Ameríka og hinn mesti friður
Ameríka og hinn mesti friður
Skýringar
Skýringar
Ameríka og hinn mesti friður
Skýringar
Ameríka og hinn mesti friður
Skýring 1
Afritaðu eða deildu hlekk
Afritaðu eða deildu texta með tilvísun
/t/
/t/
Til ástvina Guðs og þjónustumeyja Hins miskunnsama í Bandaríkjunum og Kanada.
Vinir og samverkamenn í trú Guðs:
Á sumri komanda eru fjörutíu ár síðan Bahá’u’lláh var fyrst nefndur á nafn á meginlandi Ameríku. Þessi fyrsta opinbera umfjöllun um höfund ástkærrar trúar okkar fór fram við kringumstæður sem hljóta að vekja furðu hvers og eins sem hugleiðir í hjarta sínu þýðingu svo merkilegs kennileitis í andlegri sögu þessa mikla lýðveldis Ameríku. Enn þá meiri furðu hljóta þau fáu orð sem sögð voru við þetta sögulega tækifæri að hafa vakið í hugum þeirra sem á hlýddu.
Viðhöfn og íburður, almenn fagnaðarlæti og lófatak fjöldans, fylgdu ekki þessari fyrstu vísbendingu sem borgarar Ameríku fengu um tilvist og áform opinberunar Bahá’u’lláh. Ekki heldur játaði sá sem valinn var til að flytja þessi tíðindi sig trúaðan á innri kraft þeirra né renndi hann grun í mikilfengleik þeirra afla sem þessi fáu orð hans áttu eftir að leysa úr læðingi.
Þessi boðskapur Hins mesta nafns var fluttur af yfirlýstum stuðningsmanni þeirrar þröngu sértrúarhyggju sem trúin sjálf hefur boðið byrginn og reynir að uppræta. Boðskapnum var á sínum tíma lýst sem ómerkilegu afsprengi fyrirlitlegra sértrúarkenninga. Hann óx og nærðist í straumi stanslausra þrenginga, við ylinn af sólskini blíðrar umhyggju ‘Abdu’l‑Bahá, og honum hefur tekist að skjóta djúpum rótum í frjósömum jarðvegi Ameríku. Á tæpri hálfri öld hefur hann sent sprota sína og frjóanga til ystu endimarka jarðar og stendur nú íklæddur tign helgaðs mannvirkis sem hann hefur reist í hjarta meginlandsins, staðráðinn í að færa sönnur á rétt sinn og hæfni til að endurleysa hrjáða þjóð. Samfélag amerísku átrúendanna, svipt öllum þeim kostum og hagræði sem hæfileikar, staða og ríkidæmi geta veitt, hefur, þrátt fyrir ungan aldur, fámenni og takmarkaða reynslu, í krafti innblásinnar visku, sameinaðs vilja, óspillanlegrar hollustu stjórnenda sinna og kennara náð því stigi að veita óumdeilda forystu því ætlunarverki samfélaganna í austri og vestri að flýta komu gullaldarinnar sem Bahá’u’lláh sá fyrir.
Hversu mjög hefur ekki mætt á þessu barnunga og blessaða samfélagi á sinni torsóttu braut! Hve hæg og sársaukafull hefur ekki ganga þess verið út úr rökkri fullkomins skeytingarleysis inn í dagsljós almennrar þekkingar! Hve alvarleg voru ekki áföllin sem dundu á fylkingum trúfastra fylgjenda hennar með flótta hinna veikgeðja, illgirni misindismanna, svikum hinna stoltu og metnaðargjörnu! Hvílíka storma háðs, ámæla og köpuryrða hafa fulltrúar hennar ekki þurft að standa af sér í einörðum stuðningi við heiður hennar og djarfmannlegri vörn sinni fyrir björtu nafni trúarinnar sem þeir höfðu játast! Hve linnulaus hefur ekki andspyrnan og mótlætið verið ásamt þeim erfiðu bakslögum, sem meðlimir hennar, ungir og aldnir, hver um sig og sameiginlega, hafa mætt í hetjulegum tilraunum sínum til að ná þeim hæðum sem ástríkur Meistari hafði hvatt þá til að klífa!
Margir og voldugir fjandmenn kepptust við að atyrða trúna jafnskjótt og þeir sáu ummerki um vaxandi hróður yfirlýstra fylgismanna hennar. Þeir jusu eitri grimmilegrar heiftar yfir þann sem hollusta fylgjendanna beindist að. Hversu oft hafa þeir ekki hæðst að litlum efnum trúarinnar og meintri stöðnun í lífi hennar! Hve beisklega hafa þeir ekki spottað upphaf og mistúlkað áform hennar sem gagnslausan viðauka við deyjandi trúarjátningu! Hafa þeir ekki í árásarritum brennimerkt hetjulega fyrirrennara þessarar heilögu opinberunar sem huglausan guðsafneitara, öfugsnúinn trúvilling, og fordæmt umfangsmikil rit Hans sem fánýta óra? Hafa þeir ekki kosið að eigna himneskum stofnanda hennar lægstu hvatirnar sem samviskulaus samsærismaður og valdaræningi getur hugsað sér, og litið á Miðju sáttmála Hans sem holdgerving miskunnarlausrar harðstjórnar, undirróðursmann og svikulan talsmann hentistefnu? Þessir getulausu óvinir vaxandi trúar hafa aftur og aftur fordæmt heimssameinandi meginreglur trúarinnar og segja þær gallaðar í grundvallaratriðum. Þeir lýsa því yfir að alltumlykjandi stefnuskrá hennar sé fráleit, framtíðarsýn hennar fjarstæðukennd og jafnvel sviksamleg. Grundvallarsannleika að baki kenningu hennar hafa fávísir óvildarmenn lýst sem fánýtri kreddu, þeir hafa neitað að aðgreina stjórnskipulag hennar frá sál sjálfrar trúarinnar og leyndardómana sem hún játar og virðir leggja þeir að jöfnu við hreina hjátrú. Meginreglu einingar sem hún boðar og kennir sig við hafa þeir mistúlkað sem grunnfærnislega tilraun til einsleitni, endurteknar staðhæfingar um raunveruleika yfirskilvitlegra afla hafa þeir fordæmt sem fánýta trú á töfra, dýrð hugsjóna hennar hafna þeir sem hreinni draumsýn. Þessi fórnarlömb stöðugrar afbrýði hafa fagnað sérhverjum atburði sem órannsakanleg viska notar öðru hvoru til að hreinsa líkama útvalinna fylgjenda sinna frá saurgun hinna óæskilegu og óverðugu sem dæmi um klofning sem brátt muni draga úr henni kraftinn, tæra hana að innan og fullkomna hrun hennar.
Heittelskuðu vinir! Hvorki ég né nokkur annar í þessari kynslóð getur rakið ítarlega sögu upphafs og hægfara treystingar þessa ósigrandi arms, þessarar máttugu lífheildar, málstaðar í stöðugri þróun. Það væri of snemmt á þessu frumstigi að ætla sér tæmandi greiningu eða sanngjarna úttekt á þeim öflum sem hafa knúið hann áleiðis að svo upphöfnum sessi meðal þeirra margvíslegu verkfæra sem hönd Almættisins hefur mótað og er að fullkomna með fulltingi guðlegs áforms síns. Þeir sem í framtíðinni rita sögu þessarar máttugu opinberunar og stýra snjallari pennum en við sem nú lifum, munu án efa flytja framtíðinni meistaralegar skýringar á upptökum þessara afla sem á eftirtektarverðan hátt hafa flutt stjórnskipulagsmiðstöð trúarinnar frá vöggu hennar að ströndum Ameríku og inn í sjálft hjarta álfunnar – uppsprettu og höfuðvígi ört vaxandi stofnana. Það kemur í þeirra hlut að skrá sögu og meta þýðingu þessarar róttæku byltingar í sögu trúar í hægri þróun. Þeir fá tækifæri til að hylla dyggðir og gera ódauðlega minningu þeirra manna og kvenna sem eiga þátt í afrekum hennar. Þeir munu fá þau forréttindi að vega og meta framlag hvers og eins af þessum hetjusmiðum heimsskipulags Bahá’u’lláh – þeirra sem vörðuðu leiðina að hinu gullna árþúsundi, fyrirheitinu sem fólgið er í kenningum Hans.
