Október 1985 – Til þjóða heimsins

endurnýja vonina um einingu mannkynsins er okkur ljúft að bjóða hana fram sem fyrirmynd til skoðunar.

Þegar við leiðum hugann að knýjandi mikilvægi þess verkefnis sem nú bíður alls heimsins lútum við höfði í auðmýkt og lotningu frammi fyrir tign hins guðdómlega skapara sem af takmarkalausri ást sinni gerði allt mannkyn af sama efnivið, upphóf geislandi veruleika mannsins, gæddi hann vitsmunum og visku, göfgi og ódauðleika og veitti honum „einstæða eiginleika og hæfni til að þekkja Hann og elska“, en á þessa hæfni „verður að líta sem aflvaka og frumlægan tilgang alls sköpunarverksins“.

Við höfum þá óbilandi sannfæringu að allar mannlegar verur hafi verið skapaðar „til að stuðla að síframsækinni siðmenningu“; og að „hegða sér eins og dýr merkurinnar sé manninum ekki sæmandi“; að þær dyggðir sem hæfa mannlegri reisn séu heiðarleiki, umburðarlyndi, miskunnsemi, samúð og ást til allra þjóða. Við áréttum þá trú okkar að „möguleikarnir, sem eru áskapaðir hinni mannlegu stöðu, forlög mannsins á jörðunni, meðfætt ágæti veruleika hans, hljóti allt að koma í ljós á þessum fyrirheitna degi Guðs“. Þetta eru ástæðurnar fyrir óbilandi trú okkar á því að eining og friður séu hið raunhæfa markmið sem mannkynið keppir að.

Þegar þetta er skrifað má heyra eftirvæntingarfullar raddir bahá’ía þrátt fyrir ofsóknirnar sem þeir verða enn að þola í landinu þar sem trú þeirra fæddist. Með fordæmum staðfestu og vonar bera þeir vitni þeirri trú að uppfylling þessa ævaforna draums njóti nú staðfestingar guðdómlegs valds í krafti hinna umskapandi áhrifa frá opinberun Bahá’u’lláh. Við miðlum ykkur því ekki aðeins framtíðarsýn í orðum: við kveðjum til fulltingis þann kraft sem býr í gerðum sem unnar eru á grundvelli trúar og fórnar; við flytjum áhyggjuþrungna bæn trúsystkina okkar hvarvetna um frið og einingu. Við lýsum yfir samstöðu með öllum sem eru fórnarlömb yfirgangs, öllum sem þrá að endir verði bundinn á deilur og sundurlyndi, öllum sem halda fast við meginreglur friðar og heimsskipulags og vinna þannig að þeim göfgandi áformum sem eru frumorsök þess að allt-elskandi skapari skapaði mannkynið.

Af einlægri löngun til að miðla ykkur af vonum okkar og sannfæringu skírskotum við til hins ótvíræða fyrirheits Bahá’u’lláh: „Þessar tilgangslausu deilur, þessi eyðileggjandi stríð munu líða undir lok og ‚Friðurinn mesti‘ komast á.“

[undirritað: Allsherjarhús réttvísinnar]