 26. mars 1916 til 8. mars 1917, er ein af máttugum stofnskrám trúar Föður hans. Áætlunin var lögð fram í fjórtán töflum og hún er með orðum Shoghi Effendi „máttugasta áætlun sem nokkru sinni hefur verið mótuð með sköpunarkrafti Hins mesta nafns.“ Hún er „knúin öflum sem ekki er í okkar valdi að meta eða segja fyrir um“ og hún „haslar sér völl á starfsvettvangi sem nær til fimm meginlanda og eyjanna í heimshöfunum sjö“. Hún ber í sér „fræ andlegrar endurlífgunar heimsins og endanlegs hjálpræðis hans“.
Í Töflum hinnar guðlegu áætlunar veitti ‘Abdu’l‑Bahá ekki aðeins þá víðu sýn sem nauðsynleg er til að rækja ábyrgðarhlutverkið sem Bahá’u’lláh hefur treyst ástvinum sínum fyrir heldur skýrði hann einnig í megindráttum þau andlegu hugtök og þá hagnýtu stjórnlist sem nauðsynleg er til að árangur náist. Í hvatningu sinni til átrúendanna um að kenna og ferðast til að kenna, að hefjast sjálfir handa eða gera aðra að staðgenglum sínum, að fara til allra heimshluta og opna lönd og landssvæði, sérhvert þeirra tilgreint af nákvæmni, að læra viðkomandi tungumál og þýða og dreifa hinum helgu textum, að þjálfa kennara trúarinnar og þá sérstaklega ungmenni, að kenna fjöldanum og sérstaklega hinum innfæddu, að halda fast við sáttmálann og vernda trúna, að sá fræjunum og rækta þau í ferli lífræns vaxtar, í öllu þessu finnum við aðalsmerki allra þessara áætlana, sem hver um sig er sérstakur áfangi á leið hinnar guðlegu áætlunar mótaðri af leiðtoga trúarinnar – og sem halda mun áfram að þróast alla mótunaröldina.
Upphaflegu viðbrögðin við Töflum hinnar guðlegu áætlunar takmörkuðust við göfugar hetjudáðir fáeinna, sem líkt og hin ódauðlega Martha Root risu upp af eigin dáðum. Það var Shoghi Effendi sem aðstoðaði bahá’ía um allan heim við að skilja smám saman þýðingu þessarar stofnskrár og kenndi þeim að nálgast kröfur hennar með kerfisbundnum hætti. Áætlunin var í biðstöðu í nærfellt tuttugu ár meðan stjórnskipulagið var að mótast en síðan fengu samfélögin þolinmóða leiðsögn í gerð landsáætlana. Þar á meðal voru tvær sjö ára áætlanir Norður Ameríku sem voru fyrsta stig hinnar guðlegu áætlunar, uns allir gátu að lokum sameinast í fyrstu hnattrænu áætluninni 1953, Tíu ára herferðinni. Shoghi Effendi sá að í lok þessa þýðingarmikla og örlagaríka áratugar yrði „hrundið af stokkunum hnattrænum verkefnum á komandi tímaskeiðum“ mótunaraldar „af Allsherjarhúsi réttvísinnar sem mun tákngera einingu og samræma og sameina starfsemi þessara þjóðarráða“. Hinni guðlegu áætlun er framhaldið í dag með einbeittri og ákafri viðleitni til mótunar samfélagsmynsturs sem geti tekið við þúsundum á þúsundir ofan í umdæmum sem ná um gervalla jörðina. Sérhver bahá’íi ætti að gera sér ljóst betur en nokkru sinni fyrr að þær ráðstafanir sem gerðar eru fyrir næsta áfanga hinnar guðlegu áætlunar, og settar eru fram í nýlegum boðum okkar til ráðstefnu álfuráðgjafanna, fela í sér ögrandi kröfur líðandi stundar – kröfur sem bæði eru brýnar og heilagar. Þegar við þeim er brugðist af fórnfýsi og þrautseigju kunna þær að flýta „komu þeirrar gullaldar sem verða mun vitni að yfirlýsingu Hins mesta friðar og þróun þeirrar heimssiðmenningar sem er afsprengi og frumtilgangur þess friðar“.