Er ekki saga frumkristninnar og upphaf íslam, hver með sínum hætti, athyglisverð hliðstæða þess merkilega fyrirbrigðis sem við verðum nú vitni að á fyrstu öld bahá’í tímatalsins? Hefur ekki sú guðlega hvöt sem ól af sér sérhvert þessara miklu trúarkerfa verið knúin þeim öflum sem ómótstæðilegur vöxtur trúarinnar hafði sjálfur leyst úr læðingi til þess að leita frá heimalandi sínu að frjósamari svæðum og hagfelldari aðstæðum fyrir líkamningu anda síns og útbreiðslu málstaðarins? Neyddust ekki Asíu-söfnuðirnir í Jerúsalem, Antíokkíu og Alexandríu, sem samanstóðu mestmegnis af þeim gyðinglegu trúskiptingum, sem vegna skaplyndis og persónueinkenna hneigðust til samúðar með rótgrónu og hnignandi helgihaldi Mósetrúar, til þess að viðurkenna vaxandi yfirráð grískra og rómverskra bræðra sinna? Neyddust þeir ekki til að viðurkenna yfirburðadjörfung, aga og skilvirkni sem gerðu þessum fánaberum málstaðar Jesú Krists kleift að reisa fána heimsyfirráða Hans á rústum hrynjandi keisaraveldis? Var það ekki álag svipaðra kringumstæðna sem þvingaði endurlífgandi anda íslam til að yfirgefa óblíðar víðáttur arabískra heimkynna sinna, vettvang mestu þjáninga og sigra þeirrar trúar, og bera fegurstu ávexti síðþroska siðmenningar í fjarlægu landi?
„Frá upphafi tímans allt til þessa dags,“ staðfestir ‘Abdu’l‑Bahá sjálfur, „hefur ljós guðlegrar opinberunar risið í austri og úthellt birtu sinni yfir vestrið. Ljóminn sem þannig kviknaði varð þó sérstaklega bjartur í vestri. Lítið á trúna sem Jesús boðaði. Þótt hún hafi fyrst birst í austri, náði ljós hennar samt ekki fullum styrk sínum fyrr en það hafði ljómað í vestri.“ „Sá dagur nálgast,“ segir hann í annarri málsgrein, „þegar þér munuð sjá hvernig vestrið hefur tekið sæti austursins vegna ljóma trúar Bahá’u’lláh og geislar af ljósi guðlegrar leiðsagnar.“ „Í bókum spámannanna,“ segir hann enn fremur, „eru viss gleðitíðindi skráð sem eru sönn og áreiðanleg og verða ekki dregin í efa. Sól sannleikans hefur alltaf risið í austri og þar hafa allir spámenn Guðs komið fram …Vestrið hefur þegið ljóma sinn frá austrinu en að vissu leyti hefur endurspeglun ljóssins verið meiri í vestrinu. Þetta á sérstaklega við um kristindóminn. Jesús Kristur birtist í Palestínu og þar var grundvöllur lagður að kenningum Hans. Þótt þar hafi dyr ríkisins fyrst opnast og gjöfum Guðs verið dreift frá miðpunkti landsins, hafa þjóðirnar í vestri tekið á móti kristindóminum og útbreitt hann víðar en þjóðir austursins.“
Ekki er að furða þótt frá þessum sama óskeikula penna hafi eftir minnistæða för ‘Abdu’l‑Bahá til Vesturlanda streymt þessi orð sem oft er vitnað til og mér er ómögulegt að gera of mikið úr: „Meginland Ameríku,“ tilkynnti hann í töflu sem birti átrúendum í norðurríkjum ameríska lýðveldisins guðlega áætlun hans, „er í augum hins eina sanna Guðs landið þar sem ljós Hans mun opinberast og leyndardómar trúar Hans afhjúpast, þar sem hinir réttlátu munu dvelja og hinir frjálsu koma saman.“ „Megi þetta Ameríkulýðveldi,“ sagði hann í heyranda hljóði í Bandaríkjunum, „verða fyrsta þjóðin sem leggur grunninn að undirstöðum alþjóðlegs samkomulags. Megi hún verða fyrsta þjóðin sem kunngerir einingu mannkyns. Megi hún verða fyrst til þess að hefja á loft fána ,hins mesta friðar‘… Ameríska þjóðin er vissulega þess verðug að reisa tjaldbúð hins mikla friðar og yfirlýsa einingu mannkyns… Megi Ameríka verða dreifipunktur andlegrar upplýsingar og öll veröldin njóta þessarar himnesku blessunar. Því að Ameríka hefur þróað með sér afl og hæfni sem er meiri og dásamlegri en fallið hefur í hlut öðrum þjóðum… Megi íbúar þessa lands verða eins og englar himinsins og augu þeirra ætíð beinast að Guði. Megi þeir allir verða þjónar Hins almáttuga. Megi þeir rísa frá núverandi efnislegum afrekum til þeirra hæða að himnesk upplýsing streymi frá þessum miðpunkti til allra þjóða heims… Þessi þjóð Ameríku er gædd afli og í stakk búin til að afreka það sem mun prýða spjöld sögunnar, verða öfundarefni heimsins og njóta blessunar bæði í austri og vestri fyrir sigur þjóðarinnar… Meginland Ameríku sýnir mikil þroskamerki. Framtíð þess gefur jafnvel enn þá ríkari fyrirheit því að áhrif þess og upplýsing eru mikil. Það mun leiða allar þjóðir andlega.“
Gæti það virst fráleitt í ljósi svo háleitra ummæla að búast við því á miðju svo öfundsverðu landssvæði að úr þjáningu og kreppu sem ekki á sér nein fordæmi brjótist fram andleg endurnýjun sem umbreyti hlutskipti úrkynjaðrar aldar þegar hún breiðist út fyrir tilstilli amerísku átrúendanna? Það var ‘Abdu’l‑Bahá sjálfur, samkvæmt vitnisburði nánustu samstarfsmanna hans, sem oftar en einu sinni gaf í skyn að grundvöllun trúar Föður hans á meginlandi Norður-Ameríku væri hið veigamesta af þremur helstu markmiðum í embættistíð hans. Það var hann sem í blóma lífsins og nánast strax eftir dauða Föður síns fékk hugmyndina um að hefja ætlunarverk sitt með því að fylkja íbúum lands, sem gaf slík fyrirheit, undir fána Bahá’u’lláh. Það var hann sem í óskeikulli visku sinni og af auðlegð hjarta síns ákvað að sýna elskuðum lærisveinum sínum óbrigðula umhyggju og sérstaka hylli allt fram til síðustu stundar. Það var hann sem á efri árum strax eftir að hann var leystur úr fjötrum langrar og grimmilegrar fangavistar ákvað að heimsækja landið sem svo lengi hafði notið takmarkalausrar umhyggju hans og ástar. Það var hann sem með afli návistar og töfrum orða sinna innrætti öllu samfélagi fylgjenda sinna þær kenndir og meginreglur sem einar gátu komið þeim að haldi í þeim eldraunum sem verkefni þeirra hlaut óhjákvæmilega að kalla yfir þá. Var það ekki hann sem á allmörgum samkomum sem hann hélt meðan hann dvaldi á meðal þeirra, hvort heldur hann lagði hornsteininn að tilbeiðsluhúsi þeirra eða í veislum sem hann hélt þeim til heiðurs og þar sem hann þjónaði þeim í eigin persónu eða í áherslunni sem hann við brýnna tækifæri lagði á þýðingu andlegrar stöðu sinnar – var hann ekki með öllu þessu vísvitandi að búa þá undir alla meginþætti andlegu arfleifðarinnar sem hann vissi að þeir myndu vernda tryggilega og ávaxta með gerðum sínum? Og getur einhver að endingu efast um að í hinni guðlegu áætlun sem hann birti þeim á ævikvöldi sínu hafi hann veitt þeim andlegan frumburðarrétt sem þeir gætu treyst á þegar þeir uppfylltu háleitt ætlunarverk sitt?
