Allsherjarhús réttvísinnar
29. desember 2015
Til ráðstefnu álfuráðanna
Ástkæru vinir
Áætlunin sem bahá’í heimurinn lagði upp með fyrir hartnær fimm árum síðan er á lokasprettinum, afrekaskrá hennar vex stöðugt en brátt mun endapunktur verða settur við hana. Samtakamátturinn sem hún vakti hefur krafist fullkomins trausts á þá krafta sem náðugur Drottinn hefur veitt ástvinum sínum. Er við nú í sameiningu lítum til baka á þessari stundu er okkur ofarlega í huga hve ákveðnir vinirnir eru í að ljúka núverandi áætlun á viðeigandi hátt og ákafir að sækja enn frekar fram á þeirri reynslubraut sem mörkuð hefur verið.
Sú langa leið sem þegar hefur verið lögð að baki á þessari braut blasir við þegar horft er á áhrifaríkasta árangurinn sem núverandi áætlun sýnir. Hið metnaðarfulla markmið, sem snerist um að fjölga umdæmum með vaxtaráætlun í 5.000 óháð styrkleika, lítur út fyrir að nást mánuðina fyrir Riḍván 2016. Í fjölda umdæma eru yfir þúsund íbúar, á tíðum nokkur þúsund, sem taka þátt í starfsmynstri sem náð hefur traustri fótfestu með vaxandi fjölda þátttakenda, en þeir efla samfélög sem eiga rætur í venjum og hugsun byggðum á opinberun Bahá’u’lláh. Í öllum heiminum hefur hálfri miljón manna verið gert kleift að ljúka að minnsta kosti fyrstu bókinni í námskeiðaröðinni, ótrúlegt afrek sem hefur lagt tryggan grunn að kerfi mannauðsþróunar. Kynslóð ungmenna hefur verið örvuð til athafna með hvetjandi sýn á það hvernig hún getur lagt sitt af mörkum við að byggja nýjan heim. Forystumenn samfélaga á vissum stöðum hafa undrast það sem þeir hafa orðið vitni að og því hvatt bahá’íana til að gera menntaverkefni sín aðgengileg í ríkum mæli. Bahá’í stofnanir og aðilar á þeirra vegum sem hafa þurft að taka á sífellt margslungnari verkum, finna sér nú leiðir til að skipuleggja verkefni vaxandi fjölda vina með því að hvetja til samvinnu og gagnkvæms stuðnings. Hæfileikinn til að læra, sem varð svo ómetanleg arfleifð fyrri áætlana, hefur og verið nýttur til útbreiðslu og treystingar og nær nú yfir önnur svið bahá’í viðleitni, sérstaklega samfélagsvirkni og þátttöku í ríkjandi umræðu í samfélaginu. Við sjáum samfélag sem hefur eflst að styrk og harðfenginni reynslu sem áunnist hefur með þrotlausu erfiði tveggja áratuga, þar sem stefnt var að sameiginlegu marki: að efla hópinngönguferlið verulega.
Enginn vafi er á að þetta ferli verður að ganga enn lengra þótt þróunin sýni að talsverður árangur hafi þegar náðst. Það hefur búið vini Guðs undir kröfuharðari prófstein á hæfileika þeirra, prófraun sem mun einnig gera miklar kröfur til stofnunar ykkar, þegar þið fylkið þeim saman til að mæta kröfum þess. Í næstu áætlun, sem mun ljúka við þröskuld annars skeiðs mótunaraldar trúarinnar, munum við kalla átrúendur hvaðanæva að til að takast á hendur það gífurlega átak sem nauðsynlegt er til að fræin, sem var sáð af svo mikilli ást og vökvuð af umhyggjusemi í fimm fyrri áætlunum, beri ávöxt.
Upphaf vaxtaráætlunar
Þróun vaxtarferlis í umdæmi hefur ákveðin sameiginleg einkenni, þótt hún eigi sér sína sértæku ásýnd í hverju tilfelli sem markast af móttækileika þeirra sem hinar guðlegu kenningar beinast að. Við ræddum mörg þeirra í skilaboðum okkar til ykkar á ráðstefnunni 2010, þar sem vísað var til nokkurra áfanga sem einkenna framfarir á þróunarbraut. Á þessu tímabili hefur sameiginlegur skilningur vaxið á því hverju vinirnir í hverju umdæmi þurfa að ná í fyrsta áfanganum sem við lýstum og síðan þeim næsta.
Í þeirri fimm ára áætlun sem nú er að ljúka hefur verkefnið sem átrúendur stóðu frammi fyrir falist í að nýta sér allt sem þeir lærðu í fyrri áætlunum til að vinna að því að breiða út vaxtarferlið til þúsunda nýrra umdæma. Það hefur sýnt sig að mikið er komið undir hæfni stofnana að sækja hjálp til vina í öðrum umdæmum við að styrkja starfsemi bahá’í samfélags sem þegar er fyrir hendi, með því til dæmis að sjá fyrir stuðningi ferðakennsluhópa eða leiðbeinenda. Víða byrjar þjálfunarferlið með hjálp frá átrúendum úr sterkum nágranna-samfélögum sem finna skapandi leiðir til að ná út til íbúa á svæðinu, sérstaklega ungmenna, og styðja þá þegar þeir byrja á þjónustuverkefnum. Það eflir mjög átak við að hvetja starfsemi í umdæmi, sérstaklega þar sem trúin hefur ekki náð fótfestu, ef einn eða fleiri einstaklingar setjast þar að sem brautryðjendur og beina athygli sinni að hluta byggðarlags eða jafnvel einni götu þar sem móttækileiki er meiri. Rúmlega 4.500 átrúendur hafa þegar hafist handa um að þjóna á þennan hátt í núverandi áætlun, sem er undravert afrek.
Hvaða aðferðum eða fléttum sem við beitum er aðalmarkmiðið að hefja ferli sem byggir upp hæfni innan umdæmisins og gerir íbúum þess kleift að byrja að bjóða fram þjónustu sína í einlægri ósk um að leggja sitt af mörkum til andlegrar og efnislegrar velsældar samfélaga sinna. Þegar þessu grundvallarskilyrði er fullnægt er vaxtaráætlun orðin til. Að sjálfsögðu er stuðningur aðstoðarráðgjafa og aðstoðarmanna þeirra lífsnauðsynlegur en náin þátttaka þeirra frá upphafi verkefnis hjálpar vinunum að tileinka sér skýra og sameinaða sýn á hvers sé þörf.
Að styrkja starfsmynstrið
Áður en langt um líður myndast kjarni vina í umdæminu sem vinna og ráðgast saman og skipuleggja verkefni. Til þess að vaxtarferlið haldi áfram verður fjöldi þeirra sem deila þessari skuldbindingu að vaxa og geta þeirra til að vinna skipulega innan ramma áætlunarinnar verður að aukast að sama skapi. Og líkt og þegar lífvera þroskast, getur vöxtur orðið hraður þegar rétt skilyrði eru fyrir hendi.
Það sem er mikilvægast þessara skilyrða er þjálfunarferli sem eflist stöðugt, og sem miðar fyrst og fremst að því að stuðla að þróun meðal íbúanna. Vinirnir, sem hafa byrjað að fara í gegnum þjálfunarefnið og hafa einnig lagt orku í að skipuleggja barnakennslu, unglingahópa, sameiginlegar bænastundir eða önnur skyld verkefni, verða aðstoðaðir við að halda áfram í gegnum námskeiðaröðina á meðan fjöldi þeirra sem er að hefja námið heldur áfram að vaxa. Með flæði þátttakenda í gegnum þjálfunarferlið og út á verkefnaakurinn styrkist félagsskapur þeirra sem halda vaxtarferlinu við. Framþróunin hvílir að miklu leyti á gæðum viðleitni þeirra sem þjóna sem leiðbeinendur. Á þessum fyrri stigum hafa flestir þeirra hugsanlega komið úr öðrum umdæmum en jafnframt munu nokkrir vinir á staðnum hafa komið til og eftir því sem geta þeirra til verka eykst munu þeir hjálpa öðrum að nema efni þjálfunarstofnunarinnar. Þegar gert er átak í að koma fyrsta kjarna leiðbeinenda úr umdæminu til starfa þarf að fara bil tveggja óæskilegra leiða. Ef einstaklingar fara of hratt í gegnum þjálfunarnámskeiðin þroskast hæfnin til að þjóna ekki nægilega vel; ef námið er dregið úr hófi er ferlið á sama hátt rænt drifkraftinum sem er lífsnauðsynlegur fyrir framgang þess. Skapandi lausnir hafa eftir aðstæðum verið notaðar til að ná nauðsynlegu jafnvægi og þannig tryggt að innan ásættanlegs tíma hafa nokkrir þeirra sem búa í umdæminu getað þjónað sem leiðbeinendur.
