Allsherjarhús réttvísinnar
28. desember 2010
Til ráðstefnu álfuráðanna
Ástkæru vinir
Fimmtán ár eru liðin frá því að við fyrst gáfum álfuráðgjöfum til kynna, við sams konar tilefni í landinu helga, þá stefnu sem bahá’í samfélagið þyrfti að taka ef hraða ætti tvíþættu ferli útbreiðslu og treystingar – stefnu sem uppsöfnuð reynsla þeirra hafði búið þá undir að stýra af öryggi. Óþarft er að tíunda þá leið sem farin hefur verið á hraðfleygum fimmtán árum. Árangurinn talar sínu máli. Í dag bjóðum við ykkur að hefja samráð um næsta áfanga hins mikla ferðalags sem bahá’í heimurinn hefur lagt í. Þessi áfangi mun vara frá Riḍván 2011 til Riḍván 2016 og mynda hina fyrri af tveimur fimm ára áætlunum sem ná hámarki þegar öld er liðin frá upphafi mótunaraldar trúarinnar. Á næstu dögum eruð þið beðin um að móta skýra sýn á það hvernig álfuráðgjafarnir og aðstoðarráðgjafar þeirra muni aðstoða samfélagið við að byggja á framúrskarandi árangri sínum – að flytja yfir á önnur starfssvið það lærdómshugarfar sem hefur óvéfengjanlega orðið til að einkenna kennsluviðleitni þess, að öðlast þá hæfni sem þarf til að beita á samhæfðan hátt þeim tækjum og aðferðum sem það hefur þróað af svo mikilli kostgæfni og að fjölga vel umfram það sem áður hefur gerst í hópi þeirra sem eru, vakandi fyrir sýn trúarinnar, að vinna af slíkri elju að því sem Guð hefur kallað þá til.
Í Riḍvánboðum okkar í ár lýstum við eðli lærdómsferlisins sem í fjórum samfelldum heimsáætlunum hefur stöðugt vaxið ásmegin og aukið getu vinanna til að taka þátt í grasrótarstarfsemi. Sjónarsviðið er sannarlega tilkomumikið. Með meira en 350.000 sálum um allan heim sem hafa lokið fyrsta námskeiði þjálfunarstofnunarinnar hefur getan til að skapa lífsmynstur sem einkennist af bænaranda aukist til muna. Við fjölbreyttar aðstæður í hverri heimsálfu sameinast hópar átrúenda öðrum í bæn, snúa hjörtum sínum í ákalli til skapara síns, kveðja til sín þá andlegu krafta sem eru forsenda áhrifaríks framtaks einstaklinga og hópa. Nær tvöföldun í fjölda bahá’í barnakennara á fimm ára tímabili hækkar heildarfjölda þeirra í 130.000 og hefur gert samfélaginu mögulegt að svara af heilum hug andlegum þrám og löngunum ungviðisins. Sexföld aukning á sama tíma á getunni til að aðstoða unglinga við að finna leiðina í gegnum svo mikilvægt tímabil í lífi sínu gefur vísbendingu um þá rækt sem lögð er við þennan aldurshóp. Það sem meira er, alls staðar er merkjanlegur fjöldi vina sem er tilbúinn að stofna til samræðna við fólk af ólíkum bakgrunni og með fjölbreytt áhugamál. Þeir rannsaka veruleika lífsins með þeim þannig að sameiginlegur skilningur myndast á þörfum þessa tímaskeiðs í sögu mannkyns og verkfærunum sem þarf til að sinna þeim. Og það sem knýr áfram markvissa fjölgun grunnþáttanna um allan heim, með ekki færri en hálfri milljón þátttakenda í senn, er viðleitni nærri 70.000 vina sem eru færir um að starfa sem leiðbeinendur í námshringjum.
Eins og gert var skýrt í Riḍvánboðunum hefur samfélag Hins mesta nafns verkfæri með takmarkalausa möguleika í kerfinu sem skapað hefur verið til að þróa mannauð. Við afar margbreytilegar aðstæður, í nánast hvaða umdæmi sem er, reynist mögulegt fyrir stækkandi kjarna einstaklinga að skapa hreyfingu í átt að markmiðinu að nýju heimsskipulagi. Fyrir áratug, þegar við kynntum hugtakið umdæmi – sem er landfræðileg afmörkun til þess ætluð að auðvelda hugsun um vöxt trúarinnar lýstum við í meginatriðum fjórum vaxtarstigum sem það gengur í gegnum. Þegar bahá’í samfélagið hófst handa við framkvæmd áætlunarinnar kom í ljós að þessi drög voru gríðarlega notadrjúg hvað það varðar að móta og skýra fyrirbæri sem í eðli sínu er stöðugt ferli. Hin mikla reynsla sem hefur síðan safnast upp gerir vinunum nú kleift að sjá fyrir sér hreyfingu mannfjölda, sem síauknir andlegir kraftar knýja áfram, sem auðuga, öfluga og samfellda heild. Stutt yfirlit yfir ferlið sem á sér stað í umdæmi, þó að það sé ykkur öllum vel kunnugt, mun undirstrika að eðli þess er í grundvallaratriðum lífrænt.
Vaxtaráætlun
Tækifæri sem bjóðast vegna persónulegra kringumstæðna átrúendanna sem fyrstir taka þátt í ferlinu – eða hugsanlega eins innanlandsbrautryðjanda – til að hefja innihaldsríkrar og glöggar samræður við heimafólk ráða því hvernig vaxtarferlið hefst í umdæmi. Námshringur nokkurra vina eða starfsfélaga, kennsla sem boðin er nokkrum börnum í nágrenninu, hópur sem myndaður er fyrir unglinga eftir skólatíma, helgistund sem haldin er fyrir fjölskyldu og vini – allt þetta getur virkað sem vaxtarhvati. Það sem gerist næst fylgir engri fyrir fram gefinni stefnu. Aðstæður geta réttlætt að einn grunnþáttur sé tekinn fram yfir annan og vaxi hraðar en aðrir. Það er einnig mögulegt að allir fjórir þróist á sama hraða. Biðja má kennsluhópa um að koma í heimsókn og aðstoða við að koma skriði á nýbyrjaða starfsemi. En hvernig sem þessu er nákvæmlega háttað verður útkoman að vera sú sama. Í öllum umdæmum verður samhengið milli grunnþáttanna að vera slíkt að í heild sé hægt að greina í þeim fyrstu teikn vaxtaráætlunar fyrir sjálfbæra útbreiðslu og treystingu trúarinnar. Það er að segja: óháð samsetningu eða fjölda er helgistundum, barnakennslu og unglingahópum haldið uppi af þeim sem eru að fara í gegnum námskeið þjálfunarstofnunarinnar og eru helgaðir sýninni á umbreytingu einstaklings og samfélags sem námskeiðin næra. Þetta upphaflega flæði mannauðs inn á vettvang kerfisbundins starfs markar fyrsta áfangann af nokkrum í ferli sjálfbærs vaxtar.
Allar stofnanir og aðrir aðilar sem vinna að markmiðum áætlunarinnar sem nú stendur yfir þurfa að beita þeirri fimi sem fæðing svo öflugs ferlis útheimtir – en engir fremur en aðstoðarráðgjafarnir. Að hjálpa vinunum að gera sér grein fyrir þessum fyrsta og þýðingarmikla áfanga og þeim fjölbreytilegu leiðum sem til hans liggja, er höfuðatriði í starfsemi sérhvers aðstoðarráðgjafa og vaxandi fjölda aðstoðarmanna hans eða hennar. Í þessu verkefni eins og öllum öðrum verða þeir að hafa til að bera víða sýn og skarpa hugsun, sveigjanleika og útsjónarsemi. Þeir ættu að standa þétt við hlið vinanna, styðja þá í baráttu þeirra og taka þátt í gleði þeirra. Sumir þessara vina munu fljótt verða í fararbroddi í starfinu en aðrir stíga varlegar til jarðar; samt munu allir þurfa á stuðningi og uppörvun að halda, ekki aðeins með almennum hætti heldur á grundvelli þeirrar nánu þekkingar sem aðeins fæst með því að vinna hlið við hlið á vettvangi þjónustu. Trú á hæfni hvers einasta einstaklings sem sýnir löngun til að þjóna, verður nauðsynleg viðleitni þeirra sem eiga að laða fram heilshugar þátttöku átrúendanna í áætluninni. Skilyrðislaus ást sem er laus við forsjárhyggju er ómissandi ef þeir eiga að geta breytt hiki í hugrekki sem sprettur af trausti á Guði og umbreyta spennulöngun í stuðning við langtímaverkefni. Yfirveguð staðfesta er nauðsynleg þegar þeir reyna að sýna hvernig hægt er að gera fótakefli að stiklum til framfara. Og fúsleiki til að hlusta á aðra með aukinni andlegri skynjun mun reynast ómetanlegur við að greina hindranir sem geta komið í veg fyrir að sumir vinanna átti sig á hversu brýnt það er að starfið sé samhæft.
