Allsherjarhús réttvísinnar
Riḍván 153
Til bahá’ía um allan heim
Ástkæru vinir
Með hjörtun yfirfull af þakklæti til Hinnar blessuðu fegurðar tilkynnum við ríkulega vitnisburði um náð Hans í þriggja ára áætluninni sem tekur nú enda á þessari Riḍvánhátíð. Hinn upplífgandi andi ársins helga, sem léði kraftinn að upphafi áætlunarinnar á Riḍván 1993, lék um þetta tímabil sameinaðs átaks og gerði heimssamfélag okkar styrkara, óbugandi, þroskaðra og gæddi það meiri fullvissu en áður. Á sama tíma reis orðstír samfélagsins til nýrra hæða. Þó að þessi áætlun hafi ekki endað með áhrifamikilli tölulegri aukningu átrúenda, þótt töluverður fjöldi hafi bæst við í ýmsum löndum, hefur árangurinn samt sem áður orðið sá að gæði samfélagsins hafa aukist að mun – þannig að það er tilbúið að nýta sérhvern möguleika til framgangs trúnni.
Hinn stórkostlegi árangur framkvæmdanna á Karmelfjalli skarar fram úr mælanlegum afrekum þessa tímabils. Þrátt fyrir ótölulega erfiðleika hafa markmiðin sem sett voru í upphafi þriggja ára áætlunarinnar náðst fullkomlega. Öll stig uppbyggingarinnar eru hafin. Bygging Miðstöðvar textarannsókna og viðbygging Alþjóðlega minjasafnsins eru komnar á það stig, að komið er að því að ljúka frágangi að utan og innan. Bygging endanlegs aðseturs Alþjóðlegu kennslumiðstöðvarinnar, sem er þriðja byggingin sem verið er að byggja á Boganum, gengur hratt fyrir sig. Lokið er gerð sjö stalla fyrir neðan grafhýsi Bábsins og þeir bera glöggt vitni þeim glæsileika sem blasa mun við frá fjöru til fjalls á heilögu fjalli Guðs. Almenningur sem fylgist vel með er fullur aðdáunar á listaverkinu sem breiðist yfir fjallshlíðarnar.
Efnislegur veruleiki þess sem á svo frábæran hátt hefur tekist að gera, ber vitni um enn þá stærra afrek, nefnilega sameinaðs ásetnings í hnattvíðu samfélagi okkar við að ná þessu risastóra, sameiginlega markmiði. Hinn mikli áhugi og stuðningur sem hefur sýnt sig í fordæmislausum, látlausum framlögum endurspegla stig fórnar sem ber vitni um trú og hjartans gjafmildi ástvina Bahá’u’lláh um gervalla jörðina. Sú staðreynd að framlögin til framkvæmdanna á Karmelfjalli skyldu ná markmiðum þriggja ára áætlunarinnar um 74 milljónir dollara, er enn eitt merki um mælanlegt og framúrskarandi afrek sem vekur fullvissu um, að sá fjárhagslegi stuðningur sem þarf til að framkvæmdirnar geti haldið áfram, muni vera til staðar þar til þeim lýkur í lok aldarinnar.
Merki um framfarir síðustu þriggja ára eru greinileg á mörgum og mismunandi sviðum. Frábært átak til útbreiðslu og treystingar samfélagsins, aukin djörfung í félagslegum og efnahagslegum verkefnum og ný áhersla á sviði ytri samskipta, sýnir sameiginlega samfélag sem gætt er nýrri hæfni.
Almenn aukning varð á sviði kennslu eins og tilurð 12 nýrra andlegra þjóðarráða, sem stofnuð voru í þriggja ára áætluninni, gefur til kynna. Flæði brautryðjenda og ferðakennara styður þetta einnig. Átrúendur í mörgum löndum risu upp við hið nýja ákall áætlunarinnar til brautruðnings. Fjöldi brautryðjenda til og frá ýmsum löndum var mikill og verulegur fjöldi ferðakennara unnu bæði heima og að heiman. Kerfisbundið átak til samstarfsverkefna í kennslu og vel skipulögð langtímaverkefni báru góðan árangur og voru sýnilegri en nokkurn tíma áður í mörgum löndum.
Þróttinn og sköpunargleðina sem sjá mátti í hinum ýmsu verkefnum útbreiðslu og treystingar, má að miklu leyti þakka framtaki Alþjóðlegu kennslumiðstöðvarinnar, stöðugri leiðbeiningu hennar og hvatningu álfuráðanna; tillögum hennar um nýjar aðferðir við nýtingu brautryðjenda sem Allsherjarhús réttvísinnar studdi í ákalli til brautruðnings sem sent var út á fyrstu mánuðum áætlunarinnar, og reglulegan stuðning hennar við álfunefndir fyrir brautruðning sem voru undir hennar verndarvæng; óþreytandi árvekni hennar varðandi þarfir samfélagsins fyrir fræðslu eins og kemur fram í samskiptum við álfuráðgjafana, þegar fella þurfti dýpkunarefni fyrir nýja átrúendur inn í kennsluverkefnin, gerð námskeiða og hópverkefna til að þjálfa fólk til ýmissa verkefna, þjálfun barnakennara og aukningu í barnakennslu; örvun hennar í þá átt að koma á fót þjálfunarstofnunum í ýmsum heimshlutum – allt hefur þetta stuðlað að frábærum árangri. Kennslumiðstöðin á líka miklar þakkir skildar fyrir þau áhrif sem hún hafði, í gegnum álfuráðgjafana, á gerð grundvallar bókmenntastefnu í æ fleiri löndum. Með þeirri stefnu voru nokkrar bækur, sem nauðsynlegar voru við kynningu trúarinnar og til dýpkunar átrúenda, valdar og þær prentaðar í stóru upplagi og hafðar til reiðu á niðursettu verði. Hinn framúrskarandi árangur í þróun þessarar mikilvægu stofnunar, sem starfar við heimsmiðstöðina, var afar áþreifanlegur við undirbúning og framkvæmd á ráðstefnu ráðgjafanna, í desember síðastliðnum, sem markaði stefnuna í vinnu þessara háttsettu embættismanna trúarinnar á þeim árum sem fram undan eru.