Að sjá fyrir þjálfun verður að sjálfsögðu ekki eitt og sér til þess að framfarir verði. Það er til lítils að auka hæfnina ef ekki eru strax gerðar ráðstafanir til þess að fylgja einstaklingunum inn á þjónustusviðið. Góður stuðningur felst í miklu meiru en hvetjandi orðum. Þegar fólk býr sig undir að takast á við ókunnugt verkefni eykur það að vinna við hlið reyndrar manneskju vitund um hvað sé mögulegt. Fullvissa um að fá hjálp getur gefið hikandi byrjanda það hugrekki sem þarf til að leggja í verkefni í fyrsta sinn. Sálirnar auka síðan skilning sinn í sameiningu, deila með sér af hógværð þeirri sýn sem hver um sig hefur öðlast hverju sinni, og reyna af ákefð að læra af samferðamönnum sínum á braut þjónustu. Hikið minnkar og hæfni þróast að því marki að einstaklingurinn getur unnið verk sín sjálfstætt og fylgt síðan öðrum á sömu braut.
Hvað varðar þjálfunarstofnunina þá verður flæði þátttakenda í gegnum námskeiðin til þess að auka þörfina fyrir skipulegan stuðning þeim til handa, þegar þeir byrja þjónustu sem barnakennarar, hvetjarar og leiðbeinendur. Tækifærin berast á eðlilegan hátt upp í hendurnar á þeim sem eru kjarni þeirra átrúenda sem þegar hafa öðlast nokkra reynslu af menntastarfi og geta aðstoðað þá sem eru nýrri á því sviði. Þegar einstaklingur er reiðubúinn að hjálpa öðrum á framfarabraut í viðleitni til að þjóna, getur það leitt til þess að honum verði úthlutað sérstakri ábyrgð. Þannig verða til umsjónarmenn fyrir hvert hinna þriggja stiga menntaferlisins eftir því sem þörf krefur. Verk þeirra einkennast alltaf af þrá til að sjá hæfni þroskast hjá öðrum og að fóstra vináttu byggða á samvinnu og gagnkvæmni.
Þjálfunarferlið eykur augljóslega hæfni til margs konar viðfangsefna; frá fyrstu námskeiðum eru þátttakendur hvattir til að heimsækja vini sína á heimilum þeirra, lesa og biðja bænir með þeim eða að deila með þeim atriðum úr bahá’í kenningunum. Ráðstafanir til að styðja vinina í þessari viðleitni, sem ef til vill voru að mestu óformlegar, verða þó að lokum ófullnægjandi og það kallar á að mynduð verði umdæmiskennslunefnd. Það sem hún á að leggja aðaláherslu á er að virkja einstaklinga, oft með því að mynda teymi, til að starfsmynstrið haldi áfram að breiðast út í umdæminu. Meðlimir hennar koma til með að líta á alla sem mögulega samstarfsmenn í sameiginlegu átaki og þeir gera sér grein fyrir eigin hlut í því að efla anda sameiginlegs markmiðs í samfélaginu. Þegar nefnd er til staðar munu tilraunir sem þegar eru í gangi við að koma á helgistundum, að fara í heimsóknir og að kenna trúna, eflast verulega. Það er nauðsynlegt að þið hvetjið andleg þjóðarráð og landshlutaráð bahá’ía eigi síður en þjálfunarstofnanir til að vera vökul þegar aðstæður í umdæmi kalla á skýrar aðgerðir og að í slíkum tilvikum sé hvorki gripið til ótímabærra aðgerða né að formlegt fyrirkomulag dragist úr hófi.
Nýir starfsaðilar sem koma fram í umdæmum þurfa, á sama hátt og einstaklingar, aðstoð þegar þeir byrja að sinna skyldum sínum. Hjálpin sem aðstoðarráðgjafar veita að þessu leyti er lífsnauðsynleg en hún er einnig mikilvæg skylda landshlutaráða eða þjóðarráðsins sjálfs ef öðru er ekki til að dreifa, og er einnig mjög áríðandi af hálfu þjálfunarstofnana. Hæfnin til að þjóna að gagni á umdæmissviði eykst þegar skapaður er vettvangur þar sem átrúendurnir sem í hlut eiga geta leitað leiðsagnar, rætt um verk sín í ljósi hennar og dregið lærdóm af henni en geta einnig tengst víðari þekkingu sem skapast hefur í nálægum umdæmum og víðar. Í stað óhlutbundinnar áætlanagerðar beinist samráð á slíkum vettvangi að því að meta raunverulegar aðstæður og stöðu umdæmisins á ákveðnum tímapunkti og greina næstu skref sem greiða fyrir framförum. Þau sem þjóna á landshluta- eða þjóðarsviði þurfa að leggja sig fram um að ráðleggja vinunum og víkka sýn þeirra á hvað hægt er að gera en þau forðast að þröngva sínum eigin væntingum inn í skipulagsferlið. Öllu heldur hjálpa þau vinunum, sem strita í umdæminu, að auka hæfni sína smám saman til að hugsa upp og koma í gang verkefnum sem markast af reynslu sem safnast hefur hjá grasrót samfélagsins og þekkingu á raunverulegum aðstæðum. Til þess að þróa hæfni umdæmisaðilanna við að læra og vinna kerfisbundið, þurfa landshluta- og þjóðarstofnanir að vera vandvirkar og skipulegar í viðleitni sinni við að aðstoða þá. Stuðningur aðstoðarráðgjafa ykkar við þessa vinnu mun tryggja að sérhver þáttur vaxtarferlisins öðlist viðeigandi einkenni og að heilindi og samhengi allrar viðleitni sé höfð í heiðri.
Hvötin til að læra af verki og starfi er auðvitað til staðar hjá vinunum allt frá byrjun. Innleiðing á ársfjórðungslegum vaxtarbylgjum byggir á þessari hæfni sem hefur vaknað og verður til þess að sífellt er hægt að styrkja hana. Þótt þessi hæfni sé sérstaklega tengd lotunni fyrir ígrundun og áætlanagerð, sér í lagi umdæmissamkomunni sem stýrir hjartslætti hennar, þá verður hún einnig nýtt á öllum öðrum stigum bylgjunnar af þeim sem vinna að tengdum aðgerðaleiðum. Við tökum eftir að því hraðar sem lærdómsferlið gengur, þeim mun hæfari verða vinirnir í því að takast á við bakslög, stór eða smá – þeir greina rót vandans, kanna undirliggjandi þætti, nýta sér fengna reynslu, finna lausn við hæfi og ígrunda framvinduna þar til vaxtarferlið er að fullu endurlífgað.
Miðlæg í starfsmynstri sem þróast í umdæmi er sú umbreyting sem á sér stað bæði hjá einstaklingum og sameiginlega vegna kraftsins í orði Guðs. Allt frá byrjun námskeiðaraðarinnar hefur þátttakandi kynnst opinberun Bahá’u’lláh þegar hann hugleiðir svo veigamikil atriði sem tilbeiðslu, þjónustu við mannkyn, líf sálarinnar, og menntun barna og ungmenna. Þegar manneskja ræktar með sér þá venju að lesa og íhuga gaumgæfilega hið skapandi orð, kemur í ljós að þetta umbreytingarferli gerir henni kleift að tjá skilning sinn á djúptækum hugtökum og að finna andlegan veruleika í mikilvægum samtölum. Þessi hæfni er ekki aðeins sýnileg í innihaldsríkum samræðum sem í auknum mæli einkenna samfélagið, heldur einnig í áframhaldandi umræðum sem ná enn lengra – ekki síst meðal bahá’í ungmenna og félaga þeirra – og síðan til foreldra, þar sem dætur þeirra og synir njóta góðs af menntaverkefnum samfélagsins. Vitund um andleg öfl eykst vegna slíkra samskipta, tvígreining sem virðist vera fyrir hendi lætur undan síga fyrir óvæntri hugljómun, tilfinning fyrir einingu og sameiginlegri köllun styrkist, trúin á að hægt sé að skapa betri heim eflist að mun og leiðir í ljós ákafa starfsgleði. Þessar einkennandi samræður draga smám saman til sín sívaxandi fjölda sem vill taka þátt í hinum ýmsu samfélagsverkefnum. Málefni trúar og sannfæringarkrafts koma eðlilega til tals vegna móttækileika og reynslu þeirra sem málinu tengjast. Það er því ljóst að þegar þjálfunarferlið í umdæminu kemst á skrið verður kennslan stærri þáttur í lífi vinanna.