Að auka kraftinn
Mikilvægt er að gera sér grein fyrir að þegar vaxtaráætlun fer að taka á sig mynd byrjar andinn sem skapast í samfélaginu að hafa áhrif á atburðarásina. Hvort sem starfsemin er dreifð um umdæmið eða á sér stað í einni byggð eða hverfi, einkennir andi sameiginlegs markmiðs viðleitni vinanna. Hvert sem skipulagsstigið var, sem áður þjónaði sem farvegur fyrir birtingu þessa samfélagsanda, þá krefst kerfisbundin og samræmd fjölgun í grunnþáttunum þess að brátt sé farið á hærra stig. Með ýmsum ráðstöfunum verður starfið skipulegra, og frumkvæði sem áður var að miklu leyti háð einstaklingsvilja fær nú sameiginlega útrás. Umsjónarmenn sem þjálfunarstofnunin skipar, koma nú til skjalanna – fyrir námshringi, unglingahópa og barnakennslu. Útnefningu þeirra má haga á marga lund. Ekkert annað en skýr vitneskja um kringumstæðurnar á vettvangi getur orðið grunnur slíkrar ákvörðunar því það sem er í húfi er ekki fastheldni við ákveðna starfshætti heldur þróun lærdóms- og menntaferlis sem er byrjað að sýna að það getur stuðlað að andlegri eflingu mikils fjölda.
Samfara upptöku skipulags sem styður við þjálfunarferlið, byrja aðrir stjórnunarþættir að myndast. Af tækifærisfundum fáeinna átrúenda þróast reglulegar samræður sístækkandi kjarna vina sem vilja koma vaxandi orku í farveg á sviði þjónustu. Þegar vaxtarferlið stigmagnast mun þetta til lengdar ekki fullnægja þörfum skipulags og ákvarðanatöku. Mynduð verður umdæmiskennslunefnd og umdæmissamkomur settar í stofnanafarveg. Í samstarfi nefndarinnar, þjálfunarstofnunarinnar og aðstoðarráðgjafanna fer af stað fullbúin áætlun um samræmingu verkefnanna – með allri þeirri innbyggðu hæfni sem þarf til að auðvelda skilvirkt flæði leiðsagnar, fjárframlaga og upplýsinga. Nú verður vaxtarferlið í umdæminu í takt við hrynjandina af bylgjum útbreiðslu og treystingar sem eru afmarkaðar með fundum fyrir ígrundun og skipulagningu á þriggja mánaða fresti en þróast óslitið.
Aftur fellur það í hlut aðstoðarráðgjafanna og annarra viðkomandi stofnana og aðila á borð við landshlutaráð og stjórn þjálfunarstofnunar, að tryggja að stjórnþættir sem mótaðir eru í umdæminu taki á sig viðeigandi mynd. Einkanlega er námskeiðaröðin sem við höfum mælt með að þjálfunarstofnanir noti alls staðar, og sem greiðir svo mjög fyrir umbreytingaferlinu sem nú á sér stað, hönnuð til að skapa umhverfi sem bæði er hagfellt fyrir allsherjarþátttöku og gagnkvæman stuðning og aðstoð. Eðli tengslanna milli einstaklinga í þessu umhverfi, sem allir líta á sig sem vegfarendur á sameiginlegri leið þjónustu, var útskýrt stuttlega í Riḍvánboðum okkar. Við bentum þar einnig á að slíkt umhverfi hefur viss áhrif á stjórnfarsleg málefni trúarinnar. Þegar aukinn fjöldi átrúenda tekur þátt í kennslu og stjórnfarslegu starfi sem unnið er með auðmjúku lærdómshugarfari ættu þeir að líta á sérhvert verkefni og öll samskipti sem tækifæri til að taka saman höndum í framfarasókn og fylgjast að í viðleitni sinni til að þjóna málstaðnum. Með þessum hætti dvínar hvötin til að ofstjórna. Þannig má forðast tilhneiginguna til að smætta flókið umbreytingaferli í grunnfærnisleg skref sem hægt væri að kenna með hjálp handbókar. Afmörkuð verkefni eru sett í samhengi og jafnvel hið smæsta skref er hlaðið merkingu. Atbeini andlegra afla á vettvangi þjónustu verður sífellt augljósari og vináttubönd sem eru svo nauðsynleg heilbrigðum vexti styrkjast stöðugt.
Í þessu umhverfi þar sem ferlar mótast, skipulag kemur í ljós og varanleg vináttubönd myndast þá felur sú stund sem líkt er við sjósetningu skips – þ.e. að hleypa öflugri vaxtaráætlun af stokkunum – í sér meðvitaða viðurkenningu á að allir þættirnir sem nauðsynlegir eru til að hraða útbreiðslu og styrkingu trúarinnar séu ekki aðeins til staðar heldur virki einnig á fullnægjandi hátt. Hún er merki um þroska sívaxandi og sjálfbærs kerfis fyrir andlega uppfræðslu fólks: stöðugur straumur vina fer í gegnum námskeið þjálfunarstofnunarinnar og tekur þátt í tilheyrandi verkefnum, sem aftur þjónar því markmiði að fjölga nýliðum í trúnni. Undantekningalaust fer verulegur hluti þeirra inn í þjálfunarferlið, sem tryggir stækkun kerfisins. Þetta er annar áfangi sem vinirnir sem starfa í öllum umdæmum verða að ná með tímanum.
Með því að endurtaka hér mikið af því sem við höfum sagt áður við önnur tækifæri vonumst við til að hafa gert ykkur fulla grein fyrir því hve lítið þarf til að greiða fyrir hreyfingu fólks sem er innblásið af markmiðum og meginreglum málstaðarins, sé óviðkomandi atriðum ekki leyft að flækjast fyrir. Það hvarflar ekki að okkur að sú leið sem við höfum lýst í fáum orðum hér að framan verði farin án erfiðleika. Framfarir verða þegar erfiðleikar og sigrar skiptast á og bakslög eru óhjákvæmileg. Minnkandi þátttaka, truflun á hringrás starfseminnar, stundarrof á böndum einingar – þessar ögranir og áskoranir ásamt mörgum öðrum gæti þurft að kljást við. Ekki er fátítt að fjölgun í mannafla sé ekki næg, né hæfni til að virkja hann, til að mæta kröfum um hraða útbreiðslu. Samt mun stöðluð og formúlukennd nálgun ekki leiða af sér vaxtarmynstur sem einkennist af æskilegu jafnvægi. Tímabundið ójafnvægi í framvindu ýmissar starfsemi er ferlinu eiginlegt og hægt er að laga það með tímanum með þolinmóðri viðleitni. Að draga úr einum starfsþætti sem blómgast vegna fræðilegra hugmynda um hvernig hægt sé að ná jafnvægi í vexti virkar oft öfugt við það sem til var ætlast. Þótt vinirnir í einhverju umdæmi gætu lært af reynslu þeirra sem þegar hafa stofnað til nauðsynlegs mynsturs í starfinu, er það aðeins með samfelldri vinnu, íhugun og samráði af þeirra hálfu sem þeir læra að skynja sinn eigin veruleika, sjá sína eigin möguleika, nýta það sem þau sjálf hafa úr að spila og svara þörfum umfangsmikillar útbreiðslu og treystingar sem er fram undan.
Í dag eru um 1.600 umdæmi um allan heim þar sem vinunum hefur tekist að skapa framkvæmdamynstur sem tengist öflugri vaxtaráætlun. Þótt þetta sé þýðingarmikið er á engan hátt hægt að líta á það sem hámark þess ferlis sem hefur stigmagnast í hverju umdæmi. Ný og ónumin svæði lærdóms eru nú að opnast vinunum sem beðnir eru um að beina orku sinni að því að skapa lifandi samfélög, sem vaxa og endurspegla í æ ríkari mæli sýn Bahá’u’lláh fyrir mannkynið. Slík umdæmi munu einnig þurfa að þjóna sem uppspretta hugsanlegra brautryðjenda sem hægt væri að senda til hvers umdæmisins á fætur öðru, þá einkum í heimalandinu, og miðla þannig í sumum þeirra fyrstu geislunum af ljósi opinberunar Bahá’u’lláh og styrkja í öðrum nærveru trúarinnar, en gera þeim öllum kleift að þróast hratt áleiðis til fyrsta áfangans á þróunarbrautinni og síðan áfram. Með þetta í huga munum við hvetja samfélag hins mesta nafns á Riḍván 2011 til að fjölga á næstu fimm árum þeim umdæmum þar sem vaxtaráætlun er í gangi, hvar á vegi sem þau eru stödd í þeirri áætlun, í 5.000 sem er um það bil þriðjungur af öllum umdæmum í heiminum í dag.
