Allsherjarhús réttvísinnar
2. mars 2013
Til bahá’íanna í Íran
Hjartkæru vinir
Í hálfan fjórða áratug hefur hver ofsóknaraldan á fætur annarri, misjafnlega hatrammar, gengið yfir langhrjáð og frækið samfélag ykkar. Þessi áföll eru þó aðeins hin síðustu í röð þeirra hremminga sem hófust fyrir meira en 150 árum. Þvert á vonir þeirra sem eru staðráðnir í að draga kjarkinn úr samfélagi fylgjenda Bahá’u’lláh í heimalandi Hans hafa vélabrögð þeirra að endingu orðið til þess að styrkja stoðir samfélagsins og þétta raðir þess. Sífellt fleiri samlandar ykkar, sjálfir fórnarlömb kúgunar, gera sér ekki aðeins skýra grein fyrir rangindunum sem hafa verið framin gegn bahá’íum í áranna rás heldur greina þeir einnig uppbyggjandi breytingaröfl í órofa ferli óeigingjarnrar þjónustu ykkar við þjóðfélagið. Samúðin með hlutskipti ykkar fer vaxandi og hið sama gildir um raddirnar sem kalla á að þeim hindrunum verði rutt úr vegi sem koma í veg fyrir þátttöku ykkar í lífi þjóðfélagsins á öllum sviðum þess. Því er ekki að furða þótt spurningar sem varða afstöðu bahá’ía hvarvetna til stjórnmálastarfs hafi orðið þýðingarmeiri í augum samborgara ykkar.
Frá sögulegu sjónarmiði hefur staða íranska bahá’í samfélagsins að þessu leyti auðvitað verið mjög sérstæð. Það hefur annars vegar sætt röngum ásökunum um að láta stjórnast af pólitískum hvötum sem beinast gegn ríkjandi valdhöfum – að vera útsendarar hvers þess erlenda ríkis sem ákærandinn telur best henta áformi sínu. Á hinn bóginn hefur ósveigjanleg afstaða meðlima samfélagsins gegn þátttöku í pólitískum flokkadráttum verið túlkuð sem áhugaleysi á málefnum írönsku þjóðarinnar. Nú þegar flett hefur verið ofan af raunverulegum áformum kúgara ykkar er við hæfi að þið bregðist við auknum vilja samborgara ykkar til að skilja viðhorf bahá’ía til stjórnmála, til þess að ranghugmyndir veiki ekki vináttuböndin sem þið eruð að bindast svo mörgum sálum. Í þessu máli verðskulda þær meira en fáeinar yfirlýsingar sem bregða upp myndum ástar og einingar, hversu mikilvægar sem slíkar yfirlýsingar eru. Til að aðstoða ykkur við að miðla þeim sýn á þá grunnþætti sem móta bahá’í viðhorfin til þessara mála, látum við ykkur í té eftirfarandi minnispunkta.
Ákveðinn skilningur á sögunni, farvegi hennar og stefnu, er óaðskiljanlegur frá bahá’í sýn á stjórnmál. Það er staðföst sannfæring sérhvers fylgjenda Bahá’u’lláh að á þessum tíma sé mannkynið að nálgast sitt hæsta stig í árþúsunda löngu ferli sem hefur fært það frá samfélagslegri bernsku að upphafi fullþroska – stig sem mun verða vitni að einingu mannkynsins. Mannkynið sem heild er mitt í fordæmalausu breytingaskeiði ekki ólíkt einstaklingi sem fer gegnum óstöðugt en þó heillavænlegt tímabil unglingsára þar sem duldir kraftar og geta koma í ljós. Á bak við svo mikið umrót og uppnám í lífi samtímans er óstöðug og skrykkjótt barátta mannkynsins við að ná fullþroska. Almennt viðurkenndir starfshættir og reglur, kær viðhorf og venjur, eru eitt af öðru gerð úrelt, eftir því sem aðkallandi þættir fullþroska byrja að láta til sína taka.