„Ó þið postular Bahá’u’lláh!“ – þannig ávarpar hann þá í einni af töflum sínum – „Megi lífi mínu verða fórnað ykkur!… Sjáið hliðin sem Bahá’u’lláh hefur opnað ykkur! Íhugið hversu háleit og göfug staða er ykkur ætluð, hve einstæð hyllin sem hefur fallið ykkur í skaut.“ „Hugsanir mínar,“ segir hann í annarri málsgrein, „beinast að ykkur og hjartað slær hraðar í brjósti mér þegar ykkar er getið. Ef þið aðeins vissuð hve sál mín brennur af ást til ykkar myndi slík hamingja fylla hjörtu ykkar að þið yrðuð hugfangin hvert af öðru.“ „Árangurinn af starfi ykkar,“ segir hann í annarri töflu, „er enn ekki kominn í ljós til fulls og þýðing þess er ekki ráðin. Áður en langt um líður munuð þið sjá með eigin augum hve skært sérhvert ykkar stafar ljósi guðlegrar leiðsagnar líkt og tindrandi stjarna á festingu heimalandsins, færandi þjóð ykkar dýrð eilífs lífs.“ „Umfang þeirra afreka sem þið vinnið í framtíðinni,“ segir hann enn einu sinni, „er enn á huldu. Ég vona heitt og innilega að í nálægri framtíð muni öll jörðin bifast vegna afreka ykkar.“ „Hinn almáttugi,“ segi hann þeim, „mun án efa hjálpa ykkur af náð sinni, veita ykkur teikn máttar síns og gæða sálir ykkar endurnærandi afli heilags anda.“ „Leiðið ekki hugann,“ aðvarar hann þá, „að því hve fá þið eruð og látið ekki vantrúaða veröld og manngrúa hennar þjaka ykkur… Leggið ykkur öll fram; ætlunarverk ykkar er ómælanlega dýrlegt. Krýni auðna verk ykkar mun Ameríka vissulega verða miðstöð þaðan sem berast bylgjur andlegs valds og hásæti ríkis Guðs verður tryggilega staðfest í fyllingu tignar sinnar og dýrðar.“
„Vonin sem ‘Abdu’l‑Bahá elur í brjósti hvað ykkur varðar“ – þannig hvetur hann þá – „er að sigrarnir sem þið unnuð í Ameríku megi krýna starf ykkar og viðleitni í öðrum heimshlutum til þess að orðstír málstaðar Guðs megi fyrir ykkar tilstuðlan ná til austurs og vesturs og tilkoma ríkis Drottins herskaranna verði kunngerð á öllum fimm meginlöndum jarðar… Fram að þessu hafið þið verið óþreytandi í starfi ykkar. Aukið nú þessa viðleitni þúsundfalt. Bjóðið fólki í þessum löndum, höfuðborgum, eyjum, ráðstefnum og kirkjum til inngöngu í Abhá-ríkið. Starfssvið ykkar verður að stækka. Því stærra sem það er þeim mun augljósari verður vitnisburðurinn um guðlega aðstoð… Ó að ég mætti ferðast, jafnvel fótgangandi og örsnauður, til þessara svæða og hefja upp kallið „Yá Bahá’u’l-Abhá“ í borgum, þorpum, eyðimörkum, á fjöllum og úthöfum og útbreiða þannig hinar guðlegu kenningar! Þetta get ég því miður ekki. Það er mér mikið harmsefni! Megi ykkur með leyfi Guðs takast það.“ Og loks, eins og til að krýna fyrri ummæli sín, staðfestir hann sýn sína á andleg örlög Ameríku: „Á þeirri stund sem amerísku átrúendurnir flytja þennan guðlega boðskap frá ströndum Ameríku og breiða hann út í Evrópu, Afríku, Ástralasíu og allt til eyja Kyrrahafsins mun þetta samfélag fá tryggilega staðfestu í hásæti eilífra yfirráða. Þá munu allar þjóðir heims sjá að þetta samfélag er andlega upplýst og nýtur guðlegrar handleiðslu. Þá mun öll jörðin enduróma af lofsöng um dýrð þess og mikilleika.“
Það er í ljósi þessara orða ‘Abdu’l‑Bahá sem sérhver íhugull og samviskusamur átrúandi ætti að íhuga þýðingu þessara máttugu ummæla Bahá’u’lláh: „Sól opinberunar Hans hefur runnið upp í austri, tákn yfirráða Hans birst í vestri. Íhugið þetta í hjörtum yðar, ó fólk, og tilheyrið ekki þeim sem ekki hafa hlustað á varnaðarorð Hans sem er hinn almáttugi, hinn altignaði… Reyni þeir að fela ljós Hans á meginlandinu mun það sannlega birtast í miðju hjarta hafsins, hefja upp raust sína og segja: „Ég er lífgjafi heimsins!““
Heittelskuðu vinir! Eru augu okkar svo blind að við sjáum ekki í angistinni og glundroðanum sem hrjáir amerísku þjóðina í meiri mæli en nokkra aðra þjóð, og meira nú en nokkru sinni fyrr í sögu hennar, vitnisburð um upphaf þeirrar andlegu endurreisnar sem þessi áhrifamiklu orð ‘Abdu’l‑Bahá boða svo ljóslega? Kvalafull umbrot sem nú eru byrjuð að hrjá sál þjóðarinnar lýsa þessu vel. Berið saman hryggilegt hlutskipti þjóða jarðar og sérstaklega þessa mikla lýðveldis Vesturlanda við vaxandi giftu þeirra fáu þegna þess, sem ætlað er það verk ef þeir eru trúir köllun sinni, að lækna sár þjóðar sinnar, endurnýja fullvissu hennar og endurvekja brostnar vonir. Berið saman hræðileg umbrot, eyðandi átök, smásmugulegan ágreining, úrsérgengna flokkadrætti, stöðugar byltingar – berið þetta saman við frið þess nýja ljóss friðar og sannleika sem umlykur, leiðbeinir og viðheldur þessum dugmiklu erfingjum laga og ástar Bahá’u’lláh. Berið saman hrynjandi stofnanir, flekkaða stjórnvisku, úreltar fræðikenningar, hörmulega niðurlægingu, æði og ofstopa, breytingar, eftirlíkingar og málamiðlanir sem einkenna þessa öld við stöðuga treystingu, heilagan aga, einingu og samhljóm, trygga fullvissu, hiklausa hollustu, hetjulega sjálfsfórn sem eru aðalsmerki þessara trúu þjóna og boðbera gullaldar trúar Bahá’u’lláh.