Að færa út lærdómsmörkin
Því sem við höfum lýst í undanförnum efnisgreinum og í svo mörgum skilaboðum síðasta einn og hálfan áratug, má best lýsa sem síðustu nálgun af mörgum við vöxt bahá’í samfélagsins, en hver um sig er sniðin að sérstökum sögulegum aðstæðum. Þetta guðlega knúna vaxtarferli var sett af stað af þeim funandi hita sem myndaðist í vöggu trúarinnar fyrir meira en hundrað og sextíu árum þegar þúsundir svöruðu kalli hins nýja dags og fengu hvatningu fyrir tilstuðlan fyrstu átrúendanna sem fluttu boðskap Bahá’u’lláh til nágrannalanda í austri og dreifðra svæða í vestri. Það fékk á sig skýrari mynd með töflum hinnar guðlegu áætlunar sem ‘Abdu’l‑Bahá opinberaði og það efldist þegar vinirnir dreifðu sér kerfisbundið um heiminn undir stjórn Verndarans til að stofna litlar miðstöðvar fyrir bahá’í starfsemi og reisa fyrstu stoðir stjórnskipulagsins. Því jókst ásmegin í sveita – og dreifbýlishéruðum heimsins þegar stórir hópar tóku á móti trúnni en það hægði töluvert á sér meðan vinirnir reyndu að finna tæki og aðferðir til að viðhalda útbreiðslu og styrkingu í stórum stíl. Og nú síðustu fimmtán árin hefur það stöðugt vaxið eftir að við sendum út ákall í upphafi fjögurra ára áætlunarinnar til bahá’í heimsins um að kerfisbinda kennslustarfið á grundvelli þeirrar reynslu sem bahá’í samfélögin höfðu aflað sér í áratuga löngu, erfiðu en ómetanlegu lærdómsferli. Fáir myndu hafna þeirri staðreynd að núverandi nálgun til vaxtarins, jafn áhrifarík og hún er, eigi eftir að verða enn margþættari og fínslípaðri þegar hún loks hefur skotið rótum í umdæmi, og sýni enn gleggra það uppbyggilega afl til þjóðfélagsmótunar sem er innbyggt í trúna.
Þegar Verndarinn ástkæri vísaði til þróunar bahá’í heimssamfélagsins hvatti hann vinina oft til að vera staðfasta í áformum sínum og þolgóða í viðleitni sinni. Hann sagði með velþóknun: „Þeir gera sér grein fyrir háleitu hlutverki sínu og sækja fram fullvissir um það afl til uppbyggingar þjóðfélagsins sem trú þeirra býr yfir, óhindraðir og óttalausir í viðleitni sinni til að móta og fullkomna þau verkfæri sem nauðsynleg eru til þess að heimsskipulag Bahá’u’lláh á fósturstigi geti þroskast og dafnað.“ Hann minnti þá á að „þetta uppbyggingarferli, hægfara og hógvært, felur í sér einu von“ vonsvikins mannkyns. Ljóst er af ritum hans að þetta ferli mun halda áfram að vaxa að umfangi og áhrifum og þegar fram líða stundir mun stjórnskipulagið sýna „hæfni sína til að teljast ekki aðeins kjarni heldur sjálft mynstur nýs heimsskipulags.“ Hann sagði með áherslu: „Í heimi sem býr við laskaðar pólitískar og félagslegar stofnanir, sem hefur daprast sýn, með ráðvillta samvisku og líflaus trúarkerfi án dyggða, er þetta græðandi afl, þessi gegnsýrandi kraftur, þessi styrkur sem öllu heldur saman, bráðlifandi og alltumfaðmandi, að myndast,“ hann er „að kristallast í stofnanir,“ og hann er að „kalla út mannafla sinn“.
Það ætti að vera ljóst að ef þetta stjórnskipulag á að verða mynstur framtíðarþjóðfélags verður samfélagið þar sem það þróast ekki aðeins að öðlast hæfni til að svara auknum efnislegum og andlegum þörfum heldur einnig að verða sífellt stærra. Hvernig gæti annað verið. Lítið samfélag með meðlimum sem eru sameinaðir í trú sinni, einkennast af háleitum hugsjónum, vinna ötullega að stjórnun málefna sinna og sinna þörfum sínum, og eru hugsanlega virkir í allmörgum mannúðarverkefnum – slíkt samfélag sem dafnar en er samt í þægilegri fjarlægð frá þeim raunveruleika sem allur þorri mannkyns býr við, getur aldrei vonast til að þjóna sem mynstur fyrir endurreisn alls þjóðfélagsins. Að bahá’í heimssamfélaginu hafi tekist að koma í veg fyrir hætturnar af andvaraleysi og sjálfsánægju er okkur mikið gleðiefni. Samfélagið hefur að sönnu full tök á útbreiðslu og treystingu. En að taka að sér stjórn á málefnum fjölda fólks í þorpum og borgum víða um heim – að hefja upp í allra augsýn fána heimsskipulags Bahá’u’lláh – er enn þá fjarlægt markmið.
Þarna felst því ögrunin sem blasir við þeim sem eru í framlínu lærdómsferlisins sem mun halda áfram að þróast í næstu áætlun. Alls staðar þar sem öflugri vaxtaráætlun er komið á fót skulum við láta vinina gera sitt ítrasta til að auka þátttökuna. Þeir ættu að beita öllum kröftum til að tryggja að kerfið sem þeir hafa reist með svo miklum erfiðismunum lokist ekki, heldur stækki stöðugt og nái til æ fleiri. Þeir ættu ekki að missa sjónar á þeim eftirtektarverða móttækileika sem þeir hafa skynjað – eða öllu heldur þeirra áköfu væntinga sem biðu þeirra – þegar þeir fengu meira traust á hæfni sinni til að eiga samskipti við fólk af öllum stigum og stéttum, og ræða við það um persónu Bahá’u’lláh og opinberun Hans. Þeir ættu að halda fast við þá sannfæringu að bein kynning á trúnni, getur borið varanlegan árangur sé hún gerð af nægilegri dýpt og þekkingu og styrkt af heilbrigðri nálgun hvað varðar treystingu. Og þeir ættu ekki að gleyma lærdómi fortíðar sem tók af allan vafa um að tiltölulega lítill hópur virkra stuðningsmanna málstaðarins, hversu úrræðagóður og helgaður sem hann er, getur ekki sinnt þörfum samfélaga með hundruðum karla, kvenna og barna, hvað þá þúsundum. Nógu augljóst er hvað um er að ræða. Ef fáeinir tugir axla ábyrgð á útbreiðslu og styrkingu í umdæmi með nokkur hundruð manns sem taka þátt í starfsemi samfélagslífsins ættu báðar tölur að hækka verulega þannig að í lok áætlunarinnar séu eitt eða tvö hundruð að greiða fyrir þátttöku eitt eða tvö þúsund manns.
Það er gleðilegt til þess að vita að nú þegar hafa átrúendur í um 300 af 1.600 umdæmum í heiminum þar sem öflug vaxtaráætlun er í gangi haldið inn á nýjan lærdómsvettvang sem þeim hefur opnast og í allnokkrum tilfellum eru þeir að stækka hann. Ljóst er að það hefur afgerandi þýðingu í öllum slíkum umdæmum að styrkja menntaferlin sem þjálfunarstofnunin kemur af stað, ásamt því sem nauðsynlega verður að fylgja hverju þeirra – reglulegar kennslustundir fyrir yngstu meðlimi þjóðfélagsins, samheldna hópa unglinga og námshringi fyrir ungmenni og fullorðna. Margt af því sem þetta starf felur í sér var rætt í Riḍvánboðunum. Vinirnir í slíkum umdæmum sem hafa persónulega orðið vitni að umbreytandi áhrifum þjálfunarferlisins reyna undantekningarlaust að fá dýpri skilning á aflfræðinni að baki því – þeim anda vináttu sem það skapar, þátttökumiðaðri nálgun þess, þeim djúpa skilningi sem það miðlar, þeim þjónustuverkefnum sem það mælir með og umfram allt hvernig það reiðir sig á orð Guðs. Allt er gert til að tryggja að ferlið endurspegli gagnkvæmni þess að „vera“ og „gera“ sem kemur skýrt fram í námskeiðunum; höfuðáhersluna sem lögð er á öflun þekkingar og beitingu hennar; áhersluna sem þau leggja á að þátttakendur forðist falska tvígreiningu, mikilvægi þess að hið skapandi orð sé lagt á minnið og þá natni sem lögð er í að efla og auka vitundina án þess að vekja upp hið áleitna sjálf.
