Riḍván 2015 – Til bahá’ía um allan heim
Efnisgrein 1
Efnisgrein 2
Efnisgrein 3
Efnisgrein 4
Efnisgrein 5
Efnisgrein 6
Efnisgrein 7
Afritaðu eða deildu hlekk
Afritaðu eða deildu texta með tilvísun
/t/
/t/
Geislandi Riḍvánhátíðin fer í hönd og bjartar horfur blasa við sjónarhring frá þeim hæðum sem samfélag Hins mesta nafns hefur náð. Mikill áfangi er að baki: nýjar vaxtaráætlanir hafa litið dagsins ljós og á meðan hundruð til viðbótar munu birtast næstu tólf mánuðina er þegar komin hreyfing á nauðsynlegt starfsmynstur í nánast öllum umdæmum sem þurfa að ná tölunni 5.000 eins og fimm ára áætlunin gerir ráð fyrir. Áætlanir sem þegar eru í gangi sækja í sig veðrið og sýna margar hverjar hvaða þýðingu það hefur fyrir málstað Guðs að ná betri fótfestu í samfélagslegu umhverfi umdæmisins og innan hverfis eða byggðarlags. Skrefin sem tekin eru í átt að áframhaldandi stórfelldri útbreiðslu og treystingu verða markvissari og kjarkmikil ungmenni ákveða oft hraðann á þeirri vegferð. Þær leiðir sem máttur trúarinnar til samfélagsuppbyggingar getur farið við ýmsar aðstæður eru að koma betur í ljós og þeir skilgreinandi þættir sem verða að marka frekari þróun vaxtarferlisins í umdæminu eru smám saman að verða sýnilegir.
Ákallinu um framkvæmd þessa starfs og stuðning við það er beint til sérhvers fylgjenda Bahá’u’lláh og það mun vekja viðbrögð í sérhverju hjarta sem kennir sársauka vegna þess hörmungarástands sem ríkir í heiminum, og þeirra hryggilegu kringumstæðna sem eru óumflýjanlegt hlutskipti svo margra. Því að endingu er það kerfisbundið, einbeitt og óeigingjarnt starf sem unnið er í víðu samhengi áætlunarinnar sem er uppbyggilegustu viðbrögð sérhvers átrúanda sem lætur sig varða vaxandi meinsemdir þjóðfélags í upplausn. Á síðasta ári hefur það orðið enn augljósara, að meðal ýmissa þjóða og með ýmsum hætti, er það almenna samkomulag um hugsjónir sem hefðinni samkvæmt hefur sameinað þjóðfélagið, að rofna og trosna í vaxandi mæli. Það getur ekki lengur veitt trygga vörn gegn ýmsum sérdrægum, umburðarlausum og eitruðum hugmyndakerfum sem nærast á gremju og óánægju. Í heimi deilna og átaka sem með hverjum degi virðist missa trú á sig sjálfan hafa málsvarar þessara eyðileggjandi kenninga fyllst dirfsku og blygðunarleysi. Við minnumst afdráttarlauss dóms Hins æðsta penna: „Þeir skunda í átt til vítiselds og halda að hann sé ljós.“ Velmeinandi þjóðarleiðtogar og velviljað fólk stendur eftir og reynir að berja í brestina sem blasa við í þjóðfélaginu, vanmegnugir að stöðva útbreiðslu þeirra. Áhrifin af öllu þessu má ekki aðeins greina í beinum átökum eða skipulagshruni. Í vantraustinu sem etur nágranna gegn nágranna og sundrar fjölskylduböndum, í andúðinni sem birtist svo víða í því sem gengur undir nafninu þjóðfélagsumræða, í hugsunarleysinu sem einkennir skírskotanir til lítilmótlegra mannlegra hneigða í því skyni að komast yfir völd og ríkidæmi – í öllu þessu má sjá greinileg merki þess að siðferðisþrekinu, sem ber uppi mannlegt samfélag, er mjög tekið að hraka.
