Allsherjarhús réttvísinnar
9. janúar 2001
Til ráðstefnu álfuráðanna
Ástkæru vinir
Fyrir fimm árum báðum við álfuráðgjafana sem voru saman komnir í Landinu helga að hjálpa bahá’íum um heim allan að skilja og takast á við kerfisbundinn vöxt. Glæst afrek fjögurra ára áætlunarinnar eru til merkis um að þeir brugðust við af öllu hjarta. Nú biðjum við ykkur um jafnmikið átak til að tryggja að fimm ára áætluninni verði ýtt úr vör með árangursríkum hætti.
Þegar þið ræðið næsta stig í framvindu hinnar guðlegu áætlunar verðið þið að taka með í reikninginn umfang þeirra breytinga sem eiga sér stað í auðnu trúarinnar. Bygging þeirra miklu mannvirkja í heimsmiðstöðinni sem nú standa á boganum eru tákn um meiri háttar skref í styrkingu hinnar guðlegu stjórnskipunar. Í fjögurra ára áætluninni urðum við vitni að eftirtektarverðri framför í hæfni stofnana í bahá’í samfélögum um allan heim. Þjóðar- og svæðisráð hafa þróast æ hraðar og þar sem landshlutaráð hafa verið stofnuð hafa þau veitt nýjum krafti í starfsemi málstaðarins og gert hana árangursríkari. Með stofnun og velgengni meira en 300 þjálfunarstofnana á trúin nú öflugt tæki til að þróa þann mannafla sem þarf til að viðhalda útbreiðslu og treystingu í stórum stíl. Enn fremur hefur geta bahá’í trúarinnar til að hafa áhrif á framvindu þjóðfélagsmála aukist, bæði með samskiptum við ríkisstjórnir og félagasamtök og með viðleitni í þróunarstarfi á sviði félags- og efnahagsmála. Málstaður Bahá’u’lláh stendur við þröskuld nýs tímaskeiðs í mannkynssögunni þegar heimurinn hefur fetað stórum skrefum í átt til friðar, þótt glundroði ríki og ný átök blossi upp. Aukin næmni gagnvart gagntakandi og geislandi anda Bahá’u’lláh er auðsæ.
Markmið fimm ára áætlunarinnar verður áfram að efla hópinngönguferlið – það verður í raun markmið í röð áætlana sem nær til loka fyrsta árhundraðs mótunaraldarinnar. Kerfisbundin starfsemi hinna þriggja aðila í áætluninni, þ.e. einstakra átrúenda, stofnana og samfélagsins, mun hraða þessu lífsnauðsynlega ferli.
Þjálfunarstofnunin
Nákvæm greining á fjögurra ára áætluninni, sem Alþjóðlega kennslumiðstöðin vann fyrir okkur, sýnir fram á að þjálfunarstofnunin er ekki aðeins fær um að auka hæfileika einstaklingsins, heldur líka að blása lífi í samfélög og stofnanir. Áframhaldandi þróun þjálfunarstofnana í hinum ýmsu þjóðlöndum og á sjálfstjórnarsvæðum í heiminum verður því að vera aðaleinkenni nýju áætlunarinnar.
Þjálfunarstofnanir þurfa að nýta sér þann reynsluauð sem safnast hefur á þessu sviði og sjá samfélögum sínum fyrir stöðugum straumi mannafla til að sinna hópinngönguferlinu. Um allan heim hafa verið reyndir með góðum árangri undirstöðuþættir kerfis sem getur svarað þörfum fyrir þjálfun mikils fjölda átrúenda. Námshringir hafa reynst vel til að móta braut andlegrar menntunar almennings, séu þeir styrktir með viðbótarnámskeiðum og sérstökum herferðum. Greinilega hefur komið í ljós gildi þess að vinna samkvæmt námskeiðaröð, þar sem annað námskeið tekur við af því fyrra samkvæmt rökréttri samfellu og byggir á lærdómi þess. Ýmiss konar líkön eru að koma fram sem veita innsýn í það hvernig hægt er að nota röð námskeiða til að byggja þjálfunarkerfi. Í einu dæminu svipar meginröðin til trjástofns. Út frá honum greinast námskeið þar sem tekin eru fyrir sérhæfð þjálfunarsvið. Í öðru dæmi liggja nokkrar þjálfunarbrautir samsíða, hver með sína áherslu. Það væri vel ef þjálfunarstofnanir athuguðu þessa undirstöðuþætti og aðferðir og beittu þeim eftir því sem við á.