Bahá’íar eru hvattir til að líta á byltingarkenndar breytingarnar sem eiga sér stað á öllum sviðum lífsins sem víxlverkun tveggja grundvallar þróunarferla. Annað er eyðileggjandi í eðli sínu en hitt er sameinandi. Bæði þjóna því að færa mannkynið hvort á sinn hátt eftir brautinni sem leiðir til fullþroska. Virkni þess fyrra er alls staðar augljós – í hverfulleikanum sem hefur þjakað gamalgrónar stofnanir, í getuleysi leiðtoga á öllum sviðum til að lagfæra bresti sem koma fram í formgerð þjóðfélagsins, í niðurrifi á þjóðfélagsreglum, sem hafa lengi haldið ósæmilegum ástríðum í skefjum, og í uppgjöf og tómlæti sem ekki aðeins einstaklingar sýna heldur einnig heilu samfélögin sem hafa tapað nauðsynlegri tilfinningu um tilgang. Þótt niðurbrotsöflin séu átakanleg í áhrifum sínum hafa þau tilhneigingu til að feykja í burtu hindrunum sem koma í veg fyrir framfarir mannkynsins og gefa rými fyrir ferli sameiningar og samvinnu. Sem einstaklingar og samfélag leggja bahá’íar sig auðvitað fram við að skipa sér í flokk með kröftum sem tengjast ferli sameiningar, sem þeir eru sannfærðir um að muni vaxa að styrk, hversu hrjóstrugur sem sjóndeildarhringurinn fram undan er. Mannleg málefni munu verða algerlega endurskipulögð og tími allsherjarfriður verða innleiddur.
Þetta er sýnin á söguna sem liggur að baki öllu sem bahá’í samfélagið tekur sér fyrir hendur.
Eins og þið vitið úr námi ykkar á bahá’í ritningunum mun meginreglan eining mannkynsins, aðalsmerki fullþroskaskeiðsins, hafa áhrif á allar hliðar reglubundins lífs á jörðinni. Að mannkynið sé ein þjóð er sannleikur, sem einu sinni var litið á með efasemdum, en gerir kröfu til almennrar viðurkenningar í dag. Höfnun mjög rótgróinna fordóma og vaxandi tilfinning fyrir heimsborgararétti eru meðal táknanna um þessa auknu vitund. Hversu vænleg sem þessi aukning á samfélagslegri vitund kann að vera, ætti samt að líta á hana sem aðeins fyrsta skrefið í ferli sem mun taka áratugi – nei, aldir – að breiðast út. Því eins og Bahá’u’lláh kunngerði biður reglan um einingu mannkynsins ekki einungis um samvinnu milli þjóðflokka og þjóða. Hún kallar eftir algerri hugmyndaumpólun á tengslin sem halda samfélagi saman. Vaxandi umhverfisvandi drifinn áfram af kerfi sem lætur óátalda rányrkju náttúruauðlinda til að fullnægja ómettanlegum þorsta eftir meiru, gefur til kynna hversu algerlega ófullnægjandi núverandi skilningur á tengslum mannkynsins við náttúruna er. Hnignandi heimilisaðstæður, ásamt vaxandi kerfisbundinni misnotkun á konum og börnum um allan heim sem þeim er samfara, sýna glögglega hversu útbreiddar hinar vanhugsuðu hugmyndir sem skilgreina tengsl innan fjölskyldueiningarinnar eru. Fastheldni við kúgun annars vegar og vaxandi lítilsvirðing gagnvart yfirvöldum hins vegar, sýna hversu ófullnægjandi núverandi tengsl milli einstaklinga og stofnana eru fyrir mannkyn á þroskabraut. Samþjöppun efnislegs auðs í höndum minnihluta íbúa heimsins gefur vísbendingu um hve tengslin innan margra hluta hnattræns samfélags í mótun eru í grundvallaratriðum vanhugsuð. Meginreglan um eind mannkynsins felur því í sér lífrænar breytingar í sjálfri samfélagsuppbyggingunni.
