17. júlí 2013 – Til bahá’ía um allan heim

ar óréttlátum dómsúrskurði. Enn á ný var Hið mesta hús tekið frá bahá’íunum.

Á næstu árum gerðu átrúendur ítrekaðar tilraunir, undir stjórn Shoghi Effendi, til að ná eigninni aftur til sín. Málið var að lokum tekið upp af Þjóðabandalaginu sem fordæmdi harðlega það óréttlæti sem bahá’í samfélagið hafði orðið fyrir, en það hafði ekki heldur í för með sér neinar úrbætur. En eignarnám á Hinu blessaða húsi og viðbrögð vinanna leiddu þó til annarrar mikilvægrar þróunar sem Shoghi Effendi segir frá í God Passes By:

Það má því segja að athyglin sem trúin hefur fengið með þessum eftirminnilega málarekstri og vörn málstaðarins – málstaðar sannleika og réttlætis – fyrir æðstu dómstólum heimsins hafi orðið til að vekja aðdáun vina hans en slegið felmtri óvini hans. Þetta gerist þrátt fyrir endalausar tafir, mótmæli og undanslátt og augljósa vanhæfni viðkomandi yfirvalda til að framkvæma tilmæli bandalagsráðsins og fastaráðsins.

Nú er ekki ástæða til að sökkva sér í smáatriði þessa „eftirminnilega málareksturs“, en Verndarinn hefur lýst honum nákvæmlega í óviðjafnanlegri lýsingu sinni á fyrstu öld bahá’í trúarinnar. Við viljum aðeins bæta því við að síðan þá hefur Hið æðsta hús ekki verið í eigu bahá’ía. Það hefur í þess stað verið rekið sem trúarleg eign Shí’ah múslima.

Ekki hefur verið mögulegt fyrir vinina að þrýsta á eignarrétt sinn vegna mjög viðkvæmrar stöðu mála í Írak í róstum síðasta áratug. Samt sem áður hafa stofnanir trúarinnar í landinu og einstakir átrúendur verið vakandi gagnvart þróun mála sem vörðuðu öryggi Hins mesta húss og gert allt sem í þeirra valdi hefur staðið til að tryggja vernd þess og varðveislu. Írakar sjálfir hafa ekki verið óvitandi um sögulegt og byggingafræðilegt gildi hússins, þótt þeir hafi ekki vitað um þá sérstöku þýðingu sem Bahá’u’lláh hafði gefið því. Fyrir aðeins ári síðan gaf Fornmunadeild Íraksstjórnar út úrskurð í opinberu málgagni stjórnarinnar, sem tryggja átti bygginguna gegn hvers konar skemmdarstarfsemi. Þessi úrskurður hafði lagagildi. Yfirvöld höfðu þegar snemma á níunda áratugnum sagt húsið vera í góðu ásigkomulagi, gott dæmi um byggingarstíl þess tíma í Írak og höfðu tilnefnt það á minjaskrá.

Það varð því bahá’íum í Bagdað mikið áfall og olli þeim djúpri sorg að uppgötva 26. júní að þessi helgustu híbýli Bahá’u’lláh höfðu nánast verið jöfnuð við jörðu og áttu að víkja fyrir mosku. Það hefur nú verið staðfest að verkið var unnið án lagaheimildar. Svo virðist sem eyðilegging eignarinnar hafi verið skipulögð um nokkurn tíma en mestur hluti verksins var unninn á þremur sólarhringum, 24.-26. júní, með stórvirkum vinnuvélum. Okkur skilst að Fornmunadeildin, sem var með endurbætur á byggingunni í undirbúningi, hafi þegar hafist handa við að rannsaka hvað leiddi til niðurrifsins, koma í veg fyrir byggingu á staðnum og draga til ábyrgðar þá sem að verkinu stóðu.

Það verður æ algengara í heiminum í dag, að svo alvarlegar árásir séu gerðar á helga staði til að vekja æsingaviðbrögð. Bahá’íarnir í Írak, sem notið hafa leiðsagnar Abhá fegurðarinnar, munu að sjálfsögðu sýna gæsku og umburðarlyndi og vonast til að réttlætið sigri. Þeir gera sér ljósa grein fyrir þeirri þungu byrði sem er lögð á herðar þeim af hálfu alls bahá’í heimsins og allra annarra. En ákafi þeirra við þjónustu í samfélagi sínu mun ekki dvína við þetta mótlæti og ekki eru þeir síður meðvitaðir um knýjandi þörf alls mannkyns fyrir að kynnast kenningum Bahá’u’lláh. Til þess að öðlast skilning á því hver þýðing Hins mesta húss er og til að skilja í raun og sannleika óviðjafnanlega þýðingu þessa helga staðar fyrir pílagríma, þarf aðeins að virða fyrir sér viðbrögð fylgjenda Bahá’u’lláh víðs vegar um heiminn við eyðileggingu hússins. Viðbrögð sem sýna göfuglyndi, æðruleysi og traust á Guði. Aðaláhersla þeirra liggur í að opna hjörtun fyrir mikilvægi kenninga Hinnar blessuðu fegurðar. Atburðirnir í Bagdað munu aðeins efla tilfinninguna fyrir mikilvægi þess að vinna þetta verk. Nú, þegar yfirstandandi ungmennaráðstefnur munu knýja áfram framvindu hinnar guðlegu áætlunar, biðjum við almættið að veita af náð sinni vinunum hvarvetna styrk og festu.

Bahá’u’lláh sá fyrir að Hið mesta hús myndi þurfa að þola hræðilega niðurlægingu, en hann sagði einnig að engu skipti hvert mótlætið yrði því málstaðurinn væri verndaður af Guði. Við biðjum því alla átrúendur að herða upp hugann. Í hjartnæmu ávarpi til þessa húss sagði Hin aldna fegurð af fullvissu. „Guð hefur í heimi sköpunarinnar prýtt þig djásni minningar um hann. Slíkt djásn getur enginn maður nokkru sinni svívirt.“ Hann lofaði einnig að hvað sem yfir þetta helga hús dyndi myndi dýrð þess verða tryggð. „Í fyllingu tímans mun Drottinn upphefja það í augum allra manna með valdi sannleikans. Hann mun gera það að gunnfána ríkis síns, helgireitinn sem fylkingar hinna trúföstu hringsóla um.“

[undirritað: Allsherjarhús réttvísinnar]