Inngangsorð
Hið mikilvæga rit sem gengur undir nafninu Trúarkerfi Bahá’u’lláh var skrifað árið 1934 og skall yfir bahá’íana eins og blindandi hvítt ljós. Ég man að þegar ég las það fyrst greip mig mjög sérstæð tilfinning – mér fannst sem allur alheimurinn hefði skyndilega þanist út í kringum mig og ég horfði á geislandi stjörnum prýtt ómælisdjúp hans; öll ókönnuð svið skilnings okkar víkkuðu í einni sjónhending; dýrð þessa málstaðar og sönn staða höfuðpersóna hans opinberuðust okkur og við urðum aldrei söm og jöfn.
Amatu’l-Bahá Rúḥíyyih Khánum
Til ástvina Guðs og þjónustumeyja Hins miskunnsama á Vesturlöndum.
Samverkamenn í víngarði Guðs:
Þann 23. maí á þessu heillaríka ári mun bahá’í heimurinn fagna því að 90 ár eru liðin frá því að grundvöllurinn var lagður að trú Bahá’u’lláh. Við sem á þessari stundu stöndum á þröskuldi síðasta áratugar fyrstu aldar bahá’í tímans, gerðum rétt í því að staldra við og íhuga leyndardómsfulla ráðsályktun svo tiginnar, svo mikilfenglegrar opinberunar. Hversu víðfeðm, hversu hrífandi er ekki sú yfirsýn, sem níu áratuga framvinda opinberar okkur! Ofurtign hennar er nánast yfirþyrmandi. Það eitt að hugleiða þetta einstæða sjónarspil, að setja sér fyrir hugskotssjónir, þótt ekki sé nema óljóst, aðstæðurnar við fæðingu og stigbundna blómgun þessa æðsta guðveldis; að minnast, þótt ekki sé nema óglöggt, þess þjáningastríðs sem boðaði upphaf og hraðaði framsókn þess, nægir til að sannfæra sérhvern fordómalausan áhorfanda um þau eilífu sannindi sem eru hreyfiaflið í lífi þess og sem munu halda áfram að knýja það fram á við, uns það nær sínum fyrirhugaða sigursessi.
Yfir allt svið þessa gagntakandi sjónarspils gnæfir óviðjafnanleg persóna Bahá’u’lláh, yfirskilvitleg í tíguleik sínum, rósöm, lotningarvekjandi, ótilkvæmilega dýrleg. Nátengd en þó undirgefin, og gefið vald til að ráða með Honum forlögum þessa upphafna trúarkerfis, skín á þessa hugsýn æskufull dýrð Bábsins í takmarkalausri blíðu sinni, ómótstæðilega heillandi, óviðjafnanleg í hetjuskap sínum, án jafnoka að því er varðar átakanlegar kringumstæður sinnar stuttu en viðburðaríku ævi. Og loks stígur fram, þó á sínu eigin sviði og í flokki fullkomlega aðskildum þeim sem þær tvær persónur tilheyra er fóru á undan honum, seiðmagnaður persónuleiki ‘Abdu’l‑Bahá, sem endurspeglar í slíkum mæli þá dýrð og það vald sem opinberendur Guðs einir eru gæddir, að enginn maður, hversu háleit sem staða hans er, getur vænst þess að keppa við hann.
Með uppstigningu ‘Abdu’l‑Bahá, og þó sérstaklega með andláti ástsællar og göfugrar systur hans, Hins helgasta laufs – síðasta eftirlifanda dýrlegrar hetjualdar – lýkur fyrsta og áhrifamesta kafla bahá’í sögunnar, sem jafnframt markar lok hinnar frumstæðu, postullegu aldar bahá’í trúarinnar. Það var ‘Abdu’l‑Bahá, sem með ákvæðum þungvægrar erfðaskrár sinnar, smíðaði þann ómissandi hlekk, sem um alla framtíð mun tengja þá öld, sem nú er liðin, okkar eigin öld: umbreytinga- og mótunaröld trúarinnar – áfanga, sem í fyllingu tímans mun blómgast og bera ávöxt í afrekum og sigrum, sem verða forboðarnir um gullöld opinberunar Bahá’u’lláh.
Heittelskuðu vinir! Þau framsæknu öfl sem á svo undraverðan hátt hafa verið leyst úr læðingi með tilverknaði tveggja sjálfstæðra opinberenda, er birtust hver á fætur öðrum, blasa nú við sjónum okkar og undir umsjá skipaðra forsjónarmanna víðfeðmrar trúar er smám saman verið að hemja þau og aga. Þau eru hægt og hægt að kristallast í stofnanir sem líta verður á sem helsta kennimerki og dýrð þeirrar aldar sem við erum kölluð til að grundvalla og gera ódauðlega með verkum okkar. Því að undir viðleitni okkar núna, og umfram allt undir því hvernig við reynum að laga líf okkar að þeim fordæmum frábærrar hetjulundar sem tengd er nöfnum þeirra sem fóru á undan okkur, hlýtur gagnvirkni þeirra tækja sem við nú mótum að vera komin – tækjanna sem reisa munu innviði þess undursamlega samveldis sem verður tákn um að gullöld trúarinnar er gengin í garð.
Það er ekki áform mitt er ég lít um öxl til þessara ára, sem eru svo auðug af hetjudáðum, að gera tilraun til þó eigi væri nema lauslegs yfirlits yfir þá miklu atburði sem gerst hafa frá 1844 fram á okkar daga. Né heldur er það ætlun mín að skilgreina þau öfl sem hrundu þeim af stað eða meta áhrif þeirra á þjóðir og stofnanir í næstum öllum heimsálfum. Áreiðanlegar heimildir um líf fyrstu átrúendanna á hinu frumstæða tímabili trúar okkar ásamt þaulunnum rannsóknum sem hæfir bahá’í sagnfræðingar munu takast á hendur í framtíðinni, munu sameinast um að miðla komandi kynslóðum svo snjöllum skýringum á sögu þeirrar aldar, að mín eigin viðleitni verður þar ekki hlutgeng. Það sem mér er efst í huga á þessum eggjunartíma í bahá’í sögunni er öllu fremur að vekja athygli þeirra, sem fyrirhugað er að verða meistarasmiðir stjórnskipanar Bahá’u’lláh, á tilteknum grundvallarsannindum sem, er þau eitt sinn hafa verið skýrð, hljóta að verða þeim til ómetanlegs gagns við árangursríka framkvæmd síns mikla verkefnis.
Sú staða á alþjóðlegum vettvangi sem trú Guðs hefur þegar höslað sér krefst þess enn fremur skilyrðislaust að meginreglur hennar séu nú skýrðar með eindregnum hætti. Sá fordæmislausi kraftur sem glæstar gerðir amerísku átrúendanna hafa ljáð framsókn trúarinnar; sá mikli áhugi sem fyrsta Mashriqu’l-Adhkár á Vesturlöndum vekur nú óðfluga meðal ýmissa kynþátta og þjóða; uppbygging og samfelld treysting bahá’í stofnana í eigi færri en fjörutíu þróuðustu löndum heims; dreifing bahá’í lesefnis á ekki færri en tuttugu og fimm útbreiddustu tungumálum heims; árangurinn sem náðst hefur í landsvíðri viðleitni persnesku átrúendanna, er þeir nú hafa stigið fyrstu skrefin til að setja á stofn í nágrenni höfuðborgar lands síns þriðja Mashriqu’l-Adhkár í bahá’í heiminum; ráðstafanir sem þeir nú gera til að mynda þegar í stað fyrsta andlega þjóðarráð sitt, fulltrúa hagsmuna yfirgnæfandi meirihluta bahá’í fylgjendanna; áformuð bygging enn einnar stoðar Allsherjarhúss réttvísinnar, hinnar fyrstu sinnar tegundar sunnan miðbaugs; vitnisburður, bæði munnlegur og skriflegur, sem stríðandi trú hefur fengið frá konungbornu fólki, stjórnstofnunum, alþjóðlegum dómstólum og kirkjuhöfðingjum; hin almenna athygli sem hún hefur vakið vegna ásakana sem óþreytandi óvinir hennar, gamlir sem nýir, hafa borið fram á hendur henni; formleg lausn hluta fylgjenda hennar úr viðjum íslamsks rétttrúnaðar í landi sem líta má á sem hið upplýstasta meðal íslamskra þjóða – allt þetta ber glöggt vitni því vaxandi afli sem knýr ósigrandi samfélag Hins mesta nafns fram á við til lokasigurs.
Heittelskuðu vinir! Vegna þeirra ábyrgðar- og skyldustarfa sem mér sem Verndara trúar Bahá’u’lláh er falið að rækja, tel ég mér skylt að leggja sérstaka áherslu á viss grundvallarsannindi sem trú okkar byggir á og við verðum að standa vörð um, nú þegar athygli almennings beinist að okkur í auknum mæli. Sé þessara sanninda einarðlega gætt og þau aðlöguð lífi samfélagsins á réttan hátt, er ég þess fullviss að þau munu verða til þess að efla mjög andlegt líf okkar og verða til mikillar hjálpar í andófi gegn vélabrögðum árvökuls og þverúðarfulls óvinar.
Það er óhaggandi sannfæring mín að sérhver dyggur átrúandi ætti að líta á það sem skyldu sína og stöðugt keppikefli að reyna að fá betri skilning á þýðingu mikilfenglegrar opinberunar Bahá’u’lláh. Alhliða og gjörtækur skilningur á svo umfangsmiklu kerfi, svo voldugri opinberun, svo heilagri trúnaðargjöf, er augljóslega ofar getu takmarkaðra huga okkar. Á hinn bóginn getum við – og það er heilög skylda okkar er við störfum að útbreiðslu trúar Hans – sótt nýjan innblástur og aukinn styrk í skýrari skilning á sannindunum sem hún geymir og meginreglunum sem hún byggir á.
Í bréfi til amerísku vinanna vísaði ég, í útskýringu minni á stöðu Bábsins, í stuttu máli til óviðjafnanlegs mikilleika þeirrar opinberunar sem Hann kvað sjálfan sig ryðja braut í undirgefni. Sem opinberandi Guðs var Hann slíkrar stærðar að Bahá’u’lláh hafði í Kitáb-i-Íqán vegsamað Hann sem hinn fyrirheitna Qá’im er hafði birt ekki færri en 25 af þeim 27 bókstöfum sem öllum spámönnunum samanlagt var ætlað að birta. Sjálfur bar Bábinn vitni ágæti þeirrar æðri opinberunar sem brátt átti að taka við af Hans eigin. „Fræið,“ staðhæfir Bábinn í persneska Bayáninum, „sem ber í sér eiginleika þeirrar opinberunar sem er fyrirhuguð býr yfir mætti sem er meiri en samanlagðir kraftar allra þeirra sem fylgja Mér.“ „Af öllu því lofi,“ segir Hann enn, „sem Ég hef borið á þann sem á að koma á eftir Mér er þetta mest: Skrifleg játning Mín þess efnis að ekkert orða Minna getur lýst Honum til fulls og engin vísan til Hans í bók Minni, Bayáninum, gert málstað hans rétt til.“ Í sömu bók gefur Hann þessa afdráttarlausu yfirlýsingu: „Bayáninn og allt sem í honum er snýst um orð ,Hans sem Guð mun birta‘, líkt og Alif (guðspjöllin) og allt sem í þeim var snérist um orð Múhameðs, postula Guðs.“ „Að lesa Bayáninn þúsund sinnum,“ segir Hann enn fremur, „getur ekki jafnast á við að lesa eitt af helgiorðum ,Hans sem Guð mun birta‘… Í dag er Bayáninn eins og sáðkornið. Í upphafi opinberunar ,Hans sem Guð mun birta‘ mun endanleg fullkomnun þessa sáðkorns koma í ljós.… Bayáninn og þeir sem á hann trúa þrá Hann heitar en nokkur elskhugi ástmey sína.… Bayáninn þiggur alla sína dýrð frá ,Honum sem Guð mun birta‘. Öll blessun veitist þeim sem á Hann trúir og vei þeim sem afneitar sannleika Hans.“
Er Bábinn beindi orðum sínum til Siyyid Yaḥyáy-i-Dárábí, nefndan Vahíd, lærðasta, mælskasta og áhrifamesta fylgjanda síns, mælti Hann þessi varnaðarorð: „Ég sver við réttlæti Hans sem með mætti sínum lætur fræið spíra og blæs í alla hluti anda lífsins – væri Ég þess fullviss að þú afneitaðir Honum á degi birtingar Hans, mundi Ég hiklaust vísa þér frá Mér og hafna trú þinni.… Væri Mér hins vegar sagt að kristinn maður sem enga hollustu hefði sýnt trú Minni hefði trúað á Hann, liti Ég á þann mann sem sjálfan augastein Minn.“
Í einni af bænum sínum biður Hann svo til Bahá’u’lláh: „Upphafinn sért Þú, ó Drottinn minn alvaldur! Hve smátt og auvirðilegt er orð mitt og allt sem mér tilheyrir, ef það tengist ekki máttugri dýrð Þinni. Veit með aðstoð náðar Þinnar að hvaðeina sem lýtur að mér megi vera boðlegt fyrir ásýnd Þinni.“
Í Qayyúmu’l-Asmá’ – skýringarriti við Súru Jósefs – sem Höfundur Íqáns kallaði „fyrstu, mestu og máttugustu“ bókina sem Bábinn opinberaði, lesum við eftirfarandi tilvísanir til Bahá’u’lláh: „Úr algjörri eiveru, ó mikli og almáttugi Meistari, hefur Þú fyrir guðdómlega getu valds Þíns kallað mig fram og reist mig upp til að boða þessa opinberun. Ég hef ekki haldið fast við vilja neins nema Þín… Ó Þú leifð Guðs! Ég hef fórnað mér fullkomlega sakir Þín: Þín vegna hef ég látið mér lynda bölbænir og ekkert þráð nema píslarvættið á vegi ástar Þinnar. Nægilegt vitni er mér Guð, hinn upphafni, verndarinn, hinn aldni.“ Hann ávarpar Bahá’u’lláh aftur í sama skýringarriti: „Birt Þú, þegar hin fyrirheitna stund er upprunnin, með leyfi Guðs, hins alvitra, af hæðum hins dulhjúpaða, upphafnasta fjalls, daufan, óendanlega lítinn glampa af leyndardómi Þínum, svo að þeir sem hafa borið kennsl á birtu ljóssins frá Sínaí falli í öngvit og deyi, er þeir sjá leiftrið af því dimmrauða og heiftuga ljósi sem umlykur opinberun Þína.“
Sem frekari vitnisburð um mikilleik þeirrar opinberunar sem kennd er við Bahá’u’lláh, má nefna eftirfarandi útdrætti úr töflu frá ‘Abdu’l‑Bahá til mikils háttar fylgjanda trúarinnar sem alinn var upp í saraþústratrú: „Þú hefur ritað að í helgum bókum þeirra sem fylgja Saraþústra standi skrifað, að á síðustu dögunum í þremur sérstökum trúarkerfum muni sólin staðnæmast á festingunni. Því er spáð að á fyrsta tímabilinu standi sólin kyrr í tíu daga; á því næsta helmingi lengur; á hinu þriðja eigi skemur en einn mánuð. Ráðning þessa spádóms er sem hér segir: Fyrsta tímabilið á við trúarkerfi Múhameðs, en þá stóð sólin kyrr í tíu daga. Reikna þér öld fyrir hvern dag. Trúarkerfi Múhameðs hlýtur því að hafa varað eigi skemur en í eitt þúsund ár, sem er einmitt sá tími sem leið frá því að stjarna ímamadæmisins gekk til viðar og þar til trúarkerfi Bábsins hófst. Annað tímabilið sem vísað er til í spádómnum er það sem Bábinn hratt sjálfur af stað og hófst árið 1260 e.H. en lauk árið 1280 e.H. Hvað varðar þriðja trúarkerfið – opinberunina sem er boðuð af Bahá’u’lláh – þar eð sól sannleikans skín í þeirri stöðu í fyllingu hádegisljóma síns, hefur kyrrstaða hennar verið bundin við einn mánuð sem er sá tími sem það tekur sólina að fara í gegnum eitt merki í dýrahringnum. Af þessu getur þú ráðið lengd bahá’í tímans – hann hlýtur að spanna yfir að minnsta kosti fimm hundruð þúsund ár.“
Af orðum þessarar skorinorðu og óvéfengjanlegu túlkunar svo gamals spádóms er auðsætt hvílík nauðsyn það er fyrir sérhvern dyggan fylgjanda trúarinnar að viðurkenna guðlegan uppruna trúarkerfis Múhameðs og halda í heiðri sjálfstæða stöðu þess. Gildi ímamadæmisins er auk þess beinlínis staðfest í þessum sömu orðum – en sjálfur átti Bábinn ætt sína að rekja til tignasta meðlims þessarar guðlega áformuðu stofnunar – sem í ekki færri en 260 ár var útvalinn farvegur leiðsagnar Hins almáttuga og hirsla annarrar af tveimur dýrmætustu trúararfleifðum íslams.
Við verðum einnig að viðurkenna að þessi sami spádómur er vitnisburður um sjálfstæð einkenni bábí-trúarkerfisins og rennir óbeinlínis stoðum undir þann sannleika að sérhver opinberandi Guðs hljóti í samræmi við meginregluna um stighækkandi opinberun að miðla samtíma sínum fyllri mæli guðlegrar handleiðslu en eldri og ónæmari tíð gæti hafa þegið úr höndum Hans eða kunnað að meta. Af þessum sökum, en ekki vegna einhverrar æðri verðskuldunar sem segja mætti eðlislæga bahá’í trúnni, ber þessi spádómur vitni þeirri óviðjafnanlegu dýrð og valdi sem opinberun Bahá’u’lláh hefur verið gædd. Það er fyrst nú sem við getum skynjað möguleikana sem í henni felast; við getum hins vegar aldrei gert okkur grein fyrir öllu umfangi hennar.
Ef við viljum vera trú öllum þeim feiknlegu kröftum sem boðskapur hennar felur í sér verðum við að líta á trú Bahá’u’lláh sem hámark og lokastig undanfarandi, árangursríkra og stighækkandi opinberana. Þær hefjast með Adam og þeim lýkur með Bábinum; þær hafa rutt braut og boðað með síauknum þunga komu þess dags allra daga þegar Hann sem er fyrirheit allra alda stígur fram á foldu.