Það sem ætti að koma skýrt fram hér, er að bahá’íar trúa ekki að umbreytingin sem hér er sett fram muni verða að veruleika eingöngu fyrir þeirra eigin viðleitni. Ekki heldur eru þeir að reyna að skapa hreyfingu sem myndi leitast við að þröngva sinni framtíðarsýn upp á samfélagið. Hver þjóð og sérhver hópur – í raun hver einstaklingur – mun í meira eða minna mæli leggja af mörkum til birtingar heimsmenningar sem mannkynið óhjákvæmilega færist að. Einingu verður náð á mismunandi félagslegum sviðum, stig af stigi eins og sagt var fyrir um af ‘Abdu’l‑Bahá, til dæmis „eining á sviði stjórnmála“, „eining hugsunar í hnattrænum viðfangsefnum“, „eining kynþátta“, og „eining þjóða“. Eftir því sem þetta verður að veruleika mun uppbygging á stjórnmálalega sameinuðum heimi smátt og smátt verða að veruleika, heimi sem virðir að fullu menningarlegan margbreytileika og gefur tjáningu á virðingu og heiðri farveg.
Spurningin sem bahá’í samfélagið um allan heim er upptekið af er þá hvernig það geti best lagt af mörkum til samfélagsuppbyggingar eftir því sem mannauður vex. Það sér tvær víddir á framlagi sínu. Hin fyrri er tengd vexti og þróun þess sjálfs og sú seinni tengist þátttöku í þjóðfélaginu í heild.
Varðandi hið fyrra eru bahá’íar um heim allan, í fyllstu hógværð, að leitast við að koma á fót starfsmynstri og samsvarandi stjórnunarþætti, sem felur í sér meginregluna um einingu mannkynsins og sannfæringu sem styður hana og eru fáein dæmi nefnd hér til skýringar: Að vitsmunaleg sál er ekki bundin kyni, kynþætti, þjóðflokki eða stétt, staðreynd sem gerir hvers konar fordóma óþolanlega, ekki síst þá sem hindra konur í að uppfylla getu sína og taka þátt á ýmsum sviðum jafnfætis körlum; að rót fordóma er fáfræði, sem hægt er að útrýma með menntunarferli sem gerir þekkingu aðgengilega öllu mannkyninu og tryggir að hún sé ekki forréttindi fárra; að vísindi og trúarbrögð eru tveir samfallandi þættir þekkingar og iðkunar sem gerir mönnunum fært að skilja heiminn umhverfis þá og siðmenningu fært að þróast; að trú án vísinda úrkynjast fljótt í hjátrú og ofstæki en vísindi án trúar verða tæki grófrar efnishyggju; að sönn velmegun, ávöxtur kröftugs samræmis milli efnislegra og andlegra þarfa lífsins, mun fjarlægjast meir og meir svo lengi sem neysluhyggja heldur áfram að vera eins og ópíum fyrir hina mannlegu sál; að réttlæti sem eiginleiki sálarinnar, gerir einstaklingnum fært að greina rétt frá röngu og leiðir rannsókn hans á veruleikanum, sem er svo ómissandi ef útrýma á hjátrú og úreltum venjum sem hindra einingu; að þegar réttlæti er beitt á viðeigandi hátt á félagsleg málefni, er það eitt og sér þýðingarmesta tækið til að koma á einingu; að verk sem unnið er í anda þjónustu við meðbræður sína er eins og bæn, leið til að tilbiðja Guð. Að breyta hugsjónum eins og þessum í veruleika, leiða af sér umbreytingu á sviði einstaklinga og leggja grunn að viðeigandi samfélagslegri uppbyggingu, er sannarlega ekki lítið verkefni. Þrátt fyrir það er bahá’í samfélagið helgað því langtíma lærdómsferli sem þetta verkefni hefur í för með sér, framtaki sem vaxandi fjöldi úr öllum stéttum, úr öllum hópum mannfélagsins er boðið að taka þátt.
