Október 1985 – Til þjóða heimsins

ering-paragraph">Óeining er háski, sem þjóðir og kynkvíslir jarðarinnar geta ekki lengur búið við; afleiðingarnar eru of hræðilegar til þess að hægt sé að gera sér þær í hugarlund, of augljósar til að sýna þurfi fram á þær. Fyrir meira en einni öld ritaði Bahá’u’lláh: „Velferð mannkynsins, friður þess og öryggi eru óhugsandi nema og þangað til eining þess hefur verið tryggilega grundvölluð.“ Shoghi Effendi benti á að „allt mannkynið þjáist, væntir þess í örvilnan að verða leitt til einingar og endir bundinn á aldalanga kvalagöngu þess“, og hann bætti við: „Sameining alls mannkynsins er einkenni þess þróunarstigs, sem mannkynið nálgast nú. Eining fjölskyldunnar, kynflokksins, borgríkisins og þjóðarinnar hefur verið reynd og hún tekist. Heimseining er nú það takmark sem hrjáð mannkyn stefnir að. Myndun þjóða er nú lokið. Stjórnleysið sem óskorað fullveldi einstakra þjóða kallar á er að ná hámarki. Heimur á þroskabraut verður að hverfa frá þessu úrelta fyrirkomulagi, viðurkenna einingu og órofa heild mannlegra samskipta og stofnsetja í eitt skipti fyrir öll það skipulag sem best er til þess fallið að framfylgja þessari meginreglu lífsins.“

Öll breytingaröfl nútímans staðfesta þetta sjónarmið. Vitnisburðurinn blasir við í þeim fjölmörgu dæmum sem nefnd hafa verið um heillavænlega forboða komandi heimsfriðar sem birtast í alþjóðahreyfingum og samtímaþróun. Herskari manna og kvenna sem koma frá nánast öllum menningarsvæðum, kynþáttum og þjóðum á jörðinni og sem þjóna margvíslegum stofnunum Sameinuðu þjóðanna eru fulltrúar hnattvíðrar „borgaraþjónustu“ og eftirtektarverð afrek þeirra eru vísbending um það stig samvinnu sem hægt er að ná, jafnvel þar sem kringumstæður geta ekki orðið til að auka mönnum bjartsýni. Einingarhvötin, eins og andlegur vortími, tjáir sig í aragrúa alþjóðaráðstefna þar sem fulltrúar mikils fjölda vísindagreina safnast saman. Hún er hreyfiaflið á bak við ýmis alþjóðleg verkefna sem höfða til barna og unglinga og hvetja til þátttöku þeirra. Í rauninni er hún einnig undirrót hinnar merkilegu alkirkjuhreyfingar þar sem meðlimir sögulega andstæðra trúarbragða og sértrúarflokka virðast dragast ómótstæðilega hver að öðrum. Á þessum lokaáratugum tuttugustu aldarinnar er hvötin til heimseiningar, ásamt þeirri gagnstæðu tilhneigingu til styrjaldarátaka og sjálfsupphafningar sem hún á í stöðugu höggi við, einn umfangsmesti þáttur lífsins á jörðinni.

Reynslu bahá’í samfélagsins má einnig skoða sem dæmi um þessa vaxandi einingu. Það er samfélag 3-4 milljón manna frá mörgum þjóðum, menningarsvæðum, stéttum og trúarbrögðum sem tekur þátt í margbreytilegri starfsemi er þjónar andlegum, félagslegum og efnislegum þörfum fólks í mörgum löndum. Það er ein félagsleg lífræn heild, fulltrúi fyrir fjölbreytileika hinnar mannlegu fjölskyldu og stjórnar málefnum sínum með kerfi meginreglna er lúta að samráði og eru viðteknar af öllum – og það nýtur í jöfnum mæli allra hinna miklu opinberanna guðlegrar leiðsagnar í sögu mannsins. Tilvera þess er enn einn vitnisburðurinn um hve raunhæf sýn stofnanda þess var á sameinuðum heimi; enn ein sönnun þess, að mannkynið getur lifað saman sem eitt hnattrænt samfélag sem geti staðist allar þær þolraunir sem það kann að mæta á þroskabraut sinni. Ef reynsla bahá’í samfélagsins getur með einhverjum hætti stuðlað að því að endurnýja vonina um einingu mannkynsins er okkur ljúft að bjóða hana fram sem fyrirmynd til skoðunar.

Þegar við leiðum hugann að knýjandi mikilvægi þess verkefnis sem nú bíður alls heimsins lútum við höfði í auðmýkt og lotningu frammi fyrir tign hins guðdómlega skapara sem af takmarkalausri ást sinni gerði allt mannkyn af sama efnivið, upphóf geislandi veruleika mannsins, gæddi hann vitsmunum og visku, göfgi og ódauðleika og veitti honum „einstæða eiginleika og hæfni til að þekkja Hann og elska“, en á þessa hæfni „verður að líta sem aflvaka og frumlægan tilgang alls sköpunarverksins“.

Við höfum þá óbilandi sannfæringu að allar mannlegar verur hafi verið skapaðar „til að stuðla að síframsækinni siðmenningu“; og að „hegða sér eins og dýr merkurinnar sé manninum ekki sæmandi“; að þær dyggðir sem hæfa mannlegri reisn séu heiðarleiki, umburðarlyndi, miskunnsemi, samúð og ást til allra þjóða. Við áréttum þá trú okkar að „möguleikarnir, sem eru áskapaðir hinni mannlegu stöðu, forlög mannsins á jörðunni, meðfætt ágæti veruleika hans, hljóti allt að koma í ljós á þessum fyrirheitna degi Guðs“. Þetta eru ástæðurnar fyrir óbilandi trú okkar á því að eining og friður séu hið raunhæfa markmið sem mannkynið keppir að.

Þegar þetta er skrifað má heyra eftirvæntingarfullar raddir bahá’ía þrátt fyrir ofsóknirnar sem þeir verða enn að þola í landinu þar sem trú þeirra fæddist. Með fordæmum staðfestu og vonar bera þeir vitni þeirri trú að uppfylling þessa ævaforna draums njóti nú staðfestingar guðdómlegs valds í krafti hinna umskapandi áhrifa frá opinberun Bahá’u’lláh. Við miðlum ykkur því ekki aðeins framtíðarsýn í orðum: við kveðjum til fulltingis þann kraft sem býr í gerðum sem unnar eru á grundvelli trúar og fórnar; við flytjum áhyggjuþrungna bæn trúsystkina okkar hvarvetna um frið og einingu. Við lýsum yfir samstöðu með öllum sem eru fórnarlömb yfirgangs, öllum sem þrá að endir verði bundinn á deilur og sundurlyndi, öllum sem halda fast við meginreglur friðar og heimsskipulags og vinna þannig að þeim göfgandi áformum sem eru frumorsök þess að allt-elskandi skapari skapaði mannkynið.

Af einlægri löngun til að miðla ykkur af vonum okkar og sannfæringu skírskotum við til hins ótvíræða fyrirheits Bahá’u’lláh: „Þessar tilgangslausu deilur, þessi eyðileggjandi stríð munu líða undir lok og ‚Friðurinn mesti‘ komast á.“

[undirritað: Allsherjarhús réttvísinnar]