5. desember 2013 – Til bahá’ía um allan heim

dagsins í dag.

Að öllu þessu gefnu hikum við ekki að viðurkenna að það sem þessi þróun sýnir er framför í hópinngönguferlinu með hætti sem ekki hefur sést áður.

Við hvetjum alla til að íhuga þýðingu átaksins sem samfélag Hins mesta nafns einbeitir sér nú að, tilganginn sem Meistarinn gerði svo oft sitt ýtrasta til að undirstrika á ferðum sínum, og heita því enn og aftur að leggja sinn skerf af mörkum til árangurs þess. „Reynið af öllu hjarta,“ hvatti hann eitt sinn áheyrendur sína, „til að vera viljugir farvegir fyrir gjafmildi Guðs. Því ég segi ykkur að Hann hefur valið ykkur til að vera boðberar ástar um allan heiminn, að vera burðarmenn andlegra gjafa fyrir mennina, að vera tæki til að breiða út einingu og samhljóm á jörðu.“ „Ef til vill,“ sagði hann við annað tækifæri, „getur þessi jarðneski heimur orðið með Guðs vilja sem himneskur spegill, þar sem við getum séð merki um spor guðdómsins og grundvallar­eiginleikar nýrrar sköpunar muni endurspeglast frá sannri ást sem skín í hjörtum manna.“ Að þessu marki snýst öll ykkar viðleitni. Á seinni helmingi fimm ára áætlunarinnar verður kraftur samfélagsuppbyggingar trúarinnar að leysast úr læðingi í þúsundum umdæma, þar sem vaxtarferli þarf að byrja, styrkjast eða breiðast út. Áskorunin sem bahá’í stofnanir og umboðsaðilar þeirra standa frammi fyrir er að koma sér upp leiðum til að fylgja þeim sem ala með sér hreina og einlæga ósk um betri heim, hvar svo sem þeir standa í þátttöku sinni í andlega menntunarferlinu fram til þessa, og hjálpa þeim að umbreyta löngun í raunhæf skref sem með degi hverjum, viku eftir viku leggjast saman og byggja upp lifandi og blómstrandi samfélög. Það er vel viðeigandi að á þessari stundu hafi kynslóð ungmenna vaxið í verki, tilbúin til að eigna sér vaxandi ábyrgð, þar sem framlag hennar til starfsins sem fyrir liggur mun reynast afgerandi á mánuðunum og árunum fram undan. Við munum einlæglega biðja Hinn almáttka í bænum okkar við hina helgu fótskör, að styðja alla þá sem munu verða hluti af þessu afarstóra verkefni, þá sem kjósa sanna velferð annarra fram yfir eigin vellíðan og frístundir og beina augum sínum að ‘Abdu’l‑Bahá sem fyrirmynd lýtalausrar hegðunar, allt þetta svo að „þeir sem ganga í myrkri komist í ljósið“ og „þeir sem eru utanveltu komist í innri hring konungsríkisins“.

[undirritað: Allsherjarhús réttvísinnar]