Allsherjarhús réttvísinnar
Október 1985
Til þjóða heimsins
Friðurinn mikli sem fólk góðvildar á öllum öldum hefur bundið við björtustu vonir sínar, sýnin sem skáld og sjáendur ótalinna kynslóða hafa lýst og helgirit mannkynsins gefið margítrekað fyrirheit um, er nú innan seilingar þjóðanna. Í fyrsta sinn í sögunni geta allir menn séð jarðkringluna með sinn aragrúa af sundurleitum þjóðum og kynþáttum frá einu og sama sjónarhorni. Heimsfriður er ekki aðeins mögulegur heldur óhjákvæmilegur. Hann er næsta skrefið í framþróun mannlífs á plánetunni – með orðum mikils hugsuðar: „hnattvæðing mannkynsins.“
Að þessi friður verði fyrst að veruleika eftir óumræðilegar skelfingar sem þrákelknisleg fastheldni mannkyns við gamalt hegðunarmynstur hrindir af stað, eða honum verði komið á núna á grundvelli vilja til samráðs, eru þeir valkostir sem blasa við öllum íbúum jarðarinnar. Á þessum háskalegu tímamótum þegar illleysanlegir erfiðleikar sem steðja að þjóðunum hafa runnið saman í vanda sem allur heimurinn stendur sameiginlega andspænis, væri það óverjandi ábyrgðarleysi að láta sér mistakast að stemma stigu við átökum og öngþveiti.
Af heillavænlegri forboðum má nefna þessa: aukinn styrk þeirra skrefa sem stigin voru í átt til heimsskipulags í upphafi aldarinnar með stofnun Þjóðabandalagsins sem eignaðist arftaka í enn þá víðtækari stofnun, Sameinuðu þjóðunum; þá staðreynd, að frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar hefur meirihluti þjóða heims fengið sjálfstæði sem bendir til þess að tími þjóðamyndunar sé á enda; samvinna þessara nýfæddu þjóða við aðrar eldri um gagnkvæm hagsmunamál; þá gífurlegu aukningu sem orðið hefur í kjölfarið á alþjóðlegu samstarfi þjóðfélaga og hópa sem áður lifðu í einangrun og innbyrðis fjandskap, á sviðum vísinda, fræðslumála, löggjafar, efnahags- og menningarmála; stofnun fjölda alþjóðlegra mannúðarstofnana sem eiga sér engin fordæmi í sögunni; útbreiðslu kvenna- og æskulýðshreyfinga sem hvetja til friðar, og loks sjálfkrafa fjölgun samtaka venjulegs fólks sem leitar skilnings með persónulegum samskiptum.
Vísindalegar og tæknilegar framfarir sem orðið hafa á þessari öld, sem hefur verið svo ríkulega blessuð, boða mikla framsókn í félagslegri þróun jarðarinnar og gefa vísbendingu um hvaða leiðir er hægt að fara til að leysa raunhæf vandamál mannkynsins. Þær leggja raunar fram sjálf stjórntækin fyrir margbrotið líf í sameinuðum heimi. Samt eru enn þá ljón á veginum. Efasemdir, misskilningur, fordómar, tortryggni og þröngir eiginhagsmunir tálma þjóðunum í samskiptum þeirra hver við aðra.
Knúnir sterkri vitund um andlega og siðferðilega skyldu okkar viljum við á þessari hallkvæmu stundu vekja athygli á þeim djúpstæðu sannindum sem leiðtogum mannkynsins var miðlað fyrir meira enn einni öld af Bahá’u’lláh, stofnanda þeirra trúarbragða sem við höfum valist sem trúnaðarmenn fyrir – bahá’í trúarinnar.
„Vindar örvæntingar,“ ritaði Bahá’u’lláh, „blása því miður úr öllum áttum og deilurnar sem þjaka og aðskilja mannkynið magnast dag frá degi. Forboða aðsteðjandi hamfara og öngþveitis má nú þegar greina því að ríkjandi skipulag sýnist hörmulega gallað.“ Sameiginleg reynsla mannkynsins hefur fyllilega staðfest þessi spámannlegu orð. Gallar á ríkjandi skipan koma skýrt í ljós í því að fullvalda ríki innan vébanda Sameinuðu þjóðanna eru ófær um að bægja á bug stríðsógninni og spáðu hruni alþjóðlegs hagkerfis eða stemma stigu við útbreiðslu stjórnleysis og hermdarverka og lina þær sáru þjáningar sem þessar og aðrar ógnir valda sífellt fleiri milljónum. Raunar eru ofbeldi og sundrung orðin svo ríkt einkenni á þjóðfélags-, efnahags- og trúarkerfum mannkynsins að margir hafa tileinkað sér það sjónarmið að slík hegðun sé manninum eiginleg og verði því ekki upprætt.
Samfara því sem þetta sjónarmið nær að festa rætur gera lamandi þverstæður vart við sig í mannlegu lífi. Annars vegar lýsir fólk af öllu þjóðerni því yfir að það sé ekki aðeins reiðubúið til að lifa saman í friði, heldur þrái það frið og að þeirri skelfilegu ógn sem vofir yfir lífi þess daglega linni. Hins vegar er sú staðhæfing meðtekin gagnrýnislaust að mennirnir séu sjálfselskir og árásargjarnir að eðlisfari og geti því ekki byggt upp þjóðfélag sem sé í senn framfarasinnað og friðsamt, öflugt og samræmt; kerfi, sem gefi sköpunarþörf og frumkvæði einstaklingsins svigrúm en sé reist á samvinnu og gagnkvæmni.
Þar sem þörfin fyrir frið verður sífellt brýnni krefst þessi grundvallarþversögn, sem kemur í veg fyrir að hann verði að veruleika, endurmats á þeim hugmyndum sem ríkjandi sjónarmið á sögulegu hlutskipti mannkynsins byggir á. Ef málsgögnin eru skoðuð af hlutlægni kemur á daginn að slík hegðun tjáir engan veginn raunverulegt eðli mannsins heldur er skrumskæling á anda hans. Þegar menn hafa látið sannfærast um þetta verður þeim kleift að leysa úr læðingi jákvæð þjóðfélagsöfl sem munu stuðla að samvinnu og samræmi einmitt vegna þess að þau eru í fullu samhljóði við mannseðlið.