Við upphaf tólf mánaða áætlunarinnar lögðum við áherslu á mikilvægi þess að andlegum þörfum bahá’í barna sé sinnt og þau látin taka þátt í lífi málstaðarins. Allt bendir til þess, miðað við viðbrögð átrúendanna hingað til, að aukin vitund um mikilvægi barnafræðslu verði í raun aðalsmerki þessarar stuttu en þó mikilvægu áætlunar. Aukinn kraftur hefur verið settur í bahá’í barnakennslu. Með bættum skilningi hafa komið í ljós tækifæri til mennta börn almennt, bæði andlega og siðferðilega. Gott dæmi um þetta er sá árangur sem náðst hefur þar sem námskeið um bahá’í trúna hafa verið innleidd í námsáætlanir opinberra skóla.
Það er mjög uppörvandi að þjálfunarstofnanir leggja sífellt meiri áherslu á að þjálfa barnakennara. Aðrar ráðstafanir eru jafn brýnar ef kenna á öllum aldursflokkum reglulega í bahá’í samfélögum um víða veröld. Í sumum löndum hafa þjóðar- og landshlutanefndir verið stofnaðar til að aðstoða andleg svæðisráð við þá skyldu að mennta börn. Í þessum löndum munu tengslin milli nefndanna og þjálfunarstofnunarinnar þróast stöðugt eftir því sem reynsla eykst, þar sem hvor stofnun mun efla starf hinnar. En í mörgum löndum er það aðeins þjálfunarstofnunin sem er að þróa hæfni til að skipuleggja og reka námskeið á einu svæði á fætur öðru. Þar sem þessi aðferð hefur nýst ungmennum og fullorðnum vel, og unglingum í auknum mæli, er engin ástæða til þess að þjálfunarstofnunin axli ekki jafnmikla ábyrgð á menntun barna, þar sem nauðsyn krefur. Almennt séð taka þjálfunarstofnanirnar ekki að sér að stjórna áætlunum og verkefnum sem snúa að útbreiðslu og treystingu. Að standa að barnakennslu er þó einstætt og sérlega brýnt framtak. Í þeim löndum þar sem þjálfunarstofnuninni er falið þetta verkefni verður hún lærdómsmiðstöð sem fæst af krafti við andlega menntun vinanna, frá blautu barnsbeini og fullorðinsárin til enda.
Kennslufrumkvæði einstaklinga
Nú þegar starf þjálfunarstofnana eflist, þarf alls staðar að huga að kerfisbundinni kennslu. Í ritinu „Stofnun álfuráðgjafanna“ sem er nýkomið út, leggjum við áherslu á hlutverk aðstoðarráðgjafanna og aðstoðarmanna þeirra. Það felst í að hjálpa átrúendunum að mæta þörfum áætlunarinnar, bæði með einstaklingsfrumkvæði og samtakamætti fjöldans. Eftir því sem fólki fer fram á þjálfunarnámskeiðum dýpkar það þekkingu sína á trúnni og öðlast innsæi og færni í að þjóna. Sum kennslunámskeiðin verða vafalaust almenns eðlis en önnur vekja athygli á ýmsum leiðum til að deila boðskap Bahá’u’lláh með tilteknum hópum samfélagsins og nýta sér þann lærdóm sem fengist hefur. Með þessu samtaka ferli framkvæmdar, lærdóms og þjálfunar munu samfélögin fá síaukinn fjölda átrúenda sem eru óðfúsir og hæfir til að kenna málstaðinn.