Þessum sannleika bera orð Bahá’u’lláh nægilegt vitni. Stutt skírskotun til þess tilkalls sem Hann sjálfur hefur áréttað máttugum orðum og knýjandi valdi hlýtur að leiða í ljós til fulls sérkenni þeirrar opinberunar sem Hann var valinn til að flytja mönnunum. Ef við viljum öðlast betri skilning á mikilvægi hennar og þýðingu ættum við að beina athygli okkar að orðunum sem streymt hafa frá penna Hans – uppsprettu þeirrar opinberunar sem flæðir fram af slíkum ofsa. Bæði í framsetningu þess fordæmislausa tilkalls sem Hann gerði og í skírskotunum Hans til þeirra leyndardómsfullu krafta sem Hann hefur leyst úr læðingi; bæði í þeim helgigreinum sem vegsama dýrð hins langþráða dags Hans og þeim sem mikla stöðuna sem þeim muni hlotnast sem borið hafa kennsl á huldar dyggðir Hans, hefur Bahá’u’lláh, og í nærfellt sama mæli Bábinn og ‘Abdu’l‑Bahá, látið síðari tímum eftir svo óviðjafnanlega fjársjóði að ekkert okkar sem þessari kynslóð tilheyrir getur réttilega metið þýðingu þeirra. Vitnisburðirnir um þetta efni eru þrungnir slíkum mætti og birta þvílíka fegurð að aðeins þeir sem skilja til hlítar tungumálin sem þeir voru upprunalega opinberaðir á geta sagt sig hafa metið þá að verðleikum. Fjöldi þessara vitnisburða er slíkur að til að gera skil á þeim helstu þyrfti að skrifa heilt bindi. Ég get á þessari stundu aðeins leyft mér að deila með ykkur þeim greinum sem ég hef getað valið úr hinum umfangsmiklu helgiritum Hans.
„Ég ber vitni frammi fyrir Guði,“ segir Bahá’u’lláh, „um mikilleika, ómælanlegum mikilleika þessarar opinberunar. Aftur og aftur höfum Vér í flestum töflum Vorum borið vitni þessum sannleika, svo að mannkynið megi vakna af gáleysi sínu.“ „Í þessari máttugustu opinberun,“ kunngerir Hann ótvírætt, „hafa öll trúarkerfi fortíðar náð sinni hæstu og endanlegu fullkomnun. Það sem hefur verið birt í þessari ágætustu, þessari upphöfnustu opinberun er án fordæma í annálum fortíðar og framtíðin mun ekki sjá hennar líka.“ „Það er Hann,“ kunngerir Hann enn fremur, vísandi til sín sjálfs, „sem nefndur var Jehóva í Gamla testamentinu, Andi sannleikans í guðspjöllunum og sem hylltur var í Kóraninum sem Boðunin mikla.“ „Ef ekki hefði verið fyrir Hann hefði enginn boðberi Guðs skrýðst spámannsmöttli og ekkert helgirit opinberað. Þessu ber vitni allt sem skapað er.“ „Orðið sem hinn eini sanni Guð mælir á þessum degi er gætt upphöfnum og einstæðum auðkennum jafnvel þótt það sé hversdagslegast og algengast allra orða.“ „Enn skortir allan þorra mannkynsins þroska. Hefði hæfni þess verið nægilega mikil hefðum Vér úthellt þekkingu Vorri yfir það af slíku örlæti að allir sem dvelja á jörðu og himni hefðu í krafti náðarinnar sem streymir frá penna Vorum orðið algjörlega óháðir allri þekkingu nema þekkingunni á Guði og hlotið trygga staðfestu í hásæti varanlegrar rósemi.“ „Ég staðfesti hátíðlega frammi fyrir Guði að Penni heilagleikans hefur ritað á snjóhvíta brún Mína geislandi dýrðarletri þessi glóandi, ilmsætu og heilögu orð: ‚Sjáið allir sem á jörðu dveljið og berið vitni þér íbúar himinsins: Hann er í sannleika ástvinur yðar. Aldrei hefur heimur sköpunarinnar séð jafningja Hans sem með undursamlegri fegurð sinni hefur glatt auga Guðs, yfirbjóðandans, hins almáttka, hins óviðjafnanlega!‘“
Bahá’u’lláh ávarpar alla kristna menn þessum orðum: „Þér sem fylgið guðspjöllunum. Lítið hlið himinsins opin á gátt. Hann sem steig upp þangað er nú kominn aftur. Ljáið eyra rödd Hans sem kallar hátt yfir hafið og storðina og kunngerir öllu mannkyni komu þessarar opinberunar. Með fulltingi hennar boðar Tunga tignarinnar á þessari stundu: ,Sjá, fyrirheitið heilaga hefur verið efnt, því Hann, hinn fyrirheitni, er kominn!‘“ „Rödd Mannssonarins hrópar hátt frá dalnum heilaga: ,Hér er ég, hér er ég, ó Guð, Guð minn!‘… og frá hinum brennandi þyrnirunna berst ákallið: ,Sjá, þrá heimsins hefur verið birt í yfirskilvitlegri dýrð sinni!‘ Faðirinn er kominn. Það sem yður var heitið í ríki Guðs hefur verið uppfyllt. Þetta er orðið sem Sonurinn hjúpaði blæju er Hann sagði við þá sem hjá Honum voru að þeir gætu ekki borið það enn… Vissulega er Andi sannleikans kominn til að leiða yður í allan sannleika… Hann er sá sem gerði Soninn dýrlegan og upphóf málstað Hans…“ „Huggarinn sem allar ritningar lofuðu að koma myndi er nú kominn svo að Hann geti opinberað yður alla þekkingu og visku. Leitið Hans um gjörvallt yfirborð jarðarinnar að yður megi auðnast að finna Hann.“
„Kalla til Síonar, ó Karmel,“ ritar Bahá’u’lláh, „og kunnger fagnaðartíðindin: ,Hann sem var hulinn augum dauðlegra manna er kominn! Alltsigrandi yfirráð Hans eru opinberuð; alltumlykjandi dýrð Hans hefur birst… Haf hraðann á og gakk umhverfis borg Guðs sem hefur stigið niður af himnum, hina himnesku Kaaba. Um hana hafa þeir sem njóta hylli Guðs, hinir hjartahreinu og fylkingar göfugustu engla, hringsólað í lotningarfullri tilbeiðslu.‘“ „Ég er sá,“ staðfestir Hann í öðru samhengi, „sem tunga Jesaja lofsöng og bæði Gamla testamentið og guðspjöllin hafa skrýðst nafni Mínu.“ „Dýrð Sínaí hefur hraðað sér að hringsóla um sól þessarar opinberunar og frá hæðum ríkisins heyrist rödd Guðssonarins kunngera: ,Rísið upp, ó þér hinir stoltu á jörðunni og hraðið yður til Hans.‘ Karmel hefur í þrá og aðdáun hraðað sér á þessum degi til hirðar Hans og frá hjarta Síonar berst kallið: ,Fyrirheit allra alda hefur nú verið uppfyllt. Það sem var boðað í helgum ritum Guðs, hins elskaða, hins hæsta, hefur verið opinberað.‘“ „Andvari hefur hrært Ḥijáz flytjandi tíðindin um fagnaðarríka endurfundi. ,Lof sér Þér,‘ heyrum Vér hana hrópa, ,ó Drottinn minn, hinn hæsti. Ég var sem líflaus vegna aðskilnaðar frá Þér; andvarinn sem þrunginn var ilmi návistar Þinnar hefur vakið mig aftur til lífsins. Sæll er sá sem snýr sér til Þín og vei hinum villuráfandi.‘“ „Ég sver við hinn eina sanna Guð: Elía hefur hraðað sér til hirðar Minnar og hringsólar um hásæti dýrðar Minnar á degi og nóttu.“ „Salómon í allri sinni tign hringsólar um Mig í tilbeiðslu á þessum degi og mælir þessi upphöfnustu orð: ,Ég hef snúið ásjónu minni til Þín, ó Þú almáttugi stjórnandi heimsins! Ég er fullkomlega fráhverfur öllu sem mér heyrir og þrái það eitt sem Þú átt.‘“ „Hefði Múhameð, postuli Guðs, lifað á þessum degi,“ skrifar Bahá’u’lláh í töflu sem opinberuð var kvöldið áður en Hann lagði af stað í útlegðina til refsinýlendunnar ‘Akká, „hefði Hann hrópað: ,Vissulega hef ég borið kennsl á Þig, ó Þú sem hinir himnesku boðberar þráðu!‘ Hefði Abraham upplifað hann hefði Hann einnig fallið fram og hrópað í algjörri auðmýkt frammi fyrir Drottni, Guði þínum: ,Hjarta mitt er fullt af friði, ó Þú Drottinn allra sem eru á himnum og jörðu! Ég ber því vitni að Þú hefur afhjúpað frammi fyrir augliti mínu alla dýrð valds Þíns og óskoraða tign laga Þinna!‘… Hefði Móses sjálfur upplifað hann hefði Hann einnig hafið upp raust sína og sagt: ,Allt lof sé Þér fyrir að hafa látið ljós ásýndar Þinnar rísa yfir mig og skipað mér í flokk þeirra sem orðið hafa þeirrar náðar aðnjótandi að líta andlit Þitt!‘“ „Norðrið og suðrið hafa bifast af kallinu sem boðar komu opinberunar Vorrar. Vér heyrum rödd Mekku kalla: ,Allt lof sé Þér, ó Drottinn Guð minn, hinn aldýrlegi, fyrir að hafa látið leika um mig andblæ þrunginn ilmi návistar Þinnar!‘ Jerúsalem kallar sömuleiðis hástöfum: ,Lofaður og miklaður sért Þú, ó ástvinur jarðar og himins, fyrir að hafa breytt sársauka aðskilnaðar við Þig í fögnuð lífgefandi endurfunda!‘“
Bahá’u’lláh ritar eftirfarandi með það fyrir augum að opinbera til fulls getu ósigrandi valds síns: „Við réttlæti Guðs, rísi maður upp einn síns liðs í nafni Bahá og klæðist brynju ástar Hans, mun Hinn almáttugi gera hann sigursælan þótt öfl himins og jarðar fylki sér gegn honum.“ „Ég sver við hinn eina Guð! Skyldi einhver rísa upp til sigurs fyrir málstað Minn mun Guð gera hann sigursælan þótt tugþúsundir óvina fylki sér í gegn honum. Og ef ást hans til Mín vex mun Guð staðfesta sigur hans yfir öllum öflum jarðar og himins. Þannig höfum Vér innblásið öll svæði anda máttarins.“
Með svofelldum orðum hrósar Hann þeirri öld sem orðið hefur vitni að opinberun Hans: „Þetta er konungur daga, dagurinn sem litið hefur komu Hins ástkærasta, Hans sem um alla eilífð hefur verið hylltur sem þrá heimsins.“ „Heimur verundar skín á þessum degi af ljóma þessarar guðlegu opinberunar. Allt hið skapaða vegsamar hjálpræði hennar og syngur henni lof. Alheimurinn er sveipaður sælu gleði og fagnaðar. Helgirit fyrri trúarkerfa fagna þeirri miklu hátíð sem hlýtur að heilsa þessum almesta degi Guðs. Heill þeim sem hefur lifað til að sjá þennan dag og borið kennsl á stöðu hans.“ „Ef mannkynið gæfi verðskuldaðan gaum, þótt ekki væri nema einu orði slíks hróss, mundi það fyllast slíkum unaði að það yrði agndofa og lostið furðu. Frá sér numið mundi það síðan skína geislandi yfir sjónhring sanns skilnings.“
„Sýnið sanngirni, ó þjóðir heimsins,“ hvetur Hann mannkynið, „er það rétt og við hæfi að þér dragið í efa vald Hans sem ,sá er ræddi við Guð‘ (Móses) þráði að dveljast návistum við? ,Ástvinur Guðs‘ (Múhameð) þráði að líta fegurð ásýndar Hans; ,Andi Guðs‘ (Jesús) reis upp til himins fyrir vald ástar Hans; ,Frumpunkturinn‘ (Bábinn) fórnaði fyrir Hann lífi sínu.“ „Grípið tækifærið,“ áminnir Hann fylgjendur sína, „því að eitt andartak á þessum degi er ágætara öldum liðins tíma… Hvorki sól né máni hafa orðið vitni að slíkum degi sem þessum… Það er augljóst að sérhver öld sem opinberandi Guðs lifir á er guðlega áformuð og hana má í vissum skilningi nefna tilsettan dag Guðs. Þessi dagur er þó einstæður og hann ber að greina frá fyrri dögum. Heitið ‚innsigli spámannanna‘ lýsir til fulls hárri stöðu hans.“
Er Bahá’u’lláh fjallar um þau öfl sem fólgin eru í opinberun Hans segir Hann: „Með hreyfingu penna dýrðar Vorrar höfum Vér að boði Hans sem öllu ræður blásið nýju lífi í sérhvern líkama og gætt sérhvert orð nýrri hæfni. Allt sem skapað er ber vitni þessari heimsumlykjandi endurnýjun.“ „Þetta eru,“ bætir Hann við, „mestu og fagnaðarríkustu tíðindin sem penni Hins rangtleikna flytur mannkyninu.“ „Hversu mikill,“ segir Hann í annarri helgigrein, „er ekki þessi málstaður! Hve ofurþung er ekki byrðin af boðskap hans! Þetta er dagurinn, sem sagt hefur verið um: ,Ó sonur minn! Vissulega mun Guð leiða allt fram í dagsljósið, jafnvel þótt það sé ekki stærra en mustarðskorn og sé hulið í klettinum eða á himnunum eða í jörðunni; því að Guð er hinn gjörhuguli, allt-upplýsti.‘“ „Við réttlæti hins eina sanna Guðs! Ef örsmár gimsteinn hefur týnst og grafist undir grjótskriðu og liggur falinn handan hafanna sjö mun hönd Hins alvalda vissulega opinbera hann á þessum degi, hreinan og flekklausan.“ „Sá sem drekkur af vötnum opinberunar Minnar mun smakka allan þann óspillanlega unað sem ákvarðaður er af Guði frá því upphafi sem ekkert upphaf þekkir til þeirra endaloka sem engin endalok þekkja.“ „Sérhver bókstafur sem útgengur af munni Vorum er gæddur slíku endurskapandi afli að hann getur kallað til lífs nýja sköpun, og stærð hennar og umfang er órannsakanlegt öllum nema Guði. Hann hefur vissulega þekkingu á öllum hlutum.“ „Það stendur í Voru valdi, ef Vér óskuðum þess, að láta eitt svífandi ar fæða af sér á einu augabragði óteljandi og óumræðilega geislandi sólir, að gera einn daggardropa að aragrúa víðáttumikilla úthafa og gæða sérhvern bókstaf slíku afli að hann geti afhjúpað alla þekkingu liðinna og ókominna alda.“ „Vér erum gæddir slíku valdi að væri það fært fram í dagsljósið myndi það breyta banvænasta eitri í óbrigðult græðilyf.“
Bahá’u’lláh lýsir stöðu hins sanna átrúanda með þessum hætti: „Ég sver við þær sorgir sem hrjá fegurð Hins aldýrlega! Slík er staðan sem fyrirhuguð er hinum sanna átrúanda að ef dýrð hennar yrði opinberuð mannkyni jafnvel í minna mæli en nálarauga myndi sérhver áhorfandi tærast upp í löngun sinni til að hljóta hana. Af þessum sökum hefur það verið ákveðið að dylja slíkum átrúanda fullan mæli dýrðar hans eigin stöðu.“ „Væri blæjunni svipt frá,“ segir Hann enn fremur, „og augun sæju dýrðina sem upplýsir stöðu þeirra sem hafa snúið sér algjörlega til Guðs, yrði öll sköpunin agndofa.“
Þegar Bahá’u’lláh leggur áherslu á háleit einkenni opinberunar sinnar samanborið við undangengin trúarkerfi, staðhæfir Hann: „Ef allir menn á jörðunni eignuðust þá krafta og eigindir sem féllu í hlut bókstöfum Hins lifanda, útvöldum lærisveinum Bábsins – en staða þeirra var tíu þúsund sinnum dýrlegri en nokkur staða sem postulunum til forna hlotnaðist – og ef þeir, allir sem einn, hikuðu eitt andartak við að viðurkenna ljós opinberunar Minnar mundi trú þeirra ekkert stoða þeim og þeim verða skipað í flokk hinna vantrúuðu.“ „Svo feiknleg er úthelling guðlegrar miskunnsemi í þessu trúarkerfi að ef dauðlegir fingur byggju yfir nógu mikilli hæfni til að skrifa niður helgigreinarnar mundu á einum degi og einni nóttu streyma niður jafngildi alls persneska Bayánsins.“
„Gætið að viðvörun Minni, þér þegnar Persíu,,“ segir Hann við samlanda sína. „Láti Ég lífið af yðar völdum mun Guð vissulega reisa upp þann sem kemur í Minn stað, því að sú var aðferð Guðs á umliðnum öldum og enga breytingu finnið þér á aðferðum Guðs.“ „Reyni þeir að slökkva ljós Hans á meginlandinu mun Hann í sannleika hefja upp höfuð sitt í miðju hjarta hafsins og kunngera hárri raustu: ,Ég er lífgjafi heimsins!‘… Og varpi þeir Honum í dimma gröf munu þeir líta Hann sitjandi á hæstu hæðum jarðarinnar og kalla til mannkynsins: ,Sjá, þrá heimsins er komin í tign sinni, yfirráðum og yfirskilvitlegu veldi!‘ Og verði Hann grafinn í iðrum jarðar mun andi Hans rísa upp til hápunkts himinsins og kunngera þessi boð: ,Sjáið komu dýrðarinnar; verið sjónarvottar að ríki Guðs, hins sannhelga, hins náðuga, hins alvolduga.‘“ Önnur furðuvekjandi yfirlýsing hljóðar svo: „Í kverkum þessa Æskumanns er fanginn hljómur sem yrði þess valdandi, þótt ekki væri birt nema ómælanlega lítið brot af honum, að fjöllin yrðu að dusti, lauf trjánna týndu lit sínum og ávöxtum, öll höfuð beygðu sig í vegsömun og allar ásjónur sneru sér í tilbeiðslu til þessa alvolduga Stjórnanda sem á ýmsum tímum og með ýmsum hætti birtist eins og eyðandi eldur eða brimandi haf eða geislandi ljós eða tré sem er rótfast í jarðvegi heilagleikans og teygir greinar sínar og breiðir út lim sitt ofar hásæti ódauðlegrar dýrðar.“
Þegar Hann lýsir því kerfi sem óstöðvandi valdi laga Hans var síðar meir fyrirhugað að birta, ritar Hann: „Veröldin hefur gengið úr skorðum vegna altæks áhrifavalds þessa nýja og æðsta heimsskipulags. Skipulögðu lífi mannkynsins hefur verið umbylt fyrir atbeina þessa einstæða, undursamlega kerfis hvers líka dauðleg augu hafa aldrei séð.“ „Hönd almættisins hefur stofnsett opinberun sína á óvinnandi og varanlegri undirstöðu. Stormar mannlegra deilna megna ekki að grafa undan stoðum þess né flóknum kennisetningum að skaða innviði þess.“
Í Súratu’l-Haykal, einu af mest áeggjandi verkum Bahá’u’lláh, eru skráðar eftirfarandi helgigreinar og vitnar sérhver þeirra um þann ómótstæðilega kraft sem opinberuninni sem Hann kunngerði hefur verið ljáður: „Í musteri Mínu er ekkert að sjá nema musteri Guðs og í fegurð Minni fegurð Hans og í verund Minni verund Hans og í sjálfi Mínu sjálf Hans og í hreyfingu Minni hreyfing Hans og í undirgefni Minni undirgefni Hans og í penna Mínum penni Hans, hins máttuga, hins altignaða. Í sálu Minni hefur ekkert verið nema sannleikurinn og í Mér sjálfum var ekkert að sjá nema Guð.“ „Sjálfur heilagur andi hefur verið skapaður með atbeina eins bókstafs sem var opinberaður af þessum mesta Anda, ef þér tilheyrið þeim sem skilja.“… „Í fjárhirslum visku Vorrar er fólgin þekking sem er þess eðlis að ef Vér kysum að birta mannkyninu eitt orð hennar mundi það opna auga sérhverrar mannveru fyrir birtingu Guðs og fá hana til að viðurkenna alvisku Hans, gera hverjum og einum kleift að afhjúpa leyndardóma allra vísinda og öðlast svo háa stöðu að þeir yrðu fullkomlega óháðir öllum lærdómi liðinna og ókominna tíma. Vér búum einnig yfir annars konar þekkingu en getum ekki opinberað einn einasta bókstaf hennar né sjáum Vér þess merki að mannkynið sé til þess hæft að heyra minnstu skírskotun til merkingar hennar. Þannig höfum Vér frætt yður um þekkingu Guðs, hins alvitra, hins alvísa.“ „Sá dagur nálgast þegar Guð mun með tilverknaði vilja síns reisa upp kynstofn manna sem í eðli sínu verður órannsakanlegur öllum nema Guði, hinum almáttuga og sjálfumnóga.“ „Hann mun áður en langt um líður kalla fram úr skauti valds hendur yfirráða og máttar – hendur sem munu rísa upp og vinna sigra fyrir þennan Æskumann og hreinsa mannkynið af saurgun úrhraksins og hinna óguðlegu. Þessar hendur munu gyrða lendar sínar til að berjast fyrir trú Guðs og munu í Mínu nafni, hins sjálfumnóga, hins máttuga, yfirbuga þjóðir og kynkvíslir jarðar. Þeir munu ganga inn í borgirnar og ljósta hjörtu allra íbúa þeirra ótta. Slíkir eru vitnisburðir máttar Guðs, hve ægilegur, hve heiftugur er máttur Hans!“
Slíkur er, heittelskuðu vinir, skriflegur vitnisburður Bahá’u’lláh um eðli opinberunar Hans. Ég hef þegar vitnað til yfirlýsinga Bábsins, en sérhver þeirra rennir traustum stoðum undir sannleika þessara þungvægu fullyrðinga. Ég á nú aðeins eftir að íhuga í þessu sambandi þá kafla í ritum ‘Abdu’l‑Bahá, skipaðs túlkanda þessara sömu ummæla, sem varpa frekara ljósi á og skýra ýmsa þætti þessa heillandi viðfangsefnis. Orðfæri hans er að sönnu jafn skýrt og hylling hans ekki síður brennheit en Bahá’u’lláh og Bábsins.