Ekki er að furða að ‘Abdu’l‑Bahá skuli hafa opinberað þessi spámannlegu orð: „Austrið,“ segir hann, „hefur vissulega uppljómast af birtu ríkisins. Áður en langt um líður mun þetta sama ljós veita enn meiri birtu yfir vestrið. Þá munu hjörtu fólksins þar lifna við mátt kenninga Guðs og sálir þeirra glóa af ódeyjandi eldi ástar Hans.“ „Orðstír trúar Guðs,“ segir hann, „hefur aukist mjög. Mikilleiki hennar er nú augljós. Sá dagur nálgast þegar hún mun hafa vakið gríðarlegt umrót í hjörtum mannanna. Fagnið því, ó þegnar Ameríku, fagnið og gleðjist mikillega!“
Virtu og elskuðu bræður! Þegar við lítum um öxl til þeirra fjörutíu ára sem hafa liðið síðan heillavænlegir geislar bahá’í opinberunarinnar byrjuðu að ylja og upplýsa Ameríku sjáum við að hægt er að skipta þeim í fjögur tímabil, sérhvert þeirra nær hámarki í atburði sem hefur mikla þýðingu og markar þáttaskil á leiðinni að fyrirheitnum sigri amerísku átrúendanna. Hið fyrsta þessara fjögurra tímabila (1893–1903) einkenndist af hægri og stöðugri gerjun sem náði hámarki í sögulegum pílagrímsferðum, er amerískir lærisveinar ‘Abdu’l‑Bahá fóru til grafhýsis Bahá’u’lláh. Þau tíu ár sem síðan komu (1903–1913) voru full af raunum og erfiðleikum og virkuðu sem hreinsun og orkugjafi fyrir fyrstu brautryðjendurna í því landi. Hámark þeirra náðist í minnisstæðri för ‘Abdu’l‑Bahá til Ameríku. Þriðja tímabilið (1913–1923), tími friðsamlegrar og samfelldrar treystingar, var óhjákvæmileg afleiðing af fæðingu þeirrar guðlega ákvörðuðu stjórnskipunar, sem Meistarinn lagði grundvöll að í erfðaskrá sinni. Næstu tíu árin (1923–1933) einkenndust af frekari innri þróun og athyglisverðu alþjóðastarfi vaxandi samfélags. Í lok þessa tímabils var lokið við yfirbyggingu Mashriqu’l-Adhkár – hinu máttuga virki stjórnskipulagsins, tákninu um styrk þess og forboða komandi dýrðar þess.
Sérhvert þessara tímabila virðist hafa lagt sitt af mörkum til að auðga andlegt líf samfélagsins og búa meðlimi þess undir þá gríðarlegu ábyrgð sem fólst í einstæðu ætlunarverki. Pílagrímsferðirnar sem fremstu fulltrúar þess tókust á hendur á fyrsta tímabilinu í sögu þess glæddu sálir meðlimanna ást og eldmóði sem ekkert mótlæti gat bugað. Þær raunir og þrengingar sem féllu þeim síðan í hlut gerðu þeim sem stóðust þær kleift að fá slíkan skilning á trú sinni að engin andstaða, hversu ákveðin og vel skipulögð sem hún var, gat nokkru sinni tekist að veikja hana. Stofnanirnar sem reyndir fylgjendur hennar því næst grundvölluðu veittu fulltingismönnum sínum festuna og stöðugleikann sem fjölgun í hópi þeirra og stöðug útvíkkun starfseminnar krafðist. Og loks veitti musterið, sem reist var af innblásnum stuðningsmönnum óbifandi stjórnskipunar, þeim sýn sem hvorki stormar óreiðu innanlands né hvirfilvindar alþjóðlegra umbrota gátu myrkvað.
Það myndi taka mig of langan tíma til að reyna að lýsa, þótt ekki væri nema stuttlega, fyrstu áhrifunum sem kynning bahá’í opinberunarinnar í nýja heiminum, eins og elskaður Meistari okkar hafði séð hana fyrir sér, kom strax til leiðar. Ekki gefst heldur tóm til að segja frá þeim tímamótaviðburðum sem heimsóknir fyrstu amerísku pílagrímanna til heilags grafhýsis Bahá’u’lláh voru, eða skýra frá því sem gerðist eftir að þeir fluttu nýfætt guðspjall til heimalandsins og meta beinar afleiðingar af afrekum þeirra. Orð mín geta engan veginn tjáð hve skjótt opinberun á vonum, væntingum og markmiðum ‘Abdu’l‑Bahá fyrir vaknandi meginland rafmagnaði hugi og hjörtu þeirra sem nutu þeirra forréttinda að hlýða á hann, voru þiggjendur ómælanlegra blessana hans og útvaldar hirslur trausts hans og fullvissu. Ég get aldrei vænst þess að miðla nægilega þeim tilfinningum sem bærðust í hetjulegum hjörtum þeirra sem sátu við fætur Meistara síns, í athvarfi fangahúss hans, hugfangnir og staðráðnir í að varðveita guðlega visku hans. Ég get aldrei lofað nógsamlega þann anda ósveigjanlegrar ákvörðunar sem segulmagnaður persónuleiki og töfrar máttugra orða tendraði í öllum hópi pílagrímanna sem komu aftur og aftur, þessara helguðu kallara sáttmála Guðs, á svo mikilvægum tíma í sögunni. Minning nafna eins og Lua, Chase, MacNutt, Dealy, Goodall, Dodge, Farmer og Brittingham – svo aðeins fáeinir séu nefndir af þeim ódauðlega hóp sem nú hefur safnast til dýrðar Bahá’u’lláh – mun um aldur og ævi verða tengd upphafi og stofnun trúar Hans á meginlandi Ameríku og mun halda áfram að stafa ljóma sem tíminn getur ekki skyggt á.
Það var með þessum pílagrímsferðum á árunum eftir uppstigningu Bahá’u’lláh sem dýrð sáttmálans birtist sigri hrósandi í þjáningunum sem steðjuðu að honum vegna tímabundinna áhrifa helsta sáttmálsbrjótsins. Það var koma þessara pílagríma og hún ein sem dreifði myrkrinu sem umlukti hrellda meðlimi fjölskyldu ‘Abdu’l‑Bahá. Með tilstilli þessara gesta fann Hið helgasta lauf, sem ein ásamt bróður sínum varð að horfast í augu við uppreisn næstum því allra ættingja sinna og vina, þá hughreystingu sem entist henni ævilangt. Með aflinu sem þessi litli hópur pílagríma leysti úr læðingi á því meginlandi var dauðadómur kveðinn upp yfir sérhverri áætlun sem friðarspillir innan málstaðarins gerði.
Síðan var farið að þýða töflurnar sem óþreytandi penni ‘Abdu’l‑Bahá opinberaði en þær geymdu á tilfinningaríku og afdráttarlausu máli fyrirmæli hans og ráðleggingar, hvatningarorð og athugasemdir, vonir hans og óskir, ótta og varnaðarorð. Þeim var dreift um alla Norður-Ameríku og voru vaxandi hópi hinna fyrstu átrúenda sú andlega næring sem gerði þeim kleift að standast þær alvarlegu raunir sem áttu eftir að dynja yfir.