Hvernig er okkur mögulegt að lýsa nógsamlega tilfinningum innilegrar ástar og takmarkalausrar aðdáunar þegar við hugleiðum hetjudáðir átrúendanna í samfélögum ykkar fyrr og síðar, þegar þið unnuð að heilögu ætlunarverki ykkar? Sýnin sem opnast augum okkar er á grasrótarhreyfingu, lifandi blómstrun, ómótstæðilega hreyfingu sem stundum hefur vaxið án þess að greint yrði en kemur í miklum bylgjum á öðrum tímum og nær að lokum um allan heim: elskhugar ölvaðir af ást Guðs sem fara fram úr sinni eigin persónulegu hæfni, stofnanir á fósturstigi sem læra að beita kröftum sínum í þágu velferðar mannkyns, samfélög sem verða skjól og athvarf og skólar sem næra mannlega getu. Við vottum virðingu okkar hinni auðmjúkustu þjónustu og þrotlausri viðleitni helgaðra óbreyttra liðsmanna, sem og þeim einstæðu afrekum sem hetjur hennar, riddarar og píslarvottar hafa unnið. Á miklum meginlöndum og hinum dreifðu eyjum, frá heimskautasvæðum til eyðimarka, á hásléttum og láglendi, í mannmörgum borgarhverfum og fámennum byggðum fram með fljótum og frumskógarstígum – alls staðar hafið þið og andlegir fyrirrennarar ykkar fært þjóðum og ættbálkum boðskap Hinnar blessuðu fegurðar. Þið lögðuð hvíld og þægindi í sölurnar og fóruð frá heimilum ykkar til framandi landa eða útvarðarstöðva í heimalandinu. Þið létuð eigin hagsmuni víkja fyrir heildarhag. Hver sem efnahagur ykkar var, lögðuð þið fórnfús fram ykkar skerf. Þið kennduð fjöldanum trúna, kennduð hópum við ýmsar aðstæður og einstaklingum á heimilum ykkar. Þið lífguðuð sálir og veittuð þeim aðstoð á sinni eigin þjónustubraut, dreifðuð bahá’í ritum vítt og breitt og tókuð þátt í ítarlegu námi á kenningunum, reynduð að gera framúrskarandi vel á öllum sviðum, efnduð til samræðna við fólk af öllum stigum og stéttum sem snerust um lausnir við meinsemdum mannkyns og áttuð frumkvæði að starfi að efnahags- og samfélagslegri þróun. Þótt stundum hafi misskilningur og vandamál gert vart við sig fyrirgáfuð þið hvert öðru og sóttuð fram í þéttum fylkingum. Þið reistuð burðarstoðir stjórnskipunarinnar og hélduð fast við sáttmálann, vörðuð trúna fyrir hverju höggi sem reynt var að koma á hana. Í eldmóði ykkar fyrir Ástvininn þolduð þið fordóma og vinslit, skort og einsemd, ofsóknir og fangelsun. Þið buðuð velkomnar og nærðuð kynslóðir barna og ungmenna sem lífsþróttur trúarinnar og framtíð mannkyns eru háð. Sem gamalreyndir liðsmenn gáfuð þið gaum ákalli Meistarans um að þjóna til síðasta andardráttar. Þið hafið skrifað söguna um afhjúpun hinnar guðlegu áætlunar á bókfell fyrstu aldar hennar. Við ykkur, ástkæru vinir, blasir óskrifað bókfell framtíðar þar sem þið og andlegir afkomendur ykkar mun færa í letur ferskar og varanlegar dáðir sjálfsafneitunar og hetjudáða til þess að bæta heiminn.