Lærdómsferlið sem nú er í gangi í öllum heimshlutum þarf auðvitað að svara mörgum spurningum: Hvernig eigi að færa fólk af ólíkum bakgrunni saman í umhverfi sem er laust við stöðuga ógn átaka og einkennist af helgun, sem hvetur það til að leggja til hliðar flokkadrætti sem valda sundrungu, metur meira einingu í hugsun og starfi og laðar fram heilshugar þátttöku; hvernig eigi að stýra málefnum samfélags þar sem ekki er nein ríkjandi stétt með prestlegt hlutverk sem getur gert kröfu til stöðu eða forréttinda; hvernig eigi að gera hópi karla og kvenna kleift að leysa sig frá takmörkun óvirkni og hlekkjum kúgunar til að taka þátt í starfsemi sem styður andlega, félagslega og vitsmunalega þróun þeirra; hvernig eigi að hjálpa unglingum að fara í gegnum þýðingarmikið stig í lífi sínu og efla þá til að beina orku sinni að framförum siðmenningar; hvernig eigi að skapa virkni innan fjölskyldueiningarinnar sem leiði til efnislegrar og andlegrar hagsældar án þess að skapa í uppvaxandi kynslóðum firringu gagnvart ímynduðum „öðrum“ eða rækta með þeim neina hvöt til að mismuna eða víkja til hliðar þeim sem felldir eru í þann hóp; hvernig megi gera mögulegt að ákvarðanataka njóti góðs af fjölbreyttum sjónarmiðum í gegnum samráðsferli, sem felur í sér sameiginlega rannsókn á raunveruleikanum, stuðlar að sjálfsleysi í persónulegum skoðunum, veitir gildum upplýsingum reynslunnar tilhlýðilega þýðingu, leggur ekki aðeins fram álit á staðreyndum eða skilgreinir málamiðlanir andstæðra hagsmunahópa sem sannleika. Til að rannsaka spurningar eins og þessar og margar aðrar sem örugglega koma upp, hefur bahá’í samfélagið tekið upp aðferðarfræði sem einkennist af framkvæmd, íhugun, samráði og námi – námi sem felur í sér ekki aðeins stöðuga skírskotun í ritningar trúarinnar heldur einnig vísindalega greiningu á mynstrum sem myndast. Í raun, hvernig eigi að viðhalda slíkri lærdómsaðferð í framkvæmd, hvernig eigi að tryggja að vaxandi fjöldi taki þátt í að búa til og beita viðeigandi þekkingu, og upphugsa fyrirkomulag til að kerfisbinda vaxandi reynslu á heimsvísu og fyrir réttláta dreifingu á þeim lexíum sem hafa lærst – en þær eru í sjálfu sér virði reglubundinnar rannsóknar.
Heildarstefna lærdómsferlisins sem bahá’í samfélagið keppir að er leidd áfram af röð hnattrænna áætlana, sem Allsherjarhús réttvísinnar leggur grunninn að. Hæfnisuppbygging er lykilorð þessara áætlana, þær hafa að markmiði að gera höfuðpersónunum í sameiginlegu átaki kleift að styrkja andlegar undirstöður byggða og hverfa, að takast á við félagslegar og efnahagslegar þarfir og til að leggja af mörkum til umræðu sem fer fram í samfélaginu, allt samhliða því að haldið er uppi nauðsynlegu samræmi varðandi nálgun og aðferðir.
