Riḍván 2003 – Til bahá’ía um allan heim

heim. Tilgangurinn með þessu átaki var að vekja athygli allra sem málið varðaði á brýnni þörf fyrir trúarlega forystu í umfjöllun um trúarfordóma, sem verða stöðugt meiri ógn við mannlega velferð. Tafarlaus viðbrögð margra viðtakenda benda til þess að boðin séu tekin alvarlega og á sumum stöðum hafa þau jafnvel skapað ný viðhorf til samtrúarstarfsemi.

Vel hefur miðað áfram á sviði félags- og efnahagsþróunar og enn dýpri spor verið mörkuð, bæði af einstaklingum og stofnunum, í innra starfi og samstarfi við aðrar stofnanir. Skrifstofa félags- og efnahagsþróunar skýrir frá því að á öðru ári áætlunarinnar hafi átta nýjum þróunarstofnunum verið komið á fót undir bahá’í áhrifum og þær starfa á fjölbreyttum sviðum svo sem í kvenréttinda- og heilbrigðismálum, landbúnaði, menntun barna og eflingu ungmenna. Í Landinu helga var ensk þýðing á arabískum pistli Bahá’u’lláh sem þekktur er undir nafninu Javáhiru’l-Asrár gefinn út undir heitinu „Gems of Divine Mysteries“ (Gimsteinar guðlegrar visku). Enduruppbyggingu fangaklefa Bahá’u’lláh í fangelsinu í ‘Akká er lokið og vinna hafin við það sem eftir er af efri hæð fangelsisins. Frá og með næsta pílagrímatímabili sem hefst í október 2003 verður pílagrímum í hverjum hópi fjölgað úr 150 í 200.

Auk þess hefur viðleitni í þá átt að þróa stofnanir við heimsmiðstöðuna komið sérstaklega vel í ljós í viðgangi stofnunar Ḥuqúqu’lláh undir virtri forystu trúnaðarmannsins, handar málstaðar Guðs ‘Alí-Muḥammad Varqá. Með stöðugri viðleitni hefur Dr. Varqá haft forgöngu um uppfræðslu vinanna hvarvetna varðandi lögin um Ḥuqúqu’lláh. Á áratugnum sem liðinn er síðan þessi lög tóku gildi um allan heim hefur kerfi þjóðlegra og svæðisbundinna ráða trúnaðarmanna orðið til sem sér um samræmingu og mótar stefnu í þjónustu við aukinn fjölda fulltrúa Réttar Guðs. Þekking á þessum máttugu lögum hefur breiðst út víða og vinir í öllum heimsálfum hafa brugðist við í anda helgunar, sem trúnaðarmennirnir vona að muni snerta þá sem ekki hafa nú þegar fært sér í nyt þá fyrirheitnu blessun sem streymir yfir þá sem hlýða þessum lögum.

Á þeim tæplega tveimur árum sem liðin eru síðan við kynntum sérstaka nauðsyn á fjárhagsaðstoð til viðeigandi viðhalds á byggingum og görðum við heimsmiðstöðina, hefur eignasjóður heimsmiðstöðvarinnar verið stofnaður. Enn sem komið er nægja framlög ekki fyrir árlegum þörfum. Við höfum samt sem áður talið okkur skylt að leggja til hliðar fimm milljónir dollara, sem okkur hafa borist, sem sérmerkt framlag til að byggja upp stofn sem tekjulind, helgaða upphaflega áforminu. Við höfum gert þetta með því að flytja fé frá bahá’í alþjóðasjóðnum til að mæta nauðsynlegum útgjöldum og jafnframt frestað starfsemi á öðrum sviðum sem eðlilegt hefði verið að sinna.

Það gleður okkur að geta tilkynnt að Andlegu þjóðarráði Síle hafa borist 185 tillögur frá arkitektum og hönnuðum um allan heiminn að móðurmusteri Suður-Ameríku, sem rísa á í Santiago. Lokahugmyndin verður kynnt á tilsettum tíma.

Kæru vinir: Við erum þakklátir fyrir traustan vitnisburð um framfarir sem orðið hafa vítt og breitt um heiminn og treystum á áframhaldandi staðfestingu hins æðsta Drottins okkar yfir helgaðri viðleitni ykkar innan ramma fimm ára áætlunarinnar – áætlunar sem er gerð til að mætum þörfum þessara tíma. Megi þolgæði ykkar við framkvæmd hennar leysa úr læðingi þau öfl sem með náð og hylli Abhá-fegurðarinnar geta hraðað hópinngönguferlinu í öllum löndum.

[undirritað: Allsherjarhús réttvísinnar]