Allsherjarhús réttvísinnar
12. desember 2011
Til allra þjóðarráða
Heittelskuðu vinir
Um allan heim eru bahá’í samfélög önnum kafin við framkvæmd fimm ára áætlunarinnar. Upphafsmánuðir hennar eru nú að baki og allt bendir til þess að nám í nýlegri leiðsögn og íhugun um eðli og umfang færninnar sem þróast hefur fram að þessu sé að bera ávöxt í einbeittu og vel samhæfðu starfi í grasrótinni. Í nokkur hundruð nýjum umdæmum má nú þegar sjá fyrstu merkin um verkefni sem miða að stöðugri útbreiðslu og treystingu, aðallega vegna brautruðnings innanlands. Í nokkur hundruð umdæmum til viðbótar, sem lengra eru á veg komin, er mynstur markvissrar starfsemi að koma í ljós. Á sama tíma eru vinirnir í þeim umdæmum sem eru í framlínu lærdóms að ná leikni í að beita þeim virku kröftum sem einkenna ört vaxandi og tiltölulega stór samfélög.
Það gleður okkur sérstaklega í þessu sambandi að nefna mikla viðleitni í öllum löndum til að auka kraftinn í þjálfunarferlinu. Þetta skiptir sköpum ef fleiri eiga að taka virkan þátt í því starfi sem þarf til að byggja upp nýtt heimsskipulag. Starf þjálfunarstofnunar; virkni umsjónarmanna á ýmsum stigum; hæfni vinanna sem þjóna sem leiðbeinendur í námshringjum, hvetjarar í unglingahópum og kennarar í barnakennslu; og loks umhverfi sem hvetur til allsherjarþátttöku sem og gagnkvæms stuðnings og aðstoðar – mikilvægi allra þessara meginþátta í ætlunarverkinu sem Guð hefur gefið samfélaginu hefur hvergi farið fram hjá vinunum. Í þessu sambandi hefur verið sérlega uppörvandi að sjá hve víða mannafli og önnur úrræði eru virkjuð og helguð verkefninu fyrir andlega eflingu unglinga. Ekki er síður uppörvandi sá brennandi áhugi sem þjálfunarstofnanirnar hafa sýnt þeirri áskorun að undirbúa kennara fyrir stighækkandi þrep í bahá’í barnakennslu þar sem heppilegt viðbótarefni hefur verið útbúið. Það virðist því tímabært að bjóða andlegum þjóðarráðum og þjálfunarstofnunum þeirra frekari leiðsögn um framkvæmd aðalnámskeiðaraðarinnar og námskeiðanna sem greinast frá henni.
Braut þjónustu
Til að aðstoða átrúendurna við að hugleiða vaxtarferlið í umdæmum kynntum við fyrir allmörgum árum hugmyndina um tvíþætta og gagnkvæmt uppfyllandi hreyfingu. Önnur hreyfingin er stöðugur og sívaxandi straumur einstaklinga í gegnum þjálfunarnámskeiðin. Hún er ekki aðeins ábyrg fyrir að gefa hinni hreyfingunni drifkraft – þ.e þróun umdæmisins sem birtist í sameiginlegri hæfni til að skapa lífsmynstur sem samræmist kenningum trúarinnar – heldur er hennar eigin varanleiki einnig háður henni sjálfri. Það var vegna vaxandi vitnisburðar um áhrif námsefnis Ruhi stofnunarinnar á þessa tvíþættu gagnkvæmt uppfyllandi hreyfingu sem við lögðum til fyrir sex árum að Ruhi námsefnið yrði tekið upp um allan heim. Þá fjölluðum við ekki sérstaklega um þær kennslufræðilegu reglur sem móta námsskrána. Engu að síður ætti vinunum að vera það ljóst að námsskráin hefur æskileg einkenni sem sumum hverjum hefur verið lýst með almennum hætti í skilaboðum okkar sem varða núverandi röð heimsáætlana. Sérstaklega þýðingarmikil er undirstöðuregla hennar: að þróa hæfni til að þjóna málstaðnum og mannkyni í ferli sem líkt er við göngu á þjónustubraut. Þetta hugtak mótar bæði innihald og uppbyggingu.