Greina mátti svipaða uppsveiflu víða, þar sem innfæddir átrúendur tóku aukna ábyrgð á kennslu og treystingarstarfi í löndum sínum. Á svæðum þar sem aðstæður eru mjög erfiðar, svo sem í Angóla, Kambódíu, Líberíu og Sierra Leone, unnu vinirnir mikilvæga sigra, hvort sem um var að ræða kennslu sem leiddi til meiri háttar tölulegrar aukningar í yfirlýsingum, að stofna eða endurmynda bahá’í ráð, eða við að setja þróunarverkefni í gang og viðhalda þeim. Á stöðum þar sem þjóðarráð hafa nýlega verið stofnuð, svo sem í austantjaldslöndunum, sem svo voru kölluð, hafa átrúendur sýnd aðdáunarverða hæfni við stjórnun málefna trúarinnar. Hápunktur þessa tímabils var geysileg uppsveifla í starfskrafti, hugrekki og sköpunargleði í samfélögum bahá’í eylandanna í heiminum. Starfsemin var mjög víðtæk og fól í sér þjálfun innfæddra kennara, þjálfun og dreifingu fjölda ferðakennara til nágrannaeyja, opnun barnaskóla, ótalmargar kynningar á trúnni, framkvæmd og ábyrgð á viðburðum sem háttsettir embættismenn og áhrifamenn sóttu. Sú staðreynd að fjölmargir stjórnarleiðtogar eylanda hafa heimsótt bahá’í heimsmiðstöðina á undanförnum árum, gefur til kynna mikilvægi starfs átrúenda í þessum litlu eylöndum sem eru dreifð um heimshöfin sjö. Þegar á allt er litið, sýna fyrrnefnd dæmi um viðhorf og viðleitni vinanna, við mismunandi aðstæður, aukna ábyrgðartilfinningu fyrir kennslustarfinu og vaxandi þroska og sveigjanleika sem endurspeglar dýpt þeirrar trúar sem knýr bahá’ía, frá hinum ýmsu þjóðum, áfram.
Það er athyglivert að framlag ungmenna til útbreiðslu og treystingar er í fullu samræmi við aðra starfsemi. Framtak þeirra tók á sig nýja mynd á þessu þriggja ára tímabili. Ungmennaráðstefnur og önnur starfsemi sem hæfði áhugasviði þeirra, knúði ungmenni um allan heim til að verja ómældum tíma, orku og áhuga í kennslustörf sem ferðakennarar bæði innan og utan landa sinna og sem hópur í sameiginlegum kennsluherferðum. Með þessu áttu þau sinn þátt í hundruðum yfirlýsinga og myndun nýrra andlegra svæðisráða; þátttaka ungmenna í tónlist og öðrum listaviðburðum sem notaðir voru til að kynna og kenna málstaðinn, hófu aðgerðir þeirra á loft á mörgum stöðum; sýning á dansi og leiklist vakti sérstaka athygli; þátttaka ungmenna í ytri samskiptum opnaði nýja möguleika fyrir trúna á þessu sviði; fleiri ungmenni helguðu sig ári þjónustu en áður; á sama tíma fjölgaði þeim ungmennum sem fengu skipulagða þjálfun og öðluðust réttindi eftir háskólanám eða verknám – sem sýnir að meðan ungmenni þjóna trúnni í bókstaflegri merkingu, leggja þau sitt af mörkum til almennrar þróunar samfélagsins.
Það mátti einnig sjá merki um aukna treystingu samfélagsins í aukinni þátttöku vinanna í félagslegum og efnahagslegum verkefnum. Þetta á sérstaklega við á sviði menntunar. Í einu tilfelli, sem stendur upp úr, bað ríkisstjórnin bahá’íana að bera ábyrgð á að reka sjö almenna skóla. Bahá’íarnir gerðu þetta með aðstoð Skrifstofu félags- og efnahagsþróunar við heimsmiðstöðina. Það er eftirtektarvert að bahá’í samfélög sem voru í útlegð í Afríku, vegna stjórnmálaástands í heimalandi þeirra, héldu áfram að vinna að landbúnaði og öðrum verkefnum og tókst, á þann hátt, að stuðla að sjálfbærri lífsafkomu. Tilraunir til að bæta stöðu kvenna margfölduðust í mörgum löndum þar sem bahá’í stofnanir settu á fót nefndir og komu upp skrifstofum sem höfðu það hlutverk að vinna að hagsmunum kvenna. Þar að auki tóku þessir aðilar þátt í verkefnum sem önnur samtök báru ábyrgð á. Skrifstofa þróunaraðstoðar kvenna hjá Alþjóðlega bahá’í samfélaginu er orðin tákn fyrir framsókn þessara mála.
Stjórnvöld ýmissa landa settu í gang verkefni sem stuðla að bættu heilsufari og var greinileg aukning á þátttöku bahá’ía í þeim; í öðrum tilfellum áttu bahá’íar frumkvæði að slíkum verkefnum og sáu um framkvæmd þeirra. Vinna á sviði félags- og efnahagsþróunar einkenndist líka af öruggum ráðstöfunum og treystingu margra stórra áætlana og stofnana. Skrifstofa félags- og efnahagsþróunar hóf þrjú tilraunaverkefni gegn ólæsi. Þetta var fyrsta skref í herferð sem skrifstofan ætlast til að nái til alls heimsins. Frumkvæði bahá’ía og þátttaka í þróunarverkefnum bar góðan árangur til kynningar á trúnni, þar sem starfið laðaði almenning til samstarfs og vakti áhuga fjölmiðla.