Að velja þessa leið felur ekki í sér afneitun á fortíð mannkynsins heldur skilning á henni. Bahá’í trúin lítur svo á að núverandi upplausnarástand og hinn geigvænlegi glundroði í lífi mannanna sé eðlilegt stig í þróunarferli sem muni óhjákvæmilega ná hámarki í sameiningu mannkynsins í einu þjóðskipulagi aðeins takmarkast af endimörkum jarðarinnar. Þróun mannkynsins sem sérstakrar lífheildar er sambærileg við hina stigbundnu þróun í lífi hvers einstaklings. Stig bernskunnar er að baki og við erum nú stödd í miðjum þeim umbyltingum og umróti sem einkenna unglingsárin. Fram undan er aftur á móti manndóms- og þroskatími mannkynsins.
Ef við viðurkennum hreinskilnislega að styrjaldir, arðrán og fordómar hafa verið tjáning lægra þroskastigs í geysilega umfangsmiklum þróunarferli og að mannkynið upplifir á okkar tímum það umrót sem óumflýjanlega fylgir því að komast til fulls þroska, gefur það ekki tilefni til svartsýni heldur er forsenda þess að hægt sé að hefjast handa um það volduga verkefni að byggja upp nýjan heim. Að það er mögulegt – að nauðsynleg uppbyggingaröfl eru fyrir hendi og að hægt er að byggja upp þjóðfélagsskipan sem sameinar – er einmitt málefnið sem við hvetjum ykkur til að íhuga.
Hvað sem næstu ár kunna að bera í skauti sínu af þjáningum og umróti, hversu dimmt sem nú er umhorfs í heiminum, trúir bahá’í samfélagið því að mannkynið geti mætt þessari miklu eldskírn fullt bjartsýni á endanleg úrslit hennar. Þær hamfarakenndu breytingar sem mannkynið er knúið í átt til með æ meiri hraða, boða engan veginn endalok siðmenningarinnar heldur munu verða til þess að leysa úr læðingi „möguleikana, sem eru áskapaðir stöðu mannsins“ og leiða í ljós „forlög mannsins á jörðinni; eðlislægt ágæti veruleika hans“.
I
Eðliseigindirnar sem auðkenna manninn frá öllum öðrum lifandi verum, eiga sér brennipunkt í því sem við nefnum mannsandann; hugurinn er aðal hans. Þessir eiginleikar hafa gert manninum megnugt að skapa siðmenningu og taka framförum á efnissviðinu. En slíkur árangur einn saman hefur aldrei fullnægt mannsandanum. Leyndardómsfullt eðli hans knýr hann til að leita hins yfirskilvitlega, hneigir hjarta hans að hinu ósýnilega ríki, hinum hinsta veruleika, þeim órannsakanlega kjarna allra kjarna sem nefndur er Guð. Trúarbrögðin sem hafa verið færð mannkyninu af andlegum ljósberum, sem komið hafa hver á fætur öðrum með vissu millibili, hafa verið helsti tengiliðurinn milli mannkynsins og þessa hinsta veruleika og hafa örvað og fágað hæfni mannsins til andlegra sigurvinninga og félagslegra framfara.
Engin alvarleg tilraun til úrbóta á mannlegum málefnum og stofnunar heimsfriðar, getur litið fram hjá trúarbrögðunum. Skynjun mannsins og iðkun hans á þeim er að verulegu leyti sá vefur sem sagan er spunnin úr. Mikilhæfur sagnfræðingur lýsti trúnni sem sérstöku skynviti mannlegs eðlis. Vart er hægt að neita því að afskræmingu þessa skynvits má kenna mikið af þeirri ringulreið sem ríkir í samfélaginu, átökunum sem eiga sér stað milli einstaklinga og í hjörtum þeirra sjálfra. Sanngjarn skoðandi getur ekki heldur gengið fram hjá þeim gagntæku áhrifum sem trúarbrögðin hafa haft á lifandi tjáningu siðmenningarinnar. Bein áhrif þeirra á löggjöf og siðgæði hafa auk þess sannað að þau eru ómissandi fyrir reglu og skipulag í samfélaginu.
Þegar Bahá’u’lláh ritaði um trúarbrögðin sem þjóðfélagsafl, sagði Hann: „Trúarbrögðin eru æðsta tækið til grundvöllunar reglu í heiminum og fyrir frið og hamingju allra sem í honum dvelja.“ Hann vísaði til hnignunar trúarinnar með svofelldum orðum: „Ef ljós trúarinnar hættir að skína mun ringulreið og öngþveiti af hljótast og ljós sanngirni, réttlætis, friðar og rósemi deyja út.“ Þegar bahá’í helgirit fjalla um afleiðingarnar af þessu, benda þær á að „öfughneigð mannlegs eðlis, niðurlæging mannlegs framferðis, spilling og upplausn mannlegra stofnana, sýna undir slíkum kringumstæðum sínar verstu og andstyggilegustu hliðar. Mannleg eðlisgerð er vanvirt, vongleðin dofnar, taugar agans slakna, rödd samviskunnar þagnar, sómatilfinningin myrkvast og dýpstu kenndir gleði, friðar og vonar fjara út hægt og hægt.“
Sé mannkynið því komið fram á ystu nöf lamandi átaka, verður það að líta í eigin barm, hyggja að eigin vanrækslu og þeim sírenusöng, sem það hefur látið lokkast af, í þeim tilgangi að finna undirrót þess misskilnings og glundroða, sem hefur viðgengist í nafni trúarbragðanna. Þeir sem í blindu og sjálfshyggju hafa haldið fast hver við sinn sérstaka rétttrúnað og sem neytt hafa upp á fylgjendur sína röngum eða mótsagnakenndum túlkunum á orði Guðs, bera þunga ábyrgð á þessum glundroða sem gervimúrarnir, sem hafa verið reistir á milli trúar og skynsemi, vísinda og trúarbragða, hafa aðeins orðið til að auka. Sanngjörn könnun á því sem hinir miklu trúarbragðahöfundar raunverulega sögðu og á þeim félagslegu aðstæðum sem voru ríkjandi þar sem þeir urðu að flytja boðskap sinn, leiðir ekkert í ljós sem gæti gefið tilefni til þeirra deilna og fordóma sem setja trúarsamfélög heimsins úr skorðum og þar með allt mannlegt líf.
Sú kenning að við ættum að gera öðrum eins og við vildum að þeir gerðu okkur – siðaregla sem er áréttuð með ýmsum hætti í öllum stóru trúarbrögðunum – ljær þessari síðarnefndu skoðun gildi með tvennum hætti sérstaklega: hún dregur saman siðræn viðhorf, þau friðvænlegu áhrif, sem berast frá þessum trúarbrögðum án tillits til heimkynna þeirra eða upphafstíma; hún staðfestir sömuleiðis einingarþáttinn sem er þeirra helsti verðleiki og sem mannkyninu hefur í samhengislausri söguskoðun sinni ekki enn tekist að koma auga á eða meta sem skyldi.