Aðalnámskeiðaröðin er skipulögð með það fyrir augum að koma einstaklingnum, hvort sem hann er bahá’íi eða ekki, á braut sem ákvarðast af vaxandi reynslu samfélagsins í viðleitni þess að opna mannkyninu sýn á heimsskipulag Bahá’u’lláh. Í sjálfu sér vísar hugmyndin um braut á eðli og tilgang námskeiðanna. Braut býður upp á þátttöku, hún vísar til nýrra sjónarhringa, krefst hreyfingar og áreynslu, hefur svigrúm fyrir mismunandi hraða og skreflengd og fullnægir ákveðnum skilgreindum skilyrðum. Ekki aðeins einn eða tveir heldur fjölda margir geta kynnst brautinni og fengið reynslu af henni; hún tilheyrir samfélaginu. Að ganga braut er einnig skýrt og lýsandi hugtak. Það krefst þess að einstaklingurinn vilji og velji; það kallar á hæfni og getu en laðar líka fram ákveðna eiginleika og viðhorf; það gerir rökrétta framvindu að nauðsyn en gefur einnig svigrúm þegar þörf krefur fyrir rannsóknir sem tengjast henni; þetta kann að sýnast auðvelt í fyrstu en gerir meiri kröfur þegar fram í sækir. Og það sem er mikilvægast af öllu: maður gengur brautina í félagsskap annarra.
Núna samanstendur aðalnámskeiðaröðin af átta námskeiðum, en fyrir liggur að þau verði að lokum alls átján talsins og fjalli um þjónustu tengda þörfum eins og samhæfingu og stjórnskipan, félagslegu starfi og þátttöku í þjóðfélagsumræðu. Núna eru tveir staðir í röðinni þar sem einstaklingurinn getur kosið að fylgja sérhæfðri þjónustubraut. Hinn fyrri birtist í bók 3. Sumir vinanna sem ljúka henni og byrja að bjóða upp á tiltölulega einfalda barnakennslu á fyrsta stigi í verkefni fyrir andlega uppfræðslu barna, vilja hugsanlega helga sig þessum þjónustuvettvangi og fara áfram í gegnum flóknari námskeið fyrir kennslu á 2.-6. stigi. Þetta þýðir ekki að þeir hverfi frá aðalnámskeiðaröðinni. Í rauninni gera námskeiðin sem fjalla um sérhæfða þjónustubraut ráð fyrir að þátttakendurnir haldi áfram hver á sínum eigin hraða, á þeirri braut sem aðalröðin markar. Hinn staðurinn sem felur í sér hliðargreinar er bók 5 þar sem leitast er við að reisa upp hvetjara fyrir unglingahópa.
Frekari leiðir til rannsóknar og könnunar munu án efa birtast við aðalnámskeiðaröðina þegar fram líða stundir. Sumar þeirra kunna að hafa almenna skírskotun eins og þær tvær sem nefndar voru hér að ofan en aðrar kunna að takmarkast við sérstakar staðbundnar þarfir. Eins og í aðalnámskeiðaröðinni sjálfri verða innihald og uppbygging að ráðast af framhaldi þeirrar sameiginlegu reynslu sem fæst á vettvangi – reynslu sem ekki er tilviljanakennd eða háð öflum persónulegra langana heldur lýtur leiðsögn stofnana trúarinnar. Að skapa slíka reynslu mun útheimta mun meiri orku frá mun stærri hluta íbúanna og að fáeinum stöðum undanskildum væri of snemmt fyrir stofnanirnar, á þessum tíma í þróun núverandi heimsáætlana, að beina athyglinni að því að búa til eða vinna önnur námskeið sem greinast út frá aðalnámskeiðaröðinni.
Samhæfing
Ljóst er að nálgunin í hæfnisuppbyggingu sem lýst er hér að ofan er tilraun til að skapa ákveðinn aflvaka meðal íbúanna sem gæti sameinað þjónustu, sköpun þekkingar og útbreiðslu hennar. Þetta efni var stuttlega rætt í Riḍvánboðum okkar árið 2010. Hér ætlum við að fjalla um fáein praktísk atriði sem skipta miklu máli fyrir hinar tvær fyrrnefndu og sérhæfðu þjónustubrautir.