Eftir því sem ferlinu fleygir fram beislast aukin hæfni til innihaldsríkrar samræðu í áætlunum stofnananna. Þegar vaxtarbylgjum hefur verið formlega komið á, mun þessi hæfni glæðast enn frekar með útbreiðslulotunni sem ákveður að verulegu leyti árangur hverrar bylgju. Nákvæmt markmið hverrar útbreiðslulotu er auðvitað breytilegt og fer eftir aðstæðum í umdæminu og kringumstæðum í bahá’í samfélaginu. Í sumum tilfellum er meginmarkmiðið að auka þátttöku í grunnþáttunum, í öðrum fæst vitneskja um að hvaða marki vilji er fyrir hendi til að skrá sig í trúna. Samtöl um persónu Bahá’u’lláh og hlutverk Hans eiga sér stað við margvíslegar aðstæður, meðal annars á opnum húsum og í heimsóknum. Það sem gert er á þessu stigi gefur kost á því að æfa og fínpússa hæfni sem þroskast hefur með lestri á til þess gerðu þjálfunarefni. Eftir því sem reynslan vex verða vinirnir þjálfaðri í að átta sig á hvenær þeir hafa náð eyrum fólks með áhuga og ákveða hvenær óhætt er að vera beinskeyttari við að deila boðskapnum, eða ryðja úr vegi því sem hindrar skilning og að hjálpa leitendum að taka til sín málstaðinn. Með því að vinna sem teymi geta vinirnir þjónað saman, veitt gagnkvæman stuðning og öðlast meira sjálfstraust – en þótt þeir vinni einir og stakir samræma þeir átakið með meiri árangur að markmiði. Einbeiting þeirra og tímaframlag gefa þessari stuttu en ákveðnu lotu bylgjunnar það afl sem hún krefst. Andi háleits ásetnings verður til að margfalda kraftinn í samfélaginu og í hverri bylgju læra vinirnir að treysta æ betur á þá máttugu staðfestingu sem gerðir þeirra laða til sín frá ríki Guðs.
Fyrir fimm árum voru flest umdæmin þar sem markvissum vaxtaráætlunum hafði þegar verið komið í gang, umdæmi þar sem þegar bjó nokkur fjöldi bahá’ía, oft tiltölulega dreifðir landfræðilega. Krafturinn sem þessir átrúendur lögðu í aukna vinnu við að bjóða vinum, samverkamönnum, fjölskyldu og kunningjum að taka þátt í starfseminni, varð til að auka virkni í öllu umdæminu. Það að víkka þátttökuhringinn á þennan hátt hefur orðið kunnuglegur þáttur í bahá’í lífi og er nú inngróinn. Á sama tíma hefur reynslan kennt að til þess að vöxturinn verði hraðari með stöðugu innstreymi nýrra þátttakenda sem koma inn í þjálfunarferlið þarf meira að koma til. Mynstur samfélagslífs þarf að þróast á stöðum þar sem móttækileiki eykst, í þeim litlu íbúakjörnum þar sem hægt er að halda við öflugri starfsemi. Það er hér, þar sem unnið er að samfélagsuppbyggingu í svo þröngum skilningi að samtvinnaðar víddir samfélagslífsins koma fram í skýrasta samhengi, það er hér sem framsókn hinnar sameiginlegu umbreytingar merkist best – hér mun með tímanum koma best í ljós það afl til samfélagsuppbyggingar sem er eðlislægur hluti trúarinnar.
Því verður það þýðingarmikið verkefni sem blasir við ykkur og aðstoðarráðgjöfum ykkar í upphafi væntanlegrar áætlunar að aðstoða vinina hvarvetna við að átta sig á, að til þess að núverandi vaxtaráætlanir haldi áfram að eflast, verður í miklum mæli að taka upp og fylgja skipulega þeim áætlunum sem koma af stað verkefnum í samfélagsuppbyggingu í borgarhverfum og smærri byggðarlögum sem gefa vonir um árangur. Einstaklingar sem þjóna á slíkum svæðum læra að útskýra tilganginn með þessum verkefnum, hvernig hreinar hvatir eru sýndar í verki, hvernig ræktað er umhverfi þar sem hinir hikandi finna sig örugga, hvernig íbúarnir eru aðstoðaðir við að sjá hina ríkulegu möguleika sem felast í því að vinna saman, og hvernig hægt er að hvetja þá til að rísa upp til að þjóna bestu hagsmunum samfélags síns. Jafnframt því að hið sanna gildi þessarar vinnu er viðurkennt eykst vitundin um viðkvæmt eðli hennar. Það er auðvelt að kæfa verk sem er á byrjunarstigi með of mikilli utanaðkomandi athygli. Því þarf fjöldi þeirra vina sem flytja til slíkra staða eða heimsækja þá oft ekki að vera mikill, af því að ferlið sem verið er að setja í gang byggir þrátt fyrir allt á íbúunum sjálfum. Það sem krafist er af þátttakendum er samt sem áður langtíma skuldbinding og þrá þeirra eftir að verða svo kunnugir raunveruleika staðarins, að þeir felli sig að lífi hans og forðist minnsta vott af fordómum og forsjárhyggju, tengist sönnum vinaböndum sem sæmir félögum á andlegu ferðalagi. Krafturinn sem verður til við slíkar aðstæður skapar sterka tilfinningu fyrir sameiginlegum vilja og hreyfingu. Með tímanum mun umdæmið sem heild og kjarnar þess efla hvert annað að skilningi sem skapast af viðleitni til að beita kenningunum í ólíku samhengi.
Eftir því sem vinirnir í umdæmi halda áfram að styrkja og auka þau verkefni til samfélagsuppbyggingar sem taka á sig mynd í kringum þá, verður augljóst að ákveðin framþróun hefur átt sér stað. Allir skipulagsþættir sem nauðsynlegir eru til að vöxtur verði viðvarandi eru nú til staðar. Þegar öðrum áfanganum í þróunarferlinu, sem við lýstum fyrir ykkur fyrir fimm árum síðan er náð, munu fylgja honum framfarir bæði að gæðum og magni – svo sem aukinn fjöldi þeirra sem greina móttækileika í samræðum og hlúa að honum, á fjölda heimila sem fá heimsóknir, grunnþáttum og þátttöku í þeim, fjölda þeirra sem byrja í námskeiðaröðinni eða styðja aðra eftir því sem þeim eykst kjarkur í þjónustunni. Þátttaka í samkomum svo sem nítjándagahátíðum og bahá’í helgidögum er í umsjá andlegra svæðisráða. Þessar framfarir eru sýnilegri tákn um miklu fíngerðari þróun: stigvaxandi útbreiðslu samfélagsmynsturs sem byggir á kenningum Bahá’u’lláh innan ákveðins íbúahóps. Og að sjálfsögðu mun fjöldi átrúenda aukast.
Á síðastliðnum fimm árum hefur leiðin í átt að markvissri vaxtaráætlun orðið sífellt greinilegri. Henni verður að fylgja af einlægni. Í þeirri áætlun sem gengur í gildi á Riḍván munum við hvetja til að vexti verði hraðað í öllum umdæmum þar sem hann hefur hafist. Þótt tekið verði tillit til eðlilegrar sveiflu hins náttúrulega ferlis, ætti að koma í ljós greinileg sókn til framfara á tímabili sem tekur yfir tuttugu bylgjur. Þetta viðbótar átak ætti að stefna að því að fjölga umdæmum með vaxtaráætlun sem er orðin kröftug í 5.000 um Riḍván árið 2021.
Við setjum bahá’í heiminum þetta verkefni vel vitandi að það er mjög háleitt, að það mun þarfnast ofurmannlegrar vinnu, að það þarf að færa margar fórnir. En við getum ekki farið fram á minna af hendi trúrra fylgjenda Bahá’u’lláh þegar við blasir ástand heims sem þjáist æ meir með hverjum deginum sem líður og er sviptur lífsvatni Hans. Ef Guð lofar mun dugnaður þeirra verða fegursti ávöxturinn af hundrað ára starfi og striti og leggja grunn að ólýsanlegum hetjudáðum sem verða að prýða annað skeið mótunaraldar trúarinnar.
Á næstu mánuðum munuð þið efna til samráðs með andlegum þjóðarráðum til að meta með þeim það sem gera þarf í samfélögum þeirra til að ná þessu heimsmarkmiði, samráð sem þarf að ná til grasrótarinnar eins fljótt og hægt er. Verkin verða síðan að fylgja fast á eftir. Við gerum ráð fyrir að framfarir muni fljótt skila sér á svæðum þar sem ein eða fleiri markvissar vaxtaráætlanir hafa verið í gangi í nokkurn tíma, þar sem þau bjóða upp á dýrmætan sjóð þekkingar og reynslu og hafa yfir að ráða uppsprettu mannauðs þegar styrkja þarf svæðin í kring. Stefnan að þessu marki mun leiða af sér nýjar vaxtaráætlanir, oft í áður óopnuðum umdæmum sem liggja nærri þeim sem hafa haft verulegan framgang. Stöðug aðstoð af þessu tagi sprettur af þeirri afdráttarlausu leiðsögn sem gefin er í Töflum hinnar guðlegu áætlunar.
Að taka á móti miklum fjölda og ráða við margbreytileika
Þegar vaxtarferli í umdæmi er á byrjunarstigi getur verið að það séu aðeins fáeinir einstaklingar frá einstaka heimilum sem vinna að eflingu þess en þegar ferlið er orðið kröftugt verða þessar tölur aftur á móti hærri eins og við má búast. Ef til vill eru tugir einstaklinga virkir í útbreiðslu- og treystingarstarfi, og þátttakendur gætu vel verið komnir yfir hundrað. En til þess að ná út til mikils fjölda – að koma að verki hundrað manns eða meira, þannig að þjónusta þeirra tengi þá mörgum hundruðum eða þúsundum – þarf hæfni til að aðlagast verulega aukinni fjölbreytni.