Hefði mannkynið í barnæsku sinni skynjað og skilið hið sanna eðli Fræðaranna, sem komu til þess sem málsvarar eins og sama siðmenntandi ferlis, hefði það án nokkurs vafa haft ómælanlega meira gagn af uppsöfnuðum áhrifum boðskaparins, sem þeir fluttu hver á fætur öðrum. Til allrar óhamingju létu mennirnir þetta undir höfuð leggjast.
Endurvakning trúarofstækis í mörgum löndum er ekki merki um neitt annað en dauðateygjur. Sjálft eðli þeirra ofsafengnu og eyðileggjandi fyrirbæra sem eru því samfara opinberar hið andlega gjaldþrot sem það ber skýrastan vott um. Eitt af sérkennilegustu og hryggilegustu einkennum þeirrar bylgju trúarofstækis, sem nú gengur yfir, er í hve stórfelldum mæli það grefur í sérhverju tilviki, ekki aðeins undan þeim andlegu gildum sem stuðla að einingu mannkynsins, heldur einnig þeim siðferðilegu sigrum sem unnir voru af þeim sömu trúarbrögðum sem það þykist þjóna.
Hversu voldugt afl sem trúarbrögðin hafa verið í sögu mannsins og hversu áhrifamikil sem yfirstandandi endurvakning herskás trúarofstækis er, hefur vaxandi hópur fólks, um langt árabil, litið svo á að trúarbrögð og trúarstofnanir séu óviðkomandi mikilvægustu viðfangsefnum nútímans. Í þess stað hefur það snúið sér að makráðri eftirsókn efnislegrar fullnægju eða fylgispekt við hugmyndafræði og mannakenningar sem eiga að bjarga þjóðfélaginu frá þeim augljósu meinsemdum sem hrjá það. Allt of mörg þessara hugmyndakerfa hafa, því miður, í stað þess að viðurkenna hugsjón einingar mannkynsins og stuðla að auknu samlyndi ólíkra þjóða, hneigst til að hefja ríkið á stall, gera afganginn af mannkyninu undirgefinn einni þjóð, kynþætti eða stétt. Reynt að bæla niður alla umræðu og skoðanaskipti eða gefa milljónir sveltandi manna af kaldri harðýðgi á vald markaðskerfi sem svo augljóslega eykur áþján meirihluta mannkynsins, um leið og það gerir litlum hluta þess kleift að lifa í vellystingum sem forfeður okkar gátu vart látið sig dreyma um.
Hversu hryggilegur er ekki ferill gervitrúarbragðanna sem vitmenn okkar tíma hafa boðað. Úr sárum vonbrigðum heilla þjóða sem kennt hefur verið að tilbiðja við altari þeirra er hægt að lesa endanlegan dóm sögunnar yfir gildi þeirra. Ávextirnir sem þessar kenningar hafa borið eftir áratuga hömlulausa valdbeitingu þeirra sem eiga undir þeim upphefð sína í mannlegum málefnum, eru þær félagslegu og efnahagslegu meinsemdir sem hrjá öll svæði heimsins á síðustu áratugum tuttugustu aldarinnar. Að baki öllum þessum ytri hrellingum er hið andlega tjón sem endurspeglast í deyfðinni og sljóleikanum sem gripið hefur þorra fólks í öllum löndum og í útslokknun vonarneistans í hjörtum þjáðra og afskiptra milljóna.
Tími er nú til þess kominn að þeir sem predika kenningar efnishyggjunnar hvort heldur er í austri eða vestri, hvort heldur á í hlut kapítalismi eða sósíalismi, standi reikningsskil þeirrar siðferðilegu ráðsmennsku sem þeir hafa tekið sér í hendur. Hvar er sá „nýi heimur“, sem þessi hugmyndakerfi lofuðu? Hvað hefur orðið um þá hugsjón alþjóðlegs friðar sem þeir lýstu fylgi sínu við? Hvar eru skrefin sem áttu að marka tímamót í framvindu menningar í krafti yfirráða eins kynþáttar, þjóðar eða stéttar? Hvers vegna sekkur mikill meirihluti mannkynsins æ dýpra niður í sult og eymd á sama tíma og slík auðæfi standa til reiðu núverandi valdhöfum að faraóar og keisarar og jafnvel nýlenduþjóðir nítjándu aldar létu sig ekki dreyma um annað eins?
Það er einkum í eftirsókn efnisgæða, frumhvata og sameiginlegu einkenni allra slíkra hugmyndakerfa, að við finnum ræturnar sem næra þær falshugmyndir að mennirnir séu sjálfselskir og árásargjarnir að eðlisfari. Það er hér sem jarðveginn verður að hreinsa svo hægt sé að byggja nýjan heim sem hæfir afkomendum okkar.
Reynslan sýnir að hugsjónum efnishyggjunnar hefur mistekist að uppfylla þarfir mannsins og þessi staðreynd krefst þess að menn viðurkenni ærlega að gera verði nýja tilraun til að finna lausn á knýjandi vandamálum heimsins. Hinar óþolandi aðstæður sem ríkja í þjóðfélögunum eru talandi tákn um sameiginleg mistök allra en vitundin um þetta virðist fremur verða til að auka misræmið á öllum sviðum en draga úr því. Þörfin fyrir sameiginlegar læknisaðgerðir er augljóslega brýn. Fyrst og fremst er þetta spurning um viðhorf. Ætlar mannkynið að þverskallast áfram í villu sinni og halda fast í úreltar hugmyndir og haldlausar niðurstöður? Eða munu leiðtogar þess ganga fram fyrir skjöldu án tillits til hugmyndafræði og taka ráð saman af einörðum huga í sameiginlegri leit að viðunandi lausnum?