Kjarni lærdómsferlisins er rannsókn á eðli tengsla sem binda saman einstakling, samfélag og stofnanir samfélagsins – leikara á sviði sögunnar sem hafa verið læstir í valdabaráttu í gegnum tíðina. Í þessu samhengi, þá hefur þeirri hugmynd, að tengsl á milli þeirra muni óhjákvæmilega laga sig að skilyrðum samkeppni, skoðun sem gefur engan gaum að einstakri getu mannsandans, verið vikið til hliðar fyrir líklegri forsendu, að friðsamleg tengsl þeirra geti ræktað siðmenningu sem er meira við hæfi þroskaðs mannkyns. Það sem gefur bahá’í átakinu kraft til að uppgötva eðli nýrra tengsla milli þessara þriggja höfuðpersóna er sýn um framtíð sem fær innblástur frá líkingu sem Bahá’u’lláh setti fram í töflu skrifaðri fyrir nærri einni öld, sem líkir veröldinni við mannlegan líkama. Samvinna er meginreglan sem stýrir starfsemi þessa kerfis. Rétt eins og birting vitiborinnar sálar er gerð möguleg á þessu tilverusviði með margslungnum tengslum ótal fruma, gerir skipulag þeirra í vefi og líffæri ákveðna getu mögulega, þannig er hægt að sjá siðmenninguna sem útkomu margs konar víxlverkana milli margvíslegra þátta sem eru felldir vendilega saman í eina heild sem er ofar þröngum tilgangi þeirra eigin tilveru. Og á sama hátt og lífvænleiki hverrar frumu og sérhvers líffæris er háður heilbrigði líkamans í heild, þannig ætti að sækjast eftir velferð hvers einstaklings, sérhverrar fjölskyldu, allra þjóða í hagsæld alls mannkynsins. Til að halda slíkri sýn miða stofnanir, sem meta þörfina fyrir samræmt starf sem beinist að árangursríkri útkomu, ekki að því að stjórna heldur næra og leiðbeina einstaklingnum, sem á móti tekur leiðsögninni fúslega, ekki í blindri hlýðni heldur í trausti sem byggir á meðvitaðri þekkingu. Á sama tíma tekst samfélagið á við þá ögrun að viðhalda umhverfi þar sem kraftar einstaklinga sem vilja tjá sig í samræmi við almenna velferð og áætlanir stofnana margfaldast í sameiginlegri framkvæmd.
Ef tengslavefur eins og vísað er til hér að ofan á að myndast og skapa lífsmynstur sem einkennist af tryggð við meginregluna um einingu mannkynsins, þá þurfa viss grundvallarhugtök að vera krufin vandlega. Af þeim er hugmyndin um vald athygliverðust. Hugtakið vald í merkingunni drottnun og meðfylgjandi hugmyndir um samkeppni, deilur, aðgreiningu og yfirburði þarf greinilega að leggja niður. Þetta er ekki til að afneita valdaaðgerðum – þegar allt kemur til alls, jafnvel þegar stofnanir samfélagsins hafa fengið umboð sitt með samþykki fólksins, er vald innifalið í stjórnun. En stjórnmálalegar aðferðir eins og aðrar aðferðir í lífinu ættu ekki vera ósnortnar af kröftum mannsandans sem bahá’í trúin – og hvað það snertir, sérhver trúarhefð sem hefur birst í gegnum aldirnar – vonast til að nýta kraft einingar, ástar, auðmjúkrar þjónustu og hreinna gerða. Tengt orðinu vald í þessum skilningi eru orð eins og lausn, hugrekki, farvegur, leiðsögn og að gera kleift. Vald er ekki takmörkuð eining sem á að „hremma“ og „verja með tortryggni í garð annarra“, það samanstendur af takmarkalausri getu til að umbreyta því sem býr í mannkyninu í heild.
Bahá’í samfélagið viðurkennir fúslega að það eigi töluvert ófarið áður en vaxandi reynsla þess gefi nægilega innsýn í hvernig hin æskilegu tengsl virka. Það fer ekki fram á fullkomnun. Að hafa háleitar hugsjónir og að vera birtingamynd þeirra er ekki eitt og það sama. Fjölmargar eru áskoranirnar fram undan og mikið er enn ólært. Almennur áhorfandi kynni að líta á tilraunir samfélagsins til að yfirstíga þessar áskoranir sem óraunsæjar hugsjónir. En það væri vissulega ekki réttmætt að gefa mynd af bahá’íunum sem áhugalausum í málefnum lands síns, því síður óþjóðræknum. Hversu óraunsætt sem verkefni bahá’íanna kann að líta út fyrir sumum, þá er ekki hægt að hunsa djúptæka umhyggju þeirra fyrir velferð mannkynsins. Og gefum okkur að ekkert skipulag í heiminum í dag virðist fært um að lyfta mannkyninu úr kviksyndi átaka og ágreinings og tryggja gæfu þess, hví skyldu nokkur stjórnvöld andmæla viðleitni hóps fólks til að auka skilning sinn á eðli þeirra lífsnauðsynlegu tengsla sem eru innbyggð í sameiginlega framtíð, sem mannkynið er ósveigjanlega dregið að.