Svo mikil framför átti sér stað í ytri samskiptum að aldrei fyrr hefur málstaðurinn hlotið jafn mikla kynningu á því sviði. Undravert átak um allan heim efldi hróður trúarinnar meira en nokkru sinni fyrr og varð til þess að stórauka orðstír Alþjóðlega bahá’í samfélagsins. Hinn breiði vettvangur framþróunarinnar var augljós þegar horft er til þess hve auðveldlega bahá’í samfélögin, bæði stór og smá, stóðu fyrir, eða tóku þátt í, opinberum athöfnum; og því hvernig bahá’íar hlutu viðurkenningu stjórnarfarslegra stofnana, óháðra samtaka og margra framámanna, sem virkt afl í samfélaginu; í auðveldari aðgangi að fjölmiðlum. Raunar fór sú umfjöllun sem bahá’í starfsemin hlaut hjá fréttablöðum, útvarpi og sjónvarpi, fram úr öllum væntingum.
Í þeim stormi viðburða sem áttu sér stað um allan heim, stóðu nokkrir einstakir atburðir upp úr; sá fjöldi tilfella sem háttsettir embættismenn buðu bahá’íum að taka þátt í, eða aðstoða við, samkomur eða verkefni; innleiðing bahá’í fræða og námskeiða í menntaskólum og háskólum og notkun námskrárefnis fyrir almenna skóla; notkun bahá’í stofnana, hópa og einstaklinga á listum við kynningu trúarinnar.
Á árinu 1995 héldu Sameinuðu þjóðirnar tvær ráðstefnur sem sýndu vel í hve miklum mæli eining í hugsun varðandi málefni heimsins er orðin. Þessar ráðstefnur nutu athygli og virkrar þátttöku bahá’í samfélagsins. Hin fyrri var heimsráðstefna um félagslega þróun sem haldin var í Kaupmannahöfn í mars. Þar tóku 250 átrúendur frá 40 löndum þátt og tóku að sér að kynna þátttakendum ráðstefnunnar og fulltrúum óháðra félagasamtaka, sem voru staddir á hliðarráðstefnu, kenningar trúarinnar. Það var við þetta tækifæri sem samantektinni „Hagsæld mannkyns“, sem Upplýsingaskrifstofa Alþjóðlega bahá’í samfélagsins gaf út, var dreift og hún rædd. Til að fylgja þessu eftir voru haldnar smærri ráðstefnur og umræðufundir um allan heim jafnframt því sem samantektin var afhent viðeigandi aðilum. Hin seinni var fjórða alheimsráðstefna um málefni kvenna og hliðarráðstefna óháðra félagasamtaka sem haldnar voru í Peking í september. Meira en 500 bahá’íar alls staðar að úr heiminum tóku þátt í þeim, auk þeirra sem voru útnefndir fulltrúar Alþjóðlega bahá’í samfélagsins. Þetta sama ár var haldið upp á fimmtíu ára afmæli Sameinuðu þjóðanna, sem varð tilefni þess að skrifstofa Alþjóðlega bahá’í samfélagsins hjá S.Þ., gaf út og dreifði samantektinni „Þjóðir á tímamótum“, en þar er fjallað um tillögur að þróun þeirra heimssamtaka.
Það sem einnig vakti sérstaka athygli í málefnum ytri samskipta var að í tvö skipti heiðraði Amatu’l‑Bahá Rúḥíyyih Khánum þau með þátttöku sinni. Síðastliðið vor var hún í forystu fjögurra manna fulltrúanefndar bahá’ía, á ráðstefnu um samvinnu trúarbragða og náttúruverndarsamtaka, sem haldin var í Windsor kastala, og sem hans konunglega hátign, Filip prins, er verndari fyrir. Í október var Rúḥíyyih Khánum aðalræðumaður á fjórða alþjóðlega fundinum um Aðdraganda alheimssamfélags, sem haldin var að undirlagi Mennta-, vísinda- og menningarstofnunar S.Þ. (UNESCO), og skipulagt af Bahá’í rannsóknarstöðu fyrir heimsfriði (Bahá’í Chair for World Peace) og sögudeild Háskólans í Maryland.
Við megum ekki láta hjá líða að minnast á annan merkisatburð tímabilsins sem við erum að skoða. Það er útgáfa Kitáb-i-Aqdas á upprunalegri arabísku sem var, í fyrsta skipti, gefin út með viðbótar skýringum á persnesku, eins og gert er í ensku útgáfunni. Lögin um Rétt Guðs náðu að festa dýpri rætur í hjörtum átrúenda um allan heim. Á lokaári áætlunarinnar settist trúnaðarmaður Réttar Guðs, hönd málstaðar Guðs, ‘Alí-Muḥammad Varqá, að í Landinu helga. Þessi mikilvægi atburður þýðir líka, að allar þrjár hendur málstaðar Guðs – Amatu’l‑Bahá Rúḥíyyih Khánum, hr. ‘Alí-Akbar Furútan og dr. Varqá – búa nú við heimsmiðstöðina og færa pílagrímum, gestum og starfsfólki sem þar þjónar, uppljómun.
Með þessa ánægjulegu þróun að baki hefjum við á þessari Riḍvánhátíð, fjögurra ára áætlun sem mun ljúka á Riḍván árið 2000. Af einlægni og ástúð áköllum við bræður okkar og systur í sérhverju landi, að taka höndum saman með okkur í kröftugri hreyfingu sem mun færa kynslóðum tuttugustu og fyrstu aldar mikla og varanlega arfleifð.
Fjögurra ára áætlunin stefnir að einu meginmarkmiði: umtalsverðri eflingu hópinngönguferlisins. Eins og við höfum áður sagt, þá mun þetta nást með framför í starfsemi og þroska átrúandans, stofnananna og svæðissamfélagsins.