Um leið og vaxtarferlið heldur áfram að eflast, er það viðleitni vinanna til að eiga innihaldsríkar samræður sem leiðir þá inn á mörg félagsleg svið og leyfir breiðari hópi fólks að kynnast kenningunum og skoða af alvöru framlag sitt til þjóðfélagsumbóta. Að auki eru fleiri og fleiri heimili boðin fram sem vettvangur fyrir starfsemi til samfélagslegrar uppbyggingar sem gerir hvert þeirra að depli sem dreifir ljósi guðlegrar leiðsagnar. Með tímanum verður þjálfunarferlið stutt vaxandi fjölda vina sem þjóna af færni sem leiðbeinendur og bjóða sameiginlega upp á alla námskeiðaröðina, bylgju eftir bylgju, og stundum með umtalsverðum krafti. Þannig heldur þróun mannauðs áfram með lágmarks truflun og skapar sívaxandi sjóð starfskrafta. Enda þótt það dragi til sín fjölbreyttan þverskurð af íbúum umdæmisins eru ungmennin oftast í meirihluta þeirra sem sækja námskeiðin. Margir sem tengjast starfseminni í samfélaginu með einhverjum hætti, fá reynslu af umbreytandi áhrifum þess að nema og rannsaka orð Guðs. Og eftir því sem straumur fólks sem leggur á braut þjónustu eykst, verða umtalsverðar framfarir á öllum sviðum samfélagsuppbyggingar vinanna. Hvetjarar unglingahópa og kennarar í barnakennslu margfaldast og það kyndir undir útbreiðslu þessara tveggja verkefna. Börnin geta farið af einu stigi barnakennslu á það næsta meðan unglingahópar taka framförum frá einu ári til annars og leggja grunn að lærdómi um þjónustu við samfélagið. Umdæmisaðilar studdir af svæðisráðunum hvetja og hlúa að eðlilegri leið þátttakenda frá einu stigi menntaferlisins yfir á það næsta. Menntakerfi með öllum sínum undirstöðuþáttum hefur fest rætur í umdæminu, og það er fært um að stækka og bjóða stóra hópa velkomna.
Framfarir af þessu tagi þarfnast samstillts átaks vinanna hvar í umdæminu sem þeir búa. Engu að síður sjáum við í núverandi áætlun að aðgerðamynstur sem getur tekið við miklum fjölda byggir á því starfi að koma hverfum og byggðum – stöðum þar sem samleitni andlegra krafta leiðir til hraðra breytinga hjá hópi fólks – á það stig að þau geti viðhaldið öflugu starfi. Kjarni einstaklinga frá hverju þessara svæða tekur á sig ábyrgð á ferlinu sem felst í því að byggja upp getu íbúanna. Það leiðir til þess að breiðari hópur íbúanna tekur þátt í samræðum og starfsemin er gerð aðgengileg heilum hópum í einu – vinum og nágrönnum, hópum ungmenna, heilum fjölskyldum – og það gerir þeim kleift að skilja hvernig hægt er að umbreyta samfélaginu sem þau búa í. Venjan að koma saman til sameiginlegra helgistunda, stundum dögunarbæna, veitir öllum margfalt djúpstæðari tengingu við opinberun Bahá’u’lláh. Ríkjandi hefðir, venjur og talsmáti, allt verður þetta móttækilegt fyrir breytingum – ytri birting mun dýpri innri umbreytingar sem snertir margar sálir. Böndin sem tengja þær verða ástríkari. Eiginleikar gagnkvæms stuðnings, gagnvirkra samskipta og þjónustu hvers við annað fara að koma í ljós sem einkenni líflegrar menningar sem er að koma fram meðal þeirra sem taka þátt í starfinu. Vinirnir á slíkum stöðum hjálpa umdæmisaðilum að breiða vaxtarferlið út til annarra staða innan umdæmisins því þeir vilja gjarnan kynna öðrum sýnina á umbreytinguna sem þeir sjálfir hafa þegar komið auga á.
Þegar átrúendurnir leggja sig fram finna þeir móttækileika meðal ákveðinna íbúa sem eru af sérstöku þjóðerni, ættbálki eða úr öðrum hópum og geta verið samankomnir á litlu svæði eða víðs vegar í umdæminu og vel utan þess. Margt er ólært um öflin sem eru til staðar þegar íbúahópur af þessum toga játast trúnni og upptendrast af upplýsandi áhrifum hennar. Við leggjum áherslu á þýðingu þessa starfs til að efla málstað Guðs: sérhver maður á sinn skerf í heimsskipun Bahá’u’lláh og allir verða að safnast saman undir fána einingar mannkyns. Þegar fyrst er reynt á kerfisbundinn hátt að ná til íbúahóps og hlúa að þátttöku hans í hæfnisuppbyggingu eykst hraðinn merkjanlega þegar meðlimir þessa hóps eru sjálfir í fremstu röð átaksins. Þessir einstaklingar fá sérstaka innsýn í þá krafta og samsetningu samfélags síns, sem getur á ýmsa vegu styrkt þá viðleitni sem er í gangi.
Eftir því sem vöxturinn í umdæminu eykst frekar eru auknar kröfur gerðar til skipulagsáætlunar þjálfunarstofnunar. Þörf er á viðbótar umsjónarmönnum og sumir þeirra gætu einbeint kröftum sínum að sérstökum hlutum umdæmisins. Samt sem áður þarf þetta ekki að leiða til nýs stjórnunarþáttar. Mörgu er hægt að koma til vegar með samvinnu þegar umsjónarmenn byrja að starfa saman í hópum, stundum með hjálp annarra hæfileikaríkra einstaklinga. Áframhaldandi samskipti og gagnkvæm deiling reynslu innan þessara hópa auka stöðugt skilning og efla virkni þjónustunnar. Umsjónarmennirnir eru einnig að uppgötva að viðleitni þeirra getur orðið áhrifaríkari ef þeir sem búa nálægt hver öðrum og þjóna sem barnakennarar, hvetjarar og leiðbeinendur geta hist í litlum hópum á svæðinu sem þeir þjóna og aðstoðað hver annan.
Í millitíðinni er starf umdæmiskennslunefndarinnar að komast á nýtt stig. Hún fæst við ítarlegri könnun á kringumstæðum í öllu umdæminu. Annars vegar metur hún af nákvæmni hæfni samfélagsins og áhrifin af stöðugum og viðvarandi vexti, og hins vegar aflar hún skilnings á hvaða þýðingu ýmsar hliðar hins þjóðfélagslega veruleika hafa í þágu samfélagsuppbyggingar til lengri tíma litið. Í þeim áætlunum sem hún gerir fyrir hverja vaxtarbylgju treystir nefndin á þá sem axla þyngstu ábyrgðina af útbreiðslu- og treystingarstarfinu. Mjög hefur fjölgað í hópi þeirra sem tengjast á einhvern hátt starfsmynstrinu og þess vegna verða ýmsar spurningar áleitnar: Hvernig á að kalla til starfa heilan hóp vina til stuðnings kennslumarkmiðunum; hvernig á að skipuleggja kerfisbundnar heimsóknir á heimili til vina sem hefðu gagn af dýpkun og umræðum sem tengja þá samfélaginu; hvernig á að styrkja andleg tengsl við foreldra barna og unglinga; hvernig á að efla áhuga þeirra sem hafa sýnt trúnni velvilja en ekki enn tekið þátt í starfi hennar. Að stuðla að útbreiddara helgistundahaldi er einnig umhugsunarefni og markmiðið er að hundruð og loks þúsundir taki þátt í tilbeiðslu með fjölskyldum sínum og nágrönnum. Loks verður nefndin auðvitað stöðugt að horfa til þess að efla viðleitni samfélagsins með það fyrir augum að æ fleiri sálir kynnist boðskap Bahá’u’lláh. Þegar hún tekst á við flókin verkefni í starfi sínu – sem felst í að safna tölfræðigögnum og greina þau, sem og ýmsum öðrum verkefnum – nýtir nefndin sér einnig aðstoð utanaðkomandi fólks. Þessi flóknu verkefni gera líka kröfu til aukins samstarfs við andleg svæðisráð.
Svæðisráðið eykur að sínu leyti getu sína og hæfni til þess að sinna ýmsum ábyrgðarstörfum í þágu stækkandi samfélags og til að bregðast við vaxandi fjölda þeirra sem sækja starfsemina. Það reynir af mætti að skapa umhverfi þar sem allir finna hjá sér hvöt til að leggja sitt af mörkum í sameiginlegu starfi. Það vill gjarnan sjá umdæmisaðila ná árangri í áætlunum sínum og góð þekking þess á aðstæðum á svæðinu gerir því kleift að hlynna þar að þróun gagnvirkra ferla. Með þetta í huga hvetur það til heilshugar þátttöku vinanna í kennsluátaki og umdæmissamkomum, sér fyrir efnislegum tilföngum og styður við frumkvæði og viðburði sem skipulagðir eru á svæðinu. Ráðið sér einnig til þess að þörfum nýrra átrúenda sé sinnt af alúð og íhugar hvenær og hvernig megi kynna þeim ýmsar hliðar samfélagslífsins. Með því að hvetja þá til þátttöku í þjálfunarnámskeiðum vill það tryggja strax frá upphafi að þeir líti á sig sem forgöngumenn í göfugri viðleitni við að byggja upp heiminn að nýju. Það sér til þess að nítjándagahátíðir, helgidagahald og bahá’í kosningar verði tækifæri til að festa í sessi háleitar hugsjónir samfélagsins, efla sameiginlega skuldbindingu þess og andleg einkenni. Þegar samfélagið stækkar íhugar ráðið hvenær gagnlegt yrði að dreifa slíkum samfundum til þess að greiða fyrir sífellt meiri þátttöku í þessum mikilvægu viðburðum.
