Allsherjarhús réttvísinnar
Ritaradeildin
7. apríl 1999
Til allra andlegra þjóðarráða
Kæru bahá’í vinir
Málefni er varða bahá’í fræðaiðkun
Í maí 1998 birti Bahá’í Canada safn bréfa sem Allsherjarhús réttvísinnar hafði ritað til ýmissa einstaklinga varðandi fræðilegar rannsóknir á bahá’í trúnni. Í framhaldi af því voru eintök af þessari samantekt send bréfleiðis af Andlegu þjóðarráði Kanada til systurráða þess. Þessi endurprentun hefur nú verið gerð fáanleg almenningi í bæklingsformi af útgáfufyrirtækinu Bahá’í Publishing Trust í Bandaríkjunum. Allsherjarhús réttvísinnar hefur beðið okkur að senda ykkur eintak hinnar síðarnefndu útgáfu með eftirfarandi athugasemdum.
Eins og margir vinanna hafa orðið varir við er um þessar mundir í gangi herferð innri andstöðu við kenningarnar fyrir tilstilli alnetsins, upplýsingamiðlunarkerfis sem nú hefur náð til svo að segja allra hluta heimsins. Ólíkt kunnuglegum árásum í fortíðinni, leitast hún við að endurmóta trúna í heild sinni sem félags- og stjórnmálahugmyndafræði, sem er fjarri ætlun Bahá’u’lláh. Í staðinn fyrir vald þeirra stjórnstofnana, sem er grundvallað á sáttmála Hans, kynnir hún eins konar túlkunarvald sem þeir sem standa að baki henni eigna sjónarmiðum einstaklinga með sérfræðimenntun í Mið-Austurlandafræðum.
Snemma árs 1996 komst upp um úthugsað eðli þessarar ráðagerðar í rafrænni póstsendingu sem barst af slysni inn á póstlista sem bahá’í áskrifendur höfðu ætlað að væri helgaður fræðilegri könnun á málstaðnum. Sumir þeirra einstaklinga sem voru ábyrgir sögðu sig úr trúnni þegar álfuráðgjafar bentu þeim á þá stefnu sem starfsemi þeirra væri að taka. Lítill hópur annarra heldur áfram að kynna herferð sína innan bahá’í samfélagsins.
Áður fyrr, við aðstæður allsambærilegar þessum, kom sú þolinmæði og samúð sem ‘Abdu’l‑Bahá og Verndarinn auðsýndu, mörgum átrúendum, sem höfðu verið afvegaleiddir af illviljuðum einstaklingum, til hjálpar við að losa sig fyrir fullt og allt úr slíkum flækjum. Í þessum sama anda umburðarlyndis hefur Allsherjarhús réttvísinnar gripið inn í núverandi aðstæður einungis að því marki sem hefur verið óhjákvæmilegt. Það hefur treyst á að góður skilningur og velvilji þeirra átrúenda sem viðriðnir eru málið verði til þess að þeir vakni til vitundar um þann andlega háska sem þeir eru að stefna sér í. Hvað sem öðru líður, þá fylgjast tilteknir álfuráðgjafar og nokkur þjóðarráð vandlega með vandamálinu og geta vinirnir verið fullvissir um það að sérhver nauðsynleg viðbótarskref sem þarf að taka til að vernda heilleika trúarinnar verða tekin.
Eins og kaflar í meðfylgjandi endurprentun bera vott um, leitast þessi herferð innri andstöðu við að sá fræjum efa um eðli og umfang þess yfirvalds sem Verndaranum og Allsherjarhúsi réttvísinnar er veitt í ritningunum. Á sama tíma gefur hún sig út fyrir að viðurkenna lögmæti beggja stofnana sem tvíburaarftaka Bahá’u’lláh og Miðju sáttmála Hans. Þegar aðrir bahá’íar hafa bent á að slík rök séu í mótsögn við skýrar yfirlýsingar Meistarans, hafa aðilar er standa á bak við ráðabruggið svarað með því að draga í efa heilbrigða dómgreind og heildarsýn ‘Abdu’l‑Bahá. Smám saman hafa þessi rök síðan opinberað þau sjónarmið hlutaðeigandi aðila að Bahá’u’lláh sjálfur væri ekki rödd Guðs fyrir okkar tíma heldur aðeins einstaklega upplýstur siðferðisheimspekingur sem fyrst og fremst lét sig varða endurbætur á núverandi þjóðfélagi.
Í sjálfu sér væru litlar líkur á því að slík andstaða gæti haft áhrif á sæmilega upplýsta bahá’ía. Til að ná fram markmiði sínu, þar af leiðandi, reiðir þessi ráðagerð sig á að færa sér í nyt það öngþveiti sem hefur skapast í nútímahugsun vegna hinna ríkjandi kennisetninga efnishyggjunnar, eins og bent er á í einu bréfanna í meðfylgjandi endurprentun (20. júlí 1997). Enda þótt sá raunveruleiki að stöðug samskipti Guðs við sköpun sína og inngrip Hans í mannlegt líf og sögu sé sjálfur kjarni kenninga stofnenda hinna opinberuðu trúarbragða, þá halda kennisetningar efnishyggjunnar því til streitu að jafnvel sjálft eðli trúarbragðanna geti aðeins verið skilið réttilega fyrir tilstilli fræðilegrar aðferðafræði – aðferðafræði sem samt er þannig úr garði gerð að hún kærir sig kollótta um þá sannleiksþætti sem gera trúarbrögðin að því sem þau eru.