Innan þess ramma sem dreginn er upp af þeim hugmyndum sem að framan greinir, þá er mögulegt að hugleiða aðra vídd í viðleitni bahá’í samfélagsins til að leggja af mörkum til framfara siðmenningar, þ.e. þátttöku þess í þjóðfélaginu sem heild. Ljóst er að ein hlið á framlagi bahá’ía getur ekki stangast á við aðra. Þeir geta ekki leitast við að koma á fót hugmyndamynstri og framkvæmd sem tjáir meginregluna um einingu innan samfélags þeirra, en á sama tíma tekið þátt í aðgerðum í öðru samhengi sem, hvert sem umfangið er, styrkir algerlega ólíka hugmynda-stefnu varðandi félagslegan veruleika. Til að fyrirbyggja slíka tvíhyggju hefur bahá’í samfélagið gegnum tíðina fágað smátt og smátt, á grunni kenninga trúarinnar, aðalatriðin sem varða þátttöku þess í lífi þjóðfélagsins. Viðleitni bahá’ía, hvort sem um er að ræða einstaklinga eða samfélag, miðar fyrst og fremst að því að hrinda í framkvæmd fyrirmælum Bahá’u’lláh: „Þeir sem gæddir eru einlægni og trúfesti ættu að samneyta öllum þjóðum og ættkvíslum jarðarinnar í fögnuði og geislan, þar sem umgengni við fólk hefur stuðlað að og mun halda áfram að stuðla að einingu og samlyndi, sem aftur stuðlar að því að viðhalda reglufestu í heiminum og siðbót þjóðanna.“ Það er í gegnum „félagsskap og samfundi“, útskýrði ‘Abdu’l‑Bahá, sem „við öðlumst hamingju og þroska, sem einstaklingar og hópur“. „Það sem leiðir til sameiningar, aðlöðunar og einingar meðal mannanna sona“, skrifaði hann í þessu sambandi, „leiðir til lífs í heimi mannkynsins og hvaðeina sem veldur aðgreiningu, andúð og firringu leiðir til dauða mannkynsins.“ Jafnvel þegar trúarbrögð eiga í hlut hefur hann gert ljóst að þau „verða að vera málstaður ástar og bræðralags. Skyldu trúarbrögð verða orsök deilna og fjandskapar þá er betra að vera án þeirra.“ Svo þannig er það að bahá’íar gera ávallt sitt ýtrasta til að fylgja leiðsögn Bahá’u’lláh, „Lokið augum yðar fyrir aðskilnaði en festið síðan sjón yðar á einingu.“ „Sá er að sönnu maður,“ hvetur Hann fylgjendur sína, „sem í dag helgar sig þjónustu við allt mannkynið.“ Áminning Hans er: „Sinnið til fulls þörfum þeirrar aldar sem þér lifið á og beinið athygli yðar að nauðþurftum hennar og kröfum.“ „Mikilvægasta þörf mannkynsins er samvinna og gagnkvæm samskipti,“ benti ‘Abdu’l‑Bahá á. „Því sterkari sem bönd vinskapar og samstöðu meðal manna eru, því meira verður afl uppbyggingar og afreka á sviði mannlegrar athafnasemi.“ Bahá’u’lláh lýsir yfir: „Svo öflugt er ljós einingarinnar, að það getur upplýst allan heiminn.“