Þeir sem ala önn fyrir framtíð mannkynsins gerðu rétt í að íhuga eftirfarandi hollræði: „Ef við sjáum að mikilsvirtar hugsjónir og rótgrónar stofnanir, félagslegar kenningar og trúarsiðir, stuðla ekki lengur að velferð alls þorra mannkynsins og fullnægja ekki lengur þörfum mannkyns sem er í stöðugri þróun, látum þetta þá hverfa veg allrar veraldar og vísum því út í myrkur úreltra og gleymdra kennisetninga. Hvers vegna ættu þessir hlutir að vera undanþegnir hnignuninni sem hlýtur að verða hlutskipti sérhverrar mannlegrar stofnunar í veröld sem lýtur óbifanlegu lögmáli hnignunar og breytinga? Því að lagaákvæði, stjórnmála- og hagfræðikenningar eru aðeins til þess gerðar að vernda hagsmuni mannkynsins í heild sinni; það á ekki að krossfesta mannkynið til að varðveita óbreytt eitthvert lagaákvæði eða kenningu.“
II
Við upprætum ekki frumorsakir styrjalda með því að banna kjarnavopn, útrýma notkun eiturgass eða gera sýklahernað útlægan. Hversu mikilvægar sem slíkar aðgerðir eru sem skref á leiðinni til friðar eru þær í sjálfu sér of yfirborðskenndar til að hafa nokkur varanleg áhrif. Mennirnir eru nógu snjallir til að finna upp nýjar tegundir hernaðar og nota matvæli, hráefni, efnahagsaðgerðir, valdaaðstöðu í iðnaði, hugmyndafræði og hermdarverk til þess að koma hver öðrum á kné í endalausri baráttu um yfirráð og yfirburðaaðstöðu. Ekki er heldur mögulegt að ráða bót á þeirri gífurlegu misskiptingu gæðanna, sem einkennir okkar tíma, með því einu að setja niður deilur eða átök þjóða í milli. Ósvikinn alþjóðlegur rammi er nauðsynlegur.
Vissulega skortir ekki viðurkenningu þjóðaleiðtoga á hnattrænum einkennum vandans sem blasir við þeim daglega í vaxandi umfangi mála. Jafnframt safnast upp kannanir og lausnir sem lagðar eru fram af fjölda virkra og upplýstra samtaka, sem og af stofnunum Sameinuðu þjóðanna og miða að því að uppræta sérhvern vott fáfræði um þá áeggjun sem við blasir. Á hinn bóginn er viljinn lamaður og það er einmitt þessa lömun viljans sem kanna verður að kostgæfni og ráðast gegn af einbeitni. Hún á rætur sínar að rekja, eins og áður var sagt, til djúprar sannfæringar um eðlislæga þrætugirni mannkynsins sem hefur haft í för með sér að menn hika við að hugleiða möguleikana á því að beygja eiginhagsmuni þjóðanna undir svo víðtækar kröfur sem stofnun sameinaðrar heimsstjórnar mundi gera. Hana má einnig rekja til vangetu hinna óupplýstu og kúguðu milljóna um allan heim til að gefa opinskátt til kynna þrá sína eftir nýju skipulagi þar sem þær geti lifað í friði, samræmi og velmegun með öllu mannkyni.
Bráðabirgðaskrefin sem hafa verið stigin í átt til heimsskipulags frá lokum síðari heimsstyrjaldar gefa góðar vonir. Aukin tilhneiging þjóðahópa til að formbinda tengsl sín á milli, sem gerir þeim kleift að hafa samvinnu um gagnkvæm hagsmunamál, bendir til þess að allar þjóðir geti að lokum sigrast á þessari lömun. Samtök þjóða í Suðaustur-Asíu, Samtök og efnahagsbandalag ríkjanna við Karíbahafið, Efnahagsbandalag Mið-Ameríku, Ráð fyrir gagnkvæma efnahagsaðstoð, evrópsku samfélögin, Arababandalagið, Einingarsamtök Afríku, Samtök Ameríkuríkja, Suður-Kyrrahafsbandalagið – öll sú sameiginlega viðleitni sem þessi samtök tjá ryður braut einu heimsskipulagi.
Enn annað vonarteikn er sú vaxandi athygli, sem beinist að ýmsum djúptækustu vandamálum heimsins. Þrátt fyrir augljósa vankanta Sameinuðu þjóðanna hafa meira en tuttugu yfirlýsingar og samþykktir sem hafa verið gerðar á þeirra vegum gefið venjulegu fólki von um tækifæri til nýs og betra lífs, jafnvel þótt afstaða sumra stjórna hafi ekki verið afdráttarlaus. Alþjóðlega mannréttindayfirlýsingin, samþykkt um stöðvun og refsingu fyrir þjóðarmorð og aðrar svipaðar samþykktir sem beinast að því að uppræta hvers kyns aðgreiningu á grundvelli kynþáttar, kynferðis eða trúarskoðana; sem staðfesta rétt barnsins; stefna að verndun allra manna gegn pyntingum, útrýmingu hungurs og næringarskorts, beitingu vísinda og tækniframfara í þágu friðar til hagsbóta fyrir mannkynið – ef öllum slíkum samþykktum er fylgt eftir af hugrekki og þær gerðar að veruleika munu þær flýta fyrir þeim degi þegar stríðsógnin missir áhrifamátt sinn yfir alþjóðlegum samskiptum. Engin þörf er á því að ítreka þýðingu þeirra málefna sem fjallað er um í fyrrnefndum yfirlýsingum og samþykktum. Samt sem áður eiga nokkrar þeirra það skilið að gerðar séu við þær sérstakar athugasemdir, vegna þess hve mikilvægar þær eru fyrir stofnun heimsfriðar.
Kynþáttastefna, ein skaðlegasta og þrálátasta meinsemdin, er meiri háttar farartálmi á leiðinni til friðar. Framkvæmd hennar er of glæpsamlegt brot gegn mannlegri reisn til þess að hún verði þoluð undir nokkrum kringumstæðum. Hún kemur í veg fyrir að fórnarlömb hennar geti ræktað takmarkalausa möguleika sína og notið þeirra; hún spillir málsvörum sínum og heggur að rótum mannlegra framfara. Ef menn eiga að sigrast á þessu vandamáli verður að ná allsherjarsamkomulagi um viðurkenningu á einingu mannkynsins, sem síðan verði hrundið í framkvæmd með viðeigandi lagasetningu.
Bilið milli ríkra og fátækra sem leitt hefur af sér svo miklar þjáningar gerir heiminn að ótryggum samastað og ýtir honum beinlínis fram á ystu nöf styrjaldar. Fá þjóðfélög hafa getað leyst þennan vanda á viðunandi hátt. Lausn hans útheimtir samræmdar aðgerðir, andlegar, siðferðilegar og hagnýtar. Líta þarf á hann frá nýju sjónarhorni og það felur í sér samráð við sérfræðinga á öllum sviðum vísinda, laust við efnahagslegt og hugmyndafræðilegt orðaskak. Jafnframt felur það í sér að fólkið sem málið snertir beinlínis verði haft með í þeim ákvörðunum sem áríðandi er að taka. Þetta mál tengist ekki aðeins nauðsyn þess að útrýma auðsöfnun annars vegar og örbirgð hins vegar, heldur og þeim andlegu sannindum sem geta komið hugarfarsbreytingu til vegar þegar skilningur á þeim vex. Ræktun slíks hugarfars er í sjálfu sér mikilvægur hluti af lausninni.