Að auka stjórnfarslega hæfni
Þótt helstu þættir vaxtarferlisins séu óbreyttir í þeim umdæmum sem eru í fararbroddi hvað varðar lærdóm útheimtir fjöldinn innan þeirra einn og sér að skipulagskerfið verði margþættara. Ýmsar nýjungar hafa þegar verið kynntar til sögunnar bæði á grundvelli landfræðilegra þátta og fjölgunar. Skipting umdæma í smærri einingar, dreifstýring umdæmissamkoma, skipun aðstoðarmanna fyrir umsjónarmenn með þjálfunarferlinu, teymi reyndra vina sem styðja aðra á vettvangi – þetta eru nokkrar þeirra ráðstafana sem gerðar hafa verið til þessa. Við erum þess fullvissir að með góðri aðstoð ykkar muni Alþjóðlega kennslumiðstöðin fylgja þessari þróun eftir í næstu áætlun og hjálpa til við að treysta fenginn lærdóm í sessi og gera hann að þaulreyndum aðferðum og tækjum. Með þetta í huga þurfið þið og aðstoðarráðgjafar ykkar að skapa andrúmsloft sem hvetur vinina til að vinna skipulega en án stífni, vera skapandi en vinna ekki með handahófskenndum hætti, vera ákveðnir en ekki í fljótfærnir, vera vandvirkir en ekki stjórnsamir og viðurkenna að þegar allt kemur til alls er það ekki tæknin heldur eining í hugsun, samræmt átak og hollusta við lærdóm sem mun stuðla að framförum.
Hvert sem eðli þeirra ráðstafana er sem gerðar eru á stigi umdæmis til að samræma starfsemi í stórum stíl verða áframhaldandi framfarir háðar þróun svæðisráða, aukinni hæfni bahá’í landshlutaráða og að lokum andlegu þjóðarráðunum. Í Riḍvánboðunum létum við í ljós ánægju okkar yfir vaxandi styrk þjóðarráðanna og við lítum til næstu fimm ára með bjartsýni, fullvissir þess að við eigum eftir að sjá þýðingarmiklar og stórstígar framfarir í þeim efnum. Auk þess erum við í engum vafa um að þið munuð, í samvinnu við andlegu þjóðarráðin, geta aðstoðað landshlutaráðin við að bæta hæfni sína sem stofnanir. Nú eru 170 slíkar stjórnstofnanir í 45 löndum um allan heim og þeim mun örugglega fjölga í næstu áætlun. Það er brýnt að öll landhlutaráð fylgist vel með starfsemi þjálfunarstofnunarinnar og starfi umdæmisnefnda. Með þetta í huga munu þau sjá að nauðsynlegt er að skapa og slípa skipulagsferli sem stuðla að þróun vaxtarmynsturs á umdæmisstigi og tengdum lærdómsferlum. Þeirra á meðal má nefna skilvirka landshlutaskrifstofu sem veitir ritaranum grundvallarstuðning í skipulagsmálum; gott bókhaldsskipulag sem heldur utan um fjölbreytta farvegi fyrir sjóðsstreymi til og frá umdæmum; virkar samskiptaleiðir sem taka mið af veruleika lífsins í þorpum og hverfum; og húsnæði þar sem þess gerist þörf til að greiða fyrir aukinni og markvissri starfsemi. Mikilvægt er að viðurkenna í þessu sambandi að aðeins þegar landshlutaráðin sjálf taka þátt í lærdómsferlinu koma slíkir skipulagsþættir að gagni. Annars gæti það gerst að kerfi sem virðast hafa verið sett á fót til að styðja síaukinn fjölda þátttakenda í byggðum og borgarhverfum við að læra í verki, vinni undir niðri gegn slíku markmiði og kæfi óviljandi aukinn metnað í grasrótinni.
Þótt samstarf við andleg þjóðarráð og landshlutaráð verði meðal ykkar helstu viðfangsefna, þurfa aðstoðarráðgjafar ykkar að beina sífellt meiri orku í að efla hæfni stofnana innan sveitarfélaganna þar sem þörfin fyrir samfélagsuppbyggingu er svo augljós. Til að hjálpa ykkur að sjá það sem fram undan er hjá aðstoðarráðgjöfum og aðstoðarmönnum þeirra hvarvetna, sérstaklega í umdæmum þar sem útbreiðsla og treysting á sér stað í stórum stíl, biðjum við ykkur að leiða fyrst hugann að þróun svæðisráðanna í mörgum dreifbýlishéruðum heims þar sem slík umdæmi eru langflest.
Eins og þið vitið einskorðast viðleitni vinanna oft aðeins við fáeina staði í dreifbýlisumdæmum, þar sem eru smáar byggðir og hugsanlega einn eða tveir bæir, meðan verið er að þróa það aðgerðamynstur sem tengist öflugri vaxtaráætlun. En þegar allt er komið á sinn stað er hægt að færa mynstrið hratt út til annarra þorpa og byggða eins og útskýrt var í Riḍvánboðum þessa árs. Andlega svæðisráðið er stofnað snemma á hverju svæði og stöðug þróun þess fylgir braut sem er hliðstæð og nátengd því nýja vaxtarferli sem þróast í byggðarlaginu. Og líkt og gerist með þróun annarra þátta í þessu ferli er best að skilja þróun svæðisráðanna sem hæfnisuppbyggingu.
Það sem fyrst þarf að gerast er tiltölulega einfalt: Skilningur meðlimanna á vaxtarferlinu, sem stigmagnast í byggðinni, skilningur sem fenginn er með persónulegri þátttöku hvers og eins þeirra í grunnþáttunum, þarf að verða að samvitund sem viðurkennir bæði eðli umbreytinganna sem eiga sér stað og skyldu ráðsins til að hlúa að þeim. Efalaust þarf að beina ákveðinni athygli að vissum stjórnfarslegum undirstöðuþáttum – til dæmis reglubundnum fundum, nítjándagahátíðum og að skipuleggja helgidaga, að setja á fót svæðisjóð og halda árlega kosningar í samræmi við bahá’í meginreglur. Samfara þessu ætti það þó ekki að reynast erfitt fyrir svæðisráðið með hvatningu aðstoðarmanna aðstoðarráðgjafanna að hafa samráð sem stofnun um eitt eða tvö mál sem hafa beina þýðingu fyrir samfélagslífið; það er, hvernig verið er að styrkja tilbeiðslumynstrið á staðnum með tilstuðlan einstaklinganna sem hafa lokið fyrsta þjálfunarnámskeiðinu; hvernig kennarar sem þjálfunarstofnunin hefur þjálfað standa að andlegri uppfræðslu barna; hvernig möguleikar og hæfileikar unglinga eru gerðir að veruleika með áætluninni um andlega eflingu þeirra; hvernig verið er að styrkja andlega og félagslega innviði samfélagsins þegar vinirnir heimsækja hver annan á heimilum þeirra. Þegar ráðið hefur samráð um svo áþreifanleg efni og lærir að rækta vaxtarferlið með ástúð og þolinmæði treystir það smám saman tengsl sín við umdæmisnefndina og þjálfunarstofnunina í sameiginlegu markmiði. En það sem er enn þá mikilvægara: svæðisráðið byrjar að leggja grundvöllinn sem hægt er að byggja á þau einstæðu, ástríku og ósviknu stuðningstengsl sem andlega svæðisráðið á að hafa við hvern og einn átrúanda og Verndarinn ástkæri lýsir í mörgum bréfum sínum.
Að læra að hafa samráð um sérstök málefni sem tengjast heimsáætluninni, hversu brýn sem þau eru, er augljóslega aðeins einn þáttur í því ferli hæfnisuppbyggingar sem andlega svæðisráðið verður að fást við. Stöðug þróun þess felur í sér hlýðni við þau fyrirmæli ‘Abdu’l‑Bahá að „allar umræður verði að einskorðast við andleg málefni sem fjalla um þjálfun sálna, fræðslu barna, aðstoð við fátæka, hjálp við hina veikburða meðal allra stétta í heiminum, gæsku gagnvart öllum þjóðum, að dreifa ilmi Guðs og upphefja heilagt orð Hans.“ Stöðug framþróun þess krefst ósveigjanlegrar hollustu við framgang bestu hagsmuna samfélagsins og að skjaldborg sé slegið um vaxtarferlið til að verja það þeim öflum siðferðilegrar hnignunar sem ógna því. Stöðugur vöxtur þess krefst ábyrgðartilfinningar sem nær út fyrir hring vina og vandamanna sem taka þátt í grunnþáttunum og tekur til allra íbúanna. Og það sem viðheldur stigvaxandi þroska þess er óhagganleg trú á fyrirheit ‘Abdu’l‑Bahá um að vernd hans og umhyggja muni umlykja sérhvert andlegt ráð.