Alltaf er hægt að skoða frá öðru af tveimur sjónarhornum það sem gerist í umdæmi þegar starfsmynstrið sem fimm ára áætlunin stuðlar að fær aukinn styrk en það mynstur er uppskriftin að öflugu samfélagslífi. Bæði sjónarhornin eru jafn gild, hvort um sig gefur á sinn sérstaka hátt tækifæri til að hugsa og tala um það sem er að gerast. Frá öðru sjónarhorninu birtist menntaferlið skýrt á þremur aðgreindum sviðum: hið fyrsta fyrir yngstu meðlimi samfélagsins, annað fyrir þá sem eru á krefjandi breytingaskeiði unglingsáranna og hið þriðja fyrir ungmenni og fullorðna. Í þessu samhengi er talað um þrenn kennslufyrirmæli sem hver um sig einkennast af eigin aðferðum og efni, gera kröfu til síns skerfs af mannafla og fjármagni og njóta þjónustu ákveðins gangverks til að kerfisbinda reynsluna og skapa þekkingu sem byggir á reynslu og innsýn sem hefur fengist á vettvangi. Eðlilega myndast þá þríþætt umræða um framkvæmd verkefna varðandi andlega uppfræðslu barna og andlega eflingu unglinga, og um aðalnámskeiðaröðina.
Frá hinu sjónarhorninu er horft til þriggja mánaða starfsbylgja sem efla vöxt samfélaganna. Afleiðingin af öflugu starfi verður snögg aukning í útbreiðslu; nauðsynlegur tími gefst til treystingar þar sem vöxturinn styrkist t.d. með þátttöku nýliðanna í bænastundum og nítjándagahátíðum og með heimsóknum til þeirra; og eins með tækifærum sem öllum eru ætluð til að íhuga og gera áætlanir. Í þessu ljósi verður spurningin um kennslu meðal móttækilegra sálna efst á baugi og áskorunin sem felst í því að leita að sálum sem vilja taka þátt í umræðum um heiminn í kringum sig og taka þátt í sameiginlegu starfi til að breyta honum verður í brennidepli.
Það er sérstaklega á sviði samhæfingar sem óhjákvæmilegt er að staldra við og horfa frá þessum tveimur sjónarhornum á það sem í kjarna sínum er einn veruleiki. Þá skapast möguleikar til að greina rétt, meta skipulega, úthluta viturlega og forðast sundrun. Á þessum tíma í framkvæmd áætlunarinnar virðist nauðsynlegra en nokkru sinni fyrr að beina athyglinni að samhæfingu. Þótt undirstöðuatriði árangursríks skipulags séu vel skiljanleg þarf að skýra formið sem það tekur á sig við mismunandi kringumstæður. Við höfum beðið Alþjóðlegu kennslumiðstöðina að fylgja eftir viðleitni í þessa átt, sérstaklega í nokkur hundruð umdæmum sem lengst eru á veg komin í heiminum með það fyrir augum að kerfisbinda hratt þann lærdóm sem fengist hefur.
Í öllum slíkum umdæmum þar sem kröfur um stórfelldan vöxt láta til sín taka ætti sérhvert svið menntaferlisins sem er á verksviði þjálfunarstofnunar að njóta aukins stuðnings. Starf umsjónarmanns ætti að styrkja með hjálp vaxandi fjölda reyndra einstaklinga og fundir þar sem skipst er á upplýsingum og innsýn ættu að verða reglulegir og vinna þeirra kerfisbundnari. Þannig ætti einnig að skapa regluleg tækifæri fyrir þá þrjá umsjónarmenn sem stofnunin skipar – eða, þar sem það á við, teymi umsjónarmanna sem hafa umsjón með námshringjum, unglingahópum og barnakennslu – til að skoða í sameiningu styrk menntaferlisins í heild. Og þeir ættu að fyrir sitt leyti að halda reglulega fundi með umdæmiskennslunefndinni. Ef nægur straumur upplýsinga, leiðsagnar og fjármagns, sem svo mikil þörf er fyrir, á að ná til umdæmisins verður stjórn þjálfunarstofnunarinnar að gera sams konar ráðstafanir til að auka virkni hennar á stjórnstigi landshluta. Þar sem svo þróuð áætlun um samhæfingu er komin til framkvæmda geta aðstoðarráðgjafar og aðstoðarmenn þeirra veitt stuðning á öllum starfssviðum og á jafnvel enn markvissari hátt.