Eftirtektarvert einkenni á þróuðum umdæmum er lærdómshugarfar sem gegnsýrir allt samfélagið og virkar sem hvati á aukna stofnanahæfni. Frásagnir sem gefa innsýn í aðferðir, nálgun eða fullkomna ferla berast stöðugt milli staða þar sem starfsemin fer fram. Umdæmissamkoman, þar sem kapp er lagt á að kynna þennan lærdóm, er oft færð út og samkomur haldnar á smærri svæðum til að skapa ríka ábyrgðartilfinningu hjá þeim sem sækja þær. Þessi tilfinning um sameiginlega eign og ábyrgð verður augljósari frá einni bylgju til annarrar – aflið sem leysist úr læðingi þegar sameinaður hópur kvenna og karla annast sinn eigin andlega þroska kynslóð eftir kynslóð. Um leið og þau gera þetta upplifa þau þann stuðning sem bahá’í svæðis- og þjóðarstofnanir veita þeim sem þrotlausan straum ástar.
Eðlilegur árangur vaxtar bæði hvað varðar tilföng og vitund um þýðingu opinberunarinnar fyrir líf fólksins, er hræringar á sviði félagslegra aðgerða. Ekki ósjaldan sprettur slíkt frumkvæði með lífrænum hætti af verkefninu fyrir andlega eflingu unglinga eða skapast með samráði um svæðisbundnar aðstæður sem verður á samfélagsfundum. Formið sem slík viðleitni kann að taka á sig er fjölbreytt og felur m.a. í sér aðstoð við barnakennslu, verkefni til umbóta á efnislegu umhverfi og starf sem miðar að bættri heilsu og sjúkdómavörnum. Sum þessara frumkvöðlaverkefna verða viðvarandi og vaxa smám saman. Sums staðar hafa samfélagsskólar verið stofnaðir í grasrótinni vegna aukins áhuga á viðeigandi uppfræðslu barna og vitund um mikilvægi hennar sem flæðir eðlilega frá því að vinna með námsefni þjálfunarstofnunar. Stundum getur viðleitni vinanna styrkst mjög með starfi rótgróinna samtaka í nágrenninu sem byggja á bahá’í viðhorfum. Hversu lítið sem samfélagsstarf af þessu tagi kann að láta yfir sér í byrjun er það vísbending um að fólk sé að rækta með sér þýðingarmikla hæfni, sem felur í sér takmarkalausa getu og þýðingu fyrir komandi kynslóðir, þ.e. lærdóm um hvernig beita megi opinberuninni á margvíslegustu hliðar þjóðfélagslífsins. Allt slíkt frumkvæði verður einnig til þess að bæta mjög þátttöku einstaklinga og hópa í ríkjandi umræðu ytra samfélagsins. Eins og vænta má dragast vinirnir inn í atburðarás og líf samfélagsins. Þessi þróun er inngróin starfsmynstri umdæmisins frá upphafi en verður miklum mun sýnilegri.
Að framþróun hjá samfélagshóp hafi náð þetta langt, sýnir að ferlið sem kom henni til leiðar er nægilega sterkt til að framkalla og viðhalda mikilli þátttöku á öllum sviðum hæfnisuppbyggingar, og ræður við svo margbrotið umfang. Þetta er enn annar áfangi sem vinirnir þurfa að ná, sá þriðji frá því að vaxtarferli hófst í umdæminu. Þetta er til marks um kerfi sem getur fært út kvíarnar, frá einum stað til annars, þróttmikla fyrirmynd að samfélagslífi sem getur virkjað fólk – karla og konur, ungmenni sem fullorðna – í að sinna eigin andlegu og félagslegu umbreytingu. Þetta hefur þegar gerst í um 200 umdæmum við margs konar félagslegar og efnahagslegar kringumstæður, og í lok þeirrar áætlunar sem fer í hönd gerum við ráð fyrir að það megi sjá í nokkur hundruð umdæmum til viðbótar. Þessari framtíð geta vinirnir sem leggja hart að sér í þúsundum umdæma annars staðar leitast við að ná.
Í sumum þeirra umdæma þar sem vöxtur hefur náð þessu stigi, hefur átt sér stað þróun sem er jafnvel enn meira hrífandi. Innan þessara umdæma eru staðir þar sem verulegt hlutfall allra íbúanna tekur nú þátt í starfi að samfélagsuppbyggingu. Sem dæmi má nefna lítil byggðarlög þar sem þjálfunarstofnuninni hefur tekist að fá öll börn og unglinga inn í starfið. Þegar starfið nær til margra verða samfélagsáhrif trúarinnar augljósari. Bahá’í samfélagið öðlast hærri stöðu sem afgerandi siðferðileg rödd í lífi þjóðfélagsins og getur lagt fram upplýsandi sjónarmið í ríkjandi umræðu um samfélagsmál, til að mynda um þroska yngri kynslóðarinnar. Áhrifafólk í ytra samfélaginu byrjar að nýta sér skilning og reynslu af frumkvæði samfélagsstarfsins sem á rót sína í kenningum Bahá’u’lláh. Áhrif þeirra kenninga gegnsýra samræður um almannaheill hjá sífellt breiðari hóp – þverskurði samfélagsins – að því marki að hægt er að hafa áhrif á almenna samfélagsumræðu. Út fyrir raðir bahá’í samfélagsins er fólk farið að horfa til andlega svæðisráðsins sem skínandi uppsprettu af visku sem það getur sótt í.
Við gerum okkur grein fyrir að slík þróun er víða enn fjarlæg framtíðarsýn, jafnvel í umdæmum þar sem aðgerðamynstrið nær til mikils fjölda. En sums staðar er þetta viðfangsefni stundarinnar. Í þannig umdæmum halda vinirnir áfram með vaxtarferlið jafnframt því sem önnur bahá’í viðfangsefni af nýjum víddum taka æ meiri skerf af athygli þeirra. Þeir leita skilnings á því hvernig hópur fólks, sem nær að blómstra á sínum heimaslóðum, getur umbreytt samfélaginu sem það er óaðskiljanlegur hluti af. Það verður ný framlína lærdóms í nálægri framtíð og skilningurinn á því mun nýtast gervöllum bahá’í heiminum.
Að leysa krafta unga fólksins úr læðingi
Frábær þrekvirki ungmenna á vettvangi þjónustu eru meðal ágætustu ávaxta yfirstandandi áætlunar. Ef þörf væri á nokkurri sönnun fyrir þeim einstöku möguleikum sem unga fólkið býr yfir, þá hefur hún óumdeilanlega verið lögð fram. Í kjölfarið af ráðstefnunum sem haldnar voru árið 2013 streymdi orkubylgja inn í starfið sem unnið var í umdæmum, sem sýnir á skýran hátt hvernig samfélag Hins mesta nafns er fært um að mæta æðstu óskum ungs fólks. Hvað það gleður okkur, að eftir að 80 þúsund ungmenni tóku þátt í ráðstefnunum hefur yfir 100 þúsund manna liðsafli til viðbótar bæst við og tekið með þeim þátt í fjölmörgum samkomum sem haldnar hafa verið síðan þá. Ráðstafanir til að hvetja til fullrar þátttöku þessa liðstyrks í starfi samfélagsins hljóta að verða einn af aðalþáttunum í hinni nýju áætlun.
Kappsöm þátttaka ungmenna undirstrikar einnig þá staðreynd að þau bregðast best við í öllum móttækilegum samfélagshópum sem vinirnir hafa reynt að ná til. Í þessu sambandi hefur lærst hvernig ungu fólki er hjálpað að gera sér grein fyrir því sem það getur lagt af mörkum til framfara í samfélagi sínu. Eftir því sem sú vitund eykst, samsamar það sig stefnumiðum bahá’í samfélagsins og lætur í ljós sterka löngun til að ljá krafta sína því verki sem unnið er að. Samræður á þessum nótum kveikja áhuga á hvernig beina megi þeim efnislegu og andlegu kröftum sem því eru tiltækir á þessu æviskeiði í þá átt að þjóna þörfum annarra, sérstaklega þeirra sem eru yngri. Sérstakar samkomur fyrir ungmenni eru nú oftar haldnar í umdæmum, jafnvel í hverfum og smærri byggðarlögum. Þær hafa reynst fyrirtaks tækifæri til að færa aukinn þrótt í þessa áframhaldandi samræðu og eru æ oftar þáttur í atburðum vaxtarbylgjunnar í mörgum umdæmum.