Samfara vaxandi samvitund eykst geta ráðsins til að meta réttilega og nýta auðlindir, fjárhagslegar og aðrar, bæði til stuðnings samfélagsstarfinu og til stjórnunarstarfa sinna sem með tímanum gætu falið í sér hyggilega skipun nefnda og rekstur látlauss húsnæðis fyrir starfsemina. Ekki er síður nauðsynleg hæfni ráðsins til að rækta og hlynna að umhverfi sem stuðlar að þátttöku mikils fjölda í sameinuðu átaki og tryggja að orka þess og hæfileikar nýtist til framfara. Í öllu þessu er ráðinu efst í huga andleg velferð samfélagsins. Og þegar óhjákvæmileg vandamál steðja að, hvort heldur þau varða einhverja starfsemi eða einstaklinga, verður tekið á þeim af andlegu svæðisráði sem hefur unnið svo fullkomlega traust og trúnað meðlima samfélagsins að þeim finnst sjálfsagt og eðlilegt að snúa sér til þess um aðstoð. Þetta felur í sér að ráðið hefur lært af reynslu hvernig á að hjálpa átrúendunum að láta af hegðun sem einkennist af sundurlyndi og flokkadráttum, hvernig finna má fræ einingar jafnvel við flóknar og sárar aðstæður og hvernig rækta má þessi fræ með tíma og ástúð jafnframt því að missa aldrei sjónar á fána réttlætisins.
Eftir því sem samfélagið vex að stærð og hæfni til að viðhalda krafti munu vinirnir, eins og við höfum áður bent á, sogast lengra inn í líf þjóðfélagsins og standa frammi fyrir þeirri áskorun að notfæra sér þær aðferðir og nálganir sem þar hafa þróast til að bregðast við stöðugt fjölbreyttari málaflokkum sem krefjast úrlausna í heimabyggð þeirra. Spurningin um samhengi sem er svo nauðsynlegt fyrir þann vöxt sem náðst hefur til þessa og hefur slíka grundvallarþýðingu fyrir vaxandi aðgerðaramma áætlunarinnar, tekur nú á sig nýjar víddir. Margt mun koma í hlut svæðisráðsins, ekki sem framkvæmdaaðila heldur sem rödd siðferðilegs myndugleika, til að tryggja að vinirnir reyni að beita kenningum trúarinnar til að bæta aðstæður með aðgerðum, íhugun og samráði svo enginn skuggi falli á heilindin í viðleitni þeirra.
Riḍvánboð okkar lýstu nokkrum einkennum félagslegrar vinnu í grasrótinni og þeim aðstæðum sem hún verður að mæta. Viðleitni í hverju byggðarlagi byrjar almennt í smáum stíl, hugsanlega með hópum vina, sem hver um sig hefur áhuga á sérstökum félagslegum eða efnahagslegum þörfum sem þeir hafa borið kennsl á, þar sem hver og einn fylgir einfaldri aðgerðaáætlun. Samráð á nítjándagahátíðum skapar rými fyrir uppbyggilega tjáningu á vaxandi samfélagsvitund. Hvert sem eðli starfseminnar er, sem ráðist er í, verður svæðisráðið að gefa gætur að hugsanlegum gildrum sem á veginum kunna að verða og aðstoða vinina, ef þess gerist þörf, að sneiða hjá þeim – þetta á m.a. við um töfraljómann af alltof metnaðarfullum verkefnum sem gleypa orkuna en ganga að lokum ekki upp, freistingar sem stafa af fjárstyrkjum sem myndu krefjast fráhvarfs frá bahá’í meginreglum, lævíslega innpökkuð gylliboð um tækni sem myndi ræna byggðina menningararfi hennar og leiða til sundrungar og misræmis. Um síðir getur styrkur þjálfunarferlisins á staðnum og sú aukna hæfni sem það hefur ræktað með einstaklingum, gert vinunum kleift að notfæra sér þaulreyndar aðferðir og áætlanir sem einhver samtök innblásin af bahá’í trúnni hafa þróað og sem kynntar hafa verið umdæminu að tillögu og með stuðningi okkar eigin Skrifstofu félags- og hagþróunar. Auk þess verður ráðið að læra að hafa samskipti við félagslegar og pólitískar stofnanir á svæðinu, auka smám saman vitneskju um návist trúarinnar og þau áhrif sem hún hefur á framfarir í byggðarlaginu.
Útlínurnar sem dregnar hafa verið upp í efnisgreinunum hér að framan sýna aðeins fáeinar þeirra eiginda sem andleg svæðisráð í bæjum og byggðum víða um heim munu smám saman þróa til að þjóna þörfum samfélaga sem taka á móti sífellt fleira fólki. Þegar þau í auknum mæli sýna þá hæfni og krafta sem í þeim eru fólgin munu íbúarnir á hverjum stað byrja að líta á meðlimi þeirra sem „trúnaðarmenn hins miskunnsama meðal manna“. Þannig verða þessi ráð „skínandi lampar og himneskir garðar þaðan sem ilmur heilagleikans berst yfir öll svæði og ljósi þekkingar er úthellt yfir alla hluti skapaða. Frá þeim streymir andi lífsins í allar áttir.“
Svo háleit sýn á auðvitað í jafn ríkum mæli við um öll andleg svæðisráð í heiminum. Jafnvel í stórborg er eðli þess þroskaferlis sem ráðið fer í gegnum í grundvallaratriðum hið sama og lýst er hér að ofan. Munurinn felst aðallega í stærð og fjölbreytileika íbúanna. Hið fyrrnefnda gerir kröfu til skiptingar á lögsögu ráðsins í hverfi í samræmi við þarfir vaxtarins og stigbundna upptöku skipulagsferla fyrir málefnastjórn trúarinnar í hverju þeirra. Hið síðarnefnda útheimtir að ráðið kynnist margbreytilegum félagslegum kringumstæðum og samskiptaháttum, auk landfræðilegra aðstæðna þar sem þjóðfélagshópar koma saman, og bjóða þeim að svo miklu leyti sem það er unnt þá visku og vísdóm sem kenningarnar geyma. Auk þess eru þær stofnanir í borgarumhverfi – félagslegar, pólitískar og menningarlegar – sem ráðið þarf að læra að hafa samskipti við miklu fleiri og umfangsmeiri.
Þjónusta í bahá’í stofnunum
Þegar við á þessum blaðsíðum setjum ykkur fyrir sjónir þá þróun sem við viljum gjarnan sjá gerast í stjórnunarstarfi trúarinnar í næstu fimm ára áætlun minnumst við ítrekaðra varnaðarorða Verndarans hvað þetta varðar. Hann sagði: „Gætum þess að missa ekki sjónar á þeim guðdómlega tilgangi sem stjórnkerfi málstaðarins hefur verið skapað fyrir vegna mikils áhuga okkar á því að fullkomna það“. Hann ítrekaði að á bahá’í stjórnkerfið bæri að líta „sem verkfæri en ekki sem takmark í sjálfu sér“. Hann lét koma skýrt fram að því væri ætlað „að þjóna tvíþættum tilgangi“. Annars vegar „ætti stjórnkerfið að miða að stöðugum og stigbundnum vexti“ málstaðarins „eftir leiðum sem eru allt í senn víðtækar, heilbrigðar og alþjóðlegar.“ Hins vegar „ætti það að tryggja innri treystingu þess starfs sem þegar hefur verið unnið. Og hann hélt útskýringu sinni áfram: „Það [stjórnkerfið] ætti bæði að miðla hvatanum sem gerir kraftinum sem felst í trúnni kleift að koma í ljós, kristallast og móta líf og hegðun manna, og jafnframt þjóna sem miðill fyrir skoðanaskipti og samræmingu í starfi þeirra margvíslegu þátta sem bahá’í samfélagið samanstendur af.“
Það er einlæg von okkar að í viðleitni ykkar í næstu áætlun við að stuðla að heilbrigðri og samstilltri þróun bahá’í stjórnskipunar á öllum stigum, í sveitarfélagi eða á landsvísu, munuð þið gera ykkar ítrasta til að aðstoða vinina við að vinna störf sín í samræmi við það lífræna vaxtarferli sem stigmagnast um allan heim. Að þessi von verði að veruleika veltur að miklu leyti á því hversu vel þeir sem hafa verið kallaðir til að veita slíka þjónustu – hvort heldur þeir eru kosnir í andlegt ráð eða skipaðir í einhverja stofnun þess, hvort heldur þeir hafa verið útnefndir umsjónarmenn þjálfunarstofnunar eða aðstoðarráðgjafar ykkar – beri kennsl á þau miklu forréttindi sem þeim hlotnast og skilji mörkin sem þessi forréttindi setja þeim.