Eitt lokaatriði verðskuldar íhugun í þessu sambandi. Næstum öll þau nokkur hundruð umdæmi sem um ræðir tengjast einhverju þeirra u.þ.b. fjörutíu lærdómssetra sem Skrifstofa félags- og efnahagsþróunar við heimsmiðstöðina hefur sett á stofn til að svara gríðarlegri eftirspurn um allan heim eftir unglingaverkefninu. Þjálfunarstofnanir sem starfa í þessum umdæmum hafa nú þegar á liðnu ári notið góðs af þekkingu sem þessi setur hafa aflað, sérstaklega hvað varðar samhæfingu verkefnisins. Enginn vafi leikur á því að hæfnin til að viðhalda tugum unglingahópa var öllum slíkum umdæmum mikil hvatning til framþróunar og lagði verulega mikið af mörkum til síðari þróunar námshringja og barnakennslu. Setur sem Skrifstofa félags- og efnahagsþróunar styður munu halda áfram að aðstoða þjálfunarstofnanir við að takast á við flóknar spurningar sem upp koma í unglingaverkefninu en gríðarleg geta þess aldurshóps hlýtur að verða áfram tilefni áframhaldandi könnunar. Við beinum því þó til þjálfunarstofnananna sjálfra að hlúa að því lærdómsferli sem nauðsynlegt er til að takast á við mikinn fjölda barnahópa og námshringja. Þær ættu að leggja drög að áætlun í umdæmum sem styrkir samhæfingu á milli þessara þriggja skilgreindu kennslusviða sinna og opna fyrir straum mannauðs og fjármagns frá stjórnstigi landshluta til grasrótarinnar. Þetta verður til þess að tryggja samfellda hreyfingu allmikils liðsafla frá einu sviði menntaferlisins til hins næsta og auðvelda stöðugt áframhald starfsbylgja sem eru svo nauðsynlegar kerfisbundnum vexti.
Barnakennsla
Meðal þeirra spurninga sem allar þjálfunarstofnanir þurfa að svara er ein sérstaklega knýjandi: hvernig á að virkja nægilega marga barnakennara fyrir hvert stig kennslunnar og í framhaldi af því leiðbeinendur sem geta myndað hópa til að sækja nauðsynleg námskeið. Einingarnar sem ná til þeirra þriggja bóka sem nú eru fyrir hendi innihalda bæði efni fyrir kennara og kennsluefni fyrir börn og gerir þjálfunarstofnunum fært að byrja tafarlaust fyrstu þrjú stigin í sex ára kennsluáætlun. Til að fá fyrstu kennarana fyrir þessi stig er hugsanlegt að þær þurfi að grípa til tímabundinna ráðstafana. Gott samhæfingarskema sem byggt er smátt og smátt samkvæmt þörfum á vettvangi ætti að gera það mögulegt að bregðast við aðkallandi málum af sveigjanleika jafnframt því sem haldið er fast við heilindi menntaferlisins í heild sinni.
Auk kerfisbundinnar þjálfunar kennara fyrir öll stigin, verða þjálfunarstofnanirnar að læra hvernig standa skal að kennslu fyrir ákveðna aldurshópa í byggðum og borgarhverfum; útvega kennara fyrir ýmsa hópa; að halda í nemendurna ár eftir ár, stig af stigi, og stuðla að áframhaldandi framförum barna frá fjölbreytilegum heimilum og bakgrunni – í stuttu máli að leggja grunn að stækkandi varanlegu kerfi fyrir menntun barna sem er í takt við bæði vaxandi áhyggjur foreldra af börnum sínum við að þróa heilbrigð siðferðisviðmið og vaxandi mannafla í samfélaginu. Þótt verkefnið sé gríðarmikið er það tiltölulega einfalt og við hvetjum þjálfunarstofnanir hvarvetna til þess að veita því verðskuldaða athygli og einbeita sér sérstaklega að því að koma í framkvæmd fyrstu þremur stigum kennsluáætlunarinnar og minnast þess að gæði reynslunnar af kennslu og námi eru að miklu leyti komin undir hæfni kennarans.
Fáein varnaðarorð. Það er vissulega ekki rangt að tala um „þjálfun“ barnakennara eða hvetjara fyrir unglingahópa, ef því er að skipta. Þjálfunarstofnanir eiga hins vegar að varast að skoða verkefni sín sem þjálfun í tækni og missa sjónar á hugtakinu um hæfnisuppbyggingu sem er hjarta þjálfunarferlisins og felur í sér djúpan skilning á opinberun Bahá’u’lláh.