Það er auðvitað ekki sjálfgefið að þjálfun ein leiði til uppgangs í kennslustarfi. Á öllum sviðum þjónustu þurfa bahá’íarnir á sleitulausri hvatningu að halda. Við væntum þess að aðstoðarráðgjafarnir og aðstoðarmenn þeirra íhugi sérstaklega hvernig hægt sé að rækta einstaklingsfrumkvæði, sér í lagi það sem lýtur að kennslu. Þegar þjálfun og hvatning hrífa, er vaxtarmenning nærð þar sem átrúendurnir skoða þá skyldu sína að kenna sem eðlilega afleiðingu þess að hafa viðurkennt Bahá’u’lláh. Þeir „hefja hátt á loft hinn helga kyndil trúar“, eins og ‘Abdu’l‑Bahá óskaði, „vinna sleitulaust, dag og nótt“, og „helga sérhvert flöktandi augnablik ævinnar því að dreifa hinni guðdómlegu angan og upphefja heilagt orð Guðs“. Svo upptendruð verða hjörtu þeirra af eldi ástar Guðs að hver sá sem nálgast þá finnur hita hans. Þeir kappkosta að vera farvegir andans, hjartahreinir, sjálfslausir og auðmjúkir og eiga þá fullvissu og það hugrekki sem stafar af trausti á Guði. Í slíkri menningu er kennsla ríkjandi ástríða í lífi átrúendanna. Ótti við mistök á þar ekki heima. Gagnkvæmur stuðningur, að helga sig lærdómi og meta fjölbreytni í aðgerðum er hin ríkjandi regla.
Kerfisbundnar vaxtaráætlanir
Á komandi mánuðum munuð þið hjálpa þjóðarsamfélögum, sem búa við gjörólíkar aðstæður, að setja fram áætlanir um kerfisbundinn vöxt. Í mörgum löndum er að finna aukna getu stofnananna, sérstaklega á landshlutastigi, sem býður upp á þann möguleika að athyglinni sé beint að landfræðilega smærri svæðum. Í flestum þeirra eru þorp og kaupstaðir, en stundum getur stórborg með tilheyrandi úthverfum myndað sjálfstætt svæði. Meðal þeirra þátta sem ákvarða mörk svæðisins, eru menning, tungumál, samgöngumynstur, innri gerð og samfélags- og efnahagslíf. Þau svæði sem landshluti skiptist í standa á mismunandi þróunarstigi. Sum eru enn ekki opin trúnni, þar sem önnur hafa einangruð svæðissamfélög og bahá’í hópa. Sums staðar eru rótgróin bahá’í samfélög að styrkjast með þróttmiklu þjálfunarferli; en fáein sterk samfélög með dýpkuðum átrúendum eru fær um að bregðast við áskorun um kerfisbundna og ört vaxandi útbreiðslu og treystingu.
Jafnskjótt og hin viðeigandi þróunarstig hafa verið skilgreind þurfa þjóðlegar áætlanir í þessum löndum að gera ráðstafanir til að óopnuð svæði verði opnuð hvert af öðru með flutningi innanlandsbrautryðjenda. Slíkum markmiðum er hægt að ná tiltölulega auðveldlega ef brautryðjendurnir hafa reynslu af námskerfum þjálfunarstofnana og geta notað aðferðir og kennsluefni þeirra við að virkja hóp helgaðra átrúenda sem geta stuðlað að framþróun í starfi trúarinnar á svæðinu. Dýrmæt verða að sönnu forréttindi þeirra sem á lokaárum fyrsta árhundraðs mótunaraldarinnar setja traust sitt á Guð, rísa upp af ákafa og taka forystu við að bera ljós guðdómlegrar leiðsagnar til allra landshluta heimalands síns. Það er von okkar að þetta ákall um innanlandsbrautruðning muni fæða af sér eldmóð meðal átrúendanna og opni þeim nýja sýn um möguleika til að þjóna trúnni.
