Allsherjarhús réttvísinnar
26. nóvember 2007
Til bahá’ía um allan heim
Elskuðu vinir
Í tilefni af þessum degi sáttmálans nú þegar aðeins tveir mánuðir eru liðnir frá andláti síðustu handar málstaðarins, dr. ‘Alí-Muḥammad Varqá, finnum við okkur knúna til að fjalla um hina tignu Stofnun handa málstaðar Guðs. Það var aðeins nokkrum vikum fyrir fimmtugustu ártíð andláts Shoghi Effendi sem heimssamfélag okkar varð fyrir þessum sára missi. Það vekur okkur að sönnu til umhugsunar um að með fráfalli dr. Varqá er endi bundinn á merkilegt starf stofnunar sem lætur eftir sig arfleifð sem á sér ekki fordæmi í trúarsögunni! Á svo þýðingarmiklum tímamótum á mótunarskeiði trúarinnar er við hæfi að reyna að átta sig betur á þýðingu þeirra afreka sem þessi framúrskarandi stofnun stjórnskipulagsins hefur unnið – stofnun sem hafði slíka grundvallarþýðingu fyrir þróun heimssamfélags okkar meðan það var í burðarliðnum.
Við rekjum uppruna þessarar stofnunar til Bahá’u’lláh sjálfs, en Hann útnefndi fjóra kunna forgöngumenn trúarinnar hendur málstaðar Guðs. Um tíma, áður en stjórnkerfi trúarinnar tók til starfa, fylktu vinirnir sér um þá bæði sakir dyggðugs lífernis þeirra og óþreytandi tilrauna til að útbreiða kenningarnar og verja trúna gegn lastmælendum. Þeir viku hvergi í þessari viðleitni sinni þrátt fyrir alvarlegar ofsóknir af hálfu yfirvalda, þar á meðal fangelsanir. Þessir virtu einstaklingar voru virkir á tímum ‘Abdu’l‑Bahá, sem fól þeim árið 1899 að gera ráðstafanir til að mynda andlegt svæðisráð í Teheran, en á því ráði þjónuðu þeir allir. Áhersla þessara fyrstu handa á útbreiðslu og verndun trúarinnar, sem og viðleitni þeirra til að uppfræða átrúendur um mikilvægi hinna nýju laga, lagði þá strax grunn að starfsmynstri stofnunarinnar sem tekið var upp á síðari stigum í framþróun bahá’í samfélagsins.
Meistarinn útnefndi ekki sjálfur hendur málstaðarins en veitti þá nafnbót fjórum einstaklingum að þeim látnum. Í erfðaskrá hans er þó að finna staðfestingu og útfærslu á stofnuninni með heimild sem Verndaranum er gefin til að skipa helgaðar sálir til að gegna því embætti. Fyrstu þrjá áratugina útnefndi Shoghi Effendi tíu slíkar sálir að þeim látnum. Starf þeirra allra einkenndist af staðfestu, þrótti og þrotlausri viðleitni við að breiða út málstaðinn og efla bestu hagsmuni hans. Þegar Verndarinn útnefndi tólf lifandi átrúendur í desember 1951 sem hendur málstaðarins kynntist bahá’í heimurinn algjörlega nýju afli og óvenjulegum lífsþrótti í starfsemi heimsskipulags Bahá’u’lláh sem hendurnar sýndu í tíu ára áætluninni, sérstaklega eftir skyndilegt fráfall Tákns Guðs. Hann útnefndi síðan sjö til viðbótar í febrúar 1952 ásamt fimm öðrum í stað þeirra sem höfðu látist, þannig að tala lifandi handa málstaðarins hélst nítján þar til tæpum mánuði áður en hann lést. Þá útnefndi hann í síðustu boðum sínum til bahá’í heimsins átta hendur í viðbót og voru þær þar með orðnar 27. Lýsing Shoghi Effendi á þeim sem „helstu tilsjónarmönnum heimsskipulags Bahá’u’lláh á frumvaxtarárum þess“ gáfu vísbendingu um þann heimsumbyltandi veruleika óvæntrar ábyrgðar sem þær urðu að axla að morgni dánardægurs hans.