Það er með þetta í huga sem bahá’íar fara í samstarf, eins og efni og aðstæður leyfa, við vaxandi fjölda hreyfinga, samtaka, hópa og einstaklinga, og stofna til félagsskapar sem leitast við að umbreyta þjóðfélaginu og efla málstað einingar, stuðla að mannlegri velferð og leggja af mörkum til samstöðu í heiminum. Vissulega er mælikvarðinn, sem settur er í köflunum hér að framan, bahá’í samfélaginu hvatning til að verða virkt í eins mörgum þáttum nútíma lífs og mögulegt er. Við val á sviðum samvinnu, verða bahá’íar að hafa í huga meginregluna sem felst í kenningunum að aðferðir séu í samræmi við markmiðin, göfugum markmiðum verður ekki náð með ósæmilegum ráðum. Sérstaklega er ófært að byggja varanlega einingu með átaki sem krefst deilna eða gera ráð fyrir að eðlislægir hagsmunaárekstrar liggi að baki öllum mannlegum samskiptum, í hversu litlum mæli sem það er. Þess er rétt að geta hér, að þrátt fyrir takmarkanir sem verða til vegna fylgni við þessa meginreglu, hefur samfélagið ekki upplifað skort á tækifærum til samstarfs, slíkur er fjöldi fólks í heiminum í dag sem vinnur af ákafa að einu eða öðru markmiði sem bahá’íar eiga sameiginlega með þeim. Í þessu tilliti gæta þeir þess að stíga ekki yfir viss mörk gagnvart samstarfsmönnum og félögum. Þeim ber ekki að líta á samstarfsverkefni sem tækifæri til að halda á lofti trúarlegri sannfæringu. Sjálfbirgingshátt og aðrar óheppilegar birtingarmyndir trúarlegs ákafa ætti að forðast algerlega. Bahá’íar bjóða samt samstarfsmönnum sínum fúslega þá fræðslu sem þeir hafa öðlast gegnum eigin reynslu, á sama hátt og þeir taka með gleði við innsýn sem þeir öðlast í gegnum slíkt samband, inn í viðleitni sína til samfélagsuppbyggingar.
Þá komum við að lokum að ákveðinni spurningu um virkni í stjórnmálum. Sú sannfæring bahá’í samfélagsins, að eftir að mannkynið hafi farið gegnum fyrri stig félagslegrar þróunar standi það á þröskuldi sameiginlegs fullþroska. Það trúir að grundvallarreglan um einingu mannkynsins, aðalsmerki tíma fullþroskans, feli í sér breytingar á sjálfri uppbyggingu þjóðfélagsins, helgun þess við lærdómsferlið sem þessi grundvallarregla örvar, rannsakar nýtt fyrirkomulag tengsla einstaklingsins, samfélagsins og stofnana þjóðfélagsins, hinna þriggja þátttakenda í framþróun siðmenningarinnar. Það er fullvisst um að endurmetinn skilningur á valdi, lausu við drottnunarviðhorf, ásamt meðfylgjandi hugmyndum um samkeppni, baráttu, klofning og yfirburði, liggi til grundvallar æskilegustu samskiptatengslunum. Skuldbinding þess við sýn á heim sem hagnast á ríkulegum menningarlegum margbreytileika mannkynsins, leggur engar línur aðskilnaðar – allt þetta eru mikilvægir þættir þess ramma sem mótar bahá’í viðhorfið til stjórnmála eins og það er sett fram í stuttu máli hér að neðan.