Þjónusta í stofnunum og nefndum trúarinnar er að sönnu gríðarleg forréttindi en ekki þess háttar að einstaklingurinn sækist eftir þeim. Hún er skylda og ábyrgð sem hann eða hún kann að verða kvödd til að axla hvenær sem er. Það er auðvitað skiljanlegt að allir sem starfa innan bahá’í stjórnskipulagsins skynji með réttu að þeim hafi fallið í hlut sá einstæði heiður að móta með einhverjum hætti það skipulag sem á að verða farvegurinn fyrir anda málstaðarins. Þeir ættu þó ekki að ímynda sér að slík þjónusta veiti þeim rétt til að starfa í útjaðri þess lærdómsferlis sem alls staðar sækir í sig kraft eða séu undanþegnir þeim kröfum sem það gerir. Þeir ættu ekki heldur að gera ráð fyrir að sæti í stjórnstofnununum gefi þeim tækifæri til að boða sinn eigin skilning á því sem stendur í helgiritunum eða hvernig eigi að beita kenningunum, og stýra samfélaginu í hverja þá átt sem persónulegar langanir hneigjast til. Verndarinn ritaði með vísan til meðlima andlegra ráða að þeir „verða algjörlega að virða að vettugi hvað þeim líkar eða mislíkar, persónuleg áhugamál og hneigðir og einbeita sér að þeim málum sem stuðla að velferð og hamingju bahá’í samfélagsins og almannaheill.“ Bahá’í stofnanir hafa á hendi völd til að leiðbeina vinunum og hafa siðferðileg, andleg og vitsmunaleg áhrif á líf einstaklinga og samfélaga. Slík störf á hins vegar að vinna í vitund um þann anda ástríkrar þjónustu sem gegnsýrir stofnanir trúarinnar. Afmörkun valds og áhrifa á þennan hátt felur þannig í sér fórn af hálfu þeirra sem treyst er fyrir stjórn trúarinnar. Segir ‘Abdu’l‑Bahá okkur ekki: „...þegar járn er sett í eld hverfa eiginleikar járnsins, þ.e. hið dimma, kalda og harða, sem táknar eigindir mannheims en auðkennandi eiginleikar eldsins, roði, hiti og fljótandi ástand, sem tákna dyggðir ríkisins, verða augljósir.“ Þannig, staðhæfði hann „verðið þið í þessum málum – það er í þjónustu við mannkynið – að fórna lífi ykkar og fagna um leið og þið látið það af hendi.“
*
Heittelskuðu vinir: Eins og þið vitið vel er það okkur mikil ánægja að sjá hversu kunnáttusamlega þið og aðstoðarráðgjafar ykkar þjónið í framlínu kennslustarfsins, sinnið þeim skyldum ykkar að næra eld ástar Guðs í sérhverju hjarta og sál, stuðlið að lærdómi og aðstoðið alla í viðleitni sinni við að þróa með sér heiðarlega og lofsverða skaphöfn. Þegar bahá’í samfélag Norður Ameríku hóf fyrstu sjö ára áætlun sína um það ábyrgðarstarf sem fyrir það var lagt í töflum hinnar guðlegu áætlunar, sendi Verndarinn vinunum í því landi alllangt og áhrifamikið bréf, dagsett 25. desember 1938, sem síðar var gefið út undir heitinu Guðlegt réttlæti í nánd. Þegar Verndarinn fjallaði í þessu bréfi sínu um eðli þeirra verkefna sem fram undan voru vísaði hann til þess sem hann nefndi andlegar forsendur fyrir árangri í öllu bahá’í starfi. Þrjár þeirra segir hann að „séu þýðingarmestar og skipti sköpum“: ráðvönd hegðun, skírt og heilagt líferni og fordómaleysi. Í ljósi ástandsins í heiminum í dag gerðuð þið rétt í að íhuga hvað felst í orðum hans fyrir þá viðleitni bahá’í samfélagsins um heim allan að vekja anda opinberunar Bahá’u’lláh í hverju umdæminu á fætur öðru.
Þegar Shoghi Effendi vísaði til ráðvandrar hegðunar talaði hann um „réttlæti, sanngirni, sannsögli, heiðarleika, réttsýni, áreiðanleika og traustverðugleika“ sem verði „að einkenna sérhvert stig í lífi bahá’í samfélagsins.“ Þótt þetta eigi við um alla meðlimi þess lagði hann áherslu á að þessi forsenda eigi sérstaklega við um „kjörna fulltrúa þess, hvort heldur er á stigi svæðis, landshluta eða þjóðar.“ Siðferðiskennd þeirra ætti að vera í algjörri andstæðu við „afsiðunaráhrifin sem stjórnmálalíf, þjakað af spillingu, ber svo glöggt vitni“. Verndarinn hvatti til „stöðugrar og óhaggandi réttlætiskenndar“ í „undarlega glundroðakenndum heimi“; hann vitnaði ítrekað í rit Bahá’u’lláh og ‘Abdu’l‑Bahá og beindi sjónum vinanna að hæstu mælikvörðum heiðarleika og orðheldni. Hann höfðaði til vinanna og bað þá að verða fordæmi ráðvandrar hegðunar á öllum sviðum í lífi sínu – í viðskiptum, heimilislífi, í allri atvinnu, í allri þjónustu sem þeir veita málstaðnum og fólki sínu. Hann bað þá að uppfylla kröfurnar sem slík hegðun gerir með óhagganlegri fastheldni við lög og meginreglur trúarinnar. Það er augljóst að stjórnmálalífi hefur hvarvetna haldið áfram að hnigna með ógnvænlegum hraða á þeim árum sem síðan eru liðin, þegar sjálft hugtakið stjórnviska hefur verið rúið merkingu; pólitísk stefnumál eru farin að þjóna peningahagsmunum hinna fáu í nafni framfara; hræsni og yfirdrepsskap hefur verið leyft að grafa undan virkni félagslegra og efnahagslegra stofnana. Hafi mikillar viðleitni verið þörf af hálfu vinanna við að halda í heiðri háleitan mælikvarða trúarinnar, hversu miklu meiri verður ekki sú viðleitni að vera sem bíður okkar í heimi sem verðlaunar óheiðarleika, hvetur til spillingar og lítur á sannleikann sem vöru sem hægt sé að semja um. Djúpstæður er glundroðinn sem ógnar undirstöðum þjóðfélagsins og óhagganleg verður ákvörðun allra þeirra sem taka þátt í bahá’í starfsemi að vera til þess að ekki falli minnsti skuggi eiginhagsmunahyggju á dómgreind þeirra. Umsjónarmenn allra þjálfunarstofnana, meðlimir allra umdæmisnefnda, allir aðstoðarráðgjafar og aðstoðarmenn þeirra, allir meðlimir svæðis-, landshluta- og þjóðarstofnana trúarinnar, hvort sem þeir eru skipaðir eða kjörnir, ættu að meta að verðleikum þýðingu tilmæla Verndarans um að íhuga í hjarta sér hvað sú siðferðilega ráðvendni sem hann lýsti svo vel felur í sér. Megi störf þeirra verða þjökuðu og þreyttu mannkyni áminning um háleit forlög þess og meðfædda göfgi.
Ekki eru síður viðeigandi fyrir árangur bahá’í framtaksins í dag, hreinskilin orð Verndarans um mikilvægi skírs og heilags lífs „með allt sem slíkt felur í sér um hæversku, hreinleika, hófsemi, sómakennd og hreinleika hugans“. Orð hans voru ótvíræð þegar hann hvatti vinina til að lifa lífi óflekkuðu „af skorti á velsæmi, löstum, fölskum mælikvörðum sem gallaðar siðareglur láta sér lynda, ýta undir og viðhalda“. Við þurfum ekki að setja ykkur hér fyrir sjónir vitnisburði um áhrifin sem svo gallaðar siðareglur hafa á mannkynið í heild; jafnvel afskekktustu staðir jarðar hafa orðið táli þeirra að bráð. Við teljum okkur þó til þess knúna að minnast á nokkur atriði sem varða sérstaklega málefnið hreinleika. Öflin sem herja á hjörtu og hugi æskufólks, sem Verndarinn beindi innilegustu áskorun sinni að, eru svo sannarlega skaðleg. Að hvetja það til að lifa hreinu og skíru lífi getur aðeins hjálpað því í takmörkuðum mæli við að verjast þessum öflum. Það sem íhuga þarf í þessum efnum er í hve miklum mæli hugir ungmenna verða fyrir áhrifum af þeim ákvörðunum sem foreldrar þeirra taka varðandi eigið líf, hversu óafvitandi eða sakleysislega sem slíkar ákvarðanir láta ástríður heimsins óátaldar – aðdáun heimsins á valdi, tilbeiðslu hans á frægð og frama, ást hans á munaði, sókn hans í léttúð og hégóma, upphafningu hans á ofbeldi og þráhyggju hans fyrir sjálfsfullnægingu. Það verður að vera ljóst að sú einangrun og örvænting sem svo margir þjást af er afurð umhverfis sem stjórnast af alltumlykjandi efnishyggju. Og í þessu máli verða vinirnir að skilja hvað felst í þeirri fullyrðingu Bahá’u’lláh að „ríkjandi skipulagi“ verði „vafið saman og nýtt breitt út í þess stað.“ Um allan heim er ungt fólk í dag meðal áköfustu stuðningsmanna áætlunarinnar og ötulustu baráttumenn málstaðarins; við erum þess fullvissir að því muni fjölga ár frá ári. Megi sérhver þeirra kynnast hylli og gæðum lífs sem prýtt er hreinleika og læra að hagnýta þau öfl sem flæða gegnum hreina farvegi.