Reynsla bendir til að djúpstæðasta þrá mannsins til starfa verði ekki virkjuð ef umræða um samfélagsumbætur leiðir hjá sér að rannsaka andleg efni. Mikilvægi þeirrar gerðar, að einstaklingur rísi upp til að þjóna og fylgja sálum meðbræðra og systra, þarf að vera samofið því að hann dýpki skilning sinn á hinum guðlegu kenningum og að líf hans endurspegli andlegar eigindir í verki. Eftir að hafa kynnst sýn trúarinnar til handa mannkyni og upphöfnu eðli tilgangs hennar, mun unga fólkið þannig eðlilega langa til að verða að gagni og þjálfunarstofnanir bregðast tafarlaust við þeirri löngun. Að leysa krafta ungs fólks úr læðingi er sannarlega heilög skylda hverrar þjálfunarstofnunar. Að hlúa að þeim kröftum, eftir því sem þeir þróast, er þó á ábyrgð allra stofnana málstaðarins. Vilji sem ungmennin sýna, í hvaða verkefni sem þau velja, getur breitt yfir þá staðreynd að þau þurfa viðvarandi stuðning frá stofnunum og umdæmisaðilum lengur en á fyrstu skrefunum.
Ungmenni styðja einnig hvert annað að þessu leyti, hittast í hópum til frekari lærdóms og til að ræða þjónustu sína, styrkja á gagnkvæman hátt viðleitni sína og efla úrræði, sífellt með það í huga að stækka og víkka vinahópinn. Hvatningin sem skapast á þennan hátt með neti jafningja skapar ungu fólki brýnan valkost við þær háværu raddir sem vísa í gildrur neysluhyggju og hamslausrar afþreyingar en slær jafnframt á kröfur um að líta á aðra sem vonda. Það er með hliðsjón af þeim bakgrunni lamandi efnishyggju og samfélaga sem eru að molna í sundur, sem ljóslega má sjá sérstakt gildi unglingastarfsins nú um stundir. Það veitir ungmennum kjörinn vettvang til að aðstoða þau sem eru yngri en þau sjálf við að standast hin eyðandi öfl sem hafa þau sérstaklega að skotmarki.
Eftir því sem ungmennum miðar áfram á þjónustubrautinni, eru viðfangsefni þeirra fléttuð óslitin inn í starfið í samfélaginu og af því leiðir að allt samfélagið dafnar sem samstæð heild. Samband við fjölskyldur ungs fólks er eðlileg leið til að styrkja samfélagsuppbygginguna. Stofnanir og aðrir starfsaðilar standa frammi fyrir þeirri áskorun að þurfa að bæta eigin hæfni, eigi þeim að takast að finna kerfisbundnar leiðir til að virkja það sem í unga fólkinu býr. Með því að gera sér betur grein fyrir aðstæðum og kröftum þessa aldurshóps má skipuleggja á viðeigandi hátt og t.d. gefa ungmennum færi á að fara rösklega í gegnum námskeiðin, hugsanlega í beinu framhaldi af ungmennasamkomu. Þegar samfélag fær innblástur af kraftinum frá fjörmiklum ungmennahópi getur það hert á starfinu í umdæminu.
Þótt rétt sé að vænta mikils af þeim sem hafa svo mikið fram að færa á þjónustubrautinni, verða vinirnir að forðast þrönga sýn á hvað þroski til fullorðinsára felur í sér. Frelsi til að ferðast og geta ráðstafað tíma sínum gerir mörgum ungmennum fært að þjóna á þann hátt sem tengist beint þörfum samfélagsins en þegar komið er fram yfir tvítugsaldur víkkar sjóndeildarhringur þeirra. Ný svið sem tengjast æviferlinum, og eru jafn krefjandi og lofsverð, gera nú tilkall til athygli þeirra. Frekara nám, hvort heldur fræðilegt eða verklegt eftir atvikum, verður hjá mörgum fremst í forgangsröðinni og ný svið opnast fyrir samskipti við þjóðfélagið. Enn fremur verður ungt fólk, konur og karlar, sér afgerandi meðvitað um brýna áeggjan Hins æðsta penna um að ganga í hjónaband: „Gangið að eigast ... svo að afkomendur yðar megi minnast mín meðal þjóna minna“, en einnig um að „fást við iðnir og starfsgreinar“. Þegar ungmenni eru komin út í atvinnulífið leitast þau að sjálfsögðu við að leggja af mörkum á sínu sviði eða jafnvel þróa það í ljósi þeirrar innsýnar sem þau öðlast við áframhaldandi rannsóknir á opinberuninni, og þau leggja sig fram um að vera fyrirmyndir um hæfni og heilindi í starfi sínu. Bahá’u’lláh ber lof á þá sem „vinna fyrir sér með köllun sinni og verja ávöxtum erfiðis síns á sjálfa sig og ættingja sína, sakir ástar á Guði, Drottni allra veraldanna“. Þessi kynslóð ungmenna mun stofna fjölskyldur sem tryggja undirstöður blómstrandi samfélaga. Vegna vaxandi ástar þeirra á Bahá’u’lláh og persónulegrar helgunar þeirra við mælikvarðann sem Hann setur þeim munu börn þeirra „drekka í sig ást Guðs með móðurmjólkinni“ og ævinlega leita skjóls í guðdómlegum lögum Hans. Það er því ljóst að ábyrgð bahá’í samfélagsins gagnvart ungu fólki lýkur ekki þegar það fyrst byrjar að þjóna. Þær mikilvægu ákvarðanir sem það tekur um stefnu á fullorðinsárum sínum munu skera úr um hvort þjónusta þeirra við málstað Guðs hafi aðeins verið stuttur minnisstæður kafli á yngri árum eða þungamiðja jarðneskrar tilvistar þeirra, linsa sem setur allar gerðir þeirra í fókus. Við treystum á ykkur og aðstoðarráðgjafa ykkar að tryggja að andlegum og efnislegum framtíðarmöguleikum ungmenna sé gefinn nægilegur gaumur við yfirvegaða umfjöllun hjá fjölskyldum, samfélögum, starfsaðilum og stofnunum.
Að byggja upp hæfni hjá stofnunum
Kröfur yfirstandandi áætlunar, að stofna til þúsunda vaxtaráætlana og efla þær sem fyrir eru, útheimtu afburða styrk og samhæfingu af hálfu þjóðar- og landshlutaráða, og ykkar sjálfra. Sameiginlegur samvinnuandi hinna þriggja höfuðpersóna í áætluninni – einstaklingsins, samfélagsins og stofnananna – gerði þetta mögulegt. Sá andi var forsenda allra mikilvægra verkefna, þ.á.m. sérstakra aðgerða til að brautryðjendur settust að í völdum löndum, og að sjálfsögðu þess að skipuleggja 114 ungmennaráðstefnur. Vegna ríkjandi viðhorfs sem einkenndist af glaðværri þjónustu, sveigjanleika og því að setja ekki eigin óskir í forgang, einkenndust jafnvel venjubundin stjórnunarstörf af helgun. Nýjar kröfur áætlunarinnar sem fer í hönd munu vafalaust reyna enn frekar á getu bahá’í stofnana en hvernig sem allt veltist munu þær örugglega viðhalda þessum einingaranda allra sem vinna saman.
Eins og bent hefur verið á veltur samfella í þróun umdæma á að til staðar sé skuldbinding af hálfu stofnananna til að leiða og styðja umdæmisaðilana, og skaffa eftir þörfum nauðsynleg úrræði. Sú vinna er þýðingarmikið ábyrgðarsvið bahá’í landshlutaráðanna og þjálfunarstofnana á þeirra vegum. Fjöldi landshlutaráða í heiminum jókst úr 170 í 203 á síðastliðnum fimm árum sem endurspeglar vaxandi þörf og getu til að sinna störfum á því stigi. Í nokkrum löndum þar sem enn er eftir að stofna slík ráð voru stigin ákveðin skref til að byggja upp reynslu þar sem þeirra er að vænta, s.s. að stofna samstarfshópa fyrir landshlutann. Sums staðar þar sem um er að ræða stór landflæmi hafa landshlutaráð gert ráðstafanir til að hlúa að þróun hjá nokkrum samliggjandi umdæmum. En í smærri löndum sem ekki þurfa á því að halda að þar séu stofnuð landshlutaráð, huga þjóðarráð í auknum mæli að því hvernig aðstoða megi umdæmi við að taka framförum, í sumum tilvikum með því að stofna starfshóp sem falið er það verkefni. Þið eruð hvött til að örva lærdóm á þessu sviði í því augnamiði að í fyllingu tímans verði hægt að setja niður formlegt fyrirkomulag fyrir sams konar ábyrgðarsvið og landshlutaráðin hafa í öðrum löndum. Og rétt eins og hjá landshlutaráðunum gerum við ráð fyrir að sú nýja eining sem kemur fram á landsvísu muni njóta góðs af gagnkvæmum samskiptum við stofnun ráðgjafanna.
