25. mars 2007 – Til bahá’ía um allan heim

ttindi bahá’ía að kjósa sem ábyrgur þegn í þeim nýja heimi sem er að fæðast til þeirra stofnana sem stjórna starfsemi bahá’í samfélagsins. Tómlæti og vanræksla hvað þetta varðar af hálfu átrúandans er framandi anda málstaðarins. Vinirnir verða stöðugt að reyna að forðast mengun þeirra eyðileggjandi viðhorfa sem hafa skaðað svo mjög heiður og vald stofnana hins hnignandi heimsskipulags.

Í bréfi sem skrifað var fyrir hönd Shoghi Effendi lýsti hann bahá’í kosningum þannig: „Eitt af meginmarkmiðum bahá’í kosningareglna og aðferða er að þroska anda ábyrgðar með sérhverjum átrúanda. Með því að leggja áherslu á nauðsyn þess að hann hafi fullt frelsi í kosningum, er honum lögð á herðar sú skylda að verða virkur og vel-upplýstur meðlimur bahá’í samfélagsins sem hann lifir í.“

Það hvernig kjósandinn beitir rétti sínum og forréttindum í kosningum hefur því mikla þýðingu. Fyrirmæli Shoghi Effendi í þessum kafla skýra enn fremur að „til þess að geta valið viturlega í kosningum er nauðsynlegt fyrir kjósandann að vera í nánu og stöðugu sambandi við alla svæðisstarfsemi, hvort heldur um er að ræða kennslu, stjórnunarstörf eða annað, og taka heilshugar þátt í málefnum svæðis- og þjóðnefnda og ráða í landi sínu. Aðeins þannig getur átrúandinn þroskað með sér sanna samfélagsvitund og öðlast raunverulegan skilning á ábyrgð gagnvart málefnum sem varða hagsmuni málstaðarins. Þannig gerir bahá’í samfélagslífið það sérhverjum dyggum og trúföstum átrúanda að skyldu að verða glöggskyggn, vel-upplýstur og ábyrgur kjósandi og gefur honum jafnframt tækifæri til að hefja sig upp á þetta svið.“

Þótt ekki eigi að nefna persónur í tengslum við bahá’í kosningar er viðeigandi að átrúendur ræði þær hæfniskröfur sem gerðar eru til þeirra sem eiga að þjóna á stofnuninni sem kosið er til. Leiðsögn Shoghi Effendi er skýr varðandi þetta atriði: „Ég tel að tilvísun til einstakra persóna fyrir kosningar myndu leiða til misskilnings og ágreinings. Vinirnir ættu að kynnast hver öðrum vel, skiptast á skoðunum, umgangast frjálslega og ræða sín á milli hæfniskröfurnar fyrir slíka þjónustu án þess að nefna eða vísa hið allra minnsta til ákveðinna einstaklinga.“ Meðal „nauðsynlegra hæfniskilyrða“ sem Verndarinn nefnir eru „óvéfengjanleg hollusta, óeigingjarn trúnaður, vel þjálfaður hugur, viðurkenndir hæfileikar og þroskuð reynsla“. Með aukinni vitund um störfin sem hið kjörna ráð á að vinna getur átrúandinn ákveðið hvern hann á að kjósa. Kjósandinn ætti að velja úr hópi þeirra sem hann telur hæfa til þjónustu með viðeigandi hliðsjón af öðrum þáttum eins og aldursdreifingu, margbreytileika og kyni. Kjósandinn ætti að taka ákvörðun sína að lokinni vandlegri yfirvegun í langan tíma áður en kosningar hefjast.

Þegar bahá’íar eru hvattir til að kjósa í bahá’í kosningum ættu þeir að gera sér grein fyrir að þeir eru að vinna heilagt verkefni sem er einstætt fyrir þetta trúarkerfi. Þeir ættu að nálgast þessa skyldu í bænarhug, leita guðlegrar leiðsagnar og staðfestingar. Shoghi Effendi hefur ráðlagt þeim að „snúa sér algerlega til Guðs og taka þátt í kosningunum af hreinum hvötum, frelsi andans og helgi hjartans“.

Með því að viðurkenna heilshugar bahá’í kosningaferlið munu átrúendurnir verða vitni að því hvernig bahá’í stjórnskipulagið greinir sig í sífellt vaxandi mæli frá hinu hnignandi þjóðskipulagi allt í kring. Í þessum greinarmun birtist fyrirheitið um dýrð heimsskipulags Bahá’u’lláh sem á eftir að uppfylla stærstu væntingar mannkyns.

[undirritað: Allsherjarhús réttvísinnar]