Allsherjarhús réttvísinnar
1. júlí 2013
Til þátttakenda á fyrirhuguðum 114
ungmennaráðstefnum um allan heim
Ástkæru vinir
Þegar Bábinn steig fram á sjónarsviðið í upphafinni tign sinni aðeins tuttugu og fimm ára gamall til að flytja heiminum byltingarkenndan boðskap sinn voru margir þeirra sem aðhylltust kenningar Hans og breiddu þær út ungir að árum, jafnvel yngri en Bábinn sjálfur. Hetjuskapur þeirra sem gerður er ódauðlegur í öllum sínum dýrðarljóma í bókinni Dagboðar lýsir upp annála mannkyns um ókomnar aldir. Þannig var mótað mynstur sem gefur öllum kynslóðum ungmenna tækifæri til að leggja af mörkum til nýjasta áfangans í ferli sem er að þróast og á eftir að umbreyta lífi mannkyns – ungmennum sem sama guðlega hvöt gæðir eldmóði til að móta heiminn að nýju. Þetta er mynstur sem engum breytingum hefur tekið frá tímum Bábsins til þessarar stundar.
Ævilangt erfiði og fórnir andlegra fyrirrennara ykkar komu því að miklu leyti til leiðar að trúnni tókst að festa rætur í ýmsum löndum og flýtti fyrir því að fram á sjónarsviðið kæmi stefnufast heimssamfélag. Þótt verkefnin sem bíða ykkar séu ekki þau sömu og þeir fengust við er ábyrgðin sem á ykkur hvílir ekki síður brýn. Eftir marga áratugi hefur hnattræn viðleitni þessa útbreidda samfélags til að öðlast dýpri skilning á opinberun Bahá’u’lláh og beita kenningum Hans náð hámarki í öflugri aðgerðaáætlun sem reynslan hefur fágað og fínslípað. Þið eruð lánsöm að hafa kynnst aðferðum hennar og starfsháttum sem nú standa á svo góðum grunni. Með því að sýna þrautseigju við að beita þeim hafa mörg ykkar þegar séð táknin um áhrifamáttinn til samfélagsuppbyggingar sem hinar guðlegu kenningar búa yfir. Á þeim ráðstefnum sem þið sækið er ykkur boðið að íhuga hvað sérhvert ungmenni sem vill svara kalli Bahá’u’lláh getur gert til að hjálpa við að leysa þennan mátt úr læðingi. Ykkur til aðstoðar hafa nokkur þemu verið valin sem þið getið kannað, en það fyrsta fjallar um ykkar eigið aldursskeið.
Um allan heim munu tugþúsundir ungmenna, sem eiga margt sameiginlegt, koma saman á á fjölda ráðstefna sem allar hafa sama markmið. Þótt aðstæður ykkar séu margvíslegar og ólíkar eru löngun til að koma á uppbyggilegum breytingum og hæfni til að veita mikilvæga þjónustu, sem hvort tveggja er einkenni á ykkar aldursstigi, óháðar kynþætti, þjóðerni eða efnislegri getu. Þessi bjarti tími sem þið eigið sameiginlegan fellur öllum í hlut – en þessi tími er stuttur og að honum sækja ýmis þjóðfélagsöfl. Hversu mikilvægt er það því ekki að reyna að tilheyra þeim sem, eins og ‘Abdu’l‑Bahá orðaði það, „tíndu ávexti lífsins“.
Með þetta í huga gleður það okkur mjög að svo mörg ykkar skuli nú þegar vera önnum kafin við þjónustu, vinna að verkefnum sem lúta að samfélagsuppbyggingu og skipuleggja, samræma og hlúa á annan hátt að viðleitni annarra; í öllu þessu starfi leggst vaxandi ábyrgð á ykkar herðar. Ekki er að undra þótt ykkar aldurshópur sé að öðlast mesta reynslu af því að aðstoða unglinga og börn við siðrænan og andlegan þroska þeirra og stuðla að hæfni þeirra til sameiginlegrar þjónustu og sannrar vináttu. Þegar allt kemur til alls getið þið auðveldlega metið mikilvægi andlegrar styrkingar og undirbúnings með þeirri þekkingu sem þið hafið á heiminum sem blasir við þessum ungu sálum með gildrum sínum og tækifærum. Þið vitið að Bahá’u’lláh kom til að umbreyta bæði innra lífi og ytri aðstæðum mannkyns og þið eruð að hjálpa yngra fólki að göfga skapgerð sína og lyndiseinkunn og búa þau undir að takast á herðar sömu ábyrgð á velferð sinna eigin samfélaga. Þegar þau komast á unglingsárin eruð þið að hjálpa þeim að bæta tjáningu sína og samskiptahæfni og rækta með þeim sterkan siðferðilegan næmleika. Í þessu starfi verður tilfinningin um ykkar eigin tilgang og markmið stöðugt skýrari þegar þið fylgið eftirfarandi boðum Bahá’u’lláh: „Látið gerðir, en ekki orð, vera prýði yðar.“
Að ganga braut þjónustu, hvaða mynd sem hún kann að taka á sig, útheimtir trú og þolgæði. Í þessu sambandi er gagnsemi þess að ganga þjónustubrautina í félagsskap annarra mikil og ótvíræð. Ástrík vinátta, gagnkvæm hvatning og fúsleiki til að læra saman – allt eru þetta eðlilegir eiginleikar sérhvers ungmennahóps sem af einlægni sækir að sama markmiði og þetta ætti líka að setja svip sinn á þau brýnu og ómissandi bönd sem tengja saman ýmsar félagsheildir samfélagsins. Að þessu gefnu vonum við að tengslin sem þið myndið með samskiptum við aðra þátttakendur á ráðstefnunni verði varanleg. Megi þessi vináttubönd og sameiginlega köllun gera ykkur stöðug og staðföst löngu eftir að ráðstefnunum er lokið.