Í orðunum „efling hópinngönguferlisins“ er fólgin sú heildarhugmynd að núverandi aðstæður gera kröfu um og tækifærin gera mögulegan stöðugan og mikinn vöxt bahá’í heimssamfélagsins; að þessi uppsveifla sé nauðsynleg í ljósi heimsástandsins; að hinir þrír þátttakendur í uppbyggingu heimsskipulags Bahá’u’lláh – einstaklingurinn, stofnanirnar og samfélagið – geti stuðlað að slíkum vexti, í fyrsta lagi með því að viðurkenna andlega og huglægt, möguleikann á því. Og í öðru lagi að vinna að því að taka á móti fjölda nýrra átrúenda, koma á fót þeim tækjum sem muni stuðla að þjálfun og þróun andlegs og stjórnarfarslegs lífs þeirra. Þar með margfalda fjölda ákafra kennara og stjórnenda sem búa að góðri þekkingu og munu með þátttöku sinni í starfi málstaðarins tryggja stöðugt streymi nýrra fylgjenda, óhindraða þróun bahá’í ráða og stöðuga treystingu samfélagsins.
Efling ferlisins gefur einnig til kynna að þetta ferli sé þegar hafið og að svæðis- og þjóðarsamfélög séu á mismunandi stigum í því. Öll samfélög fá nú það verkefni að taka þau skref og viðhalda því starfi sem mun tryggja þá útbreiðslu og treystingu, sem er í réttu hlutfalli við möguleika þeirra. Þótt starfssviðin séu ólík, þá eru einstaklingurinn og stofnanirnar kallaðar til að rísa upp og mæta þörfum þessa þýðingarmikla tíma í lífi samfélags okkar og örlagasögu mannkynsins.
Hlutverk einstaklingsins hefur einstakt vægi í starfsemi málstaðarins. Það er trúrækni einstaklingsins sem veldur árangri kennslustarfsins og þróun samfélagsins. Boð Bahá’u’lláh um skyldu hvers átrúanda til að kenna trú Hans, leggur á hann óumflýjanlega skyldu sem ekki er hægt að yfirfæra á eða framkvæma af stofnunum málstaðarins. Það er aðeins einstaklingurinn sem getur þjálfað þá hæfni sem felst meðal annars í getu til að taka frumkvæði, grípa tækifæri, mynda vinskap og vera í gagnkvæmum samskiptum við aðra. Stofna til tengsla og ávinna samvinnu annarra til þjónustu við trúna og þjóðfélagið og setja í framkvæmd þær ákvarðanir sem teknar eru af samráðsstofnunum. Það er skylda einstaklingsins að „íhuga kostgæfilega allar þær leiðir sem honum standa opnar í persónulegri viðleitni sinni til að vekja athygli, viðhalda áhuga og dýpka trú þeirra, sem hann reynir að leiða inn í trúna“.
Til að fullnýta þessa hæfni þá sækir einstaklingurinn styrk sinn í ást til Bahá’u’lláh, mátt sáttmálans og bænarinnar, innblástur og uppfræðslu sem fengin er úr hinum helgu ritum og hinum umbreytandi öflum sem hafa áhrif á sál hans er hann vinnur ötullega að því, að færa hegðun sína í samræmi við hin guðlegu lög og reglur. Þar sem einstaklingnum hefur verið gefin sú skylda að kenna málstaðinn hefur honum einnig verið gefin sú geta til að draga að sér sérstakar blessanir sem Bahá’u’lláh hefur lofað. „Sá sem á þessum degi lýkur upp munni sínum,“ staðhæfir Hin blessaða fegurð, „og nefnir nafn Drottins síns – herskarar guðlegs innblásturs munu stíga niður yfir hann frá himni nafns Míns, hins alvitra og alvísa. Yfir hann munu einnig stíga herskarar himinsins, sérhver berandi kaleik með skæru ljósi.“
Shoghi Effendi lagði áherslu á algjöra nauðsyn frumkvæðis og starfs einstaklingsins. Hann útskýrði það svo að án „heilshugar, mikils og stöðugs“ stuðnings einstaklingsins er sérhvert starf og áætlun þjóðarráðsins dæmt til að mistakast, „hindrun“ er sett í veg fyrir markmið guðlegrar áætlunar Meistarans, jafnframt mun lífgefandi afli sjálfs Bahá’u’lláh „verða haldið frá sérhverjum einstaklingi sem mun til lengri tíma litið, bregðast því að rísa upp og takast á við hlutverk sitt“. Þar af leiðandi er einstaklingurinn höfuðatriði í sérhverri framþróun. Í honum er fólgið aflið til framkvæmda og einungis hann getur leyst það úr læðingi, með eigin frumkvæði og stöðugri framkvæmd. Varðandi vanmáttarkenndina sem stundum dregur úr einstaklingsfrumkvæði þá koma þessi ráð Verndarans fram í bréfi sem ritað var af hans hálfu: „Fremst meðal þessa nefnir þú skort á hugrekki og frumkvæði hjá átrúendunum, einnig minnimáttarkennd sem hindrar þá í að mæla frammi fyrir fjöldanum. Það eru einmitt þessir veikleikar sem hann vill að vinirnir yfirvinni, því það er ekki einungis að þeir lami starf þeirra heldur þjóna þeir því marki að slökkva trúarlogann í hjörtum þeirra. Vinirnir geta ekki vonast til að ná þeim markmiðum sem þeim hafa verið sett af kærleiksríkum og vitrum Meistara, fyrr en þeir allir átta sig á því að sérhver þeirra hefur getu til að koma boðskapnum á framfæri, hver með sínum hætti. Sérhver hefur getuna til að vera kennari. Hann þarf einungis að nota það sem Guð hefur gefið honum og sanna þar með að hann er trúr því sem honum er treyst fyrir.“
Hvað viðkemur stofnununum, þá mun innganga í hópum hafa áhrif á þær rétt eins og þær hafa áhrif á hana. Þróun svæðis- og þjóðarráða á þessum tímum kallar á nýtt hugarfar meðlima þeirra sem og þeirra sem kjósa þá, því að bahá’í samfélagið er þátttakandi í umfangsmiklu sögulegu ferli sem er að komast á tvísýnt stig. Bahá’u’lláh hefur fært heiminum stofnanir, sem starfa innan skipulags sem hannað er til að stýra öflum nýrrar siðmenningar. Framför í átt að þessu stórkostlega markmiði krefst mikils og stöðugs vaxtar bahá’í samfélagsins, til að búa í haginn fyrir þroska þessara stofnana. Þetta mikilvæga málefni kallar á tafarlaus viðbrögð yfirlýstra stuðningsmanna Bahá’u’lláh í öllum löndum.
