8. febrúar 2013 – Til bahá’ía um allan heim
Efnisgrein 1
Efnisgrein 2
Efnisgrein 3
Efnisgrein 4
Afritaðu eða deildu hlekk
Afritaðu eða deildu texta með tilvísun
/t/
/t/
Það gleður okkur að sjá hvernig ferli fimm ára áætlunarinnar glæðir anda þjónustu og örvar markvissa starfsemi í bahá’í samfélögum, hver sem stærð þeirra og styrkur er. Þess sjást dæmi á hverjum degi hvernig sú viðleitni að stíga fram og snerta hjörtu einstaklinga, kynna sálunum orð Guðs og bjóða þeim að taka þátt í að bæta samfélagið, getur með tímanum stuðlað að framþróun þjóðar. Þessi heildaráhrif verða sýnileg þegar þættir áætlunarinnar eru samræmdir í vel skipulögðu átaki heils umdæmis og öflin sem búa í þessu átaki verða stöðugt kunnuglegri. Jafnt fyrir reynda átrúendur og þá sem nýlega hafa komist í kynni við trúna, hver sem aldur þeirra eða bakgrunnur er, verður slíkt umdæmi að vettvangi þar sem þeir geta unnið hlið við hlið og fylgst að í þjónustu sinni og þar sem allir fá tækifæri til að taka þátt í framvindu áætlunarinnar.
Frá sjónarhóli okkar, sem sjáum bahá’í heiminn blasa við önnum kafinn í einbeittu starfi, hefur eitt atriði vakið sérstaka athygli: ótrauð framganga ungmenna í öllum heimsálfum. Þar sjáum við þær vonir rætast sem Verndarinn batt við ungt fólk um „framtíðarþróun og stækkun málstaðarins“ og fullvissu hans þegar hann lagði þeim á herðar „alla ábyrgðina af því að efla og viðhalda anda sjálflausrar þjónustu meðal trúsystkina sinna“. Sérstaka athygli okkar hefur einnig vakið sá fjöldi ungmenna sem eftir stutta viðkynningu við bahá’í samfélagið hefur helgað sig mikilvægri þjónustu og telur sér fljótt málið skylt þegar um er að ræða viðleitni trúarinnar til að byggja upp samfélag. Raunar er það svo þegar við leiðum hugann að ungum bahá’íum og þeim jafnöldrum þeirra sem eru sama sinnis, að við getum ekki annað en glaðst yfir heilshugar löngun þeirra til að axla ábyrgð og styðja andlega og félagslega þróun fólksins í kringum sig, ekki síst þeirra sem yngri eru. Á tímum eiginhagsmuna, þar sem jafnvel andleg samskipti eru vegin á vogarskálum umbunar og persónulegrar fullnægju, er uppörvandi að hitta fyrir einstaklinga allt frá miðju táningsskeiði og fram á þrítugsaldur – einmitt þá kynslóð sem áfergjuleg efnishyggja hefur gert að markhópi sínum – stálsetta af sýn Bahá’u’lláh og tilbúna til þess að setja þarfir annarra ofar sínum eigin. Að svo göfuglynd ungmenni skuli í krafti sinnar eigin viðleitni og þess aukna þunga sem þau ljá öllu samfélagsstarfinu, leggja svo ríkulega af mörkum til starfsins sem hvarvetna er verið að vinna, veit á gott fyrir eflingu þess starfs.
Það sem áunnist hefur á síðustu tveimur árum mun án efa falla í skuggann af því sem á eftir að gerast á lokaárum yfirstandandi áætlunar og þeim árum sem eftir eru af fyrsta árhundraði mótunaraldarinnar. Til að efla þetta volduga verkefni og hvetja ungmenni til að axla að fullu ábyrgð á því starfi sem þau þurfa að inna af hendi á þessum hraðfleygu árum boðum við til 95 ungmennaráðstefna á tímabilinu júlí til október á eftirtöldum stöðum víðs vegar um heiminn: Accra, Addis Ababa, Aguascalientes, Almaty, Antananarivo, Apia, Atlanta, Auckland, Baku, Bangalore, Bangui, Bardiya, Battambang, Bhopal, Bhubaneswar, Boston, Brasilía, Bridgetown, Bukavu, Cali, Canoas, Cartagena de Indias, Chennai, Chibombo, Chicago, Chisinau, Cochabamba, Daidanaw, Dakar, Dallas, Danane, Dar es-Salaam, Dhaka, Dnipropetrovsk, Durham (Bandaríkin), Frankfurt, Guwahati, Helsinki, Istanbúl (2), Djakarta, Jóhannesarborg, Kadugannawa, Kampala, Kananga, Karachi, Khujand, Kinshasa, Kolkata, Kuching, Lae, Lima, London, Lubumbashi, Lucknow, Macau, Madrid, Manilla, Matunda Soy, Moskva, Mwinilunga, Mzuzu, Nadi, Nairobi, Nýja-Delhi, Oakland, Otavalo, Ouagadougou, Panchgani, París, Patna, Perth, Phoenix, Port-au-Prince, Port Dickson, Port Moresby, Port-Vila, San Diego, San Jose (Kosta Ríka), San Jose City (Filippseyjar), San Salvador, Santiago, Sapele, Sarh, Seberang Perai, Suður Tarawa, Sydney, Tbilisi, Thyolo, Tirana, Toronto, Ulaanbaatar, Vancouver, Verona, Yaounde. Til þessara ráðstefna bjóðum við öllum ungmennum sem sjá í aðferðum og tækjum áætlunarinnar öflug tækifæri til að stuðla að betra samfélagi. Og við bjóðum bahá’íum á öllum aldri að sýna heilshugar stuðning við þátttakendurna sem eiga fyrir höndum að vinna að svo mikilvægum verkefnum.
Elskuðu vinir: Allar kynslóðir ungra átrúenda fá einstæð tækifæri í lífi sínu til að leggja af mörkum til farsældar mannkyns. Fyrir þá kynslóð sem nú er uppi er stundin komin til að íhuga, helga sig og styrkja, fyrir líf í þjónustu sem verður uppspretta ríkulegrar blessunar. Í bænum okkar við hina helgu fótskör biðjum við Hina öldnu fegurð að laða fram hreinar sálir frá ráðvilltum og ringluðum þorra mannkyns – sálir sem gæddar eru skýrri sýn: ungmenni sem hafa til að bera heilindi og grandvarleika sem þau leyfa ekki að flekkast með því að horfa á ágalla annarra og sem láta ekki hugfallast vegna sinna eigin vankanta; ungmenni sem horfa til Meistarans og „taka þá sem útilokaðir hafa verið inn í náinn vinahóp“, ungmenni sem annmarkar samfélagsins knýja til að vinna að umbreytingu þess en halda sig ekki í fjarlægð frá því; ungmenni sem munu, hvað sem það kostar, neita að þola ranglæti í neinni af fjölmörgum birtingarmyndum þess en vinna í staðinn að því að láta „ljós réttlætisins lýsa upp allan heiminn“.