17. janúar 2003 – Til bahá’ía um allan heim

unarstofnunar, sem hafa til að bera þekkingu og leikni sem þeir öfluðu sér á þjálfunarnámskeiðunum og hefjast handa um að stofna trúna á nýju svæði og renna stoðum undir nýtt samfélag.

Í flestum umdæmum er vöxtur frá einu vaxtarstigi til annars skilgreindur sem fjölgun námshringja og helgistunda og aukning í barnakennslu ásamt útbreiðslunni sem kemur í kjölfarið. Helgistundir byrja að blómgast með aukinni vitund um andlega vídd mannlegrar tilveru meðal átrúenda á svæðinu en sú vitundarvakning verður með tilstyrk þjálfunarnámskeiða. Barnakennsla er líka eðlileg afleiðing þjálfunar sem aflað var á fyrstu stigum námskeiðanna. Þegar þessi starfsemi er opnuð hinu ytra samfélagi með ýmsum hugmyndaríkum og vel skipulögðum aðferðum og leiðum laðar hún að sér vaxandi fjölda leitenda sem oft hafa áhuga á að sækja opin hús og taka þátt í námshringjum. Margir lýsa síðan yfir trú sinni á Bahá’u’lláh og líta frá byrjun á hlutverk sitt í samfélaginu sem virkan þátt í öflugu vaxtarferli. Viðleitni einstaklinga og samfélags á kennsluvettvangi eykst í sama mæli og verður til þess að efla ferlið enn frekar. Rótgróin samfélög öðlast nýtt líf og ný samfélög myndast sem brátt njóta þeirra forréttinda að kjósa sín eigin svæðisráð.

Samhengið sem þannig fæst með stofnun námshringja, helgistunda og barnakennslu örvar vöxtinn í umdæminu og það þeim mun frekar sem þessum grunnþáttaverkefnum fjölgar. Herferðir sem hjálpa allstórum hópi átrúenda að komast nógu langt í aðalnámskeiðaröðinni til að inna af hendi nauðsynlega þjónustu ljáir þessari fjölþættu og vaxandi starfsemi nýtt afl.

Það er augljóst að hin kerfisbundna leið til þjálfunar hefur opnað bahá’íum leið til að ná til hins ytra samfélags, deila boðskap Bahá’u’lláh með vinum, fjölskyldu, nágrönnum og samverkamönnum og kynna þeim ríkidæmi kenninga Hans. Þessi sýn á leiðina til hins ytra samfélags er einn ágætasti ávöxtur þess grasrótarnáms sem fram fer. Það hefur sannast að starfsmynstrið í umdæmum um heim allan er leið til að hraða útbreiðslu og treystingu. Samt er þetta aðeins byrjunin.

Í mörgum heimshlutum hefur það yfirleitt ekki reynst óvinnandi verkefni að fjölga verulega í röðum fylgjenda Bahá’u’lláh. Því er það uppörvandi að sjá að í sumum þróaðri umdæmum er verið að bæta vandlega hönnuðum verkefnum við núverandi vaxtarmynstur með það fyrir augum að ná til móttækilegra hópa og auka útbreiðslu trúarinnar. Slík verkefni hraða kennslunni, sem nú þegar sækir í sig veðrið með viðleitni einstaklinga. Og þar sem fjöldayfirlýsingar koma í kjölfarið eru ráðstafanir gerðar til að tryggja að visst hlutfall nýrra átrúenda taki strax þátt í þjálfunaráætluninni, því eins og við höfum lagt áherslu á nokkrum sinnum verða þessir átrúendur kallaðir til að þjóna þörfum sívaxandi bahá’í samfélags. Þeir hjálpa við að dýpka bahá’ía almennt með því að heimsækja þá reglulega, þeir kenna börnum, skipuleggja helgistundir, mynda námshringi og gera það mögulegt að viðhalda útbreiðslu.

Allt þetta opnar heillandi möguleika fyrir andlegu svæðisráðin. Þeirra hlutverk, í samvinnu við aðstoðarráðgjafana sem ráðleggja þeim og aðstoða þau, er að örva og virkja orku og hæfileika þess mannauðs sem er tiltækur í þeirra lögsagnarumdæmum bæði til að skapa lifandi samfélög og hafa áhrif á ytra samfélagið. Á svæðum þar sem engin andleg svæðisráð eru eða þar sem svæðisráðin virka ekki að neinu gagni, gefur stigvaxandi nálgun til að þróa samfélög og andleg svæðisráð mikil fyrirheit.

Sérstaklega er ánægjulegt að sjá mikla þátttöku átrúendanna á ýmsum sviðum vaxtarferlisins. Í umdæmi eftir umdæmi vex stöðugt fjöldi þeirra sem axla ábyrgð á útbreiðslu og treystingu. Samráðssamkomur sem haldnar eru á umdæmisstigi auka vitund um möguleikana og skapa áhuga. Engar kröfur eru gerðar á þessum samkomum til formlegrar ákvarðanatöku en þar geta þátttakendur íhugað þá reynslu sem þeir hafa fengið, miðlað af skilningi sínum, kannað nálganir og öðlast betri skilning á því hvernig hver og einn geti lagt sitt af mörkum til að ná markmiðum áætlunarinnar. Í mörgum tilfellum leiðir slík samvirkni til samkomulags um skammtímamarkmið einstaklinga og hópa. Að læra í verki er að verða helsta einkenni á þeirri aðferðafræði sem hér er festa rætur.

Enginn skyldi efast um að það sem við erum að verða vitni að er vaxandi þungi í því ferli hópinngöngu mannkyns í málstaðinn, sem Bahá’u’lláh sagði fyrir í töflu sinni til konungs Persíu, sem Meistarinn þráði ákaft og Verndarinn lýsti sem nauðsynlegum aðdraganda að trúskiptum fjöldans. Í framlínu þess ferlis eru þau umdæmi sem eru tiltölulega fá að tölu en samt reiðubúin til að hleypa af stokkunum öflugum vaxtaráætlunum. Umfang þeirrar útbreiðslu sem á að einkenna næsta vaxtarstig þessara umdæma kallar á öfluga viðleitni sem enn á eftir að sýna. Megi sú mikla orka sem helguð er þessu volduga verkefni eflast með krafti guðlegrar aðstoðar.

Verið fullviss um hjartanlegar bænir okkar í hinum helgu grafhýsum að Bahá’u’lláh sjái fyrir blessun og staðfestingu þeirrar viðleitni ykkar að nýta til fulls einstæð tækifæri þessara dýrmætu daga.

[undirritað: Allsherjarhús réttvísinnar]