Allsherjarhús réttvísinnar
Riḍván 2006
Til bahá’ía um allan heim
Ástkæru vinir
Riḍvánhátíðin árið 2006 er stund mettuð af anda sigurs og væntinga. Fylgjendur Bahá’u’lláh alls staðar geta með réttu verið stoltir yfir því hve miklu þeir hafa komið til leiðar í fimm ára áætluninni sem nú er að enda. Þeir geta horft til framtíðarinnar með fullvissu sem einungis þeir geta búið yfir sem hafa til að bera einbeitni sem reynslan hefur hert. Allur bahá’í heimurinn er hrærður þegar umfang fimm ára verkefnisins fram undan er íhugað, dýpt helgunarinnar sem það mun krefjast og árangrinum sem því er ætlað að ná. Bænir okkar sameinast bænum ykkar er þið snúið ykkur í þakklæti til Bahá’u’lláh fyrir þau forréttindi að fá að bera vitni framvindu ætlunar Guðs fyrir mannkynið.
Í skilaboðum okkar þann 27. desember 2005 til álfuráðgjafanna sem voru samankomnir í Landinu helga og send voru samdægurs til allra þjóðarráðanna, gerðum við grein fyrir þáttum fimm ára áætlunarinnar sem vara mun frá 2006 til 2011. Vinirnir og stofnanirnar voru hvött til að nema skilaboðin gaumgæfilega og þið eruð án efa vel kunnug innihaldi þeirra. Við beinum nú þeirri ósk til ykkar hvers og eins að þið snúið kröftum ykkar að því að tryggja að markmiðið um að koma á markvissum vaxtaráætlunum í minnst 1.500 umdæmum um allan heim nái fram að ganga. Það gefur vísbendingu um ákefðina sem bahá’í samfélagið ber í brjósti er það tekur áskoruninni sem það stendur frammi fyrir, að í hverju landinu á fætur öðru var grunnurinn að því að hleypa áætluninni af stokkunum lagður fljótt og kerfisbundið á mánuðunum eftir að ráðgjafarnir fóru frá heimsmiðstöðinni. Þótt engin þörf sé á að útlista frekar þarfir áætlunarinnar hér, finnum við okkur knúna til að fara nokkrum hugvekjuorðum um hið hnattræna samhengi sem viðleitni ykkar hvers og eins og sameiginlega mun eiga sér stað í.
Fyrir meira en sjötíu árum ritaði Shoghi Effendi bréf sín um Heimsskipan Bahá’u’lláh, þar sem hann setti fram skarpskyggna greiningu sína á þeim kröftum sem eru að verki í heiminum. Með þeirri mælsku sem hann einn bjó yfir lýsti hann hinum tveimur miklu ferlum sem opinberun Baha’u’lláh hefur hrundið af stað. Annar þeirra eyðileggjandi, hinn uppbyggjandi, báðir knýja mannkynið í átt að heimsskipulaginu sem hann gat af sér. Við vorum vöruð við því af Verndaranum að verða ekki „afvegaleidd af því kvalræðislega hæggengi sem einkennir uppbyggingu siðmenningarinnar“ sem fram fer af miklu erfiði, eða að „láta ekki ginnast af hverfulli tálsýn um endurkomu velmegunar sem virðist stundum geta stöðvað upplausnaráhrif krónískra sjúkdómanna sem herja á stofnanir hnignandi aldar“. Engin skoðun á framvindu síðustu áratuga getur litið fram hjá síauknum skiðþunga þeirra ferla sem hann greindi af slíkri nákvæmni.
Við þurfum aðeins að íhuga þá dýpkandi siðferðiskreppu sem umkringir mannkynið til að meta til fulls að hve miklu leyti kraftar niðurrifs hafa slitið í sundur samfélagsgerðina. Hafa ekki dæmin um eigingirni, tortryggni, ótta og svik sem Verndarinn sá svo skýrt fyrir, orðið svo útbreidd að þau eru jafnvel augljós kærulausum áhorfanda? Er hryðjuverkaógnin, sem hann talaði um, ekki svo áberandi á hinu alþjóðlega leiksviði að hún hvíli þungt á hugum ungra sem aldinna í öllum heimshornum? Hefur ekki óslökkvandi þorsti í, og sjúklegur eltingaleikur við jarðneskan hégóma, auðlegð og nautnir styrkt þau svo í sessi hvað völd og áhrif varðar að þau þykjast ráða mannlegum gildum á borð við hamingju, tryggð og ást? Hafa ekki undirstöður fjölskyldusamstöðu veikst svo mikið og óábyrgt viðhorf til hjónabandsins náð slíkum hæðum að tilvera þessarar grunneiningar þjóðfélagsins er í hættu? „Öfughneigð mannlegs eðlis, úrættun mannlegrar hegðunar, spilling og eyðing mannlegra stofnana“ sem Shoghi Effendi varaði við eru því miður að sýna sig „í sinni verstu og viðbjóðslegustu mynd“.