Samkvæmt þessari ráðagerð þurfa þjóðlegar áætlanir jafnframt að fela í sér ráðstafanir til að styrkja önnur svæði. Þótt þau séu opin trúnni þurfa þau að ná því stigi að geta starfað af fullum krafti. Á þeim svæðum þar sem sterk samfélög með hóp dýpkaðra átrúenda eru fyrir hendi verður tafarlaust að koma í gang kerfisbundnum verkefnum til að breiða út og styrkja trúna. Við höfum þegar sagt frá því að Alþjóðlega kennslumiðstöðin hefur bent á viðeigandi vaxtarmunstur sem hæfa tiltölulega litlum svæðum. Síðan hefur hún krufið til mergjar nokkur tilraunaverkefni í ýmsum heimshlutum og eru niðurstöður hennar ákaflega hvetjandi. Sá lærdómur sem dreginn hefur verið af þessu myndar reynslubálk sem gefur færi á að koma af stað kerfisbundnum vaxtarverkefnum á hverju svæðinu á fætur öðru. Æskilegt er að þið látið kennslumiðstöðina fylgjast með þegar þið hafið samráð við andleg þjóðarráð og landshlutaráð um þetta mál.
Það er mikilvægt að þjóðarsamfélög æði ekki út í það að koma á fót öflugum áætlunum áður en aðstæður eru réttar. Slíkar aðstæður fela í sér eftirfarandi: Mikill ákafi hjá umtalsverðum hópi helgaðra og hæfra átrúenda sem skilja forsendurnar fyrir viðvarandi vexti og geta eignað sér verkefnið; einhver grunnreynsla meðal fáeinna samfélaga í umdæminu í að standa fyrir helgistundum, nítjándagahátíðum og kennslu til andlegrar uppfræðslu barna. Jafnframt þurfa að vera fyrir hendi stjórnsýslugeta að þokkalegu marki hjá að minnsta kosti fáeinum andlegum svæðisráðum; virk þátttaka nokkurra aðstoðarmanna aðstoðarráðgjafa í að efla samfélagslífið; greinilegur samstarfsandi meðal hinna ýmsu stofnana sem starfa á svæðinu; og umfram allt sterk návist þjálfunarstofnunarinnar sem með samstilltri ráðagerð stuðlar að kerfisbundinni fjölgun námshringja.
Áætlunum sem hleypt er af stokkunum á svona svæðum ættu að vinna að því að hlúa að sjálfbærum vexti með því að byggja upp nauðsynlega getu einstaklinga, stofnana og samfélaga. Því fer fjarri að þessar áætlanir þurfi að vera mikilfenglegar og flóknar. Leggja þarf áherslu á fáar ráðstafanir sem hafa í áranna rás reynst ómissandi fyrir stórfellda útbreiðslu og treystingu. Árangurinn er háður viðhorfinu til lærdóms og því hvernig mismunandi aðgerðir spinnast saman. Vinna samkvæmt slíkri áætlun mun krefjast náinnar samvinnu þjálfunarstofnunarinnar, aðstoðarráðgjafa og aðstoðarmanna þeirra sem og umdæmiskennslunefndar.
Þungamiðja áætlunarinnar verður að vera traust og stöðug útbreiðsla ásamt jafn stöðugri þróun mannauðs. Margs konar viðleitni á sviði kennslu þarf að eiga sér stað sem felur í sér bæði aðgerðir af hálfu einstaklinga og herferðir á vegum stofnana. Eftir því sem fjöldi átrúenda eykst á svæðinu ætti umtalsverður hluti þeirra að hljóta þjálfun hjá þjálfunarstofnuninni og hæfni þeirra að nýtast við þróun svæðissamfélaga.
Í boðskap okkar frá 26. desember 1995, sem útlistaði meginþætti fjögurra ára áætlunarinnar, var vísað til helstu stiganna í þróunarferli samfélaga. Reynslan sem fékkst upp úr því, í kjölfar vinnu með samfélögum á mismunandi þróunarstigum mun reynast dýrmæt við framkvæmd vaxtaráætlana. Eitt af fyrstu skrefunum við upphaf slíkrar áætlunar gæti verið að meta stöðu hvers samfélags á svæðinu. Á meðal byrjunarmarkmiða fyrir hvert samfélag ætti að vera að koma á fót námshringjum, barnakennslu og helgistundum sem eru opin almenningi. Leggja þarf áherslu á að nítjándagahátíðir séu haldnar með viðeigandi hætti og stöðugt ætti að leitast við að styrkja andlegu svæðisráðin. Þegar samfélög eru fær um að viðhalda grundvallar bahá’í starfsemi er besta leiðin til að styrkja starf þeirra að hefja lítil félags- og efnahagsleg þróunarverkefni, til dæmis með því að stuðla að lestrarkunnáttu, framförum á meðal kvenna, varðveislu umhverfisins eða jafnvel með því að koma á fót þorpsskóla. Eftir því sem styrkur eykst flyst ábyrgðin á stöðugt fleiri aðgerðasviðum yfir á andlegu svæðisráðin.