Kennsluefni
Í ljósi þess sem áður er sagt þarf að íhuga spurninguna um kennsluefni, sérstaklega sem viðkemur barnakennslu og unglingahópum. Hvað varðar hið fyrra útskýrðum við í Riḍvánboðunum 2010 að námsefnið sem Ruhi stofnunin hefur undirbúið yrði kjarni verkefnis fyrir andlega uppfræðslu barna og hægt væri að skipuleggja aðra þætti sem ekki eru jafn mikilvægir í kringum það. Hvort þörf er á einhverju viðbótarefni til að styrkja menntaferlið fyrir hvert stig er almennt á valdi kennaranna sjálfra að ákveða á grundvelli sérstakra kringumstæðna og ekki ósjaldan í samráði við umsjónarmann þjálfunarstofnunarinnar í umdæminu. Gert er ráð fyrir því að þyki eitthvert viðbótarefni henta verði það valið úr efni sem þegar er fyrir hendi. Það verður sjaldan ástæða til að reglubinda notkun slíks efnis hvort sem það gerist beinlínis með því að þjálfunarstofnunin taki það upp eða óbeint með kerfisbundinni útbreiðslu.
Hvað varðar unglingahópa hvetur Skrifstofa félags- og efnahagsþróunar til svipaðrar nálgunar. Kjarni námsins er röð bóka sem lesnar er í hópum. Okkur skilst að nú séu fáanlegar sjö af fyrirhuguðum átján bókum sem kanna margvísleg málefni frá bahá’í sjónarmiði, þó ekki í formi trúfræðslu. Þessar bækur eru stærsti þátturinn í þriggja ára námsskrá. Aðrar níu bækur verða með auðkenndu bahá’í sniði og tvær þeirra eru þegar komnar í notkun. Hvetjurum er ráðlagt að bæta við námið með listrænu starfi og þjónustuverkefnum. Líkt og gerist með barnakennara getur umsjónarmaður þjálfunarstofnunar í umdæmi boðið hvetjurum aðstoð við að ákveða hvernig þeir takast á við það. Samt eru slík verkefni og starfsemi oftast valin af unglingunum sjálfum í ljósi þeirra eigin kringumstæðna og áhugasviða í samráði við hvetjara hópsins.
Í öllum slíkum málum eru þeir sem þjóna sem kennarar eða hvetjarar hvattir til að sýna varfærni og nærgætni. Uppfræðsla er víðfeðmur vettvangur og mikið til af kenningum um menntun og uppfræðslu. Margar þeirra hafa án efa mikið til síns máls en þess ber að minnast að engin þeirra er laus við ályktanir um eðli manns og samfélags. Menntaferli ætti til dæmis að skapa í barni vitund um sína eigin getu og eiginleika en forðast ætti vandlega dýrkun sjálfsins. Sjálfinu er svo oft hampað undir því yfirskini að verið sé að byggja upp sjálfstraust. Á sama hátt gegna leikir hlutverki í uppfræðslu barna. Börn og unglingar hafa hins vegar hvað eftir annað sannað að þau geta tekið þátt í umræðum um afstæð málefni sem sniðin eru að aldri þeirra og þau hafa mikla gleði af alvarlegri viðleitni til að auka skilning sinn. Menntaferli sem þynnir út innihaldið í heillandi hringiðu skemmtana kemur þeim ekki að neinu gagni. Við treystum því að þegar kennarar og hvetjarar fara í gegnum þjálfunarnámskeiðin verði þeir stöðugt færari um að beita dómgreind sinni þegar þeir velja nauðsynlegt efni og starfsemi hvort sem um er að ræða hefðbundið kennsluefni eða fjölbreytt efni, svo sem söngva, sögur og leiki, sem vissulega verður þróað fyrir börn í bahá’í samfélaginu á komandi árum.