Stund fordæmalausrar kreppu nálgaðist. Merki um ágreining, sem skapaðist af drambi og metnaði, var byrjaður að myrkva ljóma og tálma vexti ungs samfélags sem postullegir kennarar álfunnar voru með erfiðismunum byrjaðir að stofna. Hann sem hafði verið frumkvöðull mikils tímabils í sögu trúarinnar, maður sem Miðja sáttmálans hafði sagt að væri Bahá’u’lláh það sem Pétur var Kristi („Pétur Bahá“) og nefnt „fjárhirði Guðs“, „sigurvegara Ameríku“, manni sem veist hafði sá einstæði heiður að aðstoða ‘Abdu’l‑Bahá við að leggja hornstein að grafhýsi Bábsins á Karmelfjalli – hann blindaðist af fáheyrðum árangri sínum, seildist til yfirráða yfir trú og starfi trúsystkina sinna og reisti fána uppreisnar með ósvífnum hætti. Hann varð viðskila við ‘Abdu’l‑Bahá og gerðist bandamaður erkióvinar trúar Guðs. Þessi afvegaleiddi trúníðingur reyndi að afbaka kenningarnar, stjórnaði herferð linnulausra árása á persónu ‘Abdu’l‑Bahá og gróf undan trú þeirra sem hann hafði í ekki minna en átta ár reynt að snúa á band málstaðarins. Með ritum sem hann gaf út, virkri samvinnu við útsendara helsta bandamanns hans og tilstyrk kristinna óvina bahá’í opinberunarinnar tókst honum að greiða barnungri trú Guðs högg sem olli henni miklum og langvarandi sársauka.
Ég þarf ekki að staldra við og gera skil fyrstu áhrifum þessa alvarlega en tímabundna klofnings í röðum amerískra fylgjenda málstaðar Bahá’u’lláh. Ekki heldur þarf ég að fara mörgum orðum um eðli þeirra niðrandi rita sem beint var gegn þeim. Ekki virðist heldur nauðsynlegt að telja upp þær ráðstafanir sem árvökull Meistari gerði til að draga úr og eyða ótta átrúendanna. Það kemur í hlut sagnritara framtíðarinnar að meta hvaða þýðingu ferðir þeirra fjögurra sérlegu sendiboða höfðu sem ‘Abdu’l‑Bahá gerði út af örkinni hvern af öðrum til að friða og endurlífga þetta hrellda samfélag. Það kemur í hans hlut að finna í verkinu sem þessir fulltrúar ‘Abdu’l‑Bahá áttu að inna af hendi frumdrögin að þeirri miklu stjórnskipan sem sendiboðunum var falið að leggja fram. Meistarinn átti sjálfur eftir að grundvalla táknræna byggingu þessarar stjórnskipunar og færa út grundvöll hennar og umfang með fyrirmælum í erfðaskrá sinni.
Það nægir að geta þess að þegar hér var komið við sögu var starfsemi ósigrandi trúar komin á slíkt stig að hún neyddi óvini sína annars vegar til að leita sér nýrra vopna fyrir árásir sínar, en hins vegar hvatti hún æðsta fulltingjara sinn til að uppfræða fylgjendur sína með aðstoð hæfra fulltrúa og kennara um frumatriði stjórnskipunar sem með tímanum átti að verða holdgervingur trúarinnar, vernda og fóstra anda hennar. Verk þverúðarfullra árásarmanna, m.a. Vatralsky, Wilson, Jessup og Richardson, keppa hvert við annað í fánýtum tilraunum til að stöðva göngu hennar og neyða hana til uppgjafar. Við ákærum um níhilisma, villtrú, múhammeðskan gnostisma, siðleysi, okkúltisma og kommúnisma sem beint var gegn þeim svöruðu óskelfd fórnarlömb þessara svívirðilegra álasana samkvæmt fyrirmælum ‘Abdu’l‑Bahá með því að hefja starfsemi sem í eðli sínu átti eftir að verða fyrirrennari varanlegra og almennt viðurkenndra stjórnskipulagsstofnana. Vígsla fyrsta húss andlegleikans í Chicago sem ‘Abdu’l‑Bahá kallaði „Hús réttvísinnar“ í þeirri borg, stofnun bahá’í bókaútgáfu, stofnun Green Acre Fellowship, útgáfa Star of the West, fyrsta landsþing bahá’ía sem fór saman við flutning heilagra líkamsleifa Bábsins til endanlegs hvílustaðar á Karmelfjalli, innlimun Bahá’í Temple Unity og myndun nefndar um Mashriqu’l-Adhkár – þetta eru augljós afrek amerísku átrúendanna sem hafa gert minningu þessa umbrotasama tímabils ódauðlega. Örk sáttmála Bahá’u’lláh, sem þannig var ýtt úr vör á úfið haf stöðugra þrenginga undir máttugri stjórn ‘Abdu’l‑Bahá, mönnuð djörfung og frumkvæði hóps margreyndra lærisveina, hefur frá þeim tíma haldið stöðugri stefnu þrátt fyrir boðaföll og storma sem hafa geisað og munu halda áfram að ganga yfir meðan hún siglir áleiðis til fyrirheitinnar hafnar varanlegs öryggis og friðar.
Samfélag amerísku vinanna var samt ekki sátt við þessi afrek sem krýndu sameinaða viðleitni kjörinna fulltrúa þess í Ameríku og fylltist stórhug þegar fréttist af fyrsta árangri kennara og brautryðjenda þess erlendis, í Stóra-Bretlandi, Frakklandi og Þýskalandi. Samfélagið einsetti sér að vinna nýja sigra í fjarlægum löndum fyrir framsækinn her Bahá’u’lláh. Fulltrúar þess lögðu af stað frá vesturströnd heimalands síns og af óslökkvandi krafti nýfæddrar trúar héldu þessir farandkennarar bahá’í guðspjallsins áfram til eyja Kyrrahafsins allt til Kína og Japan, ráðnir í að stofna í fjarlægustu löndum útvarðarstöðvar fyrir sína elskuðu trú. Bæði heima og erlendis hafði þetta samfélag á þeim tíma sannað hæfni sína til að víkka og treysta grundvöll mikillar viðleitni sinnar. Reiðiraddirnar sem mótmæltu framgangi þeirra drukknuðu í þeim sigurhrópum sem nýjum sigrum var heilsað með í austrinu. Þeir ófögru drættir sem höfðu valdið ógn og hremmingu hurfu brátt og þessum göfugu stríðsmönnum gafst meira svigrúm til að beita orkunni sem leyndist með þeim.
Að sönnu hafði trú Bahá’u’lláh risið upp í Ameríku eins og Fönix í öllum ferskleika sínum, krafti og fegurð og kallaði nú með rödd sigursælla talsmanna sinna til ‘Abdu’l‑Bahá og bað hann að takast á hendur ferð til álfunnar. Fyrstu ávextirnir af ætlunarverkinu sem verðugum stuðningsmönnum hafði verið treyst fyrir styrktu svo ákall þeirra að ‘Abdu’l‑Bahá, sem nýlega hafði verið leystur úr fjötrum grimmilegrar harðstjórnar gat ekki staðist það. Mikil og óviðjafnanleg ást hans á börnunum sem hann elskaði hvatti hann til andsvars. Tilfinningaþrungin beiðni þeirri hafði auk þess verið ítrekuð af fjölda heimboða sem fulltrúar ýmissa áhugasamtaka á sviði trúar, mennta og mannúðar höfðu sent honum. Þar tjáðu þeir áhuga sinn á því að heyra um kenningar Föður hans af hans eigin vörum.
