1. janúar 2011 – Til bahá’ía um allan heim
Efnisgrein 1
Efnisgrein 2
Efnisgrein 3
Afritaðu eða deildu hlekk
Afritaðu eða deildu texta með tilvísun
/t/
/t/
Síðastliðna fimm daga hafa álfuráðgjafarnir verið saman á ráðstefnu í Landinu helga og tekið þátt í einlægum umræðum um framgang hinnar guðlegu áætlunar, umræðum sem einkenndust af skýrri sýn, djúpu innsæi, tryggri undirstöðu og fullvissu. Gleðin og undrunin sem einkenndi þessa samkomu, sem nú er að ljúka, hefur átt upptök sín í lifandi frásögnum af hetjudáðum ykkar, afrekum sem tryggðu þann undraverða árangur að ljúka markmiði fimm ára áætlunarinnar ári áður en henni lýkur. Orð fá vart lýst þeirri miklu ást sem tjáð hefur verið í ykkar garð þessa hraðfleygu daga. Við lofum Guð fyrir að hafa reist upp svo hæft samfélag og þökkum Honum fyrir að leysa úr læðingi ykkar stórkostlegu möguleika. Það eruð þið sem eruð að kynna sannindi trúarinnar og aðstoða sálir við að bera kennsl á Hina blessuðu fegurð hvort heldur í samstarfsverkefnum eða einstaklingsframtaki. Það eruð þið sem í tugþúsunda tali þjónið sem leiðbeinendur námshringja hvar sem móttækileiki kviknar. Það eruð þið, sem án hugsunar um eigið sjálf, miðlið börnum andlegri menntun og veitið unglingum alúðlega vináttu. Það eruð þið, sem með heimsóknum og heimboðum eruð að mynda bönd andlegs skyldleika sem stuðlar að samfélagsvitund. Það eruð þið sem þjónið, þegar kallið kemur, í stofnunum og nefndum trúarinnar, fylgið öðrum og fagnið afrekum þeirra. Það erum við öll óháð því hvert framlag okkar er í þessu verkefni, sem vinnum og þráum, leggjum okkur heilshugar fram og biðjum fyrir því að umbreytingu mannkynsins, sem Bahá’u’lláh sá fyrir sér, verði hraðað.
Um þessar mundir blasir við nýr sjónarhringur, upplýstur ríkulegum fyrirheitum. Megindrættir áætlunarinnar sem hefst á komandi Riḍvánhátíð hafa verið kynntir í bréfi sem lesið var við upphaf ráðstefnu álfuráðgjafanna og sem sent var þjóðarráðunum þann sama dag. Það er von okkar að þið getið lesið það og rannsakað af athygli samhliða Riḍvánboðunum 2010 á hvers kyns samkomum á þjóðar-, landshluta- eða umdæmisvettvangi, í svæðissamfélögum, hverfum eða á heimilum. Það er fullvissa okkar að í samráðinu sem þið takið þátt í um áætlunina muni skilningur ykkar dýpka og, meðvituð um þá andlegu krafta sem styðja ykkur, munuð þið einsetja ykkur að gera þetta heimsspannandi framtak að verkefni sem ykkur er persónulega annt um og verða jafn upptekin af velferð hinnar mannlegu fjölskyldu eins og ykkar ástkæru nánustu ættingja. Það gleður okkur mjög að svo margar sálir um gjörvallt bahá’í samfélagið skuli vera tilbúnar að skara fram úr með þessum hætti. En það sem gleður okkur enn meir er fullvissan um að sigrar næstu fimm ára verði unnir af ungum og öldnum, konum og körlum, sem á þessu andartaki geta verið fullkomlega ómeðvituð um komu Bahá’u’lláh og enn síður um það „afl til samfélagsuppbyggingar“ sem felst í trú Hans. Því þið hafið á valdi ykkar öflugt tæki sem gerir ykkur kleift að veita mannkyninu andlegan styrk til að taka í sínar hendur eigin örlög, tæki sem er styrkt í deiglu reynslunnar. Þið þekkið vel og hafið heyrt greinilega kall Bahá’u’lláh: „Ég er sól viskunnar og haf þekkingarinnar. Ég uppörva veikburða og endurlífga dauða. Ég er leiðarljósið sem lýsir veginn. Ég er hinn konunglegi fálki á armi Hins almáttuga. Ég rétti úr máttvana væng sérhvers vængbrotins fugls og lyfti honum til flugs á ný.“