Apríl 2002 – Til trúarleiðtoga heims

ginlegt framlag mannkynsins á þessari ögurstund í sögu þess. Samt stendur meirihluti skipulagðra trúarbragða lamaður á þröskuldi framtíðar, í helgreipum sömu kreddufestu og sama tilkalls til einkaaðgangs að sannleikanum sem hefur magnað sundrung og valdið beiskustu átökum jarðarbúa.

Afleiðingarnar fyrir velferð mannsins hafa verið geigvænlegar. Ekki er þörf á því að sundurliða hörmungarnar sem alda ofstækis, smánarblettur á nafni trúarinnar, hefur leitt yfir lánlausan almenning á okkar tímum. Þetta fyrirbæri er heldur ekki nýtt af nálinni. Svo aðeins eitt dæmi sé tekið af mörgum: Trúarbragðastyrjaldirnar í Evrópu á 16. öld kostuðu um þriðjung allra íbúa meginlandsins lífið. Menn hljóta að spyrja hver langtímauppskera þeirra fræja hafi verið sem blind sértrúaröfl, blásandi að glæðum slíkra átaka, sáðu í vitund almennings.

Við þetta uppgjör verður að bæta þeim svikráðum við mátt hugans sem eiga mesta þáttinn í því að svipta trúna hæfni til að taka afgerandi þátt í að móta þróun heimsmála. Trúarstofnanir hafa haft hugann allan við stefnuskrá sem dreifir og dregur úr mannlegri orku. Of oft hafa þær verið fremstar í flokki þeirra sem letja til könnunar á veruleikanum og beitingu þeirra vitsmuna sem einkenna mannkynið. Það kemur að engu raunverulegu haldi í glímunni við siðferðiskreppu nútímans að fordæma efnishyggju og hryðjuverk ef menn beina athyglinni ekki fyrst hreinskilnislega að því hvernig þeir vanræktu sína eigin ábyrgð og skildu fylkingar hinna trúuðu eftir berskjaldaðar fyrir áhrifum þeirra.

Þessar hugleiðingar, hversu sárar sem þær kunnu að vera, ætti síður að skoða sem áfellisdóm yfir skipulögðum trúarbrögðum, frekar sem skírskotun til einstæðs afls þeirra. Trúin, eins og við öll vitum, nær að innstu rótum mannlegrar hvatar. Þegar hún hefur verið trú uppruna sínum og fordæmi þeirra yfirskilvitlegu einstaklinga sem færðu heiminum stórkostleg trúarkerfi, vakti hún með heilum þjóðum hæfileikann til að elska, fyrirgefa, skapa, sýna hugrekki, sigrast á fordómum, fórna fyrir hagsmuni heildarinnar og aga dýrslegar hvatir. Áhrif þessara opinberenda guðdómsins, sem rekja má allt til upphafs skráðrar sögu, voru án efa aflvakinn að baki mannlegu siðgæði.

Þetta sama afl sem reyndist svo sterkt á umliðnum öldum er enn þá óbugandi þáttur mannlegrar vitundar. Andspænis ofurefli og án teljandi hvatningar heldur það áfram baráttunni fyrir lífi milljóna og kallar fram í öllum löndum hetjur og dýrlinga sem með lífi sínu færa áþreifanlegar sönnur á meginreglur ritninga sinna. Eins og þróun siðmenningar sýnir geta trúarbrögðin einnig haft mikil áhrif á mótun félagslegra tengsla. Í rauninni er erfitt að hugsa sér nokkra grundvallarþróun í siðmenningunni sem ekki hefur sótt siðferðisþrek sitt í þessa eilífu uppsprettu. Er þá hugsanlegt að hægt sé að ná hæsta stigi í árþúsundalöngu ferli skipulags á jörðinni í andlegu tómarúmi? Þótt þau öfugsnúnu hugmyndakerfi sem þröngvað var upp á heiminn á liðinni öld hafi engu komið til leiðar, sýndu þau að minnsta kosti ótvírætt að þörfinni verður ekki fullnægt með valkostum eða aðferðum sem sprottin eru af mannlegri hugmyndafræði.