„Aldir, nei, árþúsundir hljóta að líða,“ segir hann í einni af fyrstu töflum sínum, „áður en sól sannleikans skín aftur í miðsumarljóma sínum eða stígur upp á ný í geislum vorlegrar dýrðar sinnar… Hversu djúpa þökk ber okkur ekki að sýna fyrir að hafa á þessum degi orðið aðnjótandi svo undursamlegrar hylli! Ef aðeins við hefðum þúsund líf svo við gætum fórnað þeim öllum í þakkarskyni fyrir svo fágæt forréttindi, svo dýrmætan feng, svo ómetanlega náð!“ „Það eitt að íhuga,“ bætir hann við, „trúarkerfið sem Hin blessaða fegurð stofnsetti hefði nægt til að gagntaka dýrlinga fyrri alda – dýrlinga sem þráðu að eignast hlutdeild, þótt ekki væri nema eitt andartak, í dásamlegri dýrð þess.“ „Heilagir menn liðinna alda og árþúsunda hafa hver og einn þráð tárvotum augum að lifa, þótt ekki væri nema örskotsstund, á degi Guðs. Með þrá sína óslökkta hurfu þeir yfir til hins mikla lífs handan þessa. Hversu mikil er því ekki hylli Abhá fegurðarinnar sem þrátt fyrir algjöra óverðskuldun okkar hefur í náð sinni og miskunn blásið í okkur anda lífsins á þessari guðdómlega uppljómuðu öld, safnað okkur undir fána Ástvinar heimsins og áformað að sýna okkur hylli sem mikilmenni liðinna alda þráðu án árangurs.“ „Sálir hinna elskuðu meðal herskaranna á hæðum,“ segir hann enn fremur, „heilagir íbúar hinnar upphöfnustu paradísar, brenna á þessum degi af löngun eftir að snúa aftur til þessa heims til þess að þeim auðnist að veita þá þjónustu sem í þeirra valdi stendur við fótskör Abhá fegurðarinnar.“
„Ljómi dýrlegrar miskunnsemi Guðs,“ segir hann í helgigrein þar sem vísað er til vaxtar og áframhaldandi þróunar trúarinnar, „hefur umlukið þjóðir og kynkvíslir jarðarinnar og öll veröldin baðast í skínandi dýrð hennar… Sá dagur mun brátt koma þegar ljós himneskrar einingar hefur svo gagntekið austrið og vestrið að enginn maður dirfist lengur að virða það að vettugi.“ „Í heimi verundarinnar hefur hönd guðlegs valds grundvallað tryggilega þessa alhæstu náð og þessa undursamlegu gjöf. Hvaðeina sem dulið er í hjarta þessarar helgu hringrásar mun smám saman birtast og koma í ljós, því nú sjáum við aðeins upphaf vaxtar þess, árdagsljómann frá sól opinberunar tákna þess. Áður en þessari öld og þessu tímabili lýkur mun það verða augljóst og óvéfengjanlegt hve undursamlegur sá vortími var og hve himnesk sú gjöf!“
Til staðfestingar á upphafinni stöðu hins sanna átrúanda sem Bahá’u’lláh talar um opinberar hann eftirfarandi: „Staðan er sá mun hljóta sem í sannleika hefur borið kennsl á þessa opinberun er hin sama og áformuð var þeim spámönnum af húsi Ísraels sem ekki voru taldir til opinberenda sem ‚gæddir eru varanleika‘.“
Viðvíkjandi þeim opinberunum sem fyrirhugað er að komi á eftir opinberun Bahá’u’lláh gefur ‘Abdu’l‑Bahá þetta skorinorða og þungvæga fyrirheit: „Varðandi þá opinberendur sem munu koma í framtíðinni ‚yfirskyggðir í skýjunum‘, vit í sannleika að hvað snertir uppsprettu innblásturs þeirra eru þeir í skugga Hinnar öldnu fegurðar. Hvað snertir tengsl þeirra við öldina sem þeir lifa á mun hver og einn þeirra ‚gera það sem Honum þóknast.‘“
„Ó vinur minn!“ ávarpar hann í einni taflna sinna þekktan og viðurkenndan forystumann. „Hinn ódauðlegi eldur sem Drottinn ríkisins hefur kveikt í miðju hins heilaga trés brennur glatt í miðju hjarta heimsins. Bálið sem af því mun kvikna mun kringja alla jörðina. Logarnir munu upplýsa þjóðir hennar og kynkvíslir. Öll tákn hafa verið opinberuð, sérhver spámannleg tilvísun afhjúpuð. Hvaðeina sem falið var í öllum ritningum liðinna tíma hefur verið dregið fram í dagsljósið. Ekki er lengur mögulegt að hika eða efast… Tíminn er naumur. Fákurinn himneski er óþolinmóður og getur ekki tafið lengur. Okkur ber að geisa fram og hreppa sigurvinninginn áður en það er um seinan!“ Og loks er þessi hugnæmi kafli sem hann á fagnaðarstundu fann sig knúinn til að beina til eins traustasta og fremsta fylgjanda síns á fyrstu dögum embættistíðar sinnar: „Hverju get Ég bætt við? Hvað annað getur penni minn sagt? Svo yfirvættis kröftugt er kallið sem hljómar frá Abhá-ríkinu að dauðleg eyru verða næstum dauf af afli þess. Það er sem allt sköpunarverkið gangi úr skorðum og sé í þann veginn að tvístrast vegna gagntakandi áhrifa hins guðlegs kalls sem gengur út frá hásæti dýrðarinnar. Meira en þetta get ég eigi ritað.“
Heittelskuðu vinir! Nóg hefur verið sagt og ívitnaðir útdrættir úr ritum Bábsins, Bahá’u’lláh og ‘Abdu’l‑Bahá eru nógu margir og fjölbreytilegir til að sannfæra samviskusaman lesenda um yfirskilvitleik þessa einstæða kerfis í trúarsögu heimsins. Það væri með öllu útilokað, að gera of mikið úr þýðingu þess eða ofmeta áhrifin, sem það hefur haft og mun hafa framvegis í síauknum mæli eftir því sem þetta volduga kerfi afhjúpast í miðju umróti hrynjandi siðmenningar.
Öllum þeim sem lesa þessar blaðsíður gæti þó komið að gagni nokkur varnaðarorð, áður en ég held áfram röksemdafærslu minni. Enginn sem hugleiðir í ljósi ívitnaðra málsgreina eðli opinberunar Bahá’u’lláh skyldi láta sér sjást yfir sérkenni þess eða rangtúlka áform Bahá’u’lláh. Guðdómleikinn, sem er eignaður svo máttugri Veru og fullkomin holdtekja nafna og eiginleika Guðs í svo upphafinni Persónu, má ekki undir neinum kringumstæðum misskilja eða mistúlka. Það mannlega musteri, sem hefur verið gert að farvegi svo feiknlegrar opinberunar, verður, ef við viljum vera trú kenningum trúar okkar, ætíð að greina frá þeim „innsta Anda andanna“ og „eilífum Kjarna kjarnanna“ – þeim ósýnilega og þó skyniborna Guði, sem getur með engu móti líkamað takmarkalausan, órannsakanlegan, ólýtanlegan og alltumlykjandi veruleika sinn í hlutstæðri og takmarkaðri umgjörð dauðlegrar veru, hversu mjög sem við lofum guðdómlega birtingu Hans á jörðunni. Sá Guð, sem með þeim hætti gæti líkamnað sinn eigin veruleika, mundi að sönnu, í ljósi kenninga Bahá’u’lláh, hætta að vera Guð á þeirri sömu stundu. Svo hrjúf og furðuleg kenning um holdtekju Guðs er jafn fjarlæg og ósamrýmanleg kjarna bahá’í trúarinnar sem aðrar, ekki síður óviðurkvæmilegar algyðis- eða mannlíkishugmyndir um Guð. Bahá’u’lláh hafnar þeim afdráttarlaust og sýnir fram á villu þeirra.
Hann sem í fjölda helgigreina sagði orð sín vera „rödd guðdómleikans, kall Guðs sjálfs“ mælir þessi alvöruþrungnu orð í Kitáb-i-Íqán: „Sérhverju skilningsríku og upplýstu hjarta er ljóst, að Guð, hinn óþekkjanlegi kjarni, hin guðdómlega verund, er ómælanlega hátt hafinn yfir sérhverja mannlega eigind, svo sem líkamlega tilvist, uppstigningu og niðurstigningu, framþróun og afturför… Hann er og hefur alltaf verið hjúpaður fornri eilífð kjarna síns og verður um alla eilífð, í raunveruleika sínum, hulinn sjónum manna… Hann er ofar og handan öllum aðskilnaði og einingu, allri nálægð og fjarlægð… ‚Guð var einn; enginn var nema Hann‘ er traustur vitnisburður um þessi sannindi.“
„Frá ómunatíð,“ segir Bahá’u’lláh um Guð, „hefur Hann, hin guðdómlega verund, verið hjúpaður ósegjanlegum heilagleika síns upphafna sjálfs og verður að eilífu sveipaður órannsakanlegum leyndardómi óþekkjanlegs eðlis síns… Tíu þúsund spámenn, sérhver þeirra Móses, standa þrumulostnir á Sínaí leitar sinnar við ógnvekjandi raust Guðs: ‚Þú munt aldrei líta Mig!‘; og aragrúi boðbera, sérhver þeirra á við Jesúm, standa lostnir ógn við himnesk hásæti sín er þeir heyra forboð Hans: ‚Eðli Mitt færð þú aldrei skilið!‘“ „Hve torveld reynist mér, þýðingarlítill sem ég er,“ segir Bahá’u’lláh í bæn sinni til Guðs, „viðleitni mín til að rýna í heilög djúp þekkingar Þinnar! Hve fánýtar eru ekki tilraunir mínar til að leiða mér fyrir sjónir mikilleika valdsins sem býr í verkum handa Þinna – opinberun skapandi máttar Þíns!“ „Þegar ég íhuga, ó Guð minn, bandið sem bindur mig við Þig er ég knúinn til að lýsa því yfir frammi fyrir öllu sem skapað er að ‚sannlega er Ég Guð!‘; og þegar ég beini sjónum að mínu eigin sjálfi, sjá, ég sé að það er grófara en leir!“
„Þar sem dyrnar að þekkingu á Hinum aldna,“ segir Bahá’u’lláh enn fremur í Kitáb-i-Íqán, „eru þannig luktar öllum verum, hefur Hann sem er uppspretta óendanlegrar náðar… látið þessar skínandi gersemar heilagleikans birtast úr ríki andans í göfugri mynd mannlegs musteris og opinberað þá öllum mönnum til þess að þeir geti skýrt heiminum frá leyndardómum Hinnar óbreytilegu verundar og sagt frá óræðum eigindum óforgengilegs eðlis Hans… Allir spámenn Guðs, eftirlæti Hans, heilagir og útvaldir boðberar Hans, bera án undantekninga nöfn Hans og eru holdtekjur eiginda Hans… Þessi musteri heilagleikans, þessir frumspeglar sem endurvarpa ljósi ófölnandi dýrðar, eru aðeins tákn Hans sem er ósýnilegastur alls hins ósýnilega.“
Ein mikilvægasta kenning trúar okkar – kenning sem við megum aldrei missa sjónar á og ekki er háð neinni málamiðlun – er að þrátt fyrir ofurveldi opinberunar Bahá’u’lláh verður í grundvallaratriðum að líta á Hann sem einn þessara opinberenda Guðs og aldrei sem hinn ósýnilega veruleika, sjálfan kjarna guðdómsins.
Þótt bahá’í opinberunin geri tilkall til þess að vera hápunktur spámannsskeiðsins og uppfylling á fyrirheiti allra alda, reynir hún ekki undir neinum kringumstæðum að ógilda frumlægar og eilífar meginreglur sem eru lífgjafar og undirstöður fyrri trúarbragða. Hún viðurkennir guðlegan myndugleika þeirra allra og gerir hann að sínum eigin óhagganlega og endanlega grundvelli. Hún lítur svo á að þessi trúarbrögð séu ekki annað en ólík stig í eilífri sögu og stöðugri þróun einnar trúar sem er guðlegs uppruna og ódeilanleg og bahá’í opinberunin sé aðeins óaðskiljanlegur þáttur hennar. Hún leitast hvorki við að bera brigður á guðlegan uppruna þeirra né gera lítið úr viðurkenndum og glæsilegum afrekum þeirra. Hún getur ekki sætt sig við neina tilraun til að rangsnúa eðliseinkennum þeirra eða draga dár að sannindunum sem þau innræta. Kenningar hennar víkja ekki hársbreidd frá sannleikanum sem þau geyma né dregur mikilvægi boðskapar hennar hið minnsta úr þeim áhrifum sem þau hafa eða hollustunni sem þau innblása fylgjendum sínum. Svo fjarri er hún því að leitast við að bylta andlegri undirstöðu trúarkerfa heimsins að það er yfirlýst og óbreytanlegt áform hennar að víkka undirstöðu þeirra, endurlífga grundvallaratriði þeirra, sætta markmið þeirra, blása í þær nýju lífi, sýna fram á einingu þeirra, endurnýja frumrænan hreinleika kenninganna sem þær boða, samræma starfsemi þeirra og hjálpa til við að gera að veruleika háleitustu hugsjónir þeirra. Þessi guðdómlega opinberuðu trúarbrögð, eins og einn náinn þekkjandi þeirra komst svo vel að orði: „eru ekki dæmd til að deyja, heldur til að endurfæðast… ‚Hverfur ekki barnið í unglingnum og unglingurinn í manninum? Samt tortímast hvorki barnið né unglingurinn.‘“
„Þeir sem eru ljósgjafar sannleikans, speglarnir sem endurvarpa ljósi guðlegrar einingar,“ útskýrir Bahá’u’lláh í Kitáb-i-Íqán, „hafa án undantekninga óskorað vald og þeim eru falin ósigrandi yfirráð sama á hvaða öld og í hvaða trúarhringrás þeir eru sendir niður frá ósýnilegum híbýlum fornrar dýrðar til þessa heims til að uppfræða sálir mannanna og úthella náð yfir alla hluti skapaða… Þessir helguðu speglar, þessar sólir aldinnar dýrðar, eru hér á jörðu allir sem einn útskýrendur Hans sem er miðlægur ljósgjafi alheimsins, innsta eðli hans og hinsta áform. Frá Honum kemur þekking þeirra og vald, frá Honum fá þeir yfirráð sín. Fegurð ásýnda þeirra endurspeglar aðeins ímynd Hans og opinberun þeirra er tákn um eilífa dýrð Hans… Fyrir þá veitist náð sem engan enda tekur og sakir þeirra opinberast ljós sem getur aldrei bliknað… Mannleg tunga getur aldrei sungið þeim verðugt lof og mannlegt mál getur aldrei afhjúpað leyndardóm þeirra.“ „Þar sem þessir fuglar hins himneska hásætis,“ bætir Hann við, „eru allir sendir niður frá himni vilja Guðs og þar sem þeir rísa allir upp til að kunngera ómótstæðilega trú Hans, er litið á þá sem eina sál og eina og sömu persónu… Þeir dvelja allir í sömu tjaldbúð, svífa á sama himni, sitja í sama hásæti, mæla sömu orð og boða sömu trú… Hið eina sem skilur þá að er kraftur opinberunar þeirra og hlutfallslegur máttur ljóssins sem frá þeim stafar… Þótt virðast kunni að þessar verundir andlegrar lausnar hafi ekki opinberað ákveðna eigind Guðs þýðir það engan veginn að þessar sólir eiginda Guðs og hirslur heilagra nafna Hans hafi í raun ekki búið yfir henni.“
Enn fremur ætti að hafa í huga að hversu mikill sem máttur þessarar opinberunar er og hversu viðamikið sem það trúarkerfi er sem Bahá’u’lláh hefur hrundið af stað, þá vísar hún afdráttarlaust því tilkalli á bug að vera endanleg opinberun vilja Guðs og áforms Hans fyrir mannkynið. Slík hugmynd um auðkenni hennar og starfsemi jafngildir svikráðum við málstað hennar og afneitun á sannleika hennar. Hún hlýtur af nauðsyn að brjóta í bág við grundvallarmeginregluna sem bahá’í trúin hvílir á: að trúarleg sannindi séu afstæð en ekki algild, að guðleg opinberun sé reglubundin, samfelld og stighækkandi, en ekki krampakennd og endanleg. Í sannleika er algjör höfnun fylgjenda Bahá’u’lláh á því tilkalli til endanleika sem öll trúarkerfin sem spámennirnir stofnuðu til forna kunna að gera, jafn skýr og afdráttarlaus og höfnun þeirra sjálfra á endanleika þeirrar opinberunar sem þeir sjálfir játa. „Að trúa því að öll opinberun sé á enda runnin, að hlið guðlegrar náðar séu lokuð, að engin sól rísi framar yfir sjónarhring eilífs heilagleika, að hafdjúp ævarandi veglyndis hafi kyrrst að eilífu og að boðberar Guðs séu hættir að birtast frá helgidómi aldinnar dýrðar,“ hlýtur í augum sérhvers fylgjanda trúarinnar að vera ófyrirgefanlegt fráhvarf frá einni dýrmætustu og grundvallandi meginreglum hennar.