Til að gera ráð fyrir og örva slíkan vöxt þurfa andlegu ráðin að hefjast upp á nýtt stig í framkvæmd skyldna sinna sem farvegir guðlegrar leiðsagnar, skipuleggjendur kennslustarfsins, ræktendur mannauðsins, uppbyggjendur samfélaga og kærleiksríkir fjárhirðar mannfjöldans. Þau geta öðlast þetta með því að auka getu meðlima sinna til að samráðgast í samræmi við meginreglur trúarinnar og að samráðgast við vinina innan síns umráðasvæðis. Með ræktun þjónustulundar, með sjálfsprottinni samvinnu við álfuráðgjafana og aðstoðarráðgjafa þeirra og með eflingu sinna ytri samskipta. Framför í þróun stofnananna verður sérstaklega að birtast í auknum fjölda svæða þar sem starfsemi andlega ráðsins eykur getu einstaklingsins til að þjóna málstaðnum og stuðlar að sameiginlegum aðgerðum. Í stuttu máli sagt, þá mælist þroski andlega ráðsins ekki einungis í reglubundnum fundum og skilvirkri starfsemi, heldur einnig í stöðugri fjölgun átrúenda, árangri í samskiptum á milli ráðsins og samfélagsins og þeirri tilfinningu að samfélagið lifi og hrærist í kröftugu ferli stöðugrar þróunar.
Auk einstaklingsins og stofnananna þá er samfélag. Það öðlast eigin sérkenni og eiginleika þegar því vex fiskur um hrygg. Þetta er nauðsynleg þróun sem þarfnast mikillar athygli, bæði hvað varðar staði þar sem fjöldaskráningar hafa átt sér stað, sem og væntingar um fjölgun slíkra staða. Samfélag er að sjálfsögðu eitthvað meira en sá fjöldi einstaklinga sem mynda það; það er alhliða eining siðmenningar sem samanstendur af einstaklingum, fjölskyldum og stofnunum sem eru upphaf og hvati til stjórnkerfa, farvegs og stofnana sem vinna samhent að velferð fólks, jafnt innan sem utan sinna mæra; það er samsett af ólíkum, gagnvirkum þátttakendum sem eru að stuðla að einingu í þrotlausri leit eftir andlegum og félaglegum framförum. Þar sem bahá’íar eru alls staðar við upphaf þessa ferlis samfélagsuppbyggingar er þörf á að helga gífurlegri vinnu þeim verkefnum sem fram undan eru.
Eins og við höfum nefnt í fyrri skilaboðum þá krefst blómgun samfélagsins, sérstaklega svæðissamfélagsins, aukinna gæða í hegðunarmynstri þess, því mynstri þar sem sameiginleg tjáning dyggða meðlimanna og starf andlega ráðsins birtist í einingu og vináttu samfélagsins og einnig í kröftugu starfi þess og vexti. Þetta kallar á samþættingu allra samfélagshluta – fullorðinna, ungmenna og barna – í andlegu, félagslegu, fræðslu- og stjórnarfarslegu starfi. Einnig í þátttöku þeirra í kennslu og þróunaráætlunum samfélagsins. Þetta gerir ráð fyrir sameiginlegum vilja og tilfinningu fyrir því að það sé tilgangur með því að viðhalda andlega ráðinu með árlegum kosningum. Hún krefst einnig sameiginlegrar tilbeiðslu á Guði. Þar af leiðandi er það nauðsynlegt fyrir andlegt líf samfélagsins, að vinirnir haldi reglulega bænafundi í svæðismiðstöðvum ef hægt er, eða annars staðar og þar með talið á heimilum átrúenda.
Til þess að möguleikinn fyrir útbreiðslu og treystingu sem hópinnganga felur í sér verði að veruleika, þarf að koma á fót alþjóðlegu átaki í þróun mannauðs. Þótt það starf sem einstaklingar sem hafa dýpkanir heima hjá sér, þau stöku námskeið sem stofnanirnar halda og óformleg starfsemi samfélagsins sé mikilvæg, er það ekki nægjanlegt til að uppfræða og þjálfa ört vaxandi samfélag. Þar af leiðandi er það mjög mikilvægt að markvisst sé unnið að því að útfæra leiðir til að uppfræða fjölda átrúenda í helstu sannindum trúarinnar. Þjálfa þá og hjálpa þeim til að þjóna málstaðnum í samræmi við þá hæfni sem Guð hefur gefið þeim. Tafarlaust ætti að koma á fót varanlegum þjálfunarstofnunum sem eiga að halda vel skipulögð, formleg þjálfunarnámskeið með reglubundnum hætti. Það er að sjálfsögðu nauðsynlegt að þessar stofnanir hafi aðgang að efnislegri aðstöðu, en eigin húsnæði kann að vera ónauðsynlegt.