* * *

Bahá’u’lláh dró saman vísbendingarnar fyrir daginn í dag í orðum sem hann skrifaði fyrir meira en einni öld og dreift hefur verið víða síðan:

Enginn vafi getur leikið á því að þjóðir jarðarinnar, hvaða kynþáttum eða trúarbrögðum sem þær tilheyra, fá innblástur sinn frá einni himneskri uppsprettu og eru þegnar eins Guðs. Munurinn á þeim lagaákvæðum sem þær búa við orsakast af mismunandi þörfum og knýjandi nauðsyn þeirra tíma er þau voru opinberuð. Öll voru þau ákvörðuð af Guði og endurspegla vilja hans og ásetning að fáeinum frátöldum, sem eru afurð mannlegra rangfærslna. Rísið upp, vopnist krafti trúarinnar og sundurmolið guði fánýtra ímyndana yðar, sáðmenn hatursins á meðal yðar. Sýnið stöðuglyndi í því sem færir yður nær hvert öðru og sameinar yður.

Slíkt ákall felur ekki í sér að grundvallarsannindum einhverra hinna miklu trúarkerfa heims sé hafnað. Því fer fjarri. Trúin ber í sér sína eigin brýningu og er sín eigin réttlæting. Trú annarra – eða vantrú – getur ekki bundið samvisku neins einstaklings, sem ber nafn hennar með réttu. Með þessum orðum er verið að hvetja afdráttarlaust til þess að öllu tilkalli til lokaðrar sértrúarhyggju og endanlegs sannleika í trúarefnum sé hafnað, en það eru einmitt rætur þessara hugmynda sem hafa undið sig um allt líf mannsandans, átt drýgstan þátt í að kæfa einingarviðleitni og stuðla að hatri og ofbeldi.

Við teljum að leiðtogar trúarbragðanna verði að bregðast við þessari sögulegu áskorun ef forystuhlutverk þeirra á að hafa merkingu í því hnattræna samfélagi sem er að vaxa úr reynslu og umróti tuttugustu aldar. Það er augljóst að vaxandi hópur fólks gerir sér grein fyrir því að sannleikur allra trúarbragða er í eðli sínu einn. Þessi viðurkenning er ekki niðurstaða guðfræðilegra deilna heldur innsæisvitund sem sprettur af sífellt meiri reynslu af öðru fólki og aukinni viðurkenningu á einingu sjálfrar fjölskyldu mannsins. Úr ólgu trúarkenninga, helgisiða og trúarboða, arfi horfinna heima, vex tilfinningin um að andlegt líf, eins og einingin sem opinberast í þjóða-, kynþátta- og menningarheildum, sé einn takmarkalaus veruleiki sem allir eigi jafnan aðgang að. Til þess að þessi skynjun, sem enn þá er óljós og hikandi, megi styrkjast og leggja sitt af mörkum til friðar á jörð verða þeir sem meginþorri mannkyns væntir sér leiðsagnar frá, jafnvel þótt svo áliðið sé orðið, að viðurkenna hana heilshugar.

Vissulega ber mikið á milli stærri trúarhefða heims að því er varðar félagsleg fyrirmæli og tilbeiðsluform. Öðruvísi gæti það varla verið ef litið er til þess að í þúsundir ára hafa opinberendur guðdómsins, hver á fætur öðrum, beint orðum sínum að breytilegum þörfum siðmenningar á þroskabraut. Í rauninni virðist þróun og breyting vera grundvallarþáttur í ritum flestra megintrúarbragða. Það sem ekki er hægt að réttlæta siðferðislega er að menningararfi sem átti að auðga andlega reynslu sé misbeitt þannig að hann veki þess í stað fordóma og firringu. Frumverkefni sálarinnar verður ætíð að kanna veruleikann, lifa í samræmi við sannindin sem hún kemst að raun um og sýna viðleitni annarra til að gera slíkt hið sama fulla virðingu.

