5. desember 2013 – Til bahá’ía um allan heim
Efnisgrein 1
Efnisgrein 2
Efnisgrein 3
Efnisgrein 4
Efnisgrein 5
Efnisgrein 6
Afritaðu eða deildu hlekk
Afritaðu eða deildu texta með tilvísun
/t/
/t/
Þegar ‘Abdu’l‑Bahá kom aftur til Landsins helga fyrir nákvæmlega hundrað árum að loknum „tímamótaferðalögum“ til Egyptalands og Vesturlanda, forðaðist hann hvers konar formlega viðhöfn eða umstang líkt og hann hafði gert við brottför sína. En tímabilið frá brottför hans að heimkomu markaði nýjan kafla í sögu bahá’í trúarinnar, „dýrlegan kafla“ eins og Shoghi Effendi orðar það, þar sem sáð hafði verið „fræjum möguleika sem engan hafði órað fyrir með hendi sjálfrar Miðju sáttmálans“ í „frjósama akrana“ í vestri.
Frásagnir af ferðum ‘Abdu’l‑Bahá og áhrifunum, sem hann hafði á þá sem hittu hann, eru fjölmargar. Sumir lögðu mikið á sig til komast í návist hans – siglandi, fótgangandi, eða jafnvel undir járnbrautarlestum – og vegna knýjandi þrár þeirra til að hitta hann urðu þeir eftirminnilegir fullorðnum og börnum framtíðarkynslóða. Vitnisburður þeirra sem umbreyttust jafnvel eftir stutta, stundum orðlausa samfundi við ástfólginn Meistara sinn, snertir fólk mjög enn í dag. Alltumlykjandi faðmur trúar Föður hans sannaðist svo ekki varð um villst í fjölbreytilegri fylkingu gesta sem hann tók á móti. Þeir voru ríkir og fátækir, svartir og hvítir, innfæddir og aðfluttir. Það er ekki mögulegt að meta til fullnustu það sem ‘Abdu’l‑Bahá kom í verk á þessu tímabili. Mörg fræjanna sem hann sáði og nærði til fulls þroska með umfangsmiklum bréfaskiptum allt til æviloka blómstruðu í staðföstu samfélagi, fært um að bera mikið vinnuálag komandi ára, styðja fyrstu uppbyggingu bahá’í stjórnskipulags á landsvísu og byrja að uppfylla þrá Meistarans um að hinar guðlegu kenningar yrðu breiddar út til allra borga og stranda á milli.
Á aldarafmæli þessara viðburða hafa vinirnir auðvitað rifjað upp þessi atriði og gert miklu meira þess utan. Eins og við vonuðum hafa þeir beint athygli sinni að verkefnunum sem bíða þeirra og fengið innblástur frá áhrifamiklu fordæmi Meistarans og sígildum ráðum hans. Það hefur glatt okkur sérstaklega að sjá hvernig átak við að veita börnum og ungu fólki andlega menntun hefur blómstrað. Vinnu við að koma á fót tilbeiðsluhúsum, Mashriqu’l-Adhkár, einstaklega mikilvægum stofnunum, sem ‘Abdu’l‑Bahá lagði svo mikla áherslu á meðan á heimsókn hans í Bandaríkjunum stóð, miðar vel áfram í átta löndum. Á sama tíma dafna í öllum löndum helgistundir sem eru samfélagslegur þáttur trúrækninnar. Vaxandi þátttaka bahá’í samfélagsins í þjóðlífinu, sem gerir því kleift að bjóða fram nýja sýn í formlegum og óformlegum umræðum af öllum toga, endurvarpar greinilega djúpri umhyggju ‘Abdu’l‑Bahá fyrir þörfum þessarar aldar. Í umdæmum þar sem þörfin er brýnust, þörf sem skapast af umfangi og krafti starfseminnar, er að koma í ljós margbrotnara samhæfingarskipulag sem hefur orðið til við hægfara lærdómsferli sem átrúendur hafa beitt af þolinmæði. Til vissra svæða í heiminum, þar sem stofnanir hafa umsjón með sérstökum frumkvöðlaverkefnum, streyma ákafir brautryðjendur sem hjálpa til við að leggja grunninn að sjálfbærum vexti og auka umfang þess sem mögulegt er að ná fram í samfélagi. Vinnan við útbreiðslu og treystingu þróast með þrotlausu starfi óteljandi sálna sem hafa með margvíslegum hætti fylgt fordæmi ‘Abdu’l‑Bahá á fórnarbraut. Á ellefta bahá’í heimsþinginu var áberandi augljós aukin hæfni heimssamfélagsins til að aðstoða íbúahópa við að færast nær sýninni sem Bahá’u’lláh setti fram. Sömu hæfni var lýst líflega í myndinni Í framlínu lærdóms og hún rannsökuð til hlítar í skjalinu Innsýn frá framlínu lærdóms. Það skjal hefur ekki aðeins hvatt til djúpra hugleiðinga um kraftana sem hafa áhrif á vöxt heldur einnig um leiðir til að vinna á rótum margra félagslegra meina. Og á lokamánuðum þessa þriggja ára tímabils birtist tilkomumesti vitnisburðurinn um hvernig núverandi kynslóð hefur svarað kalli um þjónustu við mannkyn, kalli sem Meistarinn sjálfur var dæmi um, þegar áttatíu þúsund ungmenni söfnuðust saman á röð ráðstefna á fjögurra mánaða bili á vel yfir hundrað stöðum víðs vegar um allan hnöttinn.