Verndarinn kennir að stærstum hluta hnignun trúarbragða sem félagslegu afli um siðferðishnignun mannkyns. „Ef lampi trúar verður hulinn,“ vísar hann í orð Bahá’u’lláh, „munu glundroði og ringulreið ríkja og ljós sanngirni, réttlætis, rósemdar og friðar hætta að skína.“ Á áratugunum sem fylgdu í kjölfar þessara skrifa höfum við ekki aðeins horft á áframhaldandi hnignun í getu trúarbragða til að hafa siðferðisleg áhrif, heldur einnig svik við mannfjöldann vegna ósæmilegs framferðis af hálfu trúarlegra stofnana. Viðleitni til að endurvekja hana hafa aðeins aukið trúarofsa sem, ef honum verður ekki haldið í skefjum, gæti eyðilagt grundvöll siðmenntaðra samskipta á milli fólks. Ofsóknirnar á hendur bahá’íunum í Íran, sem nýlega hafa aukist, bera skýrt vitni í sjálfu sér um einbeitni myrkraaflanna í að kæfa ljós trúar hvar sem það skín skært. Þótt við séum fullviss um endanlegan sigur málstaðarins dirfumst við ekki að gleyma viðvörun Verndarans um að trúin muni þurfa að kljást við áhrifameiri og lævísari óvini en hafa áður hrjáð hana.
Engin ástæða er til að ræða mikið um getuleysi núverandi stjórnarhátta, sem er annað málefni sem Verndarinn tók fyrir með meistaralegum hætti í Heimsskipulagsbréfum sínum. Aukið efnahagslegt bil á milli hinna ríku og fátæku, áframhald aldagamallar óvináttu milli þjóða, síaukinn fjöldi uppflosnaðs fólks, ótrúleg aukning skipulagðrar glæpastarfsemi og ofbeldis, útbreidd tilfinning um óöryggi, niðurbrot grunnþjónustu á svo mörgum svæðum, ógagnrýnin nýting náttúruauðlinda – þetta eru aðeins nokkur dæmi um vangetu ráðamanna heims til að létta á vandamálum mannkyns. Þetta þýðir ekki að einlæg viðleini hafi ekki verið sýnd eða hún hafi ekki aukist áratug eftir áratug. Samt sem áður hefur þessari viðleitni, hversu snilldarlega sem hún hefur verið úr garði gerð, algjörlega mistekist að rífa á brott „rót þeirrar illsku sem hefur með svo ruddalegum hætti komið róti á jafnvægi nútímaþjóðfélagsins.“ „Ekki einu sinni,“ sagði Verndarinn, „myndi sú gjörð að koma á fót því gangverki sem þarf til að koma á stjórnmálalegri og efnahagslegri sameiningu heimsins ... reynast mótefnið gegn því eitri sem stöðugt grefur undan þrótti skipulagðra þjóða og ríkja.“ „Hvað annað,“ staðhæfði hann fullviss, „en afdráttarlaus viðurkenning á hinu guðlega kerfi,“ sem Bahá’u’lláh kom fram með og sem „í meginatriðum sínum felur í sér áætlun Guðs um sameiningu mannkyns á þessari öld, ásamt óbugandi sannfæringu um óbilandi áhrif hvers einasta ákvæðis hennar getur að lokum staðist krafta innri hnignunnar sem, sé þeim ekki haldið í skefjum, hljóta að halda áfram að éta sig inn í iður örvilnaðs þjóðfélags.“
Lýsing Shoghi Effendi á síauknum hraða niðurrifsferlisins sem er í gangi í heiminum er svo sannarlega skörp. Jafn sláandi er nákvæmni hans er hann greindi þá krafta sem fylgja uppbyggingarferlinu. Hann talaði um „hægfara útbreiðslu á anda heimssamstöðu sem sprettur af sjálfu sér úr suðupotti óskipulagðra þjóðfélaga“ sem væri óbeint birtingarform meginreglunnar um einingu mannkyns sem Bahá’u’lláh setti fram. Þessi andi samstöðu hefur haldið áfram að breiðast út í gegn um árin og nú er hægt að sjá áhrif hans í röð framfara, allt frá afneitun á djúpum og innrættum kynþáttafordómum til síaukinnar vitundar um heimsborgararétt, frá aukinni vitund um umhverfismál til samstarfsviðleitni við að efla almenna heilsugæslu, frá áhyggjum um mannréttindi til kerfisbundinnar ræktar við menntun fyrir alla, frá þvertrúarlegu samstarfi til stofnunar hundruða þúsunda samtaka á svæðisbundnum, þjóðlegum og alþjóðlegum vettvangi sem stunda félagslegt starf af einhverju tagi.
