29. ágúst 2010 – Til bahá’ía um allan heim
Efnisgrein 1
Efnisgrein 2
Efnisgrein 3
Efnisgrein 4
Efnisgrein 5
Afritaðu eða deildu hlekk
Afritaðu eða deildu texta með tilvísun
/t/
/t/
Brottför ‘Abdu’l‑Bahá frá Haifa til Port Said fyrir hundrað árum markaði upphaf dýrlegs nýs kafla í sögu trúarinnar. Hann átti ekki eftir að koma til Landsins helga næstu þrjú árin. Verndarinn skrifaði síðar um þennan sögulega atburð: „Grundvöllun trúar Bahá’u’lláh á Vesturhveli jarðar – mesta afrekið sem ávallt verður tengt stjórnartíð ‘Abdu’l‑Bahá – hafði … komið af stað slíkum óhemjukröftum og haft svo víðtæk áhrif að þau voru tilefni til virkrar og persónulegrar þátttöku sjálfrar Miðju sáttmálans….“ Með upphafi ferðalaga ‘Abdu’l‑Bahá til Vesturlanda braust trúin, sem herskarar fjandskapar og kúgunar höfðu setið um í meira en aldarhelming, úr fjötrum sínum. Í fyrsta skipti frá upphafi sínu naut viðurkenndur leiðtogi trúarinnar framkvæmdafrelsis til að vinna að guðlega áformuðu markmiði hennar.
‘Abdu’l‑Bahá hefur virst illa undir það búinn, út frá jarðneskum mælikvörðum, að inna af hendi verkefnið sem fram undan var. Hann var sextíu og sex ára, hafði verið í útlegð frá barnæsku, hafði ekki hlotið formlega skólagöngu, verið fangi í fjörutíu ár, heilsu hans fór hnignandi og hann kunni ekki vestræna siði og tungur. Engu að síður reis hann upp til að tala fyrir málstað Guðs óhindraður af áhættunni sem fólst í verkefninu og reiddi sig algjörlega á guðlega aðstoð. Hann átti samskipti við fjölbreyttar þjóðir í níu löndum í þremur heimsálfum. Umfang og kraftur óþreytandi viðleitni hans gerðu „fylgjendur hans í austri og vestri agndofa af aðdáun og undrun“ og „hafði ævarandi áhrif“ á framvindu trúarinnar í framtíðinni.
Á næstu árum munu bahá’íar um allan heim minnast með fögnuði hinna ýmsu atburða sem tengjast sögulegri ferð ‘Abdu’l‑Bahá. En þessi tímamót fela í sér enn þá meira. Orðin sem ‘Abdu’l‑Bahá mælti á ferðalögum sínum og þær gerðir sem hann innti af hendi með snilldarvisku sinni og ástúð eru mikill innblástur fjölda átrúenda og færa þeim margháttað innsæi sem þeir geta nýtt sér, hvort sem er í viðleitni sinni til að taka á móti móttækilegum sálum, auka hæfni til þjónustu, byggja upp svæðissamfélög, styrkja stofnanirnar eða til að nýta sér tækifæri sem gefast til að taka þátt í félagslegu framtaki og ríkjandi þjóðfélagsumræðu. Við ættum því að íhuga ekki aðeins hvað Meistarinn afrekaði og hverju hann kom af stað heldur einnig þau verk sem eftir standa og hann bauð okkur að framkvæma. Í Töflum hinnar guðlegu áætlunar tjáði hann innstu þrá sína:
Ó að ég mætti ferðast, jafnvel fótgangandi og örsnauður, til þessara svæða og hefja upp kallið „Yá Bahá’u’l-Abhá“ í borgum, þorpum, eyðimörkum, á fjöllum og úthöfum og útbreiða þannig hinar guðlegu kenningar! Þetta get ég því miður ekki. Það er mér mikið harmsefni! Megi ykkur með leyfi Guðs takast það.
Tæp öld hefur liðið frá því þessi orð voru skrifuð. Hver áfangi hinnar guðlegu áætlunar á fætur öðrum hefur verið leiddur til lykta. Trúin hefur verið grundvölluð í öllum heimshornum. Við erum búsett á þeim stöðum sem ‘Abdu’l‑Bahá þráði að heimsækja. Einstaklingar, samfélög og stofnanir eru nú gæddar þeirri hæfni sem nauðsynleg er til kerfisbundinnar, sjálfbærrar og samræmdrar starfsemi. Látum því hvern og einn af trúum ástvinum hans rísa upp á þessu dýrmæta minningartímabili og vinna í hans nafni. Látum þá leggja fram sinn skerf, hversu lítilmótlegur sem hann kann að vera, til framfara áætlunarinnar sem hann samdi – þá ómetanlegu og ævarandi arfleifð.