Tilvísun til nokkurra áður ívitnaðra ummæla Bahá’u’lláh og ‘Abdu’l‑Bahá mun vissulega nægja til að sýna fram á, svo enginn vafi getið á því leikið, sannleika þessarar grundvallarreglu. Væri ekki einnig hægt að skilja eftirfarandi kafla úr Huldum orðum sem táknræna tilvísun til stighækkandi guðlegrar opinberunar og viðurkenningar Höfundarins á því að boðskapurinn sem Honum var falið að flytja er ekki endanleg og hinsta tjáning á vilja og leiðsögn Guðs? „Ó sonur réttvísinnar! Á næturþeli hafði fegurð Hins ódauðlega horfið frá smaragðshæðum trúfestinnar til Sadratu’l-Muntahá og grátið svo sáran, að herskararnir á hæðum og þeir sem dvelja í ríkjunum hið efra, kveinuðu er þeir heyrðu það. Þá var spurt: Hvers vegna grátur og kveinstafir? Hann svaraði: Eins og Mér var boðið beið Ég fullur eftirvæntingar á hæð tryggðarinnar, samt barst Mér ekki að vitum angan trúfestinnar frá þeim sem dvelja á jörðu. Er Mér var skipað að snúa við sá Ég og sjá, tilteknar dúfur heilagleikans voru sárt leiknar í klóm jarðneskra hunda. Þá hraðaði hin himneska mær sér fram blæjulaus og skínandi frá híbýlum dular sinnar og spurði um nöfn þeirra og var skýrt frá þeim öllum, nema einu. Og þegar gengið var eftir því var fyrsti bókstafur þess sagður og þá þustu allir íbúar hinna himnesku vistarvera út úr híbýlum dýrðar sinnar. Og er hinn annar bókstafur var sagður féllu þeir allir sem einn í duftið. Á þeirri stund heyrðist rödd frá hinum innsta helgidómi: ‚Hingað og eigi lengra.‘ Vissulega berum Vér því vitni sem þeir hafa gert og eru nú að gera.“
Á enn þá ótvíræðari hátt ber Bahá’u’lláh þessum sannleika vitni í einni af töflum sínum sem voru opinberaðar í Adríanópel: „Vit með vissu að blæjunni sem hylur ásýnd Vora hefur ekki verið lyft til fulls. Vér höfum opinberað sjálf Vort í samræmi við hæfni mannanna á Vorri öld. Ef Hin aldna fegurð yrði afhjúpuð í fyllingu dýrðar sinnar mundu dauðleg augu blindast af ofurljómanum frá opinberun Hans.“
Í Súriy-i-Ṣabr sem opinberuð var strax árið 1863, á fyrsta degi komu Hans í Riḍván-garðinn, segir Hann: „Guð hefur sent niður boðbera sína til að taka við af Móse og Jesú og Hann mun halda því áfram til þeirra ‚endaloka sem engin endalok þekkja‘ til þess að náð Hans megi frá himni guðlegrar hylli verða stöðugt veitt mannkyninu.“
„Ég óttast ekki vegna sjálfs Mín,“ segir Bahá’u’lláh enn þá skorinorðar. „Ég óttast vegna Hans sem sendur verður til yðar á eftir Mér með miklum yfirráðum og máttugu valdi.“ Og aftur ritar Hann í Súratu’l-Haykal: „Orðin sem Ég hef opinberað eiga ekki við Mig sjálfan heldur þann sem mun koma á eftir Mér. Þessu ber vitni Guð, sá sem allt þekkir.“ „Gerið það ekki við Hann,“ bætir Hann við, „sem þér hafið gert við Mig.“
Í ítarlegri helgigrein staðfestir Bábinn þennan sama sannleika í ritum sínum. „Það er auðsætt,“ ritar Hann í persneska Bayáninn, „að markmið allra undangenginna trúarkerfa hefur verið að ryðja brautina fyrir komu Múhameðs, postula Guðs. Þau, ásamt trúarkerfi Múhameðs, hafa að sínu leyti að markmiði opinberunina sem kunngerð var af Qá’im. Tilgangurinn með þessari opinberun og þeim sem fóru á undan hefur sömuleiðis verið að boða komu Hans sem Guð mun birta. Og þessi trú – trú Hans sem Guð mun birta – hefur að sínu leyti ásamt öllum fyrri opinberunum að markmiði opinberunina sem er fyrirhugað að komi. Og hún, ekki síður en allar undangengnar opinberanir, ryðja braut enn annarri opinberun. Þannig mun sól sannleikans halda áfram um alla framtíð að rísa og hníga til viðar – ferli sem á sér ekkert upphaf og mun aldrei taka enda.“
„Vit með vissu,“ útskýrir Bahá’u’lláh í þessu sambandi, „að í sérhverju trúarkerfi hefur ljós guðlegrar opinberunar hlotnast mönnum í réttu hlutfalli við andlega hæfni þeirra. Íhuga sólina. Hve veikburða eru ekki geislar hennar þegar hún birtist á sjónarhringnum. Hægt og sígandi eykst hiti hennar og kraftur þegar hún nálgast hádegisstað og samtímis nær allt sem skapað er að laga sig að vaxandi styrk ljóssins. Hægt og örugglega hnígur hún til viðar uns hún hverfur. Ef hún birti skyndilega orkuna sem í henni býr myndi hún án efa skaða allt sem skapað er… Ef sól sannleikans birti þannig skyndilega á fyrstu stigum opinberunar sinnar alla þá krafta sem forsjón Hins almáttuga hefur gætt hana myndi jörð mannlegs skilnings sviðna og eyðast, því hjörtu mannanna gætu hvorki staðist ofsa þeirrar opinberunar né endurspeglað ljóma hennar. Yfirþyrmdir og lostnir skelfingu myndu þeir tortímast.“
Í ljósi þessara skýru og óvéfengjanlegu staðhæfinga er það augljós skylda okkar að gera það fullkomlega ljóst öllum sem leita sannleikans að „frá því upphafi sem ekkert upphaf þekkir“ hafa boðberar hins eina órannsakanlega Guðs, þar á meðal Bahá’u’lláh sjálfur – allir sem farvegir fyrir náð Guðs, sem skýrendur einingar Hans, sem speglar ljóss Hans og opinberendur áforms Hans – fengið umboð til að birta mannkyninu síaukna þekkingu á sannleika Hans, órannsakanlegum vilja Hans og guðlegri leiðsögn, og þeir munu halda áfram „til þeirra endaloka sem engin endalok þekkja“ að birta í enn þá fyllri og máttugri mæli takmarkalaust vald Hans og dýrð.
Við gerðum rétt í að hugleiða í hjörtum okkar eftirfarandi tilvitnanir í bæn sem Bahá’u’lláh opinberaði og sem staðfestir á áhrifamikinn hátt og er enn frekari vitnisburður um veruleika hins mikla og kjarnlæga sannleika sem er rótgróinn sjálfum boðskap Hans til mannkynsins: „Lof sé Þér, ó Guð minn, fyrir undursamlegar opinberanir órannsakanlegrar ákvörðunar Þinnar og þær margvíslegu raunir og þrengingar sem Þú hefur fyrirbúið mér. Eitt sinn seldir Þú mig í hendur Nimrods; í annað sinn leyfðir Þú sprota Faraós að ofsækja mig. Þú einn getur í alltumlykjandi þekkingu Þinni og með vilja Þínum metið þær ómældu þrautir sem ég hef þolað af þeirra hendi. Aftur varpaðir Þú mér í prísund hinna óguðlegu fyrir engar sakir aðrar en þær að ég var knúinn til að hvísla í eyru útvalinna íbúa ríkis Þíns ávæning af þeirri vitrun sem Þú hafðir með þekkingu Þinni innblásið mér og opinberað mér merkingu hennar með mætti Þínum. Og í annað sinn ákvaðst Þú að ég skyldi höggvinn sverði trúníðingsins. Aftur var ég krossfestur fyrir að hafa afhjúpað augum manna huldar gersemar dýrlegrar einingar Þinnar, fyrir að hafa opinberað þeim undursamleg tákn Þíns æðsta og eilífa valds. Hversu beisk var ekki auðmýkingin sem ég þoldi á síðari tímum á sléttum Karbilá! Hve einmana var ég ekki meðal fólks Þíns! Hve hjálparvana var ég ekki í því landi! Ofsækjendur mínir gerðu sér ekki að góðu slíka vanvirðu heldur hjuggu af mér höfuðið og báru það fylktu liði frá einu landi til annars frammi fyrir augum vantrúaðs múgsins og settu það fram fyrir hásæti hinna öfugsnúnu og trúlausu. Á síðari öld var ég hengdur upp í böndum og grimmir og illgjarnir andstæðingar höfðu brjóst mitt að skotmarki. Kúlnahríð tætti sundur limi mína og líkama mínum var tvístrað. Sjá loks á þessum degi hvernig svikulir fjandmenn hafa fylkt liði gegn mér og ráðgera stöðugt að byrla sálum þjóna Þinna eitri haturs og illgirni. Með launráðum reyna þeir af öllum mætti að ná markmiði sínu… Þótt hlutskipti mitt sé hörmulegt, ó Guð ástvinur minn, færi ég Þér þakkir og andi minn er fullur þakklætis fyrir allt sem mér fellur í hlut á vegi velþóknunar Þinnar. Ég er fullsáttur við það sem Þú hefur ákvarðað mér og býð velkomin sárindin og sorgirnar sem ég er látinn þola, hversu hörmulegar sem þær eru.“
Heittelskuðu vinir! Það er enn einn grundvallarsannleikur sem boðskapur Bahá’u’lláh kunngerir kröftuglega og sem fylgjendur Hans verða að sýna ósveigjanlega hollustu, að Bábinn, höfundur bábí-trúarkerfisins, á skýlausa kröfu til þess að vera talinn með sjálfstæðum opinberendum Guðs; að Honum hefur verið veitt óskorað vald og yfirráð og Hann hefur allan rétt og nýtur allra forréttinda sjálfstæðs opinberanda. Ég lít einnig á það sem skyldu mína að sýna fram á og leggja áherslu á þann sannleika að Hann ber ekki aðeins að skoða sem innblásinn brautryðjanda bahá’í opinberunarinnar, heldur fullkomnast í persónu Hans markmið og áform allra undangenginna spámanna eins og hann sjálfur vitnar um í Bayáninum. Við brygðumst vissulega skyldum okkar við trúna sem við játum og brytum eina helgustu grundvallarreglu hennar ef við í orði eða á borði hikuðum við að viðurkenna sannleikann sem þessi undirstöðuregla bahá’í trúarinnar felur í sér eða létum án nokkurra fyrirvara undir höfuð leggjast að verja heiður hennar og sýna fram á sannleiksgildi hennar. Meginástæðan fyrir því að ég tókst á hendur að ritstýra og þýða ódauðlegt sagnaverk Nabíls er í rauninni sú að gera fylgjendum trúarinnar á Vesturlöndum kleift að átta sig betur á þeirri ómetanlegu þýðingu sem upphafin staða Hans hefur, svo að lotning þeirra og ást til Hans geti stöðugt vaxið.
Enginn vafi er á því að tilkallið til tvíþættrar stöðu sem Hinn almáttugi forákvarðaði Bábinum – tilkall sem Hann sjálfur setti fram af djörfung; sem Bahá’u’lláh staðfesti margsinnis og ‘Abdu’l‑Bahá lagði loks blessun sína yfir í erfðaskrá sinni – er skýrasta einkenni bahá’í trúarkerfisins. Það er enn frekari vitnisburður um einstæði þessa kerfis og eykur gífurlega styrk þess og það leyndardómsfulla vald og yfirráð, sem þetta heilaga spámannsskeið hefur verið gætt. Í rauninni er mikilleiki Bábsins ekki fyrst og fremst í því fólginn að Hann er guðlega áformaður fyrirrennari þessarar yfirskilvitlegu opinberunar, heldur í því að Hann býr yfir mættinum sem gefinn er frumherja óháðs trúarkerfis og hefur í hendi sér veldissprota sjálfstæðrar spámennsku með enn þá ótvíræðari hætti en undangengnir boðberar.
Sá stutti tími sem trúarkerfi Hans spannaði og skorðurnar sem lögum Hans og fyrirmælum voru settar eru enginn mælikvarði á guðlegan uppruna þessa kerfis né mátt boðskapar þess. „Að svo skammur tími,“ útskýrir Bahá’u’lláh, „skuli hafa aðgreint þessa voldugustu og undursamlegustu opinberun frá fyrri birtingu sjálfs Mín, er leyndardómur sem enginn maður fær ráðið og dul sem enginn getur nokkru sinni skilið. Tímalengdin var forákvörðuð og enginn mun skilja ástæðuna nema og þangað til hann öðlast þekkingu á innihaldi Minnar heilögu bókar.“ „Sjá,“ segir Bahá’u’lláh enn fremur í Kitáb-i-Badí’, einu verkanna sem vísar fullkomlega á bug röksemdum þeirra sem fylgdu Bayáninum, „sjá, hvernig tilskilinn fjöldi hreinna, sannhelgaðra og trúrra sálna fullnaðist í algjörri launung um leið og níunda ári þessa undursamlega, helgasta og náðarríkasta trúarkerfis lauk.“
Þeir dásamlegu atburðir sem höfðu boðað komu stofnanda bábí-trúarkerfisins, stórbrotnar kringumstæður Hans eigin viðburðarríka lífs, harmleikurinn, kraftaverki líkastur, sem var samfara píslarvættisdauða Hans, seiðmögnuð áhrif Hans á hina fremstu og voldugustu meðal samlanda Hans – öllu þessu ber sérhver kafli áhrifamikillar frásagnar Nabíls vitni og þetta ætti í sjálfu sér að vera fullnægjandi vitnisburður um gildi tilkallsins sem Hann gerði til svo upphafinnar stöðu meðal spámannanna.
Hversu lifandi sem þær lýsingar eru sem þessi framúrskarandi annálsritari miðlaði ókomnum kynslóðum hlýtur sú bjarta saga að fölna í samanburði við það leiftrandi lof sem Bahá’u’lláh lýkur á Bábinn í ritum sínum. Þessa hyllingu hefur Bábinn sjálfur stutt kröftuglega með tilkalli sínu og bókfestur vitnisburður ‘Abdu’l‑Bahá hefur af alvöruþunga ítrekað einkenni hennar og varpað ljósi á merkingu hennar.