Hömlulaus þjóðernishyggja sem aðgreina verður frá heilbrigðri og réttmætri föðurlandsást, verður að víkja fyrir víðfeðmari þegnhollustu: ást til mannkynsins í heild. Bahá’u’lláh segir: „Jörðin er aðeins eitt land og mannkynið íbúar þess.“ Hugmyndin um heimsborgaraþegnrétt er beinlínis sprottin upp af þeirri óumflýjanlegu staðreynd, að vísindalegar framfarir og nauðsyn á gagnkvæmum alþjóðasamskiptum hefur gert heiminn að einni byggð. Ást til allra þjóða heimsins útilokar ekki ást mannsins á ættjörð sinni. Hagsmunum einstakra hluta heimssamfélagsins verður best þjónað með því að efla hagsmuni heildarinnar. Þá margvíslegu alþjóðastarfsemi sem styrkir gagnkvæma vináttu og samstöðu meðal þjóðanna þarf að efla að mun.
Í gegnum söguna hafa trúardeilur verið orsök ótölulegs fjölda styrjalda og átaka, meiri háttar hindrun í vegi mannlegra framfara og vekja vaxandi andstyggð trúaðs fólks og vantrúaðs. Fylgismenn allra trúarbragða verða af fúsum vilja að leita svara við þeim grundvallarspurningum sem þessar deilur vekja og komast að ótvíræðri niðurstöðu. Hvernig á að leysa ágreininginn milli þeirra í orði og á borði? Sú áeggjun sem blasir við trúarleiðtogum mannkynsins er að þeir hugleiði hlutskipti mannanna í samúð og sannleiksást og spyrji sjálfa sig hvort þeir geti ekki, í auðmýkt frammi fyrir almáttugum skapara sínum, jafnað guðfræðileg ágreiningsefni sín í anda einlægs umburðarlyndis svo þeim verði kleift að vinna saman að eflingu gagnkvæms skilnings og friðar meðal manna.
Aukin réttindi kvenna – fullt jafnræði kynjanna – er ein af mikilvægustu forsendum friðar, þótt það sé ekki eins almennt viðurkennt. Að hafna slíku jafnræði er ranglæti í garð helmings jarðarbúa og vekur skaðleg viðhorf og venjur meðal karlmanna sem þeir bera með sér frá heimilinu inn á vinnustaðinn, inn í stjórnmálastarfsemi og að endingu inn á svið alþjóðasamskipta. Engar röksemdir eru til, hvorki siðferðilegar, líffræðilegar eða hagnýtar, sem geti réttlætt slíka höfnun. Aðeins þegar konur hafa verið boðnar velkomnar til samstarfs á öllum sviðum mannlegra athafna, er mögulegt að skapa siðferðileg og sálfræðileg vaxtarskilyrði fyrir alþjóðlegan frið.
Málstaður allsherjarskyldumenntunar sem þegar hefur fengið í þjónustu sína áhugasamt fólk frá öllum þjóðum og af öllum trúarbrögðum, verðskuldar allan þann stuðning sem stjórnir heimsins geta veitt honum. Ekki verður um það deilt að fáfræði er helsta undirrót hnignunar og falls þjóða og stuðlar að viðhaldi fordóma. Engin þjóð getur tekið framförum ef þegnum hennar er ekki séð fyrir uppfræðslu. Fátækt og skortur takmarka getu margra þjóða til að uppfylla þetta grundvallarskilyrði og leggur á þær sérstaka forgangskvöð. Þær stofnanir sem hafa ákvörðunarrétt í þessum málum gerðu rétt í að íhuga hvort ekki eigi að veita stúlkum og konum forgangsrétt til menntunar, því það er fyrir atbeina upplýstra mæðra sem nytsemi þekkingar dreifist um allt samfélagið á skjótastan og virkastan hátt. Í samræmi við kröfur tímans ætti einnig að íhuga að gera hugtakið heimsborgaraþegnréttur að sérstökum lið í námsskránni á skólaskyldustigi.
Grundvallarskortur á samskiptum þjóða í milli er alvarlegur meinbugur á alþjóðlegri friðarviðleitni. Upptaka alþjóðlegs hjálpartungumáls mundi gera mikið til að leysa þetta vandamál og krefst ýtrustu athygli.
Í öllum þessum málum er aðaláhersla lögð á tvö atriði. Í fyrsta lagi er uppræting styrjalda ekki aðeins fólgin í undirritun samninga og gerðabóka. Það er flókið verkefni sem krefst nýrrar og stórfelldrar viðleitni til lausnar málum sem venjulega eru ekki tengd friðarviðleitni. Hugmyndin um sameiginlegt öryggi allra er einber tálsýn ef hún á eingöngu að byggjast á pólitískum samningum. Í öðru lagi er það höfuðnauðsyn þegar fjallað er um friðarmál að þau séu hafin upp á svið meginreglna, en ekki byggð á hreinum nytsemissjónarmiðum. Því að friðurinn sprettur fyrst og fremst af innra hugarfari sem er stutt andlegum og siðferðilegum viðhorfum og það er einkum með því að skapa þessi viðhorf sem möguleikar skapast á varanlegum lausnum.
Það eru andlegar meginreglur – eða það sem sumir nefna mennsk gildi – sem gera mönnum kleift að finna lausn á sérhverju samfélagslegu vandamáli. Almennt talað getur sérhver velviljaður hópur fundið raunhæfar lausnir á vandamálum sínum, en góð áform og hagnýt þekking nægja venjulega ekki. Höfuðkostur sérhverrar meginreglu er sá að hún ber ekki aðeins í sér sjónarhorn sem á hljómgrunn í mannlegu eðli heldur vekur hún einnig viðhorf, afl, vilja, metnað, sem auðveldar uppgötvun og framkvæmd hagnýtra aðgerða. Stjórnarleiðtogar og aðrir valdamenn munu komast að raun um, að viðleitni þeirra til að leysa vandamálin færir þeim umbun ef þeir reyna fyrst að ganga úr skugga um hvaða meginreglur eiga í hlut og gera þær síðan að leiðarsnúru.
