10. júlí 2014 – Til bahá’ía um allan heim
Efnisgrein 1
Efnisgrein 2
Efnisgrein 3
Efnisgrein 4
Efnisgrein 5
Efnisgrein 6
Efnisgrein 7
Efnisgrein 8
Afritaðu eða deildu hlekk
Afritaðu eða deildu texta með tilvísun
/t/
/t/
Sólsetur hinn 20. mars 2015 mun marka lok ársins 171, enda níunda váḥid hins fyrsta kull-i-shay’ bahá’í tímatalsins. Við það heillaríka tækifæri hvetjum við bahá’ía í austri og vestri til að gera þær ráðstafanir sem munu sameina þá í almennri upptöku badí‘ dagatals.
Í samræmi við meginregluna um hvernig kenningar trúarinnar skýrast og öðlast gildi með tímanum hafa ákvæði badí‘ dagatalsins verið lögð fram í tímans rás. Bábinn kynnti dagatalið og hið víðfeðma mynstur tímabila og hringrása, mánaða og daga. Bahá’u’lláh kom með nauðsynlegar skýringar og viðbætur. ‘Abdu’l‑Bahá varpaði ljósi á ákveðin atriði og samkvæmt fyrirmælum frá Shoghi Effendi var það tekið upp á Vesturlöndum eins og lýst er í bindum The Bahá’í World. Þó voru nokkur vafaatriði enn óleyst hvað varðaði nokkrar íslamskar og gregorískar dagsetningar sem og vandkvæði við að samræma sögutengdar hátíðir og stjarnfræðilega atburði sem eru nákvæmlega tilgreindir í ritunum. ‘Abdu’l‑Bahá og Shoghi Effendi ætluðu báðir Allsherjarhúsi réttvísinnar að svara spurningum um dagatalið. Til að það geti komist í almenna notkun þarf sérstaklega að skýra þrjú atriði þess af mörgum: hvernig eigi að tímasetja naw-rúz, hvernig eigi að laga hin tungltengdu tvenndarafmæli að sólarárinu og hvernig ákveða eigi dagsetningar helgidaga badí‘ dagatalsins.
„Naw-rúz hátíðin fellur á daginn sem sólin gengur inn í merki hrútsins,“ útskýrir Bahá’u’lláh í helgustu bók sinni, „jafnvel þótt slíkt gerist aðeins einni mínútu fyrir sólarlag.“ Smáatriðin hafa þó verið óskilgreind þar til nú. Við höfum ákveðið að Teheran, fæðingarstaður Abhá fegurðarinnar, eigi að vera sá staður á jörðinni sem muni þjóna sem viðmiðun til að ákveða með stjarnfræðilegum útreikningum ábyrgra aðila stund vorjafndægurs á norðurhveli og þar með dagsetningu naw-rúz fyrir bahá’í heiminn.
Í Austurlöndum hafa tvenndarafmælin, fæðingarhátíðir Bábsins og Bahá’u’lláh, verið haldin samkvæmt hefðinni á dögum sem svara til fyrsta og annars dags muḥarram í dagatali íslams. „Þessir tveir dagar eru sem einn fyrir augliti Guðs,“ lýsir Bahá’u’lláh yfir. Þó segir í bréfi sem ritað var fyrir hönd Verndarans: „Án vafa munu allir helgidagarnir fylgja sólardagatalinu í framtíðinni og ákvæði sett um hvernig tvenndarhátíðirnar verði hvarvetna haldnar.“ Hingað til hefur því verið ósvarað hvernig hægt sé að uppfylla eðli þessara blessuðu daga, sem snýr að tunglstöðu, í samhengi við sólardagatal. Við höfum ákveðið að þeir verði nú haldnir á fyrsta og öðrum degi eftir að nýtt tungl hefur birst í áttunda sinn eftir naw-rúz samkvæmt fyrir fram reiknuðum stjarnfræðitöflum þar sem miðað er við Teheran. Af þessu leiðir að tvenndarafmælin færast frá ári til árs milli mánaðanna mashíyyat, ‘ilm og qudrat samkvæmt badí‘ dagatali eða frá miðjum október fram í miðjan nóvember miðað við gregorískt tímatal. Á næsta ári verður fæðingardagur Bábsins 10. qudrat og fæðingardagur Bahá’u’lláh 11. qudrat. Með gleði og mikilli eftirvæntingu horfum við til þess að allur bahá’í heimurinn muni halda upp á 200 ára fæðingarhátíðir Bahá’u’lláh og Bábsins árin 174 og 176 e.B. út frá sameiginlegu dagatali.
Dagsetningar annarra helgidaga verða fastsettar innan sólardagatalsins í samræmi við skýrar yfirlýsingar Bahá’u’lláh, ‘Abdu’l‑Bahá og Shoghi Effendi og lagt verður af ákveðið misræmi sem verið hefur. Um er að ræða naw-rúz á fyrsta degi bahá, Riḍván hátíðina 13.-5. jamál, yfirlýsingu Bábsins 8. ‘aẓamat, uppstigningu Bahá’u’lláh 13. ‘aẓamat, píslarvætti Bábsins 17. raḥmat, dag sáttmálans 4. qawl og uppstigningu ‘Abdu’l‑Bahá þann 6. qawl.
Að öðru leyti en því sem sérstaklega er breytt með þessum nýju reglum, verða fyrri leiðbeiningar og skýringar á tímatalinu áfram bindandi og eins það hvernig eigi að halda nítjándagahátíðir og helgidaga. Þetta á við um tímasetningu nýs dags við sólsetur, frí frá vinnu og á hvaða tíma vissir helgidagar eru haldnir í heiðri. Í framtíðinni má vel vera að breyting á aðstæðum kalli á frekari ráðstafanir.
Það er augljóst af ákvörðunum sem hér hefur verið lýst að bahá’íar bæði í austri og vestri munu sjá að sumir þættir tímatalsins eru ólíkir því sem þeir hafa vanist. Innsetning daga badí‘ dagatalsins í önnur dagatöl mun færast til eftir tímasetningu naw-rúz. Fjöldi daga ayyám-i-há, aukadaganna, mun verða breytilegur eftir árum í samræmi við tímasetningu vorjafndægurs, árið sem hefst á naw-rúz 172 e.B. mun hafa fjóra slíka daga. Tafla með dagsetningum naw-rúz og hinna helgu tvenndarafmæla næstu hálfa öld verður útbúin í Bahá’í heimsmiðstöðinni og send öllum þjóðarráðum síðar.
Upptaka nýs tímatals í hverju trúarkerfi er tákn um kraft guðlegrar opinberunar til að umskapa mannlegar hugmyndir um efnislegan, félagslegan og andlegan veruleika. Með því eru helgir atburðir dregnir fram, staða mannkynsins í tíma og rúmi endurhugsuð og taktur lífsins lagfærður. Næsta naw-rúz mun marka enn eitt sögulegt skref með því að staðfesta einingu fólks Bahá og útbreiðslu heimsskipunar Bahá’u’lláh.