Hvar nema í Kitáb-i-Íqán getur sá sem rannsakar trúarkerfi Bábsins fundið þær staðfestingar sem bera vitni, svo ekki verður um villst, valdinu og andanum sem enginn nema opinberandi Guðs getur miðlað? „Gæti nokkuð þvílíkt,“ segir Bahá’u’lláh „hafa gerst nema fyrir vald guðdómlegrar opinberunar og mátt ósigrandi vilja Guðs? Ég sver við réttlæti Guðs! Ef einhver varðveitti svo máttuga opinberun í hjarta sínu, mundi ein saman tilhugsunin um slíka boðun nægja til að yfirþyrma hann! Þótt öll hjörtu mannanna yrðu að hjarta hans, myndi hann samt veigra sér við að leggja út á svo ógnvænlega braut.“ „Ekkert auga,“ staðfestir Hann í annarri helgigrein, „hefur séð svo ríkulega úthellingu gæsku né nokkurt eyra heyrt um slíka opinberun ástríkis… Spámennirnir sem ‚gæddir eru varanleika‘ og sem skína eins og sólin í dýrð sinni og upphafningu, voru hver um sig heiðraðir með bók sem allir hafa séð og full vissa er fengin um vers hennar. En versin sem hafa streymt úr þessu skýi guðdómlegrar náðar, eru svo mörg að enginn hefur enn getað komið á þau tölu… Hvernig geta þeir þá gert lítið úr þessari opinberun? Hefur nokkur öld orðið vitni að jafn afdrifaríkum viðburðum?“
Er Bahá’u’lláh ræðir skapgerð og áhrif þeirra hetja og píslarvotta sem andi Bábsins umskapaði með undursamlegum hætti, segir Hann eftirfarandi: „Ef þessir félagar eru ekki sannir leitendur Guðs, hverja aðra er hægt að kalla því nafni?… Ef þessir félagar með hrífandi vitnisburði sínum og göfugum gerðum eru ósannindamenn, hverjir eru þá þess verðugir að kallast sannir?… Hefur heimurinn síðan á dögum Adams orðið vitni að slíku uppnámi, svo ofsafengnu umróti?… Mér þykir sem þolinmæðin hafi opinberast fyrir sakir hreysti þeirra og sjálf trúfestin fæðst af gerðum þeirra.“
Er Bahá’u’lláh í þessum sama pistli vill leggja áherslu á upphafna stöðu Bábsins í samanburði við stöðu fyrri spámanna, segir Hann: „Enginn skilningur getur skynjað eðli opinberunar Hans og engin þekking meðtekið fullan mæli trúar Hans.“ Orðum sínum til stuðnings vitnar Hann til þessara spámannlegu orða: „Þekking er tuttugu og sjö bókstafir. Spámennirnir hafa aðeins opinberað tvo þeirra. Fram til þessa hefur enginn maður þekkt fleiri en þessa tvo bókstafi. En þegar Qá’im rís, lætur Hann hina bókstafina tuttugu og fimm birtast.“ „Sjá,“ bætir Hann við, „hve mikil og háleit staða Hans er! Staða Hans er æðri stöðu allra spámannanna og opinberun Hans er ofar skilningi og skynjun allra þeirra útvöldu.“ „Opinberun Hans,“ segir Hann enn fremur, „hafa spámenn Guðs, dýrlingar Hans og Hans útvöldu, annað hvort ekki þekkt eða þeir samkvæmt órannsakanlegri ákvörðun Guðs kosið að leyna.“
Af öllu því lofi sem óskeikull penni Bahá’u’lláh hefur kosið að færa minningu Bábsins, „Ástvinar“ Hans, er þessi stutta en mælska helgigrein, sem eykur svo mjög gildi lokaorðanna í sama pistli, minnisstæðust og áhrifamest: „Mitt á meðal þeirra allra,“ skrifar Hann með tilvísun til þess hættuástands og þeirra þungu rauna sem Hann rataði í Bagdað, „stöndum Vér og bjóðum fram líf Vort fullkomlega undirgefnir vilja Hans, að þessum opinberaða og birta bókstaf (Bahá’u’lláh) megi sakir ástríkis og miskunnar Guðs auðnast að fórna lífi sínu á vegi Frumpunktsins, hins upphafnasta orðs (Bábsins). Ég sver við Hann sem boðið hefur Andanum að tala. Ef ekki væri fyrir þessa þrá sálar Vorrar, mundum Vér ekki hafa dvalið einu andartaki lengur í þessari borg.“
Heittelskuðu vinir! Svo mikilfengleg lofgjörð, svo einörð staðhæfing, runnin frá penna Bahá’u’lláh í svo þungvægu verki, endurómar greinilega í þeim orðum sem uppspretta bábí-opinberunarinnar hefur valið að klæða tilkallið sem Hann sjálfur gerði. Hann lýsir stöðu sinni þannig í Qayyúmu’l-Asmá’: „Ég er gunnfáninn leyndardómsfulli sem hönd almættisins dró að hún. Ég er lampinn sem kveikt var á með fingrum Guðs á fyrirhuguðum stað og látinn var skína í ófölnandi ljóma. Ég er logi þess himneska ljóss sem brann á Sínaí á þeim fagnandi stað, dulinn í miðjum brennandi þyrnirunnanum.“ „Ó Qurratu’l-‘Ayn!“ kallar Hann er Hann beinir orðum sínum til sjálfs síns í sama skýringarriti. „Ég sé í Þér ekkert nema ‚boðunina miklu‘, sem herskarar á hæðum kunngerðu. Ég sver við þetta nafn, að þeir sem ganga umhverfis hásæti dýrðarinnar hafa alltaf þekkt Þig.“ „Við sérhvern spámann sem Vér höfum sent niður á umliðnum öldum,“ segir Hann enn fremur, „höfum Vér gert sérstakan sáttmála sem lýtur að ‚minningu Guðs‘ og degi Hans. Augljós er ‚minning Guðs‘ og dagur Hans, í ríki dýrðar og með mætti sannleikans, frammi fyrir augliti englanna sem sveima um náðarhásæti Hans.“ „Væri það ósk Vor,“ staðfestir Hann aftur, „höfum Vér vald til að knýja, með atbeina aðeins eins bókstafs opinberunar Vorrar, heiminn og allt sem í honum dvelur til að bera kennsl á sannleika málstaðar Vors á minna en augabragði.“
„Ég er Frumpunkturinn,“ ávarpar Bábinn Muḥammad Sháh frá fangelsisvirkinu í Máh-Kú, „sem allir skapaðir hlutir eru runnir frá… Ég er ásýnd Guðs, en ljómi hennar mun aldrei myrkvast, ljós Guðs, en birta þess mun aldrei fölna… Alla lykla himins hefur Guð lagt í hægri hendi Mína og alla lykla heljar í þá vinstri… Ég er ein af máttarstoðum hins frumræna orðs Guðs. Sá sem hefur þekkt Mig hefur þekkt allt sem er rétt og satt og höndlað allt sem er gott og viðeigandi… Efnið sem Guð gerði Mig af er ekki leirinn sem aðrir eru mótaðir úr. Hann hefur veitt Mér það sem vitringar heimsins aldrei fá skilið né hinir trygglyndu uppgötvað.“ „Ef agnarsmár maur,“ segir Bábinn á sinn sérstæða hátt þegar Hann vill leggja áherslu á þá takmarkalausu möguleika sem fólgnir eru í trúarkerfi Hans, „óskaði þess á þessum degi að fá vald til að túlka merkingu hinna myrkustu og torræðustu ritningargreina Kóransins myndi ósk hans án efa verða uppfyllt því að leyndardómur eilífs máttar bifast í innstu verund allra skapaðra vera.“ „Ef svo hjálparlaus lífvera,“ segir ‘Abdu’l‑Bahá í athugasemd sinni við þessa sérkennilegu staðhæfingu, „getur öðlast svo fíngerða hæfni, hversu miklu áhrifaríkara hlýtur það afl að vera sem leyst er úr læðingi með gjöfulli úthellingu náðar Bahá’u’lláh!“
Við þessar myndugu staðhæfingar og hátíðlegu yfirlýsingar Bahá’u’lláh og Bábsins, verður að bæta óvéfengjanlegum vitnisburði ‘Abdu’l‑Bahá sjálfs. Hann sem er skipaður túlkandi orða Bahá’u’lláh og Bábsins styður ekki óbeinlínis, heldur skýrt og afdráttarlaust, bæði í töflum sínum og erfðaskrá, sannleiksgildi þeirra fullyrðinga sem ég hef þegar vísað til.
Í töflu sem skrifuð var til bahá’ía í Mázindarán, þar sem hann afhjúpar merkingu mistúlkaðra orða sem honum voru eignuð varðandi upprás sólar sannleikans á þessari öld, setur hann fram í stuttu en afdráttarlausu máli þá skoðun sem ætti að verða okkur að leiðarljósi varðandi tengslin milli þeirra tveggja opinberenda sem tengdir eru bahá’í trúarkerfinu. „Þegar ég ritaði þessi orð,“ útskýrir hann, „hafði ég enga aðra í huga en Bábinn og Bahá’u’lláh, og tilgangurinn var sá að útskýra opinberanir þeirra. Opinberun Bábsins má líkja við sólina, staða hennar samsvarar fyrsta tákni dýrahringsins – Hrútinum – sem sólin er í á vorjafndægri. Staða opinberunar Bahá’u’lláh er aftur á móti táknuð með Ljóninu, hæstu stöðu sólarinnar á miðsumri. Með þessu er átt við að þetta heilaga trúarkerfi sé upplýst ljósinu frá sól sannleikans sem skín í sinni upphöfnustu stöðu og í fullum ljóma, hita og dýrð.“
„Bábinn, hinn upphafni,“ staðfestir ‘Abdu’l‑Bahá enn frekar í annarri töflu, „er morgunn sannleikans og dýrð ljóss Hans skín yfir öllum svæðum. Hann er einnig forboði hins mesta ljóss, Abhá-sólarinnar. Hin blessaða fegurð er sá sem heitið var í heilögum bókum fortíðarinnar, opinberun þeirrar uppsprettu ljóssins sem skein á Sínaí-fjalli þegar eldur Hans bjarmaði í miðjum brennandi þyrnirunnanum. Við erum, hver og einn, þjónar við fótskör þeirra og stöndum, allir sem einn, sem auðmjúkir verðir við dyr þeirra.“ „Sérhverja sönnun og sérhvern spádóm,“ hljóðar enn þá kröftugri áminning hans, „sérhvern vitnisburð, hvort sem hann er byggður á skynsemi eða á ritningartextum og arfsögnum, má skoða sem tilvísun til persónu Bahá’u’lláh og Bábsins. Í þeim uppfyllast fyrirheitin til fulls.“
Og loks í erfðaskrá hans sem geymir síðustu óskir hans og lokafyrirmæli, innsiglar hann í eftirfarandi helgigrein, sem rituð var sérstaklega til þess að setja fram grundvallarreglur bahá’í trúarinnar, tvíþætta og upphafna stöðu Bábsins með vitnisburði sínum: „Þetta er undirstaða trúar fylgjenda Bahá (megi lífi mínu verða fórnað þeim): Hans heilagleiki, hinn upphafni (Bábinn) er opinberandi einingar og eindar Guðs og fyrirrennari Hinnar öldnu fegurðar (Bahá’u’lláh). Hans heilagleiki, Abhá fegurðin (Bahá’u’lláh) (megi lífi mínu verða fórnað staðföstum vinum Hans) er æðsti opinberandi Guðs og dagsbrún guðdómlegs kjarna Hans.“ „Allir aðrir,“ segir hann í þungvægri setningu, „eru þjónar Hans og fylgja boði Hans.“
Heittelskuðu vinir! Hér á undan hef ég gert tilraun til að útskýra þau sannindi sem ég trúi staðfastlega að séu samslungin tilkalli Hans sem er uppspretta bahá’í opinberunarinnar. Auk þess hef ég reynt að eyða hvers konar misskilningi sem eðlilega kann að koma upp í hugum þeirra sem íhuga svo ofurmennska birtingu dýrðar Guðs. Ég hef leitast við að skýra merkingu þess guðdómleika sem Hann sem er farvegur svo leyndardómsfullrar orku hlýtur að vera gæddur. Einnig hef ég eftir bestu getu reynt að sýna fram á að boðskapurinn sem Guð hefur falið svo mikilli verund að flytja mannkyninu á þessum tíma staðfestir guðlegan uppruna og viðurkennir meginreglur sérhvers trúarkerfis sem stofnað var af spámönnum fyrri alda og er óaðskiljanlegur hluti þeirra. Ég taldi einnig nauðsynlegt að sýna fram á og leggja áherslu á að jafnframt því sem þessi trúarhöfundur vísar á bug tilkallinu til endanleika sem leiðtogar ýmissa trúarsamfélaga gera, hefur Hann, þrátt fyrir stærð og mikilleika opinberunar sinnar, einnig hafnað því fyrir sjálfan sig. Það er enn önnur grundvallarregla, sem mér sýnist vera sérstaklega brýnt að skýra á þessu stigi í þróun málstaðar okkar, að þrátt fyrir þann skamma tíma sem trúarkerfi Bábsins spannar, ber okkur ekki fyrst og fremst að líta á Hann sem útvalinn fyrirrennara bahá’í trúarinnar, heldur opinberanda sem ræður yfir því óskoraða valdi sem hverjum og einum sjálfstæðum opinberanda fortíðarinnar var gefið.
Ég tel að svo komnu máli nauðsynlegt að gera tilraun til að útskýra stöðu ‘Abdu’l‑Bahá og þýðingu hans í þessu heilaga trúarkerfi. Það mundi að sönnu reynast torvelt þeim sem standa svo nálægt jafn mikilfenglegri mannveru og laðast að leyndardómsfullu afli svo seiðmagnaðs persónuleika, að skilja til fullrar hlítar hlutverk og einkenni hans sem gegnir einstæðu hlutverki, ekki aðeins í trúarkerfi Bahá’u’lláh heldur í allri trúarsögunni. Þótt hann lifi og hrærist á eigin sviði og hafi stöðu sem er í grundvallaratriðum frábrugðin þeim stöðum sem höfundur og fyrirrennari bahá’í opinberunarinnar hafa, er hann í krafti stöðunnar sem honum er ætluð í sáttmála Bahá’u’lláh ein af þeim þremur höfuðpersónum trúarinnar sem í andlegri sögu heimsins eiga engan sinn líka. Ásamt þeim gnæfir hann yfir örlög þessarar barnungu trúar Guðs frá sviði sem enginn einstaklingur eða ráð, sem sinnir þörfum hennar eftir hann, getur vænst að ná í að minnsta kosti þúsund ár. Að niðurlægja háleita stöðu hans með því að samkenna hana eða meta í höfuðdráttum jafna stöðu þeirra sem erfa valdsumboð hans væri guðlast, ekkert síður en sú alranga hugmynd sem eignar honum sömu stöðu og höfuðpersónu trúar okkar eða fyrirrennara hennar. Því að þótt það bil sé breitt sem aðskilur ‘Abdu’l‑Bahá frá Honum sem er uppspretta sjálfstæðrar opinberunar getur það aldrei jafnast á við djúpið sem er staðfest milli hans sem er Miðja sáttmálans og þeirra erindreka hans sem eiga að halda áfram starfi hans, hver svo sem nöfn þeirra eru, stöður, störf eða framtíðarafrek. Látum þá sem hafa þekkt ‘Abdu’l‑Bahá, þá sem með snertingu sinni við seiðmagnaðan persónuleika hans hafa fyllst svo ákafri aðdáun á honum, íhuga í ljósi þessarar staðhæfingar mikilleika þess, sem stendur honum svo miklu framar.
Það eru sannindi sem lesa má út úr sérstökum ummælum bæði stofnanda trúar okkar og túlkanda kenninga Hans, að ‘Abdu’l‑Bahá er ekki opinberandi Guðs; að hann hefur ekki skylda stöðu þótt hann sé arftaki Föður síns, og að enginn nema Bábinn og Bahá’u’lláh geta nokkru sinni gert tilkall til slíkrar stöðu á næstu þúsund árum.
Í Kitáb-i-Aqdas má lesa þessi skýru varnaðarorð: „Hver sem gerir tilkall til beinnar opinberunar frá Guði áður en full þúsund ár eru liðin, sá maður er vissulega ósannorður svikari. Vér biðjum Guð að hjálpa honum náðarsamlegast að taka aftur orð sín og hafna slíku tilkalli. Ef hann iðrast mun Guð án efa fyrirgefa honum. En ef hann þverskallast í villu sinni mun Guð vissulega senda niður þann sem ekki mun sýna honum vægð. Ægileg er að sönnu refsing Guðs!“ Og Hann bætir við til frekari áherslu: „Sá sem túlkar þessi helgu orð á annan hátt en augljós merking þeirra gefur til kynna er sviptur anda Guðs og miskunn Hans sem umvefur allt sem skapað er.“ „Birtist einhver,“ segir Hann enn fremur, „áður en full þúsund ár eru liðin – í hverju ári tólf mánuðir samkvæmt Kóraninum og nítján mánuðir með nítján dögum hver, samkvæmt Bayáninum – og þessi maður birti í augsýn yðar öll tákn Guðs, hafnið honum hiklaust!“
Orð ‘Abdu’l‑Bahá sjálfs sem staðfesta þessi varnaðarorð eru ekki síður þungvæg og bindandi. „Þetta er,“ segir hann, „staðföst og óhagganleg fullvissa mín, kjarni skýrrar og augljósrar trúar minnar – fullvissa og trú sem íbúar Abhá-ríkisins deila með mér: Hin blessaða fegurð er sól sannleikans og ljós Hans er ljós sannleikans. Bábinn er einnig sól sannleikans og ljós Hans ljós sannleikans… Staða mín er þjónustustaða og sú þjónusta er fullkomin, hrein og raunveruleg, tryggilega staðfest, augljós um aldur og ævi, skýrt opinberuð og ekki háð neinni túlkun… Ég er túlkandi orðs Guðs; þetta er túlkun mín.“
Slær ‘Abdu’l‑Bahá ekki í erfðaskrá sinni vopnin úr hendi þeirra sem svo lengi og þrálátlega reyndu að sverta hann með þeirri ákæru að hann hefði á laun gert tilkall til stöðu sem væri jöfn, ef ekki hærri, stöðu Bahá’u’lláh – og það í tóntegund og með orðalagi sem ekki gaf eftir álygum hinna harðsvíruðustu meðal þeirra sem brutu sáttmála Föður hans? „Þetta er undirstaða trúar fylgjenda Bahá,“ segir í einni þungvægustu helgigreininni í þessu síðasta skjali sem um alla framtíð geymir fyrirmæli og óskir hins látna Meistara, „Hans heilagleiki, hinn upphafni (Bábinn) er opinberandi einingar og eindar Guðs og fyrirrennari Hinnar öldnu fegurðar. Hans heilagleiki, Abhá fegurðin (Bahá’u’lláh) (megi lífi mínu verða fórnað staðföstum vinum Hans) er æðsti opinberandi Guðs og dagsbrún guðdómlegs kjarna Hans. Allir aðrir eru þjónar Hans og fylgja boði Hans.“
Af svo skýrum og formlegum staðhæfingum, svo ósamrýmanlegar sem þær eru hvers konar tilkalli til spámennsku, ættum við alls ekki að draga þá ályktun að ‘Abdu’l‑Bahá sé aðeins einn af þjónum Hinnar blessuðu fegurðar eða að hlutverk hans takmarkist í besta falli við að vera útnefndur túlkandi kenninga Bahá’u’lláh. Fjarri sé mér að ala á slíkum hugmyndum eða vilja innræta þær öðrum. Að sjá hann í þessu ljósi væru augljós svik við þann ómetanlega arf sem Bahá’u’lláh ánafnaði mannkyninu. Staðan sem honum var veitt af Hinum æðsta penna er ómælanlega hátt hafin yfir tilvísanir þessara hans eigin rituðu orða. Hvort sem það er í Kitáb-i-Aqdas, þungvægustu og helgustu bók Bahá’u’lláh, eða í Kitáb-i-‘Ahd, bók sáttmála Hans, eða í Súriy-i-Ghusn (Töflu greinarinnar), þá hafa þær tilvísanir sem penni Bahá’u’lláh skráði – og sem töflurnar er Faðir hans beindi til hans sérstaklega renna enn frekari stoðum undir – gefið ‘Abdu’l‑Bahá vald og umlukið hann dýrðarljóma sem núverandi kynslóð mun aldrei geta metið til fulls.
Hann er fyrst og fremst – og þannig ber okkur ævinlega að sjá hann – burðarás og þungamiðja hins óviðjafnanlega og alltumlykjandi sáttmála Bahá’u’lláh, upphafnasta handaverk Hans, flekklaus spegill ljóss Hans, fullkomin fyrirmynd kenninga Hans, óskeikull túlkandi orða Hans, líkamning sérhverrar bahá’í hugsjónar, holdtekja sérhverrar bahá’í dyggðar, Hin máttugasta grein sem runnin er af Hinni fornu rót, armur Guðs laga, verundin „sem öll nöfn snúast um“, driffjöður einingar mannkynsins, fáni hins mesta friðar, máninn sem snýst um miðlægan hnött þessa alhelga trúarkerfis – þetta eru þau nöfn og titlar sem felast í seiðmögnuðu nafni ‘Abdu’l‑Bahá og finna þar sína fegurstu, hæstu og sönnustu tjáningu. Hann er ofar og æðri þessum nöfnum, „leyndardómur Guðs“ en með þeim orðum kaus Bahá’u’lláh sjálfur að lýsa honum, og þótt það heimili okkur alls ekki að hefja hann í stöðu spámanns, gefa þau til kynna hvernig ósamræmanlegar eigindir mannlegs eðlis og ofurmannlegrar fullkomnunar og þekkingar hafa samtvinnast og náð fullkomnu jafnvægi í persónu ‘Abdu’l‑Bahá.