Þetta málefni kallar á aukna samvinnu milli álfuráðgjafanna og andlegu þjóðarráðanna. Því að árangur þessara þjálfunarstofnana mun að stórum hluta vera háður virkri þátttöku álfuráðgjafanna og aðstoðarráðgjafanna í starfsemi þeirra. Það er sérstök nauðsyn á því að aðstoðarráðgjafarnir séu í nánum tengslum við þjálfunarstofnanir og að sjálfsögðu við þau andlegu svæðisráð sem þjóna þeim samfélögum sem munu njóta góðs af námskeiðunum. Þar sem líta ber á þessar stofnanir sem miðstöðvar lærdóms og sökum þess að eðli þeirra er í samræmi við og myndar ramma fyrir framkvæmd uppfræðsluskyldu aðstoðarráðgjafanna, þá ætti náin þátttaka í starfsemi þessara stofnana að verða nýr þáttur í starfssviði þessara erindreka trúarinnar. Að nýta hæfileika og getu vaxandi fjölda átrúenda mun skipta sköpum fyrir þróun og framkvæmd þjálfunarnámskeiða.
Þar sem hugtakið „stofnun“ hefur fengið margvíslegar merkingar í bahá’í samfélaginu, þá er nauðsynlegt að skýra þetta nánar. Næstu fjögur ár verða einstakt tímabil í sögu trúar okkar, vendipunktur sem markar tímamót. Það sem vinirnir hvarvetna um heiminn eru nú beðnir um, er að helga sjálfa sig, efnislegar eigur sínar, getu og tíma, því verkefni að þróa umfangsmikið kerfi þjálfunarstofnana, með þeim hætti sem aldrei áður hefur verið reynt. Meginmarkmið þessara bahá’í lærdómsmiðstöðva er að reisa upp fjölda átrúenda sem fá þjálfun í að stuðla að og greiða fyrir hópinngöngu á kærleiksríkan og áhrifamikinn hátt.
„Beinið kröftum yðar að því að vinna trú Guðs fylgi,“ eru fyrirmæli Bahá’u’lláh þjónum sínum til handa og bætir svo við: „Hver sem verðskuldar svo háa köllun rísi upp og starfi að eflingu hennar. Þeim sem ekki getur það ber skylda til að tilnefna þann sem kunngerir þessa opinberun í hans stað….“ Rétt eins og einhver getur stutt annan sem staðgengil með því að mæta kostnaði við brautruðning eða ferðakennslu, þá er einnig hægt að kosta kennara sem þjónar þjálfunarstofnun, en sá væri kennari kennaranna. Leiðin til þess er að leggja framlög í álfusjóðinn sem og í svæðis-, lands- eða alþjóðasjóði og þá sérmerkt þessu verkefni.
Í öllu starfi sínu við að ná markmiði fjögurra ára áætlunarinnar þá biðjum við vinina einnig um að gefa meiri gaum að notkun lista, ekki einungis til kynningar, heldur einnig í útbreiðslu og treystingarstarfinu. Myndlist, leiklist, tónlist og bókmenntir hafa og geta spilað stórt hlutverk í að auka áhrif málstaðarins. Á sviði alþýðulistar er hægt að ástunda þetta hvar sem er í heiminum hvort heldur er í þorpum, bæjum eða borgum. Shoghi Effendi batt miklar vonir við að listir yrðu tæki sem myndu draga athygli að kenningunum. Eftirfarandi álit Verndarans kom fram í bréfi til einstaklings sem var ritað fyrir hans hönd: „Sá dagur mun koma þegar andi og kenningar málstaðarins verða kunngerð á sviðinu eða í listum og í bókmenntum almennt. Þá mun hann breiðast út eins og óheftur eldur. List á auðveldara en köld rökhyggja með að vekja upp göfugar tilfinningar, sérstaklega á meðal mannfjöldans.“
Á meðan vinirnir og stofnanirnar hvarvetna beina kröftum sínum að framkvæmd áætlunarinnar, þá verður hinu mikla verkefni á Karmelfjalli haldið áfram, en þess er vænst að því muni ljúka við aldarlok. Við lok áætlunarinnar á Riḍván 2000, þá verða mannvirkin sem hýsa Miðstöð textarannsókna og viðbyggingu Minjasafnsins tilbúin til notkunar; bygging Alþjóðlegu kennslumiðstöðvarinnar verður á lokastigi. Sá hluti götunnar sem núna klýfur stallaröðina fyrir ofan grafhýsi Bábsins verður lækkaður og breið brú byggð yfir og verður hún gróðri prýdd; einnig verður lokið við fimm af efri stöllunum. Þeir stallar sem eftir verða, fjórir í efri hlutanum og tveir við rætur fjallsins verða langt komnir. Einnig verður unnið að öðrum störfum við heimsmiðstöðina. Gaumur verður gefinn að ýmsum málefnum, svo sem gildistöku fleiri laga Kitáb-i-Aqdas, undirbúningi nýrrar útgáfu á ensku af völdum ritum Bahá’u’lláh, þróun á starfssviði Alþjóðlegu kennslumiðstöðvarinnar og þróun leiða til að auka fjölda þeirra sem heimsækja heimsmiðstöðina, sem og pílagríma.