Sjá má þjóðir jarðar nálgast hver aðra úr ýmsum áttum, knúnar öflum sem skapast bæði innan og utan bahá’í samfélagsins, og stefna þannig í átt til heimsmenningar sem er svo feiknleg að umfangi að öldungis fánýtt væri að reyna að setja sér hana fyrir sjónir í dag. Þegar þessi miðsækna hreyfing þjóðanna verður hraðari um allan heim munu sumir menningarþættir sem ekki samræmast kenningum trúarinnar hverfa smám saman en aðrir þættir styrkjast. Á sama hátt munu nýir þættir í menningunni þróast með tímanum þegar fólk hvarvetna úr hinni mannlegu fjölskyldu, innblásið af opinberun Bahá’u’lláh, tjáir hugsanir og starfsmynstur sem kenningar Hans skapa, sumpart í list og bókmenntum. Það er með þetta í huga sem við fögnum ákvörðun Ruhi stofnunarinnar þegar hún skipuleggur námskeið sín að láta vinunum það eftir að fjalla staðbundið um málefni sem tengjast listrænni iðkun. Það sem við biðjum um á þessu stigi, þegar beina á orkunni að aukinni barnakennslu og unglingahópum, er að viðbótarvöxtur í þessu skyni fái að þróast á eðlilegan hátt í ferli samfélagsuppbyggingar sem fær aukinn þunga í byggðum og borgarhverfum. Við þráum t.d. að sjá heillandi söngva frá öllum heimshlutum og á öllum málum sem muni vekja ungt fólk til vitundar um þær djúpstæðu hugmyndir sem bahá’í kenningarnar geyma. Slík blómgun skapandi hugsunar mun þó ekki verða að veruleika ef virnirnir falla ósjálfrátt í það mynstur sem tíðkast í heiminum þar sem hinum fjársterku leyfist að þröngva menningarlegum sjónarmiðum sínum upp á aðra og kaffæra þá með vörum og afurðum sem kynntar eru með ágengum hætti. Auk þess ætti að gera allt sem hægt er til að vernda andlega uppfræðslu frá hættum verslunar og markaðssetningar. Ruhi stofnunin hefur sjálf ótvírætt komið í veg fyrir útbreiðslu efnis og afurða sem gera einkenni stofnunarinnar að vörumerki til að markaðssetja. Við vonum að vinirnir muni virða kostgæfni hennar í þessu máli.
Í þessu sambandi gleður það okkur að geta sagt ykkur frá því að við höfum myndað alþjóðlega ráðgefandi nefnd sem á að aðstoða Ruhi stofnunina við eftirlit á kerfi hennar til að undirbúa, framleiða og dreifa efni sem núna nýtir sér bahá’í reynslu um allan heim hvað varðar innihald og uppbyggingu til að beita kenningum og meginreglum trúarinnar á líf mannkyns. Þegar nefndin tekur smám saman til starfa getur hún brugðist við tengdum málefnum og fylgt eftir þróun viðbótarefnis sem er í samræmi við stefnuna sem heimsáætlanirnar setja.
*
Að lokum teljum við okkur til þess knúna að beina nokkrum orðum til þjálfunarstofnana um heim allan: Þess ber að minnast að bahá’í barnakennarinn og hvetjari fyrir unglingahópa sem treyst er fyrir svo mikilli ábyrgð hvað varðar styrkingu á siðferðisgrunni samfélagsins eru á flestum stöðum á táningsaldri. Búast má við að þetta unga fólk komi í auknum mæli úr verkefninu fyrir andlega eflingu unglinga með þann eindregna tvíþætta tilgang að þróa meðfædda getu sína og stuðla að umbreytingu þjóðfélagsins. En það getur einnig komið frá hvaða menntabakgrunni sem er með þá von í hjarta að með ötulli samhæfðri viðleitni muni heimurinn breytast. Hvað sem öllu líður, mun þetta unga fólk allt sem eitt eiga sér þá sameiginlegu þrá að helga tíma sinn og orku, hæfileika og færni þjónustu við samfélög sín. Mörg þeirra munu, sé þeim gefið tækifæri til þess, með ánægju helga fáein ár ævi sinnar andlegri uppfræðslu kynslóðar sem er að vaxa úr grasi. Ungmenni heimsins búa því yfir miklum forða af hæfni og getu til að breyta samfélaginu – forða sem bíður þess að verða nýttur. Og sérhver þjálfunarstofnun ætti að líta á það sem heilaga skyldu sína að leysa þessa hæfni úr læðingi.
[undirritað: Allsherjarhús réttvísinnar]