„Þegar úthaf návistar Minnar þverr og bók opinberunar Minnar er á enda,“ stendur skýrum stöfum í Kitáb-i-Aqdas, „beinið ásjónum yðar til hans sem Guð hefur áformað, sem runninn er af þessari fornu Rót.“ Og aftur: „Þegar hin dulúðga dúfa hefur tekið flugið frá griðastað lofgjörðar sinnar og leitað fjarlægs takmarks síns, sinna huldu híbýla, berið allt sem þér ekki skiljið í Bókinni undir hann sem runninn er af þessari máttugu Rót..“
Í Kitáb-i-‘Ahd gefur Bahá’u’lláh auk heldur þessa skýru og hátíðlegu yfirlýsingu: „Aghṣán, Afnán og ættmennum Mínum, hverjum og einum, er skylt að beina ásjónum sínum að Hinni máttugustu grein. Hugleiðið það sem Vér höfum opinberað í helgustu bók Vorri: ‚Þegar úthaf návistar Minnar þverr og bók opinberunar Minnar er á enda beinið ásjónum yðar til hans sem Guð hefur áformað, sem runninn er af þessari fornu Rót.‘ Viðfang þessara helgu orða er ekkert annað en Hin máttugasta grein (‘Abdu’l Bahá). Þannig höfum Vér náðarsamlega opinberað yður voldugan vilja Vorn og Ég er vissulega hinn náðugi, hinn algjöfuli.“
Í Súriy-i-Ghusn (Töflu greinarinnar) er eftirfarandi vers að finna: „Frá Sadratu’l-Muntahá hefur greinst þessi helga og dýrlega verund, þessi grein heilagleikans; sæll er sá sem leitar athvarfs hjá honum og dvelur í skugga hans. Vissulega hefur armur Guðs laga runnið af þessari Rót sem Guð hefur tryggilega gróðursett í jarðvegi vilja síns og grein hennar hefur verið svo hátt upp hafin að hún umlykur alla sköpunina. Miklaður sé Hann fyrir þetta framúrskarandi, þetta blessaða, máttuga og háleita handaverk!… Sem tákn um náð Vora hefur orð útgengið frá hinni mestu töflu – orð sem Guð hefur prýtt skarti síns eigin sjálfs og hafið yfir jörðina og allt sem á henni er, tákn um mátt Hans og mikilleika meðal þjóða hennar… Færið Guði þakkir, ó menn, fyrir birtingu hans, því að vissulega er hann dýrasta gjöfin sem yður hefur verið gefin, fullkomnasta örlætið sem yður hefur verið sýnt, og fyrir hann hefur lífi verið blásið í sérhvert fúnandi bein. Sá sem snýr sér til hans hefur snúið sér til Guðs og sá sem hefur snúið sér frá honum hefur snúið sér frá fegurð Minni, mælt í gegn vitnisburði Mínum og brotið gegn Mér. Hann er heitfé Guðs á meðal yðar, tilkall Hans hið innra með yður, opinberun Hans yður til handa og birting Hans meðal útvalinna þjóna Hans… Vér höfum sent hann niður í mynd mannlegs musteris. Blessaður og helgaður sé Guð sem skapar það sem Honum þóknast með ginnheilagri, óskeikulli ákvörðun sinni. Þeir sem hverfa úr skugga Greinarinnar eru týndir á auðnum villu, tærast í hita veraldlegra ástríðna og tilheyra vissulega þeim sem tortímast.“
„Ó þú augasteinn Minn!“ ávarpar Bahá’u’lláh ‘Abdu’l‑Bahá í pistli sem Hann ritaði með eigin hendi. „Dýrð Mín, úthaf ástríkis Míns, sól hylli Minnar, himinn miskunnar Minnar sé yfir þér. Vér biðjum Guð að upplýsa veröldina með þekkingu þinni og visku, að ákvarða þér það sem mun gleðja hjarta þitt og færa augum þínum fró.“ „Dýrð Guðs hvíli yfir þér,“ ritar Hann í annarri töflu, „og yfir öllum sem þjóna þér og hringsóla um þig. Vei, og aftur vei, þeim sem sýnir þér andstöðu og særir þig. Heill þeim sem sver þér trúnaðareið; helvítiseldur kvelji hann sem er óvinur þinn.“ „Vér höfum gert þig að athvarfi alls mannkynsins,“ staðfestir Hann í enn annarri töflu, „skjöld þeirra sem eru á himni og á jörðu, virki allra sem hafa trúað á Guð, hinn óviðjafnanlega, hinn alvísa. Guð gefi að með þér geti Hann verndað þá, auðgað og viðhaldið þeim, að Hann megi innblása þig því sem mun verða öllum uppspretta velmegunar, úthaf örlætis öllum mönnum og sól náðar öllum þjóðum.“
„Þú veist, ó Guð minn,“ biður Bahá’u’lláh í bæn sem opinberuð var ‘Abdu’l‑Bahá til heiðurs, „að Ég þrái fyrir hann ekkert nema það sem Þú þráðir og hef ekki útvalið hann til neins annars en þess sem Þú hafðir áformað honum. Ger hann því sigursælan með herskörum Þínum á jörðu og himni… Ég bið Þig við funa ástar Minnar til Þín og þrá Mína til að birta málstað Þinn, að ákvarða honum og þeim sem elska hann það sem Þú ákvarðaðir sendiboðum Þínum og trúnaðarmönnum opinberunar Þinnar. Vissulega ert Þú hinn almáttugi, hinn voldugi.“
Í bréfi sem Bahá’u’lláh las fyrir og skrifari Hans, Mírzá Áqá Ján, sendi ‘Abdu’l‑Bahá þegar hann var á ferð í Beirút, lesum við eftirfarandi: „Lof sé Honum sem heiðrað hefur Land Bá (Beirút) með návist hans sem öll nöfn snúast um. Öll atóm jarðarinnar hafa kunngert allri sköpuninni að bak við hlið fangelsisborgarinnar hafi birst og yfir sjónhring hennar skinið sól fegurðar Hinnar miklu og máttugustu greinar Guðs – Hans forni og óumbreytanlegi leyndardómur – á leið til annars lands. Þess vegna hefur sorgin tekið sér bólfestu í þessari fangelsisborg meðan annað land gleðst… Blessuð, margfaldlega blessuð, sé jörðin sem fætur hans hafa stigið á, augun sem glaðst hafa yfir fegurð ásýndar hans, eyrað sem heiðrað hefur verið með því að hlusta á kall hans, hjartað sem hefur bragðað sætleika ástar hans, það brjóst sem þanist hefur vegna minningar um hann, penninn sem hefur tjáð lofgjörð um hann, bókfellið sem hefur borið vitnisburð um helgirit hans.“
Er ‘Abdu’l‑Bahá ritar til staðfestingar því valdi sem Bahá’u’lláh gaf honum, gefur hann eftirfarandi yfirlýsingu: „Í samræmi við skýran texta Kitáb-i-Aqdas hefur Bahá’u’lláh gert Miðju sáttmálans að túlkanda orðs síns – þetta er sáttmáli sem er svo traustur og máttugur að frá upphafi tímans til þessa dags hefur ekkert trúarkerfi birt neitt honum líkt.“
Þótt staða ‘Abdu’l‑Bahá sé upphafin og hversu mikið sem það lof er sem Bahá’u’lláh hefur gert son sinn dýrlegan með í þessum helgu bókum og töflum, megum við ekki halda að svo einstæð viðurkenning veiti honum sömu eða áþekka stöðu og Föður hans, sjálfum opinberandanum. Að túlka einhverja áður tilvitnaða helgigrein á þann hátt mundi strax og af augljósum ástæðum setja hana í mótsögn við ekki síður skýrar og óyggjandi fullyrðingar og varnaðarorð sem ég hef vísað til. Eins og ég hef þegar sagt eru þeir sem gera of mikið úr stöðu ‘Abdu’l‑Bahá í rauninni jafn ámælisverðir, og hafa valdið jafn miklu tjóni, og þeir sem gera of lítið úr henni. Og ástæðan er engin önnur en sú að með því að halda fast við fullkomlega óréttlætanlegar ályktanir sem dregnar eru af bahá’í ritunum eru þeir ómeðvitandi að réttlæta ásakanir hinna óvinveittu og færa þeim sífellt fleiri sannanir fyrir röngum ákærum þeirra og villandi staðhæfingum.
Ég tel því nauðsynlegt að lýsa því yfir hiklaust og afdráttarlaust að hvorki í Kitáb-i-Aqdas eða í bók sáttmála Bahá’u’lláh né í Töflu greinarinnar eða í neinni annarri töflu, hvort heldur hún er opinberuð af Bahá’u’lláh eða ‘Abdu’l‑Bahá, er að finna eitt einasta orð sem gæti staðfest hina svonefndu „dulrænu einingu“ Bahá’u’lláh og ‘Abdu’l‑Bahá eða sannað samsömun hins síðarnefnda við Föður sinn eða nokkurn undangenginn opinberanda. Þessa röngu hugmynd má að hluta til rekja til öfgafullra túlkana á vissum orðum og köflum í Töflu greinarinnar, eða þeirrar staðreyndar að í ensku þýðingunni eru notuð orð sem annað hvort er ekki að finna í frumtextanum, eru villandi eða hafa tvíræðar merkingar. Hún byggist án vafa í megindráttum á fullkomlega rakalausri ályktun af fyrstu orðunum í töflu Bahá’u’lláh, en útdrættir úr henni, eins og þeir birtast í samantektinni „Bahá’í Scriptures“ („Bahá’í helgirit“), koma strax á undan fyrrnefndri Töflu greinarinnar, en eru ekki hluti af henni. Það ætti að vera þeim ljóst sem lesa þessa útdrætti að með orðasambandinu „tunga Hins aldna“ er ekki átt við neinn nema Guð og að heitið „Hið mesta nafn“ vísar augljóslega til Bahá’u’lláh, og að „sáttmálinn“ sem vitnað er til er ekki hinn sérstaki sáttmáli sem Bahá’u’lláh er höfundur að og hefur ‘Abdu’l‑Bahá að þungamiðju, heldur hinn almenni sáttmáli sem Guð sjálfur, eins og bahá’í ritin kenna, stofnar ætíð við mannkynið þegar Hann grundvallar nýtt trúarkerfi. „Tungan“ sem „boðar“, eins og komist er að orði í nefndum útdráttum, „fagnaðartíðindin“ er ekkert annað en rödd Guðs, sem vísar til Bahá’u’lláh, en ekki Bahá’u’lláh að vísa til ‘Abdu’l‑Bahá.
Að halda því aukinheldur fram að staðhæfingin „Hann er Ég sjálfur“ sanni samsömun Bahá’u’lláh og ‘Abdu’l‑Bahá í staðinn fyrir að tákna dulræna einingu Guðs og opinberanda Hans, eins og það er útskýrt í Kitáb-i-Íqán, er beinlínis brot gegn margítrekaðri meginreglu um einingu opinberenda Guðs – meginreglu sem Höfundur þessara sömu útdrátta leitast óbeinlínis við að leggja áherslu á.
Það mundi sömuleiðis jafngilda afturhvarfi til þeirrar kreddufullu hjátrúar sem andstætt allri skynsemi læddust inn í kenningar Jesú Krists á fyrstu öld hins kristna tímabils og kristallaðist í viðteknar trúarsetningar sem hafa skaðað virkni kristinnar trúar og hjúpað tilgang hennar myrkri.
Athugasemdir ‘Abdu’l‑Bahá við Töflu greinarinnar, ritaðar með hans eigin hendi, eru svohljóðandi: „Ég staðfesti að sönn merking, raunveruleg þýðing, innsti leyndardómur þessara versa og þessara orða, er þjónusta mín við heilaga fótskör Abhá fegurðarinnar, fullkomin sjálfsútþurrkun mín, algjör eivera mín frammi fyrir Honum. Þetta er skínandi kóróna mín, dýrasta skart mitt. Af þessu hreyki ég mér í konungsríki jarðar og himins. Yfir þessu fagna ég í félagsskap þeirra sem eru nálægir Guði!“ „Enginn hefur leyfi,“ varar Hann við í versunum strax á eftir, „til þess að túlka þessar helgigreinar á nokkurn annan veg.“ „Ég er,“ segir Hann í þessu sama samhengi, „samkvæmt skýrum texta Kitáb-i-Aqdas og Kitáb-i-‘Ahd augljós túlkandi orðs Guðs… Sá sem víkur frá túlkun minni er fórnarlamb eigin ímyndana.“
Enn fremur væri það rökrétt afleiðing af trúnni á samsömun Höfundar trúar okkar og hans sem er miðja sáttmála Hans, að setja ‘Abdu’l‑Bahá skör hærri en Bábinn, þar sem hið gagnstæða er samt grundvallandi, en þó ekki enn þá almennt viðurkennd, meginregla þessarar opinberunar. Það mundi einnig réttlæta þá ákæru sem sáttmálsbrjótarnir í gegnum alla embættistíð ‘Abdu’l‑Bahá reyndu að eitra með hugi og umsnúa skilningi tryggra fylgjenda Bahá’u’lláh.
Það væri réttara og í fullu samræmi við fastmótaðar meginreglur Bahá’u’lláh og Bábsins, ef við, í stað þess að halda fram þessari ímynduðu samsömun hvað snertir ‘Abdu’l‑Bahá, litum á Fyrirrennarann og Höfund trúar okkar sem einn og hinn sama í veruleika sínum. Þetta er sannleikur sem texti Súratu’l-Haykal staðfestir svo ekki verður um villst. „Hefði Frumpunkturinn (Bábinn) verið einhver annar en Ég eins og þér segið,“ eru skýr orð Bahá’u’lláh, „og hefði komist í návist Mína, hefði Hann vissulega aldrei leyft sér að skiljast frá Mér, heldur hefðum Vér haft gagnkvæman unað af samfundum hvors annars á dögum Mínum.“ „Hann sem nú mælir orð Guðs,“ staðfestir Bahá’u’lláh aftur, „er enginn annar en Frumpunkturinn sem aftur hefur verið birtur.“ „Hann er,“ segir Bahá’u’lláh með tilvísun til sín sjálfs í töflu til eins af bókstöfum Hins lifanda, „sá sami sem birtist árið sextíu (1260 e.H.). Þetta er vissulega eitt af máttugum táknum Hans.“ „Hver,“ spyr Hann í Súriy-i-Damm, „mun rísa upp til að tryggja sigur Hinnar frumrænu fegurðar (Bábsins) sem birtist í ásýnd opinberandans sem kom á eftir Honum?“ Er Hann vísar til opinberunarinnar sem Bábinn yfirlýsti, lýsir Hann henni á hinn bóginn sem „fyrri eigin opinberun Minni“.
Að ‘Abdu’l‑Bahá er ekki opinberandi Guðs, að hann þiggur ljós sitt, innblástur og viðhald beint frá uppsprettu bahá’í opinberunarinnar; að hann endurspeglar eins og skýr og fullkominn spegill dýrðarljóma Bahá’u’lláh og á ekki með ásköpuðum hætti þann óskilgreinanlega en alltgagntakandi veruleika sem er einkaréttur og einkenni spámennskunnar; að orð hans hafa ekki sömu stöðu og orð Bahá’u’lláh, jafnvel þótt þau hafi sama gildi; að hann má ekki hylla sem endurkomu Jesú Krists, Sonarins, sem mun koma „í dýrð Föðurins“ – þessi sannindi eru réttlætt og ítrekuð í eftirfarandi orðum ‘Abdu’l‑Bahá sem beint var til nokkurra átrúenda í Ameríku og sem ég vil gera að lokaorðum þessa kafla: „Þér hafið skrifað að ágreiningur sé meðal átrúendanna varðandi ‚seinni komu Krists‘. Náðugi Guð! Aftur og aftur hefur þetta mál skotið upp kollinum og svarið við því er að finna í skýrum og óvéfengjanlegum orðum frá penna ‘Abdu’l‑Bahá; þeir sem í spádómunum eru nefndir ‚Drottinn herskaranna‘ og ‚hinn fyrirheitni Kristur‘ eru Hin blessaða fullkomnun (Bahá’u’lláh) og Hans heilagleiki hinn upphafni (Bábinn). Nafn mitt er ‘Abdu’l‑Bahá. Hæfni mín er ‘Abdu’l‑Bahá. Veruleiki minn er ‘Abdu’l‑Bahá. Vegsömun mín er ‘Abdu’l‑Bahá. Þrælkun við Hina blessuðu fullkomnun er dýrlegt og geislandi djásn mitt og þjónusta við allt mannkynið eilíf trúarbrögð mín… Ekkert nafn, engan titil, enga minningu, engin meðmæli hef ég né mun nokkru sinni hafa nema ‘Abdu’l‑Bahá. Þetta er ósk mín. Þetta er heitasta þrá mín. Þetta er eilíft líf mitt. Þetta er ævarandi dýrð mín.“
Heittelskuðu bræður í ‘Abdu’l‑Bahá! Með uppstigningu Bahá’u’lláh hafði sól guðlegrar leiðsagnar, eins og Shaykh Aḥmad og Siyyid Kázim höfðu spáð, risið í Shíráz, náð hámarki í Adríanópel á leið sinni í vesturátt og hnigið til viðar í ‘Akká, og henni var ekki áformað að rísa aftur fyrr en að fullnuðum þúsund árum. Er þessi geislandi sól hvarf sjónum var endir bundinn á tímabil guðlegrar opinberunar, upphafsstigið og jafnframt mikilvægasta tímabilið í bahá’í tímanum. Þetta tímabil, sem var innleitt af Bábinum og náði hámarki í Bahá’u’lláh og sem allir spámennirnir í þessum mikla spámannshring höfðu búist við og vegsamað, hefur, að undanteknum þeim skamma tíma sem leið milli píslarvættis Bábsins og ægilegrar reynslu Bahá’u’lláh í Síyáh-Chál í Teheran, einkennst af samfelldri og stighækkandi opinberun í næstum hálfa öld. Hér er um að ræða tímabil sem á sér enga hliðstæðu í allri andlegri sögu heimsins hvað lengd og frjómátt snertir.
Andlát ‘Abdu’l‑Bahá markar hins vegar lok hetju- og postulaaldar þessa sama trúarkerfis – hins frumstæða tímabils í trú okkar sem jafnvel glæstir stórsigrar sem opinberun Bahá’u’lláh er fyrirhugað að vinna í framtíðinni munu aldrei geta skyggt á né komist í samjöfnuð við. Því hvorki afrek meistarasmiða nútíðarstofnana trúarinnar né þær fræknu dáðir sem hetjum gullaldar hennar mun auðnast að vinna í framtíðinni geta flokkast með eða jafnast á við þau undursamlegu afrek sem tengd eru nöfnum þeirra er blésu að sjálfri lífsglóð hennar og lögðu hyrningarsteina hennar. Fyrsta og skapandi öld bahá’í tímatalsins hlýtur eðlis síns vegna að standa ofar mótunaröldinni sem við nú lifum á og gullöldinni sem síðan mun koma.
Segja má að ‘Abdu’l‑Bahá, sem er holdtekja stofnunar sem á sér ekki neina hliðstæðu í neinu viðurkenndu trúarkerfi heimsins, hafi lokað dyrunum að öldinni sem hann sjálfur tilheyrði og opnað hliðin að þeim tímum sem við nú lifum og störfum á. Líta verður því á erfðaskrá hans sem eilífan, órjúfanlegan hlekk sem hugur hans sem er leyndardómur Guðs mótaði í því skyni að tryggja órofa samhengi þeirra þriggja alda sem mynda eina og samstæða heild bahá’í trúarkerfisins. Tímabilið sem sá ungan teinung trúarinnar spretta hægt og örugglega er þannig samofið þeim tíma sem verða mun vitni að blómgun hans, og næstu öld á eftir þegar þessi teinungur loks nær fullum þroska og ber sinn gullna ávöxt.