Reglulega þarf að hafa samráð á svæðinu og skoða gang mála, íhuga hagræðingu og viðhalda eldmóði og samræmdri sýn. Best er að gera áætlun til fáeinna mánaða í senn, með einu eða tveimur aðgerðasviðum. Þeim má síðan fjölga smám saman. Þeir sem eru virkir þátttakendur í framkvæmd áætlana, hvort sem þeir eru meðlimir stofnana eður ei, skyldu hvattir til að taka að fullu þátt í samráðinu. Aðrar samkomur fyrir svæðið allt eru einnig nauðsynlegar. Sumar þeirra gefa tækifæri til að miðla reynslu og hljóta frekari þjálfun, aðrar leggja áherslu á notkun lista og að auðga menninguna. Saman munu slíkar samkomur styrkja kraftmikið ferli framkvæmda, samráðs og lærdóms.
Þeir sem taka þátt í þessum öflugu vaxtaráætlunum ættu að hafa í huga að tilgangurinn með þeim er að tryggja að opinberun Bahá’u’lláh nái til mannkynsins og geri því kleift að taka andlegum og efnislegum framförum með því að beita kenningum trúarinnar. Stór hluti mannkyns er tilbúinn fyrir, og þráir raunar, þær náðargjafir sem Bahá’u’lláh einn getur veitt, gjafir sem mannkyninu veitist þegar það hefur helgað sig því að byggja upp hið nýja samfélag sem Hann sá fyrir. Með því að læra að vinna að fjöldakennslu með kerfisbundnum hætti verða bahá’í samfélögin betur í stakk búin að svara þessari þrá. Þau mega ekki halda aftur af kröftum sínum, né neinum þeim fórnum sem kann að verða krafist.
Andlegt framtak
Ljóst er að þótt sú leið sem hér er lýst hæfi mörgum þjóðarsamfélögum er ekki hægt að beita henni við allar aðstæður. Við treystum að jafnvel þótt ekki sé hægt að fylgja þessari fyrirmynd að öllu leyti geti bahá’í stofnanir gert áætlanir sem fela í sér þætti úr þeirri sýn sem hér er lýst í samræmi við aðstæður hvers og eins þjóðarsamfélags. Bahá’í samfélög eru auðvitað að fást við margs konar ómissandi starfsemi eins og kynningaherferðir, upplýsingamiðlun til almennings, starf á sviði ytri samskipta, bókaútgáfu og flókin félagsleg og efnahagsleg þróunarverkefni. Þessum krefjandi verkefnum mun án efa verða mætt um leið og áætlanirnar eru gerðar.
Eðli þessarar áætlunargerðar, sem þið munuð hjálpa átrúendunum með, er að mörgu leyti einstætt. Þungamiðja hennar er andlegt ferli þar sem samfélög og stofnanir kappkosta að fella starfsemi sína að vilja Guðs. Hin meiri áætlun Guðs er að verki og þau öfl sem frá henni stafa knýja mannkynið til móts við fyrirheitna framtíð. Í framkvæmdaáætlunum sínum verða stofnanir trúarinnar að leitast við að afla sér innsýnar í það hvernig þessi miklu öfl starfa, kanna möguleika fólksins sem þær þjóna, mæla auð og styrk samfélaga sinna og stíga raunhæf skref til að fá óhefta þátttöku átrúendanna. Sú helga köllun sem ykkur er trúað fyrir er að næra þetta ferli. Við höfum fulla tiltrú á getu ykkar til þess. Megi Bahá’u’lláh blessa ykkur og styðja með sinni óbrigðulu náð og máttugu staðfestingum.
[undirritað: Allsherjarhús réttvísinnar]