Bahá’íar sækjast ekki eftir pólitísku valdi. Þeir þiggja ekki pólitískar stöður innan þeirrar ríkisstjórnar sem þeir heyra undir, óháð ríkjandi stjórnkerfi, þótt þeir þiggi stöður sem þeir skilgreina sem hreint stjórnunarlegar í eðli sínu. Þeir ganga ekki stjórnmálaflokkum á hönd, flækjast í flokkspólitísk mál eða taka þátt í áætlunum sem valda klofningi nokkurs hóps eða flokksbrots. En um leið virða bahá’íar þá, sem af einlægri þrá að þjóna landi sínu, velja að fylgja pólitískum metnaði sínum eða taka þátt í pólitísku starfi. Þá nálgun sem bahá’í samfélagið hefur tileinkað sér með því að taka ekki þátt í slíkri starfsemi ber ekki að líta á sem yfirlýsingu sem tjái í grundvallaratriðum andúð á sönnu eðli stjórnmála, sannarlega skipuleggur mannkynið málefni sín með stjórnmálastarfi. Bahá’íar taka þátt í borgaralegum kosningum, svo lengi sem þeir þurfa ekki að tengjast pólitískum stjórnmálaflokki til þess að kjósa. Í þessu sambandi líta þeir á ríkisstjórn sem kerfi til að halda uppi velferð og reglubundnum framförum samfélagsins og allir sem einn ábyrgjast þeir að fylgja lögum þess lands sem þeir búa í, að undanskildu því að trúarleg viðhorf þeirra séu vanhelguð. Bahá’íar munu ekki verða hópur sem hvetur til þess að fella ríkisstjórn, né heldur munu þeir blanda sér í pólitísk tengsl milli ríkisstjórna mismunandi þjóða. Þetta þýðir þó ekki að þeir séu einfeldningar þegar kemur að pólitískum ferlum í veröldinni í dag og geri ekki greinarmun á réttlátri stjórn og harðstjórn. Stjórnendur heimsins hafa helgar skyldur til að uppfylla gagnvart þegnum sínum, sem líta ber á sem dýrmætasta fjársjóð hverrar þjóðar. Bahá’íar, hvar sem þeir búa, leitast við að halda uppi gunnfána réttlætis, mótmæla ranglæti sem beint er gegn þeim eða öðrum, en aðeins með þeim löglegu aðferðum sem þeim standa til boða og sneiða hjá hvers konar ofbeldisfullum mótmælum. Enn fremur fer ástin sem þeir bera í hjörtum sínum til mannkynsins ekki gegn skyldurækni þeirra til að nýta krafta sína í þjónustu fyrir land sitt.
Í heimi þar sem þjóðum og ættkvíslum er att saman og samfélagsgerðir aðskilja fólk og stía því sundur gerir nálgunin, eða stjórnlistin ef svo má að orði komast, samfélaginu kleift – með þeim einföldu breytum sem útskýrðar voru í undanfarandi málsgrein – að gæta samheldni sinnar og heiðurs sem eitt hnattrænt samfélag og tryggja að starfsemi bahá’ía í einu landi setji ekki í hættu þá sem búa í öðru. Þannig getur bahá’í samfélagið, verndað gegn samkeppnis-hagsmunum þjóða og stjórnmálaflokka, aukið hæfni sína og getu til að leggja af mörkum til ferla friðar og einingar.
Kæru vinir: Við gerum okkur grein fyrir að þessi braut sem þið hafið svo staðfastlega fetað áratugum saman felur í sér áskoranir. Hún kallar á óbifanleg heilindi, grandvara breytni sem ekkert fær haggað, skýra hugsun sem ekki myrkvast og föðurlandsást sem ekki er hægt að ráðskast með. Nú þegar samborgarar ykkar skilja hlutskipti ykkar, og möguleikar eiga án efa eftir opnast ykkur til að taka jafnvel enn meiri þátt í lífi samfélagsins, biðjum við þess að ykkur hlotnist aðstoð af hæðum að ofan til að útskýra fyrir vinum ykkar og samlöndum grunnþættina sem við höfum gert grein fyrir í þessu bréfi og að þið getið í samvinnu við þá fengið aukin tækifæri til að starfa í þágu þjóðar ykkar án þess að gera hina minnstu tilslökun við stöðu ykkar og auðkenni sem fylgjendur Hans sem fyrir meira en einni öld kallaði mannkynið til nýs heimsskipulags.
[undirritað: Allsherjarhús réttvísinnar]