Sú skapandi orka sem lög Bahá’u’lláh leystu úr læðingi og sem þróaðist í huga ‘Abdu’l‑Bahá og gegnsýrði hann, hefur með beinum áhrifum og víxlverkunum fætt af sér stofnskrá nýs heimsskipulags sem er í senn dýrð og fyrirheit þessa volduga trúarkerfis. Erfðaskrána má því hylla sem óhjákvæmilegan ávöxt af dulrænu samneyti Hans sem miðlaði skapandi krafti síns guðlega áforms og hins eina sem var útvalinn farvegur þessa áforms. Erfðaskrá ‘Abdu’l‑Bahá, sem var afkvæmi sáttmálans og arfleifð bæði Höfundar og túlkanda laga Guðs, er ekki fremur hægt að slíta úr samhengi við Hann sem var frumorsök hennar en hann sem setti hana fram í endanlegri gerð. Við verðum ætíð að minnast þess að órannsakanlegt áform Bahá’u’lláh stóð svo djúpum rótum í verund ‘Abdu’l‑Bahá og áform þeirra voru svo nátengd, að allar tilraunir til að aðskilja kenningar hins fyrrnefnda sérhverju kerfi sem æðsta fyrirmynd þessara sömu kenninga hefur sett fram jafngilti afneitun á einni helgustu grundvallarstaðreynd trúarinnar.
Stjórnskipanina, sem allar götur frá uppstigningu ‘Abdu’l‑Bahá hefur þróast og mótast fyrir augum okkar í ekki færri en fjörutíu löndum heims, má skoða sem burðargrind þessarar sömu erfðaskrár, óvinnandi vígi þar sem þetta nýfædda barn nærist og vex. Samhliða því sem þessi stjórnskipan færir út kvíarnar og treystir sig í sessi, mun hún án nokkurs vafa birta alla möguleika og skýra til hlítar sérhverja hlið þessa stórmikilvæga skjals – merkilegustu tjáningu á vilja einnar merkilegustu persónu í trúarkerfi Bahá’u’lláh. Hún mun, samhliða því sem innbyrðis tengdir þættir hennar og lífsnauðsynlegar stofnanir byrja að starfa af gagnvirkni og fullum krafti, ekki hvika frá tilkalli sínu og um leið sanna hæfni sína til þess að skoðast ekki aðeins sem kjarni heldur sjálft mynstur nýs skipulags sem í fyllingu tímans er fyrirhugað að umlykja allt mannkynið.
Athuga ætti í þessu sambandi að þessi stjórnskipan er í grundvallaratriðum ólík öllu sem aðrir spámenn hafa áður kunngert, því að það var Bahá’u’lláh sjálfur sem opinberaði meginreglur hennar, lagði grundvöllinn að stofnunum hennar, útnefndi persónuna sem átti að túlka orð Hans og veitti nauðsynlegt valdsumboð þeirri stofnun sem var ætlað að fylla upp í löggjöf Hans og gera hana að veruleika. Hér er að finna leyndardóm máttar hennar, grundvallarauðkenni og tryggingu gegn upplausn og klofningi. Hvergi í heilögum ritum nokkurs heimstrúarkerfis né heldur í ritum Bábsins finnum við fyrirmæli um sáttmála eða drög að stjórnskipan sem að umfangi og myndugleika kemst í samjöfnuð við þau fyrirmæli sem eru við rætur bahá’í trúarkerfisins. Hafa kristindómur eða íslam, svo dæmi sé tekið af tveimur útbreiddustu og áhrifamestu heimstrúarbrögðunum, eitthvað fram að færa sem væri hægt að bera saman við eða meta til jafns við annað hvort bók sáttmála Bahá’u’lláh eða erfðaskrá ‘Abdu’l‑Bahá? Veitir texti guðspjallanna eða Kóransins nægilegt umboð þeim leiðtogum og ráðum sem hafa tekið sér vald til að túlka fyrirmælin í heilögum ritum trúar sinnar eða stjórna málefnum viðkomandi samfélaga? Gátu Pétur, óumdeildur leiðtogi postulanna, eða ímaminn ‘Alí, frændi spámannsins og lögmætur arftaki Hans, bent á skýr og skrifleg fyrirmæli frá Kristi og Múhameð sem sönnun um forystuhlutverkið sem báðum var ætlað og sem voru þess megnug að þagga niður í þeim samtímamönnum þeirra og eftirkomendum sem höfnuðu valdsumboði þeirra og stofnuðu með gerðum sínum til þess klofnings sem ríkt hefur allt fram á okkar daga? Hvar, mættum við spyrja, er í skráðum ummælum Krists, hvort heldur um er að ræða erfðaréttinn eða sérstakar tilskipanir og skýrt skilgreind stjórnlagaboð, aðgreind frá hreinum andlegum meginreglum, að finna nokkuð sem kemst í hálfkvisti við þau ítarlegu boð, lög og varnaðarorð, sem úir og grúir af í staðfestum ummælum bæði Bahá’u’lláh og ‘Abdu’l‑Bahá? Kóraninn er hvað löggjöf, stjórnsýslu og tilbeiðslufyrirmæli snertir, langt á undan fyrri og spilltari opinberunum, en rennir nokkur helgigrein hans ótvíræðum stoðum undir það valdsumboð sem Múhameð hafði munnlega við allmörg tækifæri gefið arftaka sínum? Er hægt að fullyrða að höfundur bábí-trúarkerfisins, hversu rækilega sem Honum tókst með ráðstöfunum sínum í persneska Bayáninum að koma í veg fyrir jafn varanlegan og afdrifaríkan klofning og þann sem kristindómi og íslam féll í skaut, hafi skapað tæki til að vernda trú sína á eins virkan og öruggan hátt og það sem um aldur og ævi hlýtur að varðveita einingu skipulagðra fylgjenda trúar Bahá’u’lláh?
Ein allra undangenginna opinberana hefur þessi trú, með skýrum fyrirmælum, ítrekuðum varnaðarorðum og staðfestum varnöglum sem eru innbyggðir og útskýrðir í kenningum hennar, tekist að byggja upp skipulag sem ráðvilltir fylgjendur gjaldþrota og sundraðra trúarbragða mættu gjarnan nálgast og skoða af gagnrýni – og leita, áður en það er um seinan, öruggs hælis í heimsumlykjandi athvarfi hennar.
Ekki að undra þótt hann sem er miðja svo máttugs sáttmála og sem með atbeina vilja síns hefur sett á stofn svo víðfeðmt og einstætt skipulag, skuli hafa ritað þessi orð: „Svo traustur og máttugur er þessi sáttmáli að frá upphafi tímans til þessa dags hefur ekkert trúarkerfi birt neitt honum líkt.“ „Hvaðeina sem dulið er í hjarta þessarar helgu hringrásar,“ skrifaði hann á dimmustu og hættulegustu dögum embættisferils síns, „mun smám saman birtast og koma í ljós, því nú sjáum við aðeins upphaf vaxtar þess, árdagsljómann frá sól opinberunar tákna þess.“ „Óttist ekki,“ eru huggunarrík orð hans sem boða viðgang stjórnskipanarinnar sem erfðaskrá hans grundvallar: „Óttist ekki, ef þessi Grein skilst frá þessum efnislega heimi og missir lauf sín; nei, lauf hennar munu blómgast, því þessi grein mun halda áfram að vaxa eftir að hún skilst frá heiminum hið neðra, hún mun ná hæstu tindum dýrðar og bera ávexti sem munu dreifa ilman sinni um allan heim.“
Hvað geta þessi ummæli Bahá’u’lláh átt við annað en máttinn og tignina sem þessi stjórnskipan – vísirinn að alltumlykjandi bahá’í samveldi framtíðarinnar – er fyrirhugað að birta: „Veröldin hefur gengið úr skorðum vegna altæks áhrifavalds þessa nýja og æðsta heimsskipulags. Skipulögðu lífi mannkynsins hefur verið umbylt fyrir atbeina þessa einstæða, undursamlega kerfis hvers líka dauðleg augu hafa aldrei séð.“
Er Bábinn vísar sjálfur til „Hans sem Guð mun birta“, sér fyrir kerfið og vegsamar heimsskipulagið sem opinberun Bahá’u’lláh er fyrirhugað að afhjúpa, ritar Hann þessi eftirtektarverðu orð í þriðja kafla persneska Bayánsins: „Heill sé þeim sem festir sjónir á skipulagi Bahá’u’lláh og færir Drottni sínum þakkir! Því að Hann mun vissulega verða birtur. Guð hefur að sönnu ákvarðað það með óafturkallanlegum hætti í Bayáninum.“
Í töflum Bahá’u’lláh þar sem stofnanir alþjóða- og svæðishúsa réttvísinnar eru sérstaklega gefnar til kynna og formlega grundvallaðar; í stofnun Handa málstaðar Guðs sem Bahá’u’lláh, og síðar ‘Abdu’l‑Bahá, sköpuðu; í stofnun bæði svæðis- og þjóðarráða sem á frumstigum sínum störfuðu fyrir uppstigningu ‘Abdu’l‑Bahá; í valdinu sem Höfundur trúar okkar og Miðja sáttmála Hans hafa í töflum sínum þóknast að veita þeim; í stofnun svæðissjóðsins sem starfaði í samræmi við sérstök fyrirmæli ‘Abdu’l‑Bahá er beint var til vissra ráða í Persíu; í helgum orðum Kitáb-i-Aqdas sem gefa skýra vísbendingu um Verndarstofnunina; í skýringunum sem ‘Abdu’l‑Bahá í einum pistla sinna gaf á erfðareglunni og áherslunni sem hann lagði á hana og lögmál frumburðarréttarins sem einnig hafði hlotið staðfestingu fyrri spámanna – í öllu þessu getum við greint daufan glampa og séð fyrstu forboðana um eðli og starfsemi stjórnskipanarinnar sem síðar var kunngerð og formlega stofnuð í erfðaskrá ‘Abdu’l‑Bahá.
Ég tel að gera verði nú tilraun til þess að varpa ljósi á eðli og starfsemi þeirra tvíburastoða sem styðja þessa máttugu stjórnskipan – Verndarstofnunina og Allsherjarhús réttvísinnar. Það er ekki ætlunin með þessum almennu útlistunum á grundvallarsannindum trúarinnar að skýra til hlítar hina ýmsu þætti sem starfa í tengslum við þessar stofnanir. Nákvæm og sundurliðuð greining á eðli og einstökum þáttum þeirra tengsla sem knýta saman þessi grundvallartæki erfðaskrár ‘Abdu’l‑Bahá og tengja hvort þeirra um sig Höfundi trúarinnar og Miðju sáttmála Hans, er verkefni sem síðari kynslóðir munu án efa vinna til hlítar. Áform mitt á þessu stigi málsins er að skýra viss meginatriði þessa kerfis, sem nú þegar er svo rækilega skilgreint, að fáfræði um það eða misskilningur á eðli þess verður að teljast óafsakanlegur með öllu, sama hversu nálægt þessari miklu meistarasmíð við stöndum.
Það ætti að koma fram skýrt og afdráttarlaust í upphafi að þessar tvíburastofnanir stjórnskipanar Bahá’u’lláh eiga að skoðast sem guðdómlegar að uppruna. Þær eru ómissandi hvað viðvíkur starfssviði þeirra og þær uppfylla hvor aðra í tilgangi sínum og áformi. Sameiginlegt grundvallarmarkmið þeirra er að tryggja órofa samfellu þess guðlega ákvarðaða valds sem streymir frá uppsprettu trúar okkar, vernda einingu fylgjenda hennar og viðhalda heiðri og sveigjanleika kenninga hennar. Í sameiningu annast þessar tvær óaðskiljanlegu stofnanir málefni hennar, samræma starfsemi hennar, vinna að hagsmunamálum hennar, fylgja eftir lögum hennar og vernda hjálparstofnanir hennar. Aðskildar starfar hvor um sig á skýrt afmörkuðu sviði og hefur sínar sérstöku aðstoðarstofnanir – tæki sem hönnuð eru til virkrar framkvæmdar tiltekinna skyldna og ábyrgðarverka. Hvor um sig hefur, innan þeirra marka sem henni eru sett, vald, myndugleika, réttindi og forréttindi. Þær eru ekki í mótsögn hver við aðra né draga að neinu leyti úr stöðu hvor annarrar. Því fer fjarri að þær séu ósamræmanlegar eða gagnkvæmt eyðandi, heldur uppfylla þær valdssvið og störf hvor annarrar og eru ávallt og í grundvallaratriðum sameinaðar í áformum sínum.
Sé heimsskipulag Bahá’u’lláh slitið úr tengslum við Verndarstofnunina örkumlast það og verður um alla framtíð svipt þeirri erfðareglu sem, eins og ‘Abdu’l‑Bahá ritaði, hefur undantekningarlaust verið staðfest af lögum Guðs. „Í öllum guðlegum trúarbrögðum,“ skrifar hann í töflu til fylgjenda trúarinnar í Persíu, „hefur elsta syninum verið sýndur sérstakur heiður. Jafnvel staða spámennsku hefur verið fæðingarréttur hans.“ Án slíkrar stofnunar yrði heilleika trúarinnar stofnað í hættu og stöðugleika allrar yfirbyggingarinnar alvarlegur háski búinn. Orðstír hennar mundi bíða hnekki, tækin til að gera henni kleift að horfa samfellt og óhindrað yfir margar kynslóðir mundi algerlega vanta og nauðsynleg leiðsögn til að skilgreina svið löggjafarstarfsemi kosinna fulltrúa hennar mundi að fullu og öllu verða frá henni tekin.
Að slíta ekki síður nauðsynlega stofnun Allsherjarhúss réttvísinnar úr samhengi við þetta sama kerfi erfðaskrár ‘Abdu’l‑Bahá mundi lama alla starfsemi þess og það verða þess ómegnugt að fylla upp í eyðurnar sem Höfundur Kitáb-i-Aqdas skildi viljandi eftir í heildarritum löggjafar og stjórnlagafyrirmæla sinna.
„Hann er útskýrandi orðs Guðs,“ segir ‘Abdu’l‑Bahá í erfðaskrá sinni með skírskotun til starfssviðs Verndara trúarinnar og notar hér sömu orðin og þegar hann vísaði á bug röksemdum sáttmálsbrjótanna sem höfðu dregið í efa túlkunarrétt hans á orðum Bahá’u’lláh. „Eftir hans dag,“ bætir hann við, „tekur við frumburður afkomenda hans í beinan karllegg.“ „Hið máttuga virki,“ segir hann enn fremur, „skal tryggja og gera óvinnandi með hlýðni við hann sem er Verndari málstaðar Guðs. Sú skylda hvílir á meðlimum Húss réttvísinnar, á öllum Aghṣán, Afnán og Höndum málstaðar Guðs að sýna Verndara málstaðar Guðs hlýðni, eftirlæti og undirgefni.“
„Meðlimum Húss réttvísinnar ber skylda,“ segir Bahá’u’lláh hins vegar í áttunda laufi hinnar upphöfnu paradísar, „til að taka ráð saman varðandi það sem ekki var skilmerkilega kveðið á um í Bókinni og framkvæma það sem þeim er að skapi. Guð mun vissulega innblása þá hverju því sem Honum þóknast, og vissulega er Hann forsjáin, hinn alvísi.“ „Allir verða að snúa sér,“ segir ‘Abdu’l‑Bahá í erfðaskrá sinni, „til hinnar helgustu bókar (Kitáb-i-Aqdas). Öllu sem ekki er skráð þar skýrum stöfum skal vísa til Allsherjarhúss réttvísinnar. Það sem þessi stofnun ákvarðar, hvort heldur einróma eða með meirihluta atkvæða, er vissulega sannleikurinn og áform Guðs sjálfs. Hver sem víkur frá því tilheyrir vissulega þeim sem elska ósamlyndi, sýna meinfýsi og snúa baki við Drottni sáttmálans.“
Ekki einasta staðfestir ‘Abdu’l‑Bahá í erfðaskrá sinni ofangreinda staðhæfingu Bahá’u’lláh, heldur veitir hann þessari stofnun aukaréttindi og vald til að nema úr gildi, í samræmi við þarfir tímanna, hennar eigin ákvarðanir sem og ákvarðanir undanfarandi Húss réttvísinnar. „Líkt og Hús réttvísinnar,“ segir hann skýrt og skorinort í erfðaskrá sinni, „hefur vald til að setja lög sem ekki eru skráð skýrum stöfum í Bókinni og varða daglegar gerðir, þannig hefur það einnig vald til að fella þau lög úr gildi… Þetta getur það gert vegna þess að þessi lög eru ekki hluti af hinum skýra helga texta.“
Eftirfarandi þungvæg orð vísa bæði til Verndarans og Allsherjarhúss réttvísinnar: „Hin helga og unga grein, Verndari málstaðar Guðs, og Allsherjarhús réttvísinnar sem stofna skal og kjósa allsherjarkosningu eru hvort tveggja undir umsjá og vernd Abhá fegurðarinnar, í skjóli og undir óskeikulli leiðsögn Hins upphafna (Bábsins) (megi lífi mínu verða fórnað þeim báðum). Hvaðeina sem þeir ákveða er af Guði.“
Af þessum fullyrðingum verður ljóst að Verndari trúarinnar hefur verið gerður túlkandi orðs Guðs og Allsherjarhúsi réttvísinnar er falið að setja lög um þau málefni sem ekki er skilmerkilega kveðið á um í helgiritunum. Túlkun Verndarans, sem starfar á eigin sviði, er jafn gild og bindandi og samþykktir Allsherjarhúss réttvísinnar, sem hefur þann einkarétt og þau forréttindi að lögleiða og fella endanlegan úrskurð um þau fyrirmæli og tilskipanir sem Bahá’u’lláh hefur ekki kveðið skýrt á um. Hvorugur aðilinn getur, né mun nokkru sinni, fara inn á heilagt og fyrirskipað valdsvið hins, hvorugur mun leitast við að skerða það sérstaka og ótvíræða vald sem báðum hefur verið gefið af Guði.
Þótt Verndari trúarinnar hafi til frambúðar verið gerður að leiðtoga svo virðulegs ráðs getur hann aldrei, ekki einu sinni til bráðabirgða, tekið sér einkarétt til löggjafar. Hann getur ekki virt að vettugi ákvarðanir meirihluta annarra meðlima, heldur verður að krefjast þess að sérhver samþykkt, sem hann samviskusamlega trúir að sé í andstöðu við og fráhvarf frá anda opinberaðra orða Bahá’u’lláh, sé tekin til endurskoðunar. Hann túlkar það sem sérstaklega hefur verið opinberað og getur ekki sett lög nema sem meðlimur Allsherjarhúss réttvísinnar. Honum er óheimilt að semja sjálfur stefnuskrána, sem er grundvöllurinn að skipulagðri starfsemi sammeðlima hans, og að beita áhrifum sínum þannig að frjálsræði þeirra, sem rækja þann heilaga rétt að kjósa ráð starfsbræðra hans, verði skorður settar.
