Riḍván 2012 – Til bahá’ía um allan heim

’u’lláh myndast ný hlýja og innileiki, nýtt líf, í samskiptum þessara þriggja aðila; þeir eru sameiginlega sú deigla þar sem andleg heimssiðmenning, sem ber merki guðlegs innblásturs, mótast smám saman.

Ljósi opinberunarinnar er fyrirhugað að lýsa upp öll verksvið; á þeim öllum verður að endurmóta tengslin sem viðhalda mannlegu samfélagi; á þeim öllum leitar heimurinn að dæmum um hvernig mennirnir eiga að haga sér hver gagnvart öðrum. Ykkur til umhugsunar nefnum við efnahagslíf heimsins vegna þess hve augljósan þátt það á í illdeilunum sem svo margir hafa flækst í að undanförnu, þar sem óréttlæti er látið viðgangast með tómlæti og afskiptaleysi og litið er á rangláta skiptingu hagnaðar sem tákn um árangur. Svo rótgróin eru þessi háskalegu viðhorf að erfitt er að ímynda sér hvernig einstaklingur gæti einn síns liðs breytt ríkjandi viðhorfum sem móta samskiptin á þessu sviði. Engu að síður munu bahá’íar forðast ákveðið framferði, eins og óheiðarleika í viðskiptum eða fjárhagslega misnotkun annarra. Tryggð og fastheldni við guðlegar áminningar krefjast þess að engin mótsögn sé í efnahagslegu framferði bahá’ía og trú þeirra. Með því að beita í lífi sínu þeim meginreglum trúarinnar sem lúta að sanngirni og jöfnuði getur ein sál haldið á lofti mælikvarða sem er langt ofar þeim lága þröskuldi sem heimurinn miðar við. Mannkynið mæðist vegna skorts á lífsmynstri sem keppa skal að; við bindum vonir við að þið munið fóstra samfélög sem færi veröldinni von með breytni sinni.

Í Riḍvánboðum okkar 2001 gáfum við til kynna að í löndum þar sem hópinngönguferlið er nógu vel á veg komið og aðstæður þjóðarsamfélaganna hagstæðar, myndum við samþykkja stofnun þjóðarmustera. Við sögðum jafnframt að tilkoma þeirra yrði þáttur í fimmta tímaskeiði mótunaraldar trúarinnar. Það er okkur mikið gleðiefni að tilkynna að þjóðarmusteri verða reist í tveimur löndum: Lýðveldinu Kongó og Papúa Nýju Gíneu. Í þessum löndum hafa þau skilyrði sem við settum verið sannanlega uppfyllt og viðbrögð þessara þjóða við möguleikunum sem núverandi áætlanir hafa skapað eru verulega eftirtektarverð. Bygging síðasta álfumusterisins í Santiago er vel á veg komin og bygging þjóðarmustera eru enn eitt þakkarvert dæmi um hvernig trú Guðs hefur náð að festa rætur í jarðvegi mannlegs samfélags.

Eitt skref til viðbótar er mögulegt. Musterið, Mashriqu’1-Adhkár, sem ‘Abdu’l‑Bahá lýsir sem „einni af mikilvægustu stofnunum heimsins“ tengir saman tvo nauðsynlega og óaðskiljanlega þætti bahá’í lífs; tilbeiðslu og þjónustu. Sameining þeirra endurspeglast einnig í samhenginu milli þeirra þátta áætlunarinnar sem miða að samfélagsuppbyggingu, sérstaklega eflingu þess tilbeiðsluanda sem finnur sér farveg á bænafundum og í menntaferli sem byggir upp hæfni til að þjóna mannkyni. Gagnkvæmt samband tilbeiðslu og þjónustu er sérstaklega áberandi í umdæmum vítt um heiminn þar sem bahá’í samfélög hafa náð að vaxa mjög og eflast og þar sem þátttaka í félagslegu starfi er augljós. Sum þessara umdæma hafa verið útnefnd sem lærdómssetur til að rækta hæfni vinanna til að þróa unglingaverkefnið á tengdum svæðum. Eins og við höfum nýlega bent á styrkir hæfnin til að viðhalda þessu verkefni einnig þróun námshringja og barnakennslu. Auk þess að gegna meginhlutverki sínu styrkir lærdómssetrið öll áform um útbreiðslu og treystingu. Það er í þessum umdæmum sem hægt verður á komandi árum að huga að byggingu svæðismustera. Hjörtu okkar fyllast þakklæti við Hina öldnu fegurð þegar við með fögnuði tilkynnum ykkur að við höfum hafið samráð við viðkomandi andleg þjóðarráð varðandi byggingu fyrstu svæðismusteranna í eftirfarandi umdæmum: Battambang í Kambódíu; Bihar Sharif á Indlandi; Matunda Soy í Keníu; Norte del Cauca í Kólumbíu og Tanna í Vanúatú.

Til að styrkja byggingu tveggja þjóðar- og fimm svæðismustera höfum við ákveðið að setja á fót musterasjóð við bahá’í heimsmiðstöðina til gagns fyrir öll slík verkefni. Vinunum hvarvetna er boðið að gefa í þann sjóð í fórnaranda eins og aðstæður þeirra leyfa.

Elskuðu samstarfsmenn og konur: Sverðinum sem hendur ‘Abdu’l‑Bahá sundraði fyrir hundrað árum verður nú aftur sundrað í sjö öðrum löndum og það er aðeins undanfari þess dags þegar í sérhverri borg og byggð verður reist bygging þar sem Guð er tilbeðinn í samræmi við fyrirmæli Bahá’u’lláh. Frá þessum dögunarstöðum minningar um Guð munu geislar frá ljósi Hans berast og söngvar lofgjörðar Hans hljóma.

[undirritað: Allsherjarhús réttvísinnar]