Möguleikarnir sem sameiginleg starfsemi veitir verða sérstaklega áberandi þar sem unnið er að samfélagsuppbyggingu. Þessu ferli er að vaxa ásmegin í mörgum umdæmum og í byggðum og borgarhverfum um allan heim sem hafa orðið miðstöðvar öflugrar starfsemi. Ungmenni eru oft í fararbroddi við þessar sérstöku aðstæður – ekki aðeins bahá’í ungmenni heldur einnig fólk sem er sama sinnis og sér með eigin augum jákvæðu áhrifin af frumkvæði bahá’íanna og skilur þá sýn á einingu og umbreytingu sem býr að baki þessu frumkvæði. Á slíkum stöðum ríkir sterk tilfinning fyrir nauðsyn þess að deila opinberun Bahá’u’lláh með næmum og móttækilegum hjörtum og kanna hvaða þýðingu þessi boðskapur hefur fyrir heiminn í dag. Svo margt í þjóðfélaginu býður upp á tómlæti og sinnuleysi eða, það sem verra er, hvetur til hegðunar sem skaðar mann sjálfan og aðra. Þetta er í hrópandi mótsögn við öflin sem starfa að því að auka hæfni manna til að rækta og viðhalda andlega auðgandi mynstri samfélagslífs.
En þótt margir dáist að krafti ykkar og hugsjónum gerir heimurinn sér almennt ekki grein fyrir sannri þýðingu þessa starfs. Þið eruð samt meðvituð um ykkar þátt í máttugu umbreytandi ferli sem að lokum mun bera ávöxt í heimssiðmenningu sem endurspeglar einingu mannkyns. Þið vitið vel að þær venjur huga og anda sem þið eruð að rækta með ykkur sjálfum og öðrum munu vara og hafa mikilvæg áhrif á ákvarðanir sem snerta hjónaband, fjölskyldu, nám, starf og jafnvel búsetu. Vitund um þetta breiða samhengi hjálpar til við að splundra brenglaðri mynd af hversdagslegum prófraunum, erfiðleikum, bakslögum og misskilningi sem óyfirstíganlegum hindrunum. Og í baráttunni sem hver og einn þarf að heyja í sínum andlega vexti er auðveldara að knýja fram viljann sem þarf til að taka framförum þegar orka hans eða hennar beinist að hærra markmiði – og það enn þá frekar þegar hann eða hún tilheyrir samfélagi sem er sameinað um það markmið.
Allar þessar hugleiðingar eru inngangur að sívaxandi og almennum umræðum sem munu fara fram á ráðstefnunum og löngu eftir að þeim er lokið þegar þið ræðið af alvöru og einlægni við marga aðra. Slíkar samræður lyfta huga og hjarta og vekja til umhugsunar um möguleikana sem fram undan eru. Að sækja þrótt í sameiginlega reynslu mun setja meiri lit á samræður ykkar og gera þær innihaldsríkari. Á þessum heillavænlega tíma erum við með ykkur af hugheilu hjarta og þegar hverri ráðstefnu lýkur hlökkum við til að sjá hvað tekur við af henni. Við biðjum Hinn alvalda að veita þátttakendum á sérhverri ráðstefnu af takmarkalausri náð sinni enda vitum við, eins og þið sjálf, að guðlegri aðstoð er heitið öllum sem svara ákalli Bahá’u’lláh með því að rísa til þjónustu við mannkyn.
[undirritað: Allsherjarhús réttvísinnar]