Til þess að landshluta- og þjóðarstofnanir geti rækt skyldur sínar svo vel sé, þarf þeim að vera fullkunnugt um framvindu mála í grasrótinni og lærdóminn sem fer fram í umdæmum sem þær hafa umsjón með. Greiður aðgangur að upplýsingum um þróun innan umdæma og starf þjálfunarstofnunar í lögsögu þeirra er nauðsynlegur til þess að stofnanir geti stutt starfsaðila sína og tekið þær fjölmörgu ákvarðanir sem lúta til dæmis að brautruðningi, ráðstöfun fjármagns, gerð og kynningu bahá’í lesefnis og tilhögun stofnanafunda. Þetta gerir þeim kleift að fá skýra sýn á það sem er að gerast í samfélögum þeirra og bregðast við á grundvelli augljósra þarfa þegar kröftum vinanna er beint að brýnum og aðkallandi málefnum. Á ýmsum tímum kann þjóðarráð í samráði við ykkur að telja æskilegt að taka upp og miðla með formlegum hætti ákveðnum þáttum fenginnar reynslu, sérstaklega í tengslum við skipulagningu á umdæmis- og landshlutasviði. Þörfin fyrir glöggar upplýsingar um uppsafnaða reynslu samfélagsins hefur sérstaka þýðingu fyrir þjóðarráð í stærri löndum þar sem nokkur landshlutaráð eru starfandi, ekki síst þegar þjóðarráðið hefur falið þessum ráðum stjórn þjálfunarstofnunar. Þar hefur nýtt fyrirkomulag á þjóðarsviði stundum reynst nauðsynlegt til þess að þjóðarráðið fái sannferðuga greiningu á þeim lærdómi sem fram fer í öllum landshlutum.
Auðvitað ber andlegt þjóðarráð endanlega ábyrgð á ræktun allra þáttanna í þróun bahá’í samfélagsins. Þótt það fari sjálft ýmsar leiðir í aðgerðum uppfyllir það í mörgum tilvikum þessa ábyrgð með því að tryggja að landshlutaráð eða sérhæfðir aðilar geti gripið til ráðstafana til að sinna þeim sérstöku verkefnum sem þeim er treyst fyrir. Þegar hæfni vinanna eykst og samfélagið stækkar verður starf þjóðarráðsins að sama skapi flóknara á fjölmörgum sviðum. Af þessum sökum og með hliðsjón af umfangi verkefnisins sem blasir við stofnunum í næstu áætlun mun það gagnast andlegu þjóðarráðunum – og landshlutaráðunum – að íhuga öðru hverju í samvinnu við ykkur hvort hægt sé að breyta stjórnunarháttum sínum eða bæta þá og reyndar sitt eigið innra starf þannig að það komi vaxtarferlinu að meira haldi.
Brýna nauðsyn ber einnig til að þjálfunarstofnanir hefji sig upp á hærri svið í starfi sínu. Viðleitni samfélagsins til að styrkja vaxtaráætlanir í þúsundum umdæma og stuðla að vaxandi krafti þeirra gerir ríkar kröfur til þessara stofnana. Athygli þeirra beinist auðvitað að þróun og viðgangi þrepanna þriggja í menntaferlinu sem þær hafa umsjón með og styrkingu lærdómsferlisins sem þeim tengist en þannig mætti hvort tveggja í senn auka gæðin í starfi þjálfunarstofnunarinnar og hæfnina til að ná til sífellt fleira fólks. Þótt mikilvægt sé að þjálfunarstofnanirnar annist daglegan rekstur, krefst umfang árangursins sem verður að nást þess að þær sinni einnig aðgerðastjórnun. Þjálfunarstofnanir þurfa að eiga stöðugt samráð við umsjónarmenn á þjóðar- eða landshlutasviði, og jafnframt við aðstoðarráðgjafa, um hvernig starfsemi í umdæmum geti sótt í sig veðrið, hvernig hún verði nægilega mönnuð, hvaða nálganir reynist virkar við ýmsar aðstæður, og hvernig hægt verði að deila reynslu með öðrum. Við höfum í huga kerfisbundna og einbeitta viðleitni þessa samstarfshóps við að safna og beita reynslunni sem sprettur úr grasrótinni hvað varðar að efla barnakennslu, unglingahópa og námshringi. Einnig verður nauðsynlegt að beina athyglinni að öðrum starfssviðum þjálfunarstofnunarinnar – og má þar nefna áætlanir um samræmingu á umdæmissviði, aukna hæfni umsjónarmanna og skipulagningu varðandi fjármál og töluleg gögn. Í starfi ykkar með þjálfunarstofnunum viljið þið án efa stuðla að því að þær læri af reynslu annarra þjálfunarstofnana í sama heimshluta. Lærdómssetur sem deila reynslu og lærdómi af unglingaverkefninu bjóða einnig upp á auðugan reynslubrunn fyrir þjálfunarstofnanir nálægra landa eða svæða.
Þegar stofnanir og aðilar á þeirra vegum leitast við að efla útbreiðslu og treystingu í sérhverju landi beinist aukin athygli örugglega að efnislegum tilföngum. Vissulega verður áframhaldandi þróun svæðis- og landsjóða mikilvægur þáttur í aukinni hæfni stofnananna á komandi árum. Til þess að þetta geti gerst verður að nýju að fara þess á leit við allan þorra vinanna að þeir íhugi hvað þeir sjálfir geti lagt af mörkum til að styðja og styrkja starfsemi trúarinnar og hvernig þeir geti stjórnað sínum eigin fjármálum í ljósi kenninganna.
Sú framtíðarsiðmenning sem Bahá’u’lláh sá fyrir sér er farsæl og giftusöm. Þar verða gríðarlegar auðlindir heimsins nýttar í þágu endurnýjunar og upphafningar alls mannkyns, ekki til að niðurlægja það og tortíma því. Þess vegna hefur framlag í sjóðinn djúpa merkingu, það er hagnýt leið til að hraða komu þessarar siðmenningar, og jafnframt nauðsynleg, því eins og Bahá’u’lláh hefur sjálfur útskýrt: „Hann sem er sannleikurinn eilífi – upphafin sé dýrð Hans – hefur ákvarðað að framkvæmd sérhvers verkefnis á jörðu sé háð efnislegum gæðum.“ Bahá’íar lifa lífi sínu mitt í samfélagi sem er í alvarlegri efnahagslegri upplausn. Ferli samfélagsuppbyggingar sem þeir starfa að í umdæmum sínum ræktar viðhorf til auðs og eigna sem eru gjörólík þeim sem tíðkast í heiminum. Sú venja að gefa reglulega í sjóði trúarinnar – þar með talin framlög sem greidd eru í fríðu (þ.e. öðru en peningum, s.s. vöru eða vinnu) sérstaklega á ákveðnum stöðum – stafar af og styrkir tilfinningu persónulegrar umhyggju fyrir velferð samfélagsins og framþróun málstaðarins. Skyldan til að leggja fram í sjóðinn er, líkt og skyldan til að kenna, grundvallarþáttur bahá’í einkenna sem styrkir trúna. Skoða má fórnfús og örlát framlög hvers átrúanda, þá sameiginlegu vitund sem samfélagið stuðlar að varðandi þarfir sjóðsins, og skilvirka ráðsmennsku efnislegra gæða af hálfu stofnana trúarinnar sem ástarjátningu sem tengir þessa þrjá gerendur nánar saman. Gjöf sem gefin er af frjálsum og fúsum vilja eflir ekki síst vitundina um að góð stjórn eigin fjármála eftir andlegum meginreglum sé ómissandi þáttur samstilltra lífshátta. Hún er samviskuspurning, leið til að sýna í verki hollustu við umbætur á heiminum.
Við beinum þessum orðum til ykkar fullir skilnings á þeirri einstæðu ábyrgð sem þið, aðstoðarráðgjafarnir og aðstoðarmenn þeirra axlið þegar þið hjálpið vinunum við að auka skilning sinn á fjölmörgum sviðum, og auðvitað ekki síst á öflum vaxtarins. Eins og við höfum áður bent á hefur bahá’í samfélagið með stofnun ráðgjafanna eignast kerfi þar sem lærdómur og reynsla sem aðrir afla sér í fjarlægum heimshornum getur komið að gagni í hnattrænu lærdómsferli sem allir fylgjendur Bahá’u’lláh geta tekið þátt í. Þegar dýpri skilningur á fimm ára áætluninni mótast smám saman meðal átrúendanna, skýrist sú innsýn sem fæst með því að beita leiðsögninni, hægt er að færa hana í orð, deila henni og drekka hana í sig. Að þessu leyti stendur samfélag Hins mesta nafns í gríðarlegri þakkarskuld við Alþjóðlegu kennslumiðstöðina sem af svo mikilli natni hefur komið svo mörgu í verk á undanförnum árum til að næra með ástúð og útbreiða af krafti þá lærdómsaðferð sem nú hefur skotið tryggum rótum.