Verndarinn fjallaði næst um fordóma og sagði svo ekki verður um villst að „sérhver sundrung eða klofningur“ í röðum fylgismanna trúarinnar væri „framandi sjálfum tilgangi hennar, meginreglum og hugsjónum.“ Hann gerði ljóst að vinirnir ættu að vera „algjörlega lausir við fordóma í samskiptum sínum við fólk af öðrum kynþáttum, stéttum, trú og litarhætti.“ Hann hélt áfram og ræddi í löngu máli sérstaklega um kynþáttafordóma og benti á að „tæring þeirra hafi étið sig inn í innviði amerísks þjóðfélags og ráðist á allar félagslegar formgerðir þess“. Á þeim tíma sagði hann að á kynþáttafordóma bæri „að líta sem mest aðkallandi áskorun bahá’í samfélagsins á núverandi þróunarstigi þess.“ Óháð styrk eða veikleika þeirra ráðstafana sem ameríska þjóðin, og bahá’í samfélagið sem þróast innra með þeirri þjóð, grípa til í því skyni að svara þessari sérstöku áskorun er staðreyndin sú að hvers kyns fordómar – á grundvelli kynþáttar, stéttar, þjóðernis, kynferðis og trúar – halda mannkyninu áfram í greipum sér. Þótt það sé rétt að á sviði almennrar umræðu hafi stór skref verið stigin til að hafna þeim blekkingum sem eru rótin að fordómum í hvaða mynd sem er, gegnsýra þeir enn þjóðfélagsgerðina og þeim er kerfisbundið haldið að meðvitund einstaklingsins. Það ætti að vera öllum ljóst að ferlið sem núverandi röð heimsáætlana setur af stað, leitast við í nálgunum sínum og aðferðum að byggja upp hæfni meðal allra þjóðfélagshópa til að rísa upp og leggja sitt af mörkum til þróunar siðmenningar án nokkurs tillits til stéttar eða trúarlegs bakgrunns, án nokkurs tillits til þjóðernis og kynþáttar, kynferðis eða félagslegrar stöðu. Við biðjum þess að þegar þessu ferli miðar fram muni það gera óvirkt sérhvert tæki sem þróað hefur verið í langri bernsku mannkyns í þeim tilgangi að einn hópur manna geti kúgað annan.
Menntaferlið sem tengist þjálfunarstofnuninni hjálpar auðvitað við að laða fram og hlynna að þeim andlegu aðstæðum sem Verndarinn vísaði til í Guðlegt réttlæti í nánd ásamt mörgum öðrum sem minnst er á í ritningunum og verða að einkenna líf bahá’í samfélagsins – andi einingar sem verður ríkja meðal vinanna, bönd ástar sem verða að tengja þá saman, staðfestan í sáttmálanum sem verður að vera þeim veganesti, og traustið sem þeir verða að setja á mátt guðlegrar aðstoðar, svo fátt eitt sé nefnt. Það er sérstaklega athyglisvert að svo nauðsynlegar eigindir séu þróaðar í samhengi við uppbyggingu þjónustuhæfni í umhverfi sem ræktar kerfisbundið starf. Þegar aðstoðarráðgjafarnir og aðstoðarmenn þeirra stuðla að þessu umhverfi þurfa þeir að bera kennsl á mikilvægi tveggja samtvinnaðra meginreglna: Annars vegar getur sá hái mælikvarði hegðunar sem opinberun Bahá’u’lláh setur ekki gert neina málamiðlun; það má ekki á neinn hátt lækka þann mælikvarða og allir verða að beina sjónum að háleitum hæðum hans. Hins vegar verður að viðurkenna að sem mannverur erum við langt frá því að vera fullkomin; það sem vænst er af hverjum og einum er einlæg dagleg viðleitni. Siðferðilega sjálfumgleði ber að forðast.
*
Að frátöldum andlegum forsendum helgaðs bahá’í lífs eru til hugsanavenjur sem hafa áhrif á framgang heimsáætlunarinnar. Örva þarf þróun þeirra á sviði menningar. Einnig eru tilhneigingar sem smám saman þarf að yfirstíga. Margar þessara tilhneiginga styrkjast vegna viðhorfa sem eru ríkjandi í þjóðfélaginu í heild og koma þaðan inn í bahá’í starfsemi, sem vart getur talist alls kostar óeðlilegt. Sú mikla ögrun sem blasir við vinunum í þessu tilliti hefur ekki farið fram hjá okkur. Þeir eru hvattir til að taka í auknum mæli þátt í lífi þjóðfélagsins, njóta góðs af menntatækifærum þess, skara þar fram úr í verslun, viðskiptum og atvinnu, læra að nota til hlítar tæki þess, og stuðla sjálfir að þróun lista og vísinda. Samtímis eiga þeir aldrei að missa sjónir á því markmiði trúarinnar að koma til leiðar umbreytingu á þjóðfélaginu, endurmóta stofnanir þess og ferla í stærri stíl en nokkurn tíma hefur þekkst áður. Í þessu skyni verða þeir að vera sér fullkomlega meðvitaðir um misbrestina í hugsunum og gerðum samtímans – þó án þess að finna til minnsta votts af yfirburðakennd, án þess að hafa á sér blæ leyndar eða fálætis og án þess að taka of gagnrýna afstöðu til þjóðfélagsins. Í þessu sambandi viljum við minnast á fáein atriði.
Það er gleðilegt til þess að vita að vinirnir nálgast nám á skilaboðum Allsherjarhúss réttvísinnar varðandi áætlunina af svo mikilli kostgæfni. Umræðurnar sem skapast þegar þeir reyna að gera leiðsögnina að veruleika, sýna hana í verki og læra af reynslunni eru prýðisgóðar. Það fer þó ekki fram hjá okkur að árangursríkt starf á vettvangi kennslunnar verður varanlegra á þeim svæðum þar sem vinirnir reyna að skilja heildarsýnina sem miðlað er í skilaboðunum, en erfiðleikar skapast oft þar sem orð og setningar eru teknar og skoðaðar úr samhengi. Stofnanir og nefndir trúarinnar ættu að hjálpa vinunum að greina hugmyndir en ekki smætta þær, að hugleiða merkingu en ekki festa hugann við einstök orð, að bera kennsl á ákveðin starfssvið en ekki hólfa niður í skúffur. Við gerum okkur grein fyrir að þetta er ekki lítið verkefni. Þjóðfélagið tjáir sig æ oftar í slagorðum. Við vonum að þær venjur sem vinirnir eru að mynda í námshringjum, að vinna með heildstæðar og flóknar hugsanir og öðlast skilning, verði færðar út á hin ýmsu svið starfseminnar.
Nátengd þeirri venju að smætta heila efniskafla í eina eða tvær aðlaðandi setningar er tilhneigingin til að sjá tvískiptingu þar sem hún er ekki fyrir hendi. Hugmyndum sem eru hluti af einni samhangandi heild ber að forðast að stilla upp sem andstæðum. Í bréfi sem ritað var fyrir hönd Shoghi Effendi sagði hann: „Við verðum að líta á kenningarnar sem mikla samstæða heild, en ekki leita að tveimur sterkum fullyrðingum sem hafa mismunandi merkingar og setja þær upp hvora gegn annarri; einhvers staðar þar inni á milli eru tengingar sem sameina þær.“ Það hefur verið mjög uppörvandi fyrir okkur að sjá að margs konar misskilningur fortíðar hefur horfið þegar skilningur á áætluninni hefur vaxið. Útbreiðsla og styrking, einstaklingsframtak og sameiginlegar herferðir, fágun innri skapgerðar og helgun við sjálflausa þjónustu – samræmd tengsl þessara hliða bahá’í lífs njóta nú fullrar viðurkenningar. Það er okkur jafnmikið gleðiefni að vita að vinirnir eru á verði gegn nýjum fölskum tvískiptingum. Þeir vita vel að hinir ýmsu þættir vaxtaráætlana uppfylla hver annan. Samfélagið forðast þá tilhneigingu að sjá starfsemina og stofnanirnar sem styðja hana í samkeppni hverja við aðra, nokkuð sem er svo algengt í þjóðfélaginu í heild.