Þeim andmælum kann að verða hreyft að viðurkenning á guðlegu jafnrétti allra megintrúarbragða verði til þess að hvetja eða að minnsta kosti auðvelda fjölda fólks að skipta um trú. Hvað sem hæft er í þessu eru þau áhrif vissulega lítilvæg í samanburði við tækifærið sem sagan loks opnar þeim sem eru sér meðvituð um veröld sem er æðri hinni jarðnesku – og um ábyrgðina sem fylgir slíkri vitund. Öll stóru trúarbrögðin geta á trúverðugan og áhrifamikinn hátt sýnt fram á hæfni sína til að rækta siðvitund. Enginn gæti heldur fært sannfærandi rök fyrir því að kenningar eins sérstaks trúarkerfis fremur en annars hafi haft meiri eða minni áhrif í mótun hleypidóma og hjátrúar. Í veröld gagnkvæmra samskipta er eðlilegt að tengslin séu í stöðugri þróun og vissulega er það hlutverk stofnananna, hverjar sem þær eru, að íhuga hvernig stýra megi þeirri þróun svo hún stuðli að einingu. Tryggingin fyrir haldgóðri niðurstöðu – andlegri, siðferðislegri og félagslegri – felst í varanlegri trú þess mikla fjölda jarðarbúa, sem enginn hefur ráðfært sig við, á því að alheimurinn stjórnist ekki af mannlegum duttlungum heldur ástríkri og óbrigðulli forsjón.

Ásamt hruni þeirra múra sem aðskilja mennina er öld okkar vitni að hruni þess múrs fortíðar, sem eitt sinn var ósigrandi og taldi sig um eilífð geta aðskilið jarðneskt líf frá hinu himneska. Ritningar allra trúarbragða hafa ætíð kennt átrúendum að líta ekki aðeins á þjónustu við aðra sem siðferðislega skyldu heldur jafnframt sem leið sálarinnar til að nálgast Guð. Í dag tekur þessi gamalkunna kenning á sig nýja merkingu í ljósi stöðugrar endurskipulagningar samfélagsins. Þegar aldagamalt fyrirheit um réttláta veröld verður smám saman að raunhæfu markmiði, verður að leggja aukna áherslu á þarfir sálar og samfélags, sem eru gagnkvæmar hliðar andlegs þroskaferlis.

Ef trúarleiðtogar eiga að svara þeirri áskorun sem þessi síðarnefnda hugmynd felur í sér, hljóta fyrstu viðbrögð þeirra að fela í sér viðurkenningu á því að trú og vísindi séu tvö óhjákvæmileg þekkingarkerfi og að sú geta sem býr í vitund mannsins þróist með þeirra hjálp. Þessir grundvallarþættir í könnun veruleikans eru langt í frá ósamrýmanlegir. Þeir byggja hvor á öðrum og hafa verið virkastir á þeim sjaldgæfu og hamingjuríku tímum sögunnar þegar þeir hafa uppfyllt hvorn annan, unnið saman og notið viðurkenningar. Innsæi og hæfni sem sprettur af vísindalegum framförum verður alltaf að haldast í hendur við andlega og siðferðilega skuldbindingu til að tryggja eðlilegt jafnvægi. Hversu dýrmæt sem trúarsannfæringin er einstaklingnum verður hann, fúslega og þakksamlega, að leggja hana í dóm hlutlægrar vísindalegrar aðferðafræði.

Við komum loks að málefni sem við nálgumst með nokkru hiki, þar sem það snertir beinast samviskuna. Það þarf ekki að koma á óvart að af mörgum freistingum heimsins hefur trúarlegt vald verið trúarleiðtogum þyngsta prófraunin. Ekki þarf að minna neinn sem varið hefur mörgum árum í rannsóknir og alvarlega íhugun á ritum einhverra trúarbragða á þá viðteknu og margítrekuðu reglu að vald getur spillt og það því meira sem valdið eykst. Hljótt er um þá innri sigra sem miklum fjölda trúaðra manna í klerkastétt hefur að þessu leyti tekist að vinna á öllum tímum, en þeir eru án efa ein helsta uppspretta sköpunarkrafts skipulögðu trúarbragðanna og hljóta að teljast til mestu afreka þeirra. Á sama hátt hefur uppgjöf annarra trúarleiðtoga fyrir táli veraldlegs valds og forréttinda orðið frjór jarðvegur kaldhæðni, spillingar og örvæntingar meðal allra sem verða að því vitni. Ekki þarf að orðlengja hvað þetta hefur í för með sér fyrir hæfni trúarleiðtoga til að rækja félagslegar skyldur sínar á þessum tíma í sögunni.

