Riḍván 152 – Til bahá’ía um allan heim

og áætlunum, samhliða einstaklingsframtaki. Hins vegar er það hlutverk andlega svæðisráðsins að fagna, örva og styðja framtak einstaklinga á hvern þann hátt sem mögulegt er; það er einnig ábyrgðarsvið ráðsins að upphugsa eða þróa áætlanir sem nýta hæfileika og færni einstakra meðlima samfélagsins. Þetta mun tengja einstaklingana við samvinnuverkefni svo sem kennslu og þróunarverkefni, námskeið og aðra hópvinnu. Ef lögð er rækt við að uppfylla þessi óaðskiljanlegu skilyrði, mun samfélagið stækka og styrkjast og ala með sér hugarfar samvinnu.

Á síðasta ári varð greinileg aukning á heimsóknum háttsettra opinberra embættismanna, fyrirmanna og fjölmiðlafólks til heimsmiðstöðvarinnar sem sýnir vaxandi mikilvægi hinnar andlegu og stjórnarfarslegu miðstöðvar trúarinnar í augum umheimsins. Þetta virtist undirstrika framvindu í átt að frekari kunnugleika ríkisstjórna þjóðanna á hinni vaxandi miðstöð alheimstrúar. Ef þessi framvinda er skoðuð af fjalli Guðs, svæði núverandi byggingarframkvæmda, og hún athuguð í ljósi þeirrar þróunar sem á sér stað í svæðis- og þjóðarsamfélögum bahá’ía, kunnum við betur að meta raunverulega opinberun þeirrar sýnar sem Shoghi Effendi sagði frá þegar hann útskýrði afleiðingar þess er byggingarnar sem hýsa myndu alheimslegt stjórnarsetur trúar Bahá’u’lláh, myndu rísa. „Þetta mikla og ómótstæðilega ferli,“ sagði hann „mun haldast í hendur við tvenn jafnmikilvæg þróunarferli – stofnun hins minni friðar og þróun þjóðlegra og svæðisbundinna bahá’í stofnana.“ Þetta er sýn sem með hliðsjón af ástandi heimsins knýr á að framkvæmdum á Karmelfjalli sé lokið á réttum tíma.

Framkvæmdirnar ganga með undraverðum hraða til mikillar furðu fyrir pílagríma, ferðamenn og íbúa á svæðinu vegna umfangs þeirra og mikilleika sem alltaf kemur betur í ljós. Uppbyggingin á sér stað á öllum sviðum í einu. Vinna við sjö stalla fyrir neðan grafhýsi Bábsins og fimm stalla fyrir ofan það er í fullum gangi. Fleiri verktakasamningar voru undirritaðir á þessu ári en nokkurn tíma fyrr. Þar á meðal var nýlega gerður samningur við ítalskt fyrirtæki sem mun sjá um að útvega marmara fyrir byggingarnar á Boganum. Það er augljóst að framkvæmdirnar eru komnar á það stig að ekkert má út af bera. Þess vegna er brýnt að framlög haldist í hendur við framkvæmdahraðann svo að takmarki þriggja ára áætlunarinnar verði náð. En af sjötíu og fjögurra milljón dala markmiði áætlunarinnar, vantar nú fjörutíu milljónir sem þarf að vera búið að safna fyrir Riḍván 1996.

Nýja árið byrjar byrlega með því að nú á Riḍván verða mynduð fimm ný andleg þjóðarráð. Fulltrúar okkar á fyrstu landsþingum þessara svæða verða: Hönd málstaðar Guðs, Amatu’l‑Bahá Rúḥíyyih Khánum í Armeníu og Georgíu, Hönd málstaðar Guðs, ‘Alí-Muḥammad Varqá, í Hvíta-Rússlandi og Sikiley og Hushang Ahdieh ráðgjafi, í Eritreu. Enn fremur munu samfélögin í Bofuþatswana, Siskei, Suður-Afríku og Transkei færast undir lögsögu Andlega þjóðarráðsins í Suður-Afríku, en það endurspeglar þá pólitísku sameiningu sem þar hefur átt sér stað. Breytingin sem þetta felur í sér er sú að fjöldi þjóðarráða í heiminum fer úr 172 í 174.

Elskuðu samverkamenn: Ástand mannkyns er áskorun til okkar um að stórefla starfsemi okkar langt umfram markmið. Ský örvæntingar sem grúfir yfir örlögum vitfirrts mannkyns, er einmitt fyrirboði vorregnsins sem getur slökkt andlegan og efnislegan þorsta hverrar þjóðar. Það eina sem þarf er frjóvgun stöðugrar, trúverðugrar kennslu. Þótt stuðningur bahá’í stofnana við kennsluverkefnin sé nauðsynlegur, hvílir framkvæmd þeirra fyrst og síðast á bahá’í einstaklingum.

Látið ekki óhóflega sjálfsgagnrýni né tilfinningu um ófullkomleika, vangetu eða reynsluleysi hindra ykkur eða hræða. Vinnið bug á ótta ykkar í trausti til Bahá’u’lláh. Hefur Hann ekki fullvissað okkur um að ‚herskarar guðlegrar uppljómunar‘ muni koma til liðs hverjum þeim sem nefnir nafn Hans og að hann verði umkringdur „herskörunum á hæðum sem hver og einn muni halda á lofti kaleik sannrar birtu“? Stígið því fram á sviðið þar sem allir ástvinir Hans eru jafnir, standa frammi fyrir sama verkefni og njóta ómældrar blessunar. Bahá’u’lláh staðfestir sjálfur að kennslan sé ‚verðugust allra gerða‘. Á þessu einstaka tímabili í sögu jarðar er alls ekkert jafn ósegjanlega mikilvægt og það að bjóða alls konar fólki, með margvíslega hæfileika, að veisluborði Drottins herskaranna.

Er við sendum ykkur þessi skilaboð, stendur skýr fyrir sjónum okkar sýnin um ótalda sigra sem bíða þess að verða unnir. Við erum þess fullvissir að þið getið framkvæmt ótalmarga þeirra á þeim tíma sem eftir er af þriggja ára áætluninni. Allt kapp verður að leggja á að ná þeim árangri að sviðið sé tilbúið fyrir næsta átak, alheimslegt verkefni sem verður hleypt af stokkunum á Riḍván 1996. Þá verður sett af stað alheimsleg herferð sem mun tryggja verðugt hámark afreka þeirrar aldar sem enginn annar en ‘Abdu’l‑Bahá sjálfur leit á sem tímabil sem myndi ,,skilja eftir ummerki sem endast munu um eilífð.“

[undirritað: Allsherjarhús réttvísinnar]