17. maí 2009 – Til allra andlegra þjóðarráða

að að ákveða hvernig andlegi hlutinn verði skipulagður og hvernig skýrslum, fréttum og tilkynningum verði komið á framfæri. Almennu efni fyrir stjórnarfarshluta hátíðarinnar væri yfirleitt dreift í hverjum bahá’í mánuði til allra staða þar sem hátíðin er haldin, þ.á.m. um sérstök málefni eða spurningar sem þarf að ræða. Svæðisráðið ætti auk þess að reyna að tryggja að samráðið á hverjum stað sé frjótt og árangursríkt, að viðhorf átrúenda komist á framfæri og að það bregðist við tillögum með ástríkum og uppbyggjandi hætti. Í því skyni getur svæðisráðið útnefnt einn eða fleiri til að koma fram fyrir sína hönd til að stýra samkomunni, skrá niðurstöður samráðsins og taka við framlögum í sjóðinn.

Val á tungumáli

Almennt ætti að halda nítjándagahátíðir og aðrar formlegar samkomur bahá’ía á því máli sem fólkið á staðnum talar. Eftir því sem efnahags- og félagslegar aðstæður fólks um heim allan breytast, er þó ekki ólíklegt að sífellt fleira fólk neyðist til að flytja til borga og þar myndist borgarhverfi minnihlutahópa þar sem hver hópur talar sitt tungumál. Þetta má þegar sjá, t.a.m. meðal spænskumælandi íbúa í Norður Ameríku og ættbálkahópa í Afríku. Þegar hátíðum er dreifstýrt við slíkar aðstæður kann eðlilega að koma upp sú spurning hvort nota megi mál minnihlutahópsins sem er fjölmennastur í hverfinu. Á þessu stigi vill Allsherjarhúsið ekki fastsetja reglur um þetta og það er svæðisráðsins að ákvarða í samræmi við leiðsögn þjóðarráðsins hvernig eigi að taka á málum en það ætti að vera sveigjanlegt í nálgun sinni og viðhafa lærdómshugarfar.

Að sjálfsögðu vilja svæðisráð, hvort sem hátíð er haldin miðsvæðis eða á fleiri stöðum, að allir finni sig sem meðlimi sameinaðs samfélags óháð tungumálamun og þau munu leggja sitt af mörkum til þess að skapa aðlaðandi andrúmsloft á hátíðum. Í þeim tilgangi kæmi vel til greina að í helgistund hátíðarinnar væru ritningar á þeim ólíku tungumálum sem vinirnir tala. Auk þess þarf að finna viðeigandi leiðir til að koma helstu skilaboðum og tilkynningum á framfæri við átrúendur sem ekki eru altalandi á því máli sem hátíðin fer fram á. Í samráðshlutanum ætti að gefa þeim færi á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, á sínu eigin tungumáli ef þess þarf. Það ætti að vera hægt að bjóða upp á nauðsynlega túlkun án þess að það komi niður á flæði fundarins.

Viðvera þeirra sem ekki eru bahá’íar

Nítjándagahátíðin er stofnun trúarinnar, sem gegnir m.a. því hlutverki að vera vettvangur fyrir bahá’í samfélagið til að fjalla um málefni sín á opinskáan hátt, án þess að óttast að valda misskilningi meðal þeirra sem þekkja lítið til markmiðs hennar. Það er þess vegna sem þátttaka er takmörkuð við meðlimi bahá’í samfélagsins.

Almennt er átrúendum ráðið frá því að bjóða þeim sem ekki eru bahá’íar til hátíðarinnar. Vinir trúarinnar geta þó komið án þess að þeirra sé vænst og þeim á ekki að vísa í burtu. Í anda kurteisi og vináttu ættu þeir að fá hlýjar móttökur. Í þessu ljósi var óvæntum gestum sem sjaldgæft var að kæmu áður fyrr, boðið að taka þátt í andlega og félagslega hluta hátíðarinnar, en þeir beðnir að vera ekki viðstaddir stjórnarfarshlutann eða þeim hluta var með öllu sleppt.

Nú þegar aðgerðarammi áætlunarinnar er orðinn fastur í sessi svo víða og aukinn fjöldi fólks hefur aðgang að bahá’í samfélagslífi í gegn um grunnþættina, eru stórauknar líkur á að þeir sem eru nálægir trúnni frétti af nítjándagahátíðum og mæti á þær. Allsherjarhús réttvísinnar hefur ákveðið að í slíkum tilfellum eigi þeir sem stjórna hátíðinni að aðlaga stjórnarfarslega hlutann að þörfum gestanna, frekar en að sleppa honum alveg eða biðja gesti um að fara. Hægt er að deila fréttum af svæðis- og landsvísu, ræða um almenn efni s.s. kennslu, þjónustuverkefni og sjóðinn eins og vant er en umræða um viðkvæm málefni tengd þessum efnum eða öðrum mega bíða annars tíma þegar vinirnir geta tjáð sig frjálslega án þeirra hindrana sem fylgt geta viðveru gesta.

Svipaða leið má fara með stjórnarfarshlutann þar sem hátíðin er haldin á heimili fjölskyldu þar sem einhverjir í fjölskyldunni eru ekki bahá’íar. Það ætti að tilheyra undirbúningi slíkrar hátíðar að hugleiða vandlega, annars vegar þátt gestrisni og kærleika og hins vegar trúnaðs og óþvingaðrar umræðu um mikilvæg og viðkvæm málefni. Svæðisráðið ætti í samráði við átrúendur í slíkum fjölskyldum að leggja sig fram um að leysa hvert tilvik á viðunandi hátt.

Að byggja upp reynslu

Áframhaldandi vöxtur bahá’í samfélagsins á næstu árum mun án efa hafa í för með sér margar áskoranir sem hafa áhrif á hvernig andlegum, stjórnarfarslegum og félagslegum hluta nítjándagahátíðanna á ólíkum stöðum verður hagað. Sú ábyrgð hvílir fyrst og fremst á svæðisráðunum að takast á við þessar áskoranir. Þeim ber að vera vakandi fyrir stöðu samfélagsins, að eiga samráð við vinina, koma af nærgætni til móts við hinar fjölmörgu þarfir og aðstæður, og vera sveigjanleg án þess að gefa eftir varðandi grundvallaratriði. Í þessu sambandi er eðlilegt að þau leiti ráða hjá aðstoðarráðgjöfunum. Þjóðarráðin munu, í samstarfi við álfuráðgjafana, fylgjast náið með þróun mála, kynna sér aðgerðir á hinum ýmsu svæðum, greiða fyrir því að með lærdómi skýrist hvaða leiðir séu árangursríkastar til lengdar, leiðbeina og hvetja.

Við eigum að fullvissa ykkur um bænir Allsherjarhúss réttvísinnar í hinum heilögu grafhýsum um að Hin blessaða fegurð megi staðfesta viðleitni ykkar er þið leiðbeinið vinunum við að sinna þeirri brýnu ábyrgð að efla málstað Guðs um allan heim.

Með kærum bahá’í kveðjum,

Ritaradeildin