Hughreystingu er þó að finna í þeirri vitneskju að mitt í upplausninni er ný gerð samfélagslífs að mótast sem tjáir á raunhæfan hátt allt sem er himneskt í manninum. Við höfum séð hvernig vinirnir hafa getað varið sig gegn öflum efnishyggjunnar sem hóta að sólunda dýrmætri orku þeirra, sérstaklega þar sem unnið hefur verið stöðugt og af kappi að kennslu og samfélagsuppbyggingu. Ekki aðeins það, heldur með því að hafa hemil á ýmsum öðrum kröfum sem gerðar eru til tíma þeirra, missa þeir aldrei sjónar á þeim heilögu og knýjandi verkefnum sem bíða þeirra. Í hverju samfélagi er nauðsynlegt að sýna þörfum trúarinnar og bestu hagsmunum mannkynsins slíka aðgæslu og eftirtekt. Þar sem vaxtaráætlun hefur verið hafin í áður óopnuðu umdæmi sjáum við hvernig hreyfing kemst á starfið strax í upphafi vegna ástar á Bahá’u’lláh sem býr í hjarta hins helgaða átrúanda. Þrátt fyrir margbrotnara starf sem að endingu kallar á viðbrögð þegar samfélaginu vex fiskur um hrygg, byrjar öll starfsemi með þessum einfalda þræði ástarinnar. Þetta er sá lífsnauðsynlegi þráður sem mynstur þolinmóðrar og einbeittrar viðleitni er ofið með, umferð eftir umferð: að kynna börnum, unglingum og fullorðnum andlegar hugmyndir; að rækta tilfinningu tilbeiðslu með bæna- og helgistundum; að örva samræður sem auka skilning; að fá æ fleiri til að leggja fyrir sig ævilangt nám í hinu skapandi orði og umbreytingu þess í gerðir; að þróa ásamt öðrum hæfni til þjónustu og fylgja hver öðrum eftir í þjálfun þess sem búið er að læra. Elskuðu vinir, ástvinir Abhá fegurðarinnar: Við biðjum einlæglega fyrir því í hvert sinn sem við komum að helgri fótskör Hans að ást ykkar á Honum megi veita ykkur styrk til að helga lífið málstað Hans.
Sú mikla innsýn sem fengist hefur í umdæmum og frá miðstöðvum öflugrar starfsemi innan þeirra, þar sem virkt og kröftugt samfélagslíf hefur náð til stórra hópa, á skilið sérstaka umfjöllun. Það gleður okkur að sjá hvernig menning gagnkvæms stuðnings sem byggir á vináttu og auðmjúkri þjónustu hefur orðið til með eðlilegum hætti á slíkum stöðum og gert æ fleiri sálum kleift að koma með kerfisbundnum hætti inn á vettvang samfélagsstarfseminnar. Við margs konar aðstæður og í ýmiss konar umhverfi virðist hreyfingin í átt að sýn Bahá’u’lláh á nýtt samfélag manna ekki lengur aðeins heillandi horfur til framtíðar heldur vaxandi veruleiki.
Við viljum beina nokkrum orðum til viðbótar til þeirra sem búa við aðstæður þar sem ekki er enn hægt að greina neinar framfarir, og sem þrá breytingu. Verið hughraust. Þetta verður ekki alltaf svona. Er ekki saga trúar okkar full af frásögum um mótdræga byrjun en dásamleg málalok? Hversu oft hefur ekki fáeinum átrúendum – ungum eða gömlum – eða einni fjölskyldu eða jafnvel einni sál, sem styrkt var afli guðlegrar aðstoðar, tekist með gerðum sínum að rækta upp öflug og lifandi samfélög í jarðvegi sem virtist grýttur? Haldið ekki að ykkar tilfelli sé að einhverju leyti öðruvísi. Hvort sem breyting í umdæmi gerist hratt eða með erfiðismunum, gerist hún hvorki með formúlukenndri nálgun eða tilviljanakenndu starfi. Henni miðar áfram í taktföstum hrynjanda verka, íhugunar og samráðs, knúin áfram af áætlunum sem eru ávöxtur reynslunnar. Auk þess og óháð því hver áhrifin verða þegar í stað veitir þjónusta við Ástvininn varanlega gleði andans í sjálfri sér. Verið einnig hughraust vegna fordæmis andlegra skyldmenna ykkar í vöggu trúarinnar, hvernig uppbyggilegt viðhorf þeirra, sveigjanleiki þeirra sem samfélags og staðfesta við boðun hins guðlega orðs eru að koma til leiðar breytingum í hugsun og gerðum í samfélagi þeirra. Guð er með ykkur hverju og einu. Á þeim tólf mánuðum sem eftir eru af áætluninni ætti sérhvert samfélag að þróast og styrkjast frá núverandi stöðu sinni.