Þótt ‘Abdu’l‑Bahá væri hniginn að aldri og þjáður af meinum eftir hálfrar aldar útlegð og fangelsun lagði hann af stað í eftirminnilega för til landsins þar sem hann gat blessað og helgað með nærveru sinni og gerðum þau máttugu verk sem andi hans hafði leitt lærisveina hans til að framkvæma. Penni minn getur með engu móti lýst kringumstæðunum sem fylgdu sigurför hans um helstu borgir Bandaríkjanna og Kanada. Fögnuðurinn sem fylgdi boðunum um komu hans, athyglin sem athafnir hans vöktu, öflin sem orð hans leystu úr læðingi, andstaðan sem kenningar hans sköpuðu, þýðingarmiklir atburðir sem orð hans og gerðir höfðu ávallt í för með sér – allt þetta munu komandi kynslóðir án efa skrá í smáatriðum. Þær munu skýra einstaka efnisþætti þeirra, elska og varðveita minningu þeirra og færa afkomendunum lýtalausa skrá um alla þætti þessara atburða. Það væri að sönnu óskammfeilið að reyna á þessum tíma að draga upp þótt ekki væri nema grófa mynd af svo mikilfenglegu og heillandi máli. Þegar við nú tuttugu árum síðar hugleiðum þetta mikilsverða kennileiti í andlegri sögu Ameríku verðum við að játa að við getum hvorki áttað okkur á þýðingu þess né skyggnst inn í leyndardóminn sem það geymir. Ég hef hér á undan vísað til helstu þátta þessarar ógleymanlegu heimsóknar. Þegar við lítum um öxl sjáum við að þessir viðburðir lýsa vel því sérstaka áformi ‘Abdu’l‑Bahá að veita með þessum táknrænu athöfnum frumburði samfélaganna á Vesturlöndum þá andlegu stöðu sem varð fæðingarréttur amerísku átrúendanna.
Fræin sem ‘Abdu’l‑Bahá hafði sáð af örlæti og með stöðugri viðleitni höfðu opnað Bandaríkjunum og Kanada, nei, álfunni allri, möguleika sem ekki þekktust áður í sögu hennar. Með heimsókninni hafði hann látið litlum hópi elskaðra lærisveina sinna eftir ómetanlegan arf. Þeim arfi fylgdi sú helga kvöð að lærisveinarnir héldu áfram að starfa á þeim frjósama akri og fullnuðu verkið sem hann á svo dýrlegan hátt hafði hafið. Við getum gert okkur óljósa grein fyrir óskunum sem streymdu frá áköfu hjarta hans þegar hann kvaddi í hinsta sinn þetta land fyrirheitanna. Að kvöldi brottfarar sinnar gæti hann hafa sagt eitthvað á þessa leið við lærisveina sína: Órannsakanleg viska hefur af takmarkalausu örlæti útvalið heimaland ykkar fyrir framkvæmd mikils áforms. Með tilstilli sáttmála Bahá’u’lláh hef ég sem plógmaður verið kallaður frá upphafi ætlunarverks míns til að yrkja þennan akur. Þær máttugu staðfestingar sem voru sendar ykkur í upphafi starfsins sem þið tókust á hendur hafa undirbúið jarðveginn. Þjáningarnar sem þið síðan voruð látnir líða hafa rist djúp för í akurinn sem hendur mínar hafa plægt. Fræjunum sem mér var treyst fyrir hef ég dreift víða vegu. Með ástríkri umsjá og stöðugri viðleitni verðið þið að sjá til þess að sérhvert þessara fræja spíri, þau verða öll að bera sinn fyrirhugaða ávöxt. Brátt gengur í garð harðari vetur en dæmi eru til um áður. Stormskýin hrannast upp á sjóndeildarhringnum. Ofsafengnir vindar munu steðja að ykkur á alla vegu. Ljós sáttmála míns myrkvast eftir að ég er farinn. Þessir miklu stormar og vetrarógn munu þó líða hjá. Blundandi fræ munu spíra og taka til starfa. Máttugar stofnanir munu vaxa af þeim líkt og lauf og blóm. Vorskúrir sem blíð miskunn míns himneska Föður sendir yfir ykkur gerir þessari viðkvæmu plöntu kleift að breiða út greinar sínar langt handan heimalands ykkar. Og loks mun rísandi sól opinberunar Hans, sem skín í hádegisljóma, láta þennan máttuga meið trúar Hans bera sinn gullna ávöxt í fyllingu tímans á ykkar eigin jörð.
Innvígðum lærisveinum ‘Abdu’l‑Bahá duldist ekki þýðing slíkrar kveðju. Ekki fyrr hafði hann lokið langri og erfiðri för sinni yfir Ameríku og Evrópu en þeir miklu atburðir sem hann hafði vísað til fóru í hönd. Eins og hann hafði spáð urðu stríðsátök til þess að um skeið rofnaði sambandið milli hans og þeirra sem hann hafði sýnt slíkt traust og vænti sér svo mikils af. Veturinn með öllum sínum ógnum og blóðbaði stóð yfir í fjögur ár og á meðan dró hann sig í hlé í kyrrð bústaðar síns í grennd við helgað grafhýsi Bahá’u’lláh og hélt áfram að kynna þeim sem hann hafði skilið eftir og sýnt einstæða hylli óskir sínar og hugsanir. Í ódauðlegum töflum sem hann opinberaði á löngum samverustundum með elskuðum vinum útskýrði hann fyrir þeim andlegt hlutskipti þeirra og ráðagerðina um verkefnið sem hann vildi að þeir tækjust á hendur. Hann vökvaði nú fræin sem hendur hans höfðu sáð með sömu umhyggju, ást og þolimæði sem hafði einkennt viðleitni hans meðan hann starfaði á meðal þeirra.
Kallið sem ‘Abdu’l‑Bahá hafði látið hljóma var merki um endurnýjaða starfsemi, meiri en Ameríka hafði áður kynnst. Þetta átti jafnt við tilfinningarnar sem það blés átrúendunum í brjóst og öflin sem það hratt af stað. Þessi mikla hreyfing sem dugmiklir sendiboðar Bahá’u’lláh voru byrjaðir að veita brautargengi í fjarlægum löndum og átti sér engin fordæmi hefur vaxið og dafnað allt til þessa dags. Hún hefur náð til alls heimsins og mun sækja fram uns síðustu óskir hans sem hratt henni af stað hafa verið uppfylltar.
Fáeinar sálir, menn og konur, fullar af eldmóði og fullvissu sem ekkert mannlegt vald getur skapað, hófust handa um að uppfylla það umboð sem ‘Abdu’l‑Bahá hafði veitt þeim. Geiglausir framverðir trúarinnar sigldu alla leið til Alaska og eyja Karíbahafs, fóru yfir Suður-Ameríku að bökkum Amazon-árinnar, yfir Andesfjöll til syðsta odda Argentínu, þeir héldu vestur á bóginn til Tahítí og áfram til Ástralíu og enn lengra til Nýja-Sjálands og Tasmaníu. Þeim tókst með gerðum sínum að setja núverandi kynslóð trúsystkina sinna í austri og vestri fordæmi sem þau ættu að fylgja. Glæsilegur foringi þeirra hafði farið tvisvar í kringum heiminn frá því hún heyrði fyrst ákall ‘Abdu’l‑Bahá og var enn með einstöku hugrekki að bæta við óviðjafnanlegan þjónustuferil. Undir hennar forystu hafa þessir menn og konur átt drýgstan þátt í að útbreiða trú Bahá’u’lláh um allan heim og verk þeirra eiga sér engin fordæmi í bahá’í sögunni. Andspænis nánast óyfirstíganlegum hindrunum hefur þeim tekist í flestum löndum þar sem þau hafa dvalist um stundarsakir eða til langframa að yfirlýsa kenningar trúarinnar og dreifa bókmenntum hennar, verja málstaðinn, leggja grunn að stofnunum og fjölga yfirlýstum stuðningsmönnum trúarinnar. Mér er það ógerlegt að segja slíka hetjusögu í stuttu máli. Ég get ekki heldur nógsamlega lofað andann sem hefur gert þessum fánaberum trúar Guðs kleift að vinna slíka sigra og veita kynslóðinni sem þeir tilheyra slíkan heiður.