III
Fyrsta spurningin, sem verður að svara, er hvernig hægt er að breyta heimi nútímans með sínu rótgróna átaka- og deilumynstri í heim þar sem ríkir friður og samvinna.
Heimsskipulag er aðeins hægt að reisa á óbifanlegri sannfæringu um einingu mannkynsins – andlegum sannleika sem öll mannleg vísindi staðfesta. Mannfræði, sálarfræði, lífeðlisfræði þekkja aðeins eina tegund mannsins, að vísu óendanlega fjölbreytta að því er varðar þá þætti lífsins sem minna er um vert. Viðurkenning á þessum sannleika krefst þess að fordómum af öllu tagi sé hafnað – hvort heldur er á grundvelli kynþáttar, hörundslitar, stéttar, trúar, þjóðernis, kynferðis eða menningarstigs – öllu sem gefur mönnunum þá hugmynd að þeir séu yfir aðra hafnir.
Viðurkenning á einingu mannkynsins er grundvallarskilyrði fyrir endurskipulagningu og stjórnun heimsins sem eins ættlands, heimkynni alls mannkynsins. Alþjóðleg viðtaka þessarar andlegu meginreglu er höfuðforsenda sérhverrar árangursríkrar tilraunar til að koma á heimsfriði. Þess vegna á að kunngera hana um allan heim, kenna hana í skólum og halda henni stöðugt á lofti í öllum löndum heims sem lið í undirbúningi fyrir þær gagngeru breytingar á þjóðfélagsgerðinni sem hún felur í sér.
Samkvæmt bahá’í sjónarmiði kallar viðurkenning á einingu mannkynsins á „ekkert minna en afvopnun og endurreisn alls hins siðmenntaða heims – heims, sem er tengdur lifandi böndum á öllum helstu sviðum lífsins, stjórnmálum, andlegri eftirsókn, verslun og fjármálum, tungumáli og skrifletri, en er samt óendanlega fjölbreyttur að því er varðar þjóðareinkenni sambandsríkjanna.“
Er Shoghi Effendi, Verndari bahá’í trúarinnar, útskýrði árið 1931 hvað þessi miðlæga meginregla táknaði, sagði hann: „Hún stefnir ekki að því að bylta núverandi undirstöðum þjóðfélagsins; hún reynir að breikka grundvöll þess og endurmóta stofnanir þess í samræmi við þarfir síbreytilegrar veraldar. Hún stríðir ekki gegn réttmætri þjóðhollustu né grefur undan nauðsynlegri löghlýðni. Markmiðið er ekki að kæfa eld skynsamlegrar ættjarðarástar í hjörtum manna né afnema sjálfsforræði þjóða sem er svo þýðingarmikið ef forðast á hættur öfgafullrar miðstýringar. Hún hvorki lítilsvirðir né reynir að jafna út fjölbreytileika þjóðareinkenna, sögu, tungu og erfðavenja, hugsunarháttar og siða sem aðgreina þjóðir heims. Hún krefst víðtækari hollustu, að keppt sé að göfugra marki en nokkru sinni fyrr í sögu mannkynsins. Hún vísar á bug öfgafullri miðstýringu annars vegar og hafnar sérhverri tilraun hins vegar til að steypa alla í sama mót. Kjörorð hennar er eining í fjölbreytileika.“
Til að ná þessum markmiðum þurfa að verða ýmsar breytingar til batnaðar á viðhorfum hinna einstöku þjóða til stjórnmála, en á þessu sviði ríkir nú nánast stjórnleysi vegna vöntunar á skýrt skilgreindum lögum og almennt viðteknum og framkvæmanlegum meginreglum sem stýra milliríkjasamskiptum. Þjóðabandalagið, Sameinuðu þjóðirnar og hin fjölmörgu bandalög og samningar, sem þau hafa gert, hafa án efa stuðlað að því að draga úr neikvæðum áhrifum alþjóðadeilna en það hefur komið á daginn að þessi samtök geta ekki komið í veg fyrir styrjaldir. Í raun hafa tugir styrjalda verið háðar frá lokum síðari heimsstyrjaldar; margar standa yfir enn þá.
Helstu þættir þessa vandamáls voru þegar komnir í ljós á 19. öld þegar Bahá’u’lláh setti fyrst fram tillögur sínar um stofnun heimsfriðar. Hann útskýrði meginregluna um sameiginlegt öryggi allra í yfirlýsingum sem beint var til stjórnenda heimsins. Shoghi Effendi gerði eftirfarandi athugasemdir við orð hans: „Hvað annað geta þessi þungvægu orð táknað en að óhjákvæmilegt verði að takmarka óskorað forræði þjóða og að það sé óumflýjanlegt skref í átt til myndunar framtíðarsamveldis allra þjóða heimsins. Mynda verður einhvers konar yfirríki og því í vil munu allar þjóðir heims afsala sér sérhverju tilkalli til stríðsreksturs, tilteknum réttindum til skattheimtu og öllum rétti til viðhalds vopnabúnaðar nema til þess að halda uppi lögum og reglu innan landamæra sinna. Slíkt ríki verður að hafa á hendi alþjóðlegt framkvæmdavald, fullt og óskorað umboð til að koma lögum yfir sérhvern þvermóðskufullan meðlim samveldisins; heimsþing sem kosið er til af þjóðunum og kosning þingmanna samþykkt af ríkisstjórn viðkomandi lands; og hæstarétt sem fellir bindandi dómar, jafnvel í þeim tilvikum þar sem málsaðilar hafa ekki sjálfviljugir samþykkt að mál þeirra verði lögð fyrir.“
„…Í þessu heimssamfélagi mun öllum viðskiptahöftum verða rutt úr vegi í eitt skipti fyrir öll og sameiginlegir hagsmunir auðmagns og vinnuafls afdráttarlaust viðurkenndir; þar hefur háreysti trúarofstækis og deilna þagnað að eilífu; þar hefur eldur kynþáttahaturs endanlega verið slökktur; þar gilda ein alþjóðalög – ávöxtur yfirvegaðra dóma sambandsfulltrúa heimsins – og tafarlaus íhlutun sameinaðs herstyrks sambandsríkjanna mun tryggja að þeim sé framfylgt; og loks heimssamfélag þar sem heift duttlungafullrar og herskárrar þjóðernishyggju hefur breyst í fullan skilning á nauðsyn heimsborgarahyggju – þetta er í grófum dráttum skipulagið, sem Bahá’u’lláh boðaði skipulag, sem mun verða litið á sem fegursta ávöxt hægþroska aldar.“
Bahá’u’lláh gaf eftirfarandi vísbendingu um tilkomu þessara afdrifaríku breytinga: „Sá tími mun koma, að knýjandi nauðsyn þess að halda mikla, alltumlykjandi ráðstefnu manna hlýtur viðurkenningu allra. Stjórnendur og konungar jarðarinnar verða að sækja hana og taka þátt í yfirvegunum hennar með það fyrir augum að finna leiðir til að grundvalla Heimsfriðinn mikla meðal manna.“
Hugrekkið, einbeitnin, hinar hreinu hvatir, óeigingjörn ást einnar þjóðar á annarri – allir þeir andlegu og siðferðilegu eiginleikar sem nauðsynlegir eru til að taka þetta einstæða skref í friðarátt eru háðir vilja til athafna. Og til að kveikja nauðsynlegan athafnavilja verður að gefa náinn gaum að veruleika mannsins, það er að segja hugsun hans. Að skilja þýðingu þessa máttuga veruleika veitir einnig innsýn í félagslega nauðsyn þess að finna óviðjafnanlegu gildi hans farveg í hreinskilnislegu, hófsömu og vingjarnlegu samráði og hefjast síðan handa um framkvæmdir á grundvelli niðurstöðu þess. Bahá’u’lláh benti margsinnis á kosti og óhjákvæmileika samráðs fyrir skipulag og reglu í mannlegu lífi. Hann sagði: „Samráð færir aukna vitund og breytir getgátu í fullvissu. það er skínandi ljós sem leiðbeinir og lýsir veginn í myrkum heimi. Allir hlutir eiga sér stöðu þroska og fullkomnunar. Skilningsþroskinn er birtur með atbeina samráðs.“ Sjálf tilraunin til að koma á friði á grundvelli þessa samráðs sem hann lýsir getur leyst úr læðingi svo heillaríkan anda meðal þjóða jarðarinnar að ekkert afl fái staðist sigursælar afleiðingar hennar.