Fyrir fylgjendur Bahá’u’lláh eru þær framfarir í uppbyggingarferlinu þó mikilvægastar sem beinlínis tengjast trúnni. Margar þeirra nærði Verndarinn sjálfur og hafa þær síðan þróast mjög frá hæversku upphafi sínu. Út frá smáum kjarna átrúenda sem hann birti fyrstu kennsluáætlanir sínar hefur vaxið heimsumlykjandi samfélag sem spannar þúsundir svæðissamfélaga, sem hvert og eitt fylgir vel grundvölluðu mynstri starfsemi sem endurspeglar meginreglur og vonir trúarinnar. Ofan á grunn stjórnskipulagsins sem hann lagði með slíku erfiði á fyrstu áratugum stjórnartíðar sinnar hefur risið stórt og þéttofið net þjóðar- og svæðisráða sem sinna málefnum málstaðarins af kostgæfni í yfir eitt hundrað og áttatíu löndum. Út frá fyrsta liðsafla aðstoðarráðgjafa fyrir útbreiðslu og treystingu trúarinnar sem hann kom á fót hefur risið fylking nærri eitt þúsund einbeittra vinnumanna sem þjóna úti á vettvangi undir stjórn áttatíu og eins álfuráðgjafa sem hljóta faglega leiðsögn Alþjóðlegu kennslumiðstöðvarinnar. Þróun stjórnfarslegrar heimsmiðstöðvar trúarinnar í grennd við andlega heimsmiðstöð hennar, sem Verndarinn helgaði svo mikla krafta, hefur stigið yfir þýðingarmikinn þröskuld er Allsherjarhús réttvísinnar flutti í aðsetur sitt á Karmelfjalli og síðan er byggingu á húsnæði Alþjóðlegu kennslumiðstöðvarinnar og Textarannsóknamiðstöðvarinnar lauk. Stofnun Ḥuqúqu’lláh hefur tekið framförum undir ráðsmennsku Handar málstaðar Guðs dr. ‘Alí Muḥammad Varqá sem Shoghi Effendi gerði að trúnaðarmanni Réttar Guðs fyrir fimmtíu árum og náði hámarki með stofnun alþjóðlegrar stjórnar sem ætlað er að stuðla að áframhaldandi beitingu þessara miklu laga um allan heim, laga sem eru uppspretta ómældrar blessunar fyrir allt mannkynið. Viðleitni Verndarans til að efla orðstír trúarinnar á alþjóðlegum vettvangi hefur þróast yfir í yfirgripsmikið kerfi ytri samskipta sem getur hvort tveggja í senn varið hagsmuni trúarinnar og boðað altækan boðskap hennar. Virðingin sem trúin nýtur á alþjóðlegum umræðuvettvangi, hvenær sem fulltrúar hennar tala, er mjög eftirtektarverður árangur. Hollustan og helgunin sem meðlimir samfélags, sem endurspeglar fjölbreytileika alls mannkynsins, auðsýna sáttmála Bahá’u’lláh, er forðabúr styrks sem enginn annar skipulagður hópur getur gert tilkall til.