Málstaður Bahá’u’lláh hafði á þeim tíma náð um allan heim. Ljós hans, sem kviknaði í dimmustu Persíu, hafði smám saman verið flutt til Evrópu, Afríku og Ameríku, var nú að ná hjarta Ástralíu og umlykja þannig heiminn skínandi dýrð. Aðeins ‘Abdu’l‑Bahá getur réttilega metið skerfinn sem verðugir og hugprúðir lærisveinar hafa lagt af mörkum til að lýsa upp síðustu ævidaga hans. Viðleitni rísandi kynslóðar mun vissulega opinbera einstæða og eilífa þýðingu slíkra afreka og starf hennar varðveita og vegsama minningu þeirra með sæmd. Það hlýtur að hafa fært ‘Abdu’l‑Bahá djúpa gleði þegar hinsta stund hans nálgaðist að verða vitni að fyrstu ávöxtunum af alþjóðlegri þjónustu þessara hetja trúar Föður hans! Í þeirra hendur hafði hann falið mikla og göfuga arfleifð. Að kvöldi síns jarðneska lífs gat hann hvílst í trausti þess að traustar hendur varðveittu dyggð hennar og heiður.
Þótt fráfall ‘Abdu’l‑Bahá bæri brátt að og hefði víðtækar afleiðingar gat það hvorki stöðvað starfsemi þessa lifandi afls né skyggt á áform þess. Innileg beiðni og hvatningarorð í erfðaskrá Meistarans staðfestu tilkall þess, skilgreindu einkenni þess og ítrekuðu fyrirheitið um endanlegan sigur.
Úr þjáningunni sem fallið hefur í skaut syrgjandi fylgjendum, í miðju umrótinu sem árásir óþreytandi óvinar hafa valdið, fæddist stjórnskipulag ósigrandi trúar Bahá’u’lláh. Orkan sem leystist úr læðingi við andlát Miðju sáttmálans kristallaðist í þetta æðsta, óskeikula tæki til framkvæmdar guðlegrar áætlunar. Í erfðaskrá ‘Abdu’l‑Bahá voru einkenni þess skýrð og ítrekuð; hún sýndi fram á nauðsyn þessa skipulags og taldi upp helstu stjórnstofnanir þess. Ameríka hefur gengið til fylgis við málstað stjórnskipunarinnar sem kveðið er á um í erfðaskrá sonar Hans jafn hiklaust og hún brást við boðskap Bahá’u’lláh. Það var henni einni gefið á umbrotasömum árum eftir opinberun þessa mikla skjals að verða óttalaus framvörður og frumkvöðull þessarar stjórnskipunar og þungamiðja nýrra stofnana hennar. Amerísku átrúendurnir, undangöngumenn gullaldar trúarinnar, voru nú á verðugan hátt að taka við hlutverki persneskra bræðra sinna og systra sem krýndust kórónu píslarvættis á hetjuöld trúarinnar og báru nú pálma torfengins sigurs. Órofinn ferill glæstra gerða hafði sannað án nokkurs vafa einstakt framlag þeirra til trúarinnar og framtíðar hennar. Í heimi þrenginga og glundroða tókst þessu samfélagi – forystusveitinni í frelsisher Bahá’u’lláh – á árunum eftir andlát ‘Abdu’l‑Bahá að hefja hátt ofar þeim stofnunum, sem systursamfélög þess í austri og vestri höfðu komið á fót, meginstoð þess framtíðarhúss, sem eftirkomendur okkar munu líta á sem síðasta athvarf hrynjandi siðmenningar.
Við framkvæmd þessa verkefnis hefur hvorki hvískur hinna svikulu né harðar árásir yfirlýstra andstæðinga haggað háleitu áformi þeirra né grafið undan trú þeirra á göfugt ætlunarverk. Þeir létu ekki truflast af umrótinu sem skapaðist af stöðugri og lítilmótlegri eftirsókn ákveðinnar persónu eftir jarðneskum auðæfum, en sú eftirsókn hefði varpað rýrð á nafn trúarinnar, hefði ‘Abdu’l‑Bahá ekki varað við henni. Hertir af raunum og öruggir í virki vaxandi stofnana létu þeir dylgjur þessa manns sem vind um eyrun þjóta og gerðu vonir hans að engu með ósveigjanlegri tryggð sinni. Þeir neituðu að leyfa hugsunum um orðstír og þjónustu föður hans og samverkamanna að koma í veg fyrir þá ákvörðun sína að virða algjörlega að vettugi þessa persónu sem ‘Abdu’l‑Bahá hafði svo einarðlega fordæmt. Dulbúnar árásir sem fáeinir ráðvilltir fylgismenn hans gerðu í dreifiriti sínu til að varpa skugga á horfur barnungrar stjórnskipunar báru ekki heldur árangur. Viðhorf ráðvilltrar konu sem síðar kynnti fráleitar fullyrðingar, sú dirfska hennar að bera brigður á erfðaskrá ‘Abdu’l‑Bahá og reyna að umturna meginreglum hennar varð ekki til þess að kljúfa raðir hugprúðra fylgismanna hennar. Svikular áætlanir sem nýr og fláráður óvinur hefur gert hafa reynst fullkomlega árangurslausar þótt hann sé enn að reyna að spilla göfugu handverki ‘Abdu’l‑Bahá og grafa undan stjórnskipulagsreglunum sem hann setti. Verjendur trúarinnar hafa með öllu leitt hjá sér þessar sundurlausu og misheppnuðu tilraunir árásarmannanna til að þvinga nýreist virki trúarinnar til uppgjafar. Hversu grimmur og kænn sem andstæðingurinn er neita þeir að víkja hið minnsta frá sannfæringu sinni. Dylgjur hans og háreysti hafa þeir ávallt látið sem vind um eyru þjóta. Þeir gátu ekki annað en fyrirlitið hvatirnar að baki verkum hans og þá upphefð sem hann virtist um tíma njóta. Um tíma virtust andstæðingarnir vekja athygli og njóta þess stundarhags sem frægð, hæfni eða lán getur fært talsmönnum spillingar og trúvillu, en þannig sýna þeir aðeins fráhrindandi ásýnd sína og hverfa síðan aftur í gleymskunnar djúp jafn hratt og þeir upphófust.
Úr miðjum þessum miklu raunum sem minntu að vissu leyti á þá ofsafengna storma sem fylgdu fæðingu trúarinnar í heimalandi hennar, komu amerísku átrúendurnir fram sigri hrósandi og ótrauðir, með óflekkað mannorð og óskaddaða arfleifð. Röð mikilla afreka, hvert öðru þýðingarmeira, átti eftir að varpa ljóma á feril sem þegar var orðinn glæstur. Á dimmu árunum sem fóru í hönd eftir andlát ‘Abdu’l‑Bahá fylltust trúsystkini þeirra sem ekki nutu eins mikilla forréttinda öfund og aðdáun á afrekum þeirra. Allt samfélagið reis upp frjálst og fullvissað til að grípa mikil og dýrleg tækifæri. Öflin sem höfðu stuðlað að uppgangi þess sóttu svo í sig veðrið að hvorki sorg heimsins né örvæntingarfull umbrot hans gátu dregið úr viðleitni þess.
Hið innra hafði samfélagið tekist á hendur fjölda verkefna sem annars vegar áttu eftir að gera því kleift að færa enn frekar út andlega lögsögu sína og hins vegar móta þau tæki sem voru nauðsynleg fyrir sköpun og treystingu stofnana sem slík útfærsla kallaði á. Hið ytra voru verkefni þess innblásin tvíþættu markmiði: að sinna betur en áður aðdáunarverðu verki sem alþjóðlegir kennarar samfélagsins höfðu hafið í fimm heimsálfum og taka meiri þátt í meðferð og lausn viðkvæmra og flókinna vandamála sem blasti við nýlega frelsaðri trú þeirra. Fæðing stjórnskipunar í þeirri heimsálfu hafði verið til merkis um þetta lofsverða átak. Stigbundinni treystingu hennar var ætlað að tryggja framhald og undirstrika skilvirkni þessa átaks.