* * *

Þar sem trúarbrögðin hafa verið upptekin af göfgun lundarfars og ræktun samskipta, hafa þau í gegnum söguna verið manninum endanlegt haldreipi og gætt líf hans merkingu. Á sérhverri öld hafa þau hlúð að hinu góða, varað við hinu ranga og veitt öllum, sem vildu sjá, sýn á óuppfyllta möguleika. Heilræði þeirra hafa verið skynigæddum sálum hvatning til að sigrast á veraldlegum takmörkunum og uppfylla hlutverk sitt. Eins og alþjóðlegt nafn trúarbragða [religion] gefur til kynna hafa þau jafnframt verið helsti tengiliður ólíkra þjóða í æ stærri og flóknari samfélögum og laðað þannig fram hæfni þeirra sem og einstaklinganna sem mynda þau. Hinir miklu yfirburðir þessarar aldar felast í sjónarhorninu sem gerir öllu mannkyni kleift að sjá þessi siðmenningarferli sem eina heild, sífellda samfundi okkar jarðneska heims og veraldar Guðs.

Bahá’í samfélagið hefur sótt innblástur í þetta sjónarmið og það hefur frá upphafi verið öflugur talsmaður samtrúarstarfsemi. Í þeirri viðleitni sem hin ýmsu trúarsamfélög hafa sýnt til að nálgast hvert annað sjá bahá’íar ekki aðeins möguleika á kærkomnum tengslum heldur viðbrögð við vilja Guðs fyrir mannkyn sem er að leggja á sameiginlega þroskabraut. Meðlimir í samfélagi okkar munu halda áfram eftir föngum að veita þessari viðleitni brautargengi. Samverkamenn okkar í þessari viðleitni eiga þó rétt á því að við lýsum skilmerkilega þeirri fullvissu okkar að eigi samtrúarumræðan að koma að gagni og græða meinsemdirnar sem steðja að örvæntingarfullu mannkyni, verður hún hreinskilnislega og undanbragðalaust að beinast að þeim algilda og skapandi sannleika að Guð er einn, og ofar og handan mannlegri fjölbreytni og túlkun er trúin sömuleiðis ein.

Með hverjum degi sem líður eykst hættan á því að eldar vaxandi trúarfordóma verði að alheimsbáli með afleiðingum sem enginn getur gert sér í hugarlund. Borgaraleg stjórnvöld geta ekki sigrast hjálparlaust á slíkri hættu. Við ættum ekki heldur að lifa í þeirri blekkingu að áeggjan til gagnkvæms umburðarlyndis geti slökkt þá haturselda, sem kyntir eru undir því yfirskini að þeir séu Guði þóknanlegir. Kreppan gerir kröfu til þess að trúarleiðtogarnir segi skilið við fortíðina með jafn afgerandi hætti og gerðist þegar samfélaginu opnuðust leiðir til að berjast gegn öðrum og jafn eyðileggjandi fordómum kynþáttar, kynferðis og þjóðernis. Öll réttlæting á beitingu áhrifa í málefnum samviskunnar hlýtur að felast í þjónustu við velferð mannkynsins. Á þessum mestu tímamótum í sögu siðmenningar gætu kröfurnar sem gerðar eru til slíkrar þjónustu ekki verið skýrari. ,,Velferð mannkyns, friður þess og öryggi, er óhugsandi,“ segir Bahá’u’lláh ,,nema og þar til eining þess hefur verið tryggilega grundvölluð.“

[undirritað: Allsherjarhús réttvísinnar]