Varðandi undirbúning þessarar heimsráðstefnu, veitti ‘Abdu’l‑Bahá, sonur Bahá’u’lláh og útnefndur túlkandi kenninga hans, þessa innsýn: „Þeir verða að taka ráð saman um málstað friðarins og reyna með öllum ráðum að stofnsetja bandalag þjóða heimsins. Þeir verða að gera með sér bindandi samning og festa með sér sáttmála og fyrirmæli hans skulu vera skynsamleg, einörð og hafin yfir allan efa. Þeir verða að lýsa honum fyrir öllum heimi og fá til þess umboð alls mannkynsins. Þessi mikla og göfuga framkvæmd sem er raunveruleg uppspretta alls friðar og velferðar í heiminum skyldi talin heilags eðlis af öllum, sem dvelja á jörðu. Öll öfl mannkynsins skyldu virkjuð til að tryggja stöðugleika og varanleika þessa æðsta sáttmála. Í þessum altæka samningi skyldu landamæri hverrar þjóðar skýrt afmörkuð; hann skyldi innihalda ákveðin lög, sem fjalla um samskipti ríkisstjórnanna og í honum á að ganga frá öllum alþjóðlegum samningum og skyldum. Á sama hátt skyldi takmarka strengilega vopnabúnað sérhverrar ríkisstjórnar, því ef vopnum og vígbúnaði er leyft að aukast mun það vekja grunsemdir annarra. Grundvallarregla samningsins skyldi vera sú, að ef einhver ríkisstjórn riftir einhverju ákvæði hans munu allar aðrar ríkisstjórnir jarðarinnar rísa gegn henni og beygja hana til algjörrar hlýðni; nei, allt mannkynið skyldi ákveða að eyða þeirri ríkisstjórn með öllum tiltækum ráðum. Ef þessum mikla læknisdómi verður beitt á sjúkan líkama heimsins, mun hann vissulega verða heill af meinum sínum og búa við öryggi og óttaleysi að eilífu.“
Það er löngu orðið tímabært að halda þessa miklu ráðstefnu.
Af dýpstu einlægni hjartna okkar hvetjum við leiðtoga þjóðanna til þess að grípa þetta hallkvæma tækifæri og stíga óafturkallanleg skref til að kveðja saman þennan heimsfund. Öll öfl sögunnar knýja mannkynið til þessarar athafnar sem um alla framtíð mun marka tímamótin þegar bjarmaði af morgni hins langþráða manndómstíma þess.
Munu Sameinuðu þjóðirnar ekki með fullum stuðningi aðildarþjóða sinna leggja sitt af mörkum til þess að háleit markmið þessa dýrlega atburðar nái fram að ganga?
Látum menn og konur, börn og unglinga, skilja eilífa vegsemd þessarar knýjandi gerðar fyrir allar þjóðir og ljá henni fúslega samþykki sitt. Látum þessa kynslóð verða þá kynslóð sem tekur fyrstu skrefin á þessari dýrlegu braut í þróun samfélagslífs á jörðunni.
IV
Ástæðan fyrir bjartsýni okkar er framtíðarsýn sem rís ofar málefnum á borð við útrýmingu styrjalda og myndun stofnana um alþjóðlega samvinnu. Varanlegur friður meðal þjóðanna er nauðsynlegur áfangi en samkvæmt orðum Bahá’u’lláh er hann ekki lokatakmark félagslegrar þróunar mannkynsins. Ofar upphaflegu vopnahléi sem ótti við gereyðingarstyrjöld með kjarnavopnum mun þvinga heiminn til að gera; ofar þeim pólitíska friði sem tortryggnir keppinautar meðal þjóðanna munu semja með tregðu; ofar hagnýtum ráðstöfunum til að skapa öryggi og friðsamlega sambúð; jafnvel ofar þeim mörgu samstarfstilraunum, sem þessi skref gera möguleg, rís hið dýrlega takmark: sameining allra þjóða jarðarinnar í eina allsherjarfjölskyldu.