Ég get á þessu stigi málsins aðeins talið upp helstu afrekin sem aukið hafa hróður amerísku átrúendanna og fært Hinu mesta nafni dýrð og heiður í landi þeirra og utan þess. Komandi kynslóða bíður það verkefni að útskýra þýðingu þessara afreka og leggja mat á gildi þeirra. Samfélag kjörinna fulltrúa þeirra á heiðurinn af því að hafa verið fyrst meðal samfélaganna sinna í austri og vestri til að móta, útbreiða og lögleiða nauðsynleg tæki til skilvirkrar framkvæmdar sameiginlegra skyldna – tæki sem sérhvert rétt myndað bahá’í samfélag verður að líta á sem mynstur og fordæmi. Viðleitni þeirra er einnig að þakka það sögulega afrek að umsjón þjóðareigna er komin á traustan grunn og nauðsynlegur farvegur hefur verið myndaður fyrir þær hjálparstofnanir sem stýra af hálfu trúnaðarmanna þeim eignum sem þeir kunna að afla utan lögsögu sinnar. Með þeim mikla siðferðilega stuðningi sem þeir veittu egypskum bræðrum sínum gátu þeir rutt úr vegi nokkrum helstu hindrunum í vegi trúarinnar í baráttunni fyrir lausn úr ánauð múslimska rétttrúnaðarins. Með skilvirkri og tímanlegri íhlutun gátu þessir sömu kjörnu fulltrúar komið í veg fyrir hættur sem steðjuðu að ofsóttum samverkamönnum í Sovétríkjunum og bægt á brott ógn og eyðingu sem steðjaði að einni af dýrmætustu og göfugustu bahá’í stofnuninni. Aðeins sú heilshugar hjálp, bæði siðferðileg og fjárhagsleg, sem amerísku átrúendurnir, hver um sig og sameiginlega, létu iðulega í té þurfandi og ofsóttum trúsystkinum sínum í Persíu gat bjargað þessum fórnarlömbum frá afleiðingum ógæfunnar sem vitjaði þeirra á árunum eftir andlát ‘Abdu’l‑Bahá. Það var hin almenna athygli sem viðleitni amerísku bræðra þeirra og systra skapaði, mótmælin sem þeir létu í ljós, áskoranir þeirra og umleitanir, sem að lokum milduðu þjáningar og stöðvuðu ofbeldi verstu og harðsvíruðustu andstæðinga trúarinnar þar í landi. Hverjir nema einn virtasti fulltrúi þeirra hefur hafist handa um að vekja athygli hæsta dómstóls sem heimurinn hefur þekkt á harmi trúar, sem rænd hafði verið einum helgasta stað sínum? Hverjum öðrum hefur tekist með þolinmæði og stöðugri viðleitni að tryggja þann skriflega vitnisburð sem staðfestir rétt ofsótts málstaðar og viðurkennir tilkall hans til trúarlegs sjálfstæðis. „Nefndin,“ segir í ályktuninni sem fastanefnd Þjóðabandalagsins lét frá sér fara, „ályktar að fara þess á leit við bresku stjórnina að hún hlutist til um það við stjórn Íraks að tafarlaust verði bætt fyrir þá rangsleitni sem gerðarbeiðendur (Andlega svæðisráðið í Bagdað) hafa þolað.“ Hefur einhver annar en amerískur átrúandi aflað frá konungborinni persónu merkilegs og ítrekaðs vitnisburðar um endurlífgandi áhrif trúar Guðs, vitnisburð um allsherjargildi kenninga Hans og göfugt hlutverk? „Bahá’í kenningarnar,“ segir í skriflegum vitnisburði drottningar, „færa frið og skilning. Þær eru opinn faðmur sem safnar saman öllum sem lengi hafa leitað að von og hughreystingu. Hún viðurkennir alla hina miklu spámenn sem á undan eru farnir, grefur ekki undan neinni trúarjátningu og skilur allar dyr eftir opnar. Hrygg í bragði vegna stöðugs ágreinings meðal fylgismanna margra trúarbragða og þreytt á fordómum þeirra hver í annars garð uppgötvaði ég í bahá’í kenningunum raunverulegan anda Krists sem svo oft er afneitað og sætir misskilningi. Eining í stað ágreinings, von í stað fordæmingar, ást í stað haturs og mikil fullvissa fyrir alla menn.“ Hafa ekki amerískir fylgismenn trúar Bahá’u’lláh með hugrekkinu sem einn glæstasti meðlimur samfélags þeirra sýndi haft forgöngu um að fjarlægja þær hindranir sem hafa tálmað vexti og lamað orku trúsystkina þeirra í Persíu? Er það ekki Ameríka sem í samræmi við innilegar óskir ‘Abdu’l‑Bahá hefur ávallt sent frá sér sífellt fleiri helgaða þegna sína til endimarka jarðar – menn og konur sem áttu sér þá ósk eina að treysta undirstöður heimsumlykjandi veldis Bahá’u’lláh? Í nyrstu höfuðborgum Evrópu, í flestum miðríkjum álfunnar, á Balkanskaga, meðfram ströndum Afríku, Asíu og Suður-Ameríku er í dag hægt að finna lítinn hóp kvenbrautryðjenda sem einar sér og af litlum efnum starfa að komu þess dags sem ‘Abdu’l‑Bahá hefur sagt fyrir um. Bar ekki viðhorf Hins helgasta laufs þegar hinsta stund hennar nálgaðist mælskt vitni óviðjafnanlegu framlagi staðfastra og sjálfsfórnandi ástvina í þeirri álfu til að létta af henni þeim þungu byrðum sem hún svo lengi hafði borið? Og hver dirfist loks að mæla á móti því að með verklokum á yfirbyggingu Mashriqu’l-Adhkár – gimsteinsins í kórónu amerískra afreka í fortíð og nútíð – hefur smiðshöggið verið rekið á þá dularkeðju, sem á eftir að tengja hjörtu hetjusmiða hennar við Hann sem er uppspretta og miðja trúar þeirra og tilefni sönnustu vegsömunar?
Trúfélagar í Ameríku! Mikil hafa afrek ykkar verið í fortíð og nútíð! Ómælanlega miklu meiri eru þau undur sem bíða ykkar í framtíðinni! Bygginguna sem reist er á fórnum ykkar á enn eftir að klæða. Húsið sem hæsta stjórnstofnun ykkar á að styðja er enn ekki risið. Fyrirmælin í meginhirslu þeirra laga sem eiga að stjórna starfsemi hennar eru enn hulin. Fáninn sem reisa verður í ykkar eigin landi, ef fara á að óskum ‘Abdu’l‑Bahá, hefur enn ekki verið hafinn upp. Einingin sem sá fáni á að vera til merkis um er langt undan. Gangverkið sem verður að gera þá einingu að veruleika og varðveita hana hefur ekki einu sinni verið skapað. Verður það Ameríka eða eitt af löndum Evrópu, sem tekur að sér þá forystu sem nauðsynleg er til að móta framtíð þessarar umbrotasömu aldar? Leyfir Ameríka að systursamfélögin í austri eða vestri svipti hana þeim andlega frumburðarrétti sem henni var gefin og hún hefur varðveitt af slíkri sæmd? Leggur hún ekki heldur sitt af mörkum með því að birta í enn ríkari mæli þann kraft sem býr innra með henni og knýr hana til að auðga þann ómetanlega arf sem ást og viska Meistarans eftirlét henni?
Fortíð hennar hefur borið vitni um lifandi og þrotlausa trú hennar. Fæst ekki staðfesting á því í framtíðinni?