Hafa ætti í huga að Verndarstofnunin hafði verið boðuð af ‘Abdu’l‑Bahá í skírskotun sem hann gerði í töflu sem beint var löngu fyrir uppstigningu hans til þriggja vina hans í Persíu. Við spurningu þeirra um hvort bahá’íarnir ættu að snúa sér til einhverrar ákveðinnar persónu eftir hans dag, gaf hann eftirfarandi svar: „Varðandi þá spurningu sem þið hafið lagt fyrir mig, vitið með sanni að þetta er vel varðveittur leyndardómur. Hann er eins og gimsteinn sem er falinn inni í skel. Það er forákvarðað að hann verði leiddur fram í dagsljósið. Sá tími mun koma þegar ljós hans birtist, vitnisburðir hans verða gerðir augljósir og leyndardómar hans opinberaðir.“
Heittelskuðu vinir! Þótt staða Verndarstofnunarinnar í stjórnskipan Bahá’u’lláh sé upphafin, ætlunarverk hennar mikilvægt og ábyrgðin sem hún felur í sér mikil og yfirþyrmandi, má alls ekki leggja of mikla áherslu á hana, hvað sem líður orðum erfðaskrárinnar. Verndara trúarinnar má ekki undir neinum kringumstæðum, hver sem verðskuldun hans og afrek eru, hefja upp á svið sem veitir honum hlutdeild ásamt ‘Abdu’l‑Bahá í þeirri einstæðu stöðu sem Miðja sáttmálans hefur – enn þá síður á það svið sem einskorðað er við opinberendur Guðs. Svo alvarlegt fráhvarf frá grundvölluðum kenningum trúar okkar væri ekki annað en opinskátt guðlast. Ég hef þegar sagt er ég útskýrði stöðu ‘Abdu’l‑Bahá að hversu breitt sem það bil er sem skilur hann frá Höfundi bahá’í opinberunarinnar, getur það aldrei komist í samjöfnuð við djúpið sem staðfest er á milli hans sem er Miðja sáttmála Bahá’u’lláh og Verndaranna sem eru útvaldir erindrekar hans. Bilið sem skilur Verndarann frá Miðju sáttmálans er miklu, miklu breiðara en það sem aðskilur Miðju sáttmálans frá Höfundi hans.
Ég tel það þungvæga skyldu mína að lýsa því yfir að enginn Verndari trúarinnar getur nokkru sinni gert tilkall til þess að vera fullkomin fyrirmynd kenninga Bahá’u’lláh né sá flekklausi spegill sem endurvarpar ljósi Hans. Þótt hann sé yfirskyggður óbrigðulli og óskeikulli vernd Bahá’u’lláh og Bábsins og í hversu miklum mæli sem hann deilir með ‘Abdu’l‑Bahá réttindum og skyldum að túlka bahá’í kenningarnar, þá er hann í meginatriðum mannlegur og getur ekki, vilji hann vera starfi sínu trúr, tekið sér, hver sem átyllan kann að vera, þann rétt og þau forréttindi sem Bahá’u’lláh hefur kosið að veita syni sínum. Í ljósi þessa sannleika jafngilti það fráhvarfi frá þeim staðfestu kenningum sem eru varðveittar í ástkærri trú okkar að biðja til Verndara trúarinnar, ávarpa hann sem drottin og meistara, nefna hann „hans heilagleika“, leita blessunar hans, halda fæðingardag hans hátíðlegan eða minnast einhvers atburðar sem tengdur er lífi hans. Sú staðreynd að Verndaranum hefur verið sérstaklega gefið það vald sem hann þarfnast til að opinbera innihald og kunngera það sem felst í ummælum Bahá’u’lláh og ‘Abdu’l‑Bahá, veitir honum ekki endilega stöðu sem er jöfn stöðu þeirra hvers orð hann á að túlka. Hann getur beitt þeim rétti og rækt skyldur sínar og samt verið óendanlega miklu minni en þeir báðir hvað varðar stöðu og auk þess frábrugðinn þeim að eðlisgerð.
Orð og gerðir núverandi og komandi Verndara trúarinnar verða að bera ríkt vitni flekklausum sannleika þessarar meginreglu trúar okkar. Með framferði sínu og fordæmi verða þeir að staðfesta sannleika hennar á óhagganlegri undirstöðu og flytja komandi kynslóðum óflekkaðan vitnisburð um veruleika hennar.
Hik eða hálfvelgja af minni hálfu við að viðurkenna svo mikilvægan sannleika eða kunngera svo óhagganlega sannfæringu væru smánarleg svik við trúnaðinn sem ‘Abdu’l‑Bahá sýndi mér og óafsakanlegt rán á því valdi sem honum sjálfum var gefið.
Nauðsynlegt er að segja nokkur orð um kenninguna sem þessi stjórnskipan byggir á og meginregluna sem verður að stjórna starfsemi höfuðstofnana hennar. Það væri algjörlega villandi að gera samanburð á þessari einstæðu, guðlega áformuðu skipan og einhverjum þeim kerfum sem mannshugurinn á ýmsum tímabilum sögunnar hefur komið sér upp til stjórnunar á mannlegum stofnunum. Slíkur samanburður kæmi upp um vöntun á fullum skilningi á ágæti handaverks Hins mikla höfundar. Og hvernig má annað vera ef við leiðum hugann að þeirri staðreynd að þessi skipan er sjálft grunnmynstur þeirrar guðlegu siðmenningar sem alvoldugri löggjöf Bahá’u’lláh er fyrirhugað að stofna á jörðunni? Hin ýmsu og síbreytilegu kerfi mannlegra stjórnarhátta, hvort sem er í nútíð eða fortíð, hvort heldur í austri eða vestri, geta alls ekki verið neinn mælikvarði á getu hinna huldu dyggða þess eða mælisnúra á traustleika undirstöðunnar.
Bahá’í heimsveldi framtíðarinnar – en einasti rammi þess er þessi mikla stjórnskipan – er bæði í kenningu og framkvæmd ekki aðeins einstætt í allri stjórnmálasögunni, heldur á það sér enga hliðstæðu í annálum viðurkenndra trúarkerfa heimsins. Engin tegund lýðræðisstjórnar; ekkert kerfi einræðis eða alræðis, hvort sem um er að ræða lýðveldi eða konungdæmi; ekkert millistig hreinnar höfðingjastjórnar; jafnvel ekkert hinna viðurkenndu kirkjuríkja, hvort sem um er að ræða Gyðingasamveldið eða hin ýmsu kristnu kirkjufélög, ímama- eða kalífadæmin í íslam – engu er hægt að jafna við eða telja samhljóða þeirri stjórnskipan sem meistarahönd Hins fullkomna skapara þess hefur mótað.
Þessi nýfædda stjórnskipan innlimar vissa þætti sem fyrir hendi eru í þremur viðurkenndum formum veraldlegra stjórna, án þess þó að vera að nokkru leyti eftirmynd neinna þeirra og án þess að taka upp í stjórnkerfi sitt neina ámælisverða þætti sem þeim eru eðlislægir. Hún sameinar og samræmir, í ríkari mæli en nokkur önnur stjórnskipan sem gerð er af mannahöndum, hin heillavænlegu sannindi, sem sérhvert þessara kerfa vafalaust inniheldur, án þess þó að spilla heilleika þeirra guðlegu sanninda sem hún byggir á.
Ekki má líta á stjórnskipan trúar Bahá’u’lláh sem hreina lýðræðisskipan í eðli sínu, því að þá grundvallarforsendu sem gerir öll lýðræðisríki í meira eða minna mæli háð umboði fólksins, vantar algjörlega í þetta trúarkerfi. Í stjórnun skipulagsmála trúarinnar, í framkvæmd löggjafar, sem nauðsynleg er til að fylla upp í lög Kitáb-i-Aqdas, ætti að hafa í huga að meðlimir Allsherjarhúss réttvísinnar eru, eins og ummæli Bahá’u’lláh gefa skýrt til kynna, ekki ábyrgir gagnvart þeim sem þeir eru fulltrúar fyrir, né er þeim leyfilegt að láta leiðast af tilfinningum, almennum skoðunum eða jafnvel sannfæringu meginþorra hinna trúföstu eða þeirra sem kjósa þá í beinum kosningum. Þeir eiga að fylgja í bænarhug boðum og áminningum sinnar eigin samvisku. Þeir mega, og verða raunar, að kynna sér aðstæðurnar sem ríkja í samfélaginu, vega og meta ástríðulaust kosti og galla sérhvers máls sem til þeirra kasta kemur, en áskilja sér síðan rétt til frjálsrar ákvörðunar. „Guð mun vissulega innblása þá hverju því sem Honum þóknast,“ er óvéfengjanleg fullvissun Bahá’u’lláh. Þeir, en ekki meginþorri þeirra sem beint eða óbeint kjósa þá, hafa þannig verið gerðir viðtakendur guðlegrar leiðsagnar sem er í senn lífsblóð og endanlegt öryggi þessarar opinberunar. Auk þess hefur hann sem er tákn erfðaréttarins í þessu trúarkerfi verið gerður að túlkanda orða Höfundar þess og hættir þar af leiðandi, í krafti þess raunverulega valds sem honum er gefið, að hafa það nafnvald sem ávallt er tengt ríkjandi kerfum þingbundinna konungsstjórna.
Ekki er heldur hægt að hafna bahá’í stjórnskipaninni sem stirðu og ósveigjanlegu kerfi ómengaðs alræðis eða hégómlega eftirlíkingu einhverrar einræðiskirkjustjórnar, hvort sem um er að ræða páfadæmið, ímamadæmið eða svipaðar stofnanir, af þeirri augljósu ástæðu að alþjóðlega kosnum fulltrúum fylgjenda Bahá’u’lláh hefur verið veittur einkaréttur á lagasetningu um þau mál sem ekki eru skýrt opinberuð í bahá’í ritunum. Hvorki Verndari trúarinnar né nokkur stofnun utan Alþjóðlegs húss réttvísinnar getur nokkru sinni sölsað undir sig þetta mikilvæga og nauðsynlega vald eða gengið á þennan heilaga rétt. Afnám atvinnuklerkastéttar ásamt helgisiðum skírnar, altarisgöngu og skrifta, lög sem krefjast allsherjarkosninga á öllum svæðis-, þjóðar- og alþjóðlegum húsum réttvísinnar, algjör vöntun biskupavalds með þeim forréttindum, spillingu og skrifræðistilhneigingum sem því fylgja, eru enn frekari vitnisburður um and-einræðisleg einkenni bahá’í stjórnskipanarinnar og lýðræðislegar aðferðir hennar við stjórnun málefna sinna.
Ekki má rugla þessari skipan, sem kennd er við nafn Bahá’u’lláh, saman við neitt kerfi hreinnar höfðingjastjórnar í ljósi þeirrar staðreyndar að hún staðfestir annars vegar erfðaröðina og leggur Verndara trúarinnar á herðar þá skyldu að túlka kenningar hennar og veitir hins vegar heimild til frjálsra og beinna kosninga úr hópi átrúendanna á því ráði sem er æðsta löggjafarstofnun þess.
Þar sem ekki er hægt að segja að þessi stjórnskipan hafi verið mótuð eftir neinu viðurkenndu stjórnkerfi, sættir hún og samræmir engu að síður innan ramma síns þá heilbrigðu þætti sem hægt er að finna í sérhverju þeirra. Erfðavaldið sem Verndaranum er gert að framfylgja, þungvæg og nauðsynleg störf Allsherjarhúss réttvísinnar, sérstök fyrirmæli sem útheimta kjör fulltrúa hinna trúföstu með lýðræðisfyrirkomulagi – allt leggst á eitt við að sýna fram á þann sannleika að þessi guðlega opinberaða skipan, sem aldrei er hægt að samkenna þeim hefðbundnu stjórnarháttum sem Aristóteles vísar til í verkum sínum, líkamnar hina heillavænlegu þætti sem finna má í þeim öllum og samþættir þá jafnframt við þau andlegu sannindi sem hún byggir á. Hinar óumdeilanlegu meinsemdir sem eru áskapaðar öllum þessum kerfum eru útilokaðar rækilega og til frambúðar. Hversu lengi sem þessi einstæða skipan kann að vara og hversu afdrifaríkar sem afleiðingar hennar kunna að verða, getur hún aldrei úrkynjast í neins konar harðstjórn, höfðingjastjórn eða lýðskrumsstjórn, sem fyrr eða síðar verður hlutskipti allra stjórnmálakerfa sem smíðuð eru af mannahöndum og eru í eðli sínu gölluð.
Heittelskuðu vinir! Þótt uppruni þessa máttuga stjórnkerfis sé þýðingarmikill og hinir ýmsu þættir þess einstæðir, þá eru atburðirnir sem segja má að hafi boðað fæðingu þess og táknað frumstig þróunar þess ekki síður merkilegir. Hversu athyglisverður, hversu upplýsandi er ekki munurinn á þeirri hægu og stöðugu treystingu, sem einkennir æskufullan vaxtarþrótt þess, og eyðandi framrás upplausnaraflanna sem dynja yfir útslitnar stofnanir, bæði trúarlegar og veraldlegar, í nútíma þjóðfélagi!
Sá kraftur sem lífrænar stofnanir þessarar miklu og sístækkandi skipanar sýna svo greinilega; hindranirnar sem djörfung og ótrauð einbeitni stjórnenda hennar hafa þegar sigrast á; eldur fölskvalauss áhuga sem brennur ákaft í hjörtum ferðakennara hennar; hæðir sjálfsfórnar sem meistarasmiðir hennar nú stíga; umfang sýnarinnar, vonarfullvissan, sköpunargleðin, hinn innri friður, sá óhaggandi heiðarleiki og fordæmislausi agi, sú óbifandi eining og samstaða sem ótrauðir verjendur hennar sýna; og sönnun frumhvata hennar á hæfni sinni til að samræma ólíka þætti innan síns eigin sviðs, hreinsa þá af öllum tegundum fordóma og bræða þá saman í sitt eigið kerfi – allt þetta er vitnisburður um afl sem vonarsnautt þjóðfélag í upplausn hefur lítil efni á að virða að vettugi.
Berið þessar glæstu opinberanir andans, sem gæða lífi þennan tápmikla líkama trúar Bahá’u’lláh, við kvein og þjáningu, flónsku og hégómleika, biturð og fordóma, illsku og sundrung sjúkrar og sundraðrar veraldar. Sjáið óttann sem kvelur leiðtoga hennar og lamar starfsemi blindra og ráðvilltra stjórnmálamanna. Hversu heiftugt er ekki hatrið, hve fláráður metnaðurinn, hve lítilmótleg eftirsóknin, hversu djúpstæð tortryggnin meðal þjóða hennar! Hversu skelfileg er ekki lögleysan, spillingin og vantrúin sem etur sig inn í líffæri hrynjandi siðmenningar!
Mætti ekki líta á þetta ferli stöðugrar hnignunar, sem á lævísan hátt ræðst inn á svo mörg svið mannlegrar starfsemi og hugsunar, sem nauðsynlegt samspil við uppgang þessa almáttuga arms Bahá’u’lláh? Getum við ekki litið á þá feiknlegu atburði, sem á síðustu tuttugu árum hafa skekið undirstöður meginlanda heimsins, sem ógnvænleg tákn um kvöl siðmenningar í upplausn og jafnframt fæðingarhríðar þessa heimsskipulags – þeirrar arkar mannlegrar frelsunar – sem fyrirhugað er að rísi á rústum hennar?
Hrikalegt fall mikilla keisaradæma og einvalda á meginlandi Evrópu, en tilvísanir til sumra þeirra má finna í spádómum Bahá’u’lláh; hnignunarmerki shía-klerkaveldisins í föðurlandi Hans sjálfs; fall Qájár-keisaraættarinnar, erfðaóvinar trúar Hans; kollvelting soldána- og kalífadæmanna, burðarstoða súnní-íslams, sem á sér eftirtektarverða hliðstæðu í eyðingu Jerúsalems á síðari hluta fyrstu aldar hins kristna tímatals; flóðalda veraldarhyggju sem steypist yfir múhameðskar trúarstofnanir í Egyptalandi og dregur úr hollustu sterkustu stuðningsmanna þeirra; auðmýkjandi áföll sem dunið hafa yfir sumar voldugustu kirkjur kristindómsins í Rússlandi, í Vestur-Evrópu og Mið-Ameríku; dreifing þeirra undirróðurskenninga sem grafa undan grunni og umbylta máttarstoðum virkja sem virðast óvinnandi á sviði stjórnmála og samfélagsmála; tákn aðsteðjandi hamfara sem minna svo einkennilega á fall rómverska keisaradæmisins í vestri og sem hóta að leggja nútíma siðmenningu í rústir – allt þetta ber vitni glundroðanum sem fæðing þessa máttuga málgagns trúar Bahá’u’lláh hefur skapað í veröldinni – glundroða sem mun vaxa að umfangi og ákefð jafnhliða því sem meiri skilningur fæst á ýmsum hliðum þessa sívaxandi kerfis og áhrif þess kvíslast víðar um yfirborð jarðarinnar.
Fáein orð að lokum. Uppgangur og grundvöllun þessarar stjórnskipanar – skeljarinnar sem hlífir og varðveitir svo dýrmæta perlu – er einkenni þessarar annarrar aldar bahá’í tímatalsins, mótunaraldarinnar. Þegar við færumst fjær þessari skipan munum við viðurkenna hana sem þýðingarmesta og máttugasta tækið til að ryðja braut lokastiginu: hámarki þessa dýrlega trúarkerfis.
Látum engan gera lítið úr þýðingu þessa kerfis, misskilja eðli þess eða mistúlka áform þess meðan það enn er að slíta barnsskónum. Sá grunnur sem stjórnskipanin byggir á er hið óhagganlega áform Guðs fyrir mannkynið á þessum degi. Uppspretta innblásturs hennar er enginn annar en Bahá’u’lláh sjálfur. Skjöldur hennar og skjól eru fylkingar herskara Abhá-ríkisins. Sáð hennar er blóð ekki færri en tuttugu þúsund píslarvotta sem fórnað hafa lífi sínu til þess að hún megi fæðast og blómgast. Ásinn sem stofnanir hennar snúast um eru staðfest fyrirmæli erfðaskrár ‘Abdu’l‑Bahá. Leiðarreglur hennar eru sannindin sem hann, sem er óskeikull túlkandi kenninga trúar okkar, hefur svo skilmerkilega sett fram í almennum ávörpum sínum víða á Vesturlöndum. Lögin sem stjórna starfsemi hennar og skilgreina störf hennar eru skilmerkilega sett fram í Kitáb-i-Aqdas. Miðpunkturinn sem starfsemi hennar, andleg, mannúðleg og stjórnarfarsleg, mun safnast um, er Mashriqu’l-Adhkár og hliðarstofnanir þess. Stoðirnar sem bera uppi vald hennar og styrkja innviði eru tvíburastofnanir Verndarans og Allsherjarhúss réttvísinnar. Hið miðlæga grundvallarmarkmið sem miðlar henni lífi og anda er stofnun nýs heimsskipulags sem Bahá’u’lláh hefur lagt drögin að. Þær aðferðir sem hún notar, merkið sem hún heldur á lofti, gerir hana hvorki austræna né vestræna, hvorki gyðinglega né heiðinglega, hvorki ríka né fátæka, hvorki hvíta né litaða. Lykilorð hennar eru eining mannkynsins; fáni hennar „hinn mesti friður“; hámark hennar koma hins gullna þúsundáraríkis – dagsins þegar konungsríki þessa heims munu verða konungsríki Guðs sjálfs, konungsríki Bahá’u’lláh.
Shoghi.
Haifa, Palestínu,
8. febrúar, 1934.