Riḍván 154 – Til bahá’ía um allan heim
Efnisgrein 1
Efnisgrein 2
Efnisgrein 3
Efnisgrein 4
Efnisgrein 5
Efnisgrein 6
Efnisgrein 7
Efnisgrein 8
Afritaðu eða deildu hlekk
Afritaðu eða deildu texta með tilvísun
/t/
/t/
Við fögnum með þakklátu hjarta miklum og jákvæðum viðbrögðum á öllum meginlöndum við fjögurra ára áætluninni, sem hleypt var af stokkunum á síðasta Riḍván.
Samráð álfuráðgjafa og andlegra þjóðarráða var upphafið á viðamiklu skipulagsferli, sem bæði aðstoðarráðgjafar og svæðisráð tóku þátt í. Í þessu ferli mótuðust séreinkenni áætlana fyrir einstakar þjóðir og landssvæði. En þessi hnattræna aðgerð gerði annað og meira en að fæða af sér áform, sem eru auðkennandi fyrir hin ýmsu lönd; hún varð líka til þess að efla samstarf og tengsl beggja arma stjórnskipulagsins, jákvæðasti forboði þess sem koma skal.
Tákn um skjót áhrif þessarar áætlunar var hve hratt var hafist handa um að stofna næstum tvö hundruð þjálfunarstofnanir á síðustu tólf mánuðum. Margar hafa löngu lokið skipulagsstarfi, eru í raun byrjaðar að starfa og hafa haldið fyrstu námskeiðin. Áhrifin má einnig greina í hreyfingu brautryðjenda heima fyrir og á alþjóðavettvangi; í auknum framlögum til staðgengilssjóðsins; í undirbúningi til að tryggja að svæðisráð verði aðeins stofnuð á fyrsta degi Riḍván; í auknum áhuga á að halda reglulegar helgistundir; í meiri viðleitni til að nýta listir í kennslu- og samfélagsstarfi. Allir þessir málaflokkar bera því vitni að vinirnir gera sér fulla grein fyrir mikilvægi þess að beina allri athyglinni að kröfum meginmarkmiðs áætlunarinnar, sem er að efla hópinngönguferlið til muna.
Við getum heldur ekki látið hjá líða að nefna þá þróun síðasta árs sem staðfestir mikla verðleika þeirrar margvíslegu viðleitni sem heimssamfélag okkur hefur sýnt og þess árangurs sem náðst hefur. Meðal þeirra eru, svo nokkur séu nefnd, kaup á íbúðinni að 4 Avenue de Camoens í París, þar sem Meistarinn ástkæri ‘Abdu’l‑Bahá, bjó í sögulegri heimsókn sinni til borgarinnar; sérstakur fundur 14. ágúst síðastliðinn í alríkisdeild fulltrúaþings Brasilíu til að minnast þess að 75 ár voru liðin frá því að bahá’í trúin var fyrst kynnt þar í landi – einstæð opinber athöfn þar sem Amatu’l‑Bahá Rúḥíyyih Khánum var heiðursgestur. Auk þess má nefna nýtt vefsetur Alþjóðlega bahá’í samfélagsins á Veraldarvefnum sem ber heitið „Bahá’í heimurinn“ og sem sett var upp í júlí á síðasta ári og hefur til þessa dags fengið meira en 50.000 heimsóknir frá rúmlega 90 löndum og landssvæðum, að meðaltali um 200 heimsóknir á dag.
Byggingarframkvæmdirnar á Karmelfjalli standa ekki að baki þessum afrekum. Þeim hefur verið haldið áfram af fullum þunga og hápunktur þeirra eru lok framkvæmda við marmarasúlnagöngin við Miðstöð textarannsókna, enn fremur eru framkvæmdir hafnar við sjöundu hæð Alþjóðlegu kennslumiðstöðvarinnar og framkvæmdum er haldið áfram við stallana við grafhýsi Bábsins. Í þessu sambandi getum við ekki látið hjá líða að nefna lækkun að hluta til á vegarkaflanum sem stallarnir eiga að ná yfir. Auk þess kaup og niðurrif byggingar við rætur fjallsins sem var síðasti þrándur í götu þess að hægt væri að ljúka framkvæmdum við lægri stallana, sem hin dýrlega gönguslóð á að liggja yfir til hinnar helgu byggingar og þaðan áfram upp til kambsins á fjalli Guðs.
Nátengd þeirri framþróun sem lýst hefur verið eru stöðug framlög til Bogasjóðsins, sem uppfylltu markmið síðasta árs. Ljóst er að fjárþörf hefur að þessu leyti verið mætt með þeim stöðuga hetjuskap sem bæði ríkir og fátækir hafa sýnt og henni verður einnig að mæta á þeim árum sem eftir eru. En samtímis verða ráðin og vinirnir um allan heim að sýna hliðstæða viðleitni, jafn stöðuga og kappsfulla, til að mæta brýnum þörfum Alþjóðasjóðs bahá’ía.
Svo heillavænleg byrjun á fjögurra ára áætluninni getur ekki annað en fært hjörtum allra sem tilheyra hnattrænu samfélagi okkar þá vissu að þeir séu fullfærir um að uppfylla þarfir skilaboðanna, sem mörkuðu upphaf áætlunarinnar, og eru útskýrðar í áætlunum viðkomandi ráða. Önnur og sérstaklega velkomin uppörvun, þegar við hefjum þetta annað ár, eru þær kringumstæður sem hafa gert kleift að endurstofna Andlega þjóðarráðið í Rúanda nú á Riḍván. Með þessum sigri fjölgar þeim andlegu þjóðarráðum í 175, sem geta tekið þátt í áttunda heimsþingi bahá’ía, sem verður haldið á næsta Riḍván í bahá’í heimsmiðstöðinni. Hversu heitt óskum við þess ekki að á þeim tíma, við miðbik áætlunarinnar, muni bahá’í heimurinn hafa tekið stórt skref fram á við hvað varðar eflingu mannauðs, þroskun andlegu ráðanna og þróun svæðissamfélaganna!
Tækifærin sem gefast á þeim skamma tíma sem er til loka þessarar aldar eru ólýsanlega dýrmæt. Aðeins sameinaðar og þrotlausar tilraunir vinanna alls staðar til að efla hópinngönguferlið sæma þeirri sögulegu stund. Mikil og óumflýjanleg ábyrgð hvílir þungt á hverri stofnun, sérhverjum meðlim samfélagsins sem sækir fram á við til þess hlutskiptis sem Guð hefur heitið. Þar sem aðeins gefst lítill tími til að vinna mikil afrek, megum við engan tíma missa og engu tækifæri glata. Verið þess fullviss, kæru vinir, að herskarar Abhá-ríkisins eru reiðubúnir að skunda til hjálpar hverjum þeim sem vill rísa upp og bjóða fram þjónustu sína við framvindu þeirra áhrifamiklu andlegu atburða sem eru að gerast á þessum einstæðu dögum.