Loks teljum við að eitt af því, sem við höfum fylgst með af sérstakri athygli, sé þýðingarmikið skref í menningarátt en það er aukin hæfni til að hugsa í ferlum. Átrúendurnir hafa frá upphafi verið beðnir um að vera sér stöðugt meðvitandi um þau breiðu ferli sem skilgreina starf þeirra og þetta er ljóst af jafnvel fyrstu bréfum og skilaboðum Verndarans sem tengdust fyrstu þjóðaráætlunum trúarinnar. En í heimi sem í auknum mæli einblínir á auglýsingar um viðburði, eða í besta falli á verkefni, með hugarfari sem fær mest út úr eftirvæntingu og spennu, tekur það á að viðhalda þeirri helgun sem nauðsynleg er fyrir langtímaverkefni. Útbreiðsla og treysting bahá’í samfélagsins felur í sér ýmsa gagnvirka ferla sem hver um sig leggur sitt af mörkum til hreyfingar mannkyns áleiðis að sýn Bahá’u’lláh á nýtt heimsskipulag. Í þeim aðgerðum sem tengjast sérhverju ferli felst skipulag einstakra viðburða, og öðru hvoru tekur starfið á sig mynd sértæks verkefnis sem hefur skýrt upphaf og ákveðinn endi. En ef viðburðum er hlaðið ofan á eðlilega þróun ferlis trufla þeir heilbrigða þróun þess. Ef verkefni sem menn takast á hendur í umdæmum lúta ekki skýrum þörfum þeirra ferla sem þar eru að myndast munu þau bera lítinn árangur.
Það er nauðsynlegt fyrir árangursríka framkvæmd áætlunarinnar að skilja eðli þeirra gagnvirku ferla sem í heild sinni leiða til útbreiðslu og treystingar trúarinnar. Í viðleitni ykkar til að auka slíkan skilning eruð þið og aðstoðarráðgjafar ykkar hvött til að hafa í huga ákveðið hugtak sem liggur við rætur þess hnattræna átaks sem nú stendur yfir og er að sönnu kjarninn í sérhverju stigi hinnar guðlegu áætlunar, þ.e. að framfarir verða með þróun og þroska þriggja þátttakenda – einstaklingsins, stofnananna og samfélagsins. Í allri mannlegri sögu hefur samstarf og gagnvirkni þessara þriggja aðila verið erfiðleikum háð á sérhverju stigi, einstaklingurinn krefst frelsis, stofnunin krefst hlýðni og samfélagið krefst forgangs. Sérhvert samfélag hefur skilgreint með einum eða öðrum hætti tengslin milli þessara þriggja aðila og þær skilgreiningar hafa leitt af sér tímabil stöðugleika í bland við upplausn og glundroða. Á þessari öld umbreytinga þegar mannkynið fetar sig áleiðis til sameiginlegs þroska, eru slík tengsl – nei, sjálf hugmyndin um einstaklinginn, um þjóðfélagsstofnanir og samfélagið – í stöðugri kreppu og mæta látlausum erfiðleikum. Hnattræn valdakreppa nægir sem sönnun um þetta. Svo hörmulega hafa völd og áhrif verið misnotuð og svo djúp er tortryggnin og andúðin á þeim að heimurinn hrekst æ lengra á braut stjórnleysis. Slíkt ástand verður sífellt hættulegra í ljósi þess að samfélagstengslin eru að veikjast.
Sérhver fylgjandi Bahá’u’lláh veit vel að tilgangur opinberunar Hans er að kalla til lífs nýja sköpun. Ekki fyrr hafði „fyrsta kallið framgengið af vörum Hans en allri sköpuninni var umbylt og allir sem eru á himnum og allir á jörðu voru snortnir í innstu verund sinni.“ Einstaklingurinn, stofnanirnar og samfélagið – þessar þrjár höfuðpersónur hinnar guðlegu áætlunar – eru að mótast vegna beinna áhrifa opinberunar Hans og fram hefur komið ný hugmynd um hvert þeirra um sig sem hæfir mannkyni á þroskabraut. Tengslin þeirra á milli eru líka að taka stakkaskiptum og miðla ríki tilverunnar öflum til uppbyggingar siðmenningar sem aðeins er hægt að leysa úr læðingi með fastheldni við ákvörðun Hans. Í grundvallaratriðum einkennast þessi tengsl af samvinnu og gagnkvæmni, birtingarmyndir þeirra innbyrðis tengsla sem stjórna alheiminum. Þannig fer einstaklingurinn án tillits til „persónulegs ávinnings og eigingjarnra hagsmuna“, að líta á sig sem „einn af þjónum Guðs, eiganda alls“, og eina ósk hans er að fylgja lögum Hans. Þannig fara vinirnir að viðurkenna að „tilfinningaauðgi ásamt nægum vilja og viðleitni“ geri lítið gagn þegar farvegur fyrir þau er ekki réttur, að „óskorað frelsi einstaklingsins ætti að tempra með gagnkvæmu samráði og fórn“ og að „anda frumkvæðis og framkvæmda ætti að styrkja með dýpri vitund um fullkomna nauðsyn á samræmdum aðgerðum og meiri hollustu við sameiginlega velferð“. Og þannig munu allir auðveldlega greina þann starfsvettvang þar sem einstaklingurinn getur beitt frumkvæði sínu og þann vettvang sem tilheyrir stofnununum einum. „Af hjarta og sál“ fylgja vinirnir tilmælum stofnana sinna eins og ‘Abdu’l‑Bahá útskýrir til þess að „hlutunum megi verða rétt og vel fyrir komið“ Þetta er auðvitað ekki blind hlýðni; þetta er hlýðni sem markar birtingu þroskaðs mannkyns sem skilur hvað felst í svo voldugu og víðfeðmu kerfi sem nýju heimsskipulagi Bahá’u’lláh.
Og þeir sem kallaðir eru úr röðum þeirra upptendruðu sálna til að þjóna á stofnunum þessa mikla kerfis skilja vel orð Verndarans þess efnis að starf þeirra sé ekki í því fólgið að gefa fyrirmæli, heldur taka ráð saman, ekki aðeins í eigin hópi heldur eins mikið og hægt er með vinunum sem þeir eru fulltrúar fyrir. „Aldrei“ myndu þeir „leiðast til að halda að þeir séu helsta djásnið á líkama málstaðarins og í eðli sínu æðri öðrum hvað varðar hæfni og verðskuldun og einu talsmenn kenninga Hans og meginreglna“. „Í dýpstu auðmýkt“, nálgast þeir verkefni sín og „reyna með opnum huga, sterkri réttlætiskennd og skyldurækni, hreinskilni sinni, hæversku, algjörri helgun við velferð og hagsmuni vinanna, málstaðarins og mannkynsins að vinna ekki aðeins traust, ósvikinn stuðning og virðingu þeirra sem þeir þjóna heldur einnig fullt álit þeirra og raunverulega ást“. Með umhverfinu sem þannig skapast munu stofnanir gæddar myndugleika og valdi líta á sjálfar sig sem tæki til að rækta mannlega getu og tryggja þróun hennar eftir árangursríkum og lofsverðum leiðum.
Þegar samfélag Hins mesta nafns er samsett af slíkum einstaklingum og slíkum stofnunum verður það andlega þrunginn vettvangur þar sem kraftar margfaldast í sameinuðu átaki. Það er um þetta samfélag sem ‘Abdu’l‑Bahá ritar: „Þegar sálir vaxa og verða sannir átrúendir munu þær bindast andlegum böndum og auðsýna blíðu sem ekki er af þessum heimi. Þær munu þá allar verða hreifar af drykk guðlegrar ástar, og þessi eining þeirra, það samband, mun einnig vara um eilífð. Sálir sem gleyma sjálfum sér, frelsa sig frá ágöllum mannkyns og varpa af sér mannlegum fjötrum, munu án ef verða upplýstar himneskum ljóma einingar og munu allar ná stöðu raunverulegrar einingar í heimi sem ekki deyr.“
Þegar fleiri og fleiri næmar sálir taka á móti málstað Guðs og slást í för með þeim sem þegar eru þátttakendur í þeirri hnattrænu framkvæmd sem hafin er mun þroski og starfsemi einstaklingsins, stofnananna og samfélagsins án efa stóreflast. Megi ráðvillt mannkyn sjá mynstur sameiginlegs lífs í þeim tengslum sem fylgjendur Bahá’u’lláh mynda milli þessara þriggja höfuðpersóna, mynstur sem knýr það fram á við til síns háleita ákvörðunarstaðar. Þetta er innileg bæn okkar í hinum helgu grafhýsum.
[undirritað: Allsherjarhús réttvísinnar]