Bahá’í heimssamfélagið mun auka starf sitt í félags- og efnahagsþróun, einnig í ytri samskiptum og halda þar með áfram í beinni samvinnu við þau öfl sem leiða til skipulags í heiminum. Með því að bæta samhæfingargetu sína þá mun Skrifstofa félags- og efnahagsþróunar, eftir því sem efni og tækifæri leyfa, aðstoða við að efla þær framfarir sem orðið hafa í hundruðum þróunarverkefna víðs vegar um heiminn. Á sviði ytri samskipta þá mun starfinu verða beint að því að hafa áhrif á þau ferli sem leiða til heimsfriðar. Þá sérstaklega með þátttöku samfélagsins í að efla mannréttindi, stöðu kvenna, alþjóðlega hagsæld og eflingu siðferðis. Skrifstofa Alþjóðlega bahá’í samfélagsins við Sameinuðu þjóðirnar mun, er hún vinnur að þessu marki, leita leiða til að efla tengslin á milli bahá’íanna og Sameinuðu þjóðanna. Upplýsingaskrifstofan mun að sama skapi aðstoða bahá’í stofnanir við að útfæra þessa þætti til frekari kynningar á trúnni. Verndun réttinda bahá’ía í Íran og aukin áhersla á að trúin verði leyst úr nauðum í því landi sem og öðrum löndum þar sem hún er útskúfuð, mun verða stór þáttur í samskiptum okkar við stjórnvöld og ópólitísk samtök. Varðandi þetta svið, þá eru bahá’íarnir og stofnanirnar hvött til að vera vel meðvituð um mikilvægi þess starfs sem unnið er á sviði ytri samskipta og að veita því nýja athygli.
Myndun tveggja andlegra þjóðarráða nú á Riḍván í upphafi fjögurra ára áætlunarinnar gefur góð fyrirheit um framvindu hennar. Það er okkur fagnaðarefni að tilkynna að fulltrúar okkar á þessi fyrstu landsþing eru hönd málstaðar Guðs Amatu’l‑Bahá Rúḥíyyih Khánum í Moldóvu; og hr. Fred Schechter, ráðgjafi við Alþjóðlegu kennslumiðstöðina í Saó Tóme og Prinsípe. Vegna óviðráðanlegra aðstæðna þá verða andlegu þjóðarráðin í Búrúndí og Rúanda því miður ekki endurkjörin þetta árið. Fjöldi þessara stofnana mun því haldast í 174.
Riḍván 2000, sá tímapunktur þegar fjögurra ára áætluninni lýkur, mun verða mörgum mánuðum fyrir lok tuttugustu aldarinnar. Á þeim tímamótum mun bahá’í heimurinn horfa til baka með þakklæti yfir þá óhemju þróun og stórkostlegu sigra sem munu hafa einkennt sögu málstaðar Bahá’u’lláh á því atburðaríka tímabili – tímabili sem ‘Abdu’l‑Bahá kallaði „öld ljóssins“. Ekki síst þeirra afreka sem metin verða, mun vera lok núverandi framkvæmda á Karmelfjalli, en þær byggingar ásamt öðrum byggingum á því helga fjalli, munu standa eins og minnismerki um þá framför sem stjórnskipulagið mun hafa náð á þeim tímapunkti mótunaraldarinnar. Hápunktur slíkrar þakkargjörðar verður, ef Guð lofar, stór athöfn í heimsmiðstöðinni sem markar lok framkvæmdanna á boganum og opnun stallanna við grafhýsi Bábsins fyrir almenningi.
Kæru vinir, við hefjum þessa áætlun í miðju umróti sem fylgir tímabili umbreytinga sem verða hraðari með degi hverjum. Þau tvö ferli sem knúin eru áfram vegna áhrifa af opinberun Bahá’u’lláh eru í hraðri vinnslu og munu ná þeim skriðþunga sem mun, með orðum Shoghi Effendi, „færa til hámarks þau öfl sem eru að umbreyta ásýnd plánetu okkar“. Annað er sameiningarferli, hitt er sundrandi. Úr þeirri allsherjargerjun sem þessi ferli skapa, mun friður komast á með stigbundnum hætti og vaxandi meðvitund um heimsborgaraskap mun sýna sameinandi áhrif sín.
Sem dæmi um þetta, þá hafa nýliðnir heimsatburðir verið hvoru tveggja hörmulegir og hughreystandi, eins þversagnakennt og það kann að virðast. Annars vegar framleiðir ringulreið mannlegra málefna daglega hryllingsfæðu sem sljóvgar skynfærin, hins vegar takast heimsleiðtogarnir oft á við sameiginlegar aðgerðir sem bahá’íar skynja sem tilhneigingu er mun leiða til samþjóðlegra aðgerða til lausnar á heimsvandamálum. Hugleiðið til dæmis hve óvenjutíðir þeir heimsatburðir eru, þar sem þessir leiðtogar hafa komið saman síðan á árinu helga fyrir fjórum árum. Til dæmis sá sem haldinn var til að minnast fimmtíu ára afmælis Sameinuðu þjóðanna, en þar fullyrtu viðstaddir þjóðhöfðingjar og forsvarsmenn ríkisstjórna um skuldbindingu sína gagnvart heimsfriði. Einnig er eftirtektarverð hve sjálfsprottin og skjótvirk sameiginleg viðbrögð þessara þjóðarleiðtogar hafa verið við margvíslegu hættuástandi víðs vegar í heiminum. Samhliða þessari tilhneigingu er aukið ákall frá upplýstari aðilum, um að athugað verði hvort ákjósanlegt sé að koma á einhvers konar heimstjórn. Getum við ekki í þessari hröðu atburðarás séð hönd Guðs að verki, og enn fremur fyrirboða hins mikilvæga atburðar sem sagt er fyrir um í ritum okkar?
Þrátt fyrir að tilkoma hins minni friðar sé ekki háð bahá’í áætlun eða þátttöku og tákni ekki hið endanlega markmið sem mannkyni er ætlað að ná á gullöldinni, þá hvílir sú ábyrgð á okkar samfélagi að veita þeim ferlum sem leiða til þess friðar, andlegan drifkraft. Á þessum tíma er nauðsynlegt að stórauka svo starf okkar í að byggja upp bahá’í kerfið til þess að við drögum að okkur staðfestingar Bahá’u’lláh og mynda þannig andlegt andrúmsloft sem mun valda hröðun þessara ferla. Við stöndum frammi fyrir tveimur megin áskorunum: annars vegar að hefja kennsluherferð sem megin þorri samfélags okkar tekur þátt í, á kerfisbundinn hátt og af eldmóði, og þar sem virkt þjálfunarkerfi mun tryggja þróun mikils mannauðs, og hins vegar að ljúka framkvæmdum á Karmelfjalli, en tryggja verður með þeirri fórn sem það kann að krefjast, að ríkulegt flæði fjármagns streymi til þessa verkefnis. Ef þessum tveimur brennipunktum verður fylgt eftir af einbeitingu, mun það leysa úr læðingi innilokuð öfl sem munu þröngva fram stefnubreytingu í málefnum manna um gjörvalla plánetuna.
