10. janúar 2010 – Til átrúenda í vöggu trúarinnar
Efnisgrein 1
Afritaðu eða deildu hlekk
Afritaðu eða deildu texta með tilvísun
/t/
/t/
[ÍSLENSKAÐ ÚR LÖGGILTRI ENSKRI ÞÝÐINGU Á PERSNESKA TEXTANUM]
Til átrúenda í vöggu trúarinnar
Um leið og sá dagur nálgast sem ákveðinn hefur verið til réttarhalda yfir fyrrverandi meðlimum Yárán, hafa vissir embættismenn komið með yfirlýsingar nú nokkra undanfarna daga þar sem þeir staðhæfa að ástæðan fyrir handtöku vinanna tíu þann 3. janúar 2010 sé ekki fólgin í aðild þeirra að bahá’í samfélaginu heldur í afskiptum þeirra af skipulagningu þeirra atburða sem áttu sér stað á deginum ‘Áshúrá. Írönsku þjóðinni – reyndar íbúum heimsins alls og samfélagi þjóðanna – er kunnugt um meginreglur bahá’í trúarinnar, hátterni fylgjenda hennar og sögu þróunar hennar; þeir vita þar af leiðandi að slíkar fullyrðingar eru tilhæfulausar. Allir réttsýnir menn munu bera því vitni að bahá’íar, hvar sem þeir búa, vinna ótrauðir við hlið samlanda sinna að framþróun og velsæld þjóðar sinnar. Bahá’íar eru þekktir fyrir að treysta á ramma laga til að vernda réttindi sín sem og réttindi annarra. Þeir leita eftir dyggðum eins og sannsögli og heiðarleika, sneiða hjá ofbeldi og átökum og forðast hvers konar flokkastjórnmál. Þrátt fyrir það hafa þeir sem blæja trúarlegra fordóma hefur myrkvað innri sýn hjá, því miður tekið sig saman um að setja fram falskar ákærur í þeim tilgangi að veita írönsku þjóðinni réttlætingu á kúgunaraðgerðum sínum gegn ykkur, að því er virðist án þess að gera sér grein fyrir að slíkar gerðir spilla að lokum trúverðugleika þeirra sem fremja þær. Okkur er það hugarléttir að vita að þið eruð meðvituð um þá guðlegu krafta sem eru að verki. Þið gerið ykkur grein fyrir að í Hans höndum eru stjórntaumar allra hluta. Þið ákallið hin andlegu öfl sem fædd eru af slíkum skilningi til að hefjast yfir fjandskap og kúgun. Staðföst og óbifanleg hafið þið unnið til aðdáunar heimsins þar sem þið hafið haldið áfram að inna skyldur ykkar af hendi af ítrustu visku. Hjörtu okkar eru barmafull af ást og aðdáun á hverju og einu ykkar. Við hefjum upp hendur okkar í ákalli til almáttugs Guðs og sárbænum Hann að vernda ykkur og aðstoða við að efla hag málstaðarins og þjóna meðbræðrum ykkar og samlöndum.