Þótt hver ráðstefna hefði sitt eigið svipmót, áttu þær allar sameiginleg ómissandi einkenni; mikla alúð sem einkenndi undirbúninginn, einhug sem var áþreifanlegur á hverri ráðstefnu, og orkuna sem streymdi þaðan. Í erfiðinu sem þátttakendur lögðu á sig til að komast, má sjá djúpa hollustu þátttakenda. Sumir unnu af mikilli fórnfýsi til að ná saman nægilegu fé af litlum efnum; í öðrum tilvikum fengu vinirnir sérstakt leyfi fyrir ráðstefnunum frá yfirvöldum með því að útskýra göfugan tilgang og heilbrigt eðli viðburðanna. Skipafélög voru talin á að breyta áætlun sinni til að safna saman þátttakendum, og sum ungmenni gengu dögum saman til að komast á vettvang. Fréttir af áhrifunum sem þátttakendur urðu fyrir, sköpunarkraftinum sem var leystur úr læðingi, snertandi vitnisburði við hvert tækifæri og framar öllu, drifkraftinum sem fór í þjónustuverkefni, eru sönnun fyrir að þeir sem voru viðstaddir voru snortnir af andlegum öflum. Þau öfl eru varanlegri, eiga sér dýpri rætur en nokkuð sem gæti verið kallað fram með spennu félagsskapar og miklum fjölda einum saman. Það er mjög uppörvandi að tugþúsundir ungmenna, sem vilja ekki lúta hinu léttvæga eða sætta sig við auðveldan, ríkjandi hugsunarhátt hafa nú komið inn í vítt umfaðmandi umræðu og aðgerðamynstur sem hefur víðtækar afleiðingar hvað varðar að lifa heilsteyptu lífi og vera fulltrúi andlegra og félagslegra umbreytinga. Nýtt stig samvinnu sem þessar ráðstefnur kröfðust af stofnunum til að virkja og leiða svo mikinn fjölda og undirbúa hóp leiðbeinenda til að aðstoða, heilshugar átak samvinnu sem samfélagið þurfti að sýna þegar það galopnaði þátttökulistann og varð vitni að djúpstæðum áhrifum þess og einlæg helgun einstaklinga sem við rannsókn á hugmyndum ráðstefnuefnisins fá kraft til ganga til liðs við þá tugi þúsunda sem einbeita sér að því að ná til hundraða þúsunda annarra – þetta allt saman hefur unnið að umtalsvert aukinni hæfni hinna þriggja aðalgerenda (einstaklings, samfélags og stofnana trúarinnar) sem árangur fimm ára áætlunarinnar veltur á. Og meðan við viðurkennum að ungmennin eru í framlínu þessarar framgöngu, eru sérstök einkenni hennar þau að samfélagið reis upp sem eitt til að styðja, hvetja og keppa að þessum atburðum. Samfélagið gleðst nú yfir að sjá sig sjálft taka framförum sem sjálfstæða, lífræna heild, betur búna að mæta brýnum þörfum dagsins í dag.
Að öllu þessu gefnu hikum við ekki að viðurkenna að það sem þessi þróun sýnir er framför í hópinngönguferlinu með hætti sem ekki hefur sést áður.
Við hvetjum alla til að íhuga þýðingu átaksins sem samfélag Hins mesta nafns einbeitir sér nú að, tilganginn sem Meistarinn gerði svo oft sitt ýtrasta til að undirstrika á ferðum sínum, og heita því enn og aftur að leggja sinn skerf af mörkum til árangurs þess. „Reynið af öllu hjarta,“ hvatti hann eitt sinn áheyrendur sína, „til að vera viljugir farvegir fyrir gjafmildi Guðs. Því ég segi ykkur að Hann hefur valið ykkur til að vera boðberar ástar um allan heiminn, að vera burðarmenn andlegra gjafa fyrir mennina, að vera tæki til að breiða út einingu og samhljóm á jörðu.“ „Ef til vill,“ sagði hann við annað tækifæri, „getur þessi jarðneski heimur orðið með Guðs vilja sem himneskur spegill, þar sem við getum séð merki um spor guðdómsins og grundvallareiginleikar nýrrar sköpunar muni endurspeglast frá sannri ást sem skín í hjörtum manna.“ Að þessu marki snýst öll ykkar viðleitni. Á seinni helmingi fimm ára áætlunarinnar verður kraftur samfélagsuppbyggingar trúarinnar að leysast úr læðingi í þúsundum umdæma, þar sem vaxtarferli þarf að byrja, styrkjast eða breiðast út. Áskorunin sem bahá’í stofnanir og umboðsaðilar þeirra standa frammi fyrir er að koma sér upp leiðum til að fylgja þeim sem ala með sér hreina og einlæga ósk um betri heim, hvar svo sem þeir standa í þátttöku sinni í andlega menntunarferlinu fram til þessa, og hjálpa þeim að umbreyta löngun í raunhæf skref sem með degi hverjum, viku eftir viku leggjast saman og byggja upp lifandi og blómstrandi samfélög. Það er vel viðeigandi að á þessari stundu hafi kynslóð ungmenna vaxið í verki, tilbúin til að eigna sér vaxandi ábyrgð, þar sem framlag hennar til starfsins sem fyrir liggur mun reynast afgerandi á mánuðunum og árunum fram undan. Við munum einlæglega biðja Hinn almáttka í bænum okkar við hina helgu fótskör, að styðja alla þá sem munu verða hluti af þessu afarstóra verkefni, þá sem kjósa sanna velferð annarra fram yfir eigin vellíðan og frístundir og beina augum sínum að ‘Abdu’l‑Bahá sem fyrirmynd lýtalausrar hegðunar, allt þetta svo að „þeir sem ganga í myrkri komist í ljósið“ og „þeir sem eru utanveltu komist í innri hring konungsríkisins“.