Riḍván 2000 – Til bahá’ía um allan heim

sem geta boðið svæðissamfélögunum þjónustu sína. En þótt það sé höfuðatriði að útvega börnunum andlega og akademíska uppfræðslu, þá er þetta aðeins hluti þess sem verður að gera til að þjálfa lunderni og móta persónuleika þeirra. Það er einnig nauðsynlegt fyrir einstaklinga og stofnanir á öllum stigum, það er að segja samfélagið í heild, að tileinka sér rétt viðhorf til barnanna og sýna almennan áhuga á velferð þeirra. Slíkt viðhorf ætti að vera fjarri öllu sem viðgengst í ört hnignandi skipulagi.

Börnin eru dýrmætasti fjársjóðurinn sem samfélagið getur átt því þau eru fyrirheit og trygging framtíðar. Þau bera með sér fræ framtíðar þjóðfélags sem mótast að miklu leyti af því sem hinir fullorðnu í samfélaginu gera eða láta undir höfuð leggjast að gera varðandi börnin. Þau eru vörslufé sem ekkert samfélag getur vanrækt sér að meinalausu. Alltumlykjandi ást á börnunum, hvernig komið er fram við þau, sú athygli sem þeim er sýnd, andinn í hegðun hinna fullorðnu gagnvart þeim – allt eru þetta lífsnauðsynlegir þættir í réttu viðhorfi til barna. Ást krefst aga, hugrekkis til að venja börnin við erfiðleika, þess að ekki sé látið eftir duttlungum þeirra né að þau fái að leika algjörlega lausum hala. Viðhalda þarf andrúmslofti þar sem börnunum finnst að þau tilheyri samfélaginu og eigi aðild að áformum þess. Þeim verður að leiðbeina með ástúðlegum en þó ákveðnum hætti til að lifa samkvæmt bahá’í viðmiðum, að læra um málstaðinn og kenna hann með þeim hætti sem hentar kringumstæðum þeirra.

Meðal hinna ungu í samfélaginu eru unglingar, sem eru t.a.m. á aldrinum 12-15 ára. Þeir eru sérstakur hópur sem hefur sérstakar þarfir þar sem þeir eru að nokkru leyti milli barnæsku og unglingsára þar sem margs kyns breytingar eiga sér stað innra með þeim. Með hugvitsömum hætti verður að gefa gaum að því verkefni að fá þau til að taka þátt í skipulögðum verkefnum sem geta vakið áhuga þeirra, mótað hæfni þeirra til kennslu og þjónustu og dregið þau inn í félagsleg samskipti við eldri ungmenni. Beiting listrænnar tjáningar í ýmsum myndum getur verið mjög dýrmæt í slíkri starfsemi.

Og nú viljum við beina nokkrum orðum til foreldra sem bera höfuðábyrgð á uppeldi barna sinna. Við heitum á þau að veita andlegri uppfræðslu barna sinna stöðuga athygli. Sumir foreldrar virðast halda að þetta sé á ábyrgð samfélagsins. Aðrir halda að til þess að varðveita sjálfstæði barnanna til að rannsaka sannleikann eigi ekki að kenna þeim trúna. Ekkert af þessu er rétt. Meistarinn ástkæri hefur sagt: „Feðrum og mæðrum er gert að skyldu að reyna af öllum mætti að þjálfa dætur sínar og syni,“ og hann bætir því við að „skyldu þau vanrækja þetta málefni verða þau gerð ábyrg og eru verðug ávítana í návist hins stranga Drottins.“ Foreldrar, án tillits til hvaða menntun þau hafa, eru í lykilaðstöðu til að móta andlegan þroska barna sinna. Þeir ættu aldrei nokkru sinni að vanmeta hæfni sína til að móta siðferðisskaphöfn barna sinna, því þau hafa óhjákvæmileg áhrif með heimilisumhverfinu sem þau skapa meðvitað með ást sinni á Guði, viðleitni sinni til að fylgja lögum Hans, viðhorfi sínu til þjónustu við málstað Hans, skorti sínum á ofstæki og frelsi sínu frá tærandi áhrifum baktals. Sérhvert foreldri sem trúir á Hina blessuðu fegurð hefur ábyrgð að hegða sér þannig að þau hljóti þá sjálfviljugu hlýðni barnanna við foreldrana sem kenningarnar meta svo mikils. Til viðbótar við viðleitnina sem sýnd er heima fyrir ættu foreldrarnir að styðja við bahá’í barnakennslu sem samfélagið stendur fyrir. Það verður einnig að hafa í huga, að börnin lifa í heimi sem upplýsir þau um hrjúfan raunveruleikann með beinni snertingu við hryllinginn, sem lýst var hér á undan, eða með óumflýjanlegum og stöðugum áhrifum fjölmiðla. Mörg þeirra verða því neydd til að þroskast fyrir tímann og meðal þeirra eru þau sem leita eftir gildum og aga til að haga lífi sínu eftir. Andspænis þessu dapurlega sviði úrkynjaðs þjóðfélags, ættu bahá’í börn að skína sem tákn um betri framtíð.

Væntingar okkar lifna við þá tilhugsun að álfuráðgjafarnir munu koma saman í Landinu helga í janúar 2001 og verða viðstaddir þann hátíðlega viðburð er Alþjóðlega kennslumiðstöðin flytur í varanlega aðstöðu á Hæð Guðs. Aðstoðarráðgjafar hvaðanæva að úr heiminum munu taka þátt í atburðinum með þeim sem án efa verður einn af sögulegum viðburðum mótunaraldarinnar. Samkoma slíks hóps bahá’í embættismanna hlýtur eðli málsins samkvæmt að verða til gífurlegs gagns fyrir samfélag sem þá verður nærri komið að lokum einnar áætlunar og að upphafi annarrar. Er við íhugum það sem þetta felur í sér snúum við hjörtum okkar í þakklæti til hinna ástkæru handa málstaðarins ‘Alí-Akbar Furútan og ‘Alí Muḥammad Varqá, sem með búsetu sinni í Landinu helga halda á lofti kyndli þjónustunnar sem Verndarinn ástkæri kveikti í hjörtum þeirra.

Með þessari tólf mánaða áætlun göngum við yfir brú sem aldrei verður farið yfir aftur. Við hrindum þessari áætlun úr vör í jarðneskri fjarvist Amatu’l‑Bahá Rúḥíyyih Khánum. Hún var með okkur nánast til loka tuttugustu aldarinnar sem ljósgeisli þess ljóss sem hafði skinið á því óviðjafnanlega tímaskeiði í sögu mannkynsins. Í Töflum hinnar guðlegu áætlunar harmaði Meistarinn að hann gæti ekki ferðast um allan heim til að hefja upp hið himneska kall og í ákefð vonbrigða sinna skrifaði hann þessa von: „Guð gefi að ykkur takist það!“ Amatu’l‑Bahá svaraði með takmarkalausri orku og ferðaðist til fjarlægra staða á jörðinni í þeim 185 löndum sem nutu þeirra forréttinda að fá óeftirlíkjanlegar gjafir hennar. Fordæmi hennar, sem mun ávallt halda ljóma sínum, upplýsir hjörtu þúsunda um allan heim. Þegar allt annað látbragð nægir ekki, gætum við ekki tileinkað auðmjúkri viðleitni okkar, meðan á þessari áætlun stendur, minningu þeirrar sem leit á kennsluna sem frumtilgang og fullkominn lífsfögnuð?

[undirritað: Allsherjarhús réttvísinnar]