Höfuðþættir komandi áætlunar eru blátt áfram og auðskildir eins og hinna fyrri. Engu að síður verður djúp innsýn í ýmsa efnisþætti hennar að byggja á skilningi á margbrotnum leiðum og aðgerðum til að þróa umdæmin. Við treystum því að stofnun ykkar sem þekkir gjörla viðkomandi leiðsögn aðstoði og upplýsi vinina almennt, stofnanir þeirra og umdæmisaðila sérstaklega, í ráðagerðum þeirra með því að vekja athygli á því sem máli skiptir. Ljóst er þó að þörfin fyrir að aðstoða vinina, í að minnsta kosti 5.000 umdæmum þar sem starfsmynstrið breiðist ört út fer hratt vaxandi, verður veruleg áskorun sem hefur þýðingu fyrir ykkar eigin starfshætti – en þó sérstaklega fyrir aðstoðarráðgjafana. Umdæmi sem eru í fremstu röð í vaxtarferlinu á sínum svæðum munu óhjákvæmilega taka mikinn tíma þeirra en eins munu stjórnarfarslegar ráðstafanir á landshlutasviði þurfa á stuðningi þeirra að halda í æ ríkari mæli. Þeir láta sig varða margt sem gerist í samfélaginu, veita athygli bæði því sem gerist á sérhverju þrepi menntaferlisins og því að styrkja vaxtarbylgjurnar, þeir stuðla að samræmingu í starfinu sem fer fram í umdæminu – og tendra eld ástríðu á kennslunni. Þegar þeir rækja ábyrgð sína, hlynna að lærdómi og hjálpa vinunum að ganga inn á vettvang þjónustu, nýta þeir sér þjálfunarstofnunina til hlítar en þættir í starfi hennar eru nátengdir þeirra eigin starfi. Önnur skyldustörf þeirra eru jafn krefjandi. Sem slíkir þurfa þeir að íhuga hvernig þeir geti hagnýtt sér hjálp aðstoðarmanna sinna betur og á meira skapandi hátt til að uppfylla þessa viðamiklu ábyrgð. Aðstoðarmönnum má auðvitað fela hvaða verkefni sem er – einföld eða flókin, almenn eða mjög sértæk – og í þessari fjölhæfni felst eindreginn styrkur. Þar sem sumir aðstoðarmenn gætu verið uppteknir af þróun svæðissamfélags, mætti fela öðrum verkefni sem tengjast öllu umdæminu. Með því að setja þá vel inn í starfið, leiðbeina þeim á réttan hátt þegar hæfnin vex og auka smám saman við skyldur þeirra geta aðstoðarráðgjafarnir verið betur í stakk búnir til að nota þá möguleika sem fyrir hendi eru. Vissulega verður hægt að draga af þessu mikinn lærdóm og þið eruð hvött til að læra af reynslu aðstoðarmanna ykkar.
Tímabil sérstakra krafta
Kerfisbundin framkvæmd áætlunarinnar í öllum sínum margbreytileik skapar mynstur sameiginlegrar viðleitni sem einkennist ekki aðeins af rækt við þjónustu heldur einnig af löngun til tilbeiðslu. Á næstu fimm árum verður þetta starf að eflast og þá mun það auðga enn frekar tilbeiðslulífið sem þeir sem þjóna hlið við hlið í umdæmum um allan heim eiga sameiginlegt. Þetta auðgunarferli er þegar langt komið. Sjáið til dæmis hvernig tilbeiðslusamkomur eru orðnar hluti af grunnstarfi samfélagsins. Helgistundir eru viðburðir sem allar sálir geta sótt. Þar geta þær andað að sér hinum himneska ilmi, kynnst sætleika bænarinnar, hugleitt hið skapandi orð, svifið á vængjum andans og samneytt Ástvini sínum. Tilfinningar vináttu og sameiginlegs málstaðar skapast, sérstaklega í andlega upphafinni samræðu sem eðlilega á sér stað á slíkum stundum og sem getur opnað leið að „borg mannshjartans“. Tilbeiðslusamkomur þar sem fullorðnir og börn af öllum bakgrunni eru boðin velkomin laða hvarvetna fram anda Mashriqu’l-Adhkár. Þegar tilbeiðsla eykst og styrkist í bahá’í samfélagi hefur hún einnig áhrif á nítjándagahátíðina og gerir vart við sig við önnur tækifæri þegar vinirnir koma saman.
Helgidagahald nýtur sérstakrar stöðu í þessu viðfangi. Töflurnar sem lesnar eru, bænirnar, sögurnar, söngvarnir sem sungnir eru og tilfinningarnar sem látnar eru í ljós – allt tjáir þetta ástina á þeim heilögu Verum sem verið er að minnast, lífi þeirra og ætlunarverki. Hjartað er snortið og sálin fyllist lotningu og furðu. Í fimm ára áætluninni sem brátt mun hefjast verða tveir stórviðburðir af þessu tagi, tvö hundruð ár verða liðin frá fæðingu Bahá’u’lláh árið 2017 og frá fæðingu Bábsins árið 2019. Þessar dýrlegu hátíðir gefa bahá’íum í öllum löndum tækifæri til að laða til sín sem allra flesta átrúendur, fjölskyldur sínar, vini og samstarfsmenn auk annarra frá ytra samfélaginu og minnast með þeim stunda, þegar Verund sem á sér engan jafningja í sköpuninni – opinberandi Guðs – fæddist í þennan heim. Að halda þessar tveggja alda minningarhátíðir mun vissulega auka skilning á því hvernig helgidagahaldið, sem nú fer fram samkvæmt tímatali sem sameinar vini Guðs um allan heim, styrkir bahá’í einkenni.
Á árunum sem fara í hönd mun samfélagið reyndar halda röð afmæla sem lýkur með minningarhaldi um hundrað ára ártíð ‘Abdu’l‑Bahá í nóvember 2021 en þá lýkur fyrsta skeiði mótunaraldar trúarinnar. Á næsta ári mun bahá’í heimurinn minnast þess að hundrað ár eru liðin frá því fyrstu töflur hinnar guðlegu áætlunar streymdu frá penna Meistarans. Í fjórtán töflum sem voru opinberaðar á einni dimmustu stund mannkynssögunnar setti ‘Abdu’l‑Bahá fram stofnskrá kennslustarfsins sem skilgreinir starfssvið þess um gervallan heim. Þessi guðlega áætlun var í biðstöðu fram til ársins 1937 þegar fyrstu áætluninni af mörgum var hrundið af stað að tilhlutan Verndarans og hún falin bahá’íum í Norður-Ameríku en á þeim áratugum sem síðan eru liðnir hefur þessi guðlega áætlun haldið áfram að skýrast í augum okkar jafnframt því sem sameiginleg hæfni fylgjenda Bahá’u’lláh hefur aukist og gert þeim kleift að takast á við æ stærri verkefni og mæta sífellt stærri áskorunum. Hversu undursamleg er ekki sýn höfundar áætlunarinnar! Hann leiðir vinunum fyrir augu sýn þess dags þegar ljósið frá opinberun Föður hans mun upplýsa allan heiminn. Hann setur ekki aðeins fram vel útfærða stjórnunaraðferð um hvernig vinna megi þessar dáðir heldur einnig leiðarsnúrur og óbreytanlegar andlegar forsendur. Öll viðleitni vinanna til að útbreiða með kerfisbundnum hætti hinar guðlegu kenningar eiga rætur að rekja til aflanna sem hrundið var af stað í hinni guðlegu áætlun.
Þau hnattrænu verkefni sem fram undan eru og vinirnir verða kallaðir til að vinna krefjast þess að beitt sé stjórnunarlist sem hefur sannað sig, kerfisbundnu starfi, upplýstri greiningu og skarpri innsýn. En umfram allt er þetta samt andlegt framtak og sönn einkenni þess mega aldrei hjúpast myrkri. Hörmulegt ástand heimsins er gleggsti vitnisburðurinn um hversu mikilvægt það er. Allt sem fylgjendur Bahá’u’lláh hafa lært á undanförnum tuttugu árum verður að ná hámarki í afrekum næstu fimm ára. Umfang þess sem þeir eru beðnir að gera kallar upp í hugann eina af töflum Hans þar sem Hann lýsir með eftirminnilegum hætti áskoruninni sem felst í útbreiðslu málstaðar Hans:
Hversu mörg voru ekki löndin sem lágu í órækt og enginn plægði, og hversu mörg löndin sem bæði voru plægð og ræktuð en fengu ekkert vatn, og hversu mörg löndin þar sem enginn var til að sinna uppskerunni þegar hún fór í hönd! Samt ölum Vér þá von í brjósti að með undursamlegri hylli Guðs og opinberun ástríkis Hans megi sálir stíga fram sem eru holdtekjur himneskrar dyggðar, sálir sem ótrauðar kenna málstað Guðs og þjálfa alla sem á jörðu dvelja.
Skipulögð viðleitni ástvina Hans um allan heim miðar að því að láta vonina rætast sem Hin blessaða fullkomnun lét í ljós. Megi Hann sjálfur styrkja þá og styðja við sérhvert tækifæri.
[undirritað: Allsherjarhús réttvísinnar]