Verndarinn sá fyrir að Allsherjarhús réttvísinnar myndi hleypa af stokkunum röð alþjóðlegra áætlana á næstu tímaskeiðum mótunaraldarinnar sem myndu „bera vitni um einingu“ andlegra þjóðarráða og „samhæfa og leiða starfsemi“ þeirra. Nú á síðustu þremur tímaskeiðum hefur bahá’í samfélagið unnið af eljusemi innan ramma hnattrænna áætlana sem Hús réttvísinnar hefur birt og hefur tekist að byggja upp mynstur bahá’í lífernis sem eflir andlegan þroska einstaklingsins og veitir sameiginlegum kröftum meðlima sinna farveg í átt að andlegri endurlífgun þjóðfélagsins. Það hefur öðlast getuna til að ná til mikils fjölda móttækilegra sálna með boðskapinn, staðfesta þær og dýpka skilning þeirra á grundvallaratriðum trúarinnar sem þær hafa gengið á hönd. Það hefur lært að beita meginreglu samráðs sem stofnandi þess setti fram og nota það sem árangursríkt tæki til sameiginlegrar ákvarðanatöku og fræða meðlima sína um notkun þess. Það hefur komið á fót kerfi til andlegrar og siðferðilegrar menntunar yngri meðlima sinna og hefur ekki aðeins látið það ná til eigin barna og unglinga heldur einnig til ytra samfélagsins. Með þann hæfileikaauð sem það hefur yfir að ráða hefur það skapað ríkulegt safn bókmennta sem inniheldur bækur á tugum tungumála sem uppfylla bæði eigin þarfir og mætir áhuga almennings. Það hefur tekið síaukinn þátt í málefnum ytra samfélagsins og tekist þannig á við fjölda verkefna á sviði félags- og efnahagslegrar þróunar. Sérstaklega hefur það stigið þýðingarmikil skref frá upphafi fimmta tímaskeiðsins árið 2001 í að auka mannauð sinn með þjálfunarkerfi sem nær til grasrótar samfélagsins og hefur uppgötvað aðferðir og tæki til að koma á sjálfbæru vaxtarmynstri.
Fyrirmælin um að stuðla að framþróun þess ferlis sem leiðir til hópinngöngu verður að skoða í samhengi við samspil kraftanna sem hér er lýst. Fimm ára áætlunin sem nú er að hefjast krefst þess að þið beinið kröftum ykkar að þessu ferli og tryggið að meginhreyfingunum tveimur, sem uppfylla hvor aðra og eru þungamiðja hennar, verði hraðað. Þetta ætti að vera aðalviðfangsefni ykkar. Eftir því sem viðleitni ykkar ber ávöxt og vaxtargangverkið verður flóknara mun Heimsmiðstöðin sjálf, á næstu fimm árum, standa frammi fyrir ögrunum og tækifærum á sviðum á borð við ytri samskipti, félags- og efnahagslega þróun, stjórnsýslu og beitingu bahá’í laga. Vöxtur samfélagsins hefur þegar krafist þess að nýju fyrirkomulagi verði komið á til að tvöfalda fjölda pílagríma þannig að fjögur hundruð verði í hverjum hópi, en sú breyting mun eiga sér stað í október 2007. Það eru nokkur önnur verkefni sem einnig verður að vinna að. Á meðal þeirra er frekari þróun garðanna í kring um helgidóm Bahá’u’lláh auk Riḍván garðsins og Mazra’ih; viðgerðir á Alþjóðlega minjasafninu; viðgerðir á grunni grafhýsis Bábsins, en umfang þeirra er enn ekki ljóst; og bygging tilbeiðsluhússins í Chile eins og Verndarinn sá fyrir en það verður hið síðasta Mashriqu’l-Adhkár sem þjónar heimsálfu. Eftir því sem þessum verkefnum vindur fram munum við kalla eftir aðstoð við og við, bæði í formi fjárhagslegs stuðnings sem og sérhæfðrar kunnáttu um leið og við minnumst þess að tilföng trúarinnar ætti að nýta eins mikið og mögulegt er til að mæta þörfum áætlunarinnar.
Kæru vinir: Ekki er hægt að líta fram hjá að niðurrifsöflin aukast að umfangi og kröftum. Það er jafnljóst að samfélagi Hins mesta nafns hefur verið leiðbeint af Hönd guðlegrar forsjónar í átt að auknum styrk. Það verður nú að stækka og fjölga úrræðum sínum. Leiðin sem fimm ára áætlunin markar er ljós. Hvernig getum við, sem gerum okkur grein fyrir ástandi mannkynsins og vitum um þá stefnu sem framrás mannkynssögunnar er að taka, látið vera að virkja hæfni okkar til hins ítrasta og helga okkur markmiði hennar? Eru orð Verndarans um að „sviðið sé tilbúið“ ekki jafn sönn í dag eins og þau voru þegar hann skrifaði þau í fyrstu sjö ára áætluninni? Látið þessi orð hljóma í eyrum ykkar: „Það má engan tíma missa.“ „Það er enginn tími fyrir hálfvelgju.“ „Slíkt tækifæri er ómetanlegt.“ „Að reyna og að þrauka er það sama og að tryggja endanlegan og fullkominn sigur.“ Verið fullviss um stöðugar bænir okkar við hina helgu fótskör fyrir leiðsögn ykkar og varðveislu.
[undirritað: Allsherjarhús réttvísinnar]