Allsherjarhús réttvísinnar
26. nóvember 1999
Til bahá’ía um allan heim
Ástkæru vinir
Á þessum sérstæða degi, þegar hjörtu okkar og hugsanir einblína á hið ódauðlega fordæmi sem sett var með lífi Miðju sáttmálans, stöldrum við við, með djúpri þakklætistilfinningu, til að gefa gaum að núverandi framþróun hinnar guðlegu áætlunar sem hann setti fram og til að líta á framtíðina handan við fjögurra ára tímabilið sem nú tekur óðfluga að enda sitt skeið.
Sá árangur sem náðst hefur á þessu tímabili er svo sannarlega uppörvandi. Mikilfenglegu neti þjálfunarstofnana hefur verið komið á laggirnar um víða veröld á mælikvarða sem ekki var hægt að gera sér nema óljóst í hugarlund í upphafi áætlunarinnar. Þessar lærdómsmiðstöðvar, sem eru að fæðast, hafa tekið þýðingarmikil skref í að þróa formlegar námsáætlanir og að skapa árangursrík kennslukerfi. Skýrslur gefa til kynna að fjöldi átrúenda, sem hefur haft beinan ábata af þjálfunarnámskeiðum, hafi vaxið upp að tæpum 100.000. Enginn vafi leikur á því að geta heimssamfélagsins til að þróa mannauð sinn hefur greinilega aukist.
Áhrifa þessarar kerfisbundnu nálgunar við þróun mannauðs er tekið að gæta í lífi allra þriggja höfuðþátttakenda í áætluninni, þ.e. í lífi hins einstaka átrúanda, stofnananna og svæðissamfélagsins. Orðið hefur uppsveifla í kennslustarfsemi sem einstaklingar hafa átt frumkvæði að. Andleg ráð, ráðgjafar og nefndir hafa vaxið í hæfni sinni til að veita átrúendum leiðsögn í einstaklings- og hópviðleitni sinni. Og samfélagslífið hefur blómstrað, jafnvel á svæðum sem löngum hafa verið í dvala, við það að nýtt hugarfars- og hegðunarmynstur hefur skotið upp kollinum.
Er við könnum náið bahá’í heiminn, sjáum við stórum sterkara samfélag, heilbrigt hið innra og eflt svo eftir verður tekið. Árangur þess að ná til hins almenna borgara, ríkisstjórna og stofnana hins borgaralega samfélags og við að ávinna sér traust allra þessara hópa er eftirtektarverður. Skrifstofur sérhæfðar í ytri samskiptum, sem fylgja skýrt afmarkaðri starfsáætlun, hafa fært út áhrifasvið trúarinnar, bæði á þjóðlegum og alþjóðlegum grundvelli, og áætlanir um félagslega og efnahagslega þróun sem leitast við að hefja heilu samfélögin upp bæði andlega og efnislega, gegnsýra nú þjóðfélögin við grasræturnar.
Stigin tvö sem strax eru fram undan í blómgun hinnar guðlegu áætlunar munu vara annað í eitt ár og hitt fimm ár. Á Riḍván árið 2000 mun bahá’í heimurinn verða beðinn að takast á hendur við hið fyrra þessara tveggja stiga, tólf mánaða átak, sem miðar að því að samhæfa kraftana, hæfileikana og innsæið, sem svo ákaft hafa komið fram. Fimm ára áætlunin, sem fylgir á eftir mun hleypa af stokkunum alheimslegum átaksverkefnum sem munu leiða bahá’í samfélagið í gegnum tuttugu síðustu ár fyrstu aldar mótunarskeiðs trúarinnar. Þessar hnattrænu áætlanir munu halda áfram að beina athygli sinni að því að efla hópinngönguferlið og að kerfisbundinni hröðun þess.
Það er frumskilyrði að á meðan eins árs átakið stendur yfir taki þjóðlegar og svæðisbundnar þjálfunarstofnanir hvarvetna að vinna fyllilega samkvæmt námsáætlununum og kennslukerfunum sem þær hafa upphugsað. Þjóðarsamfélög ættu að hefja fimm ára áætlunina fullviss um að stór liðsafli átrúenda afli sér þekkingar, andlegra eiginleika og þjónustuhæfni hindrunarlaust með aðstoð námskeiðaraðar. Frekari skipulagningu kennsluverkefna ætti jafnframt að veita ríkulega athygli, hvort sem það eru einstaklingar sem eiga frumkvæði að þeim eða þeim er stjórnað af stofnununum. Í þessu tilliti hefur Alþjóðlega kennslumiðstöðin skilgreint ákveðin mynstur kerfisbundinnar útbreiðslu og treystingar á tiltölulega litlum landsvæðum með viðráðanlegum fjölda svæða. Með samvinnu við ráðgjafa og andleg þjóðarráð hefur allmörgum „svæðisvaxtaráætlunum“ verið komið á fót á öllum meginlöndum. Náið verður fylgst með þeim á tólf mánaða tímabilinu og verða aðferðir þeirra betrumbættar, svo að þessa aðferð megi nota í næstu áætlunum.
Í gerð áætlana um að efla hópinngönguferlið er ekki hægt að líta fram hjá börnum og unglingum eigi sigrar sem unnist hafa á meðal einnar kynslóðar ekki að glatast í framrás tímans. Það hefur því úrslitaþýðingu á þessum tímapunkti í skipulagsferli kennslustarfsins að stigin séu ákveðin skref til að tryggja að sýn samfélagsins feli að fullu í sér yngri meðlimi þess. Menntun barna, sem er skylda sem bæði hefur verið lögð á herðar foreldra og stofnana, krefst sérstakrar áherslu svo að hún verði rækilega felld inn í þróunarferil samfélaga. Þessa starfsemi ætti að hefja upp á nýtt ákafastig á þessum tólf mánuðum og hefja enn frekar upp á árunum strax á eftir. Það að flestar þjálfunarstofnanir í heiminum sjá fyrir þjálfun kennara til barnakennslu ber vott um styrk. Andleg ráð og aðstoðarráðgjafar munu þurfa að virkja þennan nýþjálfaða mannauð til að mæta andlegum kröfum barna og unglinga.
Tímabil tólf mánaða áætlunarinnar mun einkennast af mikilli starfsemi í þjóðfélaginu öllu nú er dregur að lokum tuttugustu aldarinnar. Nú þegar hafa framámenn auðsýnt brennandi áhuga á örlögum komandi kynslóða og er það von okkar að ákafi bahá’í samfélagsins, bæði í starfsemi sinni inn á við og í samskiptum sínum við þjóðfélagið, muni gefa til kynna tiltrú á framtíð mannkynsins.
Við munum biðja þess heitt við hin helgu grafhýsi að Bahá’u’lláh muni blessa viðleitni ykkar til að leiða fjögurra ára áætlunina til sigursamlegra loka.
[undirritað: Allsherjarhús réttvísinnar]