Hversu stutt sem leiðin til friðar verður þá mun hún verða krókótt; þótt hinn væntanlegi atburður sem mun koma honum af stað sé heillavænlegur, þá verður friðurinn að þroskast á löngum þróunartíma með öllum þeim prófraunum, áföllum og átökum sem munu fylgja þar til sú stund rennur upp þegar hann mun undir beinum áhrifum af trú Guðs birtast sem hinn mesti friður. Fram til þess tíma þá mun fólk hvarvetna verða áttavillt og örvilnað, allt þar til það áttar sig á þeim umskiptum sem eru að eiga sér stað. Við sem upplýst erum af hinni nýju opinberun höfum hið helga orð til að fullvissa okkur, guðlega áætlun til að leiðbeina okkur, og arfleifð hugrekkis til að hvetja okkur. Við skulum því ekki einungis herða upp hugann með orðinu sem er okkur svo kært, heldur einnig með því að minnast þeirra hetjudáða og fórna sem í dag skína enn skært í landinu sem málstaður okkar fæddist.
Í um sautján ár hafa hinir ofsóttu bræður okkar í Íran sýnt stöðuga trú og hugrekki sem hefur valdið heilmikilli kynningu trúarinnar, knúið hana fram úr ókunnugleika. Hér höfum við á okkar tímum lifandi vitnisburð um máttinn sem felst í kreppu og sigri. Guð gefi að það styttist í þann tíma er bræður okkar í Íran verði leystir undan þeim byrðum sem þeir bera og fái að upplifa dýrð og dásemdir sigurs sem einungis Hin blessaða fegurð getur veitt. Reynsla þeirra er dæmi og merki okkur öllum til handa, hvar svo sem við búum. Því að lokum þá mun, eins og Meistarinn sagði okkur, andstaða rísa upp í öllum heimsálfum. Þótt hún birtist með ólíkum hætti frá einum stað til annars, þá mun hún án efa verða áköf. En við munum vita hvernig við getum óttalaus mætt spjótum óvina okkar, þökk sé styrkjandi gjafmildi Bahá’u’lláh og þeirri staðfestu sem þessir göfugu vinir hafa sýnt. Minnumst þess að Drottinn herskaranna hefur lofað að færa þjóð sinni ómótstæðilegan og ótvíræðan sigur.
Þegar mannkynið byltist um og þjáist af þeirri tortímingu sem það hefur verið flækt í af siðmenningu sem lætur ekki lengur að stjórn, þá skulum við beina höfðum okkar og hjörtum að þeim guðlegu verkefnum sem okkur hafa verið falin. Því að mitt í þessu umróti þá verður urmull tækifæra sem verður að nota „til þess að flytja öllum nær og fjær þekkingu á endurleysandi afli trúar Bahá’u’lláh og til nýliðunar í stöðugt vaxandi her fylgjenda Hans“. Þessi nýja áætlun sem við erum nú helguð er sett fram á einum af hinum tvísýnustu tímum í lífi plánetunnar. Hún á að undirbúa samfélag okkar fyrir að höndla hinar hröðu breytingar sem eru að eiga sér stað í heiminum og gera samfélaginu kleift að geta bæði borið þá byrði áskorana og prófrauna sem munu fylgja og gera sýnilegra þess konar starfsmynstur sem heimurinn getur horft upp til fyrir aðstoð og fyrirmynd þegar hann stendur frammi fyrir róstursömum umskiptum. Þar af leiðandi skipar þessi áætlun sérstakan sess í annálum trúarinnar og heimssögunni. Þau okkar sem eru vakandi fyrir framtíðarsýn trúarinnar njóta sérstakra forréttinda með því að vera meðvitaðir þátttakendur í því starfi sem er ætlað að örva og að lokum efla slík ferli.
Megi sérhvert ykkar rísa upp og takast á við verkefni þessa mikilvæga tímabils. Megi hver og einn skrá mark sitt á þessum stutta tíma sem er svo þrunginn möguleikum og von fyrir allt mannkynið. Til þess að þið afvegaleiðist ekki eða verðið altekin þeim vægðarlausu uppákomum þessarar umskiptaaldar, hafið þá ávallt í huga ráð okkar óskeikula leiðbeinanda, Shoghi Effendi: „Það er ekki okkar, lítils megnandi mannvera, að gera tilraun til, á svo tvísýnu stigi á langri og misleitri sögu mannkynsins, að öðlast nákvæman og viðunandi skilning á þeim skrefum sem munu, hvert af öðru leiða blæðandi mannkyn, sem gjörsamlega hefur gleymt Guði sínum og áhugalaust um Bahá’u’lláh, frá sínu Golgata til endanlegrar upprisu sinnar…. Sama hve brenglaðar aðstæðurnar eru, hve ömurlegt útlitið er, hve takmarkaðar þær auðlindir sem við höfum, þá liggur skylda okkar í að starfa í rósemd og fullvissu. Og stöðugt leggja hönd á plóg á hvern þann hátt sem aðstæður leyfa okkur, til að styrkja þau öfl sem Bahá’u’lláh hefur sett af stað og stýrir og eru að leiða mannkynið út úr dal smánar og eymdar til hinna hæstu tinda máttar og dýrðar.“
[undirritað: Allsherjarhús réttvísinnar]