Óeining er háski, sem þjóðir og kynkvíslir jarðarinnar geta ekki lengur búið við; afleiðingarnar eru of hræðilegar til þess að hægt sé að gera sér þær í hugarlund, of augljósar til að sýna þurfi fram á þær. Fyrir meira en einni öld ritaði Bahá’u’lláh: „Velferð mannkynsins, friður þess og öryggi eru óhugsandi nema og þangað til eining þess hefur verið tryggilega grundvölluð.“ Shoghi Effendi benti á að „allt mannkynið þjáist, væntir þess í örvilnan að verða leitt til einingar og endir bundinn á aldalanga kvalagöngu þess“, og hann bætti við: „Sameining alls mannkynsins er einkenni þess þróunarstigs, sem mannkynið nálgast nú. Eining fjölskyldunnar, kynflokksins, borgríkisins og þjóðarinnar hefur verið reynd og hún tekist. Heimseining er nú það takmark sem hrjáð mannkyn stefnir að. Myndun þjóða er nú lokið. Stjórnleysið sem óskorað fullveldi einstakra þjóða kallar á er að ná hámarki. Heimur á þroskabraut verður að hverfa frá þessu úrelta fyrirkomulagi, viðurkenna einingu og órofa heild mannlegra samskipta og stofnsetja í eitt skipti fyrir öll það skipulag sem best er til þess fallið að framfylgja þessari meginreglu lífsins.“
Öll breytingaröfl nútímans staðfesta þetta sjónarmið. Vitnisburðurinn blasir við í þeim fjölmörgu dæmum sem nefnd hafa verið um heillavænlega forboða komandi heimsfriðar sem birtast í alþjóðahreyfingum og samtímaþróun. Herskari manna og kvenna sem koma frá nánast öllum menningarsvæðum, kynþáttum og þjóðum á jörðinni og sem þjóna margvíslegum stofnunum Sameinuðu þjóðanna eru fulltrúar hnattvíðrar „borgaraþjónustu“ og eftirtektarverð afrek þeirra eru vísbending um það stig samvinnu sem hægt er að ná, jafnvel þar sem kringumstæður geta ekki orðið til að auka mönnum bjartsýni. Einingarhvötin, eins og andlegur vortími, tjáir sig í aragrúa alþjóðaráðstefna þar sem fulltrúar mikils fjölda vísindagreina safnast saman. Hún er hreyfiaflið á bak við ýmis alþjóðleg verkefna sem höfða til barna og unglinga og hvetja til þátttöku þeirra. Í rauninni er hún einnig undirrót hinnar merkilegu alkirkjuhreyfingar þar sem meðlimir sögulega andstæðra trúarbragða og sértrúarflokka virðast dragast ómótstæðilega hver að öðrum. Á þessum lokaáratugum tuttugustu aldarinnar er hvötin til heimseiningar, ásamt þeirri gagnstæðu tilhneigingu til styrjaldarátaka og sjálfsupphafningar sem hún á í stöðugu höggi við, einn umfangsmesti þáttur lífsins á jörðinni.
Reynslu bahá’í samfélagsins má einnig skoða sem dæmi um þessa vaxandi einingu. Það er samfélag 3-4 milljón manna frá mörgum þjóðum, menningarsvæðum, stéttum og trúarbrögðum sem tekur þátt í margbreytilegri starfsemi er þjónar andlegum, félagslegum og efnislegum þörfum fólks í mörgum löndum. Það er ein félagsleg lífræn heild, fulltrúi fyrir fjölbreytileika hinnar mannlegu fjölskyldu og stjórnar málefnum sínum með kerfi meginreglna er lúta að samráði og eru viðteknar af öllum – og það nýtur í jöfnum mæli allra hinna miklu opinberanna guðlegrar leiðsagnar í sögu mannsins. Tilvera þess er enn einn vitnisburðurinn um hve raunhæf sýn stofnanda þess var á sameinuðum heimi; enn ein sönnun þess, að mannkynið getur lifað saman sem eitt hnattrænt samfélag sem geti staðist allar þær þolraunir sem það kann að mæta á þroskabraut sinni. Ef reynsla bahá’í samfélagsins getur með einhverjum hætti stuðlað að því að endurnýja vonina um einingu mannkynsins er okkur ljúft að bjóða hana fram sem fyrirmynd til skoðunar.
Þegar við leiðum hugann að knýjandi mikilvægi þess verkefnis sem nú bíður alls heimsins lútum við höfði í auðmýkt og lotningu frammi fyrir tign hins guðdómlega skapara sem af takmarkalausri ást sinni gerði allt mannkyn af sama efnivið, upphóf geislandi veruleika mannsins, gæddi hann vitsmunum og visku, göfgi og ódauðleika og veitti honum „einstæða eiginleika og hæfni til að þekkja Hann og elska“, en á þessa hæfni „verður að líta sem aflvaka og frumlægan tilgang alls sköpunarverksins“.
Við höfum þá óbilandi sannfæringu að allar mannlegar verur hafi verið skapaðar „til að stuðla að síframsækinni siðmenningu“; og að „hegða sér eins og dýr merkurinnar sé manninum ekki sæmandi“; að þær dyggðir sem hæfa mannlegri reisn séu heiðarleiki, umburðarlyndi, miskunnsemi, samúð og ást til allra þjóða. Við áréttum þá trú okkar að „möguleikarnir, sem eru áskapaðir hinni mannlegu stöðu, forlög mannsins á jörðunni, meðfætt ágæti veruleika hans, hljóti allt að koma í ljós á þessum fyrirheitna degi Guðs“. Þetta eru ástæðurnar fyrir óbilandi trú okkar á því að eining og friður séu hið raunhæfa markmið sem mannkynið keppir að.
Þegar þetta er skrifað má heyra eftirvæntingarfullar raddir bahá’ía þrátt fyrir ofsóknirnar sem þeir verða enn að þola í landinu þar sem trú þeirra fæddist. Með fordæmum staðfestu og vonar bera þeir vitni þeirri trú að uppfylling þessa ævaforna draums njóti nú staðfestingar guðdómlegs valds í krafti hinna umskapandi áhrifa frá opinberun Bahá’u’lláh. Við miðlum ykkur því ekki aðeins framtíðarsýn í orðum: við kveðjum til fulltingis þann kraft sem býr í gerðum sem unnar eru á grundvelli trúar og fórnar; við flytjum áhyggjuþrungna bæn trúsystkina okkar hvarvetna um frið og einingu. Við lýsum yfir samstöðu með öllum sem eru fórnarlömb yfirgangs, öllum sem þrá að endir verði bundinn á deilur og sundurlyndi, öllum sem halda fast við meginreglur friðar og heimsskipulags og vinna þannig að þeim göfgandi áformum sem eru frumorsök þess að allt-elskandi skapari skapaði mannkynið.
Af einlægri löngun til að miðla ykkur af vonum okkar og sannfæringu skírskotum við til hins ótvíræða fyrirheits Bahá’u’lláh: „Þessar tilgangslausu deilur, þessi eyðileggjandi stríð munu líða undir lok og ‚Friðurinn mesti‘ komast á.“
[undirritað: Allsherjarhús réttvísinnar]