Að jafnaði er þeirri baráttuáætlun fylgt að forðast beinar árásir á höfuðpersónur trúarinnar. Öllu heldur hefur viðleitnin snúist um að sá fræjum efa um kenningar og stofnanir hennar meðal átrúendanna með því að höfða til órannsakaðra fordóma sem bahá’íar kynnu að hafa tileinkað sér með ómeðvituðum hætti úr þjóðfélaginu. Þvert ofan í skýrar túlkanir ‘Abdu’l‑Bahá og Verndarans hefur til dæmis ákvæði Bahá’u’lláh um að seta á Allsherjarhúsi réttvísinnar skuli einskorðuð vð karlmenn verið rangtúlkuð og sögð vera eingöngu „tímabundin ráðstöfun“ sem væri háð endurskoðun ef beitt yrði nægilegum þrýstingi. Á sama hátt hefur útskýringu Shoghi Effendi á sýn Bahá’u’lláh um bahá’í heimssamveldi framtíðarinnar, sem sameina mun andlegt og borgaralegt yfirvald, verið varpað fyrir róða í skiptum fyrir þá fullyrðingu að hugmynd stjórnmála okkar tíma um „aðskilnað ríkis og kirkju“ sé á einhvern hátt það sem Bahá’u’lláh hafi gert að grundvallar reglu í heimsskipulaginu sem Hann er höfundurinn að. Sérstaklega lúmsk er sú tilraun að leggja til að Mashriqu’l-Adhkár eigi að þróast út í að verða hálfgildings setur kennisetningavalds sem stæði samhliða og í innsta eðli sínu óháð svæðishúsi réttvísinnar, sem mundi gera hinum ýmsu hagsmunaaðilum kleift að koma sér fyrir við stjórnartauma lífsframvindu málstaðarins.
Það er dæmigert, að þegar rangtúlkunum af því tagi sem lýst var hér á undan er boðið byrginn, eru viðbrögð þeirra sem standa að baki herferðinni þau að halda því fram að borgaralegum réttindum þeirra hafi verið ógnað. Sú fullyrðing er að sjálfsögðu merkingarlaus í ljósi þess að aðild að bahá’í trúnni er í eðli sínu algerlega frjáls. Einnig leggja þeir mikla áherslu á akademískt frelsi. Þegar það er skoðað nánar kemur í ljós að með því sjónarmiði er einungis átt við frelsi þeim til handa til að rangfæra fræðilega umræðu í því markmiði að vinna að framgangi þeirra eigin hugmyndafræðilegu fyrirætlunar. Samtímis er leitast við að útiloka úr umræðunni þætti bahá’í trúarinnar sem liggja til grundvallar ritningum stofnenda hennar.
Áhrif langvarandi kynna við slíka óhreinskilni varðandi málefni sem eru lífsnauðsynleg fyrir velferð mannkynsins eru andlega tærandi. Þegar við komumst í kynni við hugi sem eru lokaðir og hjörtu sem eru myrkvuð af augljósum illvilja hvetur Bahá’u’lláh okkur til þess að yfirgefa slíka einstaklinga og fela þá Guði í hendur og beina athygli okkar að þeim tækifærum sem margfaldast dag frá degi til þess koma á framfæri þeim sannindum sem Hann kennir. Samkvæmt orðum, rituðum að beiðni Verndarans, varðandi aðstæður svipuðum þessum en þó langtum léttvægari sagði hann: „Vinunum skyldi beinlínis ráðlagt að yfirgefa þetta fólk þar eð áhrif þess geta ekki verið nein önnur en neikvæð og eyðileggjandi.“
Meðfylgjandi efni er sent til ykkar fremur með tilliti til langtímasjónarmiða sem það veitir innsýn í fremur en út af áhyggjum vegna stöðunnar í dag sem verið er að meðhöndla á kerfisbundinn hátt. Það sem við erum að verða vitni að í dag er upphaf nýrrar tegundar innri andstöðu við ætlunarverk Bahá’u’lláh á tiltölulega frumstæðu formi. Þar sem hún mun vafalaust taka á sig aðra mynd er fram líða stundir þá er þessari tegund andstöðu beint í átt að staðhæfingu Bahá’u’lláh um andlegt eðli raunveruleikans og að mannkynið sé háð milligöngu guðlegrar opinberunar.
Þróun af þeirri gerð, sem lýst er hér, mun ekki koma þeim vinum á óvart sem kunnugir eru lýsingu Verndarans á samfelldum bylgjum „kreppu“ og „sigurs“, sem hefur einkennt sögu trúarinnar allt frá upphafi hennar. Það er nákvæmlega þetta síendurtekna ferli, segir Shoghi Effendi, sem hefur knúið áfram stöðuga birtingu á ætlunarverki Bahá’u’lláh, verið prófraun á helgun okkar við kenningar Hans, hreinsað samfélag Hans og leyst úr læðingi í æ ríkari mæli þá hæfileika sem fólgnir eru í opinberun Hans. Það að andstaða við Bahá’u’lláh skuli nú vera að koma upp í enn einu gervinu er í sjálfu sér vottur um aukinn styrk málstaðarins sem færir vinunum alls staðar ný tækifæri til dýpkunar á trú þeirra og er aflvaki fyrir starf þeirra.
Með ástkærum bahá’í kveðjum,
Ritaradeildin