Hið brýna starf sem unnið er að útbreiðslu og treystingu leggur traustan grunn að þeim verkefnum sem bahá’í heimurinn er hvattur til að hefjast handa um á fjölmörgum öðrum sviðum. Við Bahá’í heimsmiðstöðina er unnið af kappi við að skrá og efnistaka þúsundir taflna sem mynda þann óendanlega dýrmæta arf, helgitexta trúar okkar, sem varðveittur er til gagns fyrir allt mannkynið. Þetta er gert til að hraða útgáfu helgiritanna bæði á upprunamálunum og í enskum þýðingum. Átaki til að stofna átta tilbeiðsluhús, heilög musteri sem reist eru til dýrðar Guði miðar vel. Ytra samskiptastarf á landsvísu hefur orðið mun áhrifaríkara og stöðugt kerfisbundnara með hvatningu sem gefin er í skjali sem sent var andlegu þjóðarráðunum fyrir sex mánuðum þar sem fjallað er um og dreginn lærdómur af þeirri drjúgu reynslu sem fengist hefur síðustu tvo áratugina og þar sem mynduð er víðari umgjörð um framtíðarþróun þessa starfs. Í millitíðinni hafa tvær nýjar skrifstofur Bahá’í alþjóðasamfélagsins, systurskrifstofur Sameinuðu þjóða skrifstofunnar í New York og Genf og skrifstofunnar í Brussel, verið opnaðar í Addis Ababa og Jakarta. Þannig hafa tækifæri gefist til að miðla betri heildarsýn málstaðarins á alþjóðlegum vettvangi í Afríku og Suðaustur-Asíu. Vegna þeirra krafna sem vöxturinn gerir oft á tíðum hafa nokkur þjóðarráð byggt upp skipulagshæfni sem kemur fram í yfirvegaðri stjórnun þeirra á auðlindum og úrræðum sem þeim standa til boða, viðleitni þeirra til að kynnast náið aðstæðum samfélaga sinna og árvekni þeirra þegar um er að ræða að tryggja öfluga starfsemi þjóðarskrifstofa sinna. Þörfin fyrir að kerfisvæða mikið gagna- og þekkingarmagn sem hefur safnast upp á þessu sviði hefur leitt til þess að við Heimsmiðstöðina hefur verið stofnuð skrifstofa fyrir þróun stjórnkerfa. Frumkvæði að félagslegu starfi af ýmsu tagi heldur áfram að eflast í mörgum löndum og gerir kleift að afla mikillar þekkingar á því hvernig hægt er að beita þeim vísdómi sem kenningarnar geyma til að bæta félagslegar og efnahagslegar kringumstæður. Svo heillavænlegt er þetta svið að við höfum stofnað alþjóðlega ráðgjafanefnd skipaða sjö fulltrúum fyrir Skrifstofu félags- og efnahagsþróunar. Þar með hefur nýtt skref verið tekið í þróun þeirrar skrifstofu. Þrír meðlimir ráðsins munu einnig þjóna í samhæfingarteymi skrifstofunnar og búa í Landinu helga.
Á þessari Riḍvánhátíð sjáum við að þótt mikið verk sé óunnið eru margar hendur tilbúnar til að vinna það. Í þúsundum umdæma, hverfa og byggðarlaga opnast ferskar uppsprettulindir trúar og fullvissu og gleðja sálirnar sem lífgefandi máttur þeirra hefur snortið. Sums staðar eru þær sem stöðugt árrennsli, annars staðar eru þær strax orðnar að fljóti. Nú gefst engri sál tími til að staldra við á bakkanum – öll verðum við að fylgja flæðinu fram á við.