9. janúar 2001 – Til ráðstefnu álfuráðanna

raph">Í boðskap okkar frá 26. desember 1995, sem útlistaði meginþætti fjögurra ára áætlunarinnar, var vísað til helstu stiganna í þróunarferli samfélaga. Reynslan sem fékkst upp úr því, í kjölfar vinnu með samfélögum á mismunandi þróunarstigum mun reynast dýrmæt við framkvæmd vaxtaráætlana. Eitt af fyrstu skrefunum við upphaf slíkrar áætlunar gæti verið að meta stöðu hvers samfélags á svæðinu. Á meðal byrjunarmarkmiða fyrir hvert samfélag ætti að vera að koma á fót námshringjum, barnakennslu og helgistundum sem eru opin almenningi. Leggja þarf áherslu á að nítjándagahátíðir séu haldnar með viðeigandi hætti og stöðugt ætti að leitast við að styrkja andlegu svæðisráðin. Þegar samfélög eru fær um að viðhalda grundvallar bahá’í starfsemi er besta leiðin til að styrkja starf þeirra að hefja lítil félags- og efnahagsleg þróunarverkefni, til dæmis með því að stuðla að lestrarkunnáttu, framförum á meðal kvenna, varðveislu umhverfisins eða jafnvel með því að koma á fót þorpsskóla. Eftir því sem styrkur eykst flyst ábyrgðin á stöðugt fleiri aðgerðasviðum yfir á andlegu svæðisráðin.

Reglulega þarf að hafa samráð á svæðinu og skoða gang mála, íhuga hagræðingu og viðhalda eldmóði og samræmdri sýn. Best er að gera áætlun til fáeinna mánaða í senn, með einu eða tveimur aðgerðasviðum. Þeim má síðan fjölga smám saman. Þeir sem eru virkir þátttakendur í framkvæmd áætlana, hvort sem þeir eru meðlimir stofnana eður ei, skyldu hvattir til að taka að fullu þátt í samráðinu. Aðrar samkomur fyrir svæðið allt eru einnig nauðsynlegar. Sumar þeirra gefa tækifæri til að miðla reynslu og hljóta frekari þjálfun, aðrar leggja áherslu á notkun lista og að auðga menninguna. Saman munu slíkar samkomur styrkja kraftmikið ferli framkvæmda, samráðs og lærdóms.

Þeir sem taka þátt í þessum öflugu vaxtaráætlunum ættu að hafa í huga að tilgangurinn með þeim er að tryggja að opinberun Bahá’u’lláh nái til mannkynsins og geri því kleift að taka andlegum og efnislegum framförum með því að beita kenningum trúarinnar. Stór hluti mannkyns er tilbúinn fyrir, og þráir raunar, þær náðargjafir sem Bahá’u’lláh einn getur veitt, gjafir sem mannkyninu veitist þegar það hefur helgað sig því að byggja upp hið nýja samfélag sem Hann sá fyrir. Með því að læra að vinna að fjöldakennslu með kerfisbundnum hætti verða bahá’í samfélögin betur í stakk búin að svara þessari þrá. Þau mega ekki halda aftur af kröftum sínum, né neinum þeim fórnum sem kann að verða krafist.

Andlegt framtak

Ljóst er að þótt sú leið sem hér er lýst hæfi mörgum þjóðarsamfélögum er ekki hægt að beita henni við allar aðstæður. Við treystum að jafnvel þótt ekki sé hægt að fylgja þessari fyrirmynd að öllu leyti geti bahá’í stofnanir gert áætlanir sem fela í sér þætti úr þeirri sýn sem hér er lýst í samræmi við aðstæður hvers og eins þjóðarsamfélags. Bahá’í samfélög eru auðvitað að fást við margs konar ómissandi starfsemi eins og kynningaherferðir, upplýsingamiðlun til almennings, starf á sviði ytri samskipta, bókaútgáfu og flókin félagsleg og efnahagsleg þróunarverkefni. Þessum krefjandi verkefnum mun án efa verða mætt um leið og áætlanirnar eru gerðar.

Eðli þessarar áætlunargerðar, sem þið munuð hjálpa átrúendunum með, er að mörgu leyti einstætt. Þungamiðja hennar er andlegt ferli þar sem samfélög og stofnanir kappkosta að fella starfsemi sína að vilja Guðs. Hin meiri áætlun Guðs er að verki og þau öfl sem frá henni stafa knýja mannkynið til móts við fyrirheitna framtíð. Í framkvæmdaáætlunum sínum verða stofnanir trúarinnar að leitast við að afla sér innsýnar í það hvernig þessi miklu öfl starfa, kanna möguleika fólksins sem þær þjóna, mæla auð og styrk samfélaga sinna og stíga raunhæf skref til að fá óhefta þátttöku átrúendanna. Sú helga köllun sem ykkur er trúað fyrir er að næra þetta ferli. Við höfum fulla tiltrú á getu ykkar til þess. Megi Bahá’u’lláh blessa ykkur og styðja með sinni óbrigðulu náð og máttugu staðfestingum.

[undirritað: Allsherjarhús réttvísinnar]