Nú þegar Verndarinn var ekki til staðar, var það fyrsta verkefni harmi sleginna handa málstaðarins að sefa sárhryggt samfélag. Mikilvægur þáttur í því verkefni var auðvitað að útskýra fyrir vinunum hvaða stefnu trúin ætti að taka. Hendurnar tóku til starfa þegar í stað. Aðeins sextán dögum eftir greftrun Verndarans sendu þeir bahá’íum í austri og vestri yfirlýsingu frá Landinu helga. Þar sögðu þeir að þrátt fyrir ítarlega leit hefði engin erfðaskrá eða fyrirmæli fundist frá Shoghi Effendi. Þeir útskýrðu síðan í þessum boðum starfshættina sem notaðir yrðu til að mæta því ögrandi verkefni sem við þeim blasti. Tilkynnt var að ráð níu handa, sem nefndist „gæslumenn“, hefði verið skipað til starfa við bahá’í heimsmiðstöðina með það fyrir augum að vernda trúna, halda uppi samskiptum við andlegu þjóðarráðin varðandi framkvæmd tíu ára áætlunarinnar og málefna stjórnskipulagsins, sem og til að annast öll mál sem sneru að varðveislu heimsmiðstöðvar trúarinnar. Vinirnir hvarvetna fengu með þessari fyrstu orðsendingu fullvissu um að fley málstaðarins væri á öruggri siglingu yfir þann úfna sæ sem myndast hafði eftir andlát Verndarans. Síðari skilaboð frá fundum handanna í Landinu helga urðu til þess að auka fullvissu átrúendanna sem hófust handa um að uppfylla markmiðin sem þeim voru sett í áætluninni.
Hendurnar sem bjuggu utan Landsins helga fóru í mikil ferðalög til að heimsækja og hvetja vinina í öllum löndum, auk þess sem þeir fylgdust náið með framgangi áætlunarinnar á sínum eigin svæðum. Þeir ferðuðust þvert og endilangt um heiminn og notuðu hvert tækifæri til að þoka áfram því starfi innan áætlunarinnar sem Shoghi Effendi hafði skilið eftir sig. Skyldur handanna eru raktar í erfðaskrá ‘Abdu’l‑Bahá og þessar skyldur ræktu þær í auðmýkt, óttalaust og af þeim brennandi áhuga sem einkenndi starf þeirra. Að „dreifa hinum himneska ilmi, uppfræða sálir mannanna, stuðla að lærdómi, bæta eðlisfar allra manna“ – allt þetta tókust þær á hendur með framúrskarandi og stundum undraverðum árangri. Þessa ferðir lögðust ekki niður í lok tíu ára áætlunarinnar heldur var þeim haldið áfram af sama kappi og áður. Sögulegar ferðir Amatu’l‑Bahá Rúḥíyyih Khánum veittu ómetanlega uppörvun. Þannig sýndi starfsemi handanna svo ekki varð um villst áhrifin af þeim orðum Bahá’u’lláh að „hreyfing og flutningur frá einum stað til annars þegar það er gert vegna Guðs hefur alltaf haft og getur núna haft áhrif sín í veröldinni“.
Meðal helstu afleiðinganna af samanlögðu starfi þeirra eru þessar helstar: Staðfesting á stöðu trúarinnar sem sjálfstæðs og ódeilanlegs skipulags; vernd trúarinnar frá klofningi þrátt fyrir þau svik við sáttmálann sem Mason Remey, einn meðlimur þessa upphafna félagsskapar, sýndi og sem leiddi til brottvísunar hans; varðveisla eigna og viðhald helgistaðanna og garðanna við heimsmiðstöðina; árangur sem birtist í mikilli útbreiðslu trúarinnar. Allur þessi torsótti árangur ruddi brautina að þeim hnökralausu umskiptum, sem hendurnar komu til leiðar, frá Shoghi Effendi sem leiðtoga trúarinnar til Allsherjarhúss réttvísinnar. Þær undirbjuggu bahá’í heiminn af kostgæfni fyrir fyrstu kosninguna til Allsherjarhússins, ekki síst þau 56 andlegu þjóðarráð sem tóku þátt í henni. Hendur málstaðarins skiluðu Húsi réttvísinnar samfélagi sem hafði umbreyst svo mjög í tíu ára áætluninni að trú Bahá’u’lláh var loks komin á kortið sem heimstrúarbrögð í öllum lögmætum skilningi þess orðs. Fagnaðarhátíð heimsráðstefnunnar í London, sem bahá’íar frá öllum heimsálfum sóttu, sýndi og sannaði gildi þess tilkalls.
Að heimsáætluninni lokinni fylktu hendur málstaðarins sér að baki hinu nýstofnaða Allsherjarhúsi réttvísinnar, sem þeir höfðu tryggt í sessi með hetjulegu starfi sínu. Þeir tókust á hendur mörg verkefni í þágu þess og unnu þau störf sem hæfðu skyldum þeirra við útbreiðslu og verndun málstaðarins. Þar sem engin leið var til að útnefna fleiri hendur málstaðarins að Verndaranum látnum veittu einkum hendurnar í Landinu helga, þjónustu sem vel getur talist sérstakur lokapunktur í þjónustustarfi þeirra: þær aðstoðuðu Hús réttvísinnar við að framlengja útbreiðslu- og verndarstarfið í samræmi við sérstök einkenni stofnunar þeirra. Það leiddi til þess að álfuráðin voru stofnuð árið 1968 og síðan Alþjóðlega kennslumiðstöðin 1973. Síðarnefndu stofnuninni hafði Shoghi Effendi gert grein fyrir í ritum sínum. Í óþreytandi stuðningi sínum við Hús réttvísinnar við mótun þessara stofnana og leiðsögn um þróun þeirra, létu hendurnar bahá’í heiminum eftir arf sem aðeins kynslóðir framtíðar geta metið að verðleikum. Glæst gildi þessarar viðleitni þeirra er augljóst í þeim þroska og vexti sem Alþjóðlega kennslumiðstöðin hefur náð á svo skömmum tíma og víðtækum áhrifum stofnunar ráðgjafanna sem nær til allra afkima heimssamfélags okkar.
Það er mjög eftirtektarvert að stofnun handanna, með einni undantekningu, lét ekki tælast af freistingu valdsins sem yfirleitt spillir þeim sem kringumstæðurnar hefja skyndilega til valda og metorða. Í þessu tilviki getur öll sköpunin borið vitni um heiðarleikann sem einkenndi ráðsmennsku þeirra, og um flekklausa dyggð og trúfesti þeirra við meginreglu.
Umhugsunarvert er einnig líf hinnar síðustu handar sem árið 1955 var falið að gegna samtímis stöðu handar málstaðar Guðs og embætti trúnaðarmanns Réttar Guðs. Að honum skuli hafa auðnast að móta síðarnefndu stofnunina og hafa síðan umsjón með stjórnskipunarlegri breytingu hennar í alþjóðlegt ráð trúnaðarmanna Réttar Guðs árið 2005 með greinum um allan heim, er enn eitt táknið um þann stöðugleika og þá ríkulega staðfestingu forsjónarinnar sem fylgt hefur framþróun stjórnskipulagsins. Ljóst er því að starf guðlega áformaðrar stofnunar handa málstaðarins var lífsnauðsynlegt framþróun trúarinnar frá hetjuöldinni til fyrsta tímaskeiðs mótunaraldar. Áhrif þess munu vissulega vara sem óaðskiljanlegur þáttur í skipulagi Bahá’u’lláh. Andlát dr. Varqá markar bæði kaflaskipti í bahá’í sögunni og upphaf nýs áfanga í framvindu þess skipulags.
Með þetta í huga skiljum við með aukinni furðu og þakklæti hve stórfenglegt framlag handa málstaðarins var fyrir vöxt og treystingu trúarinnar í öllum heimshlutum. Með djúpu þakklæti förum við með þá blessun sem Drottinn herskaranna flutti mælskri tungu: „Ljós og dýrð, hrós og árnaðaróskir veitist höndum málstaðar Hans en fyrir þær hefur ljós hugrekkis skinið og sá sannleikur verið grundvallaður að vald til að ákveða er hjá Guði, hinum volduga, máttuga, óhefta. Fyrir þær hafa bylgjurnar risið á úthafi gjafmildi og ilmur náðarsamlegrar hylli Guðs, Drottins mannkyns, borist að vitum.“
[undirritað: Allsherjarhús réttvísinnar]