12. desember 2011 – Til allra þjóðarráða

vað eftir annað sannað að þau geta tekið þátt í umræðum um afstæð málefni sem sniðin eru að aldri þeirra og þau hafa mikla gleði af alvarlegri viðleitni til að auka skilning sinn. Menntaferli sem þynnir út innihaldið í heillandi hringiðu skemmtana kemur þeim ekki að neinu gagni. Við treystum því að þegar kennarar og hvetjarar fara í gegnum þjálfunarnámskeiðin verði þeir stöðugt færari um að beita dómgreind sinni þegar þeir velja nauðsynlegt efni og starfsemi hvort sem um er að ræða hefðbundið kennsluefni eða fjölbreytt efni, svo sem söngva, sögur og leiki, sem vissulega verður þróað fyrir börn í bahá’í samfélaginu á komandi árum.

Sjá má þjóðir jarðar nálgast hver aðra úr ýmsum áttum, knúnar öflum sem skapast bæði innan og utan bahá’í samfélagsins, og stefna þannig í átt til heimsmenningar sem er svo feiknleg að umfangi að öldungis fánýtt væri að reyna að setja sér hana fyrir sjónir í dag. Þegar þessi miðsækna hreyfing þjóðanna verður hraðari um allan heim munu sumir menningarþættir sem ekki samræmast kenningum trúarinnar hverfa smám saman en aðrir þættir styrkjast. Á sama hátt munu nýir þættir í menningunni þróast með tímanum þegar fólk hvarvetna úr hinni mannlegu fjölskyldu, innblásið af opinberun Bahá’u’lláh, tjáir hugsanir og starfsmynstur sem kenningar Hans skapa, sumpart í list og bókmenntum. Það er með þetta í huga sem við fögnum ákvörðun Ruhi stofnunarinnar þegar hún skipuleggur námskeið sín að láta vinunum það eftir að fjalla staðbundið um málefni sem tengjast listrænni iðkun. Það sem við biðjum um á þessu stigi, þegar beina á orkunni að aukinni barnakennslu og unglingahópum, er að viðbótarvöxtur í þessu skyni fái að þróast á eðlilegan hátt í ferli samfélagsuppbyggingar sem fær aukinn þunga í byggðum og borgarhverfum. Við þráum t.d. að sjá heillandi söngva frá öllum heimshlutum og á öllum málum sem muni vekja ungt fólk til vitundar um þær djúpstæðu hugmyndir sem bahá’í kenningarnar geyma. Slík blómgun skapandi hugsunar mun þó ekki verða að veruleika ef virnirnir falla ósjálfrátt í það mynstur sem tíðkast í heiminum þar sem hinum fjársterku leyfist að þröngva menningarlegum sjónarmiðum sínum upp á aðra og kaffæra þá með vörum og afurðum sem kynntar eru með ágengum hætti. Auk þess ætti að gera allt sem hægt er til að vernda andlega uppfræðslu frá hættum verslunar og markaðssetningar. Ruhi stofnunin hefur sjálf ótvírætt komið í veg fyrir útbreiðslu efnis og afurða sem gera einkenni stofnunarinnar að vörumerki til að markaðssetja. Við vonum að vinirnir muni virða kostgæfni hennar í þessu máli.

Í þessu sambandi gleður það okkur að geta sagt ykkur frá því að við höfum myndað alþjóðlega ráðgefandi nefnd sem á að aðstoða Ruhi stofnunina við eftirlit á kerfi hennar til að undirbúa, framleiða og dreifa efni sem núna nýtir sér bahá’í reynslu um allan heim hvað varðar innihald og uppbyggingu til að beita kenningum og meginreglum trúarinnar á líf mannkyns. Þegar nefndin tekur smám saman til starfa getur hún brugðist við tengdum málefnum og fylgt eftir þróun viðbótarefnis sem er í samræmi við stefnuna sem heimsáætlanirnar setja.

*

Að lokum teljum við okkur til þess knúna að beina nokkrum orðum til þjálfunarstofnana um heim allan: Þess ber að minnast að bahá’í barnakennarinn og hvetjari fyrir unglingahópa sem treyst er fyrir svo mikilli ábyrgð hvað varðar styrkingu á siðferðisgrunni samfélagsins eru á flestum stöðum á táningsaldri. Búast má við að þetta unga fólk komi í auknum mæli úr verkefninu fyrir andlega eflingu unglinga með þann eindregna tvíþætta tilgang að þróa meðfædda getu sína og stuðla að umbreytingu þjóðfélagsins. En það getur einnig komið frá hvaða menntabakgrunni sem er með þá von í hjarta að með ötulli samhæfðri viðleitni muni heimurinn breytast. Hvað sem öllu líður, mun þetta unga fólk allt sem eitt eiga sér þá sameiginlegu þrá að helga tíma sinn og orku, hæfileika og færni þjónustu við samfélög sín. Mörg þeirra munu, sé þeim gefið tækifæri til þess, með ánægju helga fáein ár ævi sinnar andlegri uppfræðslu kynslóðar sem er að vaxa úr grasi. Ungmenni heimsins búa því yfir miklum forða af hæfni og getu til að breyta samfélaginu – forða sem bíður þess að verða nýttur. Og sérhver þjálfunarstofnun ætti að líta á það sem heilaga skyldu sína að leysa þessa hæfni úr læðingi.

[